Greinasafn fyrir merki: líf

Hvar áttu heima?

Fyrir nokkrum dögum síðan talaði ég við skemmtilegan mann í Gautaborg. Hann vakti athygli þar sem hann fór því hann var kátur en líka einstakur vegna áberandi brunasára og fingralausra handa. Andlitið var flekkótt, útlimirnir voru skellóttir og augun höfðu skaddast. Við fórum að tala saman og maðurinn sagði mér, að hann hefði fæðst í Íran en flust til Svíþjóðar þegar hann var barn. Svo hafði hann lent í hræðilegum og alræmdum bruna í Gautaborg, en hafði lifað af, reyndar mjög illa farinn. „Þess vegna er ég svona“ sagði hann. Þegar hann var búinn að segja mér sögu sína spurði ég. „En hvar áttu heima? Hvar er tilfinningalegt heimili þitt? Er það í Íran, Gautaborg eða annars staðar?“ Maðurinn horfði á mig með öðru auganu og hitt leitaði eitthvað annað og sagði: „Mitt heimili er jörðin. Ég á ekki heima í Íran eða Svíþjóð eða neinum einum stað. Ég er jarðarbúi.“ Þetta stóra svar mannsins hefur lifað með mér síðan. Hvar er heima og hvað merkir það?

Gothia 2019

Ég fór til Gautaborgar með drengjum mínum og stórum KR-hópi á Gothia Cup – sem er vikulöng fótboltaveisla. Með í för voru þrír þjálfarar, fararstjórar, foreldrar sem sáu um að unglingarnir fengju svefn, næringu og öryggi. Og þeir voru með töfra í tám og fótum og spiluðu góðan fótbolta. En það voru ekki aðeins lið úr Vesturbænum sem voru í borginni þessa daga heldur 32 íslensk lið auk hinna erlendu, bæði karlalið en líka kvennalið. 1686 lið tóku þátt í mótinu og frá 177 þjóðlöndum.

Ég ætlaði varla að nenna á setningarhátíðina, sem átti að halda á Nyja Ullevi-leikvanginum í miðborg Gautaborgar. En við fórum samt og ég sá ekki eftir að fara því hátíðin var áhrifarík. Mannhaf fyllti leikvanginn. Fjörið var mikið, fánar heimsins brostu í kvöldsólinni og það dagaði á mig undir dillandi tónlist, stórbrotnum danssýningum og söng, sem tugir þúsunda tóku þátt í, að þessi knattspyrnuveisla væri heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Allir voru komnir til að gera sitt besta, gleðjast, tengjast, segja sögur, hlægja og spila fótbolta. Lífið alls konar og fjölbreytilegt. Stóri heimurinn skrapp saman og hið nálæga varð stórt. Sú tilfinning helltist yfir mig, að þessi litríki hópur væri ein hjörð. Þetta væri einn heimur, sem við byggjum í. Litarháttur fólksins var mismunandi en gleðin var lík, söngurinn sameinaði og boltagleðin kallaði fram samsemd. Og því var niðurstaða viðmælanda míns svo áhrifarík: „Mitt heimili er jörðin. Ég er jarðarbúi.“

Gildi, djúptengsl – heima

Hvar áttu heima? Og staldraðu við – hvar er festa þín? Hvað skiptir þig máli og hvar ertu sönn eða sannur? Við mennirnir erum ekki eins, en þurfum þó að vera eitt. Við eigum þessa jörð sameiginlega. Við erum afkomendur jarðarinnar og berum ábyrgð á henni. Á minningardögum sem eru haldnir þessa dagana um tunglferðir hafa verið dregnar fram myndir úr ferðunum. Og áhrifaríkastar eru jarðarmyndirnar, af bláu, dásamlega fallegu kúlunni. Hún er heimili okkar. Ef höfin mengast meira og hiti hækkar enn frekar þá förum við ekki eitthvað annað, á hitt heimili okkar. Við getum ekki flúið burt. Við erum heima, á jörðinni. Það er ekkert plan B.

