Greinasafn fyrir merki: siðferði

Eru eignir einkamál

Hversu miklar eignir áttu? Má spyrja þig svona spurningar? Tilgangurinn er ekki að fá tölur eða upplýsingar um fasteignir heldur biðja þig að íhuga afstöðu þína til eigna þinna og stöðu þinnar. Hver er lífsleikni þín og hvaða afstöðu opinberar peningahyggja þín?

Við megum gjarnan spyrja okkur líka hvort það sé einkamál fólks hversu ríkt það er? Skatturinn telur að svo sé ekki og þú eigir að gefa allt upp, það sem þú átt innanlands en líka í skattaskjólunum – allt þitt. Og hvað gerir þú við þetta fé? Ef þú átt hundrað milljónir er það ekki bara einkamál þitt hvernig þú notar þær? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga?

Til hvers eru eignir? Getur verið að við höfum skyldu að gegna gagnvart einhverjum öðrum en sjálfum okkur varðandi peninga okkar og fjármuni? Það er hagnýtt að draga í þessu sambandi fram andstæðuna og slagorð frá liðinni öld: Löglegt en siðlaust. Það er löglegt að hugsa bara um sjálfan sig í notkun fjár en það er hins vegar siðlaust að hugsa bara um sjálfan sig og gleyma öllum hinum. Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð eigna, já hvernig við lifum. Löglegt og siðlegt er andi kristninnar.

Fjármálasnillingurinn Jesús

Guðspjall dagsins er um eignir og og notkun þeirra. Og það hét á gömlu tungumáli Biblíunnar, ráðsmennska. Jesús segir sögu, eina af 38 dæmi- eða líkingasögum sem miðlað er í Nýja testamentinu. Og merkilegt er að Jesús talaði enga lífsfjarlæga himnesku heldur notaði hann ræðutíma sinn og fræðslustundir til að vekja fólk til vitundar um hagnýt mál og að það skipti máli hvernig við lifum, hugsum, tölum og störfum. Mörgum, sem lesa í Biblíunni, kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum! Jesús hugsaði um peninga, talaði um þá og var merkilegur fjármálaspekulant. Hann vakti athygli á hagfræði og hefði verið flottur í tímum viðskipta- og hagfræðideilda heimsins.  

Í guðspjalli þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður að því að fara illa með og fyrirtækið sem hann stýrði var í vondum málum. Honum var sagt upp en mátti vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat því ákveðið með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann gafst ekki upp heldur sýndi snilldartakta, sem ekki voru þó í þágu húsbóndans heldur hans sjálfs. Hann kallaði í alla, sem skulduðu eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Og hver var tilgangurinn. Jú, karlinn gerði sér grein fyrir að staða hans yrði skelfileg þegar vinnutími yrði búinn. Hann yrði atvinnulaus og allir vanvirtu hann og sneru við honum baki. Hann var því fljótur að hugsa og ákvað að nota þennan uppsagnartíma í eigin þágu, láta eigandann blæða en hann sjálfur myndi græða. Tilgangurinn með skuldaafskriftunum var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu. Ameríkanar hafa löngum notað málsháttinn: „Scratch my back and I´ll scratch yours.“ Merkingin er einföld: „Gerðu mér greiða og ég endurgeld greiðann.“ Og það var og er inngreypt í fólk að þetta sé eðlilegt lögmál í samskiptum. Ég varð einu sinni vitni að því að maður vildi innheimta greiða sem hann hafði gert öðrum en beiðni hans var hafnað. Hann var furðu lostinn yfir að geta ekki sjálkrafa kallað á endurgjaldið eins og það væri í einhverju bandi sem hægt væri að kippa í.

Trúmennska og heiðarleiki

Jesús minir fólk á með sögu dagsins að gæta raunveruleikans og horfa á fólk með raunsæi. Orð Jesú, boðskapur hans er: Fyrir alla muni verið ekki kjánar, bláeyg börn, heilagir sakleysingjar. Verið vakandi gagnvart fólki! Og eigum við að hlusta á þessa Jesúspeki. Já, margir, jafnvel flestir eru aðeins með hugann við eigin hag, eigin dýrð, eigin fjármuni og velferð og láta sig litlu skipta um aðra. Flestir eru sjálfhverfir. Jesús talar því enga himnesku um eitthvað sem er ótengt lífinu. Trú á að vera raunhæf, með báða fætur á jörð og í veruleika mannlífsins. Ljóssins börn eiga að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margslungið. 

