Greinasafn fyrir merki: trú

Aular?

Fyrir utan Hallgrímskirkju eru skúlptúrar Steinunnar Þórarinsdóttur á sumarsýningu Listahátíðar. Það eru ekki eftirmyndir eða afsteypur einstaklinga og stórmenna heldur fremur táknmyndir. Annars vegar eru menni án klæða, eins og táknverur mennskunnar sem býr í öllum áður en menning eða ómenning mótar, íklæðir eða afskræmir. Hins vegar brynjuð menni sem táknmyndir vígvæddrar mennsku. Mennin annars vegar og vopnafólkið hins vegar standa saman úti á holtinu. Bil er á milli. Fólkið sem á leið um Skólavörðuholt þessa dagana hleypur ekki fram hjá þessum skúlptúrum eins og Leifi heppna heldur fer að þeim, skoðar þá, snertir þá, stillir sér upp við þá, ræðir um mennin og hermennina og sum segja að brynjuliðið sé eins og her af Pútínum allra landa. Á móti séu saklausir borgarar allra alda. Tvennur Steinunnar vekja viðbrögð og eru þátttökuskúlptúrar og ýmsar túlkanir vakna. Suma dagana eru þeir með fangið fullt af blómum. Fyrir nokkrum dögum kom ung kona og kyssti eina brynjuna rembingskossi – eins og hún væri að reyna að leysa ófreskju úr álögum, kyssa prinsinn til lífs og gleði. Tvær ólíkar manngerðir á torgi lífsins. Önnur í álögum og hin til framtíðar – en til lífs – eins og við förufólk heimsins erum kölluð til.

Hroki og auðmýkt
Guðspjallstexti þessa sunnudags er líka um tvo menn, tvennu. Sagan segir frá tveimur í tengslum og með mismunandi skilning. Þeir voru eins ólíkir og spennuverurnar á torginu utan kirkjunnar. Annar var upptekinn af stöðu sinni. Hann var drambsamur. En hinn baðst miskunnar og fékk lífsdóm. Annar var með bólgið egó en hinn útflatt. Annar var hrokagikkur en hinn í rusli. Þeir fóru á sama staðinn til að vinna með tilvist sína. Annar kom til að fá staðfestingu þess að hann væri frábær. Hinn kom til að vinna með bresti sína og fá, það sem heitir á máli Biblíunnar, fyrirgefningu syndanna. Annar var brynjaður en hinn vitjaði mennsku sinnar. Sagan er ein útgáfa tvennuspennu sem frjóvgar hugsun, nærir íhugun, hvetur til þátttöku, breytir fólki og stælir visku. Mennið í okkur er guðsmyndin og er kallað til mennsku, að frumgerð okkar sé virkjuð til ástar og lífs.

Jesús hefði fengið Nóbelinn ef hann hefði verið sögumaður í samtíð okkar. Smásögurnar hans eru hrífandi og hnittnar. Þær hafa jafnan óvæntan endi, sem vekur til umhugsunar. Sögurnar eru lyklar að visku. Drambsamir líta niður á aðra, gera grín að fólki, benda á veikleika, missmíði, áföll og hefja sjálfa sig upp á kostnað annarra. Þeir temja sér botnhegðun. Hinn hrokafulli lítur niður á aðra því hann horfir ekki upp, sér ekki hærra en eigin topp, eigin stöðu og dýrð. Hinn drambsami talar niður til fólks, rýrir málstað annarra, gildi og stefnur sem ekki henta honum. Farísei texta dagsins var slíkur maður. Við þekkjum öll slíkt fólk, við lifum jú blómatíma hinna hrokafullu sjálfhverfunga. Þeir eru brynjulið samtíma okkar og vakna ekki af álögunum þó þau séu kysst.

En það er ímynd auðmýktarinnar, sem mig langar til að við íhugum. Tollheimtumaðurinn í Jesúsögunni kemur algerlega blankur fram fyrir Guð, þorir varla að biðja um hjálp, en stynur upp miskunnarbæninni, svipaðri þeirri og við höfum yfir í messunni alla sunnudaga. Kristnin hafnar hroka en er tollheimtumaðurinn hin hreina mynd hins kristna manns? Bæði já og nei. Vissulega er tollheimtumaðurinn ímynd þeirra, sem hafa skrapað botninn, skilja að lengra verður ekki haldið á lastabrautinni. Tollheimtumaðurinn getur verið fyrirmynd fyrir fíkla og þau, sem hafa misst allar festur og fóta. En mörgum mun reynst örðugt að samsama sig atferli hans og afstöðu. Þá erum við komin að auðmýktinni. Er tollheimtumaðurinn ímynd auðmýktarinnar?

