Hernám Grænlands og afleiðingar

Núverandi forseti Bandaríkjanna endurtekur með reglulegu millibili og á hinum óvæntustu augnablikum að hann vilji Grænland. Grænlandsþrá Trumps virðist djúprætt og krónísk. Þessi klifun kemur illa við mig og þyrlar upp spurningum um hvað-ef Bandaríkin hernæmu Grænland og hverjar afleiðingarnar yrðu í heimspólitíkinni. Kannski er þetta hvað-ef orðið að hvenær. Bernskuminningar um Gíslagrænlandið vakna einnig með mér.

Gísli og Grænland

Gísli Kristjánsson var móðurbróðir minn og mamma var mjög elsk að stóra bróður sínum og talaði við hann flesta daga. Gísli var ritstjóri búnaðarblaðsins Freys og útvarpsmaður á Rúv og hafði áhrif. Hann var hugsjónamaður, brautryðjandi í landbúnaði og líka óþreytandi Grænlandsvinur. Hann beitti sér fyrir tengslum Íslendinga og Grænlendinga, útflutningi íslensks sauðfjár til Grænlands og kynnti Grænlendingum hvaða landbúnaðaraðferðir væru þeim hagnýtar. Hann tengdi fjölda Grænlendinga við bændur hérlendis og margir fengu þekkingu og þjálfun á Íslandi og hagnýttu sér þegar heim var komið. Ég ólst upp við þennan Grænlandsáhuga Gísla, vitund um náttúrugæði og menningu Grænlendinga og sannfæringu um að Grænlendingar ættu sér framtíð og á eigin forsendum. En Gíslastefnunni er nú ógnað og mér er ekki skemmt.

Bandaríkin þurfa Grænland

Þvert á hefðir og venjur í samskiptum þjóða og aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins klifar Trump á að hann þurfi Grænland. Hugmyndafræðingar herskárrar stefnu hans telja Danmörk pínulítið land, með  efnahagslega og herðanðarlega dverggetu. Miðað við hörkuna á fundi utanríkisráðherra landanna í Washington 14. janúar síðastliðinn skoðar bandaríska stjórnsýslan greinilega alla kosti og möguleika á að fullnægja þrá forsetans og blíðka stefnukarlana. Líkur aukast því á hernámi Bandaríkjanna. Rússarnir kætast og Kínverjar glotta.

Hernám Grænlands og afleiðingar?

Hernám væri brot á fullveldi Danmerkur, árás á fullveldishugmyndina og myndi grafa undan þeirri skipan heimsmála sem Bandaríkin hafa stuðlað að síðustu 80 ár.

Árás á Grænland væri í takt við árás Rússa á Úkraínu og yrði fordæmi sem önnur ríki myndu hiklaust nýta.

Nato myndi leysast upp. Traust hefur minnkað mjög í samskiptum yfir Atlansála en hyrfi með árás og tækist ekki að laga meðan Trump væri við völd. Traust til Trump yrði aðhlátursefni og óhæft til útflutnings.

Evrópskur her yrði byggður upp en án Bandaríkjanna meðan Machiavellískur háttur Maga-hreyfingarinnar stýrir pólitíkinni vestan hafs.

Norðurslóðir myndu vígvægðast. Rússar myndu telja sér nauðsyn að auka hernaðarviðbúnað á öllu heimskautasvæðinu og Kínverjar færu einnig af stað. Norðursvæði jarðarkúlunnar myndi breytast úr samvinnusvæði í vígbúnaðarsvæði.

Skekkja í gildaröðun myndi aukast og tillit til valdalítilla hópa og þarfa þeirra minnka. Hinn sterki vill jafnan ráða og hin veiku myndu því þurfa að auka varnir sínar, viðbragðshætti og kerfi. Rökleg skipan mála myndi veikjast vegna styrksútreikninga. Mjúk mál yrðu skotin í kaf af hinum sterku.

Virðing fyrir Bandaríkjunum sem ábyrgum samvinnuaðila hyrfi. En óttinn við geðþóttafullt herveldi myndi aukast. Afleiðing yrði aukin spenna í heimsmálum, meiri hervæðing og skefjalaus fjáraustur í vopn. Fé til velferðar, menningarmála, mannúðarstarfs myndi minnka. 

