Greinasafn fyrir merki: Neskirkja

Rúnar Reynisson

Getur það verið? Er Rúnar Reynisson raunverulega sextugur? Það getur varla verið. Hann sem er eins og unglingur! Jú, mikið rétt hann fæddist á árinu 1962. Sextugur og sívökull öðlingur.

Ég vissi af Rúnari frá unglingsaldri en kynntist honum fyrst vel þegar við vorum báðir starfsmenn þjóðgarðins á Þingvöllum. Hann var landvörður, gekk í öll verk og var alltaf jafn brattur og ötull. Honum mátti treysta til smárra verka sem stórvirkja. Ég minnist næturvaktar fyrstu helgar í júlí þegar unglingarnir í Reykjavík fengu fyrstu útborgun sumarsins og ákváðu að breyta þjóðgarðinum í útihátíð. Þá var gott að njóta ráðsnilldar Rúnars. Hann horfði óhræddur í augu drukkinna unglinga og hjálpaði þeim að finna svefnpokana sína. Hann bognaði ekki undan hrópum dekraðs stráks úr bænum sem hótaði okkur að pabbi hans myndi reka okkur úr starfi á Þingvöllum. Pabbinn alvaldi kom og sótti son sinn og bað okkur margfaldlega afsökunar á látunum í syninum. Rúnar hélt húmornum í stórræðunum, lægði öldur, kom fólki til hjálpar og leysti alla hnúta greiðlega og farsællega. Á Þingvöllum varð Rúnar meira en landvörður, nánast landvættur. Þaðan í frá vissi ég að Rúnar væri lífslistamaður.

Það kom mér ekki á óvart að Rúnar varð skapandi kirkjumaður. Guðfræðinámið kom honum að gagni í fræðslustarfi kirkjunnar. Hann þorði að hugsa og spyrja nýrra spurninga um starfshætti kirkjunnar og guðfræði. Hann var í framvarðasveit þeirra sem efldu fjölskyldustarf þjóðkirkjunnar á níunda áratug síðustu aldar og síðan. Það var Nessöfnuði mikið happ að Rúnar kom til starfa í Neskirkju. Hann var og hefur verið burðarás í kirkjustarfi í Vesturbænum. Þegar sóknarnefnd og prestum Neskirkju varð ljóst hve fjölhæfur Rúnar var breyttist starf hans. Auk fjölskyldustarfsins var honum falið að stýra skrifstofu kirkjunnar. Skrifstofustjórinn Rúnar hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Neskirkju á þriðja áratug.

Ég var svo lánssamur að starfa með Rúnari í Neskirkju í áratug. Ég dáðist að geðprýði hans í miklum önnum, fjölþættum gáfum hans, óbrigðulum húmor, æðruleysi gagnvart kjánaskap samferðafólks eða sprikli okkar félaga hans, sköpunarkrafti og einbeittum metnaði hans fyrir hönd starfa sinna og safnaðar og heilindum og helgun í starfi.

Rúnar hefur alla tíð kunnað að tjá sig. Af því hann var frjór og íhugull greinandi hafa margar hugmyndir hans ratað í hugleiðingar og prédikanir presta Neskirkju. Margt af því sem Rúnar lagði til í fermingarfræðslu og öðru fræðslustarfi varð að veruleika af því hann gat útfært og sá leiðir.

Á seinni árum hefur Rúnar haft möguleika á að vinna að listsköpun. Tvær myndlistarsýningar hans í Neskirkju, eins og ólíkar og þær eru, hafa opinberað þroskaðan listamann.

Vegna þess hve náið við unnum saman í áratug fylgdist ég með fjölskyldumanninum Rúnari. Honum hefur alla tíð verið umhugað um að þjóna fólkinu sínu og gert með elskusemi og hlýju. Nú hefur hann komið börnum sínum til manns og manndóms. Ástin á heima hjá Rúnari.

Við sem höfum notið Rúnars Reynissonar eigum honum mikið að þakka – ekki aðeins samverkafólk í Neskirkju heldur söfnuður hennar, vesturbæingar og þjóðkirkjan. Fyrir hönd okkar Elínar Sigrúnar og fjölskyldu segi ég: Takk Rúnar Reynisson fyrir gjöfula samfylgd. Guð laun.

18. nóvember, 2022. Myndir sáþ.

Eftirlýstur

Fyrir þremur vikum slapp fangi úr haldi lögreglu við dómhúsið við Lækjartorg og hljóp lögregluna af sér. Lýst var eftir honum og leitin var áköf. Saklaus unglingur varð m.a. tvisvar fyrir að lögreglan hélt að hann væri hinn eftirlýsti sakamaður. „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Það var lýsingin á fangamissi og fangafundi. Eftirlýstur – og þessir viðburðir rifjuðu upp fyrir mér hálfrar aldar eftirlýsingu, auglýsingaplakat, sem við, unglingarnir í Neskirkju, gerðum af miklum metnaði. Þetta var á hippaárunum þegar Jesúfólkið erlendis hélt á lofti myndum af öðru vísi Jesú en í kirkjunum. Það voru myndir af andófsjesú, þessum sem þorði að vera öðru vísi. Og þannig hafði Jesús verið en rímaði líka við draum og hugsjónir fólks um ábyrgð í samfélagi, þor til að vera í samræmi við dýpri viðmið. Svo var sá Jesús auðvitað líka vörpun á draumum okkar unglinganna, sem gerðum uppsteit gegn foreldrum og uppreisn gegn hátterni eldri kynslóðarinnar. Svoleiðis uppreisnarjesús var spennandi. Eftirlýstur Jesús Kristur.

