Einurð

Ljóðabók Draumeyjar Aradóttur, Einurð, kom mér mjög á óvart. Kannski ekki gæði bókarinnar, geta skáldsins eða öflugt skáldamál heldur fremur viðfangsefnið. Ég sá á flipanum að höfundur fjallaði um geðhrif, hughrif og kenndir og áhrif á einstklinginnn á fyrsta æviskeiði. Það eru ekki fyrstu árin heldur fósturtíminn í móðurlífi. Og ekki aðeins þeim megin – heldur hinum megin móðurnaflans líka. Gott og vel – hugsaði ég með mér. Já, vissulega áhugavert en samt var ég tortrygginn. En ljóðin gripu strax og vitundin flæddi í matrix lífsins.

„Langminnungar frumur líkama þíns færa mér

uppsafnaða reynslu formæðra okkar og forfeðra

 

langræknar flytjar þær mér áfram niður keðjuna

allar ástir og afrek

alla ósirgra og áföll

 

rista ljóðrúnir á legveggina

sem ég les mig í gegnum næstu vikur og mánuði

en endist ekki ævin til að ráða“ (s. 30)

Uppsöfnuð reynsla kynslóðanna er orðfærð, áhrif samfélags, viðburða og líka áfalla. Hvaða afleiðingar hefur dauðsfall á fóstur og tilfinningaþykkni og samlíf móður og hins nýja lífs. Ljóðin vísa til og tjá þá fléttu en ramma líka vel þagnarmálin.

Einurð er ekki ljóðsaga með póetískum prósatextum heldur nær því að vera marglaga söguljóð um upphaf manneskju og að auki í aðkrepptum aðstæðum. Þetta er þemabók um alvöruþema. Mér þótti stefjavinnan ganga upp. Þemað er unnið með ágætum.

Bókin varð mér persónulega nærgöngul því amma drengjanna minna varð til einhverjum klukkutímum áður en faðir hennar fór í hafið við Vestmannaeyjar. Hverjar eru afleiðingar áfalls, viðbragða og sorgarvinnu móður á hellisbúann nýkviknaða? Fæðingarreynsla er tjáð, inngrip, staða fósturs og síðan framhaldsmótun persónueiginda. Lýsingagnóttin er öflug og grípandi.

Til hamingju Draumey með þessa merkilegu bók. Hún kom inn um bréfalúguna kl. 10 að morgni og upp úr hádegi var ég búinn að lesa. Kona mín sagði vá þegar hún var búin að lesa fyrstu blaðsíðurnar!

Að baki þessari smellu eru upplýsingar um höfundinn. Gott viðtal við Draumeyju á Lifðu núna. Sæmundur gefur út og leggur metnað í útgáfuna sem er þakkarvert. Aðalsteinn Svanur Sigfússon vann bókina til prentunar og hann er landsliðinu í bókahönnun. 

 

 

Hörður Áskelsson heiðraður

Herði Áskelssyni voru veitt heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna 2024. Það er frábært og verðskuldað. Hörður var vorboði í tónlist þjóðkirkjunnar þegar hann kom heim frá námi í Þýskalandi og síðan stormsveipur. Í honum bjó mikill metnaður, geta og einurð sem nýttist ríkulega í uppbyggingarstarfi kóra- og listalífs Hallgrímskirkju. Hann hafði mikil áhrif sem kennari og fyrirmynd í tónlistarlífi þjóðkirkjunnar. Svo var hann frumlegur, sískapandi frumkvöðull. Hann lagði metnað í nýsköpun í sálmagerð og hækkaði viðmiðin almennt í kirkjulífi og tónlist. Ég þakka fyrir mig sem og fyrir hönd íslenskrar kristni. Lof sé Herði Áskelssyni og þökk sé þeim svo stuðluðu að því að heiðursverðlaunin voru veitt svo verðuglega árið 2024. Myndin er af Herði og dótturdóttur hans á 30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju 2016.

Grein mín til heiðurs Herði í 2003-riti Mótettukórsins er að baki þessari smellu.  Myndina hér að ofan tók Saga Sig. 

Matthías Johannessen og fegursta ástarljóð Íslendinga

Óendanlega smátt er sandkornið

á ströndinni.

Óendanlega stór er kærleikur þinn.

Ég er sandkorn á ströndinni,

kærleikur þinn hafið.