Hernaðarlegur og efnahagslegur ávinningur Bandaríkjanna af yfirtöku Grænlands yrði lítill og jafnvel enginn. Bandaríkin geta gert flesta þá samninga sem þeir óska við grænlensk og dönsk stjórnvöld og fengið þá aðstöðu sem þeir þarfnast. En árás og yfirtaka myndi verða sem heimspólitísk hamfaraskriða og líklega valda Bandaríkjunum efnahagsvanda.

Grænlandsþrá Trump virðist ótengd pólitískum og efnahagslegum útreikningum og meira tengd þrá hins sterka að veifa stórum lurk og pissa sem lengst. Danmörk, er að þeirra rökstuðningi, pínulítlítið og geti fátt annað en að fá sér smók. Er ekki hægt að lána mönnum dómgreind vestra?

Norðursvæðið samvinnusvæði

Heimsskautasvæðið á að vera samvinnsusvæði en ekki vígbúnaðarsvæði.  Það á að vera herlaust friðarsvæði með ákveðnum reglum um umferð og náttúruvernd. Ég legg til að það verði ákveðin norðurslóðastefna okkar Íslendinga.

Tugir þúsunda sauðfjár af íslenskum stofni eru Grænlandi og lífinu í veröldinni hentugri en sami fjöldi bandarískra hermanna. Nútímastefnan ætti að vera að styrkja stjórn heimafólks á eigin málum, að auðlindir nýtist þeim og heiminum í samræmi við þeirra ákvörðun. Það má nútímavæða margt á norðurslóð og í sátt við náttúru og nágranna. Hvað hentar best Grænlendingum, Íslendingum, Kanadamönnum, Skandinövum, Finnum, Rússum og bandarískum Alaskabúum? Gíslastefnan er örugglega betri en Trumpþráhyggjan. 

Hvar byrjar bænin?

Meistari spurði nemendur sína: „Hvar byrjar bænin?“

Sá fyrsti svaraði: „Í neyð – því þegar ég er í vanda tala ég við Guð.“

Annar svaraði: „Í gleði – því þegar ég hlæ og fagna, losna ég frá öllum áhyggjum og næ sambandi við Guð.“

Þriðji svaraði: „Í þögninni – því þegar hugur minn kyrrist getur Guð talað við mig.“

Fjórði svaraði: „Í barninu – því þegar ég verð eins og barn aftur og þori að babbla við Guð er allt gott.“

Meistarinn svaraði: „Þið hafið öll svarað vel. En bænin byrjar ekki í okkur mönnunum. Guð byrjar samtalið við okkur. Guð byrjar – ekki við.“ 

Jafnvel þegar ég hvísla heyrir þú

Guð minn,

ég þarf ekki að klifra upp í himininn til að tala við þig.

Ég þarf ekki að hækka röddina til að þú takir eftir.

Jafnvel þegar ég hvísla heyrir þú – þú býrð í mér.

Þú ert í mínu innsta inni.

Ég þarf ekki vængi til að fljúga til þín,

heldur aðeins að staldra við, vera kyrr,

líta inn í sjálfa-n mig, víkja ekki, flýja ekki.

Eins og hjá bróður mínum, systur og bestu vinum má ég vera hjá þér,

segja það sem angrar mig og biðja þig um hjálp.

Ég veit að þú ert Guð minn og að ég er barn þitt. Amen.

(Teresa frá Ávila, 1515–1582)

Vatnsskortur í Íran

Uppþot eru í Íran þessa dagana, mótmæli. Stjórnvöld hafa drepið fjölda mótmælenda. Reiðin kraumar vegna alls konar kreppuvalda, verðbólgu, atvinnuleysis, harkalegs dómskerfis og gamaldags trúarreglna. Ein af mörgum ástæðum mótmæla er vatnskreppa í landinu. 