Þetta var snemma vors árið 1972 og efnt var til „Jesúmessu“ í Neskirkju við Hagatorg. Prestur og æskulýðsleiðtogar kirkjunnar virkjuðu okkur ungviðið til verka og hvöttu til dáða. Við Jónas Þórir, síðar organisti og tónlistarjöfur, vorum stórhuga og efndum til hátíðar unga fólksins á fyrsta sunnudagskvöldinu í mars. Það voru engin vandræði með kirkjusóknina. Unglingarnir í hverfinu komu og fylltu kirkjuna. Yfirskriftin var: Eftirlýstur Jesús Kristur. Fjöldi unglinga ræddi um trú sína, las ljóð, söng og spilaði. Kalli Sighvats í Trúbrot lánaði Hammondorgel sitt, sem var þá Rollsinn í poppheiminum. Hammondinn bilaði þó reyndar í miðju lagi, okkur Jónasi Þóri, sem stýrðum samkominni, til mikillar hrellingar. Sóknarnefndin var talsvert stressuð yfir látunum og aðsókninni og óttaðist að allt færi úr böndum. En okkur Jónasi Þóri var þó treyst og við höfðum m.a. hannað og fengið prentað plakat til auglýsinga, til dreifingar í hverfinu og upphenginga í kirkjunni. Þetta var flott plakat með lýsingum á hinum eftirlýsta rétt eins og krimma í villta vestrinu. Eftirlýstur Jesús Kristur. Svo var þarna líka felumynd af Jesú. Plakatið vakti mikla hrifningu og prentað í mörgum grunnlitum. Það lá við slagsmálum í lokin þegar fólk fékk að ná sér í eintak af vegg kirkjunnar. Þessi plaköt voru síðan hengd upp í hundruðum unglingaherbergja í Reykjavík.

Eftirlýstur Jesús Kristur. Á öllum tímum er hann eftirlýstur; um hann rætt; hvort hann sé týndur eða dáinn; hvort hann tengist samtímanum; hvers eðlis tengslin við hann geti verið og hvaða gildi hann hafi á hverri tíð. Í dag verður málþing í Hallgrímskirkju um málefni fanga og tilgang fangavistar. Fangar og Jesús eiga reyndar margt sameiginlegt, m.a. að hafa verið stungið í steininn! Jesús komst reyndar út úr grjótinu og fangar vilja eiga afturkvæmt úr fangelsi, ekki aðeins úr húsi heldur líka til frelsis, nýrra möguleika og nýs lífs í samfélagi fólks. Fangar vilja fá að lifa upprisu í eigin lífi.

Að sjá og sjá ekki

Texti guðspjallsins er um eftirlýsingu. Það var auðvitað alveg rétt hjá Jesú sem hann sagði við vini sína, lærisveinana: „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Þessir samverkamenn Jesú skildu ekki orð hans fyrr en þeir sáu heildarmyndina löngu síðar. „Þið sjáið mig ekki en svo munuð þið sjá mig að nýju.“ Hvað átti Jesús við með þessu? Hvað meinti hann með að hann færi til föðurins og kæmi svo til baka? Jesús áttaði sig á að alls konar falsfréttir breiddust út. Jesús bað því fólk að að hlusta vel. Sjálfur vissi hann að hann var eftirlýstur af yfirvöldum. Stjórnvöld vildu ná honum og ekki aðeins stinga honum í steininn, heldur beinlínis ryðja honum úr vegi. En Jesús Kristur sá lengra. Hann þekkti framvinduna og vissi að meira væri í vændum en pyntingar og aftaka. Síðan skýrði hann út fyrir lærisveinunum hvað það merkti að innan skamms myndu þeir ekki sjá hann en svo innan skamms sæju þeir að nýju. Það yrði þeim sorgarefni þegar hann færi og þau, sem vildu hinni ungu hreyfinu Jesú Krists illt, myndu fagna. En líkt og við barnsfæðingu er fagnað þegar barnið er fætt og lifir getur hið vonda orðið til góðs.

Jesúmyndir

Á plakatinu sem prentað var fyrir Neskirkju fyrir fimmtíu árum var mynd af Jesú Kristi. Það var felumynd, sem varð ekki sýnileg eða augljós nema fólk staldraði við og skoðaði vel. Hún á sér þá sögu að ljósmyndari var að taka myndir af bráðnandi snjó að vori. Þegar hann fixeraði myndirnar sá hann allt í einu hvernig mannsmynd birtist á ljósmyndablaðinu. Það var mynd af síðhærðum, che guevarískum, skeggjuðum Jesú Kristi. Þetta var ekki það sem myndasmiðurinn átti von á og honum varð svo mikið um að sjá þennan Jesú Krist birtast sér við framköllunina að myndbirtingin breytti lífi hans.

Plakat okkar unglinganna í Neskirkju vakti hrifningu. Plakatið var tvírætt, kveikti í fólki og virkjaði ímyndunaraflið. Svo var Jesús Kristur eftirlýstur. Þannig er hann á hverri tíð. Sumir vilja Jesú Krist dauðan eða úthýsa honum úr lífi og menningu. En aðrir gera sér grein fyrir að Guð er uppspretta lífs. Í krafti Jesú Krists er allt líf þessa safnaðar. Í hans mætti störfum við prestar og starfsmenn þessarar kirkju. Í krafti mannvinsemdar Jesú Krists lýsum við eftir góðu samfélagi, mýkt í tengslum og ábyrgð í afstöðu til fólks, náttúru og heims. Hvað merkir að sjá ekki Jesú lengur? Hvenær sjáum við hann og með hvað móti sjáum við hann eins og hann er? Er Jesús Kristur lifandi bróðir og samfylgdarmaður? Eða er hann eftirlýstur? Hvaða hlutverki gegnir Jesús Kristur í lífi þínu? Hver er Jesúmyndin í þínum huga?

