Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Gauja – minningarorð

Guðbjörg Þorvarðardóttir – 30. mars 1951 – 28. ág. 2022

Gauja var orðin dýralæknir á Hólmavík. Enginn vissi hvernig konan, sem hafði orðið fyrsti héraðsdýralæknirinn, myndi reynast. Væri hún gunga eða myndi hún duga við erfiðar aðstæður? Gæti hún læknað skepnurnar? Það voru jú aðallega stórgripir sem hún yrði að sinna í sýslunni. Gæti kona tekið á kúm og hestum og komið þeim á lappir? Væri henni treystandi til vetrarferða á svelluðum, fáförnum vegum í blindhríð og myrkri? Áleitnar spurningar voru bornar fram við eldhúsborð Strandamanna. Kraftatröllin sáu svo að hún tók til hendinni. „Það er töggur í henni“ – var hvíslað. Gauja keyrði ekki útaf og hún kom þegar kallað var. Hún hafði líka fræðin á hreinu og svaraði skýrt þegar spurt var um hvað ætti að gera. Virðingin óx.

Svo var hluti af starfi hennar að vera heilbrigðisfulltrúi og framfylgja lögum og reglum um hollustuhætti. Gauja kom í kaupfélagið og sá sér til furðu að kjöt og grænmeti voru ekki aðgreind í búðinni. Blóðvessar fara illa með salatinu. Hún talaði við kaupfélagsstjórann. Hann lofaði að klára málið og tryggja að farið yrði að reglum. Svo leið tíminn. Gauja kom í búðina að nýju. Þegar hún var að smella vörum í körfu sá hún að ekki hafði verið lagfært. Allt var við það sama, ekki hafði verið hlustað á heilbrigðisfulltrúann. Hún bölvaði, sem ég ætla ekki að hafa eftir, rauk upp og til kaupfélagsstjórans og talaði svo kröftuga íslensku að maðurinn lak niður í stólnum, andmælalaust. Sýsli kom, kaupfélagsbúðinni var lokað og hún innsigluð. Fréttirnar bárust með eldingarhraða um sýsluna. Nýi héraðsdýralæknirinn – já stúlkan – hafði lokað stórveldinu. Ekki var opnað aftur fyrr en úrbætur höfðu verið gerðar. Strandamenn eru sagðir hafa grátið þegar Gauja færði sig um set og fór í annað umdæmi. Þeir og dýrin höfðu misst bandamann.

Gauja var leiðtogi. Á hana var oftast hlustað og henni var fylgt. Gauja átti í sér styrk til að veita forystu og í þágu annarra. Hún ræktaði með sér sjálfstæði. Systkini hennar treystu henni. Hún var útsækinn þegar á barnsaldri, sótti út í náttúruna og til dýranna. Hún var glögg á möguleika en líka hættur. Gauju var treystandi til að marka stefnu og hópur af börnum fór gjarnan á eftir henni um mýrar og engi, móa og börð og vitjaði dýra og ævintýra. Gauja fór á undan og hin á eftir. Hún setti kúrsinn. Það var vissara og líka betra að treysta henni.

Enn ein minning: Þegar Tumi var á Hólmavík hjá fóstru sinni einhverju sinni var hann ekki kominn með bílpróf. Í dreifbýlinu hefur unglingunum frá upphafi vélaaldar á Íslandi verið trúað fyrir dráttarvélum, heyvinnutækjum og að keyra bíla. Gauja treysti sínum manni fyrir bílnum en áminnti hann að fara ákveðna leið, virða óskráðu reglurnar og alls ekki keyra aðalgötuna. Í gleði stundarinnar sinnti hann ekki fyrirmælum fóstru sinnar og keyrði út af vegi. Og kom heldur lúpulegur heim. Hún skammaði hann ekki og kunni þó vestfirsku líka. Drengurinn hafði átt von á yfirhalningu en kenndi til djúphljóðrar sjáfsásökunar fyrir að hafa brugðist Gauju. Hann lærði lexíu fyrir lífið. Það var betra að treysta dómgreind Gauju, hlýða henni. Hún var ekki aðeins leiðtogi heldur eiginlega máttarvald.

Arfur, umhverfi og nám

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Foreldrar hennar voru hjónin Anna Einarsdóttir og Þorvarður Kjerúlf Þorsteinsson. Það var meira en bara ættartré sem blasti við Gauju þegar hún ólst upp. Vegna fjölda barna og í mörgum húsum mætti jafnvel fremur tala um ættaskóg. Alsystkini Gauju eru: Einar; Sigríður; Margrét og Þorsteinn. Hálfsystkini Guðbjargar, sammæðra, eru Þorkell Gunnar; Sigurbjörn; Kristín og Björn. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður; Þórunn; Dagbjört Þyri; Ólína Kjerúlf og Halldóra Jóhanna.

Gauja bjó í foreldrahúsum fyrstu árin. Foreldrar hennar skildu og hún fór fimm ára gömul með móður sinni að Kiðafelli í Kjós. Þar var hún í essinu sínu, leið vel með skepnunum og við sjóinn. Hún naut einnig góðrar skólagöngu. Vegna búfjáráhugans fór hún í búfræðinám í Borgarfirði. Hún var eina stúlkan í stórum strákahóp á Hvanneyri. Þeir gripu ekki í flettur hennar og hún gaf þeim ekkert eftir í námi og störfum. Alla virti hún og fann sig jafnoka allra. Gauja var aldrei í neinum vandræðum með að umgangast bændur á löngum dýralæknisferli. Í henni bjó yfirvegaður styrkur. Hún útskrifaðist sem búfræðingur frá bændaskólanum árið 1968. Hún hafði verið við nám í MR um tíma en ákvað að fara í MT, Menntaskólann við Tjörnina, og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1971. Í stúdentsbókinni Tirnu kemur fram að hún hafði hug á dýralæknanámi og er teiknað hross á myndinnni við hlið hennar. Í textanum er spáð að hún muni nota hrossasóttarlyf við bráðapest í lömbum! Spá samstúdentanna um námsstefnu rættist en hún hún varð meira en hrossadoktor í fjárhúsum. Gauja útskrifaðist árið 1981 sem dýralæknir frá KVL, Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum á Friðriksbergi í Kaupmannahöfn. Gauja var heimsborgari og fór til Nýja Sjálands til dýralæknastarfa og þar á eftir lærði hún röntgenlækningar í Sidney í Ástralíu. Þá setti hún stefnuna heim.

Störfin

Eftir störf í Strandasýslu gegndi hún dýralæknastöðum á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Svo togaði Reykjavík. Hún ól með sér þann draum að setja á stofn eigin dýraspítala. Hún hafði með öðrum keypt hús Guðjóns Samúelssonar, húsameistara, sem er nr. 35 við Skólavörðustíg. Við hlið hússins var skúr sem Gauja reif og byggði þar hátæknispítala fyrir dýr. Húsið vakti mikla athygli og aðdáun borgarbúa fyrir búnað og hönnun. Hluti þess var blýklæddur til að varna geislun. Gauja hafði jú lokið röntgennámi og vildi nota nýjustu tækni við greiningu á dýrunum sem hún bar ábyrgð á. Gauja var dr. Dolittle og Dagfinnur dýralæknir okkar gæludýraeigenda í Reykjavík. Það var alltaf gott að koma til hennar. Hún bar ekki aðeins virðingu fyrir dýrunum heldur líka fyrir sálarbólgum eigendanna sem komu stundum hræddir og oft í mjög dapurlegum erindagerðum.

Fjölskyldulíf Gauju var litríkt. Systkinin voru mörg og ættboginn stór. Gauja hafði lært að vera öllum söm og jöfn, talaði við alla með sömu virðingunni. Hún var glaðsinna, ræðin og lagði gott til. Hún var vinsæl, virt og eftirsótt til ábyrgðarstarfa. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands í mörg ár og starfaði m.a. í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið. Gauja hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum og réttlætismálum nær og fjær. Hún tók m.a. þátt í starfi Kvennalistans og var mörgum eftirminnileg í þeim störfum. Gauja talaði við börn sem fullorðna.

Tumi

Þegar hefur verið nefndur til sögu fóstursonurinn Kjartan Tumi Biering. Hann laðaðist að Gauju í Kaupmannahöfn þegar móðir hans og Gauja voru þar í námi. Milli þeirra Tuma og Gauju varð strengur sem aldrei slitnaði og hann var langdvölum hjá fóstru sinni – í Strandasýslu, á Húsavík og víðar. Hún studdi hann, kenndi honum að keyra og að gera kartöflumús, sem er kostur að kunna í lífinu.

