Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Reynir Sveinsson – herra Sandgerði

Reyn­ir Sveins­son var oft kallaður af vinum sínum herra Sandgerði. Hann elskaði samfélag sitt og þjónaði því sem best  hann gat. Hann var ákveðinn kirkjumaður og varð á síðari árum herra Hvalsnes því svo elskaði hann Hvalsneskirkju og var ávallt reiðubúinn að segja frá kirkjusögu svæðisins og mannlífinu. Ég kom nokkrum sinnum í Hvalsneskirkju og hlustaði á Reyni segja frá og alltaf var ég heillaður af djúpri virðingu og ást hans á stað, sögu og erindi kirkjunnar. Ég var svo lánssamur að njóta margra funda með Reyni. Mér þótti hann alltaf elskulegur í samskiptum, hlýr, áhugasamur, tillitssamur og hugumstór.

Í ágúst 2012 fórum við Elín, kona mín, í ferð um Lútherslóðir sem dr. Gunnar Kristjánsson og Anna Höskuldsdóttir stýrðu. Reynir var með í þeirri för. Hann var kátur, lagði gott til og skemmti ferðafélögum með gáska og snerpu. Reynir var ekki aðeins á Lúthersslóðum til að horfa, læra og njóta. Nei, Reynir andaði með persónu sinni arfi Hallgríms Péturssonar og Hvalsness. Á helstu siðbótarslóðum Þýskalands bar hann íslenskan fána svona til að minna á að Sandgerðingar – já Íslendingar – væru ekki bara þiggjendur heldur virkir aðilar í undri kristni og lífs. 

Reyn­ir fædd­ist 2. júní 1948 í Sand­gerði og þar hann bjó alla tíð. Hann var rafvirki að mennt og rak fyrirtækið Raf­verk yfir þrjátíu ár. Um aldamótin varð hann for­stöðumaður Fræðaset­urs í Sand­gerði sem nefnist Þekk­ing­ar­set­ur Suður­nesja. Hann stuðlaði einnig að eflingu ferðaþjón­ustunnar í Sandgerði. Reyn­ir hafði skoðanir á flestum málum. Hann var lipur og hlýr í samskiptum og var því kjörinn til forystu í mörgum félögum og ráðum Sandgerðinga og sveitarfélaga á Suðurnesjum. Reynir lést 21. janú­ar 2024, 75 ára að aldri. Eftirlifandi börn Reynis og Guðmundínu Þ. Kristjánsdóttur eru Gísli, Sig­ríður og Guðbjörg. Reyr lést 21. janú­ar 2024, 75 ára að aldri.

Nú er lífstafli Reynis lokið en guðsskákin tefld af gáska. Við Elín þökkum fyrir samfylgdina, hlátra og elskusemina. Guð geymi Reyni og styrki ástvini hans.

Meðfylgjandi myndir tók ég í ágúst 2012. Myndaslóðin er að baki þessari smellu.  Sr. Hreinn Hákonarson tók viðtal við Reyni sem birtist á kirkjan.is og er að baki þessari smellu

Elín Guðrún Óskarsdóttir

Það er við hæfi að syngja um fuglana þegar við minnumst Elínar og líka brag um vor og ást. Myndirnar í sálmaskránni heilla. Þær sýna Elínu og ástvini hennar og kalla fram minningar. Elín var á seinni árum gjarnan í bláum fötum og svo eru þarna líka myndir af henni í hvítu. Hvítt og blátt og ástin þeirra Þráins smitar og læðist inn í stórfjölskyldumyndirnar. Mig langar til að bæta við einni mynd. Hún varð ekki til í myndavél Þráins heldur í frásögum hans og barna þeirra Elínar. Það er myndin af fuglavininum sem gaf fuglum á köldum vetrardögum. Elín fór út og dreifði fuglafæðu á blettinn. Á snjóatíma ruddi hún eða einhver í fjölskyldunni flötina til að gefa. Þegar hún birtist í svörtu kápunni í dyrunum komu vinir hennar fljúgandi. Fréttin barst um Fossvoginn og herskarar himinsins komu svífandi í vonarferð til Elínar sem elskaði lífið, virti náttúruna og var umhugað um þau sem voru þurfandi. Eitt árið var þrastapar búið að gera sér hreiður á garðverkfærunum úti og þá mátti ekki hreyfa þau frekar eða koma í hús. Svo hændir voru fuglarnir að henni að þeir komu gjarnan að gluggaglerinu til að tengja við hana og einu sinni eltu þeir hana inn í stofu. Varla féll úr dagur að Elín kannaði ekki svengdarstuðul hinn fiðruðu. Svo gerði hún tilraunir með tegundir og komst að því að rúsínur gerðu þeim gott og gáfu hinum máttlitlu orku.

Að virða fugla og gefa þeim er eitt af stóru minnum kristninnar. Jesus talaðí í ræðum sínum um fuglana og sagði: „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá.“ Dýrlingar kirkjusögunnar voru gjarnan fuglavinir og Frans frá Assisi kunnur fyrir fuglavinsemd og frægur fyrir að hann talaði við þá. Elín var fuglunum í Fossvoginum sem Frans þeim ítölsku. Fólk sem elskar lífið og styður aðra skapar heimilisfrið, ástríki og nærir til manndóms og visku. Elín var lífgjafi, nærði hamingju Þráins, barna sinna og ástvina. Lof sé henni og þökk.

Bernska og Herjólfsstaðir

Elín Guðrún Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík í byrjun aðventu, 6. desember, árið 1943. Svo fór hún inn í himininn við upphaf jóla. Foreldrar hennar voru Unnur Benediktsdóttir og Óskar Magnússon. Hún var eina barn þeirra. Elín var ávöxtur ástar norðurs og suðurs. Mamman var frá Moldhaugum í Eyjafirði og faðirinn sunnlenskur, frá Steinum undir Eyjafjöllum. Elín var ekki aðeins tveggja vídda landsins heldur líka hagvön í tveimur heimum dreifbýlis og þéttbýlis. Hún ólst upp í Reykjavík og sótti skóla þar. En á sumrum var hún í sveit. Það var vissulega algengt að senda stálpuð börn í sveit í uppvexti hennar en fátítt að börn færu mjög ung. Elín var ekki nema fjögurra ára þegar húm fór fyrst austur í Herjólfsstaði í Álftaveri. En sveitaveran varð henni ávaxtarík. Hún naut einstakrar velvildar og elskusemi meðal frændfólksins eystra. Lífið í stórum faðmi skaftfellskrar menningar og náttúru gaf einbirninu systkini í Herjólfsstaðabörnunum Elínu, Hönnu og Hannesi. Í sveitinni var unnið af dug, hlaupið til verka, sungið hástöfum, hlegið og talað og svo farið í ævintýra- og fræðsluferðir upp í heiði til að gleðjast yfir vel unnum verkum. Ég kynntist Herjólfsstaðaheimilinu sem prestur fyrir austan og get því þakkað Vigdísi og Hirti og börnum þeirra fyrir að gefa Elínu svo ríkulegt viðbótarheimili og alls kyns menningarlega og tilfinningalega bónusa til lífsferðarinnar. Hún fór ung austur og beið engan skaða af heldur aðeins gæði sem hún þakkaði fyrir og taldi lán í lífinu.