Matthías Johannessen var magnaður ferðafélagi. Ljós heimsins leituðu alltaf að honum þar sem hann fór. Hann varð því gjarnan miðja hverrar samkomu. Hann horfði djúpt í augu og brást við af alhygli. Hann svaraði hnyttilega og stundum rosalega. Ég hitti Matthías fyrst í hringiðu Moggans í Aðalstræti og síðan oft á fundum í Reykjavík og út á landi. Við ræddum margt en nánastir urðum við í úrvinnslu dauða Hönnu, konu hans. Við fórum þá saman austur að Fljótinu helga, Soginu. Við sátum við flauminn og töluðum – og þögðum líka. Matthías hafði engan áhuga á að veiða sem var okkur þó heimilt. Stangirnar lágu því á bakkanum en við önduðum að okkur sólskini og flutum inn í lífheim umhverfisins. Þá vildi Matthías tala um Hönnu, svo líka sefandi harmljóð fljótsins og haustið sem allra bíður.

Stórskáldið sat þarna á bakkanum og íhugaði einbeitt æðruleysið í Fljótsljóði Tómasar. Það er kraftmikið en meira og mýkra er sandkornsljóð Matthíasar. Hin þanda spenna líkingar þess hrífur og faðmar. Það er líka helgiljóð sem Matthías gaf út í Sálmum á atómöld. Þegar ljóðað er um ást lyftist sálin. Augu Matthíasar blikuðu þegar ég spurði hvort hann hefði ljóðað í sálminum til Hönnu sinnar eða Guðs. Hann svaraði ekki spurningunni því í þeim málum sá hann enga andstæðu. Þegar hann horfði á, talaði við eða ræddi um Hönnu var sál hans opin. Þegar hann talaði um Guð var eins og hann talaði um Hönnu líka. Hún var honum guðleg ásjóna. Þegar Hanna  sviðnuðu flugfjaðrir Matthíasar og urðu aldrei samar síðan. Missir hans var djúpsár, sorg er ástarskuggi. Eiginlega fór hluti af honum með henni inn í eilífðina. Og þar er bara himinsjór elskunnar. „Ég er sandkorn á ströndinni, kærleikur þinn er hafið.“ Fegursta ástarljóð Íslandssögunnar og sálmur líka. Guð geymi Hönnu og Matthías, blessi minningarnar um þau og styrki ástvini þeirra.  

Kennimyndina af Matthíasi tók ég í kjallara Neskirkju 2007. Hann talaði þá um skáldverk sín og las upp eigin ljóð. Myndina hér að ofan tók ég 22. febrúar 2009 á Torgi Neskirkju. Matthías var hugsi í umræðum um efnahagshrun Íslendinga. Minningarorð um Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen eru að baki þessari smellu

Miðausturlönd 5 *****

Við feðgar fórum á bókamarkað og keyptum fjölda bóka og þær voru alls konar. Ég rakst á bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Miðausturlönd – fortíð, nútíð og framtíð. Ég met höfundinn mikils og hlusta grannt eða les þegar tekin eru viðtöl við hann í fjölmiðlum. Ég vissi af bókinni en hafði hvorki eignast hana né skoðað. Svo var hún þarna í bókaflóði markaðarins undir stúku Laugardalshallar – á spottprís. Hún var með í staflanum sem við roguðumst með út í bíl. Heima fór ég svo að lesa. Fólkið mitt stríddi mér á því að eftir þrjátíu blaðsíður lýsti ég yfir og af sannfæringarkrafti að bókin væri frábær. Þau minntu mig á að ég væri nú bara nýbyrjaður og fannst gassagangurinn hæfa mér illa. En nú er ég búinn að lesa allt ritið, allar 331 blaðsíðurnar. Niðurstaða mín er einföld. Þetta er besta bókin sem ég hef lesið um Miðausturlönd. Magnús Þorkell er ekki aðeins snjall fræðimaður heldur vel skrifandi höfundur líka. Litrík, fræðandi, vel túlkandi og yfirveguð fræðimennska og textinn er leifrandi.