Juliette

Kona Gauju var Juliette Marion. Gauja bjó þegar á Skólavörðustígnum þegar þær kynntust og Juliette flutti inn til Gauju. Þær urðu par og gengu síðar í hjónaband. Þær vou góðar saman, gáfu hvor annarri styrk og samhengi og sköpuðu fagurt heimili. Þökk sé Juliette að veita Gauju ástríkan hjúskap.

Hver var Gauja?

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Hvernig eigum við að lifa? Þetta eru setningar sem hafa verið sagðar á fundum mínum með ástvinum Gauju. Hver var hún og hvaða mynd skapaði hún með orðum sínum, gerðum og tengslum? Hver er mynd hennar í þínum huga? Jú, hún var kát, gjöful, barngóð, bóhem, frábær dýralæknir, umhyggjusöm, vísindamaður, lífskúnstner, nákvæm, skynsöm, sjálfstæð, hugrökk, nærfærin, umhyggjusöm, stórlynd, gæflynd, höfðingi, dýravinur, mannvinur, ættrækin, félagsvera, mannasættir, gleðisækin, fróð, vitur – þetta eru allt lýsingar sem hafa verið tjáðar síðustu daga og þið getið enn bætt í sjóðinn.

En Gauja var þó ekki flekklaus dýrlingur – en við skil verða plúsarnir mikilvægastir, gullið, en ekki hvort einhver blettur var hér eða þar. Í bernsku og gegningum lífsins hafði Gauja unnið með gildi, stefnumál sín og sig sjálfa. Hún hafði sín mál að mestu á hreinu, hvort sem um var að ræða kynhneigð, fjölskylduáföll, gildi eða tengsl. Þó hún væri húmoristi hafði hún ekki mikla þolinmæði gagnvart óréttlæti. Hún beitti sér gegn málum og kerfum, ef hún taldi þau gölluð og ekki síst ef þau gætu valdið skaða mönnum, málleysingjum eða náttúru. Þegar ég kom til Gauju með hundinn minn fékk ég tilfinningu fyrir kyrrlátum styrk hennar og félagslegri getu. Því fleiri sögur sem ég heyri og les dýpkar myndin af Gauju.

Hvað verður um okkur þegar Gauja er farin? Það er tilfiningin fyrir djúpum missi sem Juliette, systkini og ástvinirnir tjá. Mér virðist að Gauja hafi verið meira en hæfur einstaklingur. Hún átti í sér getu og mátt sem var meira en bara orð, gerðir og tengsl. Af því hún var heil og óspungin var hún meira en væn manneskja. Hún var máttur sem hægt var að teysta – eiginlega fjallkona. Gena-arfurinn og dýptarmildi áa og edda skipta máli en einstaklingar ákveða sjálfir og velja hvernig unnið er úr og hvernig brugðist er við í lífinu. Gauja var mikil af sjálfri sér. Hún hafði í sér áunninn styrk og nýtti þau gæði í þágu annarra, með því að lifa vel, gleðjast, njóta, opna og vera. Hvað er það sem þú saknar mest í Gauju? Þið sjáið öll á bak miklum persónuleika og mætti til mennsku. Missirinn er sár. En hún er fyrirmynd okkur öllum um svo margt. Fjallkona.

Himinmyndir

Nú er hún farin að Kiðafelli eilífðar. Hún hlær ekki framar með þér, spilar við þig Kings Quest eða bridds, býr til forrit eða app, býður þér heim eða kemur skepnunni þinni á fætur að nýju. Hún leikur ekki jólasvein framar eða fer í annað bæjarfélag til að kaupa bensín af lægstbjóðendum. Hún heldur engan fyrirlestur oftar um galla vindmylla eða launamál dýralækna. Áramótin hennar eru komin og rífa í. Ofurgestgjafarnir Gauja og Juliette opnuðu heimili sitt oft og galopnuðu við áramót. Skrallað var á gamlárskvöldum, svo voru skaup lífsins, flugeldar og gleði. Þar á eftir fóru margir inn til þeirra Gauju. Þær úthýstu engum. Allir voru velkomnir. Laðandi og hlý mennskan stýrði. Gauja var jú söm við alla. Er það ekki þannig sem djúp-réttlætisþrá okkar uppteiknar guðsríkið – að gefa séns, opna, leyfa, henda helst engum út. Nú er partí á himnum eftir ármót – á þessum skilum tíma og eilífðar. Við þökkum fyrir líf Gauju og fyrir hana sjálfa. Því verður skrallað í Gamla bíó eftir þessa útfararathöfn. En munum að hún er ekki í því gamla, heldur farin yfir í nýja bíó – nýja lífið á himinum. Sem góður vísindamaður, sem virti mörk þekkingar og mat lífsplúsana, var hún var opin gagnvart hinu óræða. Þær víddir hafa ýmsir bóhemar lífsins kallað Guð. Við felum Gauju þeim Guði. Ég bið Guð að vera með ykkur ástvinum og vinum. Nú er það Kiðafell eilífðar eða vonandi fær Gauja að beisla himneskan fák og spretta yfir eilífðargrundirnar.

Kveðjur: Snorri Sveinsson og Þorsteinn Paul Newton.

Minningarorð SÁÞ við útför-bálför Guðbjargar Önnu Þorvarðardóttur, Háteigskirkju, 13. september, 2022, kl. 15.

Æviágrip – yfirlit

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM  fyrir Dýralæknafélagið.  

Elsa Magnúsdóttir + minningarorð

Hún var skáldmælt hún Elsa. Þessa brýningu um þor og dug setti hún einu sinni á blað, viska sem á erindi til okkar: 

Dugðu, ei deigan lát síga.

Daglangt skal hamarinn klífa.

Þitt efldu þor og stolt.

Hagnýt þitt höfuð betur.

Hugsaðu eins og þú getur

Þá fær ekkert fleyinu hvolft.

 

 

Það er kraftur í þessu ljóði Elsu. Hún hafði verið á heilsuhælinu í Hveragerði sér til eflingar. Og ljóðið er sjálfshvatning eins og hún nefndi það. Dugðu, efldu, hugsaðu. Og það gerði Elsa í því sem henni var falið, í tengslum við fólk, innri átök, vinnu, og ævintýri lífsins.

Upphaf og fjölskylda

Þorbjörg Elsa Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík laugardaginn 1. september árið 1928. Foreldrar hennar voru Valgerður Pétursdóttir og Magnús Skúlason. Þá bjuggu þau við Laugaveginn og þar fæddist Elsa. Magnús var ættaður úr Mýrdal en Valgerður kom að austan – frá Reyðarfirði. Þegar Elsa óx í móðurkviði var faðir hennar í önnum við að búa fjölskyldunni framtíðarbústað í Skerjafirði, húsið Þrúðvang, sem var Þvervegur 2 en svo síðar – vegna allra götu- og byggðarbreytinganna sem flugvallargerð stríðsáranna olli – varð að Einarsnesi 42. Magnús var framkvæmdamaður og stækkaði og breytti og hafði sinn hátt á húsahönnun. Húsið þeirra var um tíma kallað píanókassinn vegna þess að það minnti spaugara hverfisins á efri hluta píanós. Landrýmið leyfði og jafnvel kallaði á fleiri hús. Magnús byggði húsið Einarsnes 42a og þar bjó fjölskyldan um tíma. Það var kallað steinhúsið, enda steinsteypt.

Elsa var elst alsystkinanna. Yngri eru Gunnar Sigurður, sem fæddist á Alþingisárinu 1930 og Ásdís Sigrún, Sísí, fæddist árið 1932. En Rakel Kristín Malmquist varð ein af hópnum. Hún var fjórum árum eldri en Elsa, missti móður sína í bernsku, kom í Einarsnesið ung og varð elst í barnahópnum. Þær Elsa og Rakel urðu nánar og studdu hvor aðra alla tíð. Rakel lifir systkini sín.

Skerjafjörður og Reyðarfjörður

Saga byggðarinnar við Skerjafjörð er litrík, allt frá Nauthóli og meðfram strandlengjunni í vestur. Nokkrir byggðakjarnar urðu til á tuttugustu öldinni á þessu svæði, við Skerjafjörðinn, nærri Görðunum og á Grímsstaðaholti. Og Elsa naut uppvaxtar í fjölbreytilegu mannlífi á þessum útjaðri Reykjavíkur. Og löngu áður en Melaskóli varð til var skóli í Skerjafirði og þar byrjaði hún nám. Svo var til Sundskáli við Þormóðsstaðavör og þar lærði Elsa sundtökin.

