Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Guðlaugur Stefánsson – minningarorð

Guðlaugur kom hjólandi að Ísaksskóla. Þar beið dótturdóttir hans í ofvæni eftir afa. Hann sveigði upp að skólanum, steig af hjólinu og tók á móti stúlkunni fagnandi. Henni fannst afi vera eins og frelsari sem bjargaði henni úr skólanum. Það eru fleiri slíkir en á hvítum hestum. Svo kom Guðlaugur mjúkum poka fyrir á bögglaberanum til að sæti dömunnar yrði sem þægilegast. Svo kom hún sér fyrir og þau fóru af stað. Þetta var þeirra ferð og gæðastund. Það var gaman þegar afi kom, að halda í hann og líða svo um heiminn, horfa á hús, bíla og mannlíf og vita að kaka biði heima hjá ömmu og afa. Svo sást fjölskyldutréð, hlynurinn í garðinum við Fjölnisveg og þá voru þau komin á leiðarenda. Engir hjálmar – en aldrei duttu þau eða lentu í áföllum. Þetta voru hamingjuferðir. Guðlaugur var traustsins verður, gætinn, glöggur og glaður. Svo þegar afastúlkan hugsar til baka þá voru þessar reisur þeirra góðar ævintýraferðir.

Þetta er ein af mörgum sögum sem ég hef heyrt um valmennið Guðlaug, um ferðirnar hans í þágu fólks og lífs, lífsreisur hans með Lilju, börnum hans, afkomendum og ástvinum. Guðlaugur þjónaði líka nemendum sínum og menntun og menningu þeirra sem hann bar ábyrgð á, hvort sem það var fyrir austan, hér syðra eða í þeim hópum og greinum sem hann tengdist.

Upphaf

Upphaf Guðlaugs var í Eyjum en svo fór hann austur barn að aldri. Hann var sumarmaður, fæddist í Vestmannaeyjum 12. júlí árið 1936, elstur í systkinahópnum. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Pétur Pétursson og Halla B. Guðlaugsdóttir. Þau eignuðust þrjár systur eftir að skrákurinn fæddist. Elst systranna er Halla Valgerður sem kom í heiminn 1937, ári á eftir Guðlaugi. Þar á eftir fæddist systir árið 1942 en hún lést aðeins fjögurra mánaða gömul. Hvaða skuggar settust að í heimilislífinu og hvernig var unnið úr sorginni? Það vitum við ekki en mynd af henni í kistunni var til á heimilinu – en ekki um hana rætt. Svo kom gleðigjafin Stefanía árið 1947.

Guðlaugur sótti skóla í Neskaupstað. Lífið í bænum var fjörmikið. Sundlaugin var tekin í notkun 1943 og varð miðstöð yngri sem eldri bæjarbúa, gleðigjafi og sundiðkendum heilsubót. Guðlaugur varð snemma afburða sundmaður. Þeir félagarnir í Skyttunum þremur kepptu í sundi. Alla tíða þótti Guðlaugi gaman að synda og hann sótti í vatnið. Síðustu árin sóttu þau Lilja í sundlaugina í Laugardal. Guðlaugur varð snemma fjölhæfur íþróttamaður og keppti á unglingsárum í frjálsum íþróttum og einkum hlaupum. Alla tíð sinnti hann heilsurækt sinni dyggilega. Hann var líka valinn til forystu í félagsmálum og var um tíma formaður íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað. Eftir hann liggja m.a. ritsmíðar á þess vegum og um íþróttir.

Stefán, faðir Guðlaugs, var vélstjóri og sjómaður. Vegna sjósóknar var hann löngum fjarri heimili. Halla, móðir hans, var dugmikil líka og eina vertíðina var hún í Sandgerði og sonur hennar var þar með henni. Guðlaugur lærði því snemma að bjarga sér, sjá um sig og sína. Hann varð sjálfbjarga og sjálfstæður.

Framhaldsskóli og nám

Guðlaugur tók stefnuna á hinn nýja Menntaskóla á Laugarvatni. Þá tóku við mótunar- og menntaár. Hann las ekki aðeins bækur, lærði fyrir tíma og glósaði danska og þýska texta heldur straujaði skyrturnar sínar og festi lausar tölur. Hann hafði gaman af námi og lífi, var góður námsmaður, kom sér vel, lagði gott til allra og var góð fyrirmynd samnemenda sinna. Stúdentshúfan fór á kollinn hans vorið 1956. Hann var hæfileikaríkur, gat margt, íhugaði möguleika og stefnu og í honum bjó líka útþrá. Þýskan togaði og hann fór til náms í þýsk-dönsku borginni Kiel. Svo athugull og skipulagður sem Guðlaugur var sá hann hve illa borgin hafði verið leikin af skelfingum seinni heimsstyrjaldar. Veran í Kiel varð til að Guðlaugur markaði sér fræðasvið. Hann valdi þýsku og dönsku, lauk kennaraprófi frá stúdentadeild Kennaraskólans árið 1960 og síðan BA-prófi þremur árum síðar eða 1963. Svo varð kennslan meginstarfi Guðlaugs þaðan í frá. Skólastjórinn í Vogaskóla hafði samband við hann og bað hann að koma til starfa sem hann gerði og kenndi þar í áratug eða til 1972. Svo var Menntaskólinn við Tjörnina stofnaður sem hleypti miklu lífi í miðborgina. Þangað fóru dugmikilir kennarar til starfa og Guðlaugur var einn þeirra. Hann kenndi þýsku í MT og fór síðan með kollegum sínum inn í Sund þegar MT varð að MS, Menntaskólanum við Sund. Guðlaugur kenndi einnig þýsku í MS til starfsloka árið 2006. Öllum kom Guðlaugur til nokkurs þroska. Hann var öflugur og hæfur skólamaður, góður félagsmálamaður og var því eftirsóttur til ýmissa starfa. Guðlaugur var flokksstjóri Vinnnuskólans í Reykjavík í mörg sumur og kenndi að auki um tíma í Námsflokkum Reykjavíkur.

Lilja og heimilið

Svo var það ástin og fjölskyldan. Guðlaugur og Lilja Jóhanna Gunnarsdóttir elskuðu hvort annað. Ást þeirra lifði öll árin þeirra. Þau gengu í hjónaband í Háskólakapellunni laugardaginn 16. júní 1962. Það er við hæfi að minna á að þann dag sem þau sögðu já við hvort annað var efst á vinsældalistanum í Bandaríkjunum hið dásamlega lag um ástina – I can‘t stop loving you í flutningi Ray Charles. Jáin þeirra voru staðföst og til framtíðar og þau hættu aldrei að elska. 

Guðlaugur og Lilja sáust fyrst í Lídó á fullveldisdeginum 1. desember 1961 og Lilju varð starsýnt á hinn vörpulega unga mann. Svo hittust þau á Garðsballi og fóru að dansa. Þau tóku falleg spor á gólfinu, fundu taktinn og dönsuðu sig til ástar sem lifði í sex áratugi. Þau hættu aldrei – stoppuðu aldrei – að elska hvort annað. Þau hófu búskapinn í fjölskylduhúsinu á Fjölnisvegi 15 og bjuggu þar alla tíð og nutu samvistanna við tengslafólkið í húsinu. Svo byggðu þau við húsið og bættu aðstöðu fyrir íbúana.

Stefán fæddist í nóvember 1962 og Jórunn Sjöfn kom í heiminn í febrúar árið 1967 og Halla Sif tólf árum síðar – í ágúst 1979. Þau fengu því öll rými, elsku og næði til þroska. Dóttir Jórunnar er Lilja Rut og hún á soninn Benedikt Búa með Eiríki Inga Lárussyni. Synir Höllu eru Daníel Snær; Anton Örn og Tómas Ari og þeir eru synir Jesús Rodríguez.

Húsið í skjóli fjölskylduhlynsins var hús ástar og vaxtarreitur kærleikans. Guðlaugur bar virðingu fyrir Lilju sinni, treysti dómgreind hennar, tók tillit til þarfa hennar og afstöðu og mat ráð hennar. Þau voru samrýmd og samstiga í lífinu. Sambúð þeirra var gæfusöm og hamingjurík.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðlaug? Hvað var það sem hann sagði við þig sem sat í minni þér? Hver er skemmtilegasta minning þín um hann? Hvað kenndi hann þér? Manstu hve vel hann skrifaði og hve skrautskriftin hans var glæsileg? Nemendur og kollegar hans hafa sagt frá hve öflugur skólamaður og stöndugur kennari Guðlaugur var. Mannvirðing var honum í blóð borin. Hann var hlýr, orðvar, dagfarsprúður og kurteis í samskiptum við nemendur sína og samverkafólk, hvatti til dáða án nokkurs hávaða og kom hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri með hlýju og lagni. Með því lagi þokaði hann málum fram.

Guðlaugur var vinnusamur. Honum var það gefið þegar í uppvexti frá foreldrum og samfélagi. Hann lærði af föður sínum smíðar og viðgerðir. Hann var laginn til verka og var sjálfbjarga um fleira en tölur og við straubretti. Heima dittaði hann að og smíðaði – jafnvel innréttingar. Nemendur gátu verið vissir um að Guðlaugur byggi til glósuhefti til að létta þeim vinnu í glímunni við þýskuna. Í sólbaði féll honum jafnvel ekki verk úr hendi heldur notaði yndisstundirnar til gefandi verka. Garðurinn naut hans ríkulega og ber alúð íbúanna vitni og atorku Guðlaugs sem þótti gott beita sér í útiverkunum við slátt, verk og snjómokstur.