MR og latínan

Elín var skarpur námsmaður og eftir grunnskólapróf hóf hún nám í Menntaskólann í Reykjavík. Henni sóttist námið vel og hafði mestan áhuga á tungumálum. Uppáhalds námsgrein hennar var latína og allir sem glímt hafa við datíva, accusatíva og flókna latneska málfræði vita að það þarf stálaga til að klífa það tungumálabjarg. En Elín fór upp eða flaug yfir þá tinda sem hún ætlaði. Síðar skilaði latínufærnin að ferðakonan Elín var snögg að átta sig á hinum rómönsku tungumálum, fljót að skilja vegvísa og átta sig á inntaki annars ókunnara texta. Námið í skólanum við Lækjagötu gekk vel og Elín útskrifaðist sem stúdent árið 1963. Launin fyrir veruna í ellefu sumur á Herjólfsstöðum höfðu verið innlögn lamba til verslunarfélagsins í Vík. Innistæðan var orðin það mikil að nýstúdentinn flaug alla leið að Gardavatninu á Ítalíu.

 Áhugaefni og viðskiptafræði

En hvað ætlar þú svo að verða? Þráinn spurði Elínu og fleiri stúdínur síðar þeirrar spurningar. Elín hafði einlægan áhuga tilfinningum, tengslum og lífi fólks. Hún íhugaði um tíma að hefja nám í sálfræði en þá var sú grein ekki kennd í háskóla á Íslandi. Þegar allt var skoðað leyfði fjárhagur ekki nám erlendis og Víkurinnstæðan var búin. Elín valdi því viðskiptafræði og þegar hún hóf námið var engin kona þar við nám. Þær voru þó tvær sem innrituðust í viðskiptadeild haustið 1963. Elín sagði síðar að strákarnir í deildinni hefðu spurt hana hvað hún væri eiginlega að gera í viðskiptafræði – af hverju hún hefði ekki bara farið í húsmæðraskóla! Karleinokunin hafði verið það alger að aðeins fjórar konur höfðu útskrifast sem viðskiptafræðingar á þeim nær þrjátíu árum áður en Elín hóf nám. Hún var sú fimmta í röð viðskiptafræðinga frá upphafi þegar hún útskrifaðist vorið 1969. Fyrsta starf hennar var í hagdeild Reykjavíkurborgar. Í þrettán ár stýrði Elín Félagi viðskipta- og hagfræðinga og starfaði löngum með manni sínum að viðskiptatengdum verkefnum og við stjórn og rekstur fyrirtækja.

Þráinn og hjónaband

Elín kynntist Þráni Þorvaldssyni í viðskiptafræðinni í Háskólanum. Henni leist ekki á skólabróðurinn í fyrstu, sýndist hann vera drengstauli! Þráinn ritstýrði Hagmálum á þessum tíma og tók myndir og viðtöl fyrir blaðið. Hann hafði greinilega áhuga á stúlkunum í viðskiptafræðinni og bað um viðtal við þær. Elín var ekki viss um ástæður áhuga hans en ekki fer sögum að því hvort hún grunaði hann um græsku eða fara svo fagmannlega á fjörur við hana. En hún var hugsi yfir spurningu hans: Hvað ætlið þið svo að verða? Elín svaraði kröftuglega – hún ætlaði að verða viðskiptaráðherra! Þráinn mundi alltaf svarið. Í viðskiptaleiðangri norður á Akureyri fóru þau Elín að draga sig saman. Dans á Sjallanum varð afdrifaríkur og þau kynntust æ betur. Á þessum tíma keyrði Þráinn Austin Gypsy-jeppa. Elínu þótti hann herralegur þegar hann hljóp alltaf út til opna fyrir henni farþegamegin. Elín hreifst af. Drengstaulinn var orðinn eins og amerískur sjentilmaður. Það var ekki fyrr en löngu síðar sem hann sagði henni að lásinn hennar megin hefði verið bilaður svo það var ekki um annað að ræða fyrir hann en að opna. En Elín þáði þjónustuna með aðdáun og gilti einu hvort lásinn var bilaður eða ekki. Þráinn var og hefur alla tíð verið þjónustulipur. 

Svo ýttu húsnæðismál á og það varð beinlínis hagkvæmnismál að þau Elín gengju í hjónaband. Og svo stóð Þráinn í Háskólakapellunni og beið eftir brúði sinni. Hann reyndi eftir megni í spennu dagsins að vanda sig við að brosa. Svo gekk hún svo glæsileg í hvítum kjól á móti honum og varð hans og alla ævi síðan. Þau tóku til sín boðskap dagsins um að vanda sig við að halda ástareldinum lifandi – alla ævi og bæði. Það gekk eftir.

 „Gott hjónaband er eins og geirnegling“ sagði Þráinn. Og það er grípandi og hnyttin myndlíking. Þau Elín féllu vel saman og nutu styrkleika hvors annars. Þau voru nægilega ólík til að styrkja hvort annað og mættust á miðri leið. Þau voru samstillt, samstiga í gagnkvæmri aðdáun og samvinnu.

Börnin og vinna

Næstu áratugir urðu fjölbreytilegir og litríkir í lífi þeirra Elínar. Þau fluttu norður á Sauðarkrók og stýrðu nýrri sútunarverksmiðju Loðskinns. Börnin komu svo í heiminn. Þau Elín eignuðust fjögur börn. Þrjú þau yngri lifa. Þorsteinn var elstur og hann dó skömmu eftir fæðingu. Svo fæddist Sif ári síðar eða 1971 og Hrönn árið 1976. Óskar Þór fæddist áratug á eftir bróður sínum. Sif er gift Bjarna Frey Ágústssyni og þau eiga Örnu Ösp, Eyrúnu og Ægi. Maður Hrannar er Helgi Jónsson og Freydís og Daði Freyr eru þeirra börn. Kona Óskars er Harpa Valgeirsdóttir og þau eiga Val Kára, Heiðu Unni og Rögnu Hlín. Elín þjónaði fólkinu sínu og studdi sem hún gat og meðan hún hafði getu til.  

Eftir veruna fyrir norðan bjuggu Elín og Þráinn um tíma í Reykjavík og fóru síðan  til Bretlands og Sif með þeim. Fyrstu barnaárin var Elín heimavinnandi. Hún starfaði um tíma hjá Hildu hf. Svo stofnaði hún með Þráni og fleirum SagaMedica og sá við upphaf um fjármál þess. Heimilislíf, vinnulíf og áhugamál þeirra Elínar fléttuðust vel saman í þykka hamingjufléttu. Þau Þráinn ferðuðust mikið innan lands og utan. Þau voru bæði náttúrubörn og lögðu mikið á sig að tengja ungviðið við dýrmæti náttúru Íslands. Eftirminnilegar voru allar tjaldferðirnar með búnað fyrir allar árstíðir og skoðunarferðir í alla landsfjórðunga m.a. í hópi góðra ferðafélaga. Elín var vön hlaupunum á Herjólfsstöðum bernskunnar og var kraftmikill göngugarpur og gekk m.a. Laugaveginn úr Landmannalaugum.

