Greinasafn fyrir merki: ofbeldi

Golgata New York

2977 létust í árásunum á tvíburaturnana. Eins og margar þúsundir annarra vitjuðum við Golgata New York þennan föstudaginn langa. Vonskan er söm á öllum öldum og drepur. Nöfn þeirra sem voru drepin voru skráð á barma minnismerkjanna. Nútímasaga um grimmd og djöfulskap settist að flestum. Það var flaggað í hálfa stöng á Wall Street. Þennan daginn fór ég ekki í Hallgrímskirkju að hlusta á passíusálmalestur og íhuga. En Hallgrímur var í huga mér og Jesús Kristur með mér þegar ég horfði yfir minnismerkin og á allt fólkið sem barðist við tilfinningar sínar og hugsanir. Einkennileg harmkyrrð settist að – dauði, þjáning, lífsvon. Það var gott að vera ekki á svona stað einn heldur á lífsför með mínu fólki. Guð geymi þetta fólk og varðveiti í okkur lífsstefnu himinsins.

Nr 7 Þú skalt ekki stela

Föstudaginn 15. mars dreif að ungt fólk úr öllum áttum og allir stefndu að Hallgrímskirkju. Unglingar í 8.-10. bekk og fjöldi úr framhaldsskólunum og nokkur eldri líka. Þau komu með mótmælaspjöld, litrík spjöld með hvatningarorðum um aðgerðir í náttúruverndarmálum: „Ekki stela framtíðinni.“„Það er engin pláneta B.“ „Framtíð okkar er í húfi.“ Þau voru komin til að mótmæla loftslagsmengun og hvöttu til aðgerða. „Gerið eitthvað áður en það er of seint“ stóð á mörgum spjöldum. Sum mótmælenda fóru að föstutré Hallgrímskirku, sem hafði verið flutt úr kórnum og út á Hallgrímstorg. Unga fólkið batt bænabönd á tréð og mislit böndin táknuðu mismunandi bænir. Föstutréð er birkitré og er að bruma og grænkar smátt og smátt. Svo gengu þúsund mótmælendur af stað undir söng kirkjuklukknanna niður Skólavörðustíginn og niður á Austurvöll.

Stela framtíð?

Í huga mér hljómaði setning Gretu Thunberg til heimsbyggðarinnar og skilaboðin voru á spjöldum líka: „Þið stelið framtíð okkar.“ Þeirri ákæru er beint til valdhafa og forréttindafólks heimsins, sem keyra áfram neyslukapphlaupið. Unga fólkið vekur athygli á stóru málunum og vill ekki að neinn steli framtíðinni. Þau berjast gegn stuldi lífsins. Ég stóð svo við Leifsstyttuna og horfði á eftir framtíðarfólkinu, sem vill góða framtíð en ekki mengaða veröld. Ég og mín kynslóð getum ekki annað en viðurkennt, að við höfum brugðist því hafið er að fyllast af plasti, hitastig lofthjúps jarðar er að hitna vegna okkar neyslu. Hreint vatn, sem er öllu lífi nauðsyn og raunar bæði náttúruréttindi og mannréttindi, er dýrmæti sem aðeins minnihluti mannkyns nýtur. Stelum við? Ætla ég að vera þjófur? En þú? Að menga er að stela heilbrigði annarra. Að stela framtíðinni er stórkostlegt afbrot – dauðasynd.

Sjöunda orðið

Þessar vikurnar ræðum við Hallgrímskirkjuprestar um boðorðin. Við vissum vel, að boðorðin eru merkileg. En við höfum líka enduruppgötvað hve andi þeirra er nútímalegur þegar búið er að skræla frá umbúðir fortíðarsamfélags. Boðorðin eru lífsviska, áttavitar fólks, sem vissi hvað þrælabúðir voru og hvað þrældómur spillts valds gat verið hræðilegur. Boðorðafólkið vildi ekki búa við helsi heldur frelsi. Og heilbrigt samfélag verður ekki til nema að fólk njóti mannréttinda og samfélagið hafi góðar reglur sem hemja ofbeldi. Fólk er ekki og má aldrei vera bara hjól í vél, tæki í þágu valdahópa. Gott samfélag verður til þegar fólk fær að vera það sjálft og fullveðja. Inntak boðorðanna er virðing fyrir Guði en líka djúp, ástrík virðing fyrir mönnum. Boðorðin tjá manngildi og mikilvægi mennskunnar.

