Greinasafn fyrir merki: líf

Loksins?

Eftir seinni heimstyrjöld voru haldin stríðsréttarhöld í Nürnberg. Vitni var leitt fram. Hann hafði flúið fangabúðir nasista með gasklefunum, farið huldu höfði og leitað afdreps í gyðingakirkjugarði í Wilna í Póllandi. Saga mannsins var rosaleg. Hann varð vitni að fæðingu barns í grafhýsi. Ung kona, sem einnig fór huldu höfði, hafði ekki í önnur hús að venda en þessa friðarhöfn dauðans. Þar ól hún barn sitt í þessari undarlegu fæðingardeild. Starfsmaður kirkjugarðsins, áttræður grafari, var eina tiltæka ljósmóðirin. Þegar barnið hafði rekið upp fyrstu grátrokuna muldraði hinn aldraði Gyðingur og trúmaður: „Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?” Þremur dögum síðar sá vitnið í Nürnberg barnið og móður þess á nýjan leik. Hungruð og örvæntingarfull móðirin gat ekki mylkt barni sínu. Eina fæða barnsins voru tárin, sem hrutu af hvörmum hennar. Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?

Sagan frá Wilna rífur í. Okkur hættir til að gleyma að við erum óendanlega mikils virði. Ástæðan er sumpart sú, að við skiljum ekki tilveru okkar dramatískt. Grafarinn í Wilna var nauðbeygður til að stara opineygður á nakta veröld, heim hinna mestu átaka lífs og dauða. Hann tók á móti barni í myrkri. Hann túlkaði tilveruna róttækt, annað hvort sem myrkur eða ljós, annað hvort líf eða dauða.

Merking píslarsögunnar

Skírdagur. Að skíra merkir að hreinsa. Í kirkjunni voru ölturu þvegin og þrifin á þessum degi. Allt á þetta rætur í að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og undirbjó þá til máltíðar. Enn í dag verða þessir kyrruvikudagar tilefni kristnum lýð, að íhuga merkingu píslarsögunnar. Hvaða máli skiptir okkur dauði og þjáning Jesú? Hefur okkur yfirsést að við og Jesús erum samferðamenn? Hefur okkur lærst að skilja hvaða gildi það hefur að fylgja honum á göngunni? Hvernig getur krossfesting manns orðið öðrum að gagni? Hvernig getur þjáning eins manns skipt aðra sköpun, hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Er þjáning og pína Krists frábrugðin písl annarra? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Var hann Guð-maður, var hann Guð? Hvað þýðir það, að hann hafi verið Guð? Þetta eru þær spurningar sem leita á og hafa verið viðfangsefni kristinna manna frá öndverðu. Allar hreyfingar í guðfræðinni fyrr og síðar hafa verið tilraunir til að svara þeim. En skilningur er skertur. Skiljum við til fullnustu ást okkar til barna, maka eða náttúru? Hvernig er hægt að skilja grimmd nauðgarans og valdslosta kúgarans? Illskiljanleg öfl eru að verki í lífi manna.

Guðsaugun

Mestu máli skiptir að hverfa frá eigin sjónarhóli. Við megum læra að horfa með augum Guðs, sjá sálf okkur og veröldina frá sjónarhæð himinsins. Á föstunni og í kyrruviku göngum við á vit sögu Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun förum við smátt og smátt að sjá heiminn með Guðsaugum. Förum að sjá að saga Jesú er saga Guðs um okkur og heiminn. Þá förum við að skynja að Guð segir sögu um sig og afstöðu sína gagnvart okkur öllum.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að skilja þjáningu hans heldur fara með honum. Jesús hefur gengið um öldudal mannlegrar þjáningar og þjáist áfram meðan einhver hinna minnstu systra eða bræðra líður. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja til lífs og umsköpunar. Það líf sem Jesús hvatti til var ekki eitthvað hulið einkamál eða blíð og átakalaus barnatrú og vilji til að sætta sig við allt misrétti. Sú hvatning og sá kraftur, sem Jesús miðlaði var kvaðning til baráttu gegn öllu því sem heftir gott og gleðiríkt líf. Að fylgja Jesú getur ekki þýtt aðgerðarleysi né uppgjöf. Þvert á móti er Jesúfylgdin virk og starfarík afstaða, sem einkennist af þori og kjarki til að horfast í augu við lífið eins og það er og vilja og afli til að breyta þeim aðstæðum sem brjóta í bág við vilja Guðs. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi og það eru gleðifréttir um frelsi hinna fátæku, lausn hinna þjáðu og kúguðu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrking hinum hrelldu. Þessi boðskapur á að vera okkur öllum hvatning til að svipta hulunni af blekkingarvefum sem umvefja okkur á vinnustað, út í hinum stóra heimi stjórnmála, syrjalda, arðráns og kúgunar. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er okkur kannski erfiðast að viðurkenna og opinbera sjálfsblekkingu okkar.