Lífið

Textar dagsins fjalla um líf. Lexían dregur upp stórkostlega mynd af listrænum skapara, sem býr til flotta veröld og dregur upp tjöld himins. Svo er í pistlinum fjallað um hið góða líf, sem okkur er boðið að lifa, heimsskipan sem tengir allt og alla og skapar lífgefandi jafnvægi. Og svo er guðspjallð úr frægustu ræðu heimsins, fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli. Þar setur Jesús veröld, himinn og jörð í samhengi. Og þar er ekki uppgjöf, mengun, dauði, hræðsla, heldur þvert á móti von, lífsgæði og dásamleg skipan alls sem er. Af því Guð er og elskar er ekki bara sorg og líf til dauða. Lífið lifir. Lífið er sterkara en allt sem ógnar. Lífið er meira en efnislífið því Guð er og elskar.

Vonleysi eða von

En svo er allt hið neikvæða. Miðlar heimsins hafa tekið að sér að boða vond tíðindi og alls konar dómsdaga. Boðskapur illfara og dauða, mengunar, stríða og ógna dynja á okkur alla daga. Svo eru allt of margir stjórnmálamenn sem magna ófrið, bera fram kreddur sínar um aðskilnað hópa og þjóða. Það eru þeir, sem vilja loka löndum gegn þeim sem eru á flótta. Við eigum að staldra við og horfa með gagnrýni. Ríki hluti heimsins horfist ekki í augu við, að það erum við sem lifum umfram efni og getu veraldar til að fæða og næra. Neysluspor okkar eru langt umfram hið eðlilega. Í stað þess að bregðast við með auðmýkt, mannúð og kærleika er alið á ótta, andstöðu, aðgreiningum. Stjórnmál Bandaríkjanna eru að rotna innan frá með ótta- ógnar- og hatursboðskap. Traustið rofnar. Í menningu Evrópu og Bandaríkjanna takast á grunngildi mannúðar og kærleika annars vegar og sérhyggju og andúðar hins vegar. Og útgönguhasar Bretlands úr Evrópusambandinu magnar líka hópa-aðgreiningar og tortryggni.

Aðgreiningarhyggjan, sem myndar veggi og múra, fjandskapast við dansandi fólk á fótboltamóti í Gautaborg. Hatursboðskapur er í andstöðu við kristna réttlætis-friðar- og siðferðishefð. Hrætt fólk leggur áherslu á aukna aðgreiningu en ekki aukna samvinnu. Hvar áttu heima? Og ekki spurt hvort þú eigir heima í Reykjavík, Garðabæ eða einhverju öðru sveitarfélagi hér á landi eða erlendis. Spurningin varðar hver gildi þín eru, heildindi og hagsmunir. Áttu heima jörðinni, ertu jarðlingur – eða sérréttindasinni? Áttu heima í sérstækum forréttindakima?

Guð hefur áhuga á lífi fólks og velferð heimsins

Skiptir aðgreiningarhyggjan og menningarleg átakamál kristindóminn máli? Já, hlutverk kirkju Krists er alltaf að standa með lífi, réttlæti, friði og kærleika. Jesús Kristur er ekki pólitískur leiðtogi heldur frelsari heimsins, sem frelsar fólk frá synd fangelsum illra tilfinninga og óréttlæti. Við fulltrúar hans í heiminum erum ekki flokkspólitísk fyrst og fremst – heldur pólitísk vegna trúar okkar. Málflutningur okkar er hinn guðlega elska sem alltaf er í þágu lífins. Því spyrjum við okkur sjálf, fólkið okkar, samfélag okkar og stofnanir, stjórnmálamenn og uppalendur um gildi, hvaða gildi liggi til grundvallar. Þegar stjórnmálaflokkar reyna að tryggja hag hóps fólks á kostnað annarra ber að bregðast við. Þau sem eiga sér ekki málsvara eiga hann alltaf í Jesú Kristi.

Kristinn siður og siðferði

Hinn kristni siður hefur trosnað í vef þjóðfélaga hins ríka hluta heimsins. Þar með hefur bilað mikilvæg kjölfesta menningarinnar. Það er gott, að forréttindi kirkjustofnana eru að hverfa, en það er hins vegar stórkostlega alvarlegt að siðferðileg festa riðlast, siðvitið veiklast og flestir hugsa aðeins um eigin hag. Það er háskalegt þegar fólk gleymir, að við erum öll meðlimir hins stóra samfélags mannkyns. Þurrkar í Afríku eða stríð í Asíu eru ekki aðeins vandamál í Afríku eða Asíu. Það eru okkar mál líka. Þegar stórviðburðir verða flýr fólk voðann og flæðir yfir löndin. Við erum ein stórfjölskylda á sameiginlegu heimili. Við erum öll ábyrg og kölluð til að vera eitt í þessum heimi. Við eigum að vera ábyrg í pólitík okkar, neyslu, matarnotkun og tengslum. Og við eigum að fara vel með jörðina okkar og gæta hennar. Það er köllun, sem Guð hefur úthlutað.