Þau Elín fengu sér húsvagn og fóru um á hverju sumri og fundu ýmsa „leynistaði“  til að njóta sem best undra landsins. Elín og Þráinn dönsuðu gjarnan og voru glæsilegt par á gólfi. Söngur var hluti heimilislífsins og Elín hafði gjarnan ofan af fyrir ungviðinu á langferðum með söngiðkunum. Elín lærði að spila á hljóðfæri á unglingsárum eins og bóndi hennar og tónlist varð því snar þáttur heimilislífsins. Yngri kynslóðinni fannst kannski að tónlistarsmekkur foreldranna væri kannski aðeins vh-legur sem útleggst sem væminn og hallærislegur. En þau gerðu ekki ágreining við eldri kynslóðina. Svo varð ljósmyndun mikilvæg vídd í hjónalífi þeirra Þráins. Elín hafði ríkan skilning á að ljósmyndun krefðist tíma og beið þolinmóð eftir að Þráinn næði góðum skotum. Þetta var gott líf.

Eigindir og minningarnar

Hvaða minningar áttu um Elínu? Nú eru skil. Minningar þyrlast upp og líka þarft að þakka og að vinna með sorgarefnin. Hvað finnst þér merkilegast í persónu og sögu Elínar? Hvað finnst þér mikilvægast? Var eitthvað sem hún sagði við þig sem snart þig djúpt? Hvað lærðir þú af henni? Gaf hún þér eitthvað? Gerði hún eitthvað sem varð þér til stuðnings eða eflingar? Hvað var einstakt í henni og gerðum hennar? Sagði hún eitthvað við þig sem hefur lifað í þér? Og hvað er það sem þú vilt taka inn í framtíðina af því sem Elín var, gerði eða tjáði?

Manstu hæfileika hennar? Elín var listræn. Hún gat spunnið sögur og fangað athygli þeirra sem heyrðu. Hún samdi ljóð en vildi síður varðveita þau. Þráni tókst reyndar að koma nokkrum undan áður en þau fóru í glatkistuna. Svo rissaði hún og teiknaði og notaði snifsin sem fyrir hendi voru. Jafnvel skjöl voru myndskreytt. Elín hafði ríkulega tónlistargáfu og studdi sitt fólk í námi og tónlistariðkun. Manstu nýtni hennar og hve vel hún fór með? Fékkstu einhvern tíma bréf frá henni? Þrátt fyrir mikinn fjölda vina um allan heim vildi hún ekki senda fjölfaldaðar jólakveðjur heldur handskrifaði þær. Og einu gilti hvort þær voru á ensku, þýsku eða dönsku – svo mikil málakona var hún.

Manstu hlýju og góðmennsku Elínar? Natnina í samskiptum, væntumþykju og elskulegheit? Manstu litina á fötum hennar? Manstu vilja hennar til að hjálpa öðrum og finna sér verðug hlutverk? Manstu að Elín mætti þegar stuðnings var þörf? Manstu garðvinnuna og metnaðinn í útistörfunum og hve berjarunnar, blóma- og grænmetisbeð brostu við henni og heiminum öllum? Svo var hún stöndugur uppalandi, góð í sínu fagi og skilaði alltaf góðu dagsverki og lagði metnað í störf sín og verk.

Afstaðan til veikinda og alzheimer

Og svo læddist alzheimer að Elínu. Og hún bað Þráin að dansa við sig ef eins færi fyrir henni og móður hennar. Það gerði hann. Þau voru ekki bara sálufélagar sem höfðu fallið saman í geirneglingu ástarinnar. Ég hef fylgst með hvernig sjúkdómurinn hefur þróast í áratug en líka dáðst að hvernig þau hafa dansað lífsvalsinn saman. Þau hafa ekki aðeins tjáð samstöðu heldur líka opinberað okkur hve ástin er marglaga og faðmvíð. Við höfum orðið vitni að því að jafnvel þegar orða er vant og getan til máls hverfur er jafn mikilvægt að tjá ást með strokum, blíðu, faðmlagi, kossum, augnablíðu og hlýju.

Sálufélag er líka það að umvefja með ástarorðum þó engra sé að vænta til baka. Þetta er að halda loganum lifandi allt til enda, dansa allt til enda. Veikindatími Elínar ól með þeim Þráni nýjan skilning hjónalífs og nándar þeirra. 58 ár frá því að þau hittust fyrst. 56 ár gift. Svo sneri Elín sér að manni sínum undir lokin þótt hún gæti ekki almennt tjáð sig og sagði við hann skýrum rómi: „Takk fyrir hve þú ert  góður við mig.“ Og við getum ekki annað en sagt. Takk fyrir að þau voru svo góð við hvort annað. Í lífinu tjáðu þau djúpgildi hins kristna arfs, að við erum fyrir hvert annað, megum þjóna hvert öðru, lifa í geirneglingu ástarinnar. Þannig er ást Guðs sem speglast í fólki sem tekur lífinu vel, þorir að vera, þorir að elska, hlægja, dansa og ljóða um vonir lífsins.  

Fuglarnir eltu Elínu og jafnvel inn í stofu. Og væntanlega er lífið ríkulegt í eilífðinni. Vonandi voru þúsundir af fiðruðum vinum sem tóku á móti Elínu með Þorsteini þegar hún fór inn í jól himinsins. Þar hefur henni verið fagnað. Þar er geirnegld himinást, tónlist, gleði og fögnuður. Guð geymi Elínu og styrki þig Þráinn, Sif, Hrönn, Óskar Þór, tengdabörn, barnabörn og ástvini.  Amen.

Minningarorð SÁÞ  við útför Elínar í Fossvogskapellu, 8. janúar, 2023. Í athöfninni var lagt út af kærleiksóði Páls postula og leiðarlýsingu Jesú í fjórtánda kafla Jóhannesarguðspjalls. 

Bálför. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. 

Hrynja gullin tár

af greinum trjánna.

Falla mjúklega til jarðar

og faðma sölnað grasið.

Við hittumst aftur í vor

og byrjum á ný.

Elín Guðrún Óskarsdóttir

Við moldun í lok athafnar var sem þrastargoggur sprytti af krossmarkinu. Var sem tákn við útför fuglavinarins Elínar. 

