Listgjörningurinn Guð

Og Guð sá að það var gott. 1Mós 1.10.

Er þessi setning í fyrsta kafla Biblíunnar fyrsti ritdómur veraldar um listaverk? Guð Biblíunnar er ekki fjarlægt frumafl veraldar heldur ástríðufullur listfrömuður sem skapar, sér form, liti, ljós, fegurð.

Guð talar heiminn fram eins og ljóð, mótar eins og skúlptúristi, skipuleggur sem hönnuður. Í sögunni birtist Guð dramatúrg og gjörningameistari. Sviðmyndajöfurinn umbreytir hversdagslegum hlutum í merkingu. Brauð verður líkami, vatn verður vín.

Guð vinnur ekki aðeins með orð, heldur með líkama, rými, tíma og átök. Í Jesú varð Guð að listaverki. Orðið varð hold, merking varð ásjóna, fegurð varð opið sár og frumóp á krossi. Krossinn er ekki bara aftökugræja heldur listrænn gjörningur sem snýr merkingu heimsins á hvolf. Skömm víkur fyrir dásemd. Ósigur verður sigur, dauði verður líf. 

Guð býr ekki til og hverfur svo til annarra verka. Guð tekur brotið, skakkt og spillt efni manna og náttúru og mótar úr því nýja sköpun, nýtt listaverk. Heimurinn er verk í vinnslu, óklárað listaverk sem Guð heldur áfram að skapa í samstarfi við dýptir veraldar og menn líka. 

Guð sá að það var gott!

Myndina tók ég við Vestamannaeyjar. 

Ljúffeng Teryiaki kjúklingaskál

3-4 kjúklingabringur (eða 1 kalkúnabringa)
200 ml Garlic Teryiaki hvítlauks sósa frá Stonewell
1 poki spínat

½ box blandað salat
1 1/2 bolli bulgur
1 grænmetisteningur
1 box kirsuberjatómatar
1/2 gúrka
1/2 rauðlaukur
2 avacado
1 sæt paprika
1/2 krukka fetaostur 
100 gr ristaðar pekanhnetur
Ferskt kóríander eftir smekk

Skerið kjötið í ca. 1 cm bita. Setjið olíu á pönnu og steikið bitana. Kryddið, saltið og piprið að vild. Því næst er teryiaki-sósunni hellt yfir kjúklinginn á pönnunni. Leyfið bitunum að malla í sósunni um stund.

Grænmetið er saxað. Skerið laukinn þunnt. Ljómandi að helminga kirsuberjatómatana og marinera í góðri ólífuolíu og flögusalti. 

Bulgur soðið samkvæmt leiðbeiningunum (oftast 1 á móti 2 vatns). Setjið kjúklingatening í suðuvatnið til að styrkja bragð.

Komið öllu spínatinu og salatinu fyrir á fati og dreifið bulgur jafnt yfir. Að lokum er kjúklingabitunum, pekanhnetum, rauðlauk, kóríander og fetaosti dreift yfir.

Bæn: 

Þar sem Drottinn ber á borð
blessun streymir niður.
Þar sem hljómar himneskt orð
helgur ríkir friður.
Fyrir allt sem mettar mann
miklum ríka gjafarann.
Lof og dýrð sé Drottni.

Keltnesk bæn

Guð, hjálpa mér að koma reglu á líf mitt,

með einfaldleika að leiðarljósi.

Guð, kenn mér að hlusta á rödd þína hið innra.

Kenn mér að fagna breytingum í stað þess að óttast.

Guð, ég játa innri ókyrrð mína,

ég fel þér óánægju mína,

ég játa eirðarleysi mitt,

ég fel þér efasemdir mínar,

ég játa örvæntingu mína,

ég fel þér alla þrá sem í mér býr.

Guð, hjálpa mér að vaxa að visku,

að hlusta á þig og þora að fylgja þér,

jafnvel í gegnum þrúgandi myrkur og opnar dyr.

Þessi kelneska bæn kom til mín í tiltekt í tölvunni. Myndina tók ég nærri Sandskeiði 2025 á leið austur fyrir fjall – himindyr opnuðust og afturelding varð í gegnum dimma skýjabakka. Ég heillast af spilandi leik sólar í skýjum.  

Hernám Grænlands og afleiðingar

Núverandi forseti Bandaríkjanna endurtekur með reglulegu millibili og á hinum óvæntustu augnablikum að hann vilji Grænland. Grænlandsþrá Trumps virðist djúprætt og krónísk. Þessi klifun kemur illa við mig og þyrlar upp spurningum um hvað-ef Bandaríkin hernæmu Grænland og hverjar afleiðingarnar yrðu í pólitíkinni. Bernskuminningar um Gíslagrænlandið vakna með mér í heimspólitískri spennu.

Gísli og Grænland

Gísli Kristjánsson var móðurbróðir minn og mamma var mjög elsk að stóra bróður sínum og talaði við hann flesta daga. Gísli var ritstjóri búnaðarblaðsins Freys og útvarpsmaður á Rúv og hafði áhrif. Hann var hugsjónamaður, brautryðjandi í landbúnaði og líka óþreytandi Grænlandsvinur. Hann beitti sér fyrir tengslum Íslendinga og Grænlendinga, útflutningi íslensks sauðfjár til Grænlands og kynnti Grænlendingum hvaða landbúnaðaraðferðir væru þeim hagnýtar. Hann tengdi fjölda Grænlendinga við bændur hérlendis og margir fengu þekkingu og þjálfun á Íslandi og hagnýttu sér þegar heim var komið. Ég ólst upp við þennan Grænlandsáhuga Gísla, vitund um náttúrugæði og menningu Grænlendinga og sannfæringu um að Grænlendingar ættu sér framtíð og á eigin forsendum. En Gíslastefnunni – virðingar og samstarfsáherslunni – er nú ógnað og mér er ekki skemmt.