Auðmýktarsagan
Í mörg þúsund ár hefur auðmýkt verið lofsungin. Í Orðskviðum segir: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.“ Svipaðar setningar og áherslur má finna víða í ritum forn-Grikkja, sem skildu vel speki hófsemi. Jesús lagði áherslu á auðmýkt og hógværð. Síðan spunnu kristnir spekingar í þessar gyðing-grísku uppistöður. Mér sýnist þó að margir kirkjujöfrarnir hafi farið offari í túlkun sinni á auðmýkt og eðli hennar og raunar spillt auðmýktarhugtakinu. Klaustraforkólfurinn Benedikt frá Núrsíu talaði t.d. um tólf skref auðmýktar og að toppnum væri náð þegar menn gerðu sér grein fyrir að maður sé lægst settur og aumastur allra. Síðar skrifaði Bernharður frá Clairvaux, annar merkur klaustramaður, líka um tólf skref auðmýktar. Hann áleit að auðmýktin gerði menn óttalausa og kærleiksríka. Hann taldi auðmýktina vera þá dyggð, sem kenndi mönnum að sjá sjálfan sig með réttum hætti og þá með því móti að menn fyrirlitu sjálfa sig. Er þetta góð kenning? Er auðmýkt að eðli til sjálfsfyrirlitning? Nei, ég held ekki.

Auðmýkt aðeins fyrir karla?
Ég heyrði öflugan guðfræðing halda fram, að auðmýktarsiðfræðin væri fyrir karla en alls ekki fyrir konur! Ég fór að íhuga þessa ydduðu yrðingu. Jú, boðskapur um auðmýkt hefur verið predikaður fyrir fólki lengi. Hin trúarlegu skilaboð runnu inn í karlstýrt þjóðfélags- og menningarkerfi þar sem auðmýktaráhersla var notuð til að skilgreina stöðu kvenna skör lægra en karlana. Við getum samþykkt að konur hafi haft veikari stöðu en er fyrirbærið auðmýkt úrelt þar með? Mér þykir algerlega ótækt að auðmýkt sé aðeins mál okkar karla en ekki kvenna líka. Vissulega þurfa konur að leggja sig eftir styrkleika og sjálfstæði, berjast fyrir jafnrétti og jafnstöðu á við karla. En þær eiga ekki að berja af sér auðmýkt til að vera sterkar. Sem sé, það er ástæða til að endurnýta auðmýktina, endurskilgreina hana og endurlífga.

Kíkjum aðeins á sögu hugtaksins. Vestrænir hugsuðir hafa því miður lemstrað, “ræfilvætt” og undirlægjuskilyrt auðmýktarhugtakið. Þess vegna er ekki skrítið að heimspekingar síðustu alda hafi farið háðuglegum orðum um auðmýkt. Spinoza hafði t.d. litla trú á gildi auðmýktar og taldi hana yfirvarp annars. Hann taldi líka, að auðmýkt væri löstur ásamt með hrokanum. David Hume taldi auðmýktina, ásamt klaustradyggðum, ganga gegn góðum lífsmarkmiðum og beinlínis skadda fólk.

Margir hafa síðan fylgt í kjölfar þessara rýnenda. En gagnrýni þeirra hittir ekki auðmýktina heldur fremur undirlægjuhátt, aumingjaskilning og kúgunarþáttinn. Ég held við ættum að segja skilið við sjálfsfyrirlitningarskilning klaustramanna. Það er brynja sem má losa sig við að ósekju. Við þurfum hins vegar að endurvekja þá vitund, að við þiggjum allt að láni, njótum alls vegna elsku, erum ráðsmenn í þjónustu kærleikans og til gagns fyrir fólk og sköpun veraldar. Við erum menni á lífsleið ástar og gæsku.

Styrkur persónu – forsenda auðmýktar?
Frumþáttur auðmýktar kristins manns er fólgin í vitund um, að manneskjan lifir í ljósi Guðs, er af Guði og þiggur þaðan allt, líf og gæði, egó og aðstöðu. Kristinn maður er þakklátur og lítillátur af því að allt er frá Guði komið, stundir og dagar, fjölskylda og fé. Allt er að láni, líf og eignir og allir menn, já öll sköpun er hluti guðslífsins. Því er maðurinn, einstaklingurinn, hlekkur í milli lífs- og þjónustukeðju. Svo er hitt að enginn verður auðmjúkur við að sjálf og persónan hið innra brotni. Auðmýkt er persónueigind sterks sjálfs en ekki veiks. Til að auðmýkt spíri, vaxi og beri ávöxt þarf góðan skjólgarð hið innra. Auðmýkt verður ekki til nema í heilli, sterkri persónu sem ber virðingu fyrir reynslu sinni, gildum, stefnu og eigindum. Jesús Kristur er besta dæmið. Hann var ekki sundurknosaður karakter, heldur hafði fullkomlega heila og sterka vitund og mótað sjálf. En hann var auðmjúkur framar öðrum. Hann lifði í þessari samsettu vídd, að lúta föður sínum, sjá líf sitt og hlutverk í elskusamhengi, bera virðingu fyrir sér og köllun sinni og vera óttalaus í þjónustu gagnvart gildum, mönnum, verkefnum og þar með líka dauðaógn og skelfingarmálum.