Jesús segir merkilega örsögu, sem fólk veit ekki hvort er ýkjusaga, brandari eða spekisaga. Fólk veit ekki hvort á að bregðast við henni með því  að hlægja eða taka hana alvarlega. En af því hún er tvíræð er hún áleitin og umhugsunarverð. Skilaboð Jesú virðast vera: Fylgist vel með hinum undirförulu. Verið það sem þau eru ekki, gerið ekki það sem þau gera. Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu. Þá verður til fjársjóður á himnum. Fylgist með Donald Trump, með Erdogan, með viðskiptamógúlunum, með stjórnmálamönnunum, hinum ríku, yfirvöldum, stjórnendum, embættismönnum – öllum sem hafa möguleika til að hagnýta sér aðstæður. Er allt gott og farsælt, sem þau gera. Misnota einhver vald sitt? Kunna þau að klóra breiðu bökin?

Markmið eða tæki

Kristnin hefur kennt allt frá tíma Jesú að fólk á að ekki að vera þrælar eigna sinna og aðstöðu heldur nota í þágu lífsins, í þágu allra, ekki síst þeirra sem eru þurfandi. Sannur yfirmaður lætur stjórnast af lífsafstöðu og góðu siðferði. Um allar aldir hefur það verið skýr og einfaldur Jesúleg lífsviska að tengja völd og gott siðferði. Hvort sem höfðingarnir vildu eða ekki. Það var og á að vera yfirmönnum og undirmönnum kristileg skylda að vera kunnáttusöm í lífsleikni og siðferði.

Er siðfræðin vanvirt sem uppistaða þroskaðrar lífsleikni? Við getum efast um að einhver siðferðisvídd sé fólgin í orðunum fjármagnseigandi, fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja þó að farsæl stjórn fólks og fjár verður aldrei án gilda. Siðlaus stjórn drepur og veldur aðeins óbærilegri þjáningu. Stórfyrirtæki og stjórnvöld í Evrópu, Ameríku og um víða veröld setja sér því orðið siðareglur vegna þess að siðsemi – í viðskipum, stjórnun hvers konar -borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki sem ætla að lifa lengur en nokkur ár verða og ættu að setja skýrar reglur um viðmið, ferla og mörk.

Jesús dregur fram hve viðskipti eru lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé og brugðist þar með störfum sínum og hlutverkum. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlæti fótum troðið. Guðfræði er til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Og trú er iðkandi lífsafstaða sem leyfir skarpskygni og siðvit varðandi hlutverk fólks í heimi og framtíð. Að trúa merkir ekki að tapa sér í einhverri himneskri glópsku, heldur að trúmaðurinn læri að horfa á heiminn með augum Guðs og vera samverkamaður og Guðs í veröldinni.

Hlutverk okkar er að vera sólarmegin og rækta með okkur líf og gæði. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru.

9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Textaröð A

Eftirlýstur

Fyrir þremur vikum slapp fangi úr haldi lögreglu við dómhúsið við Lækjartorg og hljóp lögregluna af sér. Lýst var eftir honum og leitin var áköf. Saklaus unglingur varð m.a. tvisvar fyrir að lögreglan hélt að hann væri hinn eftirlýsti sakamaður. „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Það var lýsingin á fangamissi og fangafundi. Eftirlýstur – og þessir viðburðir rifjuðu upp fyrir mér hálfrar aldar eftirlýsingu, auglýsingaplakat, sem við, unglingarnir í Neskirkju, gerðum af miklum metnaði. Þetta var á hippaárunum þegar Jesúfólkið erlendis hélt á lofti myndum af öðru vísi Jesú en í kirkjunum. Það voru myndir af andófsjesú, þessum sem þorði að vera öðru vísi. Og þannig hafði Jesús verið en rímaði líka við draum og hugsjónir fólks um ábyrgð í samfélagi, þor til að vera í samræmi við dýpri viðmið. Svo var sá Jesús auðvitað líka vörpun á draumum okkar unglinganna, sem gerðum uppsteit gegn foreldrum og uppreisn gegn hátterni eldri kynslóðarinnar. Svoleiðis uppreisnarjesús var spennandi. Eftirlýstur Jesús Kristur.

