Menntun, viðhorf og stjórnmál í Ameríku

Ég rakst á kort af menntunarstigi fólks í Norður-Ameríku sem opnaði augu mín. Á því sést að menntun er mjög misskipt og svæðabundin í Bandaríkjunum. Möguleiki til menntunar hefur löngum tengst fjárhag. Menntunarskortur eykur einfeldni en menntun veitir yfirsýn og eykur gjarnan getu til greiningar sem er forsenda víðsýni. Kanadabúar hafa notið mun meiri menntunar en Bandaríkjamenn.

Á síðustu áratugum hefur góð menntun eða skert menntun orðið æ gildari þáttur í þróun stjórnmála í Norður-Ameríku. Í Bandaríkjunum er fylgni milli þess hversu margir íbúar hafa lokið háskóla- eða starfsmenntun og hvort íbúar á viðkomandi svæði kjósa frjálslynda fulltrúa eða íhaldssama. Fræðimenn hafa talað gjarnan um “diploma divide”. Ríki og sýslur með hátt hlutfall háskólamenntaðra íbúa kjósa aðallega demókrata. Á svæðum með lægra menntunarhlutfall hallast fólk frekar að repúblikönum. Fólk með háskólapróf hefur oftast frjálslyndari afstöðu til félags- og menningarmála en þau sem hafa minni menntun. Aðalskýringin er peningaleg. Nám er ekki sjálfgefið. Háskólanám er mjög dýrt í Bandaríkjunum og fyrst og fremst opið þeim ríku. Elítugagnrýnin er vein hinna efnaminni.

Í Kanada er menntakerfið fjölbreytilegra en sunnan landamæranna. Fleiri en peningafólkið hafa þar möguleika á góðri menntun. Sérhæfð starfs- og tæknimenntun nýtur einnig meiri virðingar norðan mæranna, háskólanám er almennt aðgengilegra og félagslegt öryggi meira. Stjórnmálaafstaða er ekki í Kanada jafn tengd menntun eða menntunarskorti eins og í Bandaríkjunum. Pólitískur munur milli fylkja í Kanada snýst aðallega um orkumál, tungumál, menningu og samband ríkis og markaðar – og kannski líka nú afstöðu til tollastefnu og yfirgangs núverandi Bandaríkjastjórnar.

Samanburðurinn bendir til þess að munur á menntun hafi pólitískt sundrandi áhrif fyrst og fremst þegar hún er dýr. Kerfisvandi Bandaríkjamanna er dýr menntun og þar með spenna milli þeirra betur settu og hinna menntunarskertu. Þar sem menntakerfi eru djúp og breið og fólk getur menntast þrátt fyrir fátækt dregur úr líkum á að menntun verði stétta- og afstöðustýrandi í stjórnmálum. Sem sé: Það sem getur bætt líðan Bandaríkjamanna, minnkað spennu í Ameríku og öllum heiminum er ódýr gæðamenntun handa öllum íbúum Bandaríkjanna, ekki aðeins þeim ríku.

Þökk sé áherslu á alþýðumenntun á Íslandi og þeirri óumdeildu meginstefnu að allir eigi að njóta sömu möguleika til náms. Gætum þeirrar menningarstefnu að allir eigi að fá að njóta gæðamenntunar.

Og við Kanadabúa vil ég segja: Flytjið út menntunaráherslur ykkar suður fyrir landamærin. Það er enginn tollur á góðum hugmyndum og góðri menningu.

Já, blindur er bóklaus maður. Og „…þjóð mín mun farast því að hún hefur enga þekkingu.“ Hós 4.6. 

„Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð …“

(úr ljóðinu: Til herra Páls Gaimard eftir Jónas Hallgrímsson)

 

 

Heimsljós

Fyrir nokkrum árum tók ég á móti skólabörnum á aðventunni og var beðinn um að fræða þau um messuna og atferli í kirkjunni. Einn daginn signdi ég mig, gerði krossmark og spurði hvað maður segði þegar maður gerði svo krossmerki á sér. Ég bjóst satt að segja við, að eittvert barnanna svaraði að orðin væru: „Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.” Einn drengurinn rétti snarlega upp hendi og vildi fá að svara. Ég benti á hann og hann svaraði kotroskinn: „Maður segir: Ég er ljós heimsins!“ Þetta var óvænt en flott svar!