Eitt sinn var sagt um íslenskan biskup: „Hann þóttist vera góður.” Það var meinlega sagt. En auðmýktin er ekki viljamál. Auðmýktin er dyggða erfiðust því um leið og menn verða sér meðvitaðir um eigin auðmýkt byrjar hún að deyja. Ákvörðuð auðmýkt er því miður ein gerð hroka. En tileinkun auðmýktar er æfiverkefni. Marteinn Lúther minnti gjarnan á, að auðmýkt er algerlega hulin hinum auðmjúka, sem  veit ekki og sér ekki eigin auðmýkt. Dýrlingur veit ekki af dýrðardómi sínum. Um leið og menn vilja vera dýrlingar verður þeim það ómögulegt. Góðverk eru auðvitað góð en verða stórkostleg, þegar fólk gerir þau án vitundar um hversu góð þau eru. Auðmýkt er ómeðvituð en sjálfræktuð lífslist.

Þrennan
Ekkert okkar er algerlega brynjuð vera né heldur fullkomlega nakið menni. En það er brot af báðum í okkur öllum. Jesús sagði yddaðar sögur til að minna okkur á að við lifum frammi fyrir Guði. Þar er ljósið skarpara en í mannheimi, þar sjást lífshrukkurnar, brestir og brot. Þar gildir ekkert annað en auðmýkt, því þar er upphaf og samhengi alls. Þann vísdóm megum við síðan fara með út í mannlífið, því þar er Guð líka, hvert sem við förum erum við í musterinu frammi fyrir Guði. Í lífi okkar þarf að vera auðmýkt til að brynjur falli, fólk verði glatt, öllum verði þjónað. Þegar við lærum að tjá: „Guð vertu mér syndugum líknsamur” þá verður undrið. Brynjan lifnar við kossinn og álögin falla.

Lexían: Jes 2. 11-17. Pistillinn: Rm 3. 21-26. Guðspjallið: Lk. 18.9-14.

11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. 

Eftirlýstur

Fyrir þremur vikum slapp fangi úr haldi lögreglu við dómhúsið við Lækjartorg og hljóp lögregluna af sér. Lýst var eftir honum og leitin var áköf. Saklaus unglingur varð m.a. tvisvar fyrir að lögreglan hélt að hann væri hinn eftirlýsti sakamaður. „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Það var lýsingin á fangamissi og fangafundi. Eftirlýstur – og þessir viðburðir rifjuðu upp fyrir mér hálfrar aldar eftirlýsingu, auglýsingaplakat, sem við, unglingarnir í Neskirkju, gerðum af miklum metnaði. Þetta var á hippaárunum þegar Jesúfólkið erlendis hélt á lofti myndum af öðru vísi Jesú en í kirkjunum. Það voru myndir af andófsjesú, þessum sem þorði að vera öðru vísi. Og þannig hafði Jesús verið en rímaði líka við draum og hugsjónir fólks um ábyrgð í samfélagi, þor til að vera í samræmi við dýpri viðmið. Svo var sá Jesús auðvitað líka vörpun á draumum okkar unglinganna, sem gerðum uppsteit gegn foreldrum og uppreisn gegn hátterni eldri kynslóðarinnar. Svoleiðis uppreisnarjesús var spennandi. Eftirlýstur Jesús Kristur.

Þetta var snemma vors árið 1972 og efnt var til „Jesúmessu“ í Neskirkju við Hagatorg. Prestur og æskulýðsleiðtogar kirkjunnar virkjuðu okkur ungviðið til verka og hvöttu til dáða. Við Jónas Þórir, síðar organisti og tónlistarjöfur, vorum stórhuga og efndum til hátíðar unga fólksins á fyrsta sunnudagskvöldinu í mars. Það voru engin vandræði með kirkjusóknina. Unglingarnir í hverfinu komu og fylltu kirkjuna. Yfirskriftin var: Eftirlýstur Jesús Kristur. Fjöldi unglinga ræddi um trú sína, las ljóð, söng og spilaði. Kalli Sighvats í Trúbrot lánaði Hammondorgel sitt, sem var þá Rollsinn í poppheiminum. Hammondinn bilaði þó reyndar í miðju lagi, okkur Jónasi Þóri, sem stýrðum samkominni, til mikillar hrellingar. Sóknarnefndin var talsvert stressuð yfir látunum og aðsókninni og óttaðist að allt færi úr böndum. En okkur Jónasi Þóri var þó treyst og við höfðum m.a. hannað og fengið prentað plakat til auglýsinga, til dreifingar í hverfinu og upphenginga í kirkjunni. Þetta var flott plakat með lýsingum á hinum eftirlýsta rétt eins og krimma í villta vestrinu. Eftirlýstur Jesús Kristur. Svo var þarna líka felumynd af Jesú. Plakatið vakti mikla hrifningu og prentað í mörgum grunnlitum. Það lá við slagsmálum í lokin þegar fólk fékk að ná sér í eintak af vegg kirkjunnar. Þessi plaköt voru síðan hengd upp í hundruðum unglingaherbergja í Reykjavík.

