Hver mun stjórna heiminum eftir hundrað ár?

Þróun heimsmála á árinu 2025 hefur verið flókin. En hver verður þróun stjórnmála, tækni og bandalaga þjóða næstu áratugina? Hver mun stjórna eftir eina öld? Fæst okkar sjá framvinduna fyrir því við þekkjum ekki tækninýjungar framtíðar, mengun, orkumál og stríð. En þó er hægt að fullyrða að flétta ríkja, viðskiptabandalaga og hernaðarbandalaga mun breytast mikið og jafnvel verða úrelt í þeirri mynd sem við þekkjum frá tuttugustu öldinni. Tækniþróunin er stærsta breytan. Þjóðríki munu veikjast sem og hernaðar- og viðskiptabandalög. En hvað svo? Það verða ekki Kínverjar, Evrópusambandið eða Indverjar sem munu stjórna heiminum eftir hundrað ár. Tæknirisarnir munu stýra heimsbyggðinni – svo fremi sem tæknikappið hafi ekki splundrað heiminum og umhverfisvandi kæft lífríki jarðarinnar.

Frá nýsköpun til valdatöku

Í nokkra áratugi var Silikondalur vettvangur fyrir nýsköpun og tækniþróun. Fyrirtækin í dalnum voru drifkraftur hagvaxtar og bjuggu til verkfæri sem auðvelduðu margt í atvinnulífi og heimilislífi fólks. En hlutverk tæknifyrirtækjanna hefur breyst. Þau eru ekki lengur aðallega birgjar vöru og þjónustu. Þau hafa orðið áhrifavaldar og beinir aðilar að því að móta gerð og virkni samfélaga, hvernig við tölum saman, hvað við vitum og hverju við trúum. Tæknirisarnir eru ekki lengur þjónar stjórnvalda og fyrirtækja heldur beinir aðilar í valdabröltinu. Þeir eru stórveldi sem hafa áhrif á samskipti, viðskipti, öryggi og stjórnmál. Tækni þeirra er notuð á flestum sviðum mannlífs, frá skipulagningu mótmæla til skipulags og stjórnar stríða.

Tækni og þjóðarhagsmunir

Tæknifyrirtæki eru í vaxandi mæli samofin stefnu og aðgerðum ríkisvalds. Þegar Donald Trump varð forseti á seinna kjörtímabilinu fékk lykilfólk í tæknigeiranum aukin áhrif innan stjórnsýslunnar. Bandaríkjastjórn notar tæknifyrirtæki sem verkfæri í utanríkisstefnu sinni og fyrirtækin laga sig að ríkisforsendunum til að tryggja markaðsstöðu sína. Hið sama má sjá í sjórnarháttum stórvelda Asíu. Í valdabaráttu Bandaríkjanna og Kína ráða ekki Sameinuðu þjóðirnar eða NATO mestu heldur fyrirtæki eins og OpenAI, TikTok, Nvidia, Palantir og Huawei. Þessar tæknisamsteypur stjórna þróun gervigreindar, örflöguframleiðslu, gagnasöfnum og stafrænum innviðum.

Tæknilegt valdajafnvægi breytist

Donald Trump aðhyllist þjóðernishyggju og notar tæknifyrirtæki til að veikja fjölþjóðasamstarf. Aðferðir stjórnsýslunnar vestra eru ruddalegar. Ef Evrópusambandið vogar sér að setja reglur sem gætu heft bandarísk stórfyrirtæki er hart brugðist við í Washington, hótað að Bandaríkinn gangi úr Nató eða að evrópskir embættismenn verði sviptir vegabréfaáritunum. Tæknimál og stjórnmál eru samofin.

 Hver verður þróunin? Auðvitað skiptir máli enn hverjir stjóra í Kína, Indlandi, Evrópu og Bandaríkjunum. En væntanlega mun skipta litlu máli eftir hundrað ár hver verður bóndinn í Hvíta húsinu. Völd munu færast frá þingum og ráðhúsum til tæknifyrirtækja í einkaeigu. Þróunarhraði gervigreindar er slíkur að jafnvel heimsveldi halda ekki í við kappið og hraðann. Google, DeepMind og Anthropic setja sínar eigin siðareglur og öryggisviðmið og óháð lýðræðislegu aðhaldi. Kerfiskreppa lýðræðisins er að ríki eru getuskert eða jafnvel ófær um að setja reglur um tækniþróun. Afleiðingin verður að tæknigeirinn fær frjálsar hendur og sem næst algert frelsi í æðisgengnu kapplaupi tæknirisanna.

Þögul völd

„Þekktu sjálfan þig“ var slagorð véfréttarinnar fornu í Delfí. En nú er staðan sú að tæknirisarnir vita meira um okkur en við sjálf. „Við þekkjum þig“ gætu þeir smellt á skjáinn á símunum okkar. Meðan við gruflum og efumst spá matskerfi tæknigeirans fyrir um hegðun okkar og móta hana líka. Við erum smátt og smátt rænd sjálfi okkar og frelsi. Frelsi og val hundruða og þúsunda milljóna færist frá lýðræðisferlum og kjörnum stofnunum til fyrirtækja sem lúta ekki lýðræði eða eftirliti annarra en eigenda. Þegar Meta ákveður hvað telst pólitísk auglýsing eða X fínstillir sýnileika er það ekki bara innanbúðarmál fyrirtækjanna heldur varðar tjáningarfrelsi og leikreglur lýðræðis. Lýðræði er tímafrekt og góðir hlutir gerast hægt í samtali og samvirkni samfélaga. En tæknifyrirtækin eru á allt annarri hraðbraut en talandi fólk og rabbandi hópar á málfundi. Tæknifyrirtækin standa engin skil gagnvart fólki og kjósendum heldur aðeins þeim sem eiga peningana. Svo eru þessi fyrirtæki á kafi í umdeildum afskiptum af átökum, stríðum og hernaði.  

Hverjir stjórna?

Aðgreining ríkja og einkageira verður æ óljósari. Í Kína eru þau hverfandi, í Bandaríkjunum formlega aðskilinn en þó flæðir á milli um alls konar göt. Samskipti þjóða varðar síður samninga og vinsamleg samskipti ríkja heldur fremur aðgang að gagnaverum, tölvutækni, orku og gervigreindarvinnslu. Tæknifyrirtæki móta ramma sem samfélög starfa innnan en stjórnmálamenn bregðast aðallega við þróun í stað þess að stýra henni. Án lýðræðislegs aðhalds mun tækni móta stjórnmálin en ekki öfugt. Kjarnaspurningin er því ekki hvort 21. öldin verði öld tæknirisanna heldur hvort lýðræðisríki nái að endurheimta stjórn áður en völd fólks hafa tapast endanlega. 

Ísland og ný tækni­stefna

Fyrir örríki eins og Ísland er staðan krefjandi en líka áhugaverð. Við erum háð tækni sem er þróuð og stjórnað af einhverjum óþekktum eigendum. Það hefur áhrif á öryggi, efnahag og lýðræðislegt sjálfstæði. Að vilja bara vera tæknilega hlutlaus er ekki lengur raunhæfur kostur. Það jafngildir að hafa engin áhrif á þróunina og vera alger þiggjandi. Íslensk utanríkis- og innanríkisstefna þarf að gera tæknimál að meginmáli; að byggja upp sérþekkingu á gervigreind, netöryggi og stafrænum innviðum alls samfélagsins; að skilja hvernig val á tækni varðar og hefur áhrif á þjóðaröryggi og efla samvinnu við trausta samstarfsaðila. Við verðum að byggja upp og tryggja sjálstætt öryggi orkukerfa okkar og vistun upplýsinga s.s. um heilsu, fjármál og annað sem leynt skal fara. Varnirnar verða að vera raunverulegar og ekki útvistað í góðri trú um að einhver tæknifyrirtæki muni hegða sér þokkalega og verða traustsins verð. Þegar við færum heilbrigðiskerfi, varnakerfi og stjórnsýslu yfir á bandarísk eða kínversk vinnslunet, útvistum við ekki aðeins tækni heldur líka trausti. Í heimi þar sem traust er söluvara er gagnavarsla beint öryggismál. Hugsum til framtíðar og eflum öryggi Íslendinga.

Skoðunargrein, Vísir, 20. nóvember,, 2025.

Ljósmyndirnar á Madeira

Ljósmyndasafnið í Funchal er glæsileg umgjörð og skýr vitnisburður um sögu ljósmyndunar á Madeira. Á 19. öld var eyjan vinsæll sumardvalarstaður auðmanna og þeir komu með ljósmyndagræjur með sér. Strax á fimmta áratug aldarinnar var talsvert myndað og í safninu er ljósmyndasagan nær tveggja alda rakin.