Þetta var snemma vors árið 1972 og efnt var til „Jesúmessu“ í Neskirkju við Hagatorg. Prestur og æskulýðsleiðtogar kirkjunnar virkjuðu okkur ungviðið til verka og hvöttu til dáða. Við Jónas Þórir, síðar organisti og tónlistarjöfur, vorum stórhuga og efndum til hátíðar unga fólksins á fyrsta sunnudagskvöldinu í mars. Það voru engin vandræði með kirkjusóknina. Unglingarnir í hverfinu komu og fylltu kirkjuna. Yfirskriftin var: Eftirlýstur Jesús Kristur. Fjöldi unglinga ræddi um trú sína, las ljóð, söng og spilaði. Kalli Sighvats í Trúbrot lánaði Hammondorgel sitt, sem var þá Rollsinn í poppheiminum. Hammondinn bilaði þó reyndar í miðju lagi, okkur Jónasi Þóri, sem stýrðum samkominni, til mikillar hrellingar. Sóknarnefndin var talsvert stressuð yfir látunum og aðsókninni og óttaðist að allt færi úr böndum. En okkur Jónasi Þóri var þó treyst og við höfðum m.a. hannað og fengið prentað plakat til auglýsinga, til dreifingar í hverfinu og upphenginga í kirkjunni. Þetta var flott plakat með lýsingum á hinum eftirlýsta rétt eins og krimma í villta vestrinu. Eftirlýstur Jesús Kristur. Svo var þarna líka felumynd af Jesú. Plakatið vakti mikla hrifningu og prentað í mörgum grunnlitum. Það lá við slagsmálum í lokin þegar fólk fékk að ná sér í eintak af vegg kirkjunnar. Þessi plaköt voru síðan hengd upp í hundruðum unglingaherbergja í Reykjavík.

Eftirlýstur Jesús Kristur. Á öllum tímum er hann eftirlýstur; um hann rætt; hvort hann sé týndur eða dáinn; hvort hann tengist samtímanum; hvers eðlis tengslin við hann geti verið og hvaða gildi hann hafi á hverri tíð. Í dag verður málþing í Hallgrímskirkju um málefni fanga og tilgang fangavistar. Fangar og Jesús eiga reyndar margt sameiginlegt, m.a. að hafa verið stungið í steininn! Jesús komst reyndar út úr grjótinu og fangar vilja eiga afturkvæmt úr fangelsi, ekki aðeins úr húsi heldur líka til frelsis, nýrra möguleika og nýs lífs í samfélagi fólks. Fangar vilja fá að lifa upprisu í eigin lífi.

Að sjá og sjá ekki

Texti guðspjallsins er um eftirlýsingu. Það var auðvitað alveg rétt hjá Jesú sem hann sagði við vini sína, lærisveinana: „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Þessir samverkamenn Jesú skildu ekki orð hans fyrr en þeir sáu heildarmyndina löngu síðar. „Þið sjáið mig ekki en svo munuð þið sjá mig að nýju.“ Hvað átti Jesús við með þessu? Hvað meinti hann með að hann færi til föðurins og kæmi svo til baka? Jesús áttaði sig á að alls konar falsfréttir breiddust út. Jesús bað því fólk að að hlusta vel. Sjálfur vissi hann að hann var eftirlýstur af yfirvöldum. Stjórnvöld vildu ná honum og ekki aðeins stinga honum í steininn, heldur beinlínis ryðja honum úr vegi. En Jesús Kristur sá lengra. Hann þekkti framvinduna og vissi að meira væri í vændum en pyntingar og aftaka. Síðan skýrði hann út fyrir lærisveinunum hvað það merkti að innan skamms myndu þeir ekki sjá hann en svo innan skamms sæju þeir að nýju. Það yrði þeim sorgarefni þegar hann færi og þau, sem vildu hinni ungu hreyfinu Jesú Krists illt, myndu fagna. En líkt og við barnsfæðingu er fagnað þegar barnið er fætt og lifir getur hið vonda orðið til góðs.