Við erum eftirlýst

Við höfum tilhneigingu til að hengja þungar byrðar lífsins á þunna þræði. Það sem við höldum að geri okkur hamingjusöm slítur oft böndin. Þá verða áföll sem oft valda innanmeinum. Við þurfum að læra listina að greina hvað er raunverulega til hamingju, friðar, gleði og farsældar og hengja þau gæði ekki á þunna þræði. Hver er þrá þín? Eftir hverju lýsir þú í lífinu? Eftir hverju sækist þú? Hvernig væri að skoða mál lífsins með nýjum hætti? Við getum og megum gjarnan snúa öllu við og hugsa út frá betri forsendum og róttækari sjónarhóli. Jesús Kristur er ekki eftirlýstur heldur lýsir eftir okkur og að við sjáum hans ljós og lifum í því ljósi. Við erum eftirlýst. Guð vill vera okkar vinur og tengjast okkur ástarböndum. Það eru hin þykku bönd sem hvorki fangelsa né bresta á álagstímum. Þráðurinn að ofan. Lífsbönd ástar og umhyggju. Amen. 

Prédikun í Hallgrímskirkju, 8. maí, 2022, 3. sunnudag eftir páska.

 

Neskirkja, sókn, bygging og líf

Kona, sem kom í Neskirkju, leit í kringum sig og sagði: ”Þetta er falleg kirkja. Hún er svo stílhrein, ekkert auka sem flækir.” Ungur drengur stóð við kórtröppurnar skömmu síðar og sagði hugsi: ”Þessi kirkja er ekki eins og kirkja á að vera.” Og af því honum þótti kirkjan ekki nægilega kirkjuleg væri hún þar með ekki heldur falleg. Hvenær er kirkja fögur? Smekkur fólks er mismunandi og því er afstaða þess til fegurðar kirkju með ýmsu og ólíku móti. Um húsgæði má deila og líka hafa á þeim mismunandi skoðanir. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Neskirkja er því fallegt hús því hún er hús Guðs. En að auki er kirkjuhúsið einnig merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn. 

Sérstæð en hentug kirkja

Neskirkja hefur gjarnan verið nefnd fyrsta nútímakirkjan á Íslandi. Á byggingartíma og fyrstu árum þótti hún framúrstefnuleg og ókirkjuleg. En þeim, sem sækja helgihald Neskirkju og kynnast henni, ber saman um að hún er meira en tískubóla og þolir vel harða smekkdóma tíðanna.

Kirkjan er nú friðlýst hið ytra, enda þykir bygging hennar marka tímamót í íslenskri byggingarsögu. Efnt var til samkeppni um teikningu kirkjunnar árið 1944 og hlaut Ágúst Pálsson, húsameistari, fyrstu verðlaun. Ekki var þó byggt eftir frumtillögunni því margir óttuðust, að söfnuðurinn myndi ekki geta staðið straum af kostnaðinum við stora byggingu. Ágúst var því beðinn að minnka breyta upprunalegri tillögu og minnka bygginguna. Hann varð við beiðninni og byggingaframkvæmdir hófust árið 1952 og stóðu í fimm ár. Neskirkja var vígð á pálmasunnudegi 1957 og pálmasunnudagur þar með kirkjudagur hennar.

Mörgum þótti tillaga Ágústs sérstæð, enda er kirkjan ósamhvef, asymmetrísk. Aðalinngangur kirkjunnar er frá norðri en ekki vestri eins og í flestum kirkjum á Íslandi. Blaðadeilur urðu um byggingarskipulagið. Fullbyggt þótti flestum kirkjuhúsið nýstárlegt, rúmgott og húsgerðin hentug fjölbreytilegu safnaðarstarfi. Ágúst var harmónikuleikari og má jafnvel sjá í Neskirkju stíliseraða harmóníku, hugvitsamlegan spuna með form dragspilsins. Suðurglugginn er sem bassablokkin, kirkjuskip sem belgur og forkirkja eins og hljómborðið. Ef svo er túlkað má sjá í innkomu fólks í forkirkju hjómupphaf, síðan verður tónlist þegar menn eru í kirkju og í samverkan við Heilagan anda. Neskirkja er því n.k. hljóðfæri til andlegra tónsmíða. Það var því ekki undarlegt, að Ágúst skyldi leggja mikla áherslu á Neskirkju hefði góðan hljóm.

Í Neskirkju var safnaðarheimili tengt kirkjubygginguni sjálfri í fyrsta skipti hérlendis. Á upphaflegu teikninguni var gert ráð fyrir mun stærri sal en gerður var. Val á efni var í samræmi við tímann, t.d. timburplötur á veggjum, tex í lofti, flúrperur fyrir hina óbeinu lýsingu kirkjunnar og linoleumdúkur á gólfum. Vandað var til búnaðar. Auk kirkjubekkjanna voru stólar Arne Jacobsen, ”Sjöan,” keyptir, en höfðu þá ekki hlotið lof og frægð, sem síðar varð. Kirkjan á enn megnið af þeim stólum, sem nú hafa þjónað fólki vel. Þeir eru nú eiginlega antíkmunir og minna á natni og listræna alúð þeirra, sem ákvörðuðu búnað við upphaf. Skoðanir á kirkjubekkjunum voru frá upphafi ólíkar. Einhverjum þóttu sætin líkjast um of sætum í kvikmyndahúsum og þau jafnvel vera óeðlilega þægileg!  Slíkar gagnrýnisraddir eru nú alveg hljóðnaðar.

