Vatnaskil Indlands

Öld okkar er öld vaxandi vatnsvanda. Hún er “tuttugasta og þyrsta” öldin. Fyrr á árinu var ég í Róm og skoðaði m.a. hinar stórkostlegu vatnsveitur Rómverja. Í gær og fyrradag gekk ég um fjöllin á Madeira og dáðist að vatnsveitum og hugviti íbúa við að veita vatni að ræktunarsvæðum og til þorpa. Í morgun las ég svo sögur um vaxandi vatnsvanda heims.  

Indland er dæmi um vanda í vexti.  Þar í landi búa um 18% íbúa heimsins, 1400 milljónir manna. Þetta fólk hefur þörf fyrir hreint vatn. En þessi 18% íbúa  hafa aðgang að 4% af vatnsauðlindum veraldar.

Í Delhi, Chennai og Hyderabad er drykkjarvatn skammtað. En fjársterk og kröfuhörð fyritæki á sviði tölvutækni og gervigreindar þurfa mikið vatn til kælingar kerfanna. Gagnaverin í Indlandi þurfa hundruð milljarða lítra af vatni á ári. Þau eru orðin nauðsynleg innviðir fyrir stafræna framtíð og hálaunaatvinnu en ógna vatnsöryggi.

Samkvæmt mati Alþjóðabankans eru vatnsauðlindir Indlands þegar undir miklu álagi. Spár gera ráð fyrir að vatnsnotkun gagnavera muni tvöfaldist á næstu fimm árum, úr 150 í 358 milljarða lítra. Það myndi hafa áhrif á samfélög, landbúnað og ógna heilsu milljóna manna.

Valið er eins og í grískum harmleiknum, kostirnir eru bara vondir. Stjórnvöld velja milli atvinnu eða heilsu, hvort laða eigi að fjárfesta í hátækniiðnaði eða vernda vatnsauðlindina fyrir mannfólkið og lífríkið.

Vatn er orðin aðalkreppa Indlands. 18% mannkyns hefur bara aðgang 4% vatns veraldar og ljóst að ákvörðun stjórnvalda um vatn varðar meira en tækni og hagvöxt.

Er í lagi að fórna heilsu og lífi þúsunda og milljóna fólks til að kosta atvinnu, uppgang og vöxt? Vatn er ekki forréttindamál heldur mannréttindamál.

 

Allt sem við hefðum getað orðið

Sif Sigmarsdóttir er heillandi höfundur. Ný bók hennar, Allt sem við hefðum getað orðið, kom út þegar við fjölskyldan vorum á leið til Madeira. Elín Sigrún stormaði beint í Eymundsson í Fríhöfninni og spurði hvort bókin væri komin. Verslunarstjórinn brosti breitt og sagði að nýkominn bókakassinn væri í geymslunni í kjallaranum. En hún myndi fúslega ná í eintak handa ferðalangnum. Svo las Elín á fluginu til Skotlands, í Edinborg og svo suðurleiðina líka til Madeira. Hún leit varla upp og umlaði reglulega kankvís: „Þú verður að lesa þessa.“ 

Aðalpersónan er Lilja Kristjánsdóttir, blaðamaður á Dagblaðinu í Reykjavík. Lilja fær veður af að hún sé líklegt fórnarlamb niðurskurðar. Hvað verður um hana ef hún missir vinnuna sem hún hafði fórnað svo miklu fyrir? Skilgreina hlutverk fólk? Hvenær tapa menn sjálfi sínu? Lilju er falið að skrifa um nýútkomna dagbók Annie Leifs, fyrstu eiginkonu tónskáldsins Jóns Leifs. Hún fyllist grunsemdum um bókina og að ekki sé allt sem sýnist. Í framhaldinu spretta fram persónur og viðburðir fortíðar sem tengjast saman í viðburðaríkri og magnaðari atburðarás. Fræg skáldkona og verk hennar koma við sögu, dóttir hennar, fjöldi fólks, stofnanir í Reykjavík og menningarsaga síðustu áratuga. Alls konar tabú og leyndarmál eru opnuð. Og Sif snýr og fléttar listilega. Hvað er logið og hvað er sannleikur?

