Maríustíllinn, já, nei og frelsið

Lífið er verðandi – allt hreyfist. En þolum við breytingar? Og jafnvel: Þorum við að verða, vaxa, umbreytast og opna? Kristján Sigurður – nýskírður – velur ekki að breytast. Hann bara er í umbreytingu bernskunnar. Hann vex, lærir, opnar og fylgir flæði lífsins. Í dag flæddi blessunarvatnið í fontinn og vætti höfuð hans. Svo þarf hann að læra að segja já og nei og hvað frelsið merkir. Læra Maríustílinn.

Messan í dag er kveðjumessa. Prestur hættir störfum í Hallgrímskirkju og er á leið inn í þriðja æviskeiðið og annar tekur við. Búið var að ákveða og ganga frá skipulagi messunnar þegar foreldrar drengsins báðu um skírn. Þar sem skipulagið og tónlistin voru ákvörðuð var ekki sjálfgefið að gerbreyta athöfninni. En hvað er kirkja? Skírn er aðalmál í kristninni og kirkja er ekki lokað kerfi og hús heldur iðandi af mannlífi og þjónn lífsins. Við breyttum því skipulaginu og Kristján Sigurður var boðinn velkominn. Í skírnargerningnum megum við nema þá djúpu visku heims og himsins að lífið er gott, gefandi og með galopna framtíð. Við erum öll börn á leiðinni, börn tíma en líka eilífðar, ekki í lokuðu kerfi, föst í rásinni heldur á guðsvegum. Við megum breytast og hugsa nýjar hugsanir. Við megum þora að verða. Börnin læra að treysta en líka greina fals. Þau læra að ganga, tala og hlægja. Og ég má fæðast til nýrrar tilveru og þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af sprunguviðgerðum í Hallgrímskirkju, verkefnum og ferðamönnum. Nú eru það bara þau fagnaðarefni lífsins að njóta samveru með ástvinum og góðu fólki og halda áfram að njóta lita, orða, tóna, ilms, bragðs og bregðast hrifinn við elsku daganna. Táknmál þessa kirkjudags er ávirkt og Maríustíllinn er mikilvægur. Boðunardagur Maríu er einn af þessum stórkostlegu dögum sem hvíslar að okkur að Guð sé elskandi vinur.

María og helgisagan

„María, drottins móðir kær, merkir guðs kristni sanna“ ljóðar Hallgrímur í 37. passíusálmi. Á þessum sunnudegi föstunnar íhuga kristnir menn um allan heim Maríu. Það eru jú níu mánuðir til jóla. María nærði Jesúfóstrið í móðurlífi sínu, gaf honum síðan nýfæddum brjóst og varð honum öflugur uppalandi. En siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá vegna þess að Rómarkirkja miðalda hafði klúðrað guðfræði Maríu. Maríu hafði eiginlega verið stolið og gerð að gínu valdsins, gínu á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega og mannlega var læst í fjötra sem svo urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. En engum líður vel sem gínu og Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni sem ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins og með okkur í hvunndagsverkefnunum. Maríustíllinn er mikilvægur.

Helgisaga er trú á vængjum ljóðsins. Sagan um Maríu er slík yfirjarðnesk saga. Menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Maríudýrkun stigmagnaðist fyrsta árþúsund kristninnar og kenningaflækjan gildnaði og endaði með að karlaþing kaþólsku kirkjunnar ákváðu að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú skiluðu Maríu sem endurunninni mannveru. Djúphvatar sögunnar breyttu henni. Hún var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins eins og Bósi Ljósár.

Maríustíllinn
En María er ekki frelsari mannkyns heldur persóna sem vann úr stórmálum. Þegar við sviptum burt búrkum og menningarspjörum aldanna af henni sjáum við venjulega manneskju sem var sömu gerðar og við hin. Hún fann til, meiddi sig, hreifst, lærði, hló og grét. Hún lærði að hafna sumu og játast öðru. Lærði frelsi og mörk þess eins og þú og við öll. Svo sýnir helgisagan okkur engil með hvíta lilju sem tjáði táningsstúlku mikil tíðindi. Hefði hún getað sagt nei? Hafði hún val? Já, hún var ekki viljalaus þolandi heldur fullveðja aðili og gerandi. Í því er fólgin merking sögunnar og varðar okkur öll. Það er Maríustílllinn og Maríustefnan. Það tekur enginn frá okkur hið rótttæka frelsi að ákveða hvað við viljum vera, gera og játast og hverju við höfnum. Það var niðurstaða fanganna í útrýmingarbúðum nazista að það væri hægt að taka frá fólki allt – líka lífið – en það væri aldrei hægt að taka frá fólki frelsið í djúpi sálarinnar nema fólk tæki þá ákvörðun að hafna eigin frelsi eða misvirða það. Farþegar í lífinu hafa tapað Maríustílnum. Mál Maríu varðar tengsl Guðs og manneskju – það sem heitir trú á máli kristnninnar. Guð sendir ekki engla til okkar eins DHL-bílstjóra með sendingu. Lífið er ekki heimsendingarþjónusta heldur stöðug verðandi og við erum fullveðja ákvörðunaraðilar í því ferli. Við tökum ákvörðun um stefnuna. Mín guðstúlkun er að í því ferli sé Guð sínánd, að Guð sé í öllum viðburðum, kraftuppstretta elskunnar í okkur öllum. Frelsi er eitt af undrum lífs. Af því frelsið býr í okkur getur jafnvel Guð ekki neytt okkur að elska sig. Að elska er val. En þau sem bara hlýða hafa snúið baki við frelsinu, valið að varðveita ekki frelsið. Gína valds svarar ekki, gína á stalli ansar ekki, meðvirk manneskja ekki heldur. En María var frjáls. Hún var ekki táningur í fornöld sem var skipað að verða staðgöngumóðir. Hún gat sagt nei og hún gat sagt já við tillögu himinsins. Það er Maríustíllinn – hafa val um já og nei.

