Greinasafn fyrir merki: Magnús Þorkell Bernharðsson

Miðausturlönd 5 *****

Við feðgar fórum á bókamarkað og keyptum fjölda bóka og þær voru alls konar. Ég rakst á bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Miðausturlönd – fortíð, nútíð og framtíð. Ég met höfundinn mikils og hlusta grannt eða les þegar tekin eru viðtöl við hann í fjölmiðlum. Ég vissi af bókinni en hafði hvorki eignast hana né skoðað. Svo var hún þarna í bókaflóði markaðarins undir stúku Laugardalshallar – á spottprís. Hún var með í staflanum sem við roguðumst með út í bíl. Heima fór ég svo að lesa. Fólkið mitt stríddi mér á því að eftir þrjátíu blaðsíður lýsti ég yfir og af sannfæringarkrafti að bókin væri frábær. Þau minntu mig á að ég væri nú bara nýbyrjaður og fannst gassagangurinn hæfa mér illa. En nú er ég búinn að lesa allt ritið, allar 331 blaðsíðurnar. Niðurstaða mín er einföld. Þetta er besta bókin sem ég hef lesið um Miðausturlönd. Magnús Þorkell er ekki aðeins snjall fræðimaður heldur vel skrifandi höfundur líka. Litrík, fræðandi, vel túlkandi og yfirveguð fræðimennska og textinn er leifrandi.

Í hverjum kafla er farið yfir menningarsögu, trúarheim, pólitík og hagsmunasögu menningarhópa landssvæðis eða ríkis. Sjónum er aðallega beint að Egyptalandi, ríkjum á Arabíuskaga, Írak, Íran, Ísrael, Líbanon, Jórdaníu, Sýrlandi og Tyrklandi. Einstakir hópar eða þjóðarbrot eru líka rædd þvert á ríkjamæri, s.s. Kúrdar og mismunandi trúarhópar. Með leiftrandi sögum, útlistunum, fræðslu og túlkun málar Magnús Þorkell myndir og útskýrir af hverju málin þróuðust með ákveðnu móti en ekki öðru vísi. Heimsveldi Breta kemur víða við sögu og einnig Bandaríkin. Ottómanveldið er þarna auðvitað líka. Höfundur skrifar óhikað um hvernig stórveldin hafa beitt sér, hver áhrifin voru og þar með líka hvernig hópar hafa verið misnotaðir og þjóðir jafnvel verið rændar. Olía, auðlindir og flutningaleiðir skiptu máli í þróuninni. Hlutur Frakka, Þjóðverja og Rússa er skýrður og hvernig átök veraldar áttu sína afleggjara á mismunandi svæðum og í mismunandi löndum Miðausturlanda. Fjölbreytileg þróun Islam er túlkuð, mismunandi áherslur og guðfræði sem og átök hópa. Af hverju Ísraels-og Palestínu-vandinn hefur þróast með þeim sárgrætilega hætti sem við verðum vitni að þessa dagana fær skýrt baksvið í meðförum Magnúsar Bernharðs.  

Ég hef haft áhuga á Miðausturlöndum lengi og fylgst með fréttum frá svæðinu allt frá áttunda áratugnum. Ég þekki því flesta gerendur og hinar opinberu skýringarsögur fjölmiðlanna. Magnús Þorkell segir persónusögurnar með litríkum hætti og notar til að fara á dýptina. Hann hreif mig með sér og lánaðist að leysa upp marga fordóma mína og ímyndanir um þróun og einstaklinga. Hann túlkaði fyrir mér sögu þjóða og hópa með svo trúverðugum hætti að ég sé margt með öðrum og skýrari hætti en áður. Þannig eru snilldarbækur, þær breyta, dýpka og kalla fram skilning og þegar best lætur visku. Takk.

Slagorð um Palestínu, Gyðinga, Ísraela og stjórnmálamenn hljóma í mótmælum, fjölmiðlum og átökum hörmungarmánaða frá 7. október 2024. Klisjur magna ófrið en aðeins góð fræði og viska skapa eða fæða frið. Það er þarft fyrir okkur að ná í bókina Miðausturlönd og lesa. Þar er gott veganesti fyrir yfirveguð viðbrögð okkar einstaklinga og skilvirka menningar- og utanríkispólitík okkar Íslendinga.