Jesúmyndir

Á plakatinu sem prentað var fyrir Neskirkju fyrir fimmtíu árum var mynd af Jesú Kristi. Það var felumynd, sem varð ekki sýnileg eða augljós nema fólk staldraði við og skoðaði vel. Hún á sér þá sögu að ljósmyndari var að taka myndir af bráðnandi snjó að vori. Þegar hann fixeraði myndirnar sá hann allt í einu hvernig mannsmynd birtist á ljósmyndablaðinu. Það var mynd af síðhærðum, che guevarískum, skeggjuðum Jesú Kristi. Þetta var ekki það sem myndasmiðurinn átti von á og honum varð svo mikið um að sjá þennan Jesú Krist birtast sér við framköllunina að myndbirtingin breytti lífi hans.

Plakat okkar unglinganna í Neskirkju vakti hrifningu. Plakatið var tvírætt, kveikti í fólki og virkjaði ímyndunaraflið. Svo var Jesús Kristur eftirlýstur. Þannig er hann á hverri tíð. Sumir vilja Jesú Krist dauðan eða úthýsa honum úr lífi og menningu. En aðrir gera sér grein fyrir að Guð er uppspretta lífs. Í krafti Jesú Krists er allt líf þessa safnaðar. Í hans mætti störfum við prestar og starfsmenn þessarar kirkju. Í krafti mannvinsemdar Jesú Krists lýsum við eftir góðu samfélagi, mýkt í tengslum og ábyrgð í afstöðu til fólks, náttúru og heims. Hvað merkir að sjá ekki Jesú lengur? Hvenær sjáum við hann og með hvað móti sjáum við hann eins og hann er? Er Jesús Kristur lifandi bróðir og samfylgdarmaður? Eða er hann eftirlýstur? Hvaða hlutverki gegnir Jesús Kristur í lífi þínu? Hver er Jesúmyndin í þínum huga?

Við erum eftirlýst

Við höfum tilhneigingu til að hengja þungar byrðar lífsins á þunna þræði. Það sem við höldum að geri okkur hamingjusöm slítur oft böndin. Þá verða áföll sem oft valda innanmeinum. Við þurfum að læra listina að greina hvað er raunverulega til hamingju, friðar, gleði og farsældar og hengja þau gæði ekki á þunna þræði. Hver er þrá þín? Eftir hverju lýsir þú í lífinu? Eftir hverju sækist þú? Hvernig væri að skoða mál lífsins með nýjum hætti? Við getum og megum gjarnan snúa öllu við og hugsa út frá betri forsendum og róttækari sjónarhóli. Jesús Kristur er ekki eftirlýstur heldur lýsir eftir okkur og að við sjáum hans ljós og lifum í því ljósi. Við erum eftirlýst. Guð vill vera okkar vinur og tengjast okkur ástarböndum. Það eru hin þykku bönd sem hvorki fangelsa né bresta á álagstímum. Þráðurinn að ofan. Lífsbönd ástar og umhyggju. Amen. 

Prédikun í Hallgrímskirkju, 8. maí, 2022, 3. sunnudag eftir páska.

 

Júlía og jurtirnar

Í dag skírði ég Júlíu Ósk sem býr í húsinu í grænmetisgarðinum hennar mömmu við Tómasarhaga í Reykjavík. Júlía Ósk tók svo sannarlega þátt í skírninni, setti hendina í vatnið og var vel áttuð. Mamma hefði haft gleði og gaman af þessari efnilegu og ákveðnu konu. Og mér þótti afar vænt um að fá að vitja hennar, fjölskyldu hennar og hússins sem var byggt í þessum garði bernsku minnar. Hugurinn leitaði aftur.