Guðlaugur hafði auga fyrir umhverfi sínu. Hann fékk áhuga á ljósmyndun og tók mikið af myndum sem skrásettu og varðveita sögu hans og fjölskyldu. Svo hafði hann áhuga á tónlist og ekki síst jazz og hlustaði á Benny Goodman, Ellu Fitzgerald eða Lois Armstrong. Fegurðarskynið náði líka til handanna því hann var einnig drátthagur og ljómandi teiknari. 

Guðlaugur var alla tíð áhugasamur um útivist og íþróttir. Hann sótti íþróttaviðburði hvort sem það var nú leikur Eusebio og Benfica við Val eða skákmót Spasskys og Fishers. Hann var alla tíð léttur á fæti og gekk gjarnan á fjöll með vinum sínum um helgar. Þeir félagar voru vel heima á Vífilfelli, Helgafelli og í Jósepsdal. Þau Lilja gengu líka gjarnan saman í Öskjuhlíðina, á Mosfell eða eitthvað annað sér til heilsubótar og gleði. Guðlaugur hafði lært í bernsku að heilbrigð sál býr í hraustum líkama. Hann hafði alla tíð þörf fyrir loft í lungu og góðan félagsskap. Svo hvatti hann börn sín til heilsuræktar og fór með fjölskylduna á skíði og í sund.

Guðlaugur var reglumaður í öllu. Lágt vetrarsólskinið opinberaði ekki ryk á heimili þeirra Lilju. Hann sótti gjarnan ryksuguna ef þörf var á og sá til að allt væri í röð og reglu. Guðlaugur var opin og aðlagaðist þörfum hvers tíma. Hann tók tillit til annarra í fjölskylduhúsinu. Og þegar aðstæður breyttust var hann fús að sinna nýjum hlutverkum. Hann var ekki gamaldags húsbóndi sem var fastur í farinu heldur brást við með skapandi hætti. Þegar börnin komu í heiminn eldaði hann og axlaði líka ábyrgð á heimilisrekstrinum. Þegar Lilja þurfti að nota bílinn tók hann bara hjólið og fór í sína vinnu. Reglumaðurinn var opinn, sveigjanlegur, tillitsamur og aðlagaðist. Í vinnu vann hann með fólki og þoldi vel breytingar og þróun skólanna sem hann þjónaði. Guðlaugur var í mörgu á undan sinni samtíð. Pólitísk stefnumál var hann til í ræða og breyta um skoðun ef hann heyrði góð rök. Kynhlutverk og venjur voru eitthvað sem Guðlaugur einfaldlega vann með í þágu konu sinnar, fólksins síns og annarra. Við erum ekki eyland heldur í tengslum. Hlutverk okkar mega vera fljótandi og breytast til að tryggja gott líf, vöxt og gjöfula menningu. Guðlaugur er fyrirmynd okkur hinum.

Inn í eilífðina

En nú er Guðlaugur farinn inn í heiðríkjuna. Líf hans var góð guðsþjónusta. Hann skildi eftir þekkingu, visku og elsku í sál og lífi fólksins síns. Það verða ekki fleiri helgarkaffi eða samverur með honum en minningarnar um hann lifa. Handaverkin hans sjást í og við Fjölnisveg 15. Guðlaugur skrifar ekki framar á fjölda útskriftarskírteina MS en falleg rithönd hans sést í Biblíum barna hans. Hann mokar ekki framar skafla af stéttinni og engin handryksuga fer framar á loft til að hreinsa upp confetti-snifsin á gamlárskvöldi! Hann fer ekki framar í sund eða smellir mjúkum poka á bögglabera. Við vitum ekki hvort það verða einhver DBS-reiðhjól á eilífðarbrautunum en engin far- eða ferðabönn verða. Guðlaugur horfir ekki framar hlýlega á Lilju sína, börnin eða fjölskyldu. Nú er hann farinn inn í ljósríki himinsins. Öll stríð eru að baki og hann fær að hvíla í skugga einhvers himnesks fjölskylduhlyns – og blessa Lilju, börnin sín, ástvini og félaga.

Þökk fyrir líf Guðlaugs. Guð blessi hann og geymi – og líkni ykkur ástvinum.

Lagt út af kærleiksóði Páls í 1. Korintubréfi 13 og leiðarlýsingu Jesú í Jóhannesarguðspjalli 14. Kistulagt í kapellunni Fossvogi 21. febrúar. Útför Hallgrímskirkju 24. febrúar kl. 15. Bálför. Jarðsett í Fossvogi 9. mars. Erfi í Þingholti á Hótel Holt. Útfararstofa kirkjugarðanna. Óskar Einarsson, tónlistarstjóri. 

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen – minningarorð

Hanna Johannessen var mér og starfsfólki Neskirkju sem besta móðir.  Hún var dugmikil sóknarnefndarkona og kom flesta daga í kirkjuna til að leggja lið og efla fólk til starfa. Hún lést vorið 2009. Ég var að leita að minningarorðum mínum um Hönnu og sá þá að þau höfðu horfið með gamalli vefsíðu. Set þau hér inn til minningar um stórkostlega konu og mannvin. Blessuð sé minning Hönnu. 

Hjartablóm

Hanna og Matthías voru á Hólsfjöllum. Þau voru komin heim í fang fjallanna hennar Hönnu, heim í Víðirhól. Ilmur gróðurs kitlaði, blómin brostu og augu heiðarinnar horfðu á þau úr öllum áttum. Kvika Matthíasar var snortin. Hann skynjaði helgi augnabliksins, þykkni sögunnar, dansandi stúlkubarnið í konunni sem laut niður á hlaðinu á Víðirhóli og gældi við gróðurinn. Svo rétti hún úr sér, brúnu augun ljómuðu og hún lagði í lófa hans fíngert blóm. Hann sá hvað það var – og að það var alsett hjörtum, sláandi ástartjáning Hönnu, sem gaf honum ekki einfalda ást sína, heldur hjörtu lífs, gleði, styrks, trúar, vonar, hláturs og ljóða. Hún varð honum póesía, verðandi – og líka okkur hinum. Og Matthías hreifst af þessu smáblómi ástarinnar, tákni um líf lands og fólks. Lífið lifir.

Ungur maður sem hefur sótt Neskirkju í mörg ár og kynntist því Hönnu sagði í vikunni: „Það er óhugsandi að Hanna sé dáin. Hún hefur alltaf verið óháð tíma, eiginlega ofar tímanum og eins og hún gæti ekki dáið.”

En höggið kom snöggt og skjótt. Hvernig verður hjá Matthíasi? Hvernig er hægt að hugsa sér aðfangadagskvöld á Hernum án Hönnu? Hvernig getur kirkjulíf í Vesturbænum lifað af, svo við tölum nú ekki um pólitík, góðvild, fermingarbörnin hér í kirkjunni og mömmumorgnana? Stórfjölskyldan í Neskirkju kveður “kirkjumömmu” sína – eða “kirkjuömmu” eins og sum börnin í sunnudagaskólanum sögðu. Þú og þessi stóri kærleikshópur Hönnu sem kveður í dag hefur tapað vökukonu elskunnar.

Elskið – elskið hvert annað – sagði Jesús við brottför sína af heimi. Fólkið á Hólsfjöllum, fjallræðufólkið, iðkaði boðskap Jesú. Elskið, gætið að líðan fólks og dýra, eflið hvert annað, dansið á góðum dögunum, syngið þegar söngs er þörf og ljóð kvikna. Meitlið mál, elskið hvert annað – gefið hjartablóm til lífs.

Æviágripið

Jóhanna Kristveig fæddist á Grímsstöðum á Fjöllum 28. nóvember árið 1929. Foreldrar hennar voru Ingólfur Kristjánsson og Katrín María Magnúsdóttir. Barnalán þeirra var mikið og eignuðust þau hjón fimmtán börn. Hanna lærði því á fólk strax í bernsku.

Heimilislífið var fjörugt og bókelskt. Foreldrarnir voru samstiga í uppeldi, glaðværð, ögun og menntunaráherslu. Á vökum var lesið, ljóð hljómuðu, mál var vandað og pabbinn brást hart við þegar texti var brotinn eða mál brenglað. Um pabbann var sagt að hann væri Gullna reglan holdi klædd. Ingólfur var tilfinningamaður og spyrja má hvort Hanna fann ekki í Matthíasi síðar ýmsa djúpstrengi, sem hún þekkti úr fíngerðum lífsþorsta pabbans. Svo erfði hún spilandi glaðværð hinnar hálffæreysku mömmu, sem var berdreymin, fjölskynug, fagurkeri og söngvin. Börn Ingólfs og Katrínar fengu stóra meðgjöf sjálfsvirðingar til ferðarinnar út í lífið. Í þeim býr mannvirðing og fjölþættar gáfur. Því voru þeim margir vegir færir og “þau áttu að gera eitthvað úr sér” sagði Katrín.