En Elsa var ekki aðeins úr Skerjafirði og Reykjavíkurmær. Hún var líka Skaftfellingur en ekki síst að austan. Reyðarfjarðartengslin voru henni mikilvæg og ég rakst á – í einni heimildinni – að Elsa sagðist vera frá Reyðarfirði. Þegar í bernsku var Elsa send með strandferðaskipi austur í sumardvalir. Og þar sem henni leið vel og lagði líka gott til ættfólks síns urðu ferðir hennar margar austur og þar kom að hún hafði líka vetursetu. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á þótti öruggara að hún yrði sem lengst fyrir austan. Elsa naut því menntunar í Reyðarfirði líka og var í farskóla sveitarinnar. Elsa var jafnvel fermd á Hólmum og að fjarstöddum foreldrunum. Hún fékk tvær krónur frá afa sínum og pabbi hennar og mamma gáfu henni armbandsúr þegar þau komu austur um sumarið. Til er falleg mynd af brosandi fermingastúlkunni með sítt hár og í hvítum kjól. Hún er með þessa líka fínu blómaskreytingu í hárinu. Reyðarfjarðarárin voru Elsu hamingjutími. Hún tók þátt í öllu því sem sveitalífið gaf og það var alltaf nóg að gera. Elsa fór meira segja á sjó með afa sínu til að vitja. Og svo tengdist hún skepnum og var alla tíð síðan dýravinur og hélt gjarnan dýr.

Í Skerjafirðinum sótti Elsa Skildinganesskóla þar sem nú er Bauganes 7 (áður Baugsvegur 7). Svo fór Elsa vestur í skóla og var ásamt Gunnari bróður hennar í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hún lærði m.a.s. að binda inn bækur og væntanlega hefur skáldið Þóroddur Guðmundsson, sem þá var skólastjóri í Reykjanesi, haft hvetjandi áhrif á skáldkvikuna í Elsu. Elsa stundaði svo líka nám í húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Hún naut ekki aðeins að læra hannyrðir og húshald heldur eignaðist hún í skólasystrum sínum vinkonur og entist vináttan æfina alla. Og seinna stundaði Elsa svo nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Og þar eignaðist hún annan vinkvennahóp sem hún naut samvista við æ síðan.

Ásmundur, börnin og lífið

Svo var það Vetrargarðurinn og Ásmundur. Á Tívolísvæðinu í Vatnsmýrinni var aðalfjörið fyrir unga fólk höfuðstaðarins eftir stríð. Vetrargarðurinn var starfræktur frá 1946 og fram yfir 1960. Unga fólkið safnaðist þar saman, talaði og hló og dansaði. Og Ásmundur sá draumadísina sína og hún hann. Ásmundur var flugvirki og hafði lært sín fræði í Bandaríkjunum. Þau Elsa urðu par, já glæsilegt par, og hófu hjúskapinn í Skerjafirðinum, fyrst í Einarsnesi 42 en síðan í Einarsnesi 40 sem faðir Elsu hafði m.a. annars tekið þátt í að byggja 1928. Þau Elsa og Ásmundur áttu ekki börnin í kippu heldur dreifðu þeim á nær tvo áratugi. Valgeir Már kom í heiminn árið 1948, Magnea Þórunn árið 1952 og svo löngu seinna fæddist Friðrik Smári eða árið 1965. Ásmundur flaug um heiminn á vegum íslenskra flugfélaga og Elsa sá um uppeldið og heimilishaldið. Elsa vann gjarnan með heimilisstörfum, m.a. í verslunum í Skerjafirði og svo síðar í versluninni Baldri við Framnesveg og líka á Hótel Borg. Elsa starfaði líka í verslun Íslenska heimilisiðnarfélagsins meðan hún var enn við Laufásveginn. En við svo sértæka afgeiðslu voru ekki fengnar konur nema að þær kynnu til hannyrða og væru vel að sér í þeim merku fræðum.

Minningarnar

Og nú eru orðin skil. Ásmundur er löngu farin í flugferðina hinstu og nú hefur Elsa lagt í sína för. Eftir eru minningar, gripir og handaverk þeirra. Steinasafnið í garðinum er stórkostegt og opnar sýn til vídda í persónu Elsu og vekur skilning á náttúrubarninu. Elsa sagði um sjálfa sig í blaðaviðtali að hún væri náttúrubarn. Hverngig manstu Elsu og hvað skildi hún eftir hjá þér? Hvað fannst henni gaman að gera, hvað skemmti henni, hvernig er eftirminnilegasta minningin um hana í þínum huga?

Það er áhugavert að hugsa um sögu hennar og hvað mótaði hana. Víddir hennar voru margar og hún varð til úr svo mörgu og fléttaði sjálf lífvefnað sinn með listfengi og af fjölþættum hæfileikum. Hún var alin upp á ströndinni við Skerjafjörðinn og mótaðist undir himinháu fjalli og við sjó austur í Reyðarfirði. Hún sótti nám vestur og eignaðist mann sem kom fljúgandi úr háloftum og líka að norðan. Elsa var tónelsk og leyfði sér að fljúga á vængjum söngsins. Hún lærði söng og söng í kórum, einnig kirkjukór Hallgrímskirkju og kór Langholtskirkju. Og það voru ekki bara þakklát mannabörn sem nutu tónlistar hennar heldur blómin hennar líka. Löngum hefur nú verið sagt, að jurtir verði fallegri ef andað er á þau – og ef öndunin ber þeim líka músíkfegurð er ekki einkennilegt að blómin hennar Elsu hafi tekið flestum fram. Já, svo var Elsa kvennréttindakona, dýravinur, hannyrðakona, mannvinur sem alltaf studdi þau sem þörfnuðust aðstoðar. Hún studdi velferðarmál. Keypti hlutabréf í Kvennalistahúsinu. Hún var góður bílstjóri því faðir hennar kenndi henni vel að keyra og var líka með meirapróf og hafði löngun til að keyra strætisvagna, en náði ekki að brjóta niður einokun karlaveldisns í akstri þess tíma. Elsa var litrík, fyldist vel með tískunni, en fór síðan eigin listrænu leiðir. Hún var vissulega húsmóðir, vann víða og hefði getað titlað sig með ýmsu móti – en þegar hún ritaði undir áskorunarskjal fyrir liðlega tuttugu árum sagðist hún vera ljóðskáld. Já Elsa orkti, hún var góður hagyrðingur og ljóðskáld eins og mörg ykkar vitið fyrir.

Elsu var frelsið mikilvægt. Hún þjónaði vissulega fólkinu sínu og verkefnum, en gat líka verið á fótum á nóttinni. Ef hún var að gera eitthvað mikilvægt átti hún janvel til í gleði sinni að vekja þau sem sváfu til að fara fyrir þau með ljóð eða segja þeim tíðindi, sem hún taldi að ekki geta beðið morguns. Líf Elsu var fjölbreytilegt, margvíslegt og með öllum litaskalanum frá hinum dimmustu til hinna björtustu. Í henni bjó ríkulegt listfengi, mikil músík, djúpar tilfinningar. Draumar veraldar áttu leið inn í kviku hjarta og huga. Framtíðin var henni alltaf opin.

Og nú er hún farin inn í Einarsnes eilífðar með Hólmatind paradísar nærri. Og úr þeirri fjallaborg falla engar skriður og valda engum kvíða. Elsa syngur ekki framar fyrir blómin sín, eða raðar steinum mót sólu. Hún vekur engan framar í gleði sinni til að segja frá dásemdum lífsins. Hún opnar ekki alla vitund sína þegar nýtt lag hljómar á öldum ljósvakans. Hún raðar engum orðum í hrífandi ljóðræðnu, gefur engin ráð framar, saumar ekki og prjónar, eða segir sögur frá Hong Kong. Ekkert hindrar, ekkert er ómögulegt, allt er fært, ljóst, bjart, gott og hláturinn fyllir veröld hennar, Ásmundar, allra þeirra sem hún elskaði. Ekkert er of gott fyrir orðið sem kemur frá Guði. Hún varð slíkur boðskapur sínu fólki og nú er hún farin í himininn. 

Le,,

mggðu aftur augun þín.

Elsku litla stúlkan mín.

Dagur aftur í austri skín.