Allt sem við hefðum getað orðið er marglaga. Sif nýtir harmþrungna ástarsögu til að ræða um líf fólks, aðallega kvenna. Saga Annie Leifs er einn af burðarásum sögunnar, í senn bæði ríkuleg frásögn en átakanleg. Hún fórnaði sér fyrir Jón Leifs og Sif teiknar skarpa prófíla þeirra beggja. Annie hefði svo sannarlega getað orðið annað en hún varð. Og Jón Leifs virðist rýrari í kærleikanum en sjálfsálitinu. Fleiri ástarsögur eru sagðar og hvernig aðstæður skapa persónur og ferla. Er Lilja það sem hún vill vera og verða? Hvenær er manneskjan fullnægð og lifir í samræmi við eigindir og ástríðu sína? Er rétt að fórna sér algerlega og skilyrðislaust fyrir aðra og málstað?

Ég dáðist að hugkvæmni Sifjar í fléttugerðinni, hvernig hún batt saman ólíka heima og tengdi við kjallaraíbúð í húsi við Nönnugötu. Persónurnar sem hún leiddi fram voru skýrar. Hildur á Þjóðskjalasafninu er kostuleg sem og skáldkonan, móðir hennar. Sú fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Sif segir magnaða sögu um líf rithöfundarins og hvað er satt og hvað logið. Hver á heimildir og sögur?

Í spennandi sögu Sifjar er farið langt að baki einfaldri og groddalegri feministasögu eða kúgunarsögu kvenna. Bókin þjónar ekki þeim tilgangi að sýna hvað karlar voru eða eru vondir heldur sýna lífsbaráttu kvenna í ólíkum aðstæðum og hvernig samhengi litar og kallar fram. Ofbeldi er ekki kynbundið og karlarnir einir sem kremja. Margar konur eru tuddar og hræðilegar mæður sem lemstra afkomendur. Sif skefur ekki af eða gullhúðar í þeim efnum. Rit Sifjar er djúpsaga um mennskuna, skrifuð af slíkri snilld og íþrótt að erfitt var að slíta sig frá lestrinum. Og hlý mannvirðing litar orð, flæði og fléttu. Við Elín Sigrún mælum með bókinni.

Funchal – 10. nóvember, 2025. 

 

Friðurinn í Monte

Karl I var síðasti keisari Austurríkis og konungur Ungverjalands. Karl var maður friðarins í heimi ófriðar. Þegar heimsstyrjöldin fyrri braust út reyndi hann án árangurs að binda endi á blóðbaðið. Keisaradæmið hrundi og fjölskylda Karls var svipt völdum og eignum. Karl var sendur í útlegð árið 1921 og eiginkona hans, keisaraynjan Zita, fluttu þá til Funchal á Madeira. Þar dvaldi Karl fársjúkur síðustu mánuði lífsins. Hann dó 1. apríl 1922, aðeins 34 ára gamall. Í kirkjunni í Monte í Funchal er grafhýsi hans enn varðveitt.

Það er tilkomumikið að fara með kláfferjunni frá hafnarsvæðinu í Funcahl, liðlega þriggja kílómetra leið upp í hæðirnar í Monte. Þegar út er komið blasir við Frúarkirkjan á fjallinu. Hvít og látlaus kirkja sem brosir í grænni hlíð Funchal. Útsýnið er stórkostlegt þar efra og undarlegt að hugsa um líf fólksins sem hefur búið hér, átt sér drauma, sorgir, gleði  og líf.

Fjallsbyggðin í Monte hófst á 19. öld þegar ríkir Evrópumenn reistu hallir þar efra, yfir 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Montehöllin er eitt þessara húsa sem á sér mikla sögu, var um tíma hótel og komst svo í eigu fólks sem vildi varðveita gróðurvin fyrri eigenda. Rétt neðan við fjallskirkjuna er glæsilegur grasagarður, Monte Palace Tropical Garden. Þar er gróðurparadís með lækjum og fossum, skemmtilegum mósaíkskiltum portúgalskrar sögu, japönskum brúm og áhugaverðum listaverkum. Mér þótti merkilegt að koma í þessa vin fegurðar, sögu og ríkulegs samhengis á allra heilagra messu. Lífið sækir fram. Friðurinn í Monte er nærandi og Madeira er heillandi. 