Fyrstu árin bjó stækkandi fjölskyldan á Grímsstöðum. Svo fluttu þau út í kirkjustaðinn Víðirhól. Hvers konar fólk verður til í mæra-aðstæðum? Fjalla Bensi í Aðventu Gunnars Gunnarssonar var einn. Uppeldiskrafan var um lífsleikni en líka elskuiðkun, traust og víðsýni. Svo líka að elska Herðubreið, sem “leit best út um eldhúsgluggan,” eins og Hanna sagði, læra að meta kyrrðina, sem var svo djúp að hægt var að heyra fótatak göngumanns í margra kílómetra fjarlægð, heillast af ofsaþokka dansandi norðurljósa. Í slíkri náttúru verður til ljóðræna og skynjun, að hið smáa getur verið ofurstórt og hið gríðarlega hverfist í smáblóm. Sandkornin á Hólssandi eru mörg, sporin inn í Öskju óteljandi, droparnir margir í fljótinu og foksandur nagaði gróður.

Gegn eyðingunni brosti fjallið Eilífur himnesku brosi – maður mundu köllun þína. Já hvað er mennskan – er hún bara til dauða? Var lífið aðeins tíbrá heits dags? Mökkur daga, æðandi stórhríð, brosandi hjartablóm stæla æðruleysi, kenna samsend alls sem er, opna æðar lands, sögu, Guðs. Og hið mikla fæðist í hinu smáa, Hanna tók í sig land, stóru spurningarnar, fortíð og ást til fólks. Arfur úr foreldrahúsum varð heimamundur, sem hún naut og gat veitt af alla tíð. Elskið.

Suðurferð og fjölskyldusaga

Svo fór Hanna Ingólfsdóttir suður og í Iðnskólann. Hún varð hágreiðslumeistari og rak eigin stofu í Skólastræti. Hún hafði fljótt mikið að gera og rífandi tekjur. Enginn, sem henni kynntist, efaðist um færni hennar.

Þegar Matthías lenti í brasi með félaga sína í samkvæmi á þeim örlagadegi 1. október 1949 var nærri honum nett stúlka sem gerði sér grein fyrir vanda hans, færði sig til á stól sínum og sagði við hann. “Þú getur setið hér á stólnum hjá mér.” Og þaðan í frá sat hann hjá henni. Svo fóru þau að búa. Hanna var hrifin af Matthíasi sínum og sagði sínu fólki stolt að hann væri verulega vel hagmæltur! Svo fæddist þeim Haraldur. Matthías stökk út í lönd skömmu eftir fæðingu. Fjarri konu og nýfæddum syni uppgötvaði hann hversu Hönnulaus tilveran var honum óbærileg. Hann tók ákvörðun sem ekki varð hnikað að fara aldrei bæjarleið í veröldinni án hennar. Svo varð.

Hanna vann fyrir þeim hjónum fyrstu árin. Danmerkurárin urðu þeim dýrðartími. Þegar þau sneru heim hélt Hanna áfram hárgreiðslunni. Bóndi hennar þjónaði Morgunblaðinu og annirnar urðu svo miklar, að Ingólfur varð ekki til fyrr en áratug á eftir bróður hans kom í heiminn. Þá hætti Hanna sínum atvinnurekstri en hélt vel um sína menn og hafði að auki tíma til allra þeirra ómetanlegu félagsstarfa, sem hún varð kunn fyrir og hlaut síðar viðurkenningu fyrir með veitingu Fálkaorðunnar.

Það var skemmtilegt að sjá blikið í augum sona hennar þegar spurt var um mömmuhlutverkið. Þeir voru sammála um, að móðir þeirra hafi sett skýr mörk, klára stefnu, skiljanlegar leikreglur og hún hafi ekki þurft að skella hurðum til að þeim yrði hlýtt. Hún vildi að karlarnir hennar héldu sínu striki í verkum, stæðu fast og hvikuðu ekki meðan stætt væri. Hanna stýrði vel og eflaust hefur Haraldur líka notið Hönnureglu og lagaspeki til sinna starfa. Hann er lögfræðingur og ríkislögreglustjóri. Ingólfur lagði stund á læknisfræði og er tvöfaldur doktor í veirufræði. Hann kennir við læknadeild Edinborgarháskóla.

Börnin í fjölskyldunni urðu Hönnu gleðigjafar. Kona Haraldar er Brynhildur Ingimundardóttir og eiga þau fjögur börn: Matthías, Kristján, Önnu og Svövu. Líf sona, fjölskyldunnar, barnabarna og langömmubörnin, börn Matthíasar yngri urðu tilefni margra sagna, sem Hanna gladdi okkur vini sína með. Hún vakti yfir velferð og gæfu þessa fólks, allra sem henni tengdust, fagnaði happi og sigrum og svo bað hún fyrir þeim sem þörfnuðust, og virkjaði bænahópinn í kirkjunni, þegar erfiðleikar steðjuðu að.

Eigindir

Hanna var ekki einnar víddar? Var það fæðing á fjalli sem olli, fósturfjórðungurinn, arfur eða mótun? Líkast til allt þetta samtvinnað. Uppistaðan í henni var sterk, hún var einbeitt og stefnuföst, hafði þegið góðar og fjölþættar gáfur í vöggugjöf. Hún var eins og björkin og brotnaði ekki við álag. Hún var æðrulaus og hafði tamið sér að bera ekki sorgir á torg. Hún var dul, en trúði þó prestunum sínum fyrir flestu og svo átti hún líflínu í greiðu himinsambandi.

Hanna hafði ekki aðeins skoðanir á heimsmálum og stjórnmálum Íslands, heldur líka helgileikjum í Oberammergau, ítölskum kúltúr og ótrúlegt nokk – Formúlunni. Michael Schumacher var hennar kappi. Þó hún væri ekki sjálf í spyrnunni, sá hún til að bílarnir þeirra Matthíasar væru hreinir. Hanna var flott í stígvélum á þvottaplaninu og með slæðu á höfði. Hanna vildi hafa allt fallegt og vandað í kringum sig. Og gæði vildi hún einnig í starfsháttum og samskiptum. Hanna heyrði aldrei slúður og miðlaði því ekki. En hún var hins vegar glögg á fólk, sagði frá til góðs og eflingar. Hún lagði alltaf vel til annarra og stóð svo ákveðin með þeim sem á var hallað. Hanna var trygglynd, glaðlynd, kímin og vönduð til orðs og æðis. Hún átti enga óvildarmenn. Allt frá bernsku var hún ákveðin að lifa sólarmegin í lífinu og snúa örðugleikum til góðs og var alltaf lipur við að leyfa öðrum að njóta birtunnar.

Félagsþjónusta Hönnu

Elskið – elskið – það var boðskapur Jesú. Og í Hönnu bjó virðisauki elskunnar. Hún brást vel við kalli frá stuðningssamtökum fanga. Á aðfangadagskvöldum – yfir fjörutíu ár – var Hanna sem engill af himni í veröld Verndarfólks. Fyrst fór hún niður á Hjálpræðisher, efndi þar til veislu og svo kom hún þreytt en sæl í miðnæturmessuna í Neskirkju. Hanna starfaði einnig að barnaverndarmálum og var í Barnarverndarnefnd Reykjavíkur í mörg ár.

Hanna var rásföst í pólitík eins og í öðrum málum. Í tengslum við fólk spurði hún ekki um flokksskírteini en hún beitti sér í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði heillandi sögur af litríkum vinum sínum í pólitíkinni. Hanna var í trúnaðarráði Hvatar, félagi Sjálfstæðiskvenna, og var formaður um skeið.

Það var Neskirkju og starfi þjóðkirkjnnnar blessun og happ þegar sr. Guðmundur Óskar kom á fund Hönnu árið 1988 og bað hana að koma til starfa í sóknarnefnd Nessafnaðar. Hún sagði já og þjónaði svo kirkjunni óhvikul, lengstum sem varaformaður sóknarnefndar. Hún var safnaðarfulltrúi og sótti því héraðsfundi prófastsdæmisins, var í héraðsnefnd og í stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar.

Aldrei þáði Hanna laun fyrir en starfsdagur hennar í kirkjunni var oft langur eins og hún væri í meira en fullu starfi. Hún vakti yfir flestum starfsþáttum ekki síst mömmumorgnum og barna- og unglinga-starfi. Hún gætti að velferð starfsfólks kirkjunnar, tók á móti öllum, sem komu í kirkjuna, með þeim hætti að allir urðu heimamenn. Hún var eiginlega framkvæmdastjóri kirkjunnar í mörg ár. Allir fóru upplitsdjarfari frá hennar fundi. Við, prestarnir, áttum alltaf stuðning vísan og ráðhollt mat hennar.

Það var gaman að spyrja hana hvað maður ætti nú að tala um næsta sunnudag. Hún skautaði með klerkinum yfir viðfangsefnið. Sjaldan vildi hún efna til herferða eða stórudóma. En eitt sinn var henni alveg lokið og þótti mál og menning þjóðarinnar vera að blása upp og trosna. “Nú þarf presturinn að tala um tungumálið,” sagði hún. Og svo gerði presturinn það auðvitað. Þá fékk ég innsýn í hvernig hún hefur verið Matthíasi stuðningur í gustmiklu starfi hans.

Hanna hlustaði og fyldist með öllu frá Hönnusætinu í kirkjunni, í þriðju röð við ganginn, og stýrði messustandi safnaðarins – nú er sætið hennar autt – hvít rós í því tjáir missinn.

Matthías hefur haft mikil áhrif með störfum sínum. En ég þori að fullyrða að fleiri hafa staðið og setið í samræmi við forskrift Hönnu en forskrift Matthíasar. Í áratugi stóð söfnuðurinn og sat í samræmi við hennar stjórn.