Svo ræddum við um signinguna og aðra þætti messunnar. Svo var komið að lokum heimsóknarinnar og ég sagði þeim að þegar maður kveddi einhvern sem væri að fara út þá segðum við gjarnan bless. Þannig væri það líka í lokin á öllum messum. Þá lyfti presturinn höndum segði bless við fólkið í kirkjunni. En hvaða orð notaði presturinn þá, hvað segði hann: Aftur lyfti sami strákurinn upp hendina. Og ég átti von á að nú kæmi Guðsbless og benti á hann. Hvað segir presturinn? Aftur svaraði hann kotroskinn og algerlega fullviss: „Presturinn segir: Ég er ljós heimsins.”

Ljós heimsins – heimsljós. Þetta lifði í mér. Drengurinn var viss um að þetta væri aðalatriðið og mætti segja alls staðar. „Ég er ljós heimsins.“ Já, Guð er ljós heimsins, allt sem verðar Guð er ljós heimsins. Það er himinboðskapurinn – skýr og klár. Gildir fyrir okkur öll og í hvaða aðstæðum sem við erum.. Þegar undirstöður eru skeknar og að samfélaginu er kreppt er þarft að staldra við og spyrja um hvað skiptir máli. Hvað verður til hjálpar?

Einn veturinn gekk ég daglega fram hjá Landakotskirkju og vitjaði fárveikrar móður minnar á Landakotsspítala. Við kirkjuna er skúlptúr Steinunnar Þórarinsdóttur. Ég horfði jafnan á styttuna, sem er konumynd, hreifst af fegurð hennar og var djúpt snortinn af þeirri auðmýkt og lotningu, sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá, en þessi einfaldi en agaði minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra miðlaði mér trúartrausti og líka óttaleysi. Ég fór að skoða listarverkið. Glerkross sker ryðgaðan málminn. Fyrst sá ég að krossinn náði frá hjartastað og upp á andlit. Síðar tók ég eftir, að kross var líka á bakinu. Krossarnir minntu mig á signinguna, sem elskandi mömmur og pabbar hafa merkt börn sín með – að framan og aftan. Myndverkið minnti mig á, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst, sama hvað við erum frosin og lemstruð. Einn morguninn þegar áhyggjumyrkið var hvað dimmast gekk ég mót sól og að konumyndinni. Þá varð undur. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp og glerið varð eins og stækkunargler og magnaði ljósljómann. Rústrauð mannsmyndin varð sem yfirjarðnesk vera, sem tók við himinljósinu og endurvarpaði því. Brjóstið opnaðist og miðlaði birtunni áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, sem ég túlkaði í krafti trúar. Verkið heitir Köllun og lífsgaldurinn er að við erum öll kölluð – kölluð til hamingju, til lífs, til hins guðlega veruleika. Enginn gengur að ljósundrinu að vild, þegar fólk er í stuði eða ætlast til að ná sambandi. Konumyndin við Landakot geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Best er að koma með opnum huga og íhygli. Þá verður undur lífsins ljóst í málmi og gleri. Við erum öll kölluð til lífs og hamingju. Á göngu minni skein mér ljós. María, móðir Jesú, leyfði himinljósinu að skína um sig og undrið varð. Góðar mæður og góðir feður hafa speglað þetta ljós sem hefur orðið þeim og fólkinu þeirra til góðs á lífsgöngunni. Og þú ert kallaður eða kölluð til að leyfa undrinu að verða. Á lífsferð þinni skín þér ljós. Leyfðu ljósinu að skína til þín og gegnum þig. Það er köllun til ljóss og lífs. „Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós.“ Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins.“