Það er búið að flauta. Leikurinn er hafinn, boltinn rúllar og allir menn eru með. Líka hin brenndu. Hinum sjálfhverfu eiginhagsmunaseggjum er boðið að vera með því við eigum að vera jarðarbúar. Hvernig viltu að heimili þitt sé? Guð hefur mjög sterkar skoðanir á því máli, hefur bæði slökkt elda og læknað sár og vill að við gerum hið sama.

Velkomin heim.

Amen.  

Hugleiðing 28. Júlí, 2019. Hallgrímskirkja. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Myndirnar: Broskarlinn var við fætur okkar samtalsaðilanna, er á skólalóð Lerlycke-skólans i Hisingen, Gautaborg. Hin myndin er lánuð frá Sony Bravia. 

I did tell about my encounter with a man in Gothenburg some days ago. I was there as a father of two soccer-boys who – among thousands of young footballers – were feasting for a week. I met the man where the Icelandic teams were sleeping. He told me he was Iranian by birth but he had lived in Sweden since his childhood. And I asked him about his emtional home. Are you at home in Iran or Sweden? He watched me and told me: „I am at home on Earth. I am an Earthling but not Swedish or Iranian. A passport does not define you.“ We then had a fruitful and thoughtful conversation on the ethics of that approach. Then I went to the inauguration ceremony of the Gothia Cup. Flags of 177 nations were flying high. People of all colors were feasting, singing and dancing. And the ceremony brought again back to me that we are one humanity, one family in a single home – the Earth.

The biblical texts for this day single out that God has created life and our habitat. We are God‘s people. Jesus Christ has come to save the world. And that entails that we – as followers of Jesus Christ – are called to serve life, serve people and serve nature. Jesus Christ – as the savior of the world – is not specializing in „out of the world issues,“ but issues of politics, „down to earth issues,“ and real issues of struggle of human beings. One world, one family One Lord. How many of you are non-Icelandic in church today? Welcome home. You are an Earthling with the role of working for the common good of all of humanity and Nature. Welcome home.

 

Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.

Kristur er upprisinn

LífSprengjur sprungu í Belgíu í vikunni. Yfir þrjátíu létust og hundruð manna særðust. Myndirnar sem bárust með vefmiðlum heimsins voru hjartaslítandi. Drengirnir á mínu heimili voru heima í skólafríi og urðu varir við að dagskráin var rofin. Skyndifréttatími færði þeim vátíðindin og þeir hringdu í okkur foreldra sína til að ræða málin. Með sprengjurykinu þyrluðust spurningarnar upp. Koma þessir glæpamenn til okkar? Er hætta á að truflaðir sprengjumenn komi líka og ráðist á okkur? Við fórum yfir skelfingarefnin – og svipaðar spurningar og vöknuðu í tengslum við ofbeldisverkin í París í nóvember síðastliðnum. Brusselsprengjurnar voru ítrekun á voðaverkunum í Frakklandi. Og þar sem við fjölskyldan vorum nýlega á ferðinni í Evrópu og Afríku ræddum við ítarlega í tengslum við þá ferð um öryggi, líf, dauða, ofbeldi og hvernig við gætum brugðist við. Hvaða afstöðu temjum við okkur gagnvart því sem ógnar lífi og limum? Hvernig getum við brugðist sem best við?

Öryggi

Hvenær ertu örugg og öruggur? Í hverju eru hættur lífsins fólgnar? Það er ólíðandi að glæpalýður sem knúinn er af hatri og eyðingarfýsn nái að sprengja óttasprengjur sínar og skjóta skelfingarkúlum sínum í almannarými heimsins. En það eru ekki aðeins íbúar og ferðafólk í Brussel og París sem líða. Morðingjarnir í Sýrlandi hafa gert sig að óvinum okkar allra því þeir reyna að valda sem mestum ótta, raunum og skelfingum sem víðast. Og gleymum því ekki að milljónir Sýrlendinganna sem eru á flótta í og við Evrópu eru á flótta undan sömu sveitunum og sprengja í borgunum í nágrenni okkar.