Vatnsskorturinn er meiri nú en verið hefur í marga áratugi. Í venjulegu árferði falla um 350 mm af vatni á ári á Teheransvæðinu en á liðnu ári féll 1 mm allt árið. Ástæður vatnsskorts eru langvarandi þurrkar, hitabylgjur og óhófleg notkun grunnvatns. Ráðum vísindamanna hefur ekki verið hlýtt og vatnstjórn hefur verið slæm. Í Teheran hefur vatnsþrýstingur verið lækkaður á kvöldin til að minnka vatnsnoktun og í sumum hverfum hefur verið langvarandi vatnsleysi. Nokkur miðlunarlón borgarinnar eru tóm og önnur við hættumörk. Forsetinn hefur varað við skömmtun og jafnvel hótað rýmingu borgarinnar. Aðrar borgir í Íran eru þó ekki færar um að taka á móti milljónum vatnsflóttamanna.

Vatn er lífsnauðsyn. Landbúnaður þarf mikið vatn. Raforka í Íran kemur að mestu frá vatnsaflsstöðvum. Vatnsskorturinn hefur magnað verðbólgu og atvinnuleysi hefur aukist sem og orkuskortur. Vantraust gagnvart stjórnvöldum hefur aukist og vatnskreppan er orðin hápólitísk. Vtnsskortur bætist ofan á rafmagnsskort, gastruflanir og efnahagsþrengingar.

Sumarið 2021 brutust út mótmæli í suðvesturhluta landsins vegna vatnsskorts og þurrka. Slík mótmæli eru oftast staðbundin í upphafi en hafa síðan leitt til víðtækari mótspyrnu þegar ríkið hefur svarað seint og af hörku.

Nú er vatnsskortur í Íran orðin birtingarmynd stjórnarvanda. Í vatnsleysinu hefur bál mótmæla kviknað og logar glatt. Brátt munu logarnir teygja sig í skikkjur klerkastjórnarinnar.

Myndina tók ég í hellirigningu í Róm í kyrruviku 2025. 

Þorskhnakkar í skinku

Þorskhnakkar eru hentugir í þennan spænska fiskrétt – og vafðir í góða Parmaskinku. Rétturinn er fljóteldaður – 45 mínútur – og öllum þykir þetta góður matur.

Fyrir 4

2 pakkar kirsuberja- eða kokteiltómatar

2 rauðlaukar

5 hvítlauksgeirar

1 lúka grænar ólífur

700-800 gr þorskhnakkar skornir í 4 bita

1 tsk fiskikrydd eða ½ tsk chilikrydd

4 hráskinkusneiðar

steinselja – eða dill

ólífuolía

salt og pipar

Hitið ofninn í 200°C.

Skerið rauðlauk og hvítlauk þunnt, tómata og ólífur í tvennt. Setjið í eldfast mót, 4 msk. af ólífuolíu, salt og pipar og blandið öllu vel saman. Bakað í ofni í 15-20 mínútur.

Kryddið fiskinn með pipar og smá chili (ef þið viljið bit) og pakkið síðan parmaskinku utan um hverja fisksneið og setjið þorskinn ofan á tómatana og aftur í ofninn í aðrar 15 mínútur – eða þar til þorskurinn er eldaður í gegn og parmaskinkan orðin aðeins stökk.

Stráið saxaðri steinselju eða dilli yfir fiskinn.

Berið fram salat með og gott súrdeigsbrauð til að skófla, þ.e. þurrka, upp dásamlegan vökvan (þetta sem Ítalir kalla scarpeda). Þau sem vilja geta soðið bygg eða hrísgrjón og haft sem meðlæti. 

Parmaskinkan gefur yfirleitt nægilegt saltbragð við bökunina.

Ég fékk uppskriftina úr mbl en breytti að eigin smekk. Uppskriftin er frá Mörtu Rún Ársælsdóttur sem greinilega er matgæðingur. 

Skinkuvafinn fiskur er þekktur og virtur kostur við Miðjarðarhafið. Og heitin eru alls konar og hér eru þrjár útgáfur: 

Ítalska Pesce avvolto nel prosciutto
Franska Poisson enrobé / en robe de jambon
Spænska Pescado envuelto en jamón

Dad gracias al Señor, porque él es bueno; porque para siempre es su misericordia. Amén.