Garðurinn var gróðurvin hverfisins frá miðri tuttugustu öld og frægur fyrir gæðakál, ofurrófur og gulrætur sem krakkarnir í nágrenninu laumuðust í. Mamma skammaðist ekki yfir rófnastuldi heldur taldi þvert á móti mikilvægt að koma vítamíni í ungviðið. Svo var í garðinum ræktað alls konar vel ilmandi krydd og fjöldi kartöflutegunda því mamma var tilraunakona eins og góðir ræktunarmenn eru. Hún hreifst af fjölbreytileika og litríki gróðurs og mannlífs. Þegar mamma hafði ræktað í garðinum í hálfa öld seldi hún lóðina, fylgdist svo með húsbyggingu og blessaði framtíðaríbúa. Mér þykir vænt um að fá að skíra fallega stúlku sem þar býr nú, ausa hana vatni, biðja henni blessunar sem og fjölskyldu hennar. Hún er óskabarn.

Garðrækt mömmu vakti athygli og Þjóðviljinn flutti þá fregn, að kona í Vestubænum ræktaði dýrustu karftöflur á Íslandi. Blaðið birti mynd af garðinum á dýrmætri byggingarlóð við Tómasarhagann og því augljóst að konan var mamma. Verktakar og lóðaþurfandi framkvæmdamenn komu í röðum og báðu um lóðina. Pabbi vísaði þeim brosandi á mömmu. Svo hringdu aðrir og spurðu hvort þeir gætu ekki fengið þessa óbyggðu lóð. Og enn vísaði pabbi á mömmu. Þar fengu framkvæmdamenn heimsins fullkomlega skýr svör. Nei, þeir gætu ekki fengið þessa lóð af því að hún væri notuð til kartöflu- og kál-ræktar. „En hættið þið ekki bráðum þessari garðrækt, þetta er jú byggingarlóð?“ „Nei,“ sagði mamma ákveðin. „En gætuð þið ekki fengið betra garðaland hjá borginni?“ spurðu þeir enn. „Nei,“ svaraði mamma alveg skýrt. Það var alveg sama hvað skynsemi heimsins spurði um, hvað byggingamennirnir buðu og hvað praktískt hyggjuvitið bar upp. Garðurinn var ekki falur fyrir byggingu af steinsteypu og járni, heldur viðkvæmar byggingar jurta, sem nutu verndar, athygli, ástúðar og elsku mömmu.

Við pabbi og Kristín systir vorum vön atlögum hinna lóðargírugu og kipptum okkur ekki upp við áganginn. En svo komst ég að því að nágrannarnir gerðu grín að mömmu. Krakkarnir báru þessar fréttir og miðluðu af kostgæfni böðulsins. „Mamma þín er skrítin því hún ræktar kartöflur. Getur hún ekki keypt þær út í búð eins og mömmur okkar? Eða kálið? Það fæst líka í KRON.“ Þegar við systkin bárum upp þessi eineltisefni settist mamma niður með syni og dóttur við eldhúsborðið og skýrði málið. Mamma var eldri en flestar hinar mömmurnar og hún hafði líka þroskað með sér stefnu og lífsleikni. Hún tilkynnti okkur slök og með hlýju í augum að henni væri alveg sama um hvað fólki fyndist um svona ræktun. Hún skýrði út að fólkið í sumum húsunum við götuna héldi að það væri fínna að vinna ekki moldarvinnu og vera ekki eins og fólkið í sveitinni. En því miður hefði það bara ekki skilið meira og verið þroskaðra en þetta. Svo hló mamma bara að Þjóðviljanum og nágrannaviljanum. Hún væri ræktunarkona sem hefði gaman af jurtunum og að auki væri það gott fæði sem hún byggi til. Hún væri frjáls, veldi sér atvinnu, sparaði heimilinu peninga sem við gætum notað í eitthvað skemmtilegt í stað þess að kaupa kartöflur og kál.