Jötunsteinn – ádeilusaga

Hvers konar bók er Jötunsteinn Andra Snæs Magnasonar, sagan um Árna arkitekt, sem kastar grjóti að Range Rover-bifreið Bigga? Bókin er fyrst og fremst samfélagspólitísk ádeila. Hún leitast við að afhjúpa kerfi íslensks byggingaiðnaðar á villigötum og hvernig verktakabransinn beygir arkitekta, bygginganefndir og verkalýð til hugsjónalausrar hlýðni. Virðing fyrir íbúum, ljósi, rými, formi og fegurð – draumalúxus námsáranna – verður það sem arkitektar eiga eða neyðast til að vaxa frá í raunheimi fjármagnsins.

Sagan dregur upp mynd af ljótum, strípuðum blokkum sem seljast þó vegna íbúðaskorts. Arðurinn er notaður til að reisa hallir verktaka og kosta lúxuslíf þeirra. 

Í upphafi verksins kastar Árni arkitekt jötunsteini í átt að bíl Bigga, stórbyggjanda. Steinninn svífur, snertir glerið og brýtur sér leið inn. Kastið, höggið, brotið og flugið við nef verktakans er steinboginn sem spannar alla bókina. Í frystum augnablikum ofbeldisins er lífssaga hins leiðitama, tilfinningaríka og draumlynda arkitekts ofin saman við samfélagslega áfallasögu.

Bókin er stutt, strípuð, fljótlesin og letrið er stórt eins og í barnabók. Bókin er hvorki nóvella né smásaga, heldur tilheyrir fremur heimsósómum og dómsdagsbókmenntum. Jötunsteinn er ádrepa, reiðilestur, ádeila. Fléttan er því einföld sem og pólitík bókarinnar. Tvískiptingin og skautun er skýr. Annars vegar eru gróðadrifnir kapítalistar byggingabransans og íbúðaþurfandi alþýða hins vegar. Fagmennska, heilbrigði, fegurð og mannvirðing víkja fyrir fjármagnsöflunum. Elítan græðir og grillar en hinir búa í mannfjandsamlegum, ljótum og skuggalegum húsum.

Bókin er mikilvægt innlegg í samtal um íslenskt borgarrými. Skuggahverfi rísa, mygluhallir líka og ljót hverfi verða til. Ljós og samhengi eru vanvirt. Kumbaldar skera langlínur og skadda heildir og almannagæði. Andri Snær skrifar Jötunstein af augljósri reiði vegna afglapa í byggingabransanum. En ádeilufuninn tekur yfir listrænan metnað og mikla getu höfundar. Bókin er of strípuð eins og blokkirnar gagnrýnisverðu.

Niðurstaða. Jötunsteinn er menningarpólitísk ádeila sem er færð í einfalda harmsögu. Verkið er skoðunarsmárit en síður bókmenntaverk og hefði best hentað sem snarpt innlegg á þingi Samtaka iðnaðarins. Kapp Andra Snæs er skiljanlegt en ber list hans ofurliði. 

Þrjár stjörnur af fimm.

Skuggi Dostójevskís og Vladimir Pútín

Vladimir Pútín dáir Fjodor Dostójevskí og telur að Karamazov-bræðurnir sé ein af mikilvægustu bókum Rússa. Pútín hefur sagt að Dostójevskí sé einn þeirra rithöfunda sem skilji hvað best vald, ábyrgð og andstæðuna milli frelsis og skyldu. En Pútín er nútímaútgáfa rannsóknardómarans í Sevilla.

Rannsóknardómarinn ógurlegi

Ívan Karamazov sagði Aljosha, bróður sínum, sögu um kardínála sem var rannsóknardómari í Sevilla á Spáni. Sagan varð lykilsaga hins mikla sagnabálks um líf og örlög Karamazov-bræðranna. Í sögu Ívans segir frá að Jesús Kristur heimsótti Sevilla á tímum spænska rannsóknarréttarins sem var ofstækisútgáfa kaþólsku á miðöldum. Jesús fór meðal fólks, læknaði sjúka og lífgaði látið barn. Fólkið í borginni taldi sig þekkja Jesú Krist í þessum lækningamanni og lífgjafa en rannsóknardómarinn lét handtaka frelsarann í nafni kirkjunnar.