Eftirlýstur Jesús Kristur. Á öllum tímum er hann eftirlýstur; um hann rætt; hvort hann sé týndur eða dáinn; hvort hann tengist samtímanum; hvers eðlis tengslin við hann geti verið og hvaða gildi hann hafi á hverri tíð. Í dag verður málþing í Hallgrímskirkju um málefni fanga og tilgang fangavistar. Fangar og Jesús eiga reyndar margt sameiginlegt, m.a. að hafa verið stungið í steininn! Jesús komst reyndar út úr grjótinu og fangar vilja eiga afturkvæmt úr fangelsi, ekki aðeins úr húsi heldur líka til frelsis, nýrra möguleika og nýs lífs í samfélagi fólks. Fangar vilja fá að lifa upprisu í eigin lífi.

Að sjá og sjá ekki

Texti guðspjallsins er um eftirlýsingu. Það var auðvitað alveg rétt hjá Jesú sem hann sagði við vini sína, lærisveinana: „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Þessir samverkamenn Jesú skildu ekki orð hans fyrr en þeir sáu heildarmyndina löngu síðar. „Þið sjáið mig ekki en svo munuð þið sjá mig að nýju.“ Hvað átti Jesús við með þessu? Hvað meinti hann með að hann færi til föðurins og kæmi svo til baka? Jesús áttaði sig á að alls konar falsfréttir breiddust út. Jesús bað því fólk að að hlusta vel. Sjálfur vissi hann að hann var eftirlýstur af yfirvöldum. Stjórnvöld vildu ná honum og ekki aðeins stinga honum í steininn, heldur beinlínis ryðja honum úr vegi. En Jesús Kristur sá lengra. Hann þekkti framvinduna og vissi að meira væri í vændum en pyntingar og aftaka. Síðan skýrði hann út fyrir lærisveinunum hvað það merkti að innan skamms myndu þeir ekki sjá hann en svo innan skamms sæju þeir að nýju. Það yrði þeim sorgarefni þegar hann færi og þau, sem vildu hinni ungu hreyfinu Jesú Krists illt, myndu fagna. En líkt og við barnsfæðingu er fagnað þegar barnið er fætt og lifir getur hið vonda orðið til góðs.

Jesúmyndir

Á plakatinu sem prentað var fyrir Neskirkju fyrir fimmtíu árum var mynd af Jesú Kristi. Það var felumynd, sem varð ekki sýnileg eða augljós nema fólk staldraði við og skoðaði vel. Hún á sér þá sögu að ljósmyndari var að taka myndir af bráðnandi snjó að vori. Þegar hann fixeraði myndirnar sá hann allt í einu hvernig mannsmynd birtist á ljósmyndablaðinu. Það var mynd af síðhærðum, che guevarískum, skeggjuðum Jesú Kristi. Þetta var ekki það sem myndasmiðurinn átti von á og honum varð svo mikið um að sjá þennan Jesú Krist birtast sér við framköllunina að myndbirtingin breytti lífi hans.

Plakat okkar unglinganna í Neskirkju vakti hrifningu. Plakatið var tvírætt, kveikti í fólki og virkjaði ímyndunaraflið. Svo var Jesús Kristur eftirlýstur. Þannig er hann á hverri tíð. Sumir vilja Jesú Krist dauðan eða úthýsa honum úr lífi og menningu. En aðrir gera sér grein fyrir að Guð er uppspretta lífs. Í krafti Jesú Krists er allt líf þessa safnaðar. Í hans mætti störfum við prestar og starfsmenn þessarar kirkju. Í krafti mannvinsemdar Jesú Krists lýsum við eftir góðu samfélagi, mýkt í tengslum og ábyrgð í afstöðu til fólks, náttúru og heims. Hvað merkir að sjá ekki Jesú lengur? Hvenær sjáum við hann og með hvað móti sjáum við hann eins og hann er? Er Jesús Kristur lifandi bróðir og samfylgdarmaður? Eða er hann eftirlýstur? Hvaða hlutverki gegnir Jesús Kristur í lífi þínu? Hver er Jesúmyndin í þínum huga?

Við erum eftirlýst

Við höfum tilhneigingu til að hengja þungar byrðar lífsins á þunna þræði. Það sem við höldum að geri okkur hamingjusöm slítur oft böndin. Þá verða áföll sem oft valda innanmeinum. Við þurfum að læra listina að greina hvað er raunverulega til hamingju, friðar, gleði og farsældar og hengja þau gæði ekki á þunna þræði. Hver er þrá þín? Eftir hverju lýsir þú í lífinu? Eftir hverju sækist þú? Hvernig væri að skoða mál lífsins með nýjum hætti? Við getum og megum gjarnan snúa öllu við og hugsa út frá betri forsendum og róttækari sjónarhóli. Jesús Kristur er ekki eftirlýstur heldur lýsir eftir okkur og að við sjáum hans ljós og lifum í því ljósi. Við erum eftirlýst. Guð vill vera okkar vinur og tengjast okkur ástarböndum. Það eru hin þykku bönd sem hvorki fangelsa né bresta á álagstímum. Þráðurinn að ofan. Lífsbönd ástar og umhyggju. Amen. 