+ Bernharður Guðmundsson +

Bernharður Guðmundsson var gjafmildur maður – einn sá örlátasti sem ég hef kynnst. Einu sinni kom hann með koptískan kross frá Eþíópíu, í annað skipti helgimynd og svo seinna litríkan kross frá Suður-Ameríku. Ef ekkert var í höndum hans breytti hann samfundi í eftirminnilegan og oftast kátlegan viðburð. Hann var örlátur á tíma, hafði skarpa vitund og frjóan huga. Hann spurði, færði óhikað rök, greindi snarlega styrkleika og veikleika fólks og nálgaðist það með umhyggju og kærleika. Hann nöldraði ekki heldur rýndi til gagns, eflingar og góðs. Hann gerði sér engan mannamun og sá gull í öllu fólki. Það var einstök og dásamleg nálgun og Jesúleg.

Ég man eftir Benna fyrst á Tómasarhaganum. Hann bjó með Rannveigu sinni í skjóli Magneu og Sigurbjarnar í biskupshúsinu, Tómasarhaga 15. Ég bjó hinum megin götunnar og hitti hann því og sá til hans. Mér fannst hann alltaf kátur og skemmtandi. Ég fylgdist með prestsþjónustu Benna úr fjarlægð og heyrði að nágrannaprestum hefði þótt hann of vinsæll. En ég sannfærðist um snilld hans þegar hann stýrði risasamkomu í Laugardalshöllinni. Þar var mikill fjöldi gagnrýnna unglinga sem ætluðu sér ekki að láta prest fara neitt með sig. En Benni var aldrei öflugri en þegar á reyndi. Hann heillaði söfnuðinn. 

Á æskulýðsdeginum 1973 var ég Benna til aðstoðar. Rétt fyrir fjölsótta kvöldsamkomu í Dómkirkjunni kom í ljós að hljóðnemarnir voru í ólagi. Ég hringdi í poppara sem ég þekkti og hentist upp í Þingholt og náði í mækana. Við smelltum þeim í samband þegar Benni var að fara að setja samkomuna. Hann kunni að meta viðbragðsflýtinn. Nokkrum dögum síðar var flugvél á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar send til til gjósandi Heimaeyjar. Til að verðlauna unglinginn vildi Benni að ég fengi að fara með til Eyja. Benni sá alltaf möguleika þar sem glufur voru, lagði gott til, efldi fólk og lyfti. Hann var kallaður Benni en líka oft og með sanni Benni Gúddman.

Þau Rannveig fóru um heiminn og eignuðust heillandi börn sem urðu leifrandi heimsborgarar. Benni skrifaði hnyttna pistla í Moggann sem margir lásu. Svo komu þau heim til Íslands og Benni varð biskupsþjónn. Hann var alla tíð frumlegur, hugsaði í lausnum og möguleikum, hvatti og lyfti upp því sem var hagnýtt og merkilegt. Hann var fjölgáfaður og vel heima á mörgum sviðum og listrænn smekkmaður.  Hann horfði alltaf fram á veginn og beitti sér fyrir bótum og leiðréttingum og nýjungum. Benni var í áratugi frumkvöðull þjóðkirkjunnar. 

Benni færði alltaf fögnuð í hús gleðinnar þegar hann kom í messu. Hann kom oft í Neskirkju þegar ég var þar prestur. Hann var óspar á lof ef sá gállinn var á honum og einu sinni klappaði hann eftir messu. Svo sóttu Rannveig og Benni einnig kirkju í Hallgrímskirkju og hann kom alltaf eftir messu til að veita umsögn – og alltaf til gagns. Örlátur öðlingur. Okkur mörgum engill. Nú er Benni farinn inn í himininn og þar er samfélag örlætisins og gaman.

Guð geymi Bernharð Guðmundsson, styrki Rannveigu, Svövu, Magnús Þorkel, Sigurbjörn og alla ástvini.

Takk fyrir örlætið.

Myndirnar tók ég í Skálholti í febrúar 2010. Bernharður fór á kostum er hann stýrði miðaldakvöldverði fyrir evrópska fulltrúa Porvoo-kirknasambandsins. Svo hélt hann fyrirlestur við minnisvarða Jóns Arasonar daginn eftir. Frábær gestgjafi.

 

 

Guðlaugur Stefánsson – minningarorð

Guðlaugur kom hjólandi að Ísaksskóla. Þar beið dótturdóttir hans í ofvæni eftir afa. Hann sveigði upp að skólanum, steig af hjólinu og tók á móti stúlkunni fagnandi. Henni fannst afi vera eins og frelsari sem bjargaði henni úr skólanum. Það eru fleiri slíkir en á hvítum hestum. Svo kom Guðlaugur mjúkum poka fyrir á bögglaberanum til að sæti dömunnar yrði sem þægilegast. Svo kom hún sér fyrir og þau fóru af stað. Þetta var þeirra ferð og gæðastund. Það var gaman þegar afi kom, að halda í hann og líða svo um heiminn, horfa á hús, bíla og mannlíf og vita að kaka biði heima hjá ömmu og afa. Svo sást fjölskyldutréð, hlynurinn í garðinum við Fjölnisveg og þá voru þau komin á leiðarenda. Engir hjálmar – en aldrei duttu þau eða lentu í áföllum. Þetta voru hamingjuferðir. Guðlaugur var traustsins verður, gætinn, glöggur og glaður. Svo þegar afastúlkan hugsar til baka þá voru þessar reisur þeirra góðar ævintýraferðir.

Þetta er ein af mörgum sögum sem ég hef heyrt um valmennið Guðlaug, um ferðirnar hans í þágu fólks og lífs, lífsreisur hans með Lilju, börnum hans, afkomendum og ástvinum. Guðlaugur þjónaði líka nemendum sínum og menntun og menningu þeirra sem hann bar ábyrgð á, hvort sem það var fyrir austan, hér syðra eða í þeim hópum og greinum sem hann tengdist.

Upphaf

Upphaf Guðlaugs var í Eyjum en svo fór hann austur barn að aldri. Hann var sumarmaður, fæddist í Vestmannaeyjum 12. júlí árið 1936, elstur í systkinahópnum. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Pétur Pétursson og Halla B. Guðlaugsdóttir. Þau eignuðust þrjár systur eftir að skrákurinn fæddist. Elst systranna er Halla Valgerður sem kom í heiminn 1937, ári á eftir Guðlaugi. Þar á eftir fæddist systir árið 1942 en hún lést aðeins fjögurra mánaða gömul. Hvaða skuggar settust að í heimilislífinu og hvernig var unnið úr sorginni? Það vitum við ekki en mynd af henni í kistunni var til á heimilinu – en ekki um hana rætt. Svo kom gleðigjafin Stefanía árið 1947.

Guðlaugur sótti skóla í Neskaupstað. Lífið í bænum var fjörmikið. Sundlaugin var tekin í notkun 1943 og varð miðstöð yngri sem eldri bæjarbúa, gleðigjafi og sundiðkendum heilsubót. Guðlaugur varð snemma afburða sundmaður. Þeir félagarnir í Skyttunum þremur kepptu í sundi. Alla tíða þótti Guðlaugi gaman að synda og hann sótti í vatnið. Síðustu árin sóttu þau Lilja í sundlaugina í Laugardal. Guðlaugur varð snemma fjölhæfur íþróttamaður og keppti á unglingsárum í frjálsum íþróttum og einkum hlaupum. Alla tíð sinnti hann heilsurækt sinni dyggilega. Hann var líka valinn til forystu í félagsmálum og var um tíma formaður íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað. Eftir hann liggja m.a. ritsmíðar á þess vegum og um íþróttir.