Fimm stjörnu bók – og mínusarnir svo fáir og smáir að ég kann ekki einu sinni við að nefna þá. Tolle lege.

+ Bernharður Guðmundsson +

Bernharður Guðmundsson var gjafmildur maður – einn sá örlátasti sem ég hef kynnst. Einu sinni kom hann með koptískan kross frá Eþíópíu, í annað skipti helgimynd og svo seinna litríkan kross frá Suður-Ameríku. Ef ekkert var í höndum hans breytti hann samfundi í eftirminnilegan og oftast kátlegan viðburð. Hann var örlátur á tíma, hafði skarpa vitund og frjóan huga. Hann spurði, færði óhikað rök, greindi snarlega styrkleika og veikleika fólks og nálgaðist það með umhyggju og kærleika. Hann nöldraði ekki heldur rýndi til gagns, eflingar og góðs. Hann gerði sér engan mannamun og sá gull í öllu fólki. Það var einstök og dásamleg nálgun og Jesúleg.

Ég man eftir Benna fyrst á Tómasarhaganum. Hann bjó með Rannveigu sinni í skjóli Magneu og Sigurbjarnar í biskupshúsinu, Tómasarhaga 15. Ég bjó hinum megin götunnar og hitti hann því og sá til hans. Mér fannst hann alltaf kátur og skemmtandi. Ég fylgdist með prestsþjónustu Benna úr fjarlægð og heyrði að nágrannaprestum hefði þótt hann of vinsæll. En ég sannfærðist um snilld hans þegar hann stýrði risasamkomu í Laugardalshöllinni. Þar var mikill fjöldi gagnrýnna unglinga sem ætluðu sér ekki að láta prest fara neitt með sig. En Benni var aldrei öflugri en þegar á reyndi. Hann heillaði söfnuðinn. 

Á æskulýðsdeginum 1973 var ég Benna til aðstoðar. Rétt fyrir fjölsótta kvöldsamkomu í Dómkirkjunni kom í ljós að hljóðnemarnir voru í ólagi. Ég hringdi í poppara sem ég þekkti og hentist upp í Þingholt og náði í mækana. Við smelltum þeim í samband þegar Benni var að fara að setja samkomuna. Hann kunni að meta viðbragðsflýtinn. Nokkrum dögum síðar var flugvél á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar send til til gjósandi Heimaeyjar. Til að verðlauna unglinginn vildi Benni að ég fengi að fara með til Eyja. Benni sá alltaf möguleika þar sem glufur voru, lagði gott til, efldi fólk og lyfti. Hann var kallaður Benni en líka oft og með sanni Benni Gúddman.

Þau Rannveig fóru um heiminn og eignuðust heillandi börn sem urðu leifrandi heimsborgarar. Benni skrifaði hnyttna pistla í Moggann sem margir lásu. Svo komu þau heim til Íslands og Benni varð biskupsþjónn. Hann var alla tíð frumlegur, hugsaði í lausnum og möguleikum, hvatti og lyfti upp því sem var hagnýtt og merkilegt. Hann var fjölgáfaður og vel heima á mörgum sviðum og listrænn smekkmaður.  Hann horfði alltaf fram á veginn og beitti sér fyrir bótum og leiðréttingum og nýjungum. Benni var í áratugi frumkvöðull þjóðkirkjunnar. 

Benni færði alltaf fögnuð í hús gleðinnar þegar hann kom í messu. Hann kom oft í Neskirkju þegar ég var þar prestur. Hann var óspar á lof ef sá gállinn var á honum og einu sinni klappaði hann eftir messu. Svo sóttu Rannveig og Benni einnig kirkju í Hallgrímskirkju og hann kom alltaf eftir messu til að veita umsögn – og alltaf til gagns. Örlátur öðlingur. Okkur mörgum engill. Nú er Benni farinn inn í himininn og þar er samfélag örlætisins og gaman.

Guð geymi Bernharð Guðmundsson, styrki Rannveigu, Svövu, Magnús Þorkel, Sigurbjörn og alla ástvini.

Takk fyrir örlætið.

Myndirnar tók ég í Skálholti í febrúar 2010. Bernharður fór á kostum er hann stýrði miðaldakvöldverði fyrir evrópska fulltrúa Porvoo-kirknasambandsins. Svo hélt hann fyrirlestur við minnisvarða Jóns Arasonar daginn eftir. Frábær gestgjafi.