Í mörg ár útdeildi hún í altarisgöngum með prestum. Þeirri þjónustu lauk ekki fyrr en við dauða hennar. Fyrir liðlega mánuði síðan útdeildi Hanna við bænamessu. Hún gekk með bikarinn, bar lífstáknið – sagði hin helgu orð: Blóð Krists – bikar lífsins. Sú útdeiling í hinstu altarisgöngu hennar var á nákvæmlega sama stað og kista hennar er nú. Ekki óraði mig fyrir þegar ég útdeildi henni, að það væri nestun til eilífðar.

Hanna er farin en táknmálið lifir, lífið lifir, trúin sem hún þjónaði er lífsstrengur og orðin sem hún sagði eru áhrínsorð.

Kærleikur þinn hafið

Síðustu daga höfum við, vinir Hönnu, verið að reyna að að æfa okkur í staðreynd dauða hennar. Hanna er ekki lengur nærri. En svo koma ljóðin hans Matthíasar upp í fangið og huga og við uppgötvum að hún er víða í ljóðum hans.

Í hinum magnaða ljóðabálki Sálmar á atómöld segir:

Óendanlega smátt er sandkornið
á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,
kærleikur þinn hafið.

Myndin tjáir guðsnánd. Vatn er alls staðar þar sem líf er, og myndhverfingin miðlar að elskan hríslast um æðar þínar og er í sál þinni. Elskan til maka og barna, ástalíf þitt allt er hræring hinnar miklu Guðsnándar. En getur verið að Hanna sé þarna líka í þessu ljóði, sem ásjónu Guðs, birting hins guðlega?

Nú hefur Eílífur vitjað Hönnu. Í vikunni kom ég heim til Matthíasar. Hann opnaði bókina Mörg eru dags augu og benti á ljóðið um Víðirhól og Hönnu. Þar segir:

Hún beygir sig niður

eftir blómi

og réttir mér hjarta

úr grænu blaði,

réttir mér hjarta

vaxið úr dökkri mold,

og lynggróin heiðin

horfir á okkur

úr öllum áttum.

Á þessari bókaropnu var líka þurrkuð jurt límd í bókina. Matthías hafði varðveitt hjartablómið og skrifað svo í bókina hvar Hanna hafði gefið honum þessa ástargjöf. Blómið í bókinni við hlið ljóðsins er tákn um allar hjartans gjafir hennar til hans, en líka ástvina, vina, samferðafólks, gjafir til lífs, bikar lífsins. Elskið – Saga Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen er saga um hafstærð kærleikans sem nú hefur opnast henni.

Guð geymi hana, Guð geymi þig.

Amen

Hanna Ingólfsdóttir Johannessen 28. nóvember 1929 – 25. apríl 2009. Minningarorð í útför í Neskirkju 8. maí 2009.

Örn Jóhannsson

Síminn hringdi og rödd Eddu hljómaði. Örn vissi að hún væri í Kaupmannahöfn og væri á leið heim. Honum þótti vænt um að heyra í henni áður en hún færi út í vél. Í gegnum flugstöðvarhljóðin frá Kastrup heyrði hann að með henni væru listamenn sem væru að koma á vegum i8. Svo sagði hún honum að hana langaði til að bjóða hópnum heim þegar þau væru lent. Hún spurði því bónda sinn hvort hann væri til í að kaupa þrjú lambalæri og elda fyrir hópinn. Jú, mikil ósköp, hann sá ekkert til fyrirstöðu að græja máltíð fyrir heilan hóp. Hvað væri það sem hann gerði ekki fyrir Eddu sína? Svo kvöddust þau. Örn skrapp í búðina og náði í hæfilega hangið. Flysjaði svo hvítlaukinn, stakk beitta japanska hnífunum sínum í kjötið og síðan fóru hvítlauksgeirarnir í götin. Svo var saltað, piprað og gott ef ekki kryddað líka með slatta af oreganó, tímían og rósmarín. Svo kom hann þrennunni í ofninn. Úr varð langsteiking af því Edda var svo forsjál að hringja með góðum fyrirvara. Undursamleg lyktin mætti henni og hópnum. Það var upphafið að Íslandsævintýri með gjörningum og kraftaverkum sem þau hjón gátu saman töfrað fram. Þau voru frábært teymi. Gjörningar þeirra voru fyrir öll skynfærin og samfélag við borð er öllum gleðigjafi. Eins og kirkjur eru heimili best þegar þau eru borðhús, samastaður þar sem boðið er til borðs – til tjáningar, skoðanaskipta, unaðar krydds og lyktar, til veislu til að næra sálir, hjörtu, samskipti og nánd. Örn flaug manna hæst í veitulli mennsku. Lífið lifir.

Hvernig manstu Örn? Hvað var það sem hann sagði og þér þótti markvert og jafnvel viska sem þú lærðir og hagnýttir? Manstu taktana hans? Pípurnar eða hlýtt augnatillitið? Vel snyrta skeggið, formfestuna og víðsýnið? Í Erni voru ýmsar víddir, festa en líka opnun, djúp en líka hæð, smáfegurð en líka næmni á hið rosalega. Hvað þótti þér mest áberandi og hvað varð þér til eftirdæmi? Hvað lærðir þú af honum og hvað skilur hann eftir í þér eða hjá þér?

Örn var maður tveggja tíma. Hann naut staðfestu íslenskar menningar en líka breytinga tuttugustu aldarinnar. Hann naut hins besta úr kyrrstöðumenningu fortíðar en líka breytinga í hraðri verðandi nútímans. Hann var klassíker sem sótti í gæði og miðlaði. Hann sótti í opnun hins stóra, djúpa, fagra og magnþrungna. Ísland breyttist þegar hann var að alast upp og með festu fortíðar mætti hann óhræddur nútímanum – og þorði að beita sér.

Melaskóli var nýr þegar skólaganga Arnar hófst. Barnamergðin var mikil í vesturbænum. Hvert vildi hann fljúga þessi hæfileikamaður? Örn tók stefnuna á Verslunarskólann, lærði bókhald, reglu í rekstri, fyrirhyggju og mikilvægi yfirsýnar til að allt gengi sem best. Svo var það gæfa hans að hann tengdist Morgunblaðinu snemma. Örn varð þjónn þess í fyrstu og síðan leiðtogi í framsæknum hópi hæfileikamanna. Glöggur rekstrarmaður var þarfur í hringiðu miðlunar og stjórnmála eftirstríðsáranna. Ritstjórar og stjórn Árvakurs uppgötvuðu að Erni var treystandi á rólegum dögum og líka þegar þurfti að finna fé fyrir nýjum prentvélum eða flugvélum á gosstöðvar eða staði stórræðanna. Á sjöunda áratugnum var ungu fólki ekki lögformlega treyst fyrir horn með peninga. Þá urðu menn ekki fjárráða fyrr en 21 árs. En Örn var um tvítugt kominn með ávísanahefti stórfyrirtækis, borgaði reikninga Árvakurs, gerði fárhagsáætlanir og stundaði stórbisnis. Hið kostulega var að hann hafði ekki leyfi til að eiga ávísanahefti sjálfur. Síðar tottaði Örn pípuna sína og glotti yfir þessum furðum. Hann var á undan sinni samtíð. Hann þoldi ekki aðeins breytingarnar heldur var óhvikull þegar þurfti að endurnýja tækjabúnað og bæta aðstöðu Moggans. Hann vakti yfir gæðum og þróun tækni í útgáfumálum og þorði alltaf að sækja fram. Hann fylgdi eftir flutningi úr Kvosinni og inn í Kringlumýrina til að hægt væri að kaupa nýjar prentvélar. Hann vaktaði breytinguna úr blýsetningu yfir í tölvutækni. Var á öldufaldi tölvuvæðingar. IBM-tölvurnar, upphafstölvur til almenningsnota, þessar með MS-DOS-kerfunum og Word-Perfect voru bylting. Örn hikaði ekki að kaupa því þrátt fyrir vankanta upphafsáranna voru þær þó bylting frá ritvélum og setningu. Svo keypti Örn risaprentvélar fyrir Morgunblaðið svo ekki var lengur pláss í Kringlumýrarhúsunum. Enn ýtti Örn öllu af stað og Mogginn flutti að Rauðavatni þar sem rýmið var nægilegt fyrir breytilegan rekstur. Í Erni var framtíðin opin og hann var alla tíð framsýnn. Hann hafði auga fyrir tækifærum, fylgdist með breytingum, straumum og stefnum. Hann var hagsýnn en líka með opin augu og huga. Örn var á sinni vinnstöð nákvæmur gæðaeftirlitsmaður og öflugur mannauðsstjóri. Hann lagði upp úr góðri umgengni á vinnustað og gerði óþrifnað útlægan úr prentsölunum sem ekki var sjálfgefið í salarkynnum prentsvertunnar. Hann iðkaði mannvinsemd. Vinnufélagi hans kallaði hann kúltíveraðan sjentilmann sem var fyrirmynd samstarfsfólki.