Hvað ætlum við að hleypa þeim langt? Ætlum við að leyfa hatursflokkunum að sprengja óttasprengjur líka innan í okkur? Leyfum við soranum að síast inn í okkur og krydda hugsun okkar, móta innræti og magna okkur til andúðar og hræðsluviðbragða? Það væri að virða vald ofbeldissegjanna og játa mátt þeirra. Það er mál dauða og grafar.

Hátíð lífs

En nú er gröfin tóm. Páskar eru hátíð lífsins. Páskar eru dagar gleði, ljóss og fögnuðar því dauðinn dó en lífið lifir. Mál íslamska ríkisins er ekki mál páska heldur föstudagsins langa. Hverju trúum við og hvernig lifum við? Hvað temjum við okkur og hvaða lífsstefnu höfum við? Ertu föstudagskona eða föstudagskarl? Er í þér lífssafstaða föstudagsins langa? Leyfir þú ótta eða neikvæðni að ráða geðslagi þínu, hugsunum og tilfinningum? Bregstu við breytingum með neikvæðni, líka pólitískum tíðindum, listrænum gerningum eða alvarlegum heilsufarstíðindum? Hræðistu og ferð í bakkgírinn? Hvort ertu þá föstudagsvera eða páskakona eða páskakarl?

Kúbudeilan og móðursvör

Ég skildi vel spurningar drengjanna minna. Í bernsku minni varð Kúbudeilan að skelfingarviðburði í mínu lífi. Vegna fréttaflutningsins sannfærðist ég um að heimurinn væri á heljarþröm. Kennedy var kominn með puttann á kjarnorkutakkann og skuggi kjarnaoddana náði inn í barnssálina. Ég var svo sannfærður um vanda og endalok að ég tók ákvörðun um að ef heimurinn færist ekki á sjöunda áratugnum væri siðferðilega óábyrgt af mér að eignast börn því heimurinn hlyti að farast innan nokkurra áratuga. En móðir mín setti drenginn sinn á hné sér og minnti mig á að ef Guð væri til, páskarnir væru hátíð lífins, Jesús væri á lífi og Guð væri besti ferðafélagi mannsins væri ótti skiljanlegur en ætti þó ekki að fylla hugann og myrkva veröldina. Guð væri sterkari en brjálaðir karlar sem lékju sér að fjöreggjum heimsins. Þessi lífsviska ófst inn í trú mína og hefur síðan verið mér ljósgjafi í einkalífi og einnig forsenda í starfi mínu sem prests, frammi fyrir syrgjandi fólki og fórnarlömbum vonds kerfis eða spillts valds. Og svo eignaðist ég nú reyndar fimm börn sem er sterk tjáning á að Guð er gjafmildur og að lífið lifir!

Afstaða til lífsins

Trú er ekki bláeyg heldur skarpskyggn. Trú er ekki flótti frá lífinu heldur forsenda lífsstyrkjandi afstöðu. Páskarnir eru tjáning þess að líf, ást, gæði og hamingja eru sterkari og altækari en neikvæðni, hatur, eiturlyfjabyrlun, sérhyggja, vond stjórnmál, ástleysi, hatursorðræða, mengun, fyrirlitning – alls þess sem hindrar fólk í að njóta hins góða lífs. Páskarnir eru veruleiki og tjáning kraftaverksins – að lífið er gott, – að maðurinn er ekki einn. Páskarnir eru ekki aðeins dagur með boðskap heldur lífshvati að við stoppum aldrei á löngum föstudegi heldur höldum áfram, berjust gegn því sem hindrar fólk til hamingjulífs. Því varðar páskadagur flóttafólk frá Sýrlandi og hvernig eigi að bregðast við í trú og af ábyrgð. Páskar varða líka pólitík í okkar eigin landi. Páskarnir eru boðskapur um hvernig við eigum að nota og umgangast land, sjó og loft. Páskatrúin er kraftuppspretta og lífsmótandi fyrir tengsl okkar við fólk. Dauðinn dó og lífið lifir varðar hvort við hættum að fyrirlíta aðra og förum að sjá í þeim vini Guðs, stórvini Jesú Krists, já fulltrúa hans í heimi. Páskatrú varðar því félagsafstöðu, pólitík, umhverfismál, utanríkismál, hlutverk kirkju í heiminum og einkalíf þitt við eldhúsborð og páskatrúin á líka erindi inn í svefnherbergin! Hvort við erum föstudagsfólk eða páskafólk varðar hvort við sjáum tilgang í að vera góðir foreldrar eða ekki, blása bjartsýni í hrædda drengi og skelfdar dætur eða ekki. Páskatrú er afstaða til lífsins – að fara út úr skugga föstudagsins langa og inn í birtuskin hinnar dansandi sólar á páskum, standa alltaf lífsmegin.

Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Kannski er í þér blanda af báðum dögum. Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið? Ég heyrði um konu, sem alla ævi bjó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún átti sér orðtæki og sagði gjarnan: „Ég er svo heppin.“ Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni og verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauða var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn er kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, ekki í Brussel, París, Sýrlandi eða í Reykajvík, að Guð geti ekki, megni ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði. Trúir þú því?

Kristur er upprisinn. Hann reis upp fyrir þig og þér til lífs. Amen.

Textaröð: A

Lexía: Slm 118.14-24

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,

hann varð mér til hjálpræðis.

Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:

„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,

hægri hönd Drottins er upphafin,

hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“

Ég mun eigi deyja heldur lifa

og kunngjöra dáðir Drottins.

Drottinn hefur hirt mig harðlega

en eigi ofurselt mig dauðanum.

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins

að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

Þetta er hlið Drottins,

réttlátir ganga þar inn.

Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig

og komst mér til hjálpar.

Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,

er orðinn að hyrningarsteini.

Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,

það er dásamlegt í augum vorum.

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,

fögnum og verum glaðir á honum.

Pistill: 1Kor 5.7-8

Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Guðspjall: Mrk 16.1-7

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Framtíðin í núinu

Lexía dagsins er úr seinni hluta Jesabókarinnar. Lestur þessa rismikla texta dró fram í huga mér minningar frá námstíma mínum í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar naut ég kennslu merkra lærimeistara og dr. Þórir Kr. Þórðarson var einn þeirra. Hann var frumlegur fræðimaður, listamaður, merkilegur forystumaður í borgarmálum Reykjavíkur og snilldarkennari. Tímar Þóris Kr. í fræðum Gamla testamentisins voru áhrifaríkir. Stundum var Þórir Kr. í svo miklu stuði að þegar tíma lauk gengu nemendur út úr tíma í uppnámi eða í leiðslu, en með kollana fulla af nýjum hugmyndum. Mér er sérlega eftirminnilegt þegar farið varið í gegnum Jesajabókina.

Lærifaðirinn kallaði mig einu sinni til sín og sagði að nú hefði hann verkefni: „Þú átt að halda tveggja tíma fyrirlestur um hugmyndir og túlkun Gerhards von Rad.“ Ég hóf undirbúning af kappi og las hina merkilegu bók Gerhard von Rad um boðskap spámannanna Die Botschaft der Propheten, sem til er á mörgum tungumálum því höfundurinn var sem páfi gamlatestamentisfræða á 20. öld. Og ég lærði meira en tilheyrendurnir. Það var – held ég – tilgangur Þóris Kr. að ég næði að orða með mínum hætti og miðla áfram glæsilegum hugmyndum von Rads.

Hverjar voru þær? Með einföldun má segja að von Rad lýsi að á tímum Jesaja hafi Ísraelsþjóðin bakkað inn í framtíðina. Hún hafi lifað í eftirsjá, syrgt fornan glæsitíma þegar þjóðin var sigursælt herveldi, byggði upp glæsilega aðstöðu trúardýrkunar og öfluga stjórnsýslu í Jerúsalem. En svo hafði öllu farið aftur, þjóðin hafði verið illa leikinn af erlendum herjum. Í stað þess að bregðast við hafi þjóðin helst horft til baka, verið upptekin af fornri frægð, glæstri fortíð – og hún bakkaði. En þá komu fram vonarmenn Guðs sem ekki héldu við þessari fortíðarþrá heldur sungu nýja söngva og boðuðu framtíð. Í spádómsbók Jesaja heyrast þeir söngvar. Þessum vonarmönnum framtíðar var trúað og þjóðin byrjaði að snúa sér við, hætti að bakka og tók að opna fyrir framvindu og von. Þar með fékk nútíðin frelsi úr viðjum fortíðarþrár. Guðsvitundin breyttist. Guð var ekki aðeins vald í fortíð. Guð lifði í öllum víddum tímans, kallaði úr framtíð og væri með í nútíð. Allt breyttist þar með.

