Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.