Alvaldur mun gæta þín.

Amen. Kveðjur: Pétur Haukur Guðmundsson biður fyrir kveðjur. Það gera einnig Sonja Einarsdóttir og Þórdís og Selma Matthíasdætur. Sigga ósk og Kolbrún Helga Gústavsdóttir biðja fyrir kveðjur sem og Filippía Helgadóttir, svilkona Elsu. Friðrik Smári kemst ekki til útfarar móður sinnar. Hann, Vigdís og Snædís dóttir þeirra biðja fyrir kveðjur til ykkar allra.

Útför, Fossvogskirkja 12. mars, 2020. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði D-5-46.

 

 

 

 

Helgi Ásgeirsson – Göngumaður Reykjavíkur

Nú er Helgi Ásgeirsson kominn í þessa kirkju í hinsta sinn. Oft kom hann í þetta ljóshús vegna sóknar í birtuna. Hann átti alla tíð heima í nágrenni kirkjunnar. Þau urðu eiginlega til samtímis Hallgrímskirkja og Helgi. Kirkjubyggingin var bara hugmynd til umræðu þegar móðir Helga var barni aukin og hann var í gerðinni. Svo þegar hann kom í heiminn var farið að grafa fyrir kór kirkjunnar. Síðan fylgdist Helgi með byggingu guðshússins. Helgi varð miðborgarmaður, Reykjavíkurmaður og heimamaður í Hallgrímskirkju. Hann sótti í kórkjallarann meðan hann var hverfiskapella. Svo tók Suðursalurinn í turnvængnum við kirkjuhlutverkinu og síðan gladdist hann þegar kirkjusalurinn var vígður árið 1986. Hann sótti í kirkju sína. Helgi var eftirminnilegur maður sem kom með friði, áreitnislaust og með hlýju í augum. Hann settist í kirkjubekk og naut kyrrðar, helgi, orða og tóna og fór svo þakkandi frá þessu hliði himins. Nú kveðjum við Helga hinsta sinni og þökkum honum samfylgdina, blessum minningarnar um hann og biðjum honum friðar í ljósríki eilífðar.

Helgi Ásgeirsson fæddist 10. maí árið 1944. Hann var vormaður hins unga lýðveldis, fæddist í Danaveldi og á stríðstíma en varð svo liðlega mánaðargamall einn af yngstu borgurum nýs lýðveldis og friðartíma. Foreldrar hans voru Kristín Helgadóttir og Jón Ásgeir Jónsson. Bæði voru af miklu dugnaðarfólki komin. Foreldrar beggja voru framkvæmdafólk og kunn fyrir húsin sem þau byggðu og voru stærri en annarra. Kristín var að vestan og fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð. Faðir hennar var kunnur sjósóknari og aflaskipstjóri á Suðureyri og síðar á Flateyri. Helgi fékk nafnið frá þeim afanum. Amma Helga lést þegar Kristín, móðir hans, var aðeins fjögurra ára. Kristín fór þá til vandalausra í vist og flutti um síðir að vestan og giftist föður hans Ásgeiri, vélvirkjameistara. Helgi var eina barn þeirra hjóna. Ásgeir var úr Borgarfirði. Foreldrar hans, Jón Jónsson og Sigríður Guðmundsdóttir, bjuggu í Galtarholti í Borgarhreppi. Jón, afi Helga, var landpóstur, kunnur garpur og happamaður. Ásgeir sótti skóla á þeim merka lýðskóla, Hvítárbakkaskóla, áður en hann flutti suður, lærði vélvirkjun og stundaði iðn sína. Ásgeir var sagður ljúfur maður og dagfarsprúður. Þegar Helgi var að komast á legg vann Ásgeir faðir hans hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og var virtur og mikils metinn.

Helgi var einbirni og naut því allrar athygli og verndar elskuríkra foreldra. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Spítalastíg, um tíma á Hverfisgötu síðan á Njálsgötu – á sitt hvorum endanum. Síðustu áratugina bjó Helgi á Njálsgötu 5, fyrstu árin þar með móður sinni og síðan einn þegar hún lést árið 2002. Foreldar Helgan voru samrímd og samstiga. Helgi skrifaði síðar í minningargrein um móður sína að foreldrar hans hefðu bæði verið náin honum, og „ … svo nátengd voru þau hvort öðru, að þar mynda miningarnar eina órofa heild.“ Foreldrar Helga höfðu skýrar reglur og stefnu í uppeldinu og pössuðu vel upp á drenginn sinn. Þau höfðu fyrir honum formlegan fatastíl sem Helgi lærði og tileinkaði sér. Við getum ímyndað okkur að eina barnsins hafi verið vel gætt. Kristín, mamma Helga, hafði misst móður sína ung og tvo bræður í frumbernsku og faðir hans var af hugumstóru en gætnu fólki komið. Með þennan bakgrunn og háskareynslu íslenskra kynslóða í erfðavísunum voru Ásgeir og Kristín samstiga í að gæta sonar síns vel.

Helgi var eftirtektarsamur og minnugur. Hann fékk ríkulega hvatningu að heiman til sjálfshjálpar. Á árinu 1957 kom t.d. frétt í dagblaði að Helgi Ásgeirsson á Spítalstíg 2 hefði orðið dugmesti sölumaður í happdrætti KSÍ. Á þessum tíma var mikið kapp í sölubörnum og hússala og dagblaðasala var helsta leiðin til að afla sér nokkurra króna. Að mynd af Helga og frétt birtist í blaði merkir að það hefur verið talið til tíðinda að hann skyldi selja svona vel í þágu knattspyrnusambandsins. Helgi hefur því verið gæfusmiður og lagt til velferðar íslenskum fótbolta. Helgi var ekki lokaður heima og inni heldur fékk hvatningu til dáða. Hann gekk um hverfin og seldi. Hann lærði að fara um og handfjatla fé. Síðan kunni hann til verka að innheimta, rukka og hafa gaman af röltinu í Reykjavík og fylgjast með mannlífi og stækkandi bæ verða að borg.

Helgi naut ágætrar skólagöngu. Eftir grunnskóla sótti hann Gaggó Vest og lauk síðan prófi og einnig stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Þar á eftir hóf hann nám í lögfræði við HÍ. Hið sérkennilega og eftirtektarverða er að Helgi lauk öllum prófum í lögfræði nema einu. Hann féll í Réttarsögu og náði þar með ekki lágmarkseinkunn til að útskrifast. Helgi sendi lagadeildinni erindi eftir prófin, fór yfir námsferil sinn, próf og stöðu og skýrði út líðan sína í prófi. Helgi bað um miskunn og að hann fengi annað tækifæri. Bréfið er merkilegt, skýrt og vel grundað (Reykjavík 8. sept. 1975). En Helgi naut engrar náðar eða undanþágu. Hann sagði skilið við háskóla eftir langt nám en þó próflaus. Þau úrslit og lyktir urðu honum áfall. En hann gafst ekki upp og leitaði á ný mið. Helgi hafði síðan atvinnu af innheimtustörfum fyrir ýmsa aðila, bókaútgefendur, útgfendur tímarita og dagblaða, m.a. Frjálsa Fjölmiðlun og þmt Svein Eyjólfsson. Helgi gekk gjarnan um bæinn í innheimtuerindum, með tösku sína, og fór víða. Hann varð einn af kunnustu göngumönnum Reykjavíkur og efasamt að margir fleir hafi stigið fleiri spor í borginni en hann. Á göngu fylgdist Helgi vel með, vissi hver verslaði hvar og hverjir ráku fyrirtæki og hvar. Hann þekkti ferðavenjur samborgaranna, skildi púlsa mannlífsins í bænum og hafði nánast ensyklópedíska þekkingu á lífi borgaranna, menningu borgarinnar, veðrum og dyntum veraldarinnar. Helgi var næmur og lærði vel að lesa stöðu fólksins sem hann átti samskipti við. Rukkarastarfið þroskaði með honum tilfinningu hvenær hann varð að sækja fram og hvenær hann ætti að gefa eftir til að styggja ekki fjárlitla eða aðkreppta skuldara. Helgi var ljúfur í samskiptum sem efldi farsæld hans í störfum og samskiptum. Hann var traustsins verður.

