Rándýrin í heimi manna

Við Ísak, sonur minn, fórum í bókabúð í Manchester. Ég keypti bækur um menningarþróun nútíma og arabíska og gyðinglega matargerð. Annars vegar bækur um kryddsögu og kryddblöndur Mið-austurlanda og hins vegar eitraða kokteila nútíma stjórnunarslægðar. Ég gleymdi alveg að horfa á niðurhal af Netflix í fluginu heim því svo heillaðist ég af ruddabók Giuliano da Empoli The Hour of the Predator. Höfundurinn er ítalskur, var ráðgjafi ítalskra stjórnvalda og fór á milli höfuðborga heimsins og kynntist stjórum, aðferðum og kerfum. Í bókinni skýrir hann hvernig einræðisherrar, tæknirisar og ný tegund slægðarpólitíkur mynda mannætukerfi í heimi stjórnmálanna. Bókin er pólitísk greining en líka viðvörun.  

Ein af litríkum sögum sem Empoli segir er sagan af slægð MBS. Mohammed bin Salman læsti þrjú hundruð voldugustu menn Sádi-Arabíu inni á Ritz-Carlton hótelinu í Riyad í nóvember árið 2017. Aðferðin var opinberlega kynnt sem hreinsunaraðgerð. En sögufróðir vita að slíkir gjörningar varða síður siðferði en tilfærslu valda. Empoli minnir á slíkar voru aðferðir Borgiaættarinnar, að safna óvinunum saman, svipta þá vernd, einangra frá stuðningsnetum sínum og láta þá síðan velja á milli tveggja afarkosta undirgefni eða dauða.

Borgia notaði hallir en MBS notaði lúxushótel. Borgia notaði sverð en MBS notaði banka, skuldabréf og ríkissjóð. Borgia gerði óvini sína eignalausa en MBS gerði það með svokölluðum samningum. Í stað aftöku bauð MBS samninga sem ekki var hægt að hafna. Kostirnir voru að framselja auð og völd eða rotna á lúxushótelinu. Ofbeldið var orðið tæknilegt og bókhaldslegt. Þau sem ekki stjórna lengur eigin fjármunum hafa tapað stöðu og völdum. Tími rándýranna var var runninn upp í mannheimum.

Cesare Borgia vissi líkt og Machiavelli að dreifing valds væri verri en alræðisvald. Hinn brosandi MBS skildi þetta líka og með einni slægðaraðgerð eyddi hann öllum mögulegum keppinautum, náði valdi á gífurlegu fjármagni og kom á jafnvægi innan hirðarinnar. MBS stjórnaði ríkinu, peningunum og hélt í alla stjórnartauma. Borgia notaði aftökur til að skapa ótta en MBS lokaði bankareikningum. Á fyrri öldum sást í hnífa og axir en nú er ógnin fremur tæknileg. Dómum er fullnægt í gagnagrunnum, eignaskrám og rafrænum frystingum fjármuna. Aðferð MBS er aðferð Borgia en í stafrænum heimi. Blóð flýtur ekki um götur og torg heldur er fjármagn fært til. Valdhafinn fær ofurvald og regla rándýranna er einföld: Þú færð að lifa svo fremi sem þú hlýðir. Það er hægt að aflífa menn rafrænt. Ekki undarlegt að slefan slitnar ekki á milli MBS og DT. En auðvitað flýtur blóð líka í alræðiskerfi rándýranna. Khashoggi var aflífaður og skorinn í parta í sendiskrifstofu Sáda í Istanbúl ári eftir innlokunina í hótelinu í Riyad.

Empoli sýnir að vald í samtímanum er ekki lengur bundið við hefðbundin ríki, stofnanir eða lýðræðislegt umboð, heldur með samþættingu tækni, fjármagns, gagna og persónudýrkunar leiðtoga. Með því að tilfæra dæmi frá Rússlandi, Kína, Bandaríkjunum, Ítalíu og Mið-austurlöndum sýnir hann að þróunin er ekki staðbundin heldur fjölþjóðleg. Empoli segir litríkar sögur af valdaklíkum, ráðgjöfum, spunadoktorum og bakherbergjastjórnmálum. Hann lýsir hvernig valdi er beitt þvert á hugmyndir um lýðræðislega ferla. Og að trúarstökks sé krafist (og nefnir Kierkegård).