Guð fer fyrir

„Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?“ Lítið barn fæddist í Wilna. Þremur dögum síðar hafði það ekki fengið neina mjólk úr móðurbrjóstum. Vonir öldungsins kulnuðu enn einu sinni. Skírdagspísl og dauði á föstudeginum fyrir páska. Hefur þú loks sent okkur lausnara og leiðtoga? Barnið dó, en Kristur reis.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags, vonar og vonbrigða. Lífið á engan ódýran endi. Úr grafhvelfingu sprettur fram það nýja líf, sem binda má von við. Sú saga varð ekki aðeins einu sinni heldur er hún táknræn saga um sögu okkar.

Skírdagshugleiðing í Neskirkju 2005.

Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.

Rósir og páskar

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Skammt frá München í Þýskalandi er Dachau. Þar voru fangabúðir sem nazistar notuðu til að aflífa fólk. Þegar ég kom til München í fyrsta sinn fór ég líka til Dachau. Ég vissi ímislegt um búðirnar. Starfskona á háskólabókasafni í Nashville hafði sagt mér sögur af ættingjum hennar sem höfðu dáið þar og svo fann hún til bækur sem nýttust í námskeiði sem ég sótti. Það er reyndar sálarslítandi að lesa helfararfrásagnir, hvort sem er úr fortíð eða nútímasögur frá Úkraínu, sem halda stíft að manni grimmd og illmennsku. Meðal þess sem ég las á Þýskalandstíma var viskubókin Leitin að tilgangi lífsins. Höfundurinn, Viktor Frankl, var um tíma fangi í Dachau-búðunum. Yfir hliðinu þar stóð: Arbeit macht frei – vinna er til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari hinum megin hliðs og innan girðingar. Auk Gyðinganna höfðu margir pólitískir fangar verið þar vistaðir, fólk sem hafði það eitt til saka unnið að vera ósammála stefnu valdhafa Þýskalands. Meðal þeirra var hinn merki prestur Martin Niemöller, en Sigurbjörn Einarsson þýddi stólræður hans meðan Sigurbjörn var prestur hér á Skólavörðuholtinu.

Skálarnir, húsin og minnismerki Dachau-búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerkið um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, bróðir harmkvælamanna. Gyðingaminnisvarðinn er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll var byggingin myrk, tilfinningin fyrir grjóti var sterk. Þetta var eins og grafhvelfing. Umhverfi hins dána Jesú leitaði á hugann. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan var sem vonarslóð – páskaleiðin.

Rósir

Á skírdagskvöldinu var altari þessarar kirkju strípað og borðbúnaður veislu himinsins fjarlægður og borinn út. Fimm rósir voru lagðar á altarið til tákns um síðusár Jesú Krists. Blómin liðu langan föstudag í kirkjunni. Nekt altarisins var sem tákn um hörmungar í lífinu. Allir menn verða einhvern tíma fyrir andstreymi, sorg og áföllum. Að flýja og grafa ógæfu og sorgarefni hefur aldrei verið gæfulegt ráð eða til bóta. Japanska skáldið, Miyasawa Kenji, benti á eins og vitringar aldanna, að til að vinna sigur á þjáningu megum við menn ekki flýja, heldur ættum fremur að viðurkenna hana, umfaðma og nýta síðan til lífsbóta. Í þessu er fólgin mikilvæg leiðarlýsing til góðs. Kenji orkti ljóð um rósaburð. Í einfaldri samantekt segir í ljóðinu: Ímyndaðu þér að þú haldir á fölnuðum, dauðum rósum. Þyrnarnir stinga og freistandi er að sleppa særandi blómunum. En í stað þess að gefast upp gengurðu af stað og í átt að eldstæðinu. Þú hendir rósavendinum í eldinn. Í þeim kviknar. Eldurinn lifnar, vermir og lýsir.