Söngloftið, sem nú er horfið, var í kór kirkjunnar og setti svip á kirkjuskipið. Kirkjuloftið hækkar frá vestri til austurs en kyssir ekki hinn háa kórvegg. Yfir altarinu er loft mun hærra en yfir öðrum hluta kirkjuskipsins og miðlar með hljóðlátu táknmáli sínu hvað er æðst og hæst.

Við hönnun kirkjunnar hugði Ágúst Pálsson mjög að birtuflæði kirkjunnar og þar með gluggaskipan. Allir gluggar kirkjuskipsins, 40 smágluggar og 1 stórgluggi, vísa að kór hennar. Nærri altari er hinn mikli suðurgluggi, sem varpaði ljóshafi yfir kórinn. Í sólskini varð oft heitt í kórnum á messutíma og brann á prestum og söngfólki og perlaði á ennum! Þegar steindur gluggi Gerðar Helgadóttur var settur upp í þennan glugga árið 1990 var girt fyrir hitasviftingar en einnig óheft ljósflæði. Kirkjan varð ekki eins ljósrík og hún var fyrstu áratugina, en litaflóðið varð oft stórkostlegt um og eftir hádegið á sólardögum. Það var bónus breytingarinnar. Taka varð Gerðargluggann niður vegna viðgerða og hefur hann ekki verið settur upp aftur. Þegar dökkt gler gluggans hindraði ekki lengur ljósflæðið heillaði marga hve birti í kirkjunni. Því hefur ekki verið eining um hvort setja eigi gluggann upp að nýju. 

Úti og inni

Hússtærðin var minnkuð frá upphafstillögu. Við það breyttust form kirkjunnar og jafnvel sködduðust. Á norðurhlið hússins gætir t.d. nokkurs ósamræmis, einkum í hlutföllum safnaðarheimilishlutans og tengingu hans við kirkjuskipið sjálft. Kirkjuskipið var stytt og lækkað og raskaði sú minnkun nokkuð jafnvægi hússins miðað við upphafstillögur.[i]

Safnaðarheimili var byggt á árunum 2002-04. Gerð og lögun þess hefur bætt fyrir smækkun kirkjunnar. Kirkjan nýtur viðbótar safnaðarheimilins og saman mynda húsin samstæða heild. Hönnuðir safnaðarheimilis voru VA-arkitektar og höfð þeir hugmyndina um þorpið að leiðarljósi. Kirkjan er sem þorpskirkja sem stendur við torgið. Milli kirkju og safnaðarheimilis er brú eins og lækur lífsvatnsins liðaðist um grænar grundir kirkjulóðarinnar. Frá torginu liggur síðan gata með vinnustöðum, misstórum og sveigjanlegum vinnurýmum, á báðar hendur. Safnaðarheimilið er afar bjart og rímar vel við kirkjurökkrið.

Nokkrar breytingar hafa verði gerðar á kirkjunni. Árið 1990 var lokið við endurbætur utan sem innan. Kross á turni var þá endurnýjaður og turninn styttur. Krossinn varð tvíarma, en var áður fjórarma. Breytingin var ekki til bóta og vert að færa til upphafsskipunar að nýju. Innanstokks hafa einnig orðið nokkrar breytingar. Fyrst voru söngsvalir kirkjunnar stækkaðar svo rýmra yrði um kórinn. Altari kirkjunnar var einnig fært frá vegg.

Orgel

Í kirkjuna nýbyggða var keypt þýskt, tuttugu og einnar raddar orgel. Þegar það var sett upp kom í ljós, að það var síðra en stefnt hafði verið að. Áttu organistar oft í vandræðum með orgelið, þrátt fyrir að vel væri jafnan hugsað um það. Var talað um, að orgelið væri orðið svo dintótt að organisti kirkjunnar, Reynir Jónasson, væri sá einni sem kynni á kúnstir þess.

Ákveðið var árið 1999 að kaupa til kirkjunnar nýtt orgel af þýsk-bandaríska orgelsmiðnum Fritz Noack í Boston. Orgelið er 31 radda, rómantískt orgel. Orgelsmiðurinn fylgdi smíðinni eftir með greinargerð: „Það var fljótlega ákveðið að orgelið fyrir Neskirkju yrði að henta fyrir breitt svið orgeltónlistar, fyrir guðsþjónustur, undir kórsöng og fyrir tónleika góðra orgelverka. Spilaborð orgelsins er skilið frá til þess að organistinn geti stjórnað kórnum en tengingar eru undir kórgólfinu. „Registur“ orgelsins eru rafstýrð. Neskirkjuorgelið er sambland af klassísku, evrópsku orgeli og amerísku 19. aldar orgeli, en útkoman er nútímaorgel…”

Með tilkomu nýs orgels voru gerðar breytingar í kirkjuskipi. Söngsvalinar voru fjarlægðar og stað teppis á gólfi kórsins komu steinflísar. Spónpanill á  kórvegnum var einnig fjarlægður og veggurinn sléttaður og hvítmálaður. Í kirkjunni hefur aldrei verið altaristafla heldur einfaldur kross á kórvegg. Ástæðan er áhrif frá kirkjuarkitektúr látleysis.