En Örn var ekki bara Moggamaðurinn. Hann var maðurinn hennar Eddu. Hjón geta verið ólík ef þau eru sálufélagar og rækta virðinguna fyrir hvoru öðru. Fyrstu kynni þeirra Arnar voru kostuleg. Örn hafði verið í skóla í Englandi og kom til baka uppdressaður úr Harrods og betri búðum í London. Hann hafði jú alltaf auga fyrir vönduðum fötum. Edda kom heim til hans á Melhagann með vinafólki. Hann var í tveed-fötum og með flókaskó á fótum, ungur maður en algerlega á skjön við twist Elvistímans eða tísku samtímans. En fegurðardísin féll fyrir gæðaleitandi og fallega Anglófíl. Edda gerði sér grein fyrir að Örn var ekki eins og hinir strákarnir. Vinskapur þeirra þróaðist svo þvert á líkindi og þau áttu síðan í hvoru öðru gangrýna samstöðu, traust, virðingu og elsku. Alltaf stóð Örn með Eddu sinni. Hann dáðist að henni, verkum hennar, hugmyndum og list hennar. Alltaf studdi hann hana og hvatti til dáða. Hann gaf henni færi á fara til náms erlendis þótt drengirnir væru á barnsaldri. Svo studdi hann hana stofnun i8, tók á móti listamönnum heimsins og skapaði trygga heimahöfn. Hann gerði Eddu fært að sinna list sinnig og rekstri og hún gaf honum víddir og lífsliti í einkalífinu. Svo bar hún virðingu fyrir gleði hans, þörfum, listfengi og naut snilldar hans í kokkhúsinu. Edda gat örugg boðið fólki í þrjú læri og vissi að hann myndi eiga nothæft vín með matnum og verða dívum heimsins góður félagi.

Já, kokkhúsmaðurinn Örn. Hvað þarf til að verða góður kokkur? Jú, áhuga á mat, getu til að njóta, forvitni, bragðsækni, lyktargleði og litasókn. Fagurkerinn í Erni sótti í gæði. Móðurleggur hans hafði lagt upp úr fágun í heimilsháttum og líka varðandi mat. Amman austur í Fáskrúðsfirði hafði verið rómuð húsmóðir og móðir Arnar var henni engin eftirbátur. Örn hafði því alist upp við áhuga á meðferð matar. Örn varð ábyrgur heimilismaður strax sem unglingur og ábyrgur heimilisfaðir við hlið Eddu. Svo þótti honum gaman að standa yfir pottum og pönnum. Eldamennska hans varð ítölsk, kryddin voru gjarnan frá Miðjarðarhafinu. Svo þegar þau Edda voru á ferð erlendis voru augu, eyru og nef Arnar opin og hann þorði að smakka til að læra. Og varð síðan þessi afbragðskokkur. Hvítlaukur varð honum yndiskrydd. Eldhúsið varð honum kyrrðarsetur sálar og jafnframt vel lyktandi tilraunastöð fyrir gjörninga. Koli og rauðspretta, osso buco eða kjúklingasúpa.

Í gegnum matarilminn fannst líka reykur úr pípunni hans. Framan á blaðinu sem þið hafið í höndum er þessi dásamlega mynd af Erni með pípuna. Pípurnar voru honum ávallt nærri, þessar með hvíta punktinum. Það var ekkert haldið fram hjá með einhverjum eftirlíkingum, nei Dunhill var það alla tíð. Stefnufastur maður Örn og hafði einfaldan smekk. Hann vildi bara það besta – og því Dunhill með hvíta punktinum. Og líka besta tóbakið. Svo hreinsaði hann pípurnar sínar, skóf þær rétt og vel, tróð með natni og vel og kveikti í. Svo hvíldi pípan í hendi hans eða hann gældi við hana og reykurinn myndaði hvelfingu í kringum Örn og gaf honum hlé. Hann var í essinu sínu.

Örn var fagurkeri og hafði í sér getu og kyrru til að njóta. Hann var líka maður hljóma. En engin tónlist verður til án þagnar. Örn var óhræddur við kyrrð og sótti raunar í hana. Hann mat þögn mikils. Ekki streituþögn heldur þessa fylltu, orðlausu og gefandi kyrru. Í þögn með Erni fylltist rýmið af nærandi nánd. Þegar á unglingsárum hafði Örn lært að vera fatlaðri systur sinni natinn og náinn og hafði lært að umvefja fólk öryggi með hlýju kyrrunnar. Síðan lærðist honum að leyfa hljómum að umvefja eigin þögn og fleyga sálardjúpin með ljósi hljómanna og verðandinnar. Hann meira að segja stýrði sjóði til styrktar tónlistinni. Þessi minningarathöfn er sett saman af virðingu við tónlistarást Arnar. Í reglusemi daganna fór hann á fætur, setti plötu á fóninn eða disk í spilara og svo hljómaði músík heimsins. Verkin sem eru leikin og sungin í dag eru dæmi um eftirlæti hans og jafnvel það sem hljómaði þegar hann fór inn í himininn.

Örn fæddist inn í vorið 1939. Hann fæddist inn í veröld og menningu síðbænda- og útgerðar-menningar Íslands, kynslóðarinnar sem flutti á mölina og var handgengin aldamenningu Íslands. Foreldrarnir voru úr sitt hvorum fjórðungnum. Sigurbjörg, móðir hans, var að austan, fædd á Fáskrúðsfirði. Jóhann, pabbinn, var af hinum enda Íslands. Hann fæddist í Helgafellssveit á Snæfellsnesi og vegna mikils barnafjölda foreldranna var hann fóstraður á prestssetrinu í Bjarnarhöfn frá fimm ára aldri þar til hann fór suður til vinnu. Jóhann var starfsmaður Landsbankans. Örn fékk frá foreldrum sínum kjarnmikið uppeldi, fágun, traust í samskiptum og gott umhverfi. Hann var eiginlega uppalinn í anda aldamótakynslóðinnar. Hann skildi gildi og gæði eldra fólks. En svo var hann líka maður nýs tíma. Í honum kysstust fortíð og framtíð. Örn hafði í sér festu en líka opnun. Klassík er það sem varðar gildi, efni, gæði eða undur lífsins. Örn varðveitti í sér virðingu fyrir gildum hins klassíska en svo var í honum stöndug virðing fyrir verðandi tímans. Við getum ekki lifað án fortíðar og festu en við byrjum að deyja ef við ætlum bara að endurtaka hið gamla og vanvirða þar með opnun. Örn varðveitti skipan, festu, þolgæði, gildi, manndóm og virðingu en hann var líka opinn, hugrakkur, víðsýnn og fangstór. Hann þorði að breytast og í því er Örn okkur hinum  fyrirmynd. Hann var líka mannvinur og til fyrirmyndar. Hann stóð með fólkinu sínu, líka samstarfsfólki. Hann var óáreitinn en nálægur, hlýr og áhugasamur. Hann bar virðingu fyrir unga fólkinu og hvatti til dáða. Hann spurði og þorði að kynnast, velta vöngum og þroskast.

Svo hélt hann á djúpmiðin í andlegum efnum. Lestrarhestur sem tottaði pípuna og þorði að hugsa langar hugsanir. Spurði og vissi að meira væri í kringum okkur en við fengjum séð. Lesturinn, tónlistin, Frímúrarareglan, listin og kyrrðarstundir íhugunar opnuðu Örn. Hann þorði að fljúga hátt í heiðríkju vitsmunanna og hvelfingum tilfinninganna. Hann skildi ekki aðeins hið trúarlega heldur ræktaði með sér traust og elsku sem fléttaðist svo fallega í lífi hans. Svo heldur hann inn í Haga og Mela himinheimanna. Við vitum ekki hvort þörf er á tweed eða hvítlauk en guðsríkið er veröld gæðanna ef nokkuð má trúa miðlum þessa heims.

Hvað var þér mikilvægt í Erni? Hvernig viltu kveðja hann? Og spurningin varðar ekki aðeins minningar eða sorgarstrengi heldur líf þitt. Hvernig viltu lifa svo þú lifir vel? Hvað var það í Erni sem þú vilt iðka, læra af, efla þig með, taka í notkun? Er það mannvirðingin, ást á gæðum, þor til að opna, standa með fólki, þora að opna inn í veraldir handan skynjunar? Við kveðjum Örn í kirkju með hljómum, þögn, tilfinningu, jólagleði og von. Hann fjárfesti í fólki og hugmyndum, ekki til að fá greitt til baka heldur vera öðrum til eflingar. Allur boðskapur kristni veraldar – sem einnig kemur fram í djúpmynstrum trúarbragðanna – tjá að lífið er sterkari en dauðinn, réttlæti er sterkara en hryllingur, von er styrkari en vá. Elskan er sterkari en hatrið. Örn var fulltrúi elskunnar.

Hann heldur á Dunhill. Punkturinn sést og hringurinn á fingri hans er ástartákn um sambandið við Eddu. Augun horfa djúpt, skeggið fallegta snyrt, Og svo eru þrjár myndir að baki, verk konu hans. Þrenningartákn og myndin er helgimynd – og reiknivélin skaddar ekki. Svo nálægur en líka algerlega farinn. Nú nær hann ekki í fleiri læri til að tryggja að listamenn haldi áfram að skapa, hann eldar ekki framar osso buco eða dásamlega lyktandi kjúklingasúpu. Hann flysjar ekki fleiri hvílauka eða fær sér kola eða rauðsprettu með capers og drekkur með gott chablis. En tilveran er opin. Þegar Örn horfði á fólk – með pípuna sína á lofti og íhugandi brosvipru í augum – sá hann gullið og lífið. Það er æfiverkefni okkar allra að nema og njóta, miðla og efla. Hlutverk okkar allra er að lifa vel, lifa af nautn og til gleði, vinna úr fléttum ævigjörninga eitthvert það lífsgull sem gerir okkur hamingjusöm og verður öðrum líka til láns. Í því verkefni var Örn okkur fulltrúi Guðs.

