Vatnsskortur í Íran

Uppþot eru í Íran þessa dagana, mótmæli. Stjórnvöld hafa drepið mörg hundruð manns. Reiðin kraumar vegna alls konar kreppuvalda, verðbólgu, atvinnuleysis, harkalegs dómskerfis og gamaldags trúarreglna. Ein af mörgum ástæðum mótmæla er vatnskreppa í landinu. 

Vatnsskorturinn er meiri nú en verið hefur í marga áratugi. Í venjulegu árferði falla um 350 mm af vatni á ári á Teheransvæðinu en á liðnu ári féll 1 mm allt árið. Ástæður vatnsskorts eru langvarandi þurrkar, hitabylgjur og óhófleg notkun grunnvatns. Ráðum vísindamanna hefur ekki verið hlýtt og vatnstjórn hefur verið slæm. Í Teheran hefur vatnsþrýstingur verið lækkaður á kvöldin til að minnka vatnsnoktun og í sumum hverfum hefur verið langvarandi vatnsleysi. Nokkur miðlunarlón borgarinnar eru tóm og önnur við hættumörk. Forsetinn hefur varað við skömmtun og jafnvel hótað rýmingu borgarinnar. Aðrar borgir í Íran eru þó ekki færar um að taka á móti milljónum vatnsflóttamanna.

Vatn er lífsnauðsyn. Landbúnaður þarf mikið vatn. Raforka í Íran kemur að mestu frá vatnsaflsstöðvum. Vatnsskorturinn hefur magnað verðbólgu og atvinnuleysi hefur aukist sem og orkuskortur. Vantraust gagnvart stjórnvöldum hefur aukist og vatnskreppan er orðin hápólitísk. Vtnsskortur bætist ofan á rafmagnsskort, gastruflanir og efnahagsþrengingar.

Sumarið 2021 brutust út mótmæli í suðvesturhluta landsins vegna vatnsskorts og þurrka. Slík mótmæli eru oftast staðbundin í upphafi en hafa síðan leitt til víðtækari mótspyrnu þegar ríkið hefur svarað seint og af hörku.

Nú er vatnsskortur í Íran orðin birtingarmynd stjórnarvanda. Í vatnsleysinu hefur bál mótmæla kviknað og logar glatt. Brátt munu logarnir teygja sig í skikkjur klerkastjórnarinnar.

Myndina tók ég í hellirigningu í Róm í kyrruviku 2025. 

Þorskhnakkar í skinku

Þorskhnakkar eru hentugir í þennan spænska fiskrétt – og vafðir í góða Parmaskinku. Rétturinn er fljóteldaður – 45 mínútur – og öllum þykir þetta góður matur.

Fyrir 4

2 pakkar kirsuberja- eða kokteiltómatar

2 rauðlaukar

5 hvítlauksgeirar

1 lúka grænar ólífur

700-800 gr þorskhnakkar skornir í 4 bita

1 tsk fiskikrydd eða ½ tsk chilikrydd

4 hráskinkusneiðar

steinselja – eða dill

ólífuolía

salt og pipar

Hitið ofninn í 200°C.

Skerið rauðlauk og hvítlauk þunnt, tómata og ólífur í tvennt. Setjið í eldfast mót, 4 msk. af ólífuolíu, salt og pipar og blandið öllu vel saman. Bakað í ofni í 15-20 mínútur.

Kryddið fiskinn með pipar og smá chili (ef þið viljið bit) og pakkið síðan parmaskinku utan um hverja fisksneið og setjið þorskinn ofan á tómatana og aftur í ofninn í aðrar 15 mínútur – eða þar til þorskurinn er eldaður í gegn og parmaskinkan orðin aðeins stökk.

Stráið saxaðri steinselju eða dilli yfir fiskinn.

Berið fram salat með og gott súrdeigsbrauð til að skófla, þ.e. þurrka, upp dásamlegan vökvan (þetta sem Ítalir kalla scarpeda). Þau sem vilja geta soðið bygg eða hrísgrjón og haft sem meðlæti. 

Parmaskinkan gefur yfirleitt nægilegt saltbragð við bökunina.

Ég fékk uppskriftina úr mbl en breytti að eigin smekk. Uppskriftin er frá Mörtu Rún Ársælsdóttur sem greinilega er matgæðingur. 

Skinkuvafinn fiskur er þekktur og virtur kostur við Miðjarðarhafið. Og heitin eru alls konar og hér eru þrjár útgáfur: 

Ítalska Pesce avvolto nel prosciutto
Franska Poisson enrobé / en robe de jambon
Spænska Pescado envuelto en jamón

Dad gracias al Señor, porque él es bueno; porque para siempre es su misericordia. Amén.

Skálkasaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur

Foreldrar mínir keyptu bækur og lásu. Svo fóru þær upp í einhvern bókaskápinn og biðu næsta lesanda. Kilirnir kitluðu, brostu við manni og báðu um samtal. Mamma vildi að allar bækur væru teknar fram einu sinni á ári, ryksugaðar og hyllurnar hreinsaðar. Ég var stundum settur í það verk. Vorhreingerning bókasafnsins var stefnumót sem oft leiddi til nánari kynna. Enska öldin Björns Þorsteinssonar var ein af þessum bókum sem ég handlék, velti vöngum yfir og kíkti í. Ég áttaði mig á að sú enska væri fimmtánda öldin, áður en sú þýska hófst með ferðum Þjóðverja, m.a. fram hjá Lönguskerjunum og inn til Hafnarfjarðar, með andófi gegn páfanum og umróti í trúmálum og pólitík sem leiddi til siðbótar.

En enska öldin var mér eiginlega hulduöld þrátt fyrir bókaþrif, skoðun og kirkjusögulestur síðar. Svo kom út bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Hamingja þessa heims árið 2022 með skýringunni „riddarasaga.“ Ég kynntist Eyjólfi Úlfssyni, fjölþreifandi, flöskukærum sagnfræðingi í háskólanum sem var slaufað og rekinn í útlegð vestur á Skarðsströnd. Þar uppgötvaði hann spennandi handrit og mannlíf með rætur í hefðum aldanna. Heimur Ólafar ríku og Skarðverja opnaðist. Dásamleg frásaga frá leyniöldinni hinum megin siðbótar. Sigríður Hagalín lyfti álagaham þekkingarskorts míns, svipti tjaldi frá veröld sem var spriklandi af lifandi fólki, miklum viðburðum og ríkulegum samskiptum við útlönd. Nærri 1% af verslun Englendinga á þessari öld voru við Ísland og líklega 10% af viðskiptunum í Hull. Skipin sem sigldu til Íslands á sumrin fóru suður um höf á haustin, suður til Madeira og jafnvel til Faro. Með þeim voru Íslendingar – já lengi hefur verið útþrá í okkar fólki.

Svo kom framhald hamingjubókar Sigríðar í haust: Vegur allrar veraldar og skýringin er að hún sé skálkarit! Yfirstéttin var vegin og léttvæg fundin. Ekki er seinni bókin síðri hinni fyrri. Sannkallaður yndislestur og við kynnumst Ólöfu ríku betur – raunar vel, þeim íhugandi fræðaþul Sveini döggskó, Sunnevu saumakonu víðförlu, klaustrafólkinu, Skálholtslífinu, stórbokkunum í Vatnsfirði og á Skarði, ferðaháttum, viðmiðum, gildum, trúbadorum, trúarvíddum, valdabaráttu, köstulum og yfirstéttarlífi í Orkneyjum, Edinborg og Kaupmannahöfn, kóngum og bændum og já, dramatík stjórnmálanna. Eins og Trump vill Grænland í samtíð okkar vildu kóngarnir og höfðingjar sögunnar eiga auðlindir og pláss ef gróða væri von. Alþýðan leið fyrir.

Eyjólfur Úlfsson heldur áfram að puða í fræðunum þrátt fyrir að vera á skjön við sjálfan sig, son sinn, akademíuna, frænku, fjölskyldu, siði og reglur. Lukkuriddari fræða en lukkugrannur í lífinu. Sigríður fléttar sjálfa sig skemmtilega inn í leit nútímafólks að merkingu í fortíðinni. Hvenær er sagnfræði sannfræði og hvenær list góðra og leiftrandi sagna? Metasagnfræðin kryddar fléttu og furður. Á góð saga að líða fyrir sannleika og þá hvaða? Hvað er aðal og hvað auka? Hverjir eru höfðingjarnir og hverjir ekki? Var Sunneva hin nálhaga ríkari en Ólöf og ljóðandi döggskórinn meiri yfirvaldinu?

Ég er í klappliði Sigríðar Hagalín Björnsdóttur og tel Eyland og Eldana með bestu bókum. Deus hennar er að vísu vond bók en þessar tvær um ensku öldina eru yndislestur, dásamlegar sögur. Sigríður var vel nestuð til skrifanna, búinn að lesa fræðaefnið (gaukaði jafnvel að okkur doktorsritgerð um fölsun Gamla sáttmála) og hafði því gott yfirlit og þekkingu á átakasögu fimmtándu aldar.