Þá var það skýrt og klárt. Mamma notaði tækifærið til að kenna eðli smáborgaraháttarins, mikilvægi góðrar næringar, neysluvenjur, rekstur heimilis og mikilvægi frelsis og sjálfstæðis. Svo ræktaði hún sitt dýra kál, seldi í KRON og Sölufélag garðyrkjumanna og sauð niður afganginn til vetrarins. Mamma var græn í hugsun og svo var það auðvitað alveg sjálfgefið að Guð elskaði afstöðu hennar og starf. Kartöflurnar hennar voru betri en annarra, kálið hennar stórvaxnara og ljúffengara en í búðinni. Mamma var í leynibandalagi með Guði, sem skapar og elskar fólk sem ræktar og hefur áhuga á lífríkinu. Svo fengu nágrannarnir sendingu úr garðinu þegar haustaði, ekki til að breyta hugsun þeirra, heldur af því maður deilir með öðrum gæðum garðs og heims. Ræktun er siðlegt mál og félagslegt.

Svo var ramakvein og harmað á Tómasarhaganum þegar mamma nálgaðist nírætt og treysti sér ekki lengur til rækta í öllum 500 fermetrunum eins og áður. Þá tók hún skrefið og seldi garðinn. En hún átti enn horn í gömlu lóð afa míns og ömmu, Litlabæjarlóðinni. Mamma tók svo upp úr þremur kartöflubeðum síðasta haustið sem hún lifði! Grænt er sálarvænt.

Guðspjall dagsins og boðskapur Biblíunnar varðar líf og ræktun og að mannlífið væri tengt lífgjöf Guðs. Mamma þekkti gleðiboðskap Jesú að lífið þarfnast næringar og alúðar. Plöntur og menn þarfnast heilbrigðs samhengis. Menn þrífast best þegar flæði lífsnæringar er óheft. Guð ræktar vel og mennirnir njóta. Skírnarþegi dagsins er alinn upp í ræktuðu samhengi garðsins hennar mömmu. Í moldinni urðu máttarverk, allt ræktaðist vel og hluti af áburðinum voru elskulegar bænir móður minnar. Júlía Ósk er blessuð í dag og fjölskylda hennar líka. Ég held að græn elska mömmu lifi enn og bænirnar hennar skili enn blessun. Já blessun fylgi Júlíu sem er óskabarn og öllu hennar góða fólki. Ræktunin heldur áfram.

Brauðið dýra og önnur brauð

Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir metfé. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér! 
 
Hljóðskrá prédikunar í Hallgrímskirkju 14. mars er að baki þessari smellu.
 
Textinn er svo hér að neðan. 2021 14. mars.
Fjórði sunnudagur í föstu.
 

Faðir minn var bókamaður og aðdáandi Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi. Hann hafði einfaldan smekk í jólagjafamálum sem létti líf okkar fjölskyldunnar. Hann óskaði sér alltaf bókar eftir Laxnes. Jóladagana sat hann svo glottandi og kumrandi yfir kúnstugum sögum frá stílmeistaranum og orðhaganum í Gljúfrasteini.

Ein jólin fékk hann Innansveitarkrónikuna sem lá lengi á borðinu við hlið lestarstóls pabba. Ég kíkti svo í hana. Í bókinni er merkileg saga sem var reyndar gefin út sér, umrituð og lagfærð lítillega. Það er sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá Guðrúnu Jónsdóttur sem var vinnukona prestsins í Mosfelli. Henni var treyst til að fara með brauðdeig í seyðslu á hverasvæði í Mosfellsdal. Brauðferðirnar voru ábyrgðarmál og jafnvel hættulegt starf vegna hitans á þessu svæði risabökunarofns. En Guðrún tók upp seydda brauðið þegar það var fullbakað og kom nýju deigi fyrir. Sagan segir að þegar hún hafði eitt sinn tekið upp stórt brauð var komin þoka þegar hún ætlaði heim. Hún var svo dimm að Guðrún villtist og var týnd í þrjá sólarhringa. Hún fór víða um Mosfellsheiði með stóran brauðhleifinn. Að lokum komst hún heim og fólki til furðu hafði hún ekki borðað af brauðinu. Þegar hún var spurð af hverju svaraði hún: „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Sem sé, hún braut ekki brauðið til að nærast. Rigningarvatnið var það eina sem hún setti upp í sig á þesari löngu göngu. Af hverju bar hún fæðuna en notaði hana ekki sér til styrktar og lífs? Hún var jafnvel búin að krafsa erfðaskrá sína í moldarbarð þar sem hún lagðist fyrir svo ljóst var að hún var hrædd um líf sitt. En hún borðaði ekki brauðið. Var ástæðan þrællyndi, blind hlýðni við reglur? Nei, það var siðferðisstyrkur. Guðrún bar virðingu fyrir verkefni sínu, skyldum sínum, vera trú því sem henni var trúað fyrir. Halldór Laxnes hafði eftir Guðrúnu: „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Enginn hefði álasað Guðrúnu að hafa matarlaus og vegna svengdar borðað brauðið á þessari löngu villuför. En það gerði hún ekki. Það var ekki í samræmi við siðferði hennar, vinnuafstöðu, skyldusýn og lífsafstöðu. „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ „Getur nokkur nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér?“ Innrætið skiptir sem sé máli.