Örn Jóhannsson, 7. apríl 1939 – 5. desember 2022.

Útför. Hallgrímskirkju 29. desember, 2022. Jarðsett í Sóllandi. 

 

Eggert Konráð Konráðsson – minningarorð

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal

óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.

Haukagilsstrákurinn renndi sér á skólasvellinu út á Blöndósi. Fyrr um haustið hafði hann veikst hastarlega og úrskurður lækna var skæð sykursýki. Hann hafði því horfið skólasystkinum meðan hann var til lækninga. Nú var hann kominn aftur, feginn að vera laus úr spítalaeymdinni – reyndi á sig og renndi sér. En svo datt hann illilega, rak olnbogann í svellið. Þá brast Eggert í annað sinn þennan vetur. Hann brotnaði illa og þannig rann hann út úr skóla og inn í heim veikinda, átaka og lífs þess, sem alla ævi þarf að búa við skerta heilsu, annað líf. Hvað þýðir það í lífi fólks – í lífi hans? Það er einhver nístandi ógn í þessari sögu og spor inn í skuggasal. Myndu þessi áföll verða ævibrestur Eggerts sem yrði ekki lagfærður? Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér, segir í 23. Davíðssálmi. Það er hægt að búa við skuggan, en aðeins ef menn eiga ljósið sitt víst. Hægt er að búa við stóran lífsama ef menn eiga góða stoð vísa. Það er hægt að öðlast vit, þroska og gæði, ef menn kunna að bregðast rétt við.

Lífsstiklur

Eggert Konráð Konráðsson fæddist á Blönduósi 10. janúar 1949. Foreldrar hans voru Haukagilshjónin Konráð Már Eggertsson og Lilja Halldórsdóttir Steinsen. Þau eru bæði látin. Systkini Eggerts voru fimm: Þau eru Guðrún Katrín, Ágústína Sigríður, Inga Dóra, Hólmfríður Margrét og bróðir sammæðra Sævar Örn Stefánsson. Fyrri kona Eggerts er Sóley Jónsdóttur. Þau gengu í hjónaband árið 1969. Börn Eggerts og Sóleyjar eru: Lilja Margrét f. 1970. Hún býr í Danmörk og á fjögur börn. Harpa Björt f. 1971 býr á Haukagili. Sambýlismaður hennar er Egill Herbertsson. Þau eiga þrjú börn. María Hlín f. 1972 býr á Akranesi. Hennar sambýlismaður er Marteinn Sigurðsson. Þau eiga samtals þrjú börn. Yngstur barna Eggerts og Sóleyjar er Heiðar Hrafn f. 1976. Eggert og Sóley slitu samvistum 1992. Kona Eggerts frá 1995 er Torfhildur Rúna Gunnarsdóttir. Þau gengu í hjónaband 1999. Rúnubörnin eru Arnór Ingi, Særún, Haukur og Davíð.

Lilja Margrét Eggertsdóttir hefur beðið fyrir kveðjur, en hún og börn hennar eru í Danmörk. Sömuleiðis hefur fjölskyldan í Holti í Svínavatnshreppi og Helgi Bragason beðið um kveðjur til þeirra sem hér eru samankomin.

Skólaganga

Skólafyrirkomulag í Vantsdal var í bernsku Eggerts með farskólasniði. Eins og önnur börn úr framdalnum sótti hann skóla að Ásbrekku hluta úr hverjum vetri. Eftir fermingu fór hann síðan út á Blönduós til svonefnds miðskólanáms, sem lauk með landsprófi. Í nóvember á þriðja og síðasta ári kom sykursýkin í ljós. Þar með var úti um skólagöngu Eggerts fyrir jól, því hann var sendur suður til lækninga. Eftir áramót byrjaði hann að nýju í skólanum, en við handarbrotið var útséð um námið þann veturinn. Fyrir þrautseigju og hjálp Lilju móður hans tók Eggert þó vorprófin utanskóla um vorið.

Á nöfinni

Mannlífið er undursamlegt. Það er aldrei og í engu tilviki samfelld sælubraut án hnökra. Slíkt líf tilheyrir aðeins himnaríki. Eggert fékk sinn skerf af mótlæti. En þegar í raunir rekur er hægt að bregðast við með ýmsu móti. Það er hægt að lúta mótlætinu, leggja á flótta og láta það sigra sig. Slík er för þeirra sem verða einhverju að bráð í lífinu. Hins vegar er þau sem bregðast við, reyna á sig til að hefja sig upp, reyna að eflast og þroskast við að glíma við raunina. Slík var för Eggerts. Það var honum manndómsraun að takast á við skerta heilsu og þær skorður sem sykursýkin settu honum. Hann naut vissulega stuðnings. Lilja vakti yfir matarræði hans og að hann hefði bita með sér þegar hann fór í smalamennsku eða gekk til rjúpna. Þó var lífi hans stundum stefnt í tvísýnu. Eitt sinn gekk hann vestur í Víðidalsfjall í leit að jólarjúpunum og í það sinn hafði hann farið án þess að hafa nestisbita meðferðis. Hann var ungur og léttur á fæti og ætlaði bara snögga ferð. Færið var þyngra en hann hafði búist við. Á leiðinni varð hann fyrir sykurfalli og nánast örmagnaðist. Það var honum til bjargar að hafa náð einum fugli, sem hann náði að rífa og tuggði síðan hrátt kjötið til að fá orku og ná heim! Oft síðar var Eggert á ystu nöf, oft var honum naumlega bjargað. Hann átti góðan hirði, sem lyfti honum upp þegar hann hrasaði. 

Suður

Eftir landspróf var Eggert heima við bústörfin. Þótt skólagangan hafi eflaust blundað í honum var hann bóndaefni og fór því einn vetur í Bændaskólanum á Hvanneyri. Þegar hann hafði fest ráð sitt urðu þau Sóley bændur á Haukagili frá 1970 og allt til 1987. Þá hafði líkami Eggerts enn á ný brostið. Um vorið var orðið ljóst að nýru hans störfuðu ekki eðlilega og þurfti hann að fara af og til í nýrnavél. Niðurstaðan var sú, að elsta systirin gæfi honum nýra. Lögðust þau systkin undir hnífinn á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn í nóvember 1987 og tókst aðgerðin hið besta. Guðrún nýragjafi lengdi því líf bróður síns um mörg ár. Þökk sé henni. Vegna heilsufars Eggerts ákváu þau Sóley að bregða búi og flytja til Reykjavíkur.

Nýr kafli hófst í lífi Eggerts. Hann fékk vinnu í fyrirtæki frænda sinna, Plastprenti. Þá tóku við vörslu- og umsjónar-störf; við húsvörslu í Iðnskólanum í Reykjavík. Um tíma starfaði Eggert á Alzheimerdeildinni við Lindargötu, var síðan hjá Ríkisspítölum og síðast hjá Bykó í Kópavogi. Þar var hann að vaktstörfum við hliðið og tók á móti tugþúsundum stressaðra húsbyggjenda, sem þutu um með vörur og áhyggjur. Það var Byko ómetanlegt að hafa mann, sem Eggert á þessum mikla álagsstað. Glögg rósemi, friður og gáski skein úr augum hans og snöggfriðaði taugaþanda viðskiptavini.

Eftir að þau Sóley skildu hafði fólkið hans Eggerts skiljanlegar áhyggjur af heilsufari og velferð hans. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér. Svo sannarlega kom Rúna inn líf hans sem framrétt Guðshönd. Ég náði að fylgjast með því kraftaverki frá upphafi til enda. Það er ein af þessum undrasögum um lífið þvert á svig við dauðann – þegar maður staðreynir að elskan er sterkari en samfellt sjúkrastríð og hel. Rúna og Eggert rugluðu reitum 1995. Það var ljóst að hún var tilbúin að vera honum stuðningur og hvikaði aldrei.

En sykursýkin var eitt, en síðan féll næsta slagið 1998, þegar í ljós kom að Eggert var með krabbasýktan maga. Síðan hefur með stuttum hléum allt verið á sama veg, ný meinvörp, nýjar aðgerðir, ný lyfjameðferð, ný geislun. Að lyktum dró og Eggert féll frá hinn 12. desember síðastliðinn aðeins 54 ára gamall.

Að bregaðst við

Hvernig má lifa í skugga sjúkdóma og slysfara? Auðvitað dró Eggert sig í hlé á unglingsárum. Hann var hlédrægur frá upphafi og kunni vel að vinna með sína kröm í hljóði. Hann erfði jafnlyndi móðurinnar, en hann átti einnig skapfestu föðurins. Hann var ekki ánægður með hlut sinn en ákvað að lifa. En alla tíð þarfnaðist hann næðis, öryggis og kyrru. Hann naut stuðnings síns fólks fyrr og síðar og svo þegar síðasta áfanga var náð var Rúna öflugur gleðigjafi og gaf honum styrk til að njóta hvers dags þrátt fyrir áföllin.

Eggert var stefnufastur, stöndugur og gegn. Með ýmsum ættmennum sínum var hann staðfastur Sjálfstæðimaður og brást ákveðið við ef honum þótti vegið að einhverju mikilvægu í landsmálum. Hann gerði allt vel sem honum var falið, hann var jú alinn upp við að gerð í verki væri ekki síðri en gerð í orði.