Klerkur vitjaði Jesú Krists svo í fangelsinu um nótt. Hann hélt langa ákærutölu og ásakaði Jesú fyrir að hafa ofmetið mennina, brugðist rangt við og haldið fram kenningu sem ekki passaði fólki. Jesús hafi ofmetið möguleika manna og ekki skilið að fólk kysi frekar mat en frelsi, að menn þyldu ekki að axla mikla ábyrgð og gætu ekki auðveldlega valið á milli kosta. Þess vegna hefði kirkjan neyðst til að leiðrétta boðskap Jesú Krists og búa til nýjar áherslur. Frelsi hefði verið skipt út og hlýðni komið í þess stað. Kirkjustjórnin hafi leiðrétt stefnu Jesú Krists og því gert mennina hamingjusama. Rannsóknardómarinn fangelsaði Jesú Krist, ákærði hann og dæmdi. Reyndar stóð Jesús upp án þess að verja sig eða mótmæla, kyssti kardínálann og hvarf síðan.

Frelsi eða hlýðni

Í fangelsisræðunni eru bornar saman ólíkar hugmyndir um frelsi og dýpstu þarfir manna. Stefna Jesú er stefna hins róttæka frelsis, virðingar fyrir manngildi og gildum. En stefna dómarans og leiðtoga kirkju einræðisins er táknmynd samfléttaðs valds og trúar, ástar og kúgunar. Rannsóknardómarinn elskar vissulega mannkynið en sú ást bindur og fjötrar. Hann álítur að mannfólkið sé það óþroskað og ósjálfstætt að það þarfnist sterks leiðtoga sem ákveður hvað sé rétt og hollt og hvað ekki. Þessi fulltrúi kirkjunnar afneitaði því Jesú Kristi í nafni mannúðar. Kjarni stefnu dómarans er að frelsi sé mönnum ekki blessun heldur byrði. Í ýmsum rússneskum trúar- og menningarhefðum er líka kennt að vilji fólks nægi ekki í lífsbarátunni heldur aðeins undirgefni við vilja Guðs. Merking og sátt fólks fæðist í hlýðni og skýrist í þjáningu. Hlýðni og þjáning er gjarnan réttlætt í ofstjórnarkerfum.

Rússahlýðnin og ríkið

Það er ekki tilviljun að Pútín talar um ríkið sem foreldri þjóðarinnar. Hann telur að Rússar þarfnist stjórnar sem getur varið þá gegn óreiðu frelsisins. Hann lýsir Vesturlöndum sem spilltum vegna einstaklingshyggju og siðferðisupplausnar en kennir að Rússland varðveiti siðferðisstyrk og öryggi. Lífsafstaða og heimsmynd Pútíns er sú sama og rannsóknardómarans, að frelsi leiði til sundrungar en hlýðni til öryggis og sáttar.

Pútín telur að Rússland hafi misst trúna þegar Sovétríkin féllu. Hlutverk hans sé að gefa fólki traust, þó ekki í frelsi, heldur með trú, þjóðernisvitund og öflugri landsstjórn. Afstaða Pútíns er að Rússar, rétt eins og íbúar Sevilla samkvæmt kenningu rannsóknardómarans, sækist eftir því sem sameinar. Hlutverk leiðtoga sé að veita öryggi. Og stjórinn verður jafnframt táknmynd þess hóps sem hann stjórnar og veitir nánast guðlegt öryggi.