Lífmagn lexíunnar

Það er þessi vitund og skilningur sem speglast í dýptarorðum lexíu dagsins. Guð er ekki smár heldur mikill. Guð er ekki aðeins goð fornaldar heldur Guð tímans. Guð er ekki innilokað skurðgoð í húsi heldur skapar heiminn, breiðir út land eins og brauð, þenur út himinhvelfinguna og leikur sér í sköpun heims og þar með tilveru manna. Guð kallar fólk til að verða ljós fyrir aðra, vill að hans fólk lækni sjón hið innra sem ytra og leiði þau til frelsis sem eru lægð og heft. Það er lífsmáttur í lexíunni.

Hvað viljum við með slíkan boðskap? Sem þjóð og einstaklingar? Snúum við aftur eða fram? Snýrðu baki og bossa í framtíðina? Fólk, sem hefur lent í lífsháska eða upplifað eitthvað sérstakt, nær stundum ekki að sleppa og halda lífinu áfram. Það er klossfast í fortíð og ferðafélagar þess eru bakþankar, eftirsjá og kvíði. Viljum við ganga afturábak inn í framtíðina eða snúa okkur og opna fyrir nýja möguleika?

Fortíð er mikilvæg og enginn ætti að slíta sig algerlega frá sið og sögu, hvorki menningarlega né persónulega. Það væri afstaða hroka og einfeldni. En ógagnrýnin fortíðardýrkun verður jafnan til að draga úr lífsgæðum og hamingju í nútíð og framtíð. Öll ættum við að æfa okkur – temja okkur – að lifa í augnablikinu, njóta alls þess sem okkur er gefið, hvers annars, tækifæra, litbrigða, orða og upplifana. En þau, sem lifa bara í núinu og án nokkurra tengsla við fortíð eða framtíð, munu örugglega stranda á einhverju skeri og slasast illa. Skýjaglópar, sem eru bara uppteknir af draumum og framtíðinni, brotlenda líka. Öfgar meiða.

Bæði gamalt og nýtt


Flest erum við smeyk gagnvart hinu óþekkta en megum þó opna. Flest dröslumst við líka með einhver áföll úr fortíðinni, sem við megum gjarnan sleppa og losna við. Mörg okkar eru hamin af verkum eða vitleysu, sem við ættum að segja upp og láta gossa. Að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka skerðir lífsgæði og fer illa með gleði.

Velferð okkar byggist á að okkur auðnist að læra af fortíð og reynslunni og draga lærdóminn til framtíðar. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem við einstaklingar sem og kristin kirkja erum kölluð til að lifa við. Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð


Kristnin tekur mið af hefð og sögu en hlustar á hvað Guð kallar til. Okkar viðbrögð verða heil og til farsældar þegar fortíð og framtíð lifa í fléttu.

Jesús var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann lifði ekki bara af fortíð, heldur opnaði gagnvart framtíðinni. Hann kom ekki til að brjóta niður fortíð heldur uppfylla hana, ekki til að eyðileggja það sem gert hafði verið heldur til að bera elsku Guðs inn í veröldina, gefa líf þar sem dauði var, hleypa lífsmætti í sið og samfélag. Aftur en líka fram. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er fléttað úr fortíð og framtíð. Söguguðfræði varðar gott jafnvægi tíðanna.

Lífið færir okkur verkefni og þau eru misjöfn og persónuleg. Hver er þín áskorun? Hverju máttu sleppa? Hverju máttu losna frá? Til hvers ertu kölluð eða kallaður?

Hvernig væri að hugsa framþanka í stað bakþanka, vona í stað kvíða? Það stórkostlega er að framtíðin finnur þig ekki í fortíð heldur aðeins í núinu. Jesús Kristur opnaði, þorði og uppfyllti.

Amen

Íhugun í Hallgrímskirkju 12. júlí, 2015

2015 sjötti sunnudagur eftir þrenningarhátíð – textaröð: B

Lexía: Jes 42.5-7


Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, 
sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
 Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
 Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina 
til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi
 og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

Pistill: Gal 3.26-29

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Matt 5.17-19


Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.