Hugur og verk

Eggert var mikill ættjarðarvinur, unni ferðalögum, lagði sig eftir fróðleik um byggðir og sögu, vildi skoða landið sem best, fór gjarnan utan alfaraleiða til að fá sem næmasta sýn á landshagi. En mest og best unni hann heimahögunum. Hann elskaði sveitina sína. Aldrei var hann glaðari en þegar hann fór norður og beygði heim í Haukagil, sem hann var sterkast og tryggast bundinn.

Þegar Eggert mátti sig lítt hræra utan húss síðustu mánuði og ár ævinnar undi hann löngum við að vinna við Örnefnaskrá og byggingasögu jarðarinnar og vildi halda málum hennar vel til haga þótt hann hefði látið af búskap. Hafði jafnvel mikið fyrir að hafa uppá tækjum sem afi hans hafði smíðað, eins og hornaklippurnar sem hann náði austan úr Hornafirði og kom á heimaslóðir. Þetta er einbeitt tryggð.

Eggert var söngmaður. Söngæfingar kirkjukórs Undirfellskirkju voru í heimahúsum á hans uppvaxtarárum, ekki síst heima á Haukagili. Pabbinn var í kirkjukór og hafði um sína daga sungið sópran, tenór og bassa í kórnum! Kirkjusöngur var því uppeldismál. Eftir að Eggert kom til Reykjavíkur söng hann síðan í kirkjukór Hjallakirkju, eignaðist söngfélaga, sem kveðja vin sinn svo vel í kirkjunni í dag. Þökk sé þeim og kantor þeirra.

Eggert var reglumaður og snyrtimenni og leið nokkra önn fyrir alla lausung í hverju sem var. Hann hafði skoðun jafnvel á litum þegar mála skyldi. Hvítt skyldi það vera, annað væri ekki snyrtilegt.

Hirðir, vitringur og engill

Myndirnar af Egget blasa misvel við okkur. Ég sá aðeins þær sem blöstu við síðustu æviár hans. Á aðventutíð er jólaguðspjallið nærri og Eggert hefði getað verið í mörgum hlutverkum í þeirri sögu. Hann var afbragðs fjármaður og um tíma með á sjötta hundrað fjár í húsi. Hann leitaði í gripahúsin þegar hann kom heim, leið vel þar og átti hjarta sem sló í takt við hjörðina og var sem sál safnsins. En hann var meira. Fáa menn hef ég hitt sem átti jafn djúptækt æðruleysi og Eggert, sama á hverju gekk. Vissulega naut hann stuðnings síns fólks, átti stuðning systkina og barna vísan. Og Rúna reyndist honum fágætur sálufélagi og stuðningur í lífinu. En hann hafði frá upphafi náð að slípa sinn lífsstein svo vel að það var sama hversu myrkt var, lífsljósið, gleðin að handan fékk ávallt speglun og mögnun í honum og kom fram í augum, orðum og brosum. Aldrei var hann svo aðkrepptur að hann hefði ekki orku til að þjóna Rúnu sinni, vinum og þeim sem hallir stóðu. Þetta sá ég hvað eftir annað og aðrir hafa staðfest. Eggert var á stuttri ævi orðinn vitur maður, margreyndur en djúpur þroskabrunnur. Æðruleysi, gleði þrátt fyrir æðstæður, gerði okkur forviða, en jafnframt þakklát fyrir að lífskúnstin og hamingjan skuli hafa átt svo kunnáttusaman fulltrúa meðal okkar. Og kanski var það hirðirinn sem sameinaðist vitringnum í honum. En svo var Eggert einnig frábær vörslumaður hvar sem hann var, hvort sem það var á Haukagili, í samskiptum við ættmenni og foreldra, systkini og sveitunga. En hann var einnig öflugur vörslumaður í vinnu, tryggur í störfum eins og við sem áttum leið um hliðið góða vitum best. En bestur var hann á síðasta skeiði í vörslu ástarinnar og hamingjunnar. Þar varð vörðurinn að verndarengli. Hann varð Rúnu sem gjöf himinsins, og hún honum sömuleiðis. Ég hef séð fólk kunna að lifa en fá sem hafa kunnað að rækta hamingju sína með eins kröftugu móti og þau. Gagnvart undri lífisins er það best hlutverk að geta sungið með englunum á Betlehemsvöllum um dýrð Guðs og velþóknun yfir mönnunum.

Brotinn, orkulaus, en samt góður hirðir og vitringur. Hæggerður, hlédrægur en samt ótrúlega sterkur og ávirkur. Skaddaður en heilbrigður í vernd og lífsgáska. Hirðir á för um myrk sund og hrellingarhóla, samt kyrr og öruggur. Hann dó fyrir aldur fram, alltof snemma. Slegin stöndum við nú á útjaðri Betlehemsvalla og skiljum ekki þetta ráðalag, en megum vita að hirðirinn besti, Jesús Kristur hefur opnað fang sitt. Eggert hafði lært á lífið og ástina, nú fellur hann í fang hans sem er sjálft lífið og orkubrunnur elsku, hlátra, gáska, og framtíðar.

Já gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

10.1. 1949 – 12.12. 2003

Myndin af Eggerti einum tók Rúna af honum fyrir framan Þingvallabæinn. Samsetta myndin er frjá hjónavígsludegi Rúnu og Eggerts 19. mars 1999 og svo af þeim saman á Benidorm. 

Gauja – minningarorð

Guðbjörg Þorvarðardóttir – 30. mars 1951 – 28. ág. 2022

Gauja var orðin dýralæknir á Hólmavík. Enginn vissi hvernig konan, sem hafði orðið fyrsti héraðsdýralæknirinn, myndi reynast. Væri hún gunga eða myndi hún duga við erfiðar aðstæður? Gæti hún læknað skepnurnar? Það voru jú aðallega stórgripir sem hún yrði að sinna í sýslunni. Gæti kona tekið á kúm og hestum og komið þeim á lappir? Væri henni treystandi til vetrarferða á svelluðum, fáförnum vegum í blindhríð og myrkri? Áleitnar spurningar voru bornar fram við eldhúsborð Strandamanna. Kraftatröllin sáu svo að hún tók til hendinni. „Það er töggur í henni“ – var hvíslað. Gauja keyrði ekki útaf og hún kom þegar kallað var. Hún hafði líka fræðin á hreinu og svaraði skýrt þegar spurt var um hvað ætti að gera. Virðingin óx.

Svo var hluti af starfi hennar að vera heilbrigðisfulltrúi og framfylgja lögum og reglum um hollustuhætti. Gauja kom í kaupfélagið og sá sér til furðu að kjöt og grænmeti voru ekki aðgreind í búðinni. Blóðvessar fara illa með salatinu. Hún talaði við kaupfélagsstjórann. Hann lofaði að klára málið og tryggja að farið yrði að reglum. Svo leið tíminn. Gauja kom í búðina að nýju. Þegar hún var að smella vörum í körfu sá hún að ekki hafði verið lagfært. Allt var við það sama, ekki hafði verið hlustað á heilbrigðisfulltrúann. Hún bölvaði, sem ég ætla ekki að hafa eftir, rauk upp og til kaupfélagsstjórans og talaði svo kröftuga íslensku að maðurinn lak niður í stólnum, andmælalaust. Sýsli kom, kaupfélagsbúðinni var lokað og hún innsigluð. Fréttirnar bárust með eldingarhraða um sýsluna. Nýi héraðsdýralæknirinn – já stúlkan – hafði lokað stórveldinu. Ekki var opnað aftur fyrr en úrbætur höfðu verið gerðar. Strandamenn eru sagðir hafa grátið þegar Gauja færði sig um set og fór í annað umdæmi. Þeir og dýrin höfðu misst bandamann.

Gauja var leiðtogi. Á hana var oftast hlustað og henni var fylgt. Gauja átti í sér styrk til að veita forystu og í þágu annarra. Hún ræktaði með sér sjálfstæði. Systkini hennar treystu henni. Hún var útsækinn þegar á barnsaldri, sótti út í náttúruna og til dýranna. Hún var glögg á möguleika en líka hættur. Gauju var treystandi til að marka stefnu og hópur af börnum fór gjarnan á eftir henni um mýrar og engi, móa og börð og vitjaði dýra og ævintýra. Gauja fór á undan og hin á eftir. Hún setti kúrsinn. Það var vissara og líka betra að treysta henni.

Enn ein minning: Þegar Tumi var á Hólmavík hjá fóstru sinni einhverju sinni var hann ekki kominn með bílpróf. Í dreifbýlinu hefur unglingunum frá upphafi vélaaldar á Íslandi verið trúað fyrir dráttarvélum, heyvinnutækjum og að keyra bíla. Gauja treysti sínum manni fyrir bílnum en áminnti hann að fara ákveðna leið, virða óskráðu reglurnar og alls ekki keyra aðalgötuna. Í gleði stundarinnar sinnti hann ekki fyrirmælum fóstru sinnar og keyrði út af vegi. Og kom heldur lúpulegur heim. Hún skammaði hann ekki og kunni þó vestfirsku líka. Drengurinn hafði átt von á yfirhalningu en kenndi til djúphljóðrar sjáfsásökunar fyrir að hafa brugðist Gauju. Hann lærði lexíu fyrir lífið. Það var betra að treysta dómgreind Gauju, hlýða henni. Hún var ekki aðeins leiðtogi heldur eiginlega máttarvald.