Gluggar

Í kirkjunni hafa verið tveir steindir gluggar Gerðar Helgadóttur. Eldri glugginn er í forkirkjunni og var fullgerður árið 1967. Glugginn var gjöf Kvenfélags Neskirkju til að minnast 25 ára afmælis safnaðarins. Þóra Kristjánsdóttir segir svo um gluggan: “Í höndum Gerðar varð glugginn eins konar gátt út í hina stóru veröld fyrir utan. Í stað þess að sjá út á Melana og ys og þys hins daglega lífs, er sjónum manna beint að æðri vídd.  Glugginn er alsettur þykku handskornu gleri sem er fest saman með blýi og hefur Gerður málað í glerið með svörtu á stöku stað til frekari áherslu. Neðst er rönd í jarðarlitum, – brúnum, gulum, og grænum. Þá taka blárri fletir við í ótal litbrigðum, svo og hvítir og einstaka rauðir. Sumir hafa séð í þessum litbrigðum heilagt fjall og vatn, – aðrir fiska, það er að segja tákn Krists, allt eftir næmi og innsæi hvers og eins. Þannig vildi Gerður hafa þessa gátt, að hver skoði hana út frá sinni sál og trúarþörf.”[ii]

Fljótlega var hugað að framhaldi að samvinnu við Gerði og gerði hún að minnsta kosti þrjár tilögur um steindan glugga inni í kórnum. Glugginn er 12 metra hár og liðlega þrír og hálfur á breidd og því yfir fjörutíu fermetrar. Gerður lést áður en hún gat fylgt hugverki sínu úr hlaði. Þegar til átti að taka fannst aðeins ein tillaga í safni hennar og var hún notuð. Glugginn var helgaður í október 1990. Þóra segir um þennan glugga:  ”Tillaga Gerðar um himinbláan glugga, í himinsins ótal litbrigðum, var sjálfgefin. Þessi gluggi er einnig gátt, en nú býður listakonan ekki upp á neitt val. Hér sjá menn ljós í myrkrinu, kross hátt á himninum, ljós eftir myrkur.”[iii]

Grænir litir og blá litbrigði og skipan gluggans má túlka sem vísun í byggð Haga og Mela á landrönd nessins í víðáttum hafs og himins. Gluggin er sem vottur um líf og lífsþrá í faðmi hafs og himinbláma. Glugginn er tvískiptur. Í miðju hans er lína, n.k. sjóndeildarhringur. Neðan hans má sjá veröld og umhverfi safnaðar kirkjunnar. Ofan hans er himinhvelfing, dýrðarveröld, heimur Guðs, sem umfaðmar veröld og menn. Rauðu og gulu litirnir laða, vekja íhugun um sálir og eilífð, ljós og líf.

Glugginn er yfirgnæfandi og fjölbreytilega blár. Bláir litir hafa í kirkjulistinni gjarnan verið tengdir aðventunni, hinnar bíðandi veraldar og Maríu, móður Jesú. Í ljósi blámans má túlka gluggan sem glugga aðventu en líka jóla. Á efri hluta gluggans er ljóskross, sem beinir huga til kross Jesú Krists. En vegna tengingar bláu litanna við aðventu má túlka ljóskrossinn líka sem stjörnu jólanna, Betlehemsstjörnuna, sem skín myrkri og þurfandi heimsbyggð á hinni helgu nótt.

Báðir gluggarnir, þ.e. í kór og forkirkju, voru unnir á verkstæði Oidtmann í Linnich[1] í Þýskalandi. Stóri glugginn er enn í viðgerð eða hefur ekki verið settur upp vegna þess hve glugginn myrkvar kirkjuskipið. 

Kristur og bænir

Í andyri kirkjunnar er Kristslíkneski úr tré sem Ágúst Sigmundsson skar. Myndin sýnir Jesú sem breiðir út faðm sinn mót þeim sem gengur í guðshúsið. Á síðari árum hafa bænaskálar verið settar á steinaltarið frammi fyrir líkneskinu. Æ fleiri koma fyrir kertum, kveikja og gera þar bæn sína. Hin rúma forkirkja hefur því á síðari árum orðið staður tilbeiðslu fremur en fatahengi.

Samhengi sögunnar

Nessöfnuður er eldri kirkjuhúsinu og munar 17 árum. Dómkirkjusöfnuðinum var skipt upp og í fjóra hluta árið 1940.[iv] Þá var Nesprestakall stofnað. Kirkjan átti að þjóna Melum, Högum og líka öllu Seltjarnarnesi og fékk þaðan nafn sitt. Upphaflega var Nessókn allt svæðið vestan og sunnan Hringbrautar og Miklubrautar. Seltjarnarnes varð sjálfstæð sókn árið 1974. Nú eru innan sóknarmarka byggðin sunnan og vestan Hringbrautar og flugvallarins ásamt Skerjafirði og að bæjarmörkum Seltjarnarness. Dómkirkjusókn teygir anga suður fyrir Hringbrautina á einum stað. Aðalbygging Háskólans og Þjóðminnjasafnið ”tilheyra” Dómkirkjusvæðinu, en engir eiga lengur lögheimili í þeim byggingum svo tota Dómkirkjunnar er táknræn en íbúalaus.

Prestar, organistar, djákni og helgihald

Í liðlega tvo áratugi þjónaði aðeins einn prestur sístækkandi Nessöfnuði. Annað prestsembætti var stofnað og lagt til safnaðarins árið 1963 og prestakallið varð þar með tvímenningsprestakall. Þegar sókn var stofnuð á Seltjarnarnesi 1974 þjónuðu Nesklerkar þeim áfram eða til ársins 1988, en þá fengu Seltirningar sinn prest er Seltjarnarnesprestakall var stofnað.

Fyrstu sautján árin var Nessöfnuður án kirkju. Háskólakapellan, sem vígð var á stofnári safnaðarins árið 1940, og skólinn á Seltjarnarnesi voru guðsþjónusturými safnaðarins og nýtt fyrir giftingar, skírnir og greftranir. Þá var heimili prestsins mikið notað til athafna, eins og algengt var á Íslandi á þessum árum.