Helgi var eftirminnilegur maður. Hann var reglusamur í öllum efnum, neytti hvorki tóbaks né áfengis. Hann hafði góða reiðu á öllu því sem honum var falið. Færði í kompur sínar og stílabækur hverjir borguðu hvenær og hvað og stóð skil á öllu með skilvísum hætti. Helgi var alinn upp af fólki úr menningu fyrri hluta tuttugustu aldar og hann braust eiginlega aldrei út úr skipulagi fortíðar fyrr en eftir sextugt þegar foreldrar hans voru látnir. Síðustu árin voru eins og unglingsár í lífi hans. Hann var þá orðinn vel stæður og hafði efni á að kaupa það sem hann hafði hug á. Helgi var góður við vini sína og samferðafólk. Hann hitti gjarnan félaga sína í bænum og oft fór hann í Kolaportið til að næla sér í bók eða kaupa eitthvað smálegt sem hann fór með heim.

Helgi var elskulegur í samskiptum, mannvinur og dýravinur. Hann lagði gott til fólks, talaði það fremur upp en niður, minntist á hið jákvæða en sleppti hinu. Hann studdi þau sem hann taldi vert að styrkja og var í því fulltrúi samábyrgðarsamfélags og kristninnar. Helgi var eins og foreldrar hans sérlega natinn við dýr. Kötturinn Keli Högnason var reyndar nokkrir kisar. Þeir áttu skjól í Helga og á heimil hans og voru svo frægir og um þá var ritað í Morgunblaðinu. Helgi var líka umhyggjusamur gagnvart mannfólkinu. Þegar einhverjir áttu óvissan samastað var oftast hægt að fara til Helga sem skaut skjólshúsi yfir fólk. Helgi var vinur vina sinna og vildi alltaf standa vel skil á því sem til hans friðar heyrði. Í því var hann framúrskarandi. Helgi var fróleiksfús, las talsvert, safnaði þjóðlegum fróðleik, var vel heima í ættfræði og héraðasögu síns fólks. Hann mundi það sem hann hafði áhuga á og gat þulið daga og eftirminnilega atbgurði.

Nú kveðjum við Helga. Hann er kominn í kirkju í hinsta sinn. Í minningargrein um móður sína, Kristínu, tjáði Helgi fallega trú sína sem og trú foreldra sinna. Hann skrifaði: „Ég vil aðeins kveðja þau sem voru mér svo kær með bæn um að Drottin Guð verndi þau að eilífu.“ Svo bætir Helgi við vísun í orð Jesú og skrifar í minningargreinina versin tvö úr 11. kafla Jóhannesarguðspjalls: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Þessa afstöðu og von gerði Helgi að sinni. Í þeim krafti lifði hann og til þeirrar birtu hverfur hann úr þessum heimi. Það er trú kristninnar.

Guð geymi Helga Ásgeirsson og Guð geymi okkur öll.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa verið Helga góðir vinir og félagar. Þökk sé vinum hans og vinkonum sem voru honum öflugir og góðir félagar. Þökk sé öllum sem vitjuðu hans og gerðu honum gott til. Guð laun. Í lok þessarar athafnar verður efnt til erfis í Suðursal Hallgrímskirkju.

Minningarorð SÁÞ í útför Helga í Hallgrímskirkju, föstudaginn 8. apríl, 2022. Kistulagning sama dag. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Útf. Sverrir Einarsson. BSS og Schola cantorum. Eggert Reginn Kjartansson. Erfi í Suðursal Hallgrímskirkju eftir útför. Þórólfur Árnason hélt snjalla ræðu í erfinu um Helga, líf hans, tengsl og þjónustu við fólk og fyrirtæki. Myndin úr Hallgrímskirkju var tekin um það leyti sem kista Helga var borin í kirkju. 

 

 

 

Jóna M. Snævarr – minningarorð

Hvað er hamingja? Hvað þarf til að líf sé gott og gjöfult? Þessar spurningar hafa laumast að mér þessa daga stríðsfrétta. Myndirnar af fólki á flótta að heiman eru átakanlegar. En íhugun um líf Jónu hefur orðið mér sem sefandi blessun þegar tíðindin af heimshörmungum hafa borist. Það hefur verið nærandi hugsa um gleðiefni hennar og hvernig hún þjónaði af umhyggju og lipurð. Hún var heima, hamingjusöm og veitandi. Heima var auðvitað fyrir norðan, í öndvegi íslenskra dala, eins og segir í svarfdælasálminum. En heima var þar sem Stefán og Jóna voru. Hamingjan var þeim heimafengin og eðlilegur heimilisiðnaður. Heima er þar sem við náum að samstilla krafta hið innra og ytra. Heima er þar sem fólki og ástvinum líður vel, börn dafna og gamla fólkið finnur til öryggis. Heimaslóð er þegar nágrannar hafa frelsi og möguleika til að njóta lífs og búa við gleðilegan frið. Þannig var Svarfaðardalur á uppvaxtartíma Jónu, uppbyggingarsveit og bóklesandi samfélag. Þar var fólk sem bjó til vegi og brýr, efndi til leiksýninga, sagði litríkar sögur, rauk á fjöll til þess að gleðjast eða ná hærri sjónarhóli, greina plöntur, ljóða um lífsins undur, drauma og gróandi þjóðlíf.

Jóna naut þess að vera í fjölmenni og gleðskap. Hún var gleðisækin, hógvær, umhyggjusöm og nærgætin. Í henni bjó djúp mannvirðing. Hún vildi gleðja fólk og gera því vel. Jóna var gestrisin og efndi fúslega til mannfagnaðar. Svo skipulagði hún og framkvæmdi. Þess var aflað sem þurfti, svo var eldað og bakað. Þegar komið var að því að dúka sætti Jóna sig ekki við annað en það besta. Hún hefði auðvitað getað látið nægja að leggja aðeins á borð og undirbúa veitingar og láta þar við sitja. Nei, lágmarksviðbúnaður var ekki hennar stíll. Hún fór lengra, hugsaði um hvað dagurinn gæfi. Hún fór gjarnan út, svipaðist um í garðinum eða umhverfinu og notaði hið óvænta og fagra sem tíminn hafði skapað. Fagrir voru reyniberjaklasarnir, blómin eða haustlaufin sem urðu skraut á borði hennar. Gestir Jónu glöddust yfir yndisaukanum og fegurð borðhaldsins. Íslensk gestrisni, glaðværð og öguð fegurðarsókn fléttaðist saman í Jónu og íslenskir og erlendir gestir fóru frá heimili hennar með fegurð í augum, hlátur í eyrum og vitund um að lífið væri gott. Jóna var velgerðarkona í lífi, störfum, afstöðu og þjónustu við fjölskyldu. Presturinn átti því alltaf stuðning í konu sinni. Jóna var fulltrúi Guðs í veröldinni og verndari heimilis síns og sveitunga.

Sökkuupphafið

Jóna Magnea Snævarr fæddist á Sökku í Svarfaðardal 9. febrúar árið 1925. Foreldrar hennar voru sæmdarhjónin Rósa Þorgilsdóttir og Gunnlaugur Gíslason. Jóna var elst í systkinahópnum. Hin fjögur systkinin eru Dagbjört Stephensen, Halldóra Gunnlaugsdóttir, Þorgils Gunnlaugsson og svo fósturbróðurinn Halldór Arason, sem var tekinn í fóstur sem kornabarn. Af systkinunum eru tvö látin, þau Halldóra og Halldór.

Sökkuheimilið var fjölmennt menningarheimili. Rósa og Gunnlaugur höfðu gestrisni fyrir börnum sínum, vinnusemi, manndóm, sjálfstæði og dug. Uppeldisbragurinn var glaðvær og lífsafstaðan var sókn mót sólu. Sökkubærinn stóð hátt en var þó í skjóli Hamarsins fyrir norðanáttum. Útsýn Sökkufólksins í þessu öndvegi íslenskra dala var glæsileg. Stutt var milli bæja og félagslífið ríkulegt og metnaður ríkti í menningarstarfi þessarar þéttbýlu sveitar. Gunnlaugur var forystumaður í mörgum efnum. Hann beitti sér fyrir vegarlagningu fram dalinn og unga fólkið lærði að ekkert kemur af sjálfu sér. Ég heyrði sögur í bernsku af því þegar fólkið kom af bæjunum á Austurkjálkanum með skóflur og haka til að gera veg saman. Brautin var gerð og til góða fyrir samskipti og búskap. Enn njóta íbúar framsýni hugsjónafólksins fyrir einni öld. Sökkufólkið hafði einnig getu og dug til að vinna með náttúrunni til að auka gróðurvöxt og heyfeng. Áveitukerfi var gert á Sökkubökkum og engjum með stíflum, flóðgáttum og brúm. Hægt var að veita vatni víða. Áveitubakkarnir urðu grasgefnari en ella. Ég fór oft um bakkana í veiðiferðum bernskunnar og alltaf dáðist ég að Sökkumönnum sem voru ekki aðeins dugmiklir heldur urðu fyrirmynd öðrum sveitungum um metnað og stórvirki.