Arfur, umhverfi og nám

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Einarsdóttir og Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson. Það var meira en bara ættartré sem blasti við Gauju þegar hún ólst upp. Vegna fjölda barna og í mörgum húsum mætti jafnvel fremur tala um ættaskóg. Alsystkini Gauju eru: Einar; Sigríður; Margrét og Þorsteinn. Hálfsystkini Guðbjargar, sammæðra, eru Þorkell Gunnar; Sigurbjörn; Kristín og Björn. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður; Þórunn; Dagbjört Þyri; Ólína Kjerúlf og Halldóra Jóhanna.

Gauja bjó í foreldrahúsum fyrstu árin. Foreldrar hennar skildu og hún fór fimm ára gömul með móður sinni að Kiðafelli í Kjós. Þar var hún í essinu sínu, leið vel með skepnunum og við sjóinn. Hún naut einnig góðrar skólagöngu. Vegna búfjáráhugans fór hún í búfræðinám í Borgarfirði. Hún var eina stúlkan í stórum strákahóp á Hvanneyri. Þeir gripu ekki í flettur hennar og hún gaf þeim ekkert eftir í námi og störfum. Alla virti hún og fann sig jafnoka allra. Gauja var aldrei í neinum vandræðum með að umgangast bændur á löngum dýralæknisferli. Í henni bjó yfirvegaður styrkur. Hún útskrifaðist sem búfræðingur frá bændaskólanum árið 1968. Hún hafði verið við nám í MR um tíma en ákvað að fara í MT, Menntaskólann við Tjörnina, og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1971. Í stúdentsbókinni Tirnu kemur fram að hún hafði hug á dýralæknanámi og er teiknað hross á myndinnni við hlið hennar. Í textanum er spáð að hún muni nota hrossasóttarlyf við bráðapest í lömbum! Spá samstúdentanna um námsstefnu rættist en hún hún varð meira en hrossadoktor í fjárhúsum. Gauja útskrifaðist árið 1981 sem dýralæknir frá KVL, Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Gauja var heimsborgari og fór til Nýja Sjálands til dýralæknastarfa og þar á eftir lærði hún röntgenlækningar í Sidney í Ástralíu. Þá setti hún stefnuna heim.

Störfin

Eftir störf í Strandasýslu gegndi hún dýralæknastöðum á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Svo togaði Reykjavík. Hún ól með sér þann draum að setja á stofn eigin dýraspítala. Hún hafði með öðrum keypt hús Guðjóns Samúelssonar, húsameistara, sem er nr. 35 við Skólavörðustíg. Við hlið hússins var skúr sem Gauja reif og byggði þar hátæknispítala fyrir dýr. Húsið vakti mikla athygli og aðdáun borgarbúa fyrir búnað og hönnun. Hluti þess var blýklæddur til að varna geislun. Gauja hafði jú lokið röntgennámi og vildi nota nýjustu tækni við greiningu á dýrunum sem hún bar ábyrgð á. Gauja var dr. Dolittle og Dagfinnur dýralæknir okkar gæludýraeigenda í Reykjavík. Það var alltaf gott að koma til hennar. Hún bar ekki aðeins virðingu fyrir dýrunum heldur líka fyrir sálarbólgum eigendanna sem komu stundum hræddir og oft í mjög dapurlegum erindagerðum.

Fjölskyldulíf Gauju var litríkt. Systkinin voru mörg og ættboginn stór. Gauja hafði lært að vera öllum söm og jöfn, talaði við alla með sömu virðingunni. Hún var glaðsinna, ræðin og lagði gott til. Hún var vinsæl, virt og eftirsótt til ábyrgðarstarfa. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands í mörg ár og starfaði m.a. í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið. Gauja hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum og réttlætismálum nær og fjær. Hún tók m.a. þátt í starfi Kvennalistans og var mörgum eftirminnileg í þeim störfum. Gauja talaði við börn sem fullorðna.

Tumi

Þegar hefur verið nefndur til sögu fóstursonurinn Kjartan Tumi Biering. Hann laðaðist að Gauju í Kaupmannahöfn þegar móðir hans og Gauja voru þar í námi. Milli þeirra Tuma og Gauju varð strengur sem aldrei slitnaði og hann var langdvölum hjá fóstru sinni – í Strandasýslu, á Húsavík og víðar. Hún studdi hann, kenndi honum að keyra og að gera kartöflumús, sem er kostur að kunna í lífinu.

Juliette

Kona Gauju var Juliette Marion. Gauja bjó þegar á Skólavörðustígnum þegar þær kynntust og Juliette flutti inn til Gauju. Þær urðu par og gengu síðar í hjónaband. Þær vou góðar saman, gáfu hvor annarri styrk og samhengi og sköpuðu fagurt heimili. Þökk sé Juliette að veita Gauju ástríkan hjúskap.

Hver var Gauja?

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Hvernig eigum við að lifa? Þetta eru setningar sem hafa verið sagðar á fundum mínum með ástvinum Gauju. Hver var hún og hvaða mynd skapaði hún með orðum sínum, gerðum og tengslum? Hver er mynd hennar í þínum huga? Jú, hún var kát, gjöful, barngóð, bóhem, frábær dýralæknir, umhyggjusöm, vísindamaður, lífskúnstner, nákvæm, skynsöm, sjálfstæð, hugrökk, nærfærin, umhyggjusöm, stórlynd, gæflynd, höfðingi, dýravinur, mannvinur, ættrækin, félagsvera, mannasættir, gleðisækin, fróð, vitur – þetta eru allt lýsingar sem hafa verið tjáðar síðustu daga og þið getið enn bætt í sjóðinn.

En Gauja var þó ekki flekklaus dýrlingur – en við skil verða plúsarnir mikilvægastir, gullið, en ekki hvort einhver blettur var hér eða þar. Í bernsku og gegningum lífsins hafði Gauja unnið með gildi, stefnumál sín og sig sjálfa. Hún hafði sín mál að mestu á hreinu, hvort sem um var að ræða kynhneigð, fjölskylduáföll, gildi eða tengsl. Þó hún væri húmoristi hafði hún ekki mikla þolinmæði gagnvart óréttlæti. Hún beitti sér gegn málum og kerfum, ef hún taldi þau gölluð og ekki síst ef þau gætu valdið skaða mönnum, málleysingjum eða náttúru. Þegar ég kom til Gauju með hundinn minn fékk ég tilfinningu fyrir kyrrlátum styrk hennar og félagslegri getu. Því fleiri sögur sem ég heyri og les dýpkar myndin af Gauju.

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Það er tilfiningin fyrir djúpum missi sem Juliette, systkini og ástvinirnir tjá. Mér virðist að Gauja hafi verið meira en hæfur einstaklingur. Hún átti í sér getu og mátt sem var meira en bara orð, gerðir og tengsl. Af því hún var heil og óspungin var hún meira en væn manneskja. Hún var máttur sem hægt var að teysta – eiginlega fjallkona. Gena-arfurinn og dýptarmildi áa og edda skipta máli en einstaklingar ákveða sjálfir og velja hvernig unnið er úr og hvernig brugðist er við í lífinu. Gauja var mikil af sjálfri sér. Hún hafði í sér áunninn styrk og nýtti þau gæði í þágu annarra, með því að lifa vel, gleðjast, njóta, opna og vera. Hvað er það sem þú saknar mest í Gauju? Þið sjáið öll á bak miklum persónuleika og mætti til mennsku. Missirinn er sár. En hún er fyrirmynd okkur öllum um svo margt. Fjallkona.

Himinmyndir

Nú er hún farin að Kiðafelli eilífðar. Hún hlær ekki framar með þér, spilar við þig Kings Quest eða bridds, býr til forrit eða app, býður þér heim eða kemur skepnunni þinni á fætur að nýju. Hún leikur ekki jólasvein framar eða fer í annað bæjarfélag til að kaupa bensín af lægstbjóðendum. Hún heldur engan fyrirlestur oftar um galla vindmylla eða launamál dýralækna. Áramótin hennar eru komin og rífa í. Ofurgestgjafarnir Gauja og Juliette opnuðu heimili sitt oft og galopnuðu við áramót. Skrallað var á gamlárskvöldum, svo voru skaup lífsins, flugeldar og gleði. Þar á eftir fóru margir inn til þeirra Gauju. Þær úthýstu engum. Allir voru velkomnir. Laðandi og hlý mennskan stýrði. Gauja var jú söm við alla. Er það ekki þannig sem djúp-réttlætisþrá okkar uppteiknar guðsríkið – að gefa séns, opna, leyfa, henda helst engum út. Nú er partí á himnum eftir ármót – á þessum skilum tíma og eilífðar. Við þökkum fyrir líf Gauju og fyrir hana sjálfa. Því verður skrallað í Gamla bíó eftir þessa útfararathöfn. En munum að hún er ekki í því gamla, heldur farin yfir í nýja bíó – nýja lífið á himinum. Sem góður vísindamaður, sem virti mörk þekkingar og mat lífsplúsana, var hún var opin gagnvart hinu óræða. Þær víddir hafa ýmsir bóhemar lífsins kallað Guð. Við felum Gauju þeim Guði. Ég bið Guð að vera með ykkur ástvinum og vinum. Nú er það Kiðafell eilífðar eða vonandi fær Gauja að beisla himneskan fák og spretta yfir eilífðargrundirnar.

Kveðjur: Snorri Sveinsson og Þorsteinn Paul Newton.

Minningarorð SÁÞ við útför-bálför Guðbjargar Önnu Þorvarðardóttur, Háteigskirkju, 13. september, 2022, kl. 15.

Æviágrip – yfirlit

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM  fyrir Dýralæknafélagið.