Bandaríkin þurfa Grænland

Þvert á hefðir og venjur í samskiptum þjóða og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins klifar Trump á að hann þurfi Grænland. Hugmyndafræðingar herskárrar stefnu hans telja Danmörk pínulítið land, með  efnahagslega og herðanðarlega dverggetu. Miðað við hörkuna á fundi utanríkisráðherra landanna í Washington 14. janúar síðastliðinn skoðar bandaríska stjórnsýslan greinilega alla kosti og möguleika á að fullnægja þrá forsetans og blíðka stefnukarlana. Rússarnir kætast og Kínverjar glotta. En hvað myndi hernám Bandaríkjanna þýða?

Hernám Grænlands og afleiðingar?

Hernám væri brot á fullveldi Danmerkur, árás á fullveldishugmyndina og myndi grafa undan þeirri skipan heimsmála sem Bandaríkin hafa stuðlað að síðustu 80 ár.

Árás á Grænland væri í takt við árás Rússa á Úkraínu og yrði fordæmi sem önnur ríki myndu hiklaust nýta.

Nato myndi leysast upp. Traust hefur minnkað mjög í samskiptum yfir Atlansála en hyrfi með árás og tækist ekki að laga meðan Trump væri við völd. Traust til Trump yrði aðhlátursefni og óhæft til útflutnings.

Evrópskur her yrði byggður upp en án Bandaríkjanna meðan Machiavellískur háttur Maga-hreyfingarinnar stýrir pólitíkinni vestan hafs.

Norðurslóðir myndu vígvægðast. Rússar myndu telja sér nauðsyn að auka hernaðarviðbúnað á öllu heimskautasvæðinu og Kínverjar færu einnig af stað. Norðursvæði jarðarkúlunnar myndi breytast úr samvinnusvæði í vígbúnaðarsvæði.

Skekkja í gildaröðun myndi aukast og tillit til valdalítilla hópa og þarfa þeirra minnka. Hinn sterki vill jafnan ráða og hin veiku myndu því þurfa að auka varnir sínar, viðbragðshætti og kerfi. Rökleg skipan mála myndi veikjast vegna styrksútreikninga. Mjúk mál yrðu skotin í kaf af hinum sterku.

Virðing fyrir Bandaríkjunum sem ábyrgum samvinnuaðila hyrfi. En óttinn við geðþóttafullt herveldi myndi aukast. Afleiðing yrði aukin spenna í heimsmálum, meiri hervæðing og skefjalaus fjáraustur í vopn. Fé til velferðar, menningarmála, mannúðarstarfs myndi minnka. 

Hernaðarlegur og efnahagslegur ávinningur Bandaríkjanna af yfirtöku Grænlands yrði lítill og jafnvel enginn. Bandaríkin geta gert flesta þá samninga sem þeir óska við grænlensk og dönsk stjórnvöld og fengið þá aðstöðu sem þeir þarfnast. En árás og yfirtaka myndi verða sem heimspólitísk hamfaraskriða og líklega valda Bandaríkjunum efnahagsvanda.

Grænlandsþrá Trump virðist ótengd pólitískum og efnahagslegum útreikningum og meira tengd þrá hins sterka að veifa stórum lurk og pissa sem lengst. Danmörk, er að þeirra rökstuðningi, pínulítlítið og geti fátt annað en að fá sér smók. Er ekki hægt að lána mönnum dómgreind vestra?

Norðursvæðið samvinnusvæði

Heimsskautasvæðið á að vera samvinnsusvæði en ekki vígbúnaðarsvæði.  Það á að vera herlaust friðarsvæði með ákveðnum reglum um umferð og náttúruvernd. Ég legg til að það verði ákveðin norðurslóðastefna okkar Íslendinga.

Tugir þúsunda sauðfjár af íslenskum stofni eru Grænlandi og lífinu í veröldinni hentugri en sami fjöldi bandarískra hermanna. Nútímastefnan ætti að vera að styrkja stjórn heimafólks á eigin málum, að auðlindir nýtist þeim og heiminum í samræmi við þeirra ákvörðun. Það má nútímavæða margt á norðurslóð og í sátt við náttúru og nágranna. Hvað hentar best Grænlendingum, Íslendingum, Kanadamönnum, Skandinövum, Finnum, Rússum og bandarískum Alaskabúum? Gíslastefnan er örugglega betri en Trumpþráhyggjan. 

Hvar byrjar bænin?

Meistari spurði nemendur sína: „Hvar byrjar bænin?“

Sá fyrsti svaraði: „Í neyð – því þegar ég er í vanda tala ég við Guð.“

Annar svaraði: „Í gleði – því þegar ég hlæ og fagna, losna ég frá öllum áhyggjum og næ sambandi við Guð.“

Þriðji svaraði: „Í þögninni – því þegar hugur minn kyrrist getur Guð talað við mig.“

Fjórði svaraði: „Í barninu – því þegar ég verð eins og barn aftur og þori að babbla við Guð er allt gott.“

Meistarinn svaraði: „Þið hafið öll svarað vel. En bænin byrjar ekki í okkur mönnunum. Guð byrjar samtalið við okkur. Guð byrjar – ekki við.“