Bókin er læsileg og ætluð breiðum lesendahópi. Hún er stutt og beinskeytt. Empoli hvernig samfélagsmiðlar og einföld skilaboð eru farvegir fyrir stjórnarhætti rándýranna. Hann telur að lýðræðisríki séu varnaskert gegn nýju valdakerfi rándýranna. Hann greinir vandann af innsæi og íþrótt en veitir engar lausnir. Empoli lýsir einsleitni, að einræðisherrar, tæknirisar og popúlistar fylgi sömu lögmálum. Vegna áherslunnar á ruddavæðingu stjórnmálanna gerir hann lítið úr ólíkum stjórnarháttum, menningarlegum aðstæðum og pólitískum hefðum. Í bókinni er fólki lýst sem auðstýranlegum múg. En ég held að Empoli vanmeti mótstöðu, gagnrýna hugsun og siðferðilegt sjálfræði almennings. The Hour of the Predator er spark í rassinn en beinir ekki til vegar. Fljótlesin, heillandi og vekjandi bók en ráðalaus gagnvart rándýrum, ruddunum.

Við Ísak erum hugsi, ræðum stefnu og strauma meðan arabíska kryddið og kosher-listarnir eru skoðaðir og steik morgundagsins maríneruð. Blöndur okkar verða til að auka unað og halda ótta burtu. Og pabbinn miðlar til sonar síns að ef við lærum ekki af sögunni séum við dæmd til að endurtaka vitleysur hennar. Í dag les ég svo að beiðni Ísaks Vesalinga Viktors Hugo. Þar er flott persónugallerí og aðdáanlega skýr persónusköpun. Hugo þekkti jú rudda og siðblinda og sagði sögu um alvöru viðbrögð við þeim og slæmri pólitík. Vesalingarnir er m.a. rit um hvernig hægt er að bregðast við rándýrum í mannheimum.  Góðir saman Empoli og Hugo. 

  1. desember 2025.

Frumbyrjur Dags Hjartarsonar

Magga á Kölduhömrum var barni aukin og kýrin í fjósinu kálfi aukin. Kýrin bar á aðfangadagskvöldi og konan fæddi á jólanótt. Kálfurinn lifði en konan dó. Hvernig er hægt að lifa við og vinna úr slíkri sögufléttu?

Við kynnumst í Frumbyrjum, nóvellu Dags Hjartarsonar, bændahjónum á hjara veraldar. Alvitur sögumaður er sem vitur öldungur sem heldur athygli lesenda með vísunum til þroskaviðburða, sveitareynslu, hækulistar, vitrana, skyggnigáfu, fjölskylduátaka og dýra. Í fyrstu fannst mér ég lesa uppfærða sveitasögu Guðrúnar frá Lundi. Svo kom tilfinning fyrir Gísla í Uppsölum, síðan lífssókn Benedikts í Aðventu Gunnars og svo bættust við nokkrar persónur og túlkanir úr Laxneskum skrifum. En sagan var þó algerlega Dags Hjartarsonar, í senn rammíslensk en þó sammannleg og handan þjóðernis.

Snilld Dags er að halda okkur lesendum stöðugt á spennusvæðum og í spennupörum. Magga og Guðmundur eru óvenjuleg. Þau elska en ná ekki að tjá vel ást sína með orðum. Þau eru tillitssöm en fjarlægjast í umhyggju sinni. Þau þrá nánd en kunna æ verr að strjúka. Þau eru barnlaus í búskap sem er frjósemisatvinna. Þau sjá lengra nefi sínu en samt kunnáttuskert um lífsmálin. Þau eru skygn en sjá ekki vel lífsgátuna. Hvort er ríkulegra lífið í veruleikanum eða lífið í handanverunni? Hvað er raunveruleiki, þetta sem séð verður með augunum eða með innri augum? Er það sem maður snertir með fingurgómunum raunverulegra eða það sem verður til við heildarlestur veraldar. Er dulræn skynjun síðri til lífslestursins en jeppaferð suður til Reykjavíkur? Er hamingjan ríkulegri í sveitinni en við Hringbrautina? Getur manneskjan lifað vel í algeru fásinni? Er einhver raunverulegur munur á bónda og hrúti, kálfi og stúlkubarni, konu og kú? Nei, Frumbyrjur er ekki saga sem færir mannlífið niður á plan lágkúrunnar heldur vekur spurningar um hvað við mennirnir erum, hvernig og til hvers. Dagur er kunnáttusamur sögumaður og smekkvís og túlkar vel ríkidæmi fásinnis og fjölvíddir hins einfalda mannlífs. Stílgeta Dags er aðdáunarverð og veraldartúlkun hans kraftmikil.