Fyrsti prestur kirkjunnar var Jón Thorarensen og þjónaði hann söfnuðinum frá 1940 allt til 1972 eða í 32 ár. Frank M. Halldórsson var kosinn árið 1963 sem sóknarprestur þegar sóknin var gert að tvímenningsprestakalli og þjónaði til 2004 og því allra Neskirkjupresta lengst. Árið 1972 tók Jóhann S. Hlíðar við embætti af sr. Jóni og þjónaði hann til ársins 1975. Þá tók við Guðmundur Óskar Ólafsson og naut söfnuðurinn starfa hans í nítján ár eða allt til ársins 1994. Halldór Reynisson kom til starfa árið 1994 og þjónaði með hléum til ársins 2001. Örn Bárður Jónsson hóf störf í söfnuðinum í fjarveru sr. Halldórs árið 1998, var valinn prestur 2001 og sóknarprestur árið 2004 og fékk lausn frá embætti 2016. Árið 2004 var Sigurður Árni Þórðarson kjörinn prestur safnaðarins og þjónaði til ársloka 2014. Skúli Sigurður Ólafsson var valinn sóknarprestur og kom til starfa í Neskirkju í febrúarbyrjun 2016. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var valinn prestur í maí sama ár, þ.e. 2016. 

Neskirkju hefur haldist vel á klerkum sínum aðeins níu prestar hafa verið skipaðir til þjónustu í söfnuðinum frá upphafi. Margir aðrir prestar hafa þjónað í afleysingum. Þá hefur Neskirkja orðið mikilvæg uppeldismiðstöð þjóðkirkjunnar, því margir guðfræðingar hafa fengið þjálfun í starfi kirkjunnar og notið hennar í prestsþjónustu síðar. Sigurvin Jónsson, þá æskulýðsprestur, var vígður árið 2011 og þjónaði söfnuðinum sem æskulýðsprestur þar til hann fór utan til doktorsnáms. 

Kristín Bögeskov var vígð árið 1995 til djáknaþjónustu í Neskirkju og starfaði einkum við heimaþjónustu á vegum safnaðarins.

Rúnar Reynisson hóf störf við Neskirkju fyrir þremur áratugum sem æskulýðsfulltrúi. Síðari ár hefur hann verið skrifstofustjóri og framkvæmdastjóri kirkjunnar. 

Við kirkjunna hafa aðeins þrír organistar starfað frá upphafi eða yfir fimmtíu ár. Þeir eru Jón Ísleifsson frá 1940 til 1973, Reynir Jónasson frá 1973 til 2002 og Steingrímur Þórhallsson frá 2002.

Lífslán Neskirkju

Neskirkja hefur búið við prestalán og notið góðra starsmanna. En veraldlegt aðallán hennar er fólkið sem sækir kirkju sína, vitjar hennar og notar, hvunndags, á hátíðum, gleðistundum og dögum sorgar. Neskirkja er í miðju sóknarinnar ásamt með öðrum mikilvægum stofnunum hverfisins. En hún er líka í miðju vitundar meiri hluta fólks í hverfinu og hefur jafnan notið velvilja. Afar stór hópur þjónar kirkjulífinu. Hin síðari ár eru á annað hundrað manns árlega sem gefur af tíma sínum til að vinna að einhverjum þætti safnaðarstarfsins. Allt leggst þetta saman í andlegt kirkjuhús sem fólk, söfnuður, prestar og hús þjóna. Og það er fallegt því það er ríki Guðs.

Texti og myndir: Sigurður Árni Þórðarson. Þetta var skrifað fyrir nokkrum árum og ég bætti aðeins við upplýsingum um nýja presta Neskirkju. 

[1] http://www.glasmalerei-oidtmann.de/

[i] Hörður Ágústsson,  “Neskirkja,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 14.

[ii] “Ljósið í myrkrinu: Um steinda glugga Gerðar Helgadóttur í Neskirkju,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 15.

[iii] Sama rit, s. 15.

[iv] Reykjavíkurprestakalli, þ.e. dómkirkjusókn, var skipt í fjögur prestaköll með lögum frá 7. maí 1940. Hallgrímsprestakall varð tvímenningsprestakall en Laugarnes- og Nesprestakall urðu einmenningsprestaköll. Prestskostningar í öllum sóknunum voru 15. desember sama ár er sr. Jón Thorarensen varð efstur í kosningu til embættis prests Neskirkju.

Prestur á breytingaskeiði

IMG_5641Tárin í augum vina minna gerðu útslagið. Margt hafði farið í gegnum hugann síðustudagana, en votir hvarmar fólks í altarisgöngu snertu kvikuna. Ég var á leiðinni, frá einum söfnuði til annars, frá vinum mínum og til annarra vina. Þetta voru tilfinningadagar og ýmislegt kom mér á óvart, bæði innan í mér og í samskiptum og viðbrögðum fólks.

Eftir tíu ára starf í Neskirkju og þjónustu við vesturbæinga sótti ég um prestsstarf við Hallgrímskirkju. Einföldu rökin voru að skynsamlegra væri að fara í annað prestakall áður en allir væru orðnir leiðir og farnir að bíða að maður hætti! En fleira og veigameira hafði afgerandi áhrif, sumt kirkjulegt, annað varðaði persónulega reynslu og tengsl við fólk. Svo var ég í stöðugu samtali við himinvin minn um hvort ég ætti að sækja eða ekki.