Prédikun í Hallgrímskirkju, 8. maí, 2022, 3. sunnudag eftir páska.

 

Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.

Músík sálarinnar

Á kirkjuhurð Hallgrímskirkju standa orðin: „Komið til mín.“ Þar stendur ekki farið – heldur komið. Og koma til hvers? Ávarpið er persónulegt. Það er Jesús sem segir. „Komið til mín.“ Hann er uppspretta lífs, heimsljós, vinur og verndari sem talar. „Komið til mín“ eru hvatningarorð hans til allra manna og fyrirheit um tengsl. Yfir dyrunum er vers Hallgríms Péturssonar úr 24. Passíusálmi og með fagurri stafagerð Leifs Breiðfjörðs. Þetta merkilega dyraávarp er svona:

„Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.“

Þessi magnaða kveðja er til íhugunar og mótunar. Í dag er bænadagur og líka mæðradagur. Það er mesta happ allra manna að eiga góðan föður og góða móður. Og á mæðradegi er gott að rifja upp og íhuga hvað mæður gerðu og gera. Svo er kirkjan kristnum móðir eins og segir svo fallega í sálminum sem við syngjum í dag.

Á bænadegi koma mömmuminningar í minn huga. Mamma kenndi mér að tala við Guð sem vin og sem móður. Hún kenndi mér líka að biðja Faðir vor og bænavers fyrir kvöld- og morgunbænir. Hún kenndi mér að leggja fram lífsefnin fram fyrir hinn vel hlustandi Guð á himnum.

En heyrir Guð? Ég velti vöngum yfir Guðshlustuninni. Þegar ég var barn ræddum við mamma stundum um hvort eyrað á Guði væri svona stórt að það heyrði allt. Hafði Guð kannski mörg eyru og hvernig væri svarað? Væri eitthvað kerfi í svörunum? Væri þjónusta stórguðsins við smáfólkið svo alger að hún væri persónuleg og aðlöguð þörfum hvers og eins? Mamma var viss um að hvert orð væri heyrt sérstaklega og brugðist væri við öllum smáatriðum í bænum. En við ættum að muna að biðja alltaf í þeim anda að Guðs vilji verði áður en við lykjum með ameninu.

Svo kenndi mamma mér að bænirnar eru eitt, en líf okkar væri best og fegurst ef það væri ein samfelld bænaiðja. Líf okkar mætti helst vera þannig, að það væri eins og bænaferli. Milli morgun- og kvöldbæna væri tími, hugsanir, samskipti, vinna og verk sem trúmenn ættu að helga Guði, ekki síður en frátekinn bænatíma. Ég trúði þessu því mamma lifði í samræmi við trú sína. Bæn og ábyrgð fóru saman. Hennar kristindómur var sömu ættar og Hallgríms Péturssonar, að trú væri ekki tæki í þágu manns sjálfs heldur ástartengsl við uppsprettu lífsins sem við mættum rækta í þágu allra. Trú og verk, orð og æði færu saman. Tengsl við Guð hefðu afleiðingar til góðs fyrir aðra. Heit bæn er ástarkveðja og beinist að heimi ekkert síður en himninum.

Þegar ég eltist fylgdist ég stundum með helgistundum móður minnar. Þegar pabbi var dáinn, amma einnig og börnin flogin úr hreiðrinu, átti hún daginn og stundirnar og gat nýtt tímann í samræmi við eigin þarfir og langanir. Þá las hún skáldsögur, ljóð, frásögur og alls konar bókmenntir. Hún var kona orðanna. Svo las hún líka í Biblíunni góða stund og síðan í einhverri hugvekjubók. Þessar bækur bera merki um notkun. Síðan bað hún. Þegar heyrnin var farin til Guðs á undan henni, eins og Sigurbjörn Einarsson orðaði það, var hún farin að tala við Guð með nokkuð hærri rödd en áður og skeytti engu um hvort einhverjir væru nærri. Hún umvafði alla ástvini og fyrirbænarefni elsku sinni og sendi óhikað og með fullu trausti langt inn í himininn. Þetta var guðsþjónusta mömmu og allir dagar voru bænadagar.

Það var heillandi að hlusta á gamla konuna biðja fyrir ástvinum sínum. Að eiga sér fyrirbiðjanda er ríkidæmi. Þegar við, fólkið hennar, rötuðum í vanda í lífinu bar hún hann fram fyrir Guð. Þegar allt gekk vel og við nutum gæða og hamingju vissum við að það allt var einnig orðfært við Guð. Hún bað fyrir garðinum sínum og gróðri, nágrönnum og málum þeirra. Meira segja spretta og heyskaparhættir norður í Svarfaðardal voru mál sem hún taldi rétt að nefna við Guð. Ef einhvern hefur undrað árgæska nyrðra er kannski ein skýringin að kona við Tómasarhaga í Reykjavík var með á nótum og lyfti upp í himinhæðir.