Í þessum rósaburði birtast stig sorgarvinnu. Hið fyrsta er að viðurkenna vanda, ganga síðan með hann og varpa honum í eldinn. Allir, sem hafa átt við eldstæði í köldu rými, kannast við hve vermandi er þegar eldur lifnar, hiti vex og lífsaðstæður batna. Rósaburðurinn er ferli manna í bata og við getum notað það ferli til innsæis á afstöðu Guðs. Rósaburðurinn getur hjálpað okkur til að sjá líf og veröld frá sjónarhóli Guðs. Rósir eru sem tákn heimsins. Guð viðurkennir vanda veraldar, tekur menn og heim í fangið eins og rósabúnt – faðmar veröldina, leggur af stað með meinvaldinn, heldur út sársaukann, fer alla leið og sleppir síðan öllu sem særir. Bálið lifnar, lausn verður, meinið er frá, lífið lagast. Glóðin lifnar, eldur funar, hiti vex til hagsbóta fyrir líf í vanda og sorg. Páskar eru undur himinsins eftir að gert hefur verið upp við sorg og höfnun. Því hefur verið eytt sem menn ollu. Allt böl er uppgert, reikningar sléttaðir og lífið bætt. Mál mannheima hefur verið gert upp í máli guðsheima.

Heimssýn

Hvað hefur reynst þér erfiðast í lífi þínu? Þínir föstudagar eiga sér samfellu í máli bænadaganna. Nú er allt nýtt, allt er breytt. En hefur eitthvað breyst? Hver er heimssýn þín? Fjöldi fólks sér í páskviðburðinum ekkert annað en óra, viðurkennir ekki boðskap sjónarvotta og allra þeirra sem sáu hinn látna Jesú Krist lifandi. Hvaða skoðun hefur þú á páskamálinu að lífið lifir? Allir þeir sem aðhyllast lokaða og sjálfstilvísandi heimsmynd viðurkenna ekki annað líf en það sem efnisvísindi geta staðfest. Þar með er öllu hafnað sem er utan seilingar fræðanna. Slíkir menn munu aldrei viðurkenna upprisu nema sem óefnislegan upplifunarþátt, tilfinningamál og blekkingu. Jesús Kristur hafi ekki risið upp nema í tilbeiðslu frumkristninnar. Líkami hans hafi rotnað, en andi hans orðið til vegna samsinnis, samtals, samfélags og samskynjunar. Allt annað megi síðan skýra og túlka með hjálp mannvísinda, t.d. fagurfræði, sálfræði, mannfræði og félagsvísindum og hafi ekkert með efnisvísindi að gera.

En þótt menn skilgreini vísindi þröngt er ástæðulaust að smætta heiminn. Óþarft er að þrengja túlkun heims. Við megum leyfa okkur að vera opin gagnvart öðrum víddum en hinum efnislegu. Raunvísindi hafa ekkert með að gera hvort Guð er til eða ekki, hvort tilgangur ríki í veröldinni eða ekki og hvort ástin eigi sér djúpa skírskotun handan æxlunarþarfa. Raunvísindi geta ekkert sagt um Guð og eiga ekkert að segja um þann veruleika, sem er og má vera utan seilingar þeirra. Ef Guð er ekki til eru engir páskar. En ef Guð er til og elskar þig og heiminn er von. Í því ljósi nálgast kristinn maður boðskap páskanna. Á þeim forsendum túlka ég líf og nálgun Guðs í boðskap um að Jesús Kristur lifnaði og birtist. Mér hefur verið innrætt í háskólaheiminum að gera kröfur til fræða, en ég held að það séu skottuvísindi sem krefjast þess, að Jesús Kristur liggi enn í gröf sinni. Slík fræði eru á villigötum.

Sjónarhóll

Í lestinni frá München til Dachau voru með mér í klefa nokkur ungmenni. Þau sögðu mér að þau væru á lestarreisu í Evrópu. Þegar inn í búðirnar kom fóru þau hraðar yfir en ég og voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana. Þau sögðu hissa hvert við annað: „Hér er ekkert að sjá.” Þau settust niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin, sem aðeins voru í huga þeirra sem komu. Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo.

