Greinasafn fyrir merki: paradís

Himinn í mömmubumbu

Á þessum mæðradegi ræðum við um himininn og móður allrar miskunnar, Guð. Margar sögur eru um hvernig fólk hugsar um líf handan dauða. Lína langsokkur var móðurlaus og horfði oft upp í himininn og hugsaði um mömmu sína. Henni fannst hliðin, sem að okkur snýr, öfuga hliðin á himninum, vera falleg og dró því þá ályktun, að hin hliðin hlyti að vera enn betri fyrst rangan væri svona flott.

Veraldarvefurinn ber vott um, að himininn er mikilvægt umhugsunarefni. Ég fletti með Google og komst að því að 640 milljón síður koma upp þegar leitað er undir orðinu heaven. Himmel vísaði á 173 milljónir síðna. Og þegar íslenska orðið himinn var sett inn voru vísanirnar 634 þúsund. Paradís er það, sem flestir vona og um það efni eru á vefnum 664 milljónir vísanir.

Himnaríkisdæmi

Áhuginn er mikill, en svo eru hugmyndirnar um himnaríki mjög mismunandi. Allir foreldrar þekkja glímuna við að skýra út dauðann fyrir börnum, lífsför langömmu eða afa inn í eilífðina. Síðan verður að skýra hvar Guð býr og hvar ekki. Barnið gerir sér bókstaflegar ímyndir og skýringar. Niður er vont, upp er gott.

Í Gullna hliðinu notaði Davíð Stefánsson – í viðbót við stefin úr Opinberunarbók Jóhannesar – kotbændatúlkun á himinhliðinu. Húmor er til hjápar við að nálgast flókin mál, en kannski fjallaði Gullna hliðið fremur um meðvirka eiginkonu hins látna en ferð þeirra hjóna að himinhliðinu!

Í Islam hefur himindýrðin verið útmáluð með munúðarfullum sögum um líkamsnautnir hinna hólpnu í Paradís. Í fornöld vildu norrænir spennufíklar og dýrkendur hermennsku gjarnan halda leikjum áfram. Í Valhöll var hryllingi stríðsins sleppt en haldið í gamanið. Spíritistar fregnuðu og kenndu á sínum tíma, að himinvíddir væru alla vega sjö og sálin færi mishratt um þær veraldir á þroskaferli sínum. Joe Hill talaði um “You’ll get pie in the sky, when you die.” Astrid Lindgren dró upp dásamlega veröld í Rósadal Nangijala í bókinni Bróðir minn Ljónshjarta, sem flestir íslenskir krakkar hafa heyrt eða lesið. Himnaríkið, sem Astrid Lindgren lýsti, var þróunarveröld rétt eins sálarheimar spíritista.

Frá hinu þekkta til hins óþekkta

Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar

Hvernig verða himnaríkismyndir til? Eins og barnið, sem sér stjörnurnar og skilur með sínum forsendum, erum við öll misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn og skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing. Við getum aldrei talað um himininn í öðru en líkingum. Myndmálið er tæki til að tjá það, sem við höfum hugboð um, dreymir um og vonum.

Til að staðsetja trúarhugmyndir okkar, sem varða himnaríkið og framhaldið, ættum við íhuga fyrst hvernig við manneskjurnar hugsum. Það er þarft að muna hvernig við lærum og þroskumst. Við byrjum alltaf þar sem við erum, lærum út frá því sem við kunnum, skiljum alltaf út frá hinu þekkta.

Himinvarp

Munum, að menn varpa þrá og djúpsettum hugmyndum upp á himin vonanna. Það þarf ekki mikið hugarflug til að gera sér grein fyrir að þá múslima, sem dreymdi munúðarfulla drauma um tilkippilegar meyjar, voru kynsveltir karlar. Kannski má sjá í elýsesískri þægindaveröld Grikkja að einhverju leyti vörpun á vonum þeirra, sem var annað hvort of heitt eða kalt. Vísast var Valhallarveröldin draumur hermanna og spennufíkla, sem hræddumst hrylling stríðs en þráðu spennuna áfram. Gullslegin hús og prýdd veröld himnaríkis er vörpun á þrá hins fátæka manns. Kannski er Disneyland einna besta raungering hinna barnalegu drauma.

Himnaríkið þitt

En hvert er þitt himnaríki? Íhugaðu og virtu vonir þínar og reyndu að greina þína himinveröld. Það er mikilvægt og frjótt að vinna það verk því þá lærir þú betur að þekkja þig. Þér mun örugglega ekki takast að búa til himininn. En ef þér lánast vel gerir þú þér kannski betur grein fyrir takmörkunum sjálfs þín, mörkum hinnar mannlegu ímyndunar og skilnings og hvert er sumarland þinnar dýpstu þrár.