Þegar mammna var á tíræðisaldri fékk hún tappa í heila og minnið hvarf að mestu. En trúin hvarf þó ekki eða samræðan við Guð. Í kjarna mömmu var músík sálarinnar, söngurinn um Guð og samtalið við Guð. Hvað ungur nemur gamall temur og fer í kjarnann. Það sem þjálfað hefur verið alla ævi nýtist á neyðarstund. Síðustu dagana í þessu lífi gat mamma ekkert talað. Þegar komið var að lífslokum hennar sat Elín Sigrún, kona mín, hjá henni og þá allt í einu og skyndilega opnaði mamma augun og sagði hátt og skýrt: “Amen!” Meira sagði hún ekki. En þetta amen var örugglega endir á bænagerð í huganum, því amen var ekki til eitt og sér heldur sem lokaorð í beinu samtali við Guð. Meira sagði móðir mín ekki í þessu lífi. Amen var hennar hinsta orð, lokorðið í allri orðræðu lífsins. Hún var bænakona og þegar lífi var lokið kemur amen og þá dó hún. Þegar amen er sagt heyrir eyra Guðs, opnar faðminn og svarar með ástarkveðju og iðju. Líf sem er bænalíf og endar með amen er gott líf.

Þetta þykir mér gott að rifja upp á bænadegi og til íhugunar fyrir okkur við byrjun nýs tíma í starfi Hallgrímskirkju. Ung kona hringdi í mig á föstudag til að panta kirkjuna fyrir hjónavígslu í haust. Hún vildi fá að ganga í hjónaband í kirkjunni því “Hallgrímskirkja er frábær“ sagði hún. Og við vorum sammála. Skömmu fyrir guðsþjónustuna áðan voru ferðamenn frá New York sem töluðu fjálglega um hve falleg kirkjan væri. Já, hún er hrífandi, björt og stílhrein. Kirkjan er líka gott ómhús fyrir söng og margar gerðir tónlistar. Listaverkin heilla einnig í þessum ljósmusteri. Stórkostleg verk Leifs Breiðfjörðs hrífa og margir staldra við Kristsstyttu Einars Jónssonar. Kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Hallgrímskirkja er fallegt hús því hún er hlið himins. Og slíku húsi tilheyrir list fyrir augu, eyru, munn, nef og sál. Hallgrímskirkja er stórstaður í borgarlandslaginu, jafnvel einkenni borgarinnar og lógó ferðamennskunnar. Hallgrímskirkja teiknar sjónarrönd Reykjavíkur. Þegar farið er yfir ferðasíður heimsins kemur í ljós að kirkjan er heimsótt sem kirkja. Stórmiðillinn the Guardian felldi þann úrskurð að kirkjan væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. Hingað hefur fólk komið til að fá gott samband, inná við, út og upp. Tugir milljóna ferðalanga lífsins hafa fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra. Þeir hafa náð sambandi við himininn. Og þannig hús á þessi kirkja að vera, staður til að tengja.

Kirkjan er oss kristnum móðir. „Komið til mín“ segir Jesús og Hallgrímur bætir við:

Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma …

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.

Íhugun á bænadegi og alþjóðlegum mæðradegi. 

Doktor Jesús Kristur og Matthías

Matthías Jochumsson var risi í menningarlífi Íslendinga, skemmtilega frakkur guðfræðingur og eitt besta sálmaskáld þjóðarinnar bæði fyrr og síðar. Í dag er eitt hundraðasta ártíð Matthíasar, en hann lést 18. nóvember árið 1920.

Matthías Jochumsson var samsettur maður og hugðarefnin voru því fjölbreytileg. Af bréfum og bókum hans má vel sjá hvílíkur lestrarforkur hann var. Hann reif í sig það, sem hann náði í og skrifaði síðan um stefnurnar, hugmyndirnar og bækurnar. Hann var afar hrifnæmur og hreifst af hverjum nýjum kenningavindi, sem honum barst. Þótt Matthías væri nýjungagjarn sagðist hann þó lesa eins og hann væri að lesa Sturlungu, taka það gott og gilt, sem honum þætti skynsamlegt! En eigið sjálfsmat getur blekkt, ekki síst ef skaphöfnin er ólgukennd. Líklega hefur blaðamaðurinn og fagurkerinn í Matthíasi verið öflugri en greinandi kerfissmiðurinn.

Guðfræðibyltur

Matthías var farvegur erlendra strauma í guðfræði. Hann var byltingamaður í flestum greinum mannvísinda og sérlega mikilvægur íslenskri kristni því hann vakti athygli landa sinna og þ.m.t kirkjumanna á þeim vatnaskilum, sem urðu með vísindahugsun nítjándu aldarinnar. Í ritum hans birtist sígruflandi hugur, sem ekki festi andans trúss við neina kreddu og kenningu. Matthías dró sjálfur saman eigin trúarstefnu og skoðanamyndun:

„…minn idealismus, minn individualismus og minn subjectivismus þolir engar kreddur eða mannlegar doctriner; þess vegna átti ég aldrei þjóðkirkjuklerkur – og kannske alls enginn – klerkur að vera.“

Þannig leit hann á og segir talsvert um stöðu þjóðkirkju fyrir liðlega hundrað árum. Þjóðkirkjan varð, m.a. fyrir tilstilli Matthíasar, rúmgóð og þolgóð kirkja, sem hvetur til fjölbreytileika og víðfeðmi.