Þessar bækur hennar eru ekki sagnfræði – ekki frekar en bækur Dan Brown, Umbert Eco eða svipaðra. Það á ekki að trúa þeim heldur njóta. Það má vissulega nöldra yfir löngum bréfum Eyjólfs eða málfari einstakra persóna sem ekki passar eða rímar við öldina – en það hrelldi mig ekki eða truflaði. Þessar bækur eru upplýstar og sviðsettar sögur í þykkri menningu og ramma sextándu aldar. Þær eru listilega vel stílaðar fyrir lesendur í nútíma, textinn kraftmikill , húmorinn kúnstugur og hugmyndaauðgin næsta ótrúleg. Bækurnar brosa við manni, kitla, upplýsa, draga og seiða inn í tíma sem áður var grár og óljós. Nú hefur Sigríði tekist að gefa þessum tíma lit, drama og stórar persónur. Ég fer um Skarðströnd, horfi heim í Vatnsfjörð og skoða Breiðafjörð með allt öðrum hætti en áður. Ég skil betur Skálholtssögu, hugsa um Madeirasiglingar Íslandsfaranna, marglaga sögu enskrar aldar og þar með talið kirkjusögu.

Ég segi takk fyrir mig, Sigríður, og bravó. Kveðja góð.

Hönnun kápu Eva Majegren, Benedikt bókaútgáfa.

Á birtingarhátíð Drottins, 2026.

 

Kvöldsónatan – nánd og tónlist

Kvöldsónata Ólafs Jóhanns Ólafssonar er ekki saga píanósnillings heldur um drenginn Stefán sem leitar nándar í samskiptum. Hann finnur hana ekki í tengslum við fólk heldur í tónlist. Leit sögupersónunnar að tilfinningalegri dýpt er grunntaktur Kvöldsónötunnar. Fjarlægð og nánd er ekki aðeins spennupar heldur mótar uppistöðu verksins, flækju bókarinnar. Og það sem virðist augljóst er aðeins yfirborð. Undir niðri er margt sem leynist en er opnað smám saman í framvindunni. Flétta Ólafs Jóhanns gengur upp eins og flott sónata – eða kannski fremur fúga. List höfundarins kemur fram í fjölda smáatriða sem virðist vera skraut en eru hnyttilegar vísbendingar. Dæmi – rafmagnsrofi í Fjólgötuíbúðinni, mynd í Suðurgötuhúsinu, nöfn persónanna ofl.

Uppvöxtur Stefáns í miðbæ Reykjavíkur einkenndist af fjarlægð. Hann var ekki náinn foreldrum sínum, þótt þau tryggðu honum öryggi og ramma. Hann var ekki náinn frænda sínum eða fjölskyldunni sem hann óx upp í, þrátt fyrir mannmergð og kynslóðir á hæðum í fjölskylduhúsi. Hann var hluti af samfélagi en þó ekki í kviku þess. Þessi fjarlægð kom ekki fram í átökum eða ofbeldi, hún var hljóðlát, ósýnileg, djúp.

Stefán var góður liðsfélagi í fótboltanum á Landakotstúninu. En hann vildi frekar spil og sigur en að skora mörkin sjálfur. Hann hafði hæfileika, gáfur og var klókur. Hann vann félagssigra og gat stýrt því sem hann vildi. En leiðtogahlutverk veitir vald en ekki nánd sem hann þráði.  

Stefán sá þegar karlarnir í hverfinu roguðust með flygil í húsið hinum megin götunnar. Svo komu hjón frá útlöndum, Esther og Felix Daudistel. Stefán heillaðist af píanóleik konunnar. Hún opnaði honum heim tilfinningadýpta. Hann skynjaði lífið í tónlistinni, blæbrigðin, mynstrin, tjáningu og djúptengsl. Og Stefán fékk að læra að spila, sótti tíma hjá Esther, sem ekki aðeins kenndi honum tónfræði og fingrasetningu heldur þýsk orð. Stefán kenndi henni íslensku og þau byrjuðu að kynnast. Tónlistin færði þau saman og hann hreifst af þessari konu. Stefán fór á kaf í tónlistina og varð meistari, fékk skjótan frama en sambandið við kennarann flækist og klúðrast illa. Það var ólán.