Þegar niðurstaða var fengin hóf ég umsóknarskrifin. Mér þótti áhugavert og að skrifa umsókn í samræmi við ný og breytt viðmið varðandi slíkar umsóknir. Ragnhildur Bragadóttir á Biskupsstofu sagðist aldrei hafa séð svo fallega umsókn! Skýringin var að Katla, sem er bæði fagurkeri og dóttir mín, braut um textann svo ágætlega og smellti inn myndum á góða staði að hinn smekkvísi bókasafnsfræðingur biskups gladdist. Já, pappírinn var líka fallegur og allar myndirnar, sem ég hafði tekið í Hallgrímskirkju, voru í lit.

Svo tók við umsóknarferli. Ég var í önnum, útfarir voru margar og tóku hug minn. Svo varð ég að sinna kirkjuþingi í klemmu á milli jarðarfaranna. Eitt kvöldið á kirkjuþingstímanum var ég kallaður til valnefndarfundar í Hallgrímskirkju. Formaður kjörnefndar, Halldóra Þorvarðardóttir, stýrði fundi örugglega og glæsilega. Svo beið ég – og hinir umsækjendur – niðurstöðu. Ég fagnaði þegar mér var tilkynnt að ég hefði verið valinn til að gegna sóknarprestsstöðu á holtinu. Mér þótti að vísu leitt að aðrir frábærir umsækjendur voru þar með ekki valdir en gladdist jafnframt yfir að Irma Sjöfn Óskarsdóttir var valin sem hinn prestur kirkjunnar.

Annir héldu áfram, að mörgu er að hyggja við skil í Neskirkju og síðan byrjaði undirbúningur fyrir störfin í Hallgrímskirkju. Ákveðið var að kveðjumessan yrði í Neskirkju síðasta sunnudag kirkjurársins, 23. nóvember. Ég yrði síðan settur í embætti (tekinn í notkun eins og starfsfólkið orðaði það!) í messu fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember. Við Steingrímur Þórhallson, organisti, ákváðum sálma fyrir kveðjumessuna. Ég skoðaði textana, sóknarnefndarfólkið vildi þjóna sem messuhópur á þessum skiladegi. Ég skutlaði inn í tölvuna nokkrum þönkum að gefnu tilefni. En mér leið þó hálf-einkennilega. Eiginlega alla vikuna. Hvað var að mér? Var það bara flensuræfill sem herjaði? Eða var eitthvað annað? Presturinn, sem hefur gengið sorgargöngur með mörgum, fór að hugsa og spurði hið innra: „Heyrðu, karlinn, ertu í sorgarferli? Svo kafaði ég í ávirka texta síðasta sunnudags kirkjuársins. Jesús spyr þar stórra spurninga um hvort við höfum heimsótt sjúka, fangelsaða, gefið næringarsnauðum mat – iðkað kærleika. Og þau, sem ekki hafa í sér þessa Jesúafstöðu samúðarinnar, eru mörkuð dauðanum. Þetta eru dómstextar, merking þeirra er krísa – enda merkir gríska orðið krisis dóm og dómsniðurstöðu. Boðskapur kristninnar varðar ekki yfirborðsmál heldur mennskuna í öllum víddum. Og þennan gamlársdag kirkjuársins hljómuðu dómsorð um krísu okkar allra. Við dæmum okkur sjálf.

Því vöknuðu íhuganir um eigið líf. Hafði ég staðið mig í starfi síðustu ár? Hafði ég sýnt árangur? Hafði ég ekki brugðist fólkinu í sókninni með margvíslegu móti? Ég gæti fært frávísunarrök og vikið mér undan ábyrgð og vísað á aðra. Nei, ég hafði vissulega ekki brugðist í öllu, en þó – ég sá bresti mína. Þegar ég leit til baka var mér ljóst að ég hafði ekki heimsótt alla sem ég vildi, ekki slökkt þorsta fólks eftir næringu, alla vega ekki þeirri andlegu.

Og ókyrran óx alla vikuna er ég undirbjó kveðjumessuna. Kvefpestin ágerðist og á sunnudagsmorgni var ég orðinn raddlaus. Aldrei hafði þetta gerst síðustu tíu ár. Hvað væri til ráða? Dómur himins – tjáning þess að ég hefði brugðist líka í orðum en ekki bara gerðum? Birgir Ás Guðmundsson kenndi okkur guðfræðinemum nokkur radd-krísu-trix og nú komu þau að góðum notum. Röddin skírðist nokkuð – en var þó þvæld eins og eftir sigurleik Íslendinga í fótbolta – en þó nothæf.

Ég gekk svo í morgunkælunni til kirkju. Óvenju margt fólk var að undirbúningsstörfum, sóknarnefndarfólk við veisluundirbúning, stóri kórinn mættur í upphitun, kórall úr jólaóratóríu-Bach skyldi sunginn eftir prédikun. Alls konar hugsanir læddust að. Síðasta messan? Aldrei aftur í Neskirkju? Kannski fengi ég að prédika síðar eða hjálpa til við útdeilingu? Svo dreif fólk að, eldra og yngra, og mörg þekkti ég vel. Þegar ég horfði í augu þeirra var ég snortinn á dýptina. Ég hafði jarðsungið foreldra eða maka sumra, skírt fyrir önnur, fermt ungmenni í fjölskyldum margra og gift sum. Samfélag, kirkja, söfnuður. Og svo hófst messan, kveikt var á altariskertunum, við sungum lofsöng og báðum bænirnar. Miskunnarbænin fyllti helgidóminn á jörðu og himni. Lestrarnir hljómuðu og Sigurþór Heimisson las stórkostlega. Rúnar Reynisson afskrýddi prestinn og svo var lagt var út af erfiðum og dæmandi textum sem segja þó satt um okkur öll. Kirkja er ekki fallegt hús fyrir klisjur. Kirkja er þar sem góð afstaða til Jesú er ræktuð og afstaða Jesú til manna er iðkuð. Að venju lét söfnuðurinn ræðinginn yfir sig ganga, hlustaði vel, nikkaði kolli eða setti í brýrnar vegna krísunnar.