Að stela fólki

Í dag beinum við sjónum að sjöunda boðorðinu. Hvernig er það? Jú, þetta sem bannar að stela. Þegar ég fór að skoða uppruna þess brá mér. Sumir fræðimenn sem sé telja, að þetta boðorð hafi upprunalega ekki verið vörn fyrir eignarrétt, heldur hafi fremur átt við fólk. Boðorðið hafi eiginlega verið bann við að stela fólki, gera fólk að þrælum, kaupa og selja þræla. Í hefðum Gyðinga hefur um aldir verið lögð áhersla á, að boðið varði mannrán. Þetta breytti sýn minni og skilningi á boðinu og opnaði það. Allt í einu varð boðorðið ágengara en sjálfsögð sannindi um efnislega hluti. Boðorðið er þá ekki bara almennt um fjármálagjörninga, viðskipti, kaup og sölu eða vernd eignarréttar, sem vissulega er mikilvægt í siðuðu samfélagi. Boðið varðar fremur fólk en eigur þess. Ef við manntengjum boðorðið verður betur skiljanlegt, að Jesús túlkaði siðfræði og lagahefð þjóðar sinnar fremur í þágu fólks en peninga. Við vitum, að Jesús var alltaf með hugann við velferð einstaklinga. Hann talaði um manngildi óháð lit, kyni og stöðu fólks. Hórseka konan var honum jafn mikils virði og musterispresturinn. Útlendingurinn var í huga hans jafngildur Gyðingum. Þorparinn var jafn mikilvægur og landstjórinn. Það var ekkert við og þið, yfirstéttin og undirsátar, betri og verri. Jesús felldi saman öll boðorðin og siðvit hebrea og Gyðinga og sagði, að aðalmálið væri, að við elskuðum Guð og náungann eins og okkur sjálf. Gullna reglan og tvíþætta kærleiksboðið? Það eru boðorðaprédikanir Jesú.

Manngildið og mennskan

Í ljósi þessarar manngildisáherslu las ég í liðinni viku greinar, blöð og fréttir með nýjum hætti. Boðið gegn því að stela getur átt við eða gilt fyrir öll þau tilvik þegar einhverjir brjóta á öðru fólki, ræna tíma og rétti, æru og vinnu, frelsi og lífsgleði. Það eru þjófar skv. boðorðinu, sem gera lítið úr skólafélögum og einelta aðra. Þeir pabbar eða mömmur, sem fara illa með börn sín og ástvini, svifta þau bernskunni eru þjófar. Það eru margir þjófar í hjónaböndum, sem fara illa með maka sína. Þeir stela raunverulega. Þjófarnir eru víða. Ertu þjófur? Stelur þú? Kannski ekki peningum, en stelur þú lífsgleði annarra, hamingju eða möguleikum? Og stelur þú framtíðinni?

Stela bernskunni

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, sagði frá í nístandi blaðaviðtali í Morgunblaðinu, að þegar hann var átta ára þegar hann var misnotaður. Þrír ofbeldismenn níddust á honum og rændu hann bernsku og lífshamingju. Ofbeldi af því tagi er brot á mörgum boðum – slíkir menn eru bófar, þeir eru þjófar og ræningjar mennskunnar. Og það hefur verið verkefni Sævars Þórs að vinna úr þessu ofbeldi síðan. Og nú hefur Sævar Þór lagt draugana til hvílu – vonandi hinnar hinstu. Í haust, 2. október, mun hann segja frá – hér í Hallgrímskirkju – hvernig hann lifði af þetta bernskurán og brást við. Það er merkileg og rosaleg saga, sem hann hefur að segja, en líka saga um upprisu og hvernig fólk getur brugðist við missi, brotinu á sjöunda boðorðinu – og brotum á anda boðorðanna.

Eltihrellar stela

Ásta Ragnarsdóttir, hjá Bakkastofu á Eyrarbaka og fyrrum námsráðgjafi í Háskóla Íslands, sagði frá því fyrir skömmu, að hún hefði orðið fyrir barðinu á eltihrelli, sem sendi henni hræðilega hótunarpósta. Ástu var hótað líkamsmeiðingum, íkveikju og fleiri skelfingarefnum. Börn Ástu og Valgeirs Guðjónssonar, manns hennar, læstust inn í svartholi þessarar aðsóknar. Að lokum bognaði Ásta gagnvart hryllingnum, sagði sig frá vinnu sinni til að reyna að slíta sig frá ofsóknarfólkinu. Eltihrellar valda skaða, stela friði heimilis og fjölda fólks, meiða sálir og valda andlegum og félagslegum hörmungum. Eltihrellar eru þjófar og í sumum tilvikum morðingjar líka. Þeirra glæpur er rosalegur. En það var mikilvægt og hetjulegt, að Ásta sagði þessa sögu.

Rán á heimilum

Mörg okkar munum eftir bókinni Myndin af pabba,sem er saga Thelmu Ásdísardóttur. Í bókinni er sagt frá ofbeldi, sem faðir Thelmu beitti hana, systur hennar og fjölskyldu. Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, skráði söguna og bókin stuðlaði að viðhorfsbreytingu Íslendinga (og endurskoðunar samfélagsins og þar með dómstóla) varðandi kynferðisofbeldi. Gerður Kristný hefur skrifað fleira um þetta þungbæra efni og m.a. áleitna og nístandi ljóðabók Sálumessu, sem var gefin út á síðasta ári – 2018, sem kallast á við efni Thelmubókarinnar. „Það sem aldrei er rætt virðist ekki vera til,“ segir Thelma (s. 215) í frásögn sinni af kynferðisofbeldi bernskunnar. Myndin, sem Thelma dró upp af föðurnum, er skelfileg, en sýnir einnig að hann var ekki bara djöfull í mannsmynd, heldur persóna sem átti líka góðar hliðar. Saga Thelmu er lýsing á hvernig hún, sem þolandi ofbeldis, gat snúið sér til lífs, birtu og frelsis. Thelma varð fyrir því, að faðir rændi hana og systur hennar bernskunni og fjölskylduna hamingjunni. Þessi pabbi var þjófur. Og þannig er það í mörgum fjölskyldum og mörgum hjónaböndum. Margir makar eru þjófar í samskiptum. Býrðu við stuld í þínum tengslum? Viltu að stolið sé af þér?

Að segja sögurnar er mikilvægur eflingargjörningur og heilsuátak hversu erfitt sem það nú er fólki. Sævar Þór,  Ásta og Thelma eru hetjur. „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ sagði Jesús Kristur. Þau orð eru sönn. Sú speki, er líka skráð í hornsteini Alþingishúss okkar Íslendinga og varðar okkur öll.  

Endurskoðun og framtíðin

Þegar við endurskoðum boðorðið um stuld – og tengjum við fólk en ekki bara fé – opnast ýmsar gáttir. Þú skalt ekki stela. Já, við eigum ekki að stela peningum og við eigum að vernda eignarréttinn. Og ég uppgötvaði, að við ættum helst að hugsa um þetta boð í tengslum við fólk. Allt fólk er dýrmætt, djásn í augum Guðs. Fólk, sem er notað, er rænt og af því stolið. Virðum fólk og stelum engu af lífsgæðum þess, frelsi, tíma og sjálfsvirðingu. Við erum öll jafngild, óendanlega dýrmæt. Jesús mat einstaklinga og eilíft gildi þeirra. Þannig megum við einnig vera. „Þið stelið framtíð okkar“ segir framtíðarfólkið. Nei, við viljum ekki stela. Við viljum lifa með ábyrgð í nánum samskiptum, í samfélagi okkar, í uppeldi, vernd gilda og náttúru. Og andi boðorðanna er að elska Guð, virða fólk og vernda líf.

Hallgrímskirkja 24. mars 2019. 

Lexía: 2. Mós 20.2-3,15

Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. … Þú skalt ekki stela.

Pistill: Róm. 13.8-10

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Guðspjall: Matt. 6.19-24

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið. Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.

Að ræna maka sinn

Ég hef orðið vitni að þjófnaði, líka ráni þar sem ofbeldi var beitt. Og svo þekki ég marga, sem hefur verið stolið frá. Minning um stuld, rosalegan þjófnað, hefur sótt á mig síðustu daga og hún kemur úr minningasafni námsára minna í Bandaríkjunum.

Kínversk hjón byrjuðu á sama tíma og ég í doktorsnámi við Vanderbilt-háskóla í Tennesse. Ég veitti þeim enga sérstaka athygli í fyrstu. En svo voru þau í einu námskeiði með mér. Þá reyndi ég að ræða við þau og komst að því að þau komu frá Hong Kong. Bæði höfðu lokið BA-prófi í heimaborg sinni. Þar kynntust þau og þar ætluðu að vera þegar doktorsnáminu lyki í Ameríku. Karlinn var skráður á sama fræðasvið og ég; trúfræði, trúarheimspeki og hugmyndasögu. Ég reyndi ítrekað að ræða við hann, en hann virtist forðast samtöl. Ég hélt að hann væri bara feiminn og óframfærinn. Kona hans var hins vegar í Nýja-testamentisfræðum og strax á fyrstu vikunum furðaði ég mig á, að hún sótti tíma með bónda sínum en þaut svo í eigin tíma á milli. Karlinn hlustaði í tímum en skrifaði ekkert niður og talaði aldrei ótilneyddur. Konan var hins vegar þeim mun iðnari, skrifaði glósur af miklum móð, hlustaði með öllum líkamanum en sagði fátt.  Aldrei sóttu þau fundi utan tíma né komu í samkvæmi nemenda. Þetta kínverska par var mér og félögum mínum fullkomin ráðgáta.

Svo leið tíminn. Kínverski karlinn hikstaði eitthvað í verkefnaskilum og kennararnir höfðu áhyggjur af honum, en frú hans skilaði öllu og stóð sig vel. Svo kom langur og lýjandi prófatími, en þá varð sprenging. Einn daginn hentist sú kínverska inn í skóla og inn á skrifstofu eins kennarans. Hún var í miklu uppnámi, bólgin af gráti og sagði: „Ég get ekki meira. Ég er búin. Ég er að fara yfirum.“ Sagan kom svo í bútum og milli ekkasoga, táraflóða og angistarhljóða. Eiginmaður hennar var af yfirstéttarfólki kominn. Hann var vanur þjónustu og óvanur að leggja hart að sér. En eiginkonan var hins vegar vön að vinna og hafði alltaf komið sér áfram vegna eigin verðleika. Hún var klára stelpan í hópnum og hann féll fyrir snilli hennar og getu. Og svo þegar þau fóru að tengjast fannst henni sjálfsagt að hjálpa honum með námið því hann var raunverulega hjálpar þurfi. Vegna þjónustu hennar fór honum að ganga skár í háskólanum í Hong Kong og kláraði prófin. Þau gengu í hjónaband áður en þau fóru til Ameríku. Þegar þangað var komið gekk karlinum illa að aðlagast. Hún varð að vinna flest verk. Honum fannst, að þar sem hún væri konan hans yrði hún að aðstoða hann. Hún varð því ekki aðeins rúmfélagi, kokkur, þvottakona, sendill, kennari og sálfræðingur heldur ritarinn hans líka. Hann ætlaðist til að hún kláraði það, sem hann kom ekki í verk. Hún varð að sækja tíma með honum til að tryggja að hann skildi og skrifa svo ritgerðir fyrir hann líka. Doktorsnám er full vinna en að klára tvöfalt doktorsnám sem þræll er ógerningur. Karlinn varð fúll, beitti konuna ofbeldi og hún brotnaði niður.

Kennararnir, námsráðgjafarnir og starfslið skólans vann úr þessu skelfilega máli, virti sögu konunnar og ræddi við mann hennar. Þeim var báðum veitt aðstoð. Konan gat ekki búið við harðræðið og þráði frelsi. Hún komst að þeirri niðurstöðu að leiðir yrðu að skilja. Hann myndi aldrei sætta sig við uppreisn hennar og að hún „niðurlægði“ hann. Hún skildi því við karlinn. Honum var vísað úr skóla og sneri heim til Hong Kong með skömm. Hann hafði stolið frá konu sinni frelsi, gleði, lífshamingju, sjálfsvirðingu, ást og stofnaði til nauðungar og þrældóms hennar. Að lokum gat hún ekki meira og vildi ekki lengur láta stela af sér, ræna sig. Að skilja við manninn var eina leið konunnar úr þrældóminum.

Þú skalt ekki stela. Sjöunda boðorðið er ekki bara um peninga og eignarrétt. Andi orðanna varðar manngildi og lífsgæði, sem eru mikilvægari en peningar eða efnisgæði. Jesús túlkaði boðorðin með vísan til hins mikilvægasta. Það eru Guð og menn eins og sést í tvíþætta kærleiksboðinu. Gyðingar hafa um aldir vitað og kennt að fólk skiptir meira máli en fjármunir. Við megum læra af og ættum að útvíkka túlkun okkar á sjöunda boðorðinu. Við megum ekki stela fólki, ekki stela af fólki né heldur ræna það. 

 

#Metoo

Myllumerki og metoo er tákn fyrir þær sögur, sem sagðar eru um kynferðilega áreitni og ofbeldi. Miklar umræður urðu um ofbeldi gegn konum í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016 og skerptu athygli fólks og fjölmiðla á víðtækum vanda. Og svo var það Harvey Weinstein, trölli í kvennaheimum Hollywood. Fæstir töldu mögulegt að snúast gegn kvikmyndapáfanum því hann var svo valdamikill og stýrði að auki her spæjara og stjörnulögmanna. En upplýsingarnar um dólginn söfnuðust upp og New York Times var tilbúið að sýna sorann. Fréttirnar voru svo rosalegar að það var eins hamfarir hefðu orðið. Valdakerfið og þagnarmúrinn í kringum þetta kynferðislega rándýr féll. Upplýsingarnar um atferli mannsins, aðstoðarmenn hans og rotinn menningarkima voru hörmulegar. Í ljós kom að í kringum Weinstein var fjöldi fólks sem þagði. Þau vildu ekki eða þorðu ekki að mótmæla ofbeldinu sem allir vissu þó um. Gerendur eru sekir, en hvað um hin? Eru þau, sem þegja saklaus eða meðsek?

Dólgurinn féll og bylgja reis. 15. október síðastliðinn hvatti Alyssa Milano konur á twitter til að segja frá ofbeldi og nota #metoo. Á nokkrum dögum varð til heimshreyfing. Allt í einu fengu konur vettvang til að tala og segja reynslusögur sínar. Þær gátu allt í einu sagt frá káfi, orðasora, áreitni og kynferðisofbeldi. Þessar sögur um er stærsti sagnabálkur ársins. Sannar sögur samtímans og samfélagsmiðlarnir loguðu. Konurnar sem byrjuðu #metoo eru persónur Time þetta árið og stíliseruð myndin á forsíðu tímaritisins er táknræn.

Um allan vestrænan heim hafa hryllingssögur úr raunheimum verið sagðar, sögur um rándýr í stjórnmálum, vísindasamfélaginu, réttargæslukerfinu, listaheiminum, íþróttahreyfingunni og öðrum menningarhópum. Vargarnir, margir karlkyns en líka kvenkyns, eru alls staðar, í líka í góðgerðarfélögum og trúfélögum. Þolendur eru konur, börn, líka karlar, þau sem standa höllum fæti gagnvart einhvers konar valdi, sem gerendur notfæra sér. Hver á sökina: Gerendur eða þolendur? Og hvað svo?

Réttlæti er mál trúar

Á aðventu er skoðað hvað er gott og hvað vont. Aðventa er að vænta þess sem Guð er og Guð megnar. Það er fagnarefnið – dásemdin. Við væntum hins góða og því er aðventan hreinsunartími – undirbúningstími. Það kemur fram í textum kirkjunnar á þessum tíma. Jesús minnir okkur á að huga að breytingu í tíma, vorkomunni. Og þessi texti er lesinn um miðjan vetur. Í lexíu dagsins er minnt á, að gott mannfélag virðir réttlæti. Réttlæti og friður eru systur. Þegar þær dafna ríkir jafnvægi kraftanna. Börnin leika sér við holu nöðrunnar og stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn gerir illt því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni“ segir þar.

Hvernig er samfélag okkar? Eru engin stungin af nöðrum og höggormum? Jú, mörg eru áreitt, misnotuð og verða fyrir yfirgangi eða ofbeldi. Og það varðar trú og gott mannlíf. Margir karlkyns prestar og djáknar í þjóðkirkjunni hafa sent frá sér yfirlýsingu gegn áreitni og ofbeldisseggjum. Konur í hugbúnaðar- og auglýsingageiranum eru sama sinnis. Á fimmtudaginn síðasta birtu 333 konur í Kítón, félagi kvenna í tónlist yfirlýsingu um að þær vilji fá að vinna vinnu sína án áreitni, ofbeldis eða mismununar. Um liðna helgi tjáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að nafgreindir Íslendingar hefðu hvatt til að henni yrði nauðgað. Ekkert var gert í málinu á sínum tíma, dólgarnir voru ekki dregnir til ábyrgðar en hún og fjölskylda hennar urðu þolendur.

Flestum þykir áreitni og ofbeldi vera alvörumál, sem sporna verði við. En spyrja má: Hvernig tengist það trú, kirkju og aðventu? Og svarið er einfalt: Trú og kirkja standa með þolendum. Það er skilgreiningaratriði kristninnar, að Guð sér þolendur, kemur og hjálpar. Fólk, sem játar kristna trú, lætur sig alltaf varða heill og hamingju fólks. Trú er ekki og má aldrei vera flótti frá lífinu. Trú er og á að vera stefna til lífs og fyrir líf. Trú, sem ekki lætur sig fórnarlömb varða, er sjúk trú og á flótta bæði frá Guði og mönnum.

Spámenn gamla testamentisins voru óþreytandi að benda á, að heill samfélagsins væri mál trúar. Trú skv. þeirra boðskap var samfélagsmál. Jesús Kristur sá alltaf einstaklinga og beitti sér í þágu barna og kvenna – allra. Hann tók sér stöðu með þeim, sem hallað var á. Ef þú ert efins skaltu lesa sögu hans um miskunnsama Samverjann. Trúin á Jesú Krist leitar þolenda og stendur með þeim gegn ofbeldismönnum. Ef þú efast skaltu lesa Nýja testamentið.

Skuggaverur í mannheimum

#Metoo leitar á huga margra okkar þessa aðventu. Já, við sem trúum á Guð eigum að standa með þolendum. Og hvað svo? Dólgarnir þykjast saklausir og axla sjaldnast ábyrgð. Þeir ljúga og halda áfram káfi, áreitni og sóðakjafti. En við viljum betra mannlíf. #Metoohreyfingin hefur ekki breytt heiminum enn, en hún hefur vakið athygli okkar allra á, að við verðum að standa gegn tröllunum. Dólgarnir eiga aldrei að vera óhultir í valdakerfum sínum og skúmaskotum. Eflum með okkur virðingu fyrir frelsi og gildi fólks. Þorum að ganga gegn fólki í valdastöðum sem brýtur af sér. Sviftum álögum af menningu okkar og samfélagi.

Hvers konar karlar virða ekki mörk kvenna og brjóta á þeim? Það eru ekki raunverulegir karlmenn heldur veikir menn, skuggamenn. Káf gegn vilja og kynferðisleg áreitni er merki um karlmennsku á villigötum. Dólgar eru ekki karlmenn heldur tröll. Jesús Kristur er fyrirmyndarkarl, sem virti konur, karla og börn. Hlutverk okkar í samtíð okkar er að hafna þeirri skuggakarlmennsku sem virðir ekki mennsku kvenna og mörk. Og við erum kölluð til að ala upp drengina okkar til ábyrgrar karlmennsku sem virðir mörk fólks.

Dólgshátturinn fer ekki í manngreinarálit. Það eru auðvitað til margar konur líka sem níðast á öðrum, konur í valdastöðu sem nota í eigin þágu hrædda og þjónustulipra. Slíkir vargar eru ekki heilar heldur skuggaverur.

Þessa síðustu mánuði þessa árs hefur #meeto orðið heimshreyfing, sem við eigum að taka alvarlega. Á aðventu er góður tími til að staldra við og hlusta og taka sögurnar alvarlega. Hvað svo: Það er mikilvægt að taka ákvörðun um hvort við ætlum framvegis að standa með Jesú og þolendum eða með dólgum, þöggun og meðvirkni. Í guðspjallinu minnir Jesú okkur á að gæta að lífsmerkjum. Guð kallar okkur til að standa með lífinu. Metoo-hreyfingin er hreyfing til lífs og í þágu lífs. Hvers væntum við? Aðventan minnir á að Guð kemur og kallar til lífs – hið innra – en líka í samfélagi okkar.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 10. desember, 2017. 2. sunnudag í aðventu. A-textaröð.

Við heitum að …

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi hefur verið til umræðu hérlendis og erlendis síðustu vikur. Margir hópar karla í ýmsum fag- og þjóðfélagshópum hafa skrifað undir loforð að standa með konum gegn ofbeldinu. Hópur karlkyns presta og djákna skrifaði undir heit að gera allt sem sé á þeirra valdi að tryggja konum öryggi í þjóðkirkjunni og þar sem þeir hafa völd eða áhrif. Þeir heita að líða ekki kynferðislega áreitni og valdbeitingu og að tilkynna ef þeir verða vitni að.

Þessi undirskriftalisti var settur fram í lokuðum umræðuhópi presta, djákna og guðfræðinga á netinu. Margir guðfræðimenntaðir, djáknar og prestar hafa valið að vera ekki aðilar að þessum nethópi og skammur tími var gefinn til undirritunar. Listinn tjáir því aðeins heit þeirra sem sáu undirritunarboðið og segir ekkert um afstöðu annarra sem ekki höfðu möguleika á að skrifa undir.

Sigurður Árni Þórðarson

Ávarpið og listi þeirra sem skrifuðu undir er eftirfarandi:

Við, karlprestar og karldjáknar í þjóðkirkjunni, heitum því að gera allt sem við getum til að tryggja konum öryggi innan þjóðkirkjunnar og þar sem við höfum völd og áhrif. 

Þöggun um kynferðislega áreitni og valdbeitingu verður ekki liðin af okkar hálfu.

Við munum tilkynna áreitni sem við verðum vitni að.

Aðalsteinn Þorvaldsson

Axel Á. Njarðvík

Arnaldur Bárðarson

Árni Svanur Daníelsson

Baldur Kristjánsson

Bolli Pétur Bollason

Bragi J. Ingibergsson

Davíð Þór Jónsson

Eiríkur Jóhannsson

Fjölnir Ásbjörnsson

Friðrik Hjartar

Fritz Már Jörgensen

Grétar Halldór Gunnnarsson

Guðni Már Harðarson

Guðni Þór Ólafsson

Guðmundur Brynjólfsson

Guðmundur Örn Jónsson

Gunnar Stígur Reynisson

Gylfi Jónsson

Halldór Reynisson

Hans Guðberg Alfreðsson

Haraldur M. Kristjánsson

Hreinn Hákonarson

Ingólfur Hartvigsson

Jón Dalbú Hróbjartsson

Jón Ármann Gíslason

Jón Ómar Gunnarsson

Kjartan Jónsson

Kristján Björnsson

Magnús Björn Björnsson

Magnús Erlingsson

Magnús Magnússon

Oddur Bjarni Þorkelsson

Ólafur Jóhann Borgþórsson

Ólafur Jón Magnússon

Páll Ágúst Ólafsson

Sigfinnur Þorleifsson

Sigfús Kristjánsson

Sighvatur Karlsson

Sigurður Arnarson

Sigurður Árni Þórðarson

Sigurður Grétar Helgason

Skúli S. Ólafsson

Svavar Alfreð Jónsson

Sveinn Alfreðsson

Vigfús Bjarni Albertsson

Viðar Stefánsson

Þorgeir Arason

Þorvaldur Víðisson

Þór Hauksson

Þórhallur Heimisson

Þráinn Haraldsson