Frumbyrjur er áhrifarík saga um fólk á mörkum, menn á mærum og lífið í stóra samhenginu.

Frumbyrjur (2025)
Dagur Hjartarson
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

 

Hver mun stjórna heiminum eftir hundrað ár?

Þróun heimsmála á árinu 2025 hefur verið flókin. En hver verður þróun stjórnmála, tækni og bandalaga þjóða næstu áratugina? Hver mun stjórna eftir eina öld? Fæst okkar sjá framvinduna fyrir því við þekkjum ekki tækninýjungar framtíðar, mengun, orkumál og stríð. En þó er hægt að fullyrða að flétta ríkja, viðskiptabandalaga og hernaðarbandalaga mun breytast mikið og jafnvel verða úrelt í þeirri mynd sem við þekkjum frá tuttugustu öldinni. Tækniþróunin er stærsta breytan. Þjóðríki munu veikjast sem og hernaðar- og viðskiptabandalög. En hvað svo? Það verða ekki Kínverjar, Evrópusambandið eða Indverjar sem munu stjórna heiminum eftir hundrað ár. Tæknirisarnir munu stýra heimsbyggðinni – svo fremi sem tæknikappið hafi ekki splundrað heiminum og umhverfisvandi kæft lífríki jarðarinnar.

Frá nýsköpun til valdatöku

Í nokkra áratugi var Silikondalur vettvangur fyrir nýsköpun og tækniþróun. Fyrirtækin í dalnum voru drifkraftur hagvaxtar og bjuggu til verkfæri sem auðvelduðu margt í atvinnulífi og heimilislífi fólks. En hlutverk tæknifyrirtækjanna hefur breyst. Þau eru ekki lengur aðallega birgjar vöru og þjónustu. Þau hafa orðið áhrifavaldar og beinir aðilar að því að móta gerð og virkni samfélaga, hvernig við tölum saman, hvað við vitum og hverju við trúum. Tæknirisarnir eru ekki lengur þjónar stjórnvalda og fyrirtækja heldur beinir aðilar í valdabröltinu. Þeir eru stórveldi sem hafa áhrif á samskipti, viðskipti, öryggi og stjórnmál. Tækni þeirra er notuð á flestum sviðum mannlífs, frá skipulagningu mótmæla til skipulags og stjórnar stríða.

Tækni og þjóðarhagsmunir

Tæknifyrirtæki eru í vaxandi mæli samofin stefnu og aðgerðum ríkisvalds. Þegar Donald Trump varð forseti á seinna kjörtímabilinu fékk lykilfólk í tæknigeiranum aukin áhrif innan stjórnsýslunnar. Bandaríkjastjórn notar tæknifyrirtæki sem verkfæri í utanríkisstefnu sinni og fyrirtækin laga sig að ríkisforsendunum til að tryggja markaðsstöðu sína. Hið sama má sjá í sjórnarháttum stórvelda Asíu. Í valdabaráttu Bandaríkjanna og Kína ráða ekki Sameinuðu þjóðirnar eða NATO mestu heldur fyrirtæki eins og OpenAI, TikTok, Nvidia, Palantir og Huawei. Þessar tæknisamsteypur stjórna þróun gervigreindar, örflöguframleiðslu, gagnasöfnum og stafrænum innviðum.

Tæknilegt valdajafnvægi breytist

Donald Trump aðhyllist þjóðernishyggju og notar tæknifyrirtæki til að veikja fjölþjóðasamstarf. Aðferðir stjórnsýslunnar vestra eru ruddalegar. Ef Evrópusambandið vogar sér að setja reglur sem gætu heft bandarísk stórfyrirtæki er hart brugðist við í Washington, hótað að Bandaríkinn gangi úr Nató eða að evrópskir embættismenn verði sviptir vegabréfaáritunum. Tæknimál og stjórnmál eru samofin.