Já, Bach dillaði, engladans jólaóratóríunnar hleypti dans í kórinn sem lyftist og hneig í hljómfallinu. Spennandi tónleikar framundan. En verð ég með þar? Verð ég ekki hættur, hvenær hættir maður að vera prestur í söfnuði? Verð ég komin í tónverk og alls konar verk í Hallgrímskirkju? Og svo Sanctus, heilagur – þessi dásamlegi hjartsláttur aldanna, viðlag kynslóðanna, játning sálna himinsins, þvert á dómsorðin, orð vonanna sem Jesús Kristur kveikti. Orð um lífið gegn dauða. Og innsetningarorðin rímuðu fullkomlega – um bikar og brauð.

Og svo stóðum við fjögur við útdeilingu. En stemmingin var sérstök. Svo sá ég tár í auga. Síðan voru fleiri tár sem féllu og ég nánast beygði af. Í lokin sungum við öll þann yndislega tímaskilasálm nr. 712 – Dag í senn, eitt andartak í einu. Þakklætið hríslaðist um mig, en tárin leituðu djúpt í vitundina. Mörg faðmlög við dyr, allir tjáðu ósk um hamingju, sum með gleði en mörg með votan hvarm og vanlíðan. Ljúfsár kveðjustund. Svo vorum við kona mín leyst út með höfðinglegum gjöfum sem verma og gleðja um ókomin ár. Droplaug Guðnadóttir og Sigurvin Jónsson héldu snjallar ræður. Takk fyrir mig.

IMG_5700

Í Hallgrímskirkju munu núverandi prestar brátt láta af störfum, Jón Dalbú Hróbjartsson og Birgir Ásgeirsson. Vísast bærast líka í þeim margvíslegar tilfinningar eins og í mér. Þeir glíma væntanlega við vistaskipti og breytingaskeið. Ég get að einhverju leyti sett mig í þeirra spor. Það er ekkert einfalt að skipta um starf eða láta af störfum, eiginlega trúarleg glíma og pílagrímsferð í hópi fólks. Svo eru hin, sem ekki voru valin til starfa. Þau glíma við höfnun og vonbrigði. Sóknarfólk og starfsfólk kirknanna gengur í gegnum breytingaskeið þegar prestaskipti verða. Tilfinningar eru ekki léttvægar heldur mikilvægar – þær “kirkjulegu” og prestslegu líka.

Undarlegur dagar að baki, undarleg vika og sérstæður tími einnig. Ég sé enn tárvot augun við útdeilingu. Tár ljúga ekki og þessi tjáðu afstöðu. Var ég að bregðast eða ekki. Dómstár? Sorgartár já – og tjáðu líklega missi, glataðan tíma, lok fremur en sárindi. Mér var ekki álasað eða skammaður, heldur var sagt að eftir yrði skarð. Nú er lokið tíma, lokið þjónustu og ég fer. Reyndar ekki langt og sum eiga eftir að koma í Hallgrímskirkju og önnur eiga eftir að óska þjónustu minnar. „Þú ert nú áfram sóknarbarn Neskirkju, kallinn minn“ sagði einn. „Við eigum nú eftir að hittast í Melabúðinni, já og kannski líka í Neskirkju“ sagði ein. Ég tilheyri þessu fólki, þessum söfnuði, þessum hverfi, er einn af þeim, deili með þeim gildum og vonum og vil að fjölskylda mín fái að njóta þeirra og líka vera þeim fang þegar á reynir. Það er gott að vera prestur og manneskja í Vesturbænum. Og þó ég færi mig um set er ég einn af þeim. Hvort sem Vesturbærinn nær upp í Þingholt eða ekki er Jesús Kristur sá sami á Högum, Melum og á Skólavörðuholti. Ferðin er á hans vegum.

 

 

 

Haustfasta í Neskirkju

kvöldmáltíðarmynd barna 450Viltu breyta mataræði og líðan? Efnt verður til haustföstu í Neskirkju 7. – 17. október. Fastan er ekki erfið en þó endurnýjandi. Matur á borðum föstufólks verður grænmeti, ávexti, heilkorn (glúteinlaust) og hnetur í þessa 10 daga sem fastan varir. Og fólk fær margvíslegan stuðning til að námskeiðið nýtist sem best.

Matur hefur mikil áhrif á líðan og heilbrigði – og sömuleiðis skiptir miklu máli hvernig fólk stuðlar að andlegri hreinsun og endurnýjun.

Margrét Leifsdóttir, heilsumarkþjálfi IIN og arkitekt, og hjónin Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur og ACC markþjálfi og dr. Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur, halda námskeið í safnaðarheimili Neskirkju um mat, hreinsun, föstu og heilsurækt.

Námskeiðsfundir eru þrír; matreiðslunámskeið, upphafs- og lokafundur.

Innifalið:

Matreiðslunámskeið fimmtudaginn 3. okt. 18:30-21:30

Upphafsfundur föstu kl. 20:00 – 21:30, mánudaginn 7. okt. og lokafundur fimmtudaginn 17. okt. kl. 20:00 – 21:30, bæklingur um hreinsunina ásamt uppskriftum, daglegir tölvupóstar og pepp. Allir þátttakendur fá einn frían tíma í markþjálfun

Matreiðslunámskeið verð 5.200.- Föstunámskeið 12.500- (hjón greiða aðeins eitt gjald f. föstunámskeið).

Sendið þátttökutilkynningu til s@neskirkja.is eða skráið í s. 5111560, fyrir mánudaginn 30. september.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda.