Greinasafn fyrir merki: New York

Golgata New York

2977 létust í árásunum á tvíburaturnana. Eins og margar þúsundir annarra vitjuðum við Golgata New York þennan föstudaginn langa. Vonskan er söm á öllum öldum og drepur. Nöfn þeirra sem voru drepin voru skráð á barma minnismerkjanna. Nútímasaga um grimmd og djöfulskap settist að flestum. Það var flaggað í hálfa stöng á Wall Street. Þennan daginn fór ég ekki í Hallgrímskirkju að hlusta á passíusálmalestur og íhuga. En Hallgrímur var í huga mér og Jesús Kristur með mér þegar ég horfði yfir minnismerkin og á allt fólkið sem barðist við tilfinningar sínar og hugsanir. Einkennileg harmkyrrð settist að – dauði, þjáning, lífsvon. Það var gott að vera ekki á svona stað einn heldur á lífsför með mínu fólki. Guð geymi þetta fólk og varðveiti í okkur lífsstefnu himinsins.