Svo er það með líka með páska. Við getum orðið föst í kyrruviku lífsins, misst sjónar á hve dramatískt lífið er, farið á mis við að skoða möguleika í lífi okkar og lífshætti. Við getum tamið okkur lokaða heimssýn í stað opinnar. Við getum orðið föst í einhverri sprungu föstudagsins langa eða lokast á laugardegi og aldrei upplifað páska. Páskarnir eru opnun, að horfa upp, komast upp úr byrginu, að sjá að bjargið sem hefur verið okkur farartálmi eða fyrirstaða er farið og hefur verið velt frá. Okkur getur jafnvel lánast að sjá engil sitjandi á grjótinu. Boðskapur hans er: Jesús er ekki hér, hann er farinn, hann er farinn á undan ykkur, farin heim! Það merkir að lífið er stórkostlegt. Guð er annarrar víddar en við en þó nálægur. Það merkir líka að þú ert svo mikils virði að Guð er alltaf með þér, Guð vill vera með þér í stóru og smáu.

Guð hefur þegar lagt sprekin á eldinn og ljósið leikur um veröldina. Frá erkiarni heimsins leggur bæði hita og ljós. Það er til að efla lífsgæði okkar allra. Hver sem þú ert, hvað sem þú hefur gert, hvernig sem þú hefur iðjað, hversu djúpt sem þú hefur sokkið, hversu miklar sem raunir þínar hafa orðið er samt ljós þarna uppi. Von. Það ljós er úr arni himinsins, sem yljar allri veröld. Þú ert minn og ég er þinn er mál þeirrar birtu og elsku. Við upphaf heims sagði Guð: Verði ljós. Í starfi og lífi Jesú Krists var það endurtekið. Í þínu lífi, líka í myrkrinu, er hvíslað: „Verði ljós.“ Það er mál upprisunnar. Dauðinn dó en lífið lifir.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.

Páskadagur 17. apríl, 2022.

Hin hlið ástarinnar

Sonur minn spurði mig fyrir nokkrum dögum: „Pabbi hefur þú þurft að tilkynna fjölskyldu að einhver sem tilheyrði henni hafi lent í slysi og dáið?“ Ég svaraði honum að það væri erfiðasti þáttur prestsstarfsins að fara heim til fólks og bera því hörmulegar fréttir. Hann hélt áfram að spyrja: „Hvernig líður þér þegar þú hittir fólkið og þarft að segja þeim frá hræðilegum málum, slysum og dauða?“ Ég sagði honum frá hve átakanlegar aðstæðurnar væru oftast og líka tilfinningaflóðinu, hvað færi í gegnum hugann gagnvart þessu nístandi verkefni, hvernig ég undirbyggi mig, opnaði vitundina, tengdi inn í himininn og kyrrði hugann. Til þess að geta þjónað fólki vel væri mikilvægt að vinna með eigin ótta, áföll og trú. Við töluðum svo saman áfram, prestur og pabbi með reynslu af mörgum sorgarferðum og sextán ára ungur maður sem þorir að vinna með hlutverk, líf og dauða og spyrja. Mitt hlutverk er að vera honum faðir sem miðlar hvernig maður virðir mörk sín, bæði sem dauðlegur einstaklingur og líka sem prestur í þjónustu við líf, fólk og Guð.

Ég dáðist að syni mínum að hann hefði getu til samkenndar og að spyrja mikilvægra spurninga, væri reiðubúinn að ræða um myrkrið, óttann og eyðinguna og vilja til að halda á djúp visku og skilnings. Og var líka þakklátur fyrir að feðgatengsl okkar væru opin og þyldu svona þungaumferð sálarinnar. Ég hef sagt honum sögur úr eigin lífi, hvernig ég brást við eigin dauðaógn á unga aldri. Hann hefur líka sagt mér hvað hann hugsaði þegar hann hjólaði framan á bíl, flaug hátt í loft upp áður en hann skall í götuna. Og hann veit að við eigum alltaf val hvernig við bregðumst við áföllum og verkefnum lífsins.

Allir deyja – segjum við. Skuggahlið alls lífs er hrörnun og dauði. Hvaða afstöðu hefur fólk? Er lífi lokið við dauðastund eða er andlát fæðing til nýrrar veru? Hvernig bregðumst við í hörmulegum aðstæðum þegar fólkið okkar er slitið úr fangi okkar og fjölskyldu? Tengjum við sjálf okkur við skil tíma og eilífðar? Undirbúum við okkur undir fæðingu til eilífðar? Í dag íhugum við stóru málin í þessu hliði himins. Um líf og dauða, ást og sorg. Um sæluna sem Jesús talar um – og sú sæla er að vera með Guði.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Þegar við minnumst ástvina er hollt að hugsa um líðan okkar og líka íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð. En djúpíhugun þessara daga varðar þó ekki dauða heldur fremur líf. Kristnin er ekki dauðasækin heldur lífssækin.  

