Núverandi forseti Bandaríkjanna endurtekur með reglulegu millibili og á hinum óvæntustu augnablikum að hann vilji Grænland. Grænlandsþrá Trumps virðist djúprætt og krónísk. Þessi klifun kemur illa við mig og þyrlar upp spurningum um hvað-ef Bandaríkin hernæmu Grænland og hverjar afleiðingarnar yrðu í heimspólitíkinni. Kannski er þetta hvað-ef orðið að hvenær. Bernskuminningar um Gíslagrænlandið vakna einnig með mér.
Gísli og Grænland
Gísli Kristjánsson var móðurbróðir minn og mamma var mjög elsk að stóra bróður sínum og talaði við hann flesta daga. Gísli var ritstjóri búnaðarblaðsins Freys og útvarpsmaður á Rúv og hafði áhrif. Hann var hugsjónamaður, brautryðjandi í landbúnaði og líka óþreytandi Grænlandsvinur. Hann beitti sér fyrir tengslum Íslendinga og Grænlendinga, útflutningi íslensks sauðfjár til Grænlands og kynnti Grænlendingum hvaða landbúnaðaraðferðir væru þeim hagnýtar. Hann tengdi fjölda Grænlendinga við bændur hérlendis og margir fengu þekkingu og þjálfun á Íslandi og hagnýttu sér þegar heim var komið. Ég ólst upp við þennan Grænlandsáhuga Gísla, vitund um náttúrugæði og menningu Grænlendinga og sannfæringu um að Grænlendingar ættu sér framtíð og á eigin forsendum. En Gíslastefnunni er nú ógnað og mér er ekki skemmt.
Bandaríkin þurfa Grænland
Þvert á hefðir og venjur í samskiptum þjóða og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins klifar Trump á að hann þurfi Grænland. Hugmyndafræðingar herskárrar stefnu hans telja Danmörk pínulítið land, með efnahagslega og herðanðarlega dverggetu. Miðað við hörkuna á fundi utanríkisráðherra landanna í Washington 14. janúar síðastliðinn skoðar bandaríska stjórnsýslan greinilega alla kosti og möguleika á að fullnægja þrá forsetans og blíðka stefnukarlana. Líkur aukast því á hernámi Bandaríkjanna. Rússarnir kætast og Kínverjar glotta.
Hernám Grænlands og afleiðingar?
Hernám væri brot á fullveldi Danmerkur, árás á fullveldishugmyndina og myndi grafa undan þeirri skipan heimsmála sem Bandaríkin hafa stuðlað að síðustu 80 ár.
Árás á Grænland væri í takt við árás Rússa á Úkraínu og yrði fordæmi sem önnur ríki myndu hiklaust nýta.
Nato myndi leysast upp. Traust hefur minnkað mjög í samskiptum yfir Atlansála en hyrfi með árás og tækist ekki að laga meðan Trump væri við völd. Traust til Trump yrði aðhlátursefni og óhæft til útflutnings.
Evrópskur her yrði byggður upp en án Bandaríkjanna meðan Machiavellískur háttur Maga-hreyfingarinnar stýrir pólitíkinni vestan hafs.
Norðurslóðir myndu vígvægðast. Rússar myndu telja sér nauðsyn að auka hernaðarviðbúnað á öllu heimskautasvæðinu og Kínverjar færu einnig af stað. Norðursvæði jarðarkúlunnar myndi breytast úr samvinnusvæði í vígbúnaðarsvæði.
Skekkja í gildaröðun myndi aukast og tillit til valdalítilla hópa og þarfa þeirra minnka. Hinn sterki vill jafnan ráða og hin veiku myndu því þurfa að auka varnir sínar, viðbragðshætti og kerfi. Rökleg skipan mála myndi veikjast vegna styrksútreikninga. Mjúk mál yrðu skotin í kaf af hinum sterku.
Virðing fyrir Bandaríkjunum sem ábyrgum samvinnuaðila hyrfi. En óttinn við geðþóttafullt herveldi myndi aukast. Afleiðing yrði aukin spenna í heimsmálum, meiri hervæðing og skefjalaus fjáraustur í vopn. Fé til velferðar, menningarmála, mannúðarstarfs myndi minnka.
Hernaðarlegur og efnahagslegur ávinningur Bandaríkjanna af yfirtöku Grænlands yrði lítill og jafnvel enginn. Bandaríkin geta gert flesta þá samninga sem þeir óska við grænlensk og dönsk stjórnvöld og fengið þá aðstöðu sem þeir þarfnast. En árás og yfirtaka myndi verða sem heimspólitísk hamfaraskriða og líklega valda Bandaríkjunum efnahagsvanda.
Grænlandsþrá Trump virðist ótengd pólitískum og efnahagslegum útreikningum og meira tengd þrá hins sterka að veifa stórum lurk og pissa sem lengst. Danmörk, er að þeirra rökstuðningi, pínulítlítið og geti fátt annað en að fá sér smók. Er ekki hægt að lána mönnum dómgreind vestra?
Norðursvæðið samvinnusvæði
Heimsskautasvæðið á að vera samvinnsusvæði en ekki vígbúnaðarsvæði. Það á að vera herlaust friðarsvæði með ákveðnum reglum um umferð og náttúruvernd. Ég legg til að það verði ákveðin norðurslóðastefna okkar Íslendinga.
Tugir þúsunda sauðfjár af íslenskum stofni eru Grænlandi og lífinu í veröldinni hentugri en sami fjöldi bandarískra hermanna. Nútímastefnan ætti að vera að styrkja stjórn heimafólks á eigin málum, að auðlindir nýtist þeim og heiminum í samræmi við þeirra ákvörðun. Það má nútímavæða margt á norðurslóð og í sátt við náttúru og nágranna. Hvað hentar best Grænlendingum, Íslendingum, Kanadamönnum, Skandinövum, Finnum, Rússum og bandarískum Alaskabúum? Gíslastefnan er örugglega betri en Trumpþráhyggjan.