Sagan um brauðið dýra varðar lífsafstöðu og rímar við áherslur í textum dagsins. Hvað er satt? Hvað er mikilvægt? Hver er lífsafstaða okkar? Er mikilvægt að tileinka sér siðferði eða er bara best láta reka stefnulaust? Þessi látlausa en litríka saga úr Mosfellssveit lýsir afstöðu og siðferði. Að konan skyldi ekki í hungri sínu kroppa úr brauðinu er ótrúlegt. Sagan er eins og dæmisaga úr safni Jesú. Atburðarásin er ydduð og ótrúleg svo tilheyrendur geri sér grein fyrir að boðskapurinn sé mikilvægur og eftirtektarverður. Og hver er hann? Siðferði – mikilvægi þess að axla ábyrgð, láta ekki eigin hag eða græðgi stjórna öllu. Heilindi.

Í siðferðisglundroða og sýndarsiðferði sýnist mörgum skylda að reyna að ná brauðunum, athyglinni, peningum, völdum og viðhlægjendum. Þá er sannleikurinn ekki við völd né heldur siðferði. Ekki þarf lengi að skygnast um í vestrænum samfélögum til að sjá að sjálfhverfir lukkuriddarar sæki í gæðin. Tveir síðstu áratugir hafa á Vesturlöndum verið blómatími hinna sjálfhverfu sem vilja gleypa allt. Það er fólkið með sjálfsástarröskun, narcissistarnir siðblekktu. Þegar fólk er ekki meðvitað um aðsóknina vandast málið og margt fer illa í rekstri peningastofnana, fyrirtækja og samfélaga þegar þeir ná tökunum. Sjáflhverfungarnir með sjálfsástarröskunina leita í valdastofnanir, stjórnmál og peningastofnanir. Norskir vinir mínir hafa sagt mér að þar í landi sé reiknað með að siðblekktir eða siðblindir menn séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar. Af því að sjálfhverfungar reynialltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð sé nauðsylegt að beita síunarkerfum í ráðningum og stífu eftirliti. Sjálfhverfungarnir borða alltaf allt brauðið og skila engu úr ferðum lífsins. Þeir koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra.

Í dag er brauðdagur í kirkjuárinu. Á fjórða sunnudegi í föstu er minnt á brauð lífsins. Brauð var og er tákn um líf. Kirkjur eru brauðhús. Í kirkjuhefðinni er talað um brotningu brauðs. Jesús var veislukarl og útdeildi brauði til næringar. Í miðju kirkna heimsins er borð sem kallar fólk til samfélags, samtals og veislu. Textar dagsins varða brauðið á því borði og tjá áherslumál Jesú og þar með lífsafstöðu trúmanna. Brauð í Gamla testamentinu var forsenda að áherslur Jesú á brauð lífsins skildust. En Jesús talaði sumt í gátum og annað í dæmisögum til að opna vitund fólks fyrir hvað skipti máli, til hvers lífið væri, hvernig fólk gæti lifað og notið lífsgæða. Við erum minnt á að svengd fólks í vanda er mætt með næringu. Daglegt brauð er eiginlega daglegt kraftaverk. Fólk í vanda í lexíunni og skipverjar í nauðum í pistlinum fá mat, von og þeim var bjargað. Jesús byggði á reynslu þúsunda kynslóða og minnum úr hebresku samfélagi þegar hann talaði um brauð lífsins. Hann setti sjálfan sig í tákn- og raunsamhengi sveltandi fólks, skildi þorsta og svengd, lífgaði, veitti von og blessaði. Boðskapur hans var skýr, hann væri kominn frá Guði til að næra og gefa það sem fólk og heimur þarfnast til að geta notið lífsins.