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Sorg er hin hlið elskunnar. Þau sem aldrei hafa elskað syrgja ekki dauða annarra. Sorg er viðbragð þess sem hefur elskað en misst. En getum við forðast sorg og gætt að okkur svo við verðum ekki fyrir áfallinu? En valið á sér skuggahlið. Viltu sleppa að elska? Viltu fara á mis við ástvini? Fæst vilja afsala sér þeim undursamlega þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. En að vinna með sorg og búa við sorg er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa áfram þrátt fyrir missinn. Syrgjandi kemst oftast á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarvinnu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi. Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern og stundum langan tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er gjarnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana í tilverunni – eiginlega utan við sjálf sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur jafnvel sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma eða jafvel barnið þitt? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau.

Og svo að þínu lífi nú. Hver er sæla þín? Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín? Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir brenglaðri mannaveröld, mengun sköpunar og dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. En dauðinn dó og lífið lifir. Því lýkur lífi ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum eigin dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Í lok athafnar getið þið gengið fram og kveikt á kertaljósum og lagt í tröppurnar til að minnast látinna. Nýtið færið til að blessa minningarnar, vinna með tilfinningarnar – allar, líka þær sterku og neikvæðu, leyfa Guði að taka við eftirsjá og depurð þinni. Þú mátt kveikja ljós og minna þig á að lífið lifir. Trú er ekki vegferð til dauða heldur ferð lífsins. Dauðinn dó en lífið lifir.

Amen í Jesú nafni Amen.

Hugleiðing á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 7. nóvember, 2021. Meðfylgjandi mynd tók ég austan við Ingólfsfjall að kvöldi 30. október 2021. Útsýn til austurs og norðurljósin dönsuðu á danshvelfingu himins. 

Nýr tími

Tímaskil geta orðið ágeng og vakið miklar tilfinningar. Mér er minnistætt þegar einn drengja minna var sjö ára og yfirkominn af tímaöng. Hann fylltist af depurð yfir glötuðum tíma. Hann sá svo óskaplega eftir gamla árinu sem kæmi aldrei til baka. Hann var lostinn harmi yfir að gleðitíminn væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Við foreldrarnir tókum drenginn í fangið og töluðum um víddir og takt tímans og möguleika lífsins. Þá var líka gott að tala um hvað afar og ömmur, við foreldrar og allir hinir ástvinirnir hugsum og gerum gagnvart tortímanda tímans. Eftir gamlárskvöld kemur nýr dagur og nýir möguleikar. Tíminn er ekki búinn heldur opinn. Til að tákna það breiðum við á nýársdegi hvítan dúk á borð nýársdags. Blóm dagsins væru hvít til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Meira segja litur kirkjunnar á þessum degi væri hvítur til að minna okkur á að framtíðinn væri opinn faðmur. Hvítt gegn myrkvaðri glatkistu fortíðar til að minna okkur á að hið liðna er farið. En tíminn er opinn.

Nýr tími merkir að við erum frjáls. Hvað um tíma nýs árs í vinnu, í einkalífi og í samskiptum? Er eitthvað sem bindur hug og líf? Þarf að losa festur, opna tabú og segja satt? Hver er djúplöngunin? Hvað viljum við gera við tímann, hvernig næra sjálf og stæla líkama? Kostur hvers tíma og hvers dags er að vera farþegi eða við stýrið í eigin lífi.

Skáldið bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefnið. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir, hörmungartíma og hamingjuvegi. Guð hefur úthlutað gáfum og gæðum til að vinna verkin og vit til að greina úrræðin. Guð hefur skapað tímann og okkur mannfólkið svo listilega að okkur er það mögulegt. Framundan er nýr tími, ómengaður og hreinn tími. Tímaöng varðar fortíð en fögnuður hæfir framtíð. Gleðilegt nýtt ár 2021.

Myndina tók SÁÞ eftir helgihald í Hallgrímskirkju á nýársdegi. Myndin er af bílrúðu við Hnitbjörg, safn Einars Jónssonar. Textinn er Gleðilegt nýtt ár 2021.