Uppvöxtur

Matthías Jochumsson fæddist í Skógum í Þorskafirði á Marteinsmessu, 11. nóvember, 1835 og lést 18. nóvember árið 1920. Bernskuheimilið virðist hafa verið fjörmikill vettvangur andans. Þar var ákaft rætt um hræringar tímans og meðal annars um trúmál. Virðast foreldrar Matthíasar ekki hafa veigrað sér við að skoða annarlegar kenningar. Matthías vandist því þegar í foreldrahúsum umræðum um trúmál. Hann var sendur til starfa og náms í menningar- og verslunarmiðstöðinni í Flatey. Liðlega tvítugur fór hann utan og var veturinn 1856-57 í Kaupmannahöfn. Hann hóf síðan nám í Lærða skólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi árið 1863. Tveimur árum síðar lauk hann prófi frá Prestaskólanum, þá tæplega þrítugur.

Matti í Móum

Matthías var vel lesinn og hafði þegar tekið út nokkurn þroska áður en hann hóf nám. Hann var því sjálfstæður í skóla og fór eigin leiðir, svo sem sjá má í fjörlegri og bersögulli sjálfsævisögu hans Sögukaflar af sjálfum mér. Matthíasi var veitt Kjalarnesþing í ágúst 1866 og vígðist í maí 1867. Bjó hann á Móum og kallaði sig gjarnan Matta í Móum í bréfum á þessum tíma.

Dauðsföll og dramatík
Matthías var þríkvæntur. Elín Sigríður Didrichsdóttir lést annan jóladag 1868 eftir aðeins þriggja ára sambúð þeirra. Enn skemmri var sambúð hans með Ingveldi Ólafsdóttur, sem hann kvæntist í júlí 1870. Lést hún tæpu ári síðar í júní 1871. Gekk kvennamissirinn mjög nærri hinum geð- og tilfinningaríka Matthíasi. Festi hann ekki yndi við prestsskapinn og lagðist í útlandaflakk. Fór hann um Danmörk og Noreg 1872-73 og var í Englandi 1873-74. Í þessum ferðum kynntist hann mörgum andans jöfrum og peningamönnum. Var hann styrktur af enskum unitörum til að kaupa blaðið Þjóðólf og ritstýrði honum frá 1874-80. Vænkaðist og hagur hans í einkamálum.

Í júlí 1875 kvæntist hann Guðrúnu Runólfsdóttur og nutu þau samvista í 45 ár. Lifði Guðrún mann sinn. Þau eignuðust tíu börn! Matthías var prestur í Odda á árunum 1880-86 og síðan á Akureyri 1886-99. Bjó hann nyrðra til dauðadags og er heimili þeirra hjóna, Sjónarhæðir, varðveitt sem minjasafn.

Skáldskapur og ritstörf

Kunnastur er Matthías Jochumsson fyrir ritstörf sín. Eftir hann liggur gífurlegt magn af greinum, ljóðum, sálmum, þýðingum og öðru frumsömdu efni. Lofsöngin „Ó, Guð vors lands…“ samdi hann vegna hátíðahaldanna og konungskomunnar áruð 1874. Varð sálmurinn síðar þjóðsöngur Íslendinga.

Unitaraguðfræði

Þótt Matthías væri hverflyndur í trúarkenningum og menningarmálum, er þó kenningaslóði, sem hægt er að greina, í flestum ritverkum hans. Áberandi er, að Matthías virðist hafa aðhyllst ýmsar hugmyndir ameríska unitarans Channing. Matthías hafði þó aldrei þolinmæði til að fjalla skipulega um trúfræði eða samræma hugmyndir sínar. Þær voru í sífelldri mótun. Ritgerðir hans voru sem sjálfstæð myndverk en ekki hluti heildar. Skáldið skapaði fremur eindir en síður endanlegan heim heildar.

Matthías gerði skynsemi manna hátt undir höfði. Eins og margir guðfræðingar um aldamótin 1900 greindi hann skarplega að trú og kenningu. Kenningakerfi vildi hann fyrst og fremst nálgast með hjálp skynseminnar. Þótt Matthías væri ávallt hinn heitasti trúmaður vildi hann lesa Biblíuna fyrst og fremst með hjálp vitsmuna.