Í kirkjulífi COVID-tímans er ekki hægt að brjóta brauðið. Bið er á að altarisgöngur hefjist að nýju. Sóttvarnarástæður eru ástæðan. En hlutverk kirkna er óbreytt. Það er að verja líf, vernda fólk og efla til lífsgæða. Þrátt fyrir að við brjótum ekki brauð og göngum ekki til altaris getum við svo sannarlega íhugað boðskap Jesú um brauð og líf. Í djúpi tímans, vestrænnar menningarinnar og pólitík er vaxandi skilningur á að ekkert samfélag og ekki heldur lífríkið þolir yfirráð sjálfhverfunganna. Æ fleiri skilja að ráð þeirra eru til dauða. Sannleika um lífið þarf að verja og siðferði verður að ráða för.

Í vikunni hreifst ég eins og margir aðrir af viðtölum við Harald Þorleifsson og lífsafstöðu hans. Haraldur stofnaði og byggði upp tæknifyrirtækið Ueno en seldi það svo til Twitter fyrir mikla fjármuni. Áður en hann seldi hringdi hann í konuna sína til að ræða um skattgreiðslur af sölunni. Hann hafði jú möguleika á að fara með peningana í skattaskjól. Í stuttu símtali komust þau hjónin að niðurstöðu. Þau ætluðu að flytja heim og koma með peningana með sér. Af hverju? Jú, vegna þess að þau vildu borga skatt af söluhagnaðinum á Íslandi. Ísland hefði gert Haraldi kleyft að menntast og hann hefði notið góðs heilbrigðiskerfi sem þjónaði honum vel í heilsuvanda hans. Íslenskt samfélag og stofnanir þess höfðu gert Haraldi kleyft að komast þangað sem hann er í dag. Sem sé þakklæti, ábyrgð, siðferði og þroskuð lífsafstaða. Hann hefði getað látið hagnaðinn hverfa, étið allt brauðið og ekki skilað neinu til uppeldissamfélags síns. En hann var trúr skyldum sínum og borgaði til uppeldissamfélags síns. Þetta er að vera samfélagslega ábyrgur. Og í vikunni urðum við vitni að frábæru verkefni sem Haraldur beitir sér fyrir. Hann er að rampa Reykjavík. Haraldur er í hjólastól og veit af eigin reynslu að bæta þarf hjólastólaaðgengi til að fólk komist með þokkalegu móti inn í fyrirtæki og verslanir. Haraldur fer ekki aðeins í brauðferðir sínar á hverasvæði heimsins heldur kemur úr ferðinni með brauð, ekki bara eitt heldur mörg.

Jesús Kristur reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur með því að útdeila brauði og gæðum. Ölturu í kirkjum minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig. Hinn kristni boðskapur er að allir megi njóta gæða. Það eru mannréttindi að allir fái notið fæðu. En boðskapur texta dagsins varðar ekki bara að fá að borða góðan mat heldur njóta hamingju, frelsis, mannréttinda og framtíðar. Brauð lífsins merkir líka að allir eigi að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt og gæðatengt er það líf sem okkur er boðið að lifa. 

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði. Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? „Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.“ Jesús Kristur frelsar líf, nærir og blessar. Og Guðrún Jónsdóttir axlaði ábyrgð sem er í samræmi við þroskaða samfélagssýn. Haraldur Þorleifsson sýndi siðvit og manndóm til fyrirmyndar. Við getum ekki sem einstaklingar bjargað heiminum en getum þó öll fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs. Að Jesús sé brauð lífsins og næring skilgreinir veröld okkar og lífsgæði. Við erum friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Við erum brauðberar Guðs. Amen

Fyrri ritningarlestur: 2 Kon 4.42-44
Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

Seinni ritningarlestur: Post 27.33-36
Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

Guðspjall: Jóh 6.52-58
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“ Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“