Stefán, faðir Guðlaugs, var vélstjóri og sjómaður. Vegna sjósóknar var hann löngum fjarri heimili. Halla, móðir hans, var dugmikil líka og eina vertíðina var hún í Sandgerði og sonur hennar var þar með henni. Guðlaugur lærði því snemma að bjarga sér, sjá um sig og sína. Hann varð sjálfbjarga og sjálfstæður.

Framhaldsskóli og nám

Guðlaugur tók stefnuna á hinn nýja Menntaskóla á Laugarvatni. Þá tóku við mótunar- og menntaár. Hann las ekki aðeins bækur, lærði fyrir tíma og glósaði danska og þýska texta heldur straujaði skyrturnar sínar og festi lausar tölur. Hann hafði gaman af námi og lífi, var góður námsmaður, kom sér vel, lagði gott til allra og var góð fyrirmynd samnemenda sinna. Stúdentshúfan fór á kollinn hans vorið 1956. Hann var hæfileikaríkur, gat margt, íhugaði möguleika og stefnu og í honum bjó líka útþrá. Þýskan togaði og hann fór til náms í þýsk-dönsku borginni Kiel. Svo athugull og skipulagður sem Guðlaugur var sá hann hve illa borgin hafði verið leikin af skelfingum seinni heimsstyrjaldar. Veran í Kiel varð til að Guðlaugur markaði sér fræðasvið. Hann valdi þýsku og dönsku, lauk kennaraprófi frá stúdentadeild Kennaraskólans árið 1960 og síðan BA-prófi þremur árum síðar eða 1963. Svo varð kennslan meginstarfi Guðlaugs þaðan í frá. Skólastjórinn í Vogaskóla hafði samband við hann og bað hann að koma til starfa sem hann gerði og kenndi þar í áratug eða til 1972. Svo var Menntaskólinn við Tjörnina stofnaður sem hleypti miklu lífi í miðborgina. Þangað fóru dugmikilir kennarar til starfa og Guðlaugur var einn þeirra. Hann kenndi þýsku í MT og fór síðan með kollegum sínum inn í Sund þegar MT varð að MS, Menntaskólanum við Sund. Guðlaugur kenndi einnig þýsku í MS til starfsloka árið 2006. Öllum kom Guðlaugur til nokkurs þroska. Hann var öflugur og hæfur skólamaður, góður félagsmálamaður og var því eftirsóttur til ýmissa starfa. Guðlaugur var flokksstjóri Vinnnuskólans í Reykjavík í mörg sumur og kenndi að auki um tíma í Námsflokkum Reykjavíkur.

Lilja og heimilið

Svo var það ástin og fjölskyldan. Guðlaugur og Lilja Jóhanna Gunnarsdóttir elskuðu hvort annað. Ást þeirra lifði öll árin þeirra. Þau gengu í hjónaband í Háskólakapellunni laugardaginn 16. júní 1962. Það er við hæfi að minna á að þann dag sem þau sögðu já við hvort annað var efst á vinsældalistanum í Bandaríkjunum hið dásamlega lag um ástina – I can‘t stop loving you í flutningi Ray Charles. Jáin þeirra voru staðföst og til framtíðar og þau hættu aldrei að elska. 

Guðlaugur og Lilja sáust fyrst í Lídó á fullveldisdeginum 1. desember 1961 og Lilju varð starsýnt á hinn vörpulega unga mann. Svo hittust þau á Garðsballi og fóru að dansa. Þau tóku falleg spor á gólfinu, fundu taktinn og dönsuðu sig til ástar sem lifði í sex áratugi. Þau hættu aldrei – stoppuðu aldrei – að elska hvort annað. Þau hófu búskapinn í fjölskylduhúsinu á Fjölnisvegi 15 og bjuggu þar alla tíð og nutu samvistanna við tengslafólkið í húsinu. Svo byggðu þau við húsið og bættu aðstöðu fyrir íbúana.

Stefán fæddist í nóvember 1962 og Jórunn Sjöfn kom í heiminn í febrúar árið 1967 og Halla Sif tólf árum síðar – í ágúst 1979. Þau fengu því öll rými, elsku og næði til þroska. Dóttir Jórunnar er Lilja Rut og hún á soninn Benedikt Búa með Eiríki Inga Lárussyni. Synir Höllu eru Daníel Snær; Anton Örn og Tómas Ari og þeir eru synir Jesús Rodríguez.

Húsið í skjóli fjölskylduhlynsins var hús ástar og vaxtarreitur kærleikans. Guðlaugur bar virðingu fyrir Lilju sinni, treysti dómgreind hennar, tók tillit til þarfa hennar og afstöðu og mat ráð hennar. Þau voru samrýmd og samstiga í lífinu. Sambúð þeirra var gæfusöm og hamingjurík.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðlaug? Hvað var það sem hann sagði við þig sem sat í minni þér? Hver er skemmtilegasta minning þín um hann? Hvað kenndi hann þér? Manstu hve vel hann skrifaði og hve skrautskriftin hans var glæsileg? Nemendur og kollegar hans hafa sagt frá hve öflugur skólamaður og stöndugur kennari Guðlaugur var. Mannvirðing var honum í blóð borin. Hann var hlýr, orðvar, dagfarsprúður og kurteis í samskiptum við nemendur sína og samverkafólk, hvatti til dáða án nokkurs hávaða og kom hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri með hlýju og lagni. Með því lagi þokaði hann málum fram.

Guðlaugur var vinnusamur. Honum var það gefið þegar í uppvexti frá foreldrum og samfélagi. Hann lærði af föður sínum smíðar og viðgerðir. Hann var laginn til verka og var sjálfbjarga um fleira en tölur og við straubretti. Heima dittaði hann að og smíðaði – jafnvel innréttingar. Nemendur gátu verið vissir um að Guðlaugur byggi til glósuhefti til að létta þeim vinnu í glímunni við þýskuna. Í sólbaði féll honum jafnvel ekki verk úr hendi heldur notaði yndisstundirnar til gefandi verka. Garðurinn naut hans ríkulega og ber alúð íbúanna vitni og atorku Guðlaugs sem þótti gott beita sér í útiverkunum við slátt, verk og snjómokstur.

Guðlaugur hafði auga fyrir umhverfi sínu. Hann fékk áhuga á ljósmyndun og tók mikið af myndum sem skrásettu og varðveita sögu hans og fjölskyldu. Svo hafði hann áhuga á tónlist og ekki síst jazz og hlustaði á Benny Goodman, Ellu Fitzgerald eða Lois Armstrong. Fegurðarskynið náði líka til handanna því hann var einnig drátthagur og ljómandi teiknari. 