Guðsmynd Mattíasar

Þær hugmyndir, sem Matthías gerði sér um Guð, eru í anda rómantísku stefnunnar. Guð, sem hann tilbað, var Guð jafnvægis, en jafnframt skapandi Guð, sem kallað hefur fram allan heim. Matthías trúði því, að Guð væri alls staðar að starfi. Ekki áleit hann, að Guð væri sama og heimur. Hann var ekki algyðistrúar (panteismi). Hann var fremur pan-en-teisti. Það merkir, að Matthías lagði áherslu á, að Guð sé með ákveðnu móti í heiminum. Allt efni, frá hinu smæsta ódeili til hinna stóru stjörnukerfa, taldi hann gegnsýrt veru Guðs. Þessi guðsívera einkennist af lífi, ljósi og kærleika. Mönnum er auðið að njóta þessarar návistar eða sljóvga hana og kæfa. Okkur er í sjálfsvald sett, hvort við leyfum guðsstarfinu að vinna gott eða hvort við drepum það í dróma.

Matthías virðist ekki hafa efast um, að Guð væri algóður og réttlátur. Hins vegar átti hann erfiðara með að viðurkenna réttmæti þeirrar kenningar, að Guð væri þríeinn. Hann trúði á Guð föður, en síður á Guð í þremur hlutverkum, í mynd föður, sonar og anda. Guð hans var faðir lífs, máttugur kraftur, sem kallar líf úr dauða, bregður ljósi upp í myrkri, útdeilir gæsku í kröppum kjörum og leiðir með umburðarlyndi breisk börn sín til þroska og visku.

Doktor Jesús Kristur

Kristsdýrkun Matthíasar var ávallt mikil. Svo er að skilja á sumu því sem hann skrifar, að Jesús Kristur hafi verið lítt meira en maður. Aldrei virðist hann þó hafa efast um, að Jesús hefði mjög mikilvægu hlutverki að gegna í mannheimi sem fulltrúi Guðs, siðferðisviðmið, lærimeistari og fullkominn maður. Hann talaði jafnvel um hann, sem doktor Jesú Krist! Eftir því sem árin færðust yfir Matthías óx Kristsdýrkun hans þó hann tæki ekki beinlínis fræðilegum afleiðingum af tilbeiðslu sinni.

Höfuðlausnir og möguleikar

Eins og margir unitarar og rómantískir hugsuðir á nítjándu öld hafði Matthías mikla trú á möguleikum manna til sigra í heimi andans. Hann trúði á siðferðilegar framfarir manna. Hann taldi, að mannkyn væri á þroskabraut. Hann tók mjög nærri sér böl, vonsku og hörmungar, bæði í einkalífi og preststarfi. Fátt var honum erfiðara viðfangs en dauði ungmenna. Eitt erfiðasta verkið í lífinu þótti honum að tilkynna ekkju lát sona hennar. Oft rugluðu tilfinngarnar hann og í aðkrepptum eða yfirspenntum aðstæðum vissi hann ekki sitt rjúkandi ráð. Trúarlíf hans var líkara stríðum straumi og ólgandi hafi en lygnum sæ. Margir sálmar hans urðu til við sorgarglímu og voru n.k. höfuðlausnir. Sér og öðrum til hugarhægðar talaði Matthías um mannkyn í anda dæmisögu Jesú um glataða soninn. Hann taldi, að skuld manna væri stór við höfund lífsins og að allt væri að láni; heilsa, líf, gáfur og gæði. Gegn hinum myrku þáttum mannlífs barðist hann, en vildi samt ekki gera of mikið úr þeim.

Allir með

Í ljósi skynsemisáherslu og bjartsýnnar heimsskoðunar hafnaði Matthías fornum kenningum um útskúfun og glötun. Lenti hann í stælum um þau atriði frá og með 1891 og varð hann að draga í land, sjálfsagt gegn betri vitund. Biskup bað Matthías, sem þá var þjónandi prestur, að taka orð sín aftur um ógildi útskúfunarkenningarinnar. Almannrómur taldi, að ef hann hefði ekki beðist velvirðingar á skrifum sínum, hefði hann verið sviptur hempunni. Svo mun þó ekki hafa verið.

Guð getur

Skáldpresturinn fetaði eigin stigu. Þrátt fyrir bölið í heiminum hélt Matthías fast í trúna á góðan Guð. Hann möglaði við Guð og menn og leysti ekki með vitsmunum, fremur en aðrir, gátuna miklu um eðli þjáningarinnar. En Matthías átti sér lausnarleið. Hann skaut gjarnan þungbærum þrautum og torráðnum gátum til Guðs, sem hann treysti fyrir leyndustu hörmum og taldi Guð eiga ráðsnilld gagnvart hvers kyns vanda.

Þegar líf, ljóð og skrif Matthíasar eru skoðuð blasir við glíma trúmannsins við Guð. Ritverk hans eru flott, en mesta gildi Matthíasar er hvernig hann túlkar þau fangbrögð. Kreddur og kerfi vöfðust aldrei fyrir honum hvernig sem í hann var rifið hið innra eða ytra. Þótt allt brysti hvarf honum aldrei samfylgd hins guðlega. Það heitir trú á máli kristninnar. Matthías er ekki mesti trúarhugsuður Íslendinga en eitt af bestu trúarskáldum síðustu tveggja alda. Og hann var þjóðskáld.