Slaufurnar mínar

Það er munur á handhnýttu slaufunum og drengjaslaufunum, sem er smellt á kraga með smellu eða teygju. Slaufumenn veraldar hafa oftast fyrir því að læra að binda slaufunnar. Smátt og smátt verður fléttuhandverkið að vana og hægt að binda blindandi og óháð aðstæðum. Oft eru þeir vönu kallaðir til í neyðartilvikum, t.d. við hjónavígslur! Tilefnum fyrir slaufunotkun hefur fækkað síðari árin en alltaf er nú spennandi að standa við rekkann og velja slaufu fyrir tilefnið. Hver slaufa á sér samhengi, oft gefanda sem ég hugsa til og þakka, oft tengingar við einhverja mikilvæga viðburði sem ég minnist. Slaufurnar mínar eru því tilfinningabúnt og minna mig á svo margt frá liðinni ævi.  Það væri skemmtilegt verkefni að skrifa örsögu hverrar slaufu. Það gæti orðið litrík dramaflétta. Hugmynd að örsögusafni, smásagnasafni, ævisögu eða bara bullbókverki? Svo hanga þessar hvíslandi söguverur, n.k. minnisfléttur, á diskarekka ömmu og afa. Mér þykir gott að hugsa til þeirra líka, hugsa um uppvöxt pabba undir þessum rekka í litlu koti á Grímsstaðaholti og leyfa minningum um fólk og áhrif þess líða um hugann.  Litlu, ljósu smelluslaufurnar efst í rekkanum eru frá bernsku minni. Það eru nú aldeilis tilfinningar í þeim og þykk saga. Morgunsólin skín fallega inn ganginn og kyssir slaufurnar blíðlega. Þær eru til í gleði dagsins, talandi fortíð og til í ný ævintýri. 

Jerúsalem shashuka

Við Ísak vorum í puði og útréttingum fyrri hluta dags og komum svangir heim. Shaskuka í Jerúsalem leitaði á huga minn. Til voru egg, laukur og paprikur í ísskápnum og flest sem þarf í shashuka. Við áttum líka alvöru grískan feta og dill. Eftir hálftíma vorum við farnir að borða þennan litríka undramat, ekki síðri en við Jaffahliðið í Zíon. Hér er uppskriftin

Fyrir 4

Hráefni:

  • 2–3 msk ólífuolía
  • 1 meðalstór laukur saxaður
  • 2 paprikur (rauð eða gul), skornar í ræmur
  • 3 hvítlauksrif fínt söxuð
  • 1 tsk kúmen mulið
  • 1 tsk paprikuduft (reykt ef til er)
  • ¼ tsk cayennepipar (eða eftir smekk)
  • 1 dós (400 g) saxaðir tómatar
  • 1 msk tómatþykkni
  • Salt og nýmalaður svartur pipar
  • 4–6 egg
  • Handfylli af dilli, kóríander eða steinselju

Matseld:

  1. Hitið olíu í stórri pönnu á miðlungshita. Steikið laukinn í 5–6 mínútur, þar til hann verður mjúkur.
  2. Bætið papriku og hvítlauk út í og steikið áfram í um 8 mínútur, þar til paprikan er orðin mjúk.
  3. Kryddið: Kúmen, paprikuduft og cayenne. Hrærið í 1–2 mínútur til að kryddið opnist í olíunni.
  4. Bætið tómötum og tómatþykkni út í. Látið malla í 10–15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og ilmsterk. Smakkið til með salti og pipar.
  5. Gerið holur í sósuna og brjótið eggin varlega ofan í. Ýtið við hvítunni yfir í rautt umhverfið svo eggjahvítan steikist og hvítni alveg. Hyljið pönnuna og eldið á lágum hita í 7–10 mínútur, þar til eggjahvítan hefur stífnað en rauðan er enn mjúk.
  6. Stráið ferskum jurtum og muldum fetaosti yfir áður en borið er fram.

Ljómandi að nota snittubrauð til að skófla upp sósu – þetta sem Ítalir kalla scarpeda. Það er líka hægt að nota jógurt eða labneh í stað fetaostsins. Matreiðslan og hráefnanotkunin er opin og kallar á hugvit og spuna.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.