Guðlaugur var alla tíð áhugasamur um útivist og íþróttir. Hann sótti íþróttaviðburði hvort sem það var nú leikur Eusebio og Benfica við Val eða skákmót Spasskys og Fishers. Hann var alla tíð léttur á fæti og gekk gjarnan á fjöll með vinum sínum um helgar. Þeir félagar voru vel heima á Vífilfelli, Helgafelli og í Jósepsdal. Þau Lilja gengu líka gjarnan saman í Öskjuhlíðina, á Mosfell eða eitthvað annað sér til heilsubótar og gleði. Guðlaugur hafði lært í bernsku að heilbrigð sál býr í hraustum líkama. Hann hafði alla tíð þörf fyrir loft í lungu og góðan félagsskap. Svo hvatti hann börn sín til heilsuræktar og fór með fjölskylduna á skíði og í sund.

Guðlaugur var reglumaður í öllu. Lágt vetrarsólskinið opinberaði ekki ryk á heimili þeirra Lilju. Hann sótti gjarnan ryksuguna ef þörf var á og sá til að allt væri í röð og reglu. Guðlaugur var opin og aðlagaðist þörfum hvers tíma. Hann tók tillit til annarra í fjölskylduhúsinu. Og þegar aðstæður breyttust var hann fús að sinna nýjum hlutverkum. Hann var ekki gamaldags húsbóndi sem var fastur í farinu heldur brást við með skapandi hætti. Þegar börnin komu í heiminn eldaði hann og axlaði líka ábyrgð á heimilisrekstrinum. Þegar Lilja þurfti að nota bílinn tók hann bara hjólið og fór í sína vinnu. Reglumaðurinn var opinn, sveigjanlegur, tillitsamur og aðlagaðist. Í vinnu vann hann með fólki og þoldi vel breytingar og þróun skólanna sem hann þjónaði. Guðlaugur var í mörgu á undan sinni samtíð. Pólitísk stefnumál var hann til í ræða og breyta um skoðun ef hann heyrði góð rök. Kynhlutverk og venjur voru eitthvað sem Guðlaugur einfaldlega vann með í þágu konu sinnar, fólksins síns og annarra. Við erum ekki eyland heldur í tengslum. Hlutverk okkar mega vera fljótandi og breytast til að tryggja gott líf, vöxt og gjöfula menningu. Guðlaugur er fyrirmynd okkur hinum.

Inn í eilífðina

En nú er Guðlaugur farinn inn í heiðríkjuna. Líf hans var góð guðsþjónusta. Hann skildi eftir þekkingu, visku og elsku í sál og lífi fólksins síns. Það verða ekki fleiri helgarkaffi eða samverur með honum en minningarnar um hann lifa. Handaverkin hans sjást í og við Fjölnisveg 15. Guðlaugur skrifar ekki framar á fjölda útskriftarskírteina MS en falleg rithönd hans sést í Biblíum barna hans. Hann mokar ekki framar skafla af stéttinni og engin handryksuga fer framar á loft til að hreinsa upp confetti-snifsin á gamlárskvöldi! Hann fer ekki framar í sund eða smellir mjúkum poka á bögglabera. Við vitum ekki hvort það verða einhver DBS-reiðhjól á eilífðarbrautunum en engin far- eða ferðabönn verða. Guðlaugur horfir ekki framar hlýlega á Lilju sína, börnin eða fjölskyldu. Nú er hann farinn inn í ljósríki himinsins. Öll stríð eru að baki og hann fær að hvíla í skugga einhvers himnesks fjölskylduhlyns – og blessa Lilju, börnin sín, ástvini og félaga.

Þökk fyrir líf Guðlaugs. Guð blessi hann og geymi – og líkni ykkur ástvinum.

Lagt út af kærleiksóði Páls í 1. Korintubréfi 13 og leiðarlýsingu Jesú í Jóhannesarguðspjalli 14. Kistulagt í kapellunni Fossvogi 21. febrúar. Útför Hallgrímskirkju 24. febrúar kl. 15. Bálför. Jarðsett í Fossvogi 9. mars. Erfi í Þingholti á Hótel Holt. Útfararstofa kirkjugarðanna. Óskar Einarsson, tónlistarstjóri. 

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen – minningarorð

Hanna Johannessen var mér og starfsfólki Neskirkju sem besta móðir.  Hún var dugmikil sóknarnefndarkona og kom flesta daga í kirkjuna til að leggja lið og efla fólk til starfa. Hún lést vorið 2009. Ég var að leita að minningarorðum mínum um Hönnu og sá þá að þau höfðu horfið með gamalli vefsíðu. Set þau hér inn til minningar um stórkostlega konu og mannvin. Blessuð sé minning Hönnu. 

Hjartablóm

Hanna og Matthías voru á Hólsfjöllum. Þau voru komin heim í fang fjallanna hennar Hönnu, heim í Víðirhól. Ilmur gróðurs kitlaði, blómin brostu og augu heiðarinnar horfðu á þau úr öllum áttum. Kvika Matthíasar var snortin. Hann skynjaði helgi augnabliksins, þykkni sögunnar, dansandi stúlkubarnið í konunni sem laut niður á hlaðinu á Víðirhóli og gældi við gróðurinn. Svo rétti hún úr sér, brúnu augun ljómuðu og hún lagði í lófa hans fíngert blóm. Hann sá hvað það var – og að það var alsett hjörtum, sláandi ástartjáning Hönnu, sem gaf honum ekki einfalda ást sína, heldur hjörtu lífs, gleði, styrks, trúar, vonar, hláturs og ljóða. Hún varð honum póesía, verðandi – og líka okkur hinum. Og Matthías hreifst af þessu smáblómi ástarinnar, tákni um líf lands og fólks. Lífið lifir.

Ungur maður sem hefur sótt Neskirkju í mörg ár og kynntist því Hönnu sagði í vikunni: „Það er óhugsandi að Hanna sé dáin. Hún hefur alltaf verið óháð tíma, eiginlega ofar tímanum og eins og hún gæti ekki dáið.”

En höggið kom snöggt og skjótt. Hvernig verður hjá Matthíasi? Hvernig er hægt að hugsa sér aðfangadagskvöld á Hernum án Hönnu? Hvernig getur kirkjulíf í Vesturbænum lifað af, svo við tölum nú ekki um pólitík, góðvild, fermingarbörnin hér í kirkjunni og mömmumorgnana? Stórfjölskyldan í Neskirkju kveður “kirkjumömmu” sína – eða “kirkjuömmu” eins og sum börnin í sunnudagaskólanum sögðu. Þú og þessi stóri kærleikshópur Hönnu sem kveður í dag hefur tapað vökukonu elskunnar.

Elskið – elskið hvert annað – sagði Jesús við brottför sína af heimi. Fólkið á Hólsfjöllum, fjallræðufólkið, iðkaði boðskap Jesú. Elskið, gætið að líðan fólks og dýra, eflið hvert annað, dansið á góðum dögunum, syngið þegar söngs er þörf og ljóð kvikna. Meitlið mál, elskið hvert annað – gefið hjartablóm til lífs.