Í hverjum kafla er farið yfir menningarsögu, trúarheim, pólitík og hagsmunasögu menningarhópa landssvæðis eða ríkis. Sjónum er aðallega beint að Egyptalandi, ríkjum á Arabíuskaga, Írak, Íran, Ísrael, Líbanon, Jórdaníu, Sýrlandi og Tyrklandi. Einstakir hópar eða þjóðarbrot eru líka rædd þvert á ríkjamæri, s.s. Kúrdar og mismunandi trúarhópar. Með leiftrandi sögum, útlistunum, fræðslu og túlkun málar Magnús Þorkell myndir og útskýrir af hverju málin þróuðust með ákveðnu móti en ekki öðru vísi. Heimsveldi Breta kemur víða við sögu og einnig Bandaríkin. Ottómanveldið er þarna auðvitað líka. Höfundur skrifar óhikað um hvernig stórveldin hafa beitt sér, hver áhrifin voru og þar með líka hvernig hópar hafa verið misnotaðir og þjóðir jafnvel verið rændar. Olía, auðlindir og flutningaleiðir skiptu máli í þróuninni. Hlutur Frakka, Þjóðverja og Rússa er skýrður og hvernig átök veraldar áttu sína afleggjara á mismunandi svæðum og í mismunandi löndum Miðausturlanda. Fjölbreytileg þróun Islam er túlkuð, mismunandi áherslur og guðfræði sem og átök hópa. Af hverju Ísraels-og Palestínu-vandinn hefur þróast með þeim sárgrætilega hætti sem við verðum vitni að þessa dagana fær skýrt baksvið í meðförum Magnúsar Bernharðs.  

Ég hef haft áhuga á Miðausturlöndum lengi og fylgst með fréttum frá svæðinu allt frá áttunda áratugnum. Ég þekki því flesta gerendur og hinar opinberu skýringarsögur fjölmiðlanna. Magnús Þorkell segir persónusögurnar með litríkum hætti og notar til að fara á dýptina. Hann hreif mig með sér og lánaðist að leysa upp marga fordóma mína og ímyndanir um þróun og einstaklinga. Hann túlkaði fyrir mér sögu þjóða og hópa með svo trúverðugum hætti að ég sé margt með öðrum og skýrari hætti en áður. Þannig eru snilldarbækur, þær breyta, dýpka og kalla fram skilning og þegar best lætur visku. Takk.

Slagorð um Palestínu, Gyðinga, Ísraela og stjórnmálamenn hljóma í mótmælum, fjölmiðlum og átökum hörmungarmánaða frá 7. október 2024. Klisjur magna ófrið en aðeins góð fræði og viska skapa eða fæða frið. Það er þarft fyrir okkur að ná í bókina Miðausturlönd og lesa. Þar er gott veganesti fyrir yfirveguð viðbrögð okkar einstaklinga og skilvirka menningar- og utanríkispólitík okkar Íslendinga.

Fimm stjörnu bók – og mínusarnir svo fáir og smáir að ég kann ekki einu sinni við að nefna þá. Tolle lege.

Frið á Gaza

Í þessari viku eru fimm mánuðir liðnir síðan Hamas liðar réðust á íbúa Ísraels og her Ísraels hóf hernaðaraðgerðir á Gaza landsvæðinu.

Frá og með 7. október hafa ótal mannslíf glatast. Einnig hafa mun fleiri meiðst, innviðir skemmst og fólk hrakist í miklum mæli frá heimilum sínum. Enginn árangur hefur náðst í viðræðum um vopnahlé eða hvort gíslar Hamas-liða verði látnir lausir. Eftir að stríðið braust út hafa aðstæður á Gaza svæðinu verið skelfilegar fyrir öll þau sem þar lifa og versnar enn. Nú berast fregnir af því að börn þar deyja vegna hungurs og vökvaskorts. Sjúkdómar breiðast út, ekki síst vegna þess að hernaðaraðgerðir hafa beinst að heilbrigðis- og sjúkrahússtarfsemi. 

Við ítrekum mikilvægi þess að yfirstandandi friðarviðræður beinist að því að fá gísla Hamas-liða látna lausa og að stríðsaðgerðum á Gaza ljúki í anda mannúðar og í þágu mannlífs á svæðinu. Ákvarðanir og aðgerðir þarf til að tryggja frið og öryggi fólks. Stríðandi aðilar og fjölþjóðlegir aðilar verða að leysa átökin.

Lútherska heimssambandið lýsir yfir þungum áhyggjum yfir hve stríðið á Gaza hefur magnað flokkadrætti og aukið fordóma um allan heim sem beinast bæði að Gyðingum og Palestínufólki. Lútherska samfélagið heldur áfram að biðja fyrir öllum þeim sem þjást vegna stríðsins í Landinu helga og heldur áfram að standa með kristinni nærveru og samfélagi þar. Lútherska heimssambandið stendur með og styður aðildarkirkjuna sína á landsvæðinu, The Evangelical Lutheran Church in Jordan and the Holy Land, starfsfólki sínu í Jerúsalem og öllum þeim sem er þjónað í þessum erfiðu aðstæðum.

 Samþykkt Lútherska heimssambandsins í byrjun mars 2024.

Myndina tók ég af teikningu barns sem ég rakst á í borginni Jaffa í Ísrael, norðan við Gaza.