Jóna var efnisbarn og lærði snemma að taka til hendinni. Hún var handlagin og henni var treyst. Faðir hennar vildi gjarnan að hún væri með honum í störfunum. Alla tíð síðan var Jóna atorkusöm, lagin, fyrirhyggjusöm og skilaði því sem henni var falið. Hún var mögnuð Jóna. Í kraftmikilli og fjölmennri stórfjölskyldu varð Jóna læs á fjölbreytileika mannlífsins. Hún var félagslega hæf alla tíð, sem kom henni að notum þegar hún varð ung prestskona á mannmörgu og gestkvæmu heimili á Völlum þar sem þrjár kynslóðir fólks bjuggu saman, sterkir og stöndugir einstaklingar.

Nám og skólar

Svarfdælingar voru svo lánsamir að barnakennar í sveitinni voru góðir fræðarar. Jóna var þakklát fyrir að hafa notið kennslu hins rómaða kennara Þórarins Eldjárns á Tjörn. Eftir skólun í heimabyggð stefndi Jóna í Menntaskólann á Akureyri. Þá var kominn til starfa bráðungur prestur í Velli, Stefán Valdimarsson Snævarr. Hann var svo elskulegur að taka frændsystkin í kennslu til að undirbúa Akureyrarskólagönguna, þau Gísla Jónsson á Hofi og heimasætuna Jónu á Sökku. Eitthvað fleira en skilningsljósin hafa lifnað í þessari prestskennslu því þegar Jóna var kominn í MA nefndi Sigurður skólameistari í hópi fólks Jónu sem kærustu Stefáns Snævars. Jóna roðnaði út að eyrum vegna þessarar opinberunar trúlofunar og vildi helst sökkva í gólf. Jóna var tvö ár í MA og ákvað að ljúka námi með gagnfræðaprófi og fara í húsmæðraskóla. Kannski hefur kærustuparið verið búið að ráðslaga um framtíð á Völlum og álitið að húsmóðurfræðin væru hagnýt ekki síður en beyging latneskra sagna. Jóna hóf nám í nýjum húsmæðraskóla. Hún var ein af 48, sem hófu nám fyrsta árs skólans árið 1945 í nýju húsi sem Guðjón Samúelsson hafði teiknað. Jónu leið vel í þessu nýja umhverfi og var metin að verðleikum. Hannyrðir höfðu verið stundaðar og víða af listfengi á bæjunum í Svarfaðardal. Amma Jónu sem bjó á Hofi vann t.d. til verðlauna á heimilisiðnaðarsýningu í Reykjavík. Jóna lærði að vefa hjá Soffíu, föðursystur sinni, og þegar hún byrjaði nám í húsmæðraskólanum var ljóst að hún var svo vel að sér við vefstólinn að henni var falið að kenna samnemendum sínum.

Stefán og barnalánið

Stríði var lokið. Jóna lauk námi frá húsmæðraskólanum og ástin blómstraði. Þau Jóna og Stefán Snævarr ákváðu að vera ekki bara umtalað par heldur að festa ráð sitt. Það gengu í hjónaband 1. júní árið 1947. Svo hófst liðlega tuttugu ára hamingjutími á Völlum. Þar hafði Guðmundur góði verið prestur, líka Páll Jónsson sálmaskáld og höfundur Ó, Jesú bróðir besti. Einnig höfðinginn Stefán Kristinsson, sem var einn af þremur guðfræðingum sem luku guðfræðiprófi á tuttugustu öld með ágætiseinkunn. Vallaheimilið hafði því verið menningarsetur í uppvexti Jónu. Hún vissi um stærð staðar og dúp sögu. En hún var tilbúin, sagði já við bónorðsósk og flestum lífs- og vinnuóskum Stefáns, bónda síns. Hún var tilbúin að gera fólkinu sem kom til kirkju gott, hvort sem var í gleði-og sorgarerindum. Hún var reiðubúin að þjóna öldruðum tengdaforeldrum og líka föðursystur Stefáns, sóknarfólkinu, sveitungum og ferðafólki. Vellir voru staður um aldir og þau Jóna og Stefán sátu staðinn með sóma og gáskafullri sæmd. Þökk sé þeim og lof.

Þau bjuggu líka við barnalán og voru svo skipulögð að öll börnin fæddust á föstudegi, Gunnlaugur Valdemar m.a.s. á föstudeginum langa! Elst barna þeirra Jónu og Stefáns er Stefanía Rósa. Hún er kennari að mennt. Maður hennar er Ingimar Einarsson, félags- og stjórnmálafræðingur. Börn þeirra eru Stefán Þór og Inga Jóna. Stefán Þór Ingimarsson er lögmaður. Kona hans er Anna Guðrún Birgisdóttir, viðskiptafræðingur, og synir þeirra eru Stefán Gunnar, Birgir Hrafn og Valdemar Björn.

Inga Jóna Ingimarsdóttir er hjartalæknir. Maður hennar er Gunnar Jakob Briem, verkfræðingur. Stjúpsynir hennar, synir Gunnars, eru Baldur Fróði, Jakob Orri og Ari Sigurður.

Gunnlaugur V. Snævarr var annað barn Jónu og Stefáns. Hann lést í september á síðasta ári. Gunnlaugur var kennari og yfirlögregluþjónn. Kona hans var Auður Adamsdóttir, kennari. Dóttir hennar og  stjúpdóttir Gunnlaugs er Þórhildur Erla Pálsdóttir, kennari.

Ingibjörg A. Snævarr, leikskólakennari, er þriðja barn þeirra Jónu og Stefáns. 

Vallaheimilið og prestsheimilið

Heimilislífið á Völlum var litríkt. Þó svarfdælsku Alparnir væru háir vissi Vallafólkið vel að mannlíf og menning væri handa þeirra. Tímarit heimsins komu í bæinn. Vellir voru beintengdir útlöndum. Danir voru gjarnan á heimilinu og börnin lærðu dönsku við bústörf og eldhúsborð. Heimilisandinn var frjáls og opinn. Þau Jóna og Stefán tóku þátt í nýja tímanum og bíll prestshjónanna var einn af þeim fyrstu í dalnum. Ef sækja þurfti ljósmóður eða hjálpa til við fæðingu eða læknisstörf var alltaf hægt að leita til þeirra Stefáns og Jónu. Gamla fólkið á Vallabænum lagði til skólunar ungviðisins. Svo var sungið, hlegið og glaðvær menning ræktuð. Kirkjan var og er við Vallabæinn. Það sem var til á heimilinu var notað í þágu kirkjustarfsins líka. Meira að segja jólatréð var fært út í kirkju í jólamessuna. Einu sinni fauk jólaskrautið í kirkjuferðinni út í buskann þegar verið var að færa tréð milli húsa. Börnin lærðu snemma að hjálpa til og Jónu þótti gott að fá hjálp í bakstri og undirbúningi athafna og hátíða. Til Valla var gefin mikil kirkjuklukka sem kallaði á stórt klukkuport. Á gamlárskvöldi dreif að fólk í Velli til aftansöngs og gleði. Börn sem fullorðnir fengu þá að hringja nærri tveggja tonna Íslandsklukku Svarfdælinga. Það var sjón að sjá þegar krakkapíslir sem hin eldri flugu upp, hangandi í kaðlinum, í kampanólógískum æfingum áramótahringinga. Það er gaman að eiga slíkar og bjartar minningar. Yfir öllu vöktu þau Jóna og Stefán og brostu.