Æviágripið

Jóhanna Kristveig fæddist á Grímsstöðum á Fjöllum 28. nóvember árið 1929. Foreldrar hennar voru Ingólfur Kristjánsson og Katrín María Magnúsdóttir. Barnalán þeirra var mikið og eignuðust þau hjón fimmtán börn. Hanna lærði því á fólk strax í bernsku.

Heimilislífið var fjörugt og bókelskt. Foreldrarnir voru samstiga í uppeldi, glaðværð, ögun og menntunaráherslu. Á vökum var lesið, ljóð hljómuðu, mál var vandað og pabbinn brást hart við þegar texti var brotinn eða mál brenglað. Um pabbann var sagt að hann væri Gullna reglan holdi klædd. Ingólfur var tilfinningamaður og spyrja má hvort Hanna fann ekki í Matthíasi síðar ýmsa djúpstrengi, sem hún þekkti úr fíngerðum lífsþorsta pabbans. Svo erfði hún spilandi glaðværð hinnar hálffæreysku mömmu, sem var berdreymin, fjölskynug, fagurkeri og söngvin. Börn Ingólfs og Katrínar fengu stóra meðgjöf sjálfsvirðingar til ferðarinnar út í lífið. Í þeim býr mannvirðing og fjölþættar gáfur. Því voru þeim margir vegir færir og “þau áttu að gera eitthvað úr sér” sagði Katrín.

Fyrstu árin bjó stækkandi fjölskyldan á Grímsstöðum. Svo fluttu þau út í kirkjustaðinn Víðirhól. Hvers konar fólk verður til í mæra-aðstæðum? Fjalla Bensi í Aðventu Gunnars Gunnarssonar var einn. Uppeldiskrafan var um lífsleikni en líka elskuiðkun, traust og víðsýni. Svo líka að elska Herðubreið, sem “leit best út um eldhúsgluggan,” eins og Hanna sagði, læra að meta kyrrðina, sem var svo djúp að hægt var að heyra fótatak göngumanns í margra kílómetra fjarlægð, heillast af ofsaþokka dansandi norðurljósa. Í slíkri náttúru verður til ljóðræna og skynjun, að hið smáa getur verið ofurstórt og hið gríðarlega hverfist í smáblóm. Sandkornin á Hólssandi eru mörg, sporin inn í Öskju óteljandi, droparnir margir í fljótinu og foksandur nagaði gróður.

Gegn eyðingunni brosti fjallið Eilífur himnesku brosi – maður mundu köllun þína. Já hvað er mennskan – er hún bara til dauða? Var lífið aðeins tíbrá heits dags? Mökkur daga, æðandi stórhríð, brosandi hjartablóm stæla æðruleysi, kenna samsend alls sem er, opna æðar lands, sögu, Guðs. Og hið mikla fæðist í hinu smáa, Hanna tók í sig land, stóru spurningarnar, fortíð og ást til fólks. Arfur úr foreldrahúsum varð heimamundur, sem hún naut og gat veitt af alla tíð. Elskið.

Suðurferð og fjölskyldusaga

Svo fór Hanna Ingólfsdóttir suður og í Iðnskólann. Hún varð hágreiðslumeistari og rak eigin stofu í Skólastræti. Hún hafði fljótt mikið að gera og rífandi tekjur. Enginn, sem henni kynntist, efaðist um færni hennar.

Þegar Matthías lenti í brasi með félaga sína í samkvæmi á þeim örlagadegi 1. október 1949 var nærri honum nett stúlka sem gerði sér grein fyrir vanda hans, færði sig til á stól sínum og sagði við hann. “Þú getur setið hér á stólnum hjá mér.” Og þaðan í frá sat hann hjá henni. Svo fóru þau að búa. Hanna var hrifin af Matthíasi sínum og sagði sínu fólki stolt að hann væri verulega vel hagmæltur! Svo fæddist þeim Haraldur. Matthías stökk út í lönd skömmu eftir fæðingu. Fjarri konu og nýfæddum syni uppgötvaði hann hversu Hönnulaus tilveran var honum óbærileg. Hann tók ákvörðun sem ekki varð hnikað að fara aldrei bæjarleið í veröldinni án hennar. Svo varð.

Hanna vann fyrir þeim hjónum fyrstu árin. Danmerkurárin urðu þeim dýrðartími. Þegar þau sneru heim hélt Hanna áfram hárgreiðslunni. Bóndi hennar þjónaði Morgunblaðinu og annirnar urðu svo miklar, að Ingólfur varð ekki til fyrr en áratug á eftir bróður hans kom í heiminn. Þá hætti Hanna sínum atvinnurekstri en hélt vel um sína menn og hafði að auki tíma til allra þeirra ómetanlegu félagsstarfa, sem hún varð kunn fyrir og hlaut síðar viðurkenningu fyrir með veitingu Fálkaorðunnar.

Það var skemmtilegt að sjá blikið í augum sona hennar þegar spurt var um mömmuhlutverkið. Þeir voru sammála um, að móðir þeirra hafi sett skýr mörk, klára stefnu, skiljanlegar leikreglur og hún hafi ekki þurft að skella hurðum til að þeim yrði hlýtt. Hún vildi að karlarnir hennar héldu sínu striki í verkum, stæðu fast og hvikuðu ekki meðan stætt væri. Hanna stýrði vel og eflaust hefur Haraldur líka notið Hönnureglu og lagaspeki til sinna starfa. Hann er lögfræðingur og ríkislögreglustjóri. Ingólfur lagði stund á læknisfræði og er tvöfaldur doktor í veirufræði. Hann kennir við læknadeild Edinborgarháskóla.

Börnin í fjölskyldunni urðu Hönnu gleðigjafar. Kona Haraldar er Brynhildur Ingimundardóttir og eiga þau fjögur börn: Matthías, Kristján, Önnu og Svövu. Líf sona, fjölskyldunnar, barnabarna og langömmubörnin, börn Matthíasar yngri urðu tilefni margra sagna, sem Hanna gladdi okkur vini sína með. Hún vakti yfir velferð og gæfu þessa fólks, allra sem henni tengdust, fagnaði happi og sigrum og svo bað hún fyrir þeim sem þörfnuðust, og virkjaði bænahópinn í kirkjunni, þegar erfiðleikar steðjuðu að.

Eigindir

Hanna var ekki einnar víddar? Var það fæðing á fjalli sem olli, fósturfjórðungurinn, arfur eða mótun? Líkast til allt þetta samtvinnað. Uppistaðan í henni var sterk, hún var einbeitt og stefnuföst, hafði þegið góðar og fjölþættar gáfur í vöggugjöf. Hún var eins og björkin og brotnaði ekki við álag. Hún var æðrulaus og hafði tamið sér að bera ekki sorgir á torg. Hún var dul, en trúði þó prestunum sínum fyrir flestu og svo átti hún líflínu í greiðu himinsambandi.