Ást sem lemur

Það sem gerir rannsóknardómarann í Sevilla skv. sögu Dostójevskís svo ógnvænlegan var ekki grimmd hans, heldur fremur ást hans. Hann réttlætti kúgun með góðmennsku. Hann svifti fólk frelsi til að frelsa það frá sjálfu sér. Þá djúpu siðferðislegu þversögn í riti Dostójevskís hefur Pútín gert að meginstefnu rússneskrar stjórnsýslu. Hann talar ekki eins og harðstjóri sem óttast fólk, heldur eins og verndari sem elskar það. Hann réttlætir árás á frelsi fjölmiðla sem varnarráðstöfun gegn siðspillingu Vesturlanda. Hann segir að Rússar þurfi að vera sameinaðir gegn ógn utanaðkomandi hugmyndafræði og gegn öllu vafasömu sem veikir þjóðina. Í nafni kærleika og trúar byggir hann kerfi sem útilokar efa og umbunar hlýðni. Það var líka aðferð rannsóknardómarans. Pólitísk stefna og siðfræði Pútíns er lík aðferð hrottans í heimilisofbeldi, að alvöru húsbóndi lemji fólkið sitt vegna ástar og umhyggju. Pútín er líkur rannsóknardómaranum í því að hann skammast sín ekki fyrir dóma og dráp. Báðir eru vissir í sinni sök – forhertir.

Kirkja sem ambátt

Í ræðu rannsóknardómarans er kirkja valdastofnun sem skilgreinir og stjórnar fólki og notar trú til að réttlæta og styrkja vald sitt. Sevillakirkjan hafði tekið yfir stjórn hins veraldlega samfélags. Í Rússlandi Pútíns hefur samruni líka orðið en með því móti að ríkið hefur innlimað kirkjuna í valdakerfi sitt. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan er notuð sem menningarleg og andleg réttlæting ríkisvaldsins. Rússakirkjan blessar stríð, réttlætir fórnir og kallar andstöðu við Pútínstefnuna guðleysi. Pútín ver kirkjuna gegn gagnrýnendum, fangelsar þá og jafnvel líflætur. Rússneska ríkið hefur gert kirkjuna að ambátt sinni. Kirkjan gengur erinda pólitískrar stefnu. Ríki og kirkja eru eining, eitt kerfi. Þjóðin er líkami en leiðtoginn höfuð hennar. Pútín talar um Rússland sem heilagt land, siðferðilegt vald sem ver heiminn fyrir spilltri menningu. Pútínstefna minnir á Sevilla-einræði dómarans, að kirkjan hafi tekið að sér að gera mannkynið hamingjusamt með því að stjórna því Jesús Kristur hafi verið of veikur til að halda því saman.

Hinn eitraði kokteill

Dostójevskí sá og túlkaði hættuna á ofríki þegar hann skrifaði bókina um Karamazov-bræðurna. Þegar fólk er svift hinu djúpa og róttæka frelsi trúar verður til skert en hættulegt valdakerfi. Einræðisherrar telja sig hafa rétt fyrir sér, þeir elski fólk svo mikið að þeir megi og eigi að skilgreina í hverju velferð þess er fólgin. Fólk geti ekki valið rétt og orðið hamingjusamt nema kerfið sé í stíl við trú og stefnu leiðtogans.

Í djúpi sögu Dostójevskís er viðvörun um að kirkja sem óttast frelsi manna breytist í dómstól sem hlýðir valdi og er gríma guðleysis. Slíkir dómstólar fara á svig við manngildi og mannhelgi. Í hugmyndafræði Pútíns er trú ekki persónuleg reynsla og ræktuð í frelsi. Trú er skyldurækni og hlýðni við þjóð og leiðtoga. Þegar trú verður að þjónkun við siðareglu ríkisins verður hún að tæki stjórnunar. Trú sameinuð pólitík er eitraður kokteill.

Víti til varnaðar

Jesús sagði ekkert, kyssti dómarann og fór. En kirkjuhöfðinginn sagði Jesú að fara og koma aldrei aftur. Senan er spegill allra valdhafa sem segjast virða hið trúarlega, jafnvel elska Guð, en bæta við: „Ekki trufla okkur.“ Pútín og rannsóknardómarinn kjósa ríki og samfélag þar sem friður og eining ríkja jafnvel þótt það sé á kostnað sannleikans og blóði drifið. Frelsið er dýrt.