Í glæsilegu húsi safnsins var rekin ljósmyndastofa til 1970 en þá keyptu borgaryfirvöld það til að nýta sem safn. Í því eru varðveittar fjöldi myndavéla og kvikmyndavéla, svið, bakgrunnar, húsgögn stofunnar, myrkraherbergi með stækkurum, jafnvel steyptir skolvaskar og margvísleg framköllunartæki. Í safninu eru auk staðalsýningar tímabundnar sýningar á verkum ljósmyndara sem störfuðu á Madeira.

Við daglega stjórn eru röskar konur sem gaman var að ræða við og ég hef ekki í annan tíma heyrt eins hjartanlega hlátra í nokkru safni. Svo er þarna auðvitað ljómandi kaffihús. Dásamlegt og líflegt safn sem allir Madeiragestir ættu að vitja. Takk fyrir mig.

Vatnaskil Indlands

Öld okkar er öld vaxandi vatnsvanda. Hún er “tuttugasta og þyrsta” öldin. Fyrr á árinu var ég í Róm og skoðaði m.a. hinar stórkostlegu vatnsveitur Rómverja. Í gær og fyrradag gekk ég um fjöllin á Madeira og dáðist að vatnsveitum og hugviti íbúa við að veita vatni að ræktunarsvæðum og til þorpa. Í morgun las ég svo sögur um vaxandi vatnsvanda heims.  

Indland er dæmi um vanda í vexti.  Þar í landi búa um 18% íbúa heimsins, 1400 milljónir manna. Þetta fólk hefur þörf fyrir hreint vatn. En þessi 18% íbúa  hafa aðgang að 4% af vatnsauðlindum veraldar.

Í Delhi, Chennai og Hyderabad er drykkjarvatn skammtað. En fjársterk og kröfuhörð fyritæki á sviði tölvutækni og gervigreindar þurfa mikið vatn til kælingar kerfanna. Gagnaverin í Indlandi þurfa hundruð milljarða lítra af vatni á ári. Þau eru orðin nauðsynleg innviðir fyrir stafræna framtíð og hálaunaatvinnu en ógna vatnsöryggi.

Samkvæmt mati Alþjóðabankans eru vatnsauðlindir Indlands þegar undir miklu álagi. Spár gera ráð fyrir að vatnsnotkun gagnavera muni tvöfaldist á næstu fimm árum, úr 150 í 358 milljarða lítra. Það myndi hafa áhrif á samfélög, landbúnað og ógna heilsu milljóna manna.

Valið er eins og í grískum harmleiknum, kostirnir eru bara vondir. Stjórnvöld velja milli atvinnu eða heilsu, hvort laða eigi að fjárfesta í hátækniiðnaði eða vernda vatnsauðlindina fyrir mannfólkið og lífríkið.

Vatn er orðin aðalkreppa Indlands. 18% mannkyns hefur bara aðgang 4% vatns veraldar og ljóst að ákvörðun stjórnvalda um vatn varðar meira en tækni og hagvöxt.

Er í lagi að fórna heilsu og lífi þúsunda og milljóna fólks til að kosta atvinnu, uppgang og vöxt? Vatn er ekki forréttindamál heldur mannréttindamál.

 

Allt sem við hefðum getað orðið

Sif Sigmarsdóttir er heillandi höfundur. Ný bók hennar, Allt sem við hefðum getað orðið, kom út þegar við fjölskyldan vorum á leið til Madeira. Elín Sigrún stormaði beint í Eymundsson í Fríhöfninni og spurði hvort bókin væri komin. Verslunarstjórinn brosti breitt og sagði að nýkominn bókakassinn væri í geymslunni í kjallaranum. En hún myndi fúslega ná í eintak handa ferðalangnum. Svo las Elín á fluginu til Skotlands, í Edinborg og svo suðurleiðina líka til Madeira. Hún leit varla upp og umlaði reglulega kankvís: „Þú verður að lesa þessa.“ 

Aðalpersónan er Lilja Kristjánsdóttir, blaðamaður á Dagblaðinu í Reykjavík. Lilja fær veður af að hún sé líklegt fórnarlamb niðurskurðar. Hvað verður um hana ef hún missir vinnuna sem hún hafði fórnað svo miklu fyrir? Skilgreina hlutverk fólk? Hvenær tapa menn sjálfi sínu? Lilju er falið að skrifa um nýútkomna dagbók Annie Leifs, fyrstu eiginkonu tónskáldsins Jóns Leifs. Hún fyllist grunsemdum um bókina og að ekki sé allt sem sýnist. Í framhaldinu spretta fram persónur og viðburðir fortíðar sem tengjast saman í viðburðaríkri og magnaðari atburðarás. Fræg skáldkona og verk hennar koma við sögu, dóttir hennar, fjöldi fólks, stofnanir í Reykjavík og menningarsaga síðustu áratuga. Alls konar tabú og leyndarmál eru opnuð. Og Sif snýr og fléttar listilega. Hvað er logið og hvað er sannleikur?