 Hver verður þróunin? Auðvitað skiptir máli enn hverjir stjóra í Kína, Indlandi, Evrópu og Bandaríkjunum. En væntanlega mun skipta litlu máli eftir hundrað ár hver verður bóndinn í Hvíta húsinu. Völd munu færast frá þingum og ráðhúsum til tæknifyrirtækja í einkaeigu. Þróunarhraði gervigreindar er slíkur að jafnvel heimsveldi halda ekki í við kappið og hraðann. Google, DeepMind og Anthropic setja sínar eigin siðareglur og öryggisviðmið og óháð lýðræðislegu aðhaldi. Kerfiskreppa lýðræðisins er að ríki eru getuskert eða jafnvel ófær um að setja reglur um tækniþróun. Afleiðingin verður að tæknigeirinn fær frjálsar hendur og sem næst algert frelsi í æðisgengnu kapplaupi tæknirisanna.

Þögul völd

„Þekktu sjálfan þig“ var slagorð véfréttarinnar fornu í Delfí. En nú er staðan sú að tæknirisarnir vita meira um okkur en við sjálf. „Við þekkjum þig“ gætu þeir smellt á skjáinn á símunum okkar. Meðan við gruflum og efumst spá matskerfi tæknigeirans fyrir um hegðun okkar og móta hana líka. Við erum smátt og smátt rænd sjálfi okkar og frelsi. Frelsi og val hundruða og þúsunda milljóna færist frá lýðræðisferlum og kjörnum stofnunum til fyrirtækja sem lúta ekki lýðræði eða eftirliti annarra en eigenda. Þegar Meta ákveður hvað telst pólitísk auglýsing eða X fínstillir sýnileika er það ekki bara innanbúðarmál fyrirtækjanna heldur varðar tjáningarfrelsi og leikreglur lýðræðis. Lýðræði er tímafrekt og góðir hlutir gerast hægt í samtali og samvirkni samfélaga. En tæknifyrirtækin eru á allt annarri hraðbraut en talandi fólk og rabbandi hópar á málfundi. Tæknifyrirtækin standa engin skil gagnvart fólki og kjósendum heldur aðeins þeim sem eiga peningana. Svo eru þessi fyrirtæki á kafi í umdeildum afskiptum af átökum, stríðum og hernaði.  

Hverjir stjórna?

Aðgreining ríkja og einkageira verður æ óljósari. Í Kína eru þau hverfandi, í Bandaríkjunum formlega aðskilinn en þó flæðir á milli um alls konar göt. Samskipti þjóða varðar síður samninga og vinsamleg samskipti ríkja heldur fremur aðgang að gagnaverum, tölvutækni, orku og gervigreindarvinnslu. Tæknifyrirtæki móta ramma sem samfélög starfa innnan en stjórnmálamenn bregðast aðallega við þróun í stað þess að stýra henni. Án lýðræðislegs aðhalds mun tækni móta stjórnmálin en ekki öfugt. Kjarnaspurningin er því ekki hvort 21. öldin verði öld tæknirisanna heldur hvort lýðræðisríki nái að endurheimta stjórn áður en völd fólks hafa tapast endanlega. 

Ísland og ný tækni­stefna

Fyrir örríki eins og Ísland er staðan krefjandi en líka áhugaverð. Við erum háð tækni sem er þróuð og stjórnað af einhverjum óþekktum eigendum. Það hefur áhrif á öryggi, efnahag og lýðræðislegt sjálfstæði. Að vilja bara vera tæknilega hlutlaus er ekki lengur raunhæfur kostur. Það jafngildir að hafa engin áhrif á þróunina og vera alger þiggjandi. Íslensk utanríkis- og innanríkisstefna þarf að gera tæknimál að meginmáli; að byggja upp sérþekkingu á gervigreind, netöryggi og stafrænum innviðum alls samfélagsins; að skilja hvernig val á tækni varðar og hefur áhrif á þjóðaröryggi og efla samvinnu við trausta samstarfsaðila. Við verðum að byggja upp og tryggja sjálstætt öryggi orkukerfa okkar og vistun upplýsinga s.s. um heilsu, fjármál og annað sem leynt skal fara. Varnirnar verða að vera raunverulegar og ekki útvistað í góðri trú um að einhver tæknifyrirtæki muni hegða sér þokkalega og verða traustsins verð. Þegar við færum heilbrigðiskerfi, varnakerfi og stjórnsýslu yfir á bandarísk eða kínversk vinnslunet, útvistum við ekki aðeins tækni heldur líka trausti. Í heimi þar sem traust er söluvara er gagnavarsla beint öryggismál. Hugsum til framtíðar og eflum öryggi Íslendinga.