Það er átakanlegt að Dostójevskí sem vildi bjarga Rússlandi frá andlausri nútímahyggju skuli hafa orðið innblástur fyrir vald sem réttlætir sterka forsjárhyggju og harðræði. En Dostójevskí var skarpur. Hann sá og skildi að mannfólkið er bæði trúarverur og samfélagsverur. Hann áttaði sig að ást á villigötum getur umbreyst í ofríki ef hún virðir ekki frelsi fólks og margbreytileika. Rannsóknardómarinn er ekki aðeins persóna í bókmenntum heldur víti til varnaðar. Í pólitík Pútíns er draugagangur. Pútín dáir kannski Dostójevskí og bók hans um Karamazov-bræðurna en Pútín er orðinn böðull í flokki rannsóknardómarans í Sevilla. Pútín er maðurinn sem elskar þjóðina of mikið til að treysta henni. Í því er fall hans fólgið. Jesús hefur þegar kysst hann.

Birtist sem skoðunargrein í Vísi 3. desember 2025

Er fólk rusl?

Manneskjan er mesta undrið. Það er áhersla vestræns húmanisma að virða fólk. Kristnir menn fylgja dæmi  og visku Jesú Krists sem mat fólk mikils, virti manngildi og sá undur í öllum mannverum.

Í frétt mbl og í helstu fréttaveitum heims 2. desember var miðlað að Donald Trump hefði sagt að Sómalir væru „rusl“, gæfu ekkert til Bandaríkjanna og ættu að hunskast aftur til síns heima. En orðavalið er ekki raus pirraðs öldungs heldur í samræmi við mynstur og meðvitað val. Trump hefur árum saman kallað pólitíska andstæðinga „losers“, blaðamenn „svín“, konur „ljótar“ og innflytjendur „sýkta“, „hættulega“ eða „óhreina“. Trump lætur sér ekki nægja að gagnrýna skoðanir eða greina rök heldur ræðast beint á persónurnar, niðurlægir, gerir lítið úr og smyr svo hroðanum á hóp eða þjóð.

Þessi tegund árásar þjónar tilgangi. Hún skiptir fólki í „við“ og „þið“. „Við“ erum hin sönnu,  raunverulegu fórnarlömb illsku hinna. „Þið“ eða „þeir“ eru óvinirnir, sníkjudýr, ógn, byrði, rusl. Þetta er sandkassapólitík óvita. Veruleikinn er einfaldaður, skrumskældur og líka hættulegur.

Þegar Trump kallar einhvern rusl, ljótan eða hættulegan hefur það afleiðingar. Málnotkunin réttlætir fyrirlitningu, eykur spennu, býr til gjár í samfélagi fólks og jafnvel kallar á samfélagslega grimmd og ofbeldi. Þegar fólk er afmennskað er auðveldara að réttlæta hræðilegar aðgerðir gegn því, senda úr landi og skjóta það á bátum úti á hafi.

Í lýðræðissamfélagi er skýrmælt og harðorð gagnrýni eðlileg og nauðsynleg. Í heilbrigðu samfélagi er tekist á um stefnumál, færð rök með og móti og svo markar lýðræðilega kjörinn meirihluti stefnuna. Lýðræði gerir ráð fyrir að allir geti lagt til mál og hið mikilvæga sé mótað í virkni og átökum.

En þegar leiðtogi gerir mannfyrirlitningu að stjórnmálastefnu og kallar fólk er rusl, svín eða skepnur hefur orðið pólitískt hrun. Orð skipta máli og móta. Þegar fólk er ekki lengur virt, hvorki manngildi þess né mannleg reisn er pólitískt gjaldþrot opinberað. Mannhatur Donalds Trump er ljóst. Forréttindablindir henta illa til leiðtogastarfa. Fólk er aldrei rusl – ekki heldur þeir sem hata aðra.