Fyrstu árin ráku þau Vallahjón búskap meðfram prestsstarfinu. Skepnuhaldi var þó sjálfhætt þegar heilsu Stefáns var ógnað. Dalvík stækkaði sem þorp og árið 1968 fluttu þau Jóna til Dalvíkur og bjuggu þar síðan meðan Stefán þjónaði sem prestur og prófastur Eyjafirðinga. Jóna var alla tíð fús að reka fjölbreytilegt og gestrisið prestsheimili. Þangað áttu sóknarbörn fjögurra kirkjusókna oft erindi, í gleði og sorg, og reyndi þá á hlutverk og hæfileika. Jóna hafði áhuga á velferð fólks. Þau hjón voru samstillt um nýta hæfileika beggja í þágu samfélagsins. Þau voru líka samstillt að styðja þau sem þörfnuðust fjáraðstoðar, líka í Frakklandi og í Noregi. Siðferðisafstaða þeirra var hinn klassíska samstöðuafstaða kristninnar. Árið 1984 urðu starfslok Stefáns og Jónu nyrðra. Börn og ástvinir bjuggu fyrir sunnan og þau fluttu suður á Seltjarnarnes. Syðra varð heimili þeirra Jónu dekurreitur fyrir barnabörnin og jafnvel nágranna líka. Eftir lát Stefáns bjó Jóna í skjóli barna sinna þar til hún futti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund, haustið 2017.

Minningarnar

Hvernig manstu Jónu? Hvað lærðir þú af henni? Hvað var það eftirminnilegasta sem hún sagði við þig? Hvað gildum blés hún þér í brjóst og hvað siðvit hafði hún fyrir þér? Manstu smiðsauga hennar og góða rýmisgreid? Manstu listaverk hennar og handverk? Áttu jafnvel eitthvað sem hún prjónaði og gaf þér? Manstu hreinlæti hennar, þennan ríka og góða arf sem hún hafði frá Sökkuheimilinu. Manstu hvernig hún þjálfaði huga, mundi fréttir og staði og fletti upp í Landabréfabókinni? Svo kunni hún þessi ókjör af ljóðum, öll tuttugu og átta erindin af Sveini dúfu, Gunnarshólma og Skúlaskeið og fleira og fleira. Jóna ræktaði það sem kallað var fásinnisminni, að muna mikið magn af upplýsingum, muna framvindu og samhengi og tengja svo rétt. Jónu þótti gaman að spila. Hún var góð í vist og svo þjónaði hún dóttur sinni og spilaði við hana marías. Jóna var fróð á mörgum sviðum. Hún var eins og margir sveitungar hennar kunnáttusöm um jurtir og gat á gamals aldri sagt frá tugum blóma í Gerðamóunum í suðurhlíðum Hamarsins. Jóna var blómakona og ræktunarkona. Rósirnar hennar blómstruðu fagurlega, Hawairós og hortensíur. Aldrei kvartaði hún, aldrei hrutu styggðaryrði af hennar vörum. Áhugasvið Jónu var breitt. Hún var meira að segja mjög kunnáttusöm um fótbolta og gat romsað upp úr sér nöfn helstu leikmanna Manchester United. Svo gat hún líka upplýst, eins og slyngur umboðsmaður, hvað Ryan Giggs og hinir leikmennirnir höfðu kostað! Svo fylgdi hún KA í handboltanum.

Jóna var eftirminnileg, glæsilegur fulltrúi íslenskrar sveitamenningar og kristni. Mér þótti hún dásamlegur nágranni sem allir virtu og mátu. Hún var þjónn síns svarfdælska samfélags. Hún var heima í menningu Íslands. En nú er Jóna farin inn í birtuna hinum megin stórfjallanna, inn í menningu himinsins. Þar þarf ekki að skafa toppskaflinn lengur til að sjá út í Sökku bernskunnar. Engin skyndileg útköll vegna fæðinga eða slysfara. Ekki lengur sungið, spilað eða hlegið. En hún skilur eftir sig mynd verndara Svarfdælinga. Sú ímynd hvetur okkur til að gera fólki gott og búa til heimlislega og friðsamlega veröld. Glettið bros hennar lifir í minni. Hún fer ekki framar í berjamó eða ræsir út sitt lið til að bjarga aðalberjum fyrir frost. Hún nær ekki framar í fagurrauða reyniberjaklasa til að leggja á borð og gleðja fegurðarskyn heimafólks eða gesta. Hún gleðst ekki lengur yfir árituðum landsliðstreyjum eða spyr um veðrið heima. Hún er heima, hjá Stefáni sínum, Gulla og stórfjölskyldunni – á Völlum eilífðar.

Guð geymi Jónu, Guð styrki þig og efli. Amen.

Minningarorð í útför í Neskirkju 23. mars, 2022. Kistulagning sama dag. LBE, Félagar í Fóstbræðrum, EHH, F&H ÚH. Landslagsmyndir úr Svarfaðardal SÁÞ en hinar myndirnar úr myndabók fjölskyldu Jónu og Stefáns. 

Kveðja frá Þorgils Gunnlaugsyni, bróður Jónu

Til þín sendi tregatón

tengdan dalnum þínum.

Minning  þín fær mæta sjón

í mynd úr huga mínum.

 

Um götu þína glói sól

á grænum hlíðum fjalla,

með ljúfum ilm úr laut og  hól

þér lykti tíma alla.

 

 

Ásthildur Sveinsdóttir – minningarorð

„Mamma var með íslenskuna upp á tíu“ sögðu synir Ásthildar. Í henni bjó rík málvitund, sem hún fékk í arf frá fjölskyldufólki sínu og úr öguðum málheimi hins unga lýðveldis Íslands. Þegar hún fór að vinna fyrir sér varð málageta mikilvæg í starfi hennar. Svo urðu þýðingar að atvinnu hjá henni. Þýðingar: Hvað er það? Er það ekki bara að finna út orð í einu máli og hliðstæðu í öðru? Jú, vissulega í sumum tilvikum er hægt að þýða beint, en við sem höfum prufað google-translate og smellt á þýðingartilboð á vefnum vitum að hráþýðing er grunn, tilfinningaskert og skilar litlu nema vísbendingum. Raunveruleg þýðing krefst fegurðar, næmni, skilnings, innsæis, menningarlæsis og málvitundar upp á tíu – eða alla vega upp á níu. Merking er aldrei einnar víddar og yfirborðsleg. Tilfinningar mannanna verða ekki afgreiddar með einfeldni. Miðlun merkingar er list. Ásthildur lifði áhugaverða tíma þegar íslenskt samfélag breyttist hratt. Hún lifði áhugaverðu lífi og okkar er að ráða í merkingu lífs hennar, þýða viðburði, orð og lífsferli með alúð. Og kveðja hana með fegurð og virðingu.

Sólvallagata og upphafið

Ásthildur Sveinsdóttir fæddist á aðventunni árið 1942, laugardaginn 5. desember. Kjörforeldrar hennar voruhjónin Sveinn Þorkelsson og Jóna Egilsdóttir á Sólvallagötu 9. Þar ólst hún upp ásamt eldri bróður sínum Agli Sveinssyni. Egill var tólf árum eldri en hún, fæddist árið 1930. Í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötu var litríkt mannlíf. Sveinn og Jóna höfðu byggt húsið og ráku verslun á jarðhæðinni. Líf fjölskyldunnar var með ýmsu móti bæði hvað varðaði rekstur og mannlíf. Þetta stóra hús, með margar vistarverur, var umgjörð um líf stórfjölskyldunnar. Þau systkin, Ásthildur og Egill, áttu þar lengi athvarf. Egill starfaði sem bankamaður en í honum bjó líka listamaður og hann lærði útskurð hjá Einari Jónssyni og einnig málaralist í Florence.

Bernska Ásthildar var hamingjurík. Foreldrar hennar báru hana á höndum sér. Hún var skemmtilega, fallega barnið í stóra húsinu og naut athygli og aðdáunar. Á hana var hlustað og við hana var talað. Æskuárin voru góð en stóra sorgarefnið var að faðir hennar lést þegar hún var enn ung. Eftir að námi lauk með hefðubundu grunnskólanámi stóðu Ásthildi ýmsar leiðir opnar. Hún fór m.a. til Englands til enskunáms. Málakonan lagði sig eftir málum. Seinna fór hún í kennaraskólann um tíma og enn síðar í sálfræði í HÍ. Áhugasvið hennar var víðfeðmt og Ásthildi var gefinn opinn hugur.

Ásthildur var dugmikil í vinnu og þjónaði vinnuveitendum sínum vel. Hún nýtti hæfni sína og skerpu. Um tíma vann hún hjá Póstinum, þá starfaði hún um tíma í banka og einnig við afgreiðslustörf í búð. Um nokkurra ára skeið vann Ásthildur í Domus Medica, sem þá var á Klapparstíg, og svo hjá Vita-og hafnamálastofnun og var síðan ritari borgarlæknis. Læknaritarinn varð slyngur höfundur og létti læknum og samverkamönnum mjög lífið við frágang á skýrslunum. Svo tóku við þýðingarnar, sem gáfu Ásthildi möguleika á að nýta alla færni sína og gáfur til að opna víddir merkingar og möguleika. Hún miðlaði milli heima mála og menningar.