Tónlistin tengir Stefán við heim tilfinninganna, en hún kom líka í stað þess að hann þróaði nánd í mannlegum samskiptum. Hvort er listin mikilvægari eða fólk? Stefán lærði að miðla tilfinningum en ekki að deila þeim. Dýptin sem hann náði í listinni varð sigur hans í hinu ytra en ósigur hans í nánum tensglum. Og skýringin verður ekki opinberuð hér en Ólafur Jóhann kann að flétta!

Listræn sköpun getur orðið athvarf þeirra sem njóta ekki nándar. En hvorki tónlist né nokur listsköpun leysir fjötra skortsins. Snillingarnir geta verið skínandi fátækir hið innra, skertir og vannærðir.

Tónlist lifir ekki án þagna. Þögn er oft mikilvægsti tiflinningasnagi tónleika. Dýptin í Kvöldsónötunni liggur ekki í dramatískum atburðum heldur í spennu þagnanna, í því sem ekki er sagt eða tjáð. Hvað er milli þess sem er tjáð í tónlist og þess sem er ólifað í lífinu? Kvöldsónatan er ekki aðeins saga um list, heldur um mannlega þrá eftir nánd.

Enn ein stórbókin frá Ólafi Jóhanni. Saga um tilfinningar en skrifuð eins og krimmi. 

Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu og það góða forlag Bjartur-Veröld gaf út. Meðfylgjandi mynd er af bókarkápunni.

Kúmenkjúklingur með trönuberjafyllingu

Þetta er einn af þeim kjúklingaréttum sem mitt fólk minnir á og óskar eftir. Kúmen er aðalkryddið og svo eru trönuber í fyllingunni. Matseldin er einföld og ilmur fyllir húsið. Ljómani matur fyrir helgar sem hátíðir. Ég hef eldað þennan rétt fyrir eina af jólamáltíðum  og líka sem aðalrétt nýársdags.

Fyrir 4

Hráefni

  • 80 gr smjör
  • 5 tsk kúmenfræ, ristuð og létt mulin
  • 7 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk mjúkur dökkur púðursykur
  • 1 heill stór kjúklingur
  • 3–4 stórir sellerístilkar, skornir í 1 cm teninga
  • 1 laukur, skorinn í 1 cm teninga
  • 100 g þurrkuð trönuber
  • 100 g forsoðnar kastaníur, grófsaxaðar (má sleppa)
  • 4–5 sneiðar súrdeigsbrauð úr rúgi og hveiti, skorpan fjarlægð, létt ristað og rifið í ca 2 cm bita
  • 15 g steinselja, grófsöxuð
  • 120 ml kjúklingasoð
  • Salt og nýmalaður pipar

Matseld

Marinering fyrir kjúklinginn

Bræðið 40 gr af smjörinu og hrærið saman við 1 msk af kúmenfræjum, 2 hvítlauksrif, púðursykurinn og ½ tsk salt. Setjið kjúklinginn í stórt fat, nuddið marineringunni vel yfir allan fuglinn og leggið til hliðar. Hitið ofn í 190°C (blástur).

Fyllingin

Setjið afganginn af smjörinu (40 g) á stóra pönnu við meðalháan hita. Bætið faganginum af kúmenfræjunum út í og steikið í 1–2 mínútur þar til þau ilma vel. Setjið síðan afganginn af hvítlauknum, sellerí, lauk, trönuber, kastaníur og 1 tsk salt á pönnuna. Steikið í 12–13 mínútur, hrærið reglulega í þar til grænmetið er orðið mjúkt. Setjið blönduna í skál og bætið við brauðinu, steinseljunni og kjúklingasoðinu og hrærið saman við.

Fylla og undirbúa kjúklinginn

Setjið kjúklinginn í lítið ofnfast fat. Kryddið ríkulega með salti og pipar. Fyllið holið með fyllingunni. Ef eitthvað eftir af fyllingunni má setja það í ofnfast fat og hita síðustu 30 mínúturnar á meðan kjúklingurinn er að fullsteikjast.

Steiking

Steikið kjúklinginn í 70–75 mínútur. Ausið yfir hann á 20 mínútna fresti þar til skinnið er gullið og stökkt og safinn sem rennur úr kjúklingnum er tær.

Hvíld

Takið kjúklinginn úr ofninum og látið hann hvíla í 10 mínútur áður en hann er skorinn og borinn fram.

Ljómandi að bera fram með góðum hrísgrjónum eða kúskús og uppáhalds sósunni. 

Uppskriftin er upprunalega frá Ottolenghi sem þakkar vini sínum fyrir að miðla henni.

Bæn. Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.