Skoðunargrein, Vísir, 20. nóvember,, 2025.

Ljósmyndirnar á Madeira

Ljósmyndasafnið í Funchal er glæsileg umgjörð og skýr vitnisburður um sögu ljósmyndunar á Madeira. Á 19. öld var eyjan vinsæll sumardvalarstaður auðmanna og þeir komu með ljósmyndagræjur með sér. Strax á fimmta áratug aldarinnar var talsvert myndað og í safninu er ljósmyndasagan nær tveggja alda rakin.

Í glæsilegu húsi safnsins var rekin ljósmyndastofa til 1970 en þá keyptu borgaryfirvöld það til að nýta sem safn. Í því eru varðveittar fjöldi myndavéla og kvikmyndavéla, svið, bakgrunnar, húsgögn stofunnar, myrkraherbergi með stækkurum, jafnvel steyptir skolvaskar og margvísleg framköllunartæki. Í safninu eru auk staðalsýningar tímabundnar sýningar á verkum ljósmyndara sem störfuðu á Madeira.

Við daglega stjórn eru röskar konur sem gaman var að ræða við og ég hef ekki í annan tíma heyrt eins hjartanlega hlátra í nokkru safni. Svo er þarna auðvitað ljómandi kaffihús. Dásamlegt og líflegt safn sem allir Madeiragestir ættu að vitja. Takk fyrir mig.

Vatnaskil Indlands

Öld okkar er öld vaxandi vatnsvanda. Hún er “tuttugasta og þyrsta” öldin. Fyrr á árinu var ég í Róm og skoðaði m.a. hinar stórkostlegu vatnsveitur Rómverja. Í gær og fyrradag gekk ég um fjöllin á Madeira og dáðist að vatnsveitum og hugviti íbúa við að veita vatni að ræktunarsvæðum og til þorpa. Í morgun las ég svo sögur um vaxandi vatnsvanda heims.  

Indland er dæmi um vanda í vexti.  Þar í landi búa um 18% íbúa heimsins, 1400 milljónir manna. Þetta fólk hefur þörf fyrir hreint vatn. En þessi 18% íbúa  hafa aðgang að 4% af vatnsauðlindum veraldar.

Í Delhi, Chennai og Hyderabad er drykkjarvatn skammtað. En fjársterk og kröfuhörð fyritæki á sviði tölvutækni og gervigreindar þurfa mikið vatn til kælingar kerfanna. Gagnaverin í Indlandi þurfa hundruð milljarða lítra af vatni á ári. Þau eru orðin nauðsynleg innviðir fyrir stafræna framtíð og hálaunaatvinnu en ógna vatnsöryggi.

Samkvæmt mati Alþjóðabankans eru vatnsauðlindir Indlands þegar undir miklu álagi. Spár gera ráð fyrir að vatnsnotkun gagnavera muni tvöfaldist á næstu fimm árum, úr 150 í 358 milljarða lítra. Það myndi hafa áhrif á samfélög, landbúnað og ógna heilsu milljóna manna.

Valið er eins og í grískum harmleikjum, kostirnir eru bara vondir. Stjórnvöld velja milli atvinnu eða heilsu, hvort laða eigi að fjárfesta í hátækniiðnaði eða vernda vatnsauðlindina fyrir mannfólkið og lífríkið.

Vatn er orðin aðalkreppa Indlands. 18% mannkyns hefur bara aðgang að fjórum prósentum vatns veraldar og ljóst að ákvörðun stjórnvalda um vatn varðar meira en tækni og hagvöxt.

Er í lagi að fórna heilsu og lífi þúsunda og milljóna fólks til að kosta atvinnu, uppgang og vöxt? Vatn er ekki forréttindamál heldur mannréttindamál.