Hjúskapur og drengirnir

Svo var það ástin. Þau Hilmar Guðjónsson, teiknari, felldu hugi saman. Þau voru ung og atorkusöm og gengu í hjónaband árið 1962. Drengirnir komu svo í heiminn. Fyrstur var Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur og kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir. Börn þeirra eru Kristján Sævald og Edda. Næstir komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr. Axel er byggingaverkfræðingur. Dætur Axels og Þórnýjar Hlynsdóttur eru Sunna og Álfrún. Snorri Freyr er leikmyndateiknari og hönnuður. Kona hans er Anna Söderström. Dætur þeirra eru Hilda Sóley og Eyvör. Börn Snorra og fyrri eiginkonu hans, Láru Hálfdanardóttur, eru Skarphéðinn og Unnur.

Þau Ásthildur og Hilmar skildu, en voru áfram vinir þó þau væru ekki lengur hjón. Þau stóðu saman vörð um hag þriggja sona sinna. Það er mikil gæfa þegar skilnaður veldur ekki vinslitum. Hilmar fór en drengirnir voru fyrstu árin hjá móður sinni. Þeir lærðu snemma að bjarga sér, urðu skemmtilegir og nýttu vel möguleika og hæfni. Ásthildur hélt áfram vinnu utan heimilis til að sjá sér og sínum farborða. Svo potuðust drengirnir upp, hún óx í starfi og þeir öxluðu ábyrgð. Svo kom að því að Sævar Þór Sigurgeirsson kom inn í líf hennar. Þau Ásthildur gengu í hjónaband árið 1978. Sævar Þór starfaði við endurskoðun. Sonur þeirra Ásthildar er Ívar Sturla. Hann er húsasmiður og býr með Anastasiu Podara. Þegar Ásthildur og Sævar Þór giftust flutti hún með drengina sína upp í Engjasel í Breiðholti. Þar bjó hún í nokkur ár en flutti, þegar þau Sævar skildu, yfir í Flúðasel. Þar bjó Ásthildur á annan áratug og flutti svo í einbýli við Hamarsbraut í Hafnarfirði. Síðustu árin bjó Ásthildur á Álftanesi.

Minningarnar

Við skil er gjöfult en líka þarft að hugsa um ástvin, sem er horfinn sjónum. Hvað einkenndi Ásthildi? Hvernig manstu hana og hvað sagði hún, sem var þér mikilvægt? Manstu dýravininn Ásthildi? Heyrðir þú hana spila á píanóið ? Drengirnir muna eftir Bach og Chopin-leik er þeir voru að festa svefninn! Manstu smekkvísi hennar í fatavali og hve nákvæm hún var varðandi klæðnað? Manstu eftir einhverju sem hún saumaði? Strákarnir töluðu um röndóttar smekkbuxur og mér þykir skemmtilegt að hugsa um þá bræður dressaða í smekkbuxur og með hatta! Manstu Ásthildi með Burda-snið á milli handa? Manstu Ásthildi á þönum úr vinnu til að tryggja að drengirnir hennar fengju næringu í hádeginu? Manstu fjör og stemmingu þegar hún var með vinkonum sínum heima? Svo var Ásthildur ráðdeildarsöm og komst vel af. Manstu hvað hún var klár, viðræðugóð og að enginn kom að tómum kofum hjá henni?

Litið til baka

Miklar breytingar urðu á lífi íslensks samfélags á líftíma Ásthildar. Einhæfnisþróun úr sveit í borg varð fjölbreytilegri. Vesturbæjarþorpið splundraðist á árum seinni heimsstyrjaldar. Á Melum, Högum og Holtum voru hermenn í stríði. Þó peningarnir flæddu um æðar samfélagsins rötuðu þeir þó ekki alltaf til Ásthildar og drengjanna hennar. Hún lærði að lífið er barátta en líka undursamlegt, fjölbreytilegt og fullt af vonarefnum. Í lífi Ásthildar speglaðist umbreytingarsaga þjóðar hennar. Jafnvel upphaf hennar var flóknara en margra okkar. Ásthildur var lánssöm að eiga natna og elskuríka kjörforeldra. En blóðforeldrar hennar voru Kristín Jóhannesdóttir og Kristján Davíðsson, sem á síðari árum varð kunnur sem einn helsti myndlistarjöfur þjóðarinnar. Hvað merkir það, að vita að þú ert þessara en líka hinna? Ásthildur var þegar í bernsku margra vídda. Svo missti hún föður sinn átta ára gömul. Hvað merkir það í lífi barns og móður hennar þegar pabbinn og eiginmaðurinn deyr? Heimurinn hrundi en lífið hélt þó áfram. Þegar Ásthildur eltist kannaði hún svo tengsl við ættmenni sín sem hún hafði ekki verið í samskiptum við í bernsku og náði að kynnast sumum. Hún tengdist m.a. blóðföður sínum sem hún mat mikils. Við fráfall Kristjáns fyrir tæpum áratug skrifaði Ásthildur í minningargrein. „Við endurnýjum kynnin í samvistum á sæluströnd. Hvíl í friði faðir minn.“ Það er mikilvægt að geta tjáð tilfinningar svo vel og orðað frið með slíkum hætti.

Í lífinu hafði Ásthildur fangið fullt af verkefnum. 22 ára var hún orðin móðir þriggja drengja. Við, sem höfum verið með þrjú börn á heimili, vitum að verkefnin eru mörg og oft krefjandi. Ásthildur varð að læra allt sem þurfti til búrekstrar, líka að sjóða kartöflur, afla fjár til að reka heimili og standa straum af öllu því sem stækkandi strákahópur þurfti. Ásthildur var svo gæfusöm að hún átti athvarf í fjölskylduhúsinu á Sólvallagötunni. Þaðan lá leiðin austur fyrir læk og í Breiðholtið. Ásthildur tók þátt í útþenslu borgarinnar og var ekki bundin bara við velli og götur norðan Hringbrautar. Hún hélt áfram og líka í vinnu- og heimilis-málum. Mögnuð saga merkilegrar konu.

Ásthildur þýddi á milli heimanna. Tengdi og túlkaði og lifði í sjálfri sér umbreytingu alls. Í lífi hennar var aldrei bara fortíð heldur líka opnun. Hún vonaði, hafði löngun, þráði, vildi svo gjarnan – sem sé þorði að lyfta sér upp yfir nútímann og skygnast víðar um. Við getum skilið það með margvíslegum hætti. En þegar dýpst er skoðað má líka túlka það sem trúarlega dýpt. Að tilveran er ekki bara lokuð og læst heldur má vænta einhvers meira. Trúmennirnir tala um handanvídd sem er kennd við Guð og himinn. Þegar synir Ásthildar kveðja móður sína þá mega þeir tengja þrá og von hennar í lífinu við að nú hafi allir draumar hennar ræst og allt gengið upp. Ekkert tapast í yfirfærslunni. Það er þýðingarsnilld himinsins.

Nú þýðir Ásthildur ekki lengur. Dýrin njóta ekki lengur athygli hennar og natni. Hún kemur ekki framar í heimsókn á heimili sona sinna. Nú er hin fallega og glæsilega kona farin inn í málheim himinsins. Þar eru engar ambögur, málvillur eða þýðingarvillur, ekkert „lost in translation.“ Þar er málið og himneskan upp á tíu. Þar eru samvistir á sæluströnd eins og Ásthildur orðaði það sjálf. Og Sólvellir himinsins. Guð geymi Ásthildi og Guð styrki ykkur ástvini.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá vinkonu Ásthildar, Sofiu Thors, og fjölskyldu hennar sem búsett er í Þýskalandi. Auk Sofiu eru Dieter Wendler-Johannsson, Haukur Thor, Óli og Carola.

Minningarorð í Neskirkju 10. mars. 2022. Kistulagning í kapellunni í Fossvogi 8. mars. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. SÞ. GPG og Voces masculorum.

HINSTA KVEÐJA 
Manstu, er saman við sátum 
við sorgþungan úthafsins nið? 
Úr djúpanna dulræðu gátum 
við drógum hinn skammvinna frið,

því eftir var aðeins að skilja, 
og yfir þig skugganum brá 
og eitt er, að unna og dylja, 
og annað, að sakna og þrá. 

 

Jakob J. Smári