Hanna hafði ekki aðeins skoðanir á heimsmálum og stjórnmálum Íslands, heldur líka helgileikjum í Oberammergau, ítölskum kúltúr og ótrúlegt nokk – Formúlunni. Michael Schumacher var hennar kappi. Þó hún væri ekki sjálf í spyrnunni, sá hún til að bílarnir þeirra Matthíasar væru hreinir. Hanna var flott í stígvélum á þvottaplaninu og með slæðu á höfði. Hanna vildi hafa allt fallegt og vandað í kringum sig. Og gæði vildi hún einnig í starfsháttum og samskiptum. Hanna heyrði aldrei slúður og miðlaði því ekki. En hún var hins vegar glögg á fólk, sagði frá til góðs og eflingar. Hún lagði alltaf vel til annarra og stóð svo ákveðin með þeim sem á var hallað. Hanna var trygglynd, glaðlynd, kímin og vönduð til orðs og æðis. Hún átti enga óvildarmenn. Allt frá bernsku var hún ákveðin að lifa sólarmegin í lífinu og snúa örðugleikum til góðs og var alltaf lipur við að leyfa öðrum að njóta birtunnar.

Félagsþjónusta Hönnu

Elskið – elskið – það var boðskapur Jesú. Og í Hönnu bjó virðisauki elskunnar. Hún brást vel við kalli frá stuðningssamtökum fanga. Á aðfangadagskvöldum – yfir fjörutíu ár – var Hanna sem engill af himni í veröld Verndarfólks. Fyrst fór hún niður á Hjálpræðisher, efndi þar til veislu og svo kom hún þreytt en sæl í miðnæturmessuna í Neskirkju. Hanna starfaði einnig að barnaverndarmálum og var í Barnarverndarnefnd Reykjavíkur í mörg ár.

Hanna var rásföst í pólitík eins og í öðrum málum. Í tengslum við fólk spurði hún ekki um flokksskírteini en hún beitti sér í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði heillandi sögur af litríkum vinum sínum í pólitíkinni. Hanna var í trúnaðarráði Hvatar, félagi Sjálfstæðiskvenna, og var formaður um skeið.

Það var Neskirkju og starfi þjóðkirkjnnnar blessun og happ þegar sr. Guðmundur Óskar kom á fund Hönnu árið 1988 og bað hana að koma til starfa í sóknarnefnd Nessafnaðar. Hún sagði já og þjónaði svo kirkjunni óhvikul, lengstum sem varaformaður sóknarnefndar. Hún var safnaðarfulltrúi og sótti því héraðsfundi prófastsdæmisins, var í héraðsnefnd og í stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar.

Aldrei þáði Hanna laun fyrir en starfsdagur hennar í kirkjunni var oft langur eins og hún væri í meira en fullu starfi. Hún vakti yfir flestum starfsþáttum ekki síst mömmumorgnum og barna- og unglinga-starfi. Hún gætti að velferð starfsfólks kirkjunnar, tók á móti öllum, sem komu í kirkjuna, með þeim hætti að allir urðu heimamenn. Hún var eiginlega framkvæmdastjóri kirkjunnar í mörg ár. Allir fóru upplitsdjarfari frá hennar fundi. Við, prestarnir, áttum alltaf stuðning vísan og ráðhollt mat hennar.

Það var gaman að spyrja hana hvað maður ætti nú að tala um næsta sunnudag. Hún skautaði með klerkinum yfir viðfangsefnið. Sjaldan vildi hún efna til herferða eða stórudóma. En eitt sinn var henni alveg lokið og þótti mál og menning þjóðarinnar vera að blása upp og trosna. “Nú þarf presturinn að tala um tungumálið,” sagði hún. Og svo gerði presturinn það auðvitað. Þá fékk ég innsýn í hvernig hún hefur verið Matthíasi stuðningur í gustmiklu starfi hans.

Hanna hlustaði og fyldist með öllu frá Hönnusætinu í kirkjunni, í þriðju röð við ganginn, og stýrði messustandi safnaðarins – nú er sætið hennar autt – hvít rós í því tjáir missinn.

Matthías hefur haft mikil áhrif með störfum sínum. En ég þori að fullyrða að fleiri hafa staðið og setið í samræmi við forskrift Hönnu en forskrift Matthíasar. Í áratugi stóð söfnuðurinn og sat í samræmi við hennar stjórn.

Í mörg ár útdeildi hún í altarisgöngum með prestum. Þeirri þjónustu lauk ekki fyrr en við dauða hennar. Fyrir liðlega mánuði síðan útdeildi Hanna við bænamessu. Hún gekk með bikarinn, bar lífstáknið – sagði hin helgu orð: Blóð Krists – bikar lífsins. Sú útdeiling í hinstu altarisgöngu hennar var á nákvæmlega sama stað og kista hennar er nú. Ekki óraði mig fyrir þegar ég útdeildi henni, að það væri nestun til eilífðar.

Hanna er farin en táknmálið lifir, lífið lifir, trúin sem hún þjónaði er lífsstrengur og orðin sem hún sagði eru áhrínsorð.

Kærleikur þinn hafið

Síðustu daga höfum við, vinir Hönnu, verið að reyna að að æfa okkur í staðreynd dauða hennar. Hanna er ekki lengur nærri. En svo koma ljóðin hans Matthíasar upp í fangið og huga og við uppgötvum að hún er víða í ljóðum hans.

Í hinum magnaða ljóðabálki Sálmar á atómöld segir:

Óendanlega smátt er sandkornið
á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,
kærleikur þinn hafið.

Myndin tjáir guðsnánd. Vatn er alls staðar þar sem líf er, og myndhverfingin miðlar að elskan hríslast um æðar þínar og er í sál þinni. Elskan til maka og barna, ástalíf þitt allt er hræring hinnar miklu Guðsnándar. En getur verið að Hanna sé þarna líka í þessu ljóði, sem ásjóna Guðs, birting hins guðlega?

Nú hefur Eílífur vitjað Hönnu. Í vikunni kom ég heim til Matthíasar. Hann opnaði bókina Mörg eru dags augu og benti á ljóðið um Víðirhól og Hönnu. Þar segir:

Hún beygir sig niður

eftir blómi

og réttir mér hjarta

úr grænu blaði,

réttir mér hjarta

vaxið úr dökkri mold,

og lynggróin heiðin

horfir á okkur

úr öllum áttum.

Á þessari bókaropnu var líka þurrkuð jurt límd í bókina. Matthías hafði varðveitt hjartablómið og skrifað svo í bókina hvar Hanna hafði gefið honum þessa ástargjöf. Blómið í bókinni við hlið ljóðsins er tákn um allar hjartans gjafir hennar til hans, en líka ástvina, vina, samferðafólks, gjafir til lífs, bikar lífsins. Elskið – Saga Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen er saga um hafstærð kærleikans sem nú hefur opnast henni.

Guð geymi hana, Guð geymi þig.

Amen

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen 28. nóvember 1929 – 25. apríl 2009. Minningarorð í útför í Neskirkju 8. maí 2009.