Allt sem við hefðum getað orðið er marglaga. Sif nýtir harmþrungna ástarsögu til að ræða um líf fólks, aðallega kvenna. Saga Annie Leifs er einn af burðarásum sögunnar, í senn bæði ríkuleg frásögn en átakanleg. Hún fórnaði sér fyrir Jón Leifs og Sif teiknar skarpa prófíla þeirra beggja. Annie hefði svo sannarlega getað orðið annað en hún varð. Og Jón Leifs virðist rýrari í kærleikanum en sjálfsálitinu. Fleiri ástarsögur eru sagðar og hvernig aðstæður skapa persónur og ferla. Er Lilja það sem hún vill vera og verða? Hvenær er manneskjan fullnægð og lifir í samræmi við eigindir og ástríðu sína? Er rétt að fórna sér algerlega og skilyrðislaust fyrir aðra og málstað?

Ég dáðist að hugkvæmni Sifjar í fléttugerðinni, hvernig hún batt saman ólíka heima og tengdi við kjallaraíbúð í húsi við Nönnugötu. Persónurnar sem hún leiddi fram voru skýrar. Hildur á Þjóðskjalasafninu er kostuleg sem og skáldkonan, móðir hennar. Sú fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Sif segir magnaða sögu um líf rithöfundarins og hvað er satt og hvað logið. Hver á heimildir og sögur?

Í spennandi sögu Sifjar er farið langt að baki einfaldri og groddalegri feministasögu eða kúgunarsögu kvenna. Bókin þjónar ekki þeim tilgangi að sýna hvað karlar voru eða eru vondir heldur sýna lífsbaráttu kvenna í ólíkum aðstæðum og hvernig samhengi litar og kallar fram. Ofbeldi er ekki kynbundið og karlarnir einir sem kremja. Margar konur eru tuddar og hræðilegar mæður sem lemstra afkomendur. Sif skefur ekki af eða gullhúðar í þeim efnum. Rit Sifjar er djúpsaga um mennskuna, skrifuð af slíkri snilld og íþrótt að erfitt var að slíta sig frá lestrinum. Og hlý mannvirðing litar orð, flæði og fléttu. Við Elín Sigrún mælum með bókinni.

Funchal – 10. nóvember, 2025. 

 

Friðurinn í Monte

Karl I var síðasti keisari Austurríkis og konungur Ungverjalands. Karl var maður friðarins í heimi ófriðar. Þegar heimsstyrjöldin fyrri braust út reyndi hann án árangurs að binda endi á blóðbaðið. Keisaradæmið hrundi og fjölskylda Karls var svipt völdum og eignum. Karl var sendur í útlegð árið 1921 og eiginkona hans, keisaraynjan Zita, fluttu þá til Funchal á Madeira. Þar dvaldi Karl fársjúkur síðustu mánuði lífsins. Hann dó 1. apríl 1922, aðeins 34 ára gamall. Í kirkjunni í Monte í Funchal er grafhýsi hans enn varðveitt.

Það er tilkomumikið að fara með kláfferjunni frá hafnarsvæðinu í Funcahl, liðlega þriggja kílómetra leið upp í hæðirnar í Monte. Þegar út er komið blasir við Frúarkirkjan á fjallinu. Hvít og látlaus kirkja sem brosir í grænni hlíð Funchal. Útsýnið er stórkostlegt þar efra og undarlegt að hugsa um líf fólksins sem hefur búið hér, átt sér drauma, sorgir, gleði  og líf.

Fjallsbyggðin í Monte hófst á 19. öld þegar ríkir Evrópumenn reistu hallir þar efra, yfir 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Montehöllin er eitt þessara húsa sem á sér mikla sögu, var um tíma hótel og komst svo í eigu fólks sem vildi varðveita gróðurvin fyrri eigenda. Rétt neðan við fjallskirkjuna er glæsilegur grasagarður, Monte Palace Tropical Garden. Þar er gróðurparadís með lækjum og fossum, skemmtilegum mósaíkskiltum portúgalskrar sögu, japönskum brúm og áhugaverðum listaverkum. Mér þótti merkilegt að koma í þessa vin fegurðar, sögu og ríkulegs samhengis á allra heilagra messu. Lífið sækir fram. Friðurinn í Monte er nærandi og Madeira er heillandi.