Búa ykkur stað

Verið ekki áhyggjufull minnir Jesús vini sína á í guðspjalli dagsins. Ég fer frá ykkur til að undirbúa framtíðarveröld ykkar, búa ykkur stað því vistarverur guðsríkisins eru svo margar að komu ykkar þarf að undirbúa. Tómas var nægilega jarðtengdur og í sambandi við sjálfan sig að hann viðurkendi, að hann skildi Jesú ekki, vissi ekki hvaða leið lægi til ríkis Guðs og hvernig himnaríkið yrði. Hvernig eigum við að vita hvaða leið við eigum að fara?

Jesús tekur af allan vafa um, að það sé hann sem opnar hliðið, það sé hann sem gerir veginn og segir efasemdarmanninum Tómasi, að hann sé vegurinn sjálfur, sannleikurinn og lífið. Þar með gerði hann grein fyrir himninum, skýrði út eðli og gerð hans.

Fósturhugmyndir

Oft horfi ég dáleiddur á litlu börnin, sem ég skíri og velti vöngum yfir upplifunum þeirra og hugsunum. Einu sinni varstu svona peð. Hvað hugsaðir þú, hvernig var veröld þín? Var hún ekki talsvert ólík veröld þinni nú?

Og hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þá slakaðir þú á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Vissir þú í móðurbumbunni nokkuð um bíla, neyslu, fátækt, kreppu eða loftslagsvá? Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlegið skildir þú hana ekki. Þú og öll börn fæðast fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Eitt skref í einu og góðir hlutir gerast hægt. Góðar mömmur og góðir pabbar eru undraverðir leiðbeinendur og þroskavakar. 

Hin stórkostlega fæðing

Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hafði allt og síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og það er okkur til skilningsauka þegar við hugsum um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Hvernig verður hinum megin? Getur þú ímyndað þér það? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur ímyndað þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér.

Margir eiga í erfiðleikum með trú og eru kvíðnir gagnvart óvissuferðinni inn í eilífðina. Fólk á í erfiðleikum með hvað við tekur, reynir að fá botn í hugsanir sínar, uppgötva með skynsemi sinni um framhaldið. Að vera kristinn er að fylgja Jesú alla leið. Hann dó en hann reis upp. Þú munt deyja, allir þínir munu deyja, en Jesús vill að þú og allt þitt fólk rísið upp til eilífs lífs. Hann fór alla leið og leiðir þig leiðina líka. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Þú mátt horfa með augum barnsins og ímynda þér réttuna á himinum. Þú getur gert þér grein fyrir, að allt eru þetta aðeins vísbendingar því þú ert í móðurkviði náttúrunnar. Þú átt eftir að fæðast til réttunnar, inn í faðm þeirra sem elska þig. Og sá móðurfaðmur er Guð. Jesús Kristur, er búinn að hanna og smíða stórkostlega veröld. Þar eru vistarverur handa þér. Við vitum ekki hvernig hún verður nákvæmlega, því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing heldur er mál Biblíunnar myndrænt, hliðstæðu-orðræða. En þú mátt trúa Jesú, að hann verði nærri og það er aðalatriðið.

Ferðin þín inn í eilífðina byrjar ekki í framtíð, heldur í bernsku þinni, þegar rétta himinsins umvafði tilveru þína við skírnarfontinn. Eilífðarlífið er byrjað í þér – það byrjaði í skírninni. Þú ert á meðgönguskeiði en fæðing til himins verður síðar. Notaðu lífið, þessa meðgöngu anda þíns og sálar til að leyfa hinum andlegu líffærum að þroskast vel. Stressaðu þig ekki yfir því þótt þú skiljir ekki öll hljóð og áhrif himinsins nú þótt þau berist þér í gegnum náttúrubumbuna og móðurleg kirkjunnar. Þegar þú deyrð, fæðist þú til nýrrar tilveru og þá muntu sjá ljós, liti og dýrð sem tekur fram öllu því, sem þú ímyndar þér á fósturskeiði trúar þinnar. Spennandi! Já, svo sannarlega því lífið lifir fyrir Jesú Krist.

Hallgrímskirkja 3sdepaska 2019, mæðradagurinn, messunni úrvarpað á RÚV. Slóðin verður opin einhverja daga: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/gudsthjonusta/24228?ep=7hi3bm

Lexía: Slm 126

Þegar Drottinn sneri við hag Síonar
var sem oss dreymdi.
Þá fylltist munnur vor hlátri
og tungur vorar fögnuði.
Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
„Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“
Drottinn hefur gert mikla hluti við oss,
vér vorum glaðir.
Snú við hag vorum, Drottinn,
eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi.
Þeir sem sá með tárum
munu uppskera með gleðisöng.
Grátandi fara menn
og bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.

Pistill: 2Kor 4.14-18
Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.

Guðspjall: Jóh 14.1-11
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.