Kall Guðs berst okkur öllum í verðandi lífsins. Við erum aldrei svo illa komin að allt lokist. Erkiboðskapur kristninnar er ekki um prósentur gjaldenda í kirkjufélagi heldur að Guð er nær okkur en lífið sjálft. Við erum alltaf í kompaníi með Guði hvert sem við förum og hvað sem við gerum. Guð alltaf nærri, aldrei ágengur heldur virðandi vinur og elskhugi. „Óttast þú eigi … því að þú hefur fundið náð hjá Guði.“ Maríustílllinn er: „Já, verði mér eftir orðum þínum.“

Prestsþjónusta

Nú stend ég hér og miðla því sem ég veit réttast í hinum löngu hugsunum kristninnar. Það er sterk reynsla að horfa fram í kirkjuna – í öll þessi augu – og sjá svo mörg koma sem ég hef þjónað sem prestur, skírt, fermt, gift, talað við eða gengið með sorgarvegi. Þegar læknir lýkur störfum á spítala koma fyrrverandi sjúklingar ekki til að kveðja. Ekki heldur þegar kennari lýkur störfum. En svo mörg koma til að þakka eða sýna kærleika og mörg hafa orðað í mín eyru þakkir eða sent mér kærleikstjáningar sem eru hjartastyrkjandi. Að vera prestur er merkingarþrungið starf og líf. Skemmtilegast hefur mér þótt að skíra börnin. Það er ævintýralegt að horfa í vonaraugu krúttanna sem eiga framtíðina og frelsi til að verða. Og svo þjóna fólki í helgihaldi, túlka líf og þjóna kirkjulegum fagnaðarathöfnum en ganga líka með öðrum þung skref. Ég hef verið sá lukkuhrólfur að þjóna sem prestur í dreifbýli og þéttbýli. Liðnir áratugir hafa verið ævintýri. Fæst í Hallgrímskirkju er venjulegt og flest er í ofurstærð. Kirkjan er ekki aðeins sóknarkirkja heldur einn af mikilvægustu helgistöðum heimsins sem gerir kröfur til þeirra sem þjóna Hallgrímskirkju.

Nú ákveð ég að hætta og fyrr en mér er skylt. Það eru líka forréttindi að geta fæðst til nýrrar veru og nýs lífs. Ég fer líka fullur trausts til þeirra sem taka við. Minn góði kollegi Irma Sjöfn Óskarsdóttir tekur við sóknarprestskeflinu. Það er frábært því hún hefur ræktað með sér góða kirkjusýn, Maríustílinn og mannvinsemd. Svo kemur nýr prestur til starfa í sumar. Í kirkjunni er mannval og í rauninni þarf getumikið fólk til að þola álagið sem er hér alla daga. Mig langar við leiðarlok að þakka þeim elskuna og umburðarlyndið, húmorinn, festuna og snilldina. Þökk sé öllum messuþjónunum, starfsfólki kirkjunnar, sjálfboðaliðunum, sóknarnefndarfólkinu, tónlistarfólkinu, sóknarfólkinu – já, líka öllu þessu litríka fólki sem sækir í þennan helgidóm. Formenn sóknarnefndar gegna þjölþættum ábyrgðarstörfum í Hallgrímskirkju. Jóhannes Pálmason og Einar Karl Haraldsson hafa verið sérlega farsælir og haldið sjó og oft í snúnum málum. Ég þakka þeim samstöðuna. Jóhannes var langt á undan sinni samtíð þegar hann heyrði af myglu í prestsskrifstofu. Hann brást ákveðið við og lét gera viðeigandi ráðstafanir og bjargaði heilsu minni. Enginn flótti þar heldur metnaður og mannúð. Og Einar Karl er alltaf með augu á framtíðinni og leitar að lausnarleiðum og er okkur sívirk fyrirmynd. Kærar þakkir.

Maríustefnan

Vinir mínir spyrja mig: Hvað ætlar þú svo að gera? Ganga frá ástarpostillunni – úrvali prédikana minna – sem kemur út í haust. Svo ætla ég að gleðjast með skemmtilegu konunni minni, ástvinum og vinum. Læra meira, elda meira, elska meira og vera eins og María – hlusta eftir hvísli Guðs í viðburðum daganna og bregðast við í anda Maríustílsins og segja: „Já, ég er vinur þinn Guð – þjónn þinn – verði mér eftir orðum þínum.“ Það verður engin ólétta úr því! En stórkostlegt fagnaðarerindi er það.

Kæru vinir, nú eru skil. Ég þakka Guði fyrir árin í ykkar þjónustu. Ég hef notið blessunar umfram það sem ég kunni að biðja. Ég hef notið elskusemi ykkar umfram alla skyldu, söngs, hlátra og sagna. Í tárum ykkar hefur verið traust. Í gleði ykkar og orðum hafa speglast trúnaður. Ég hef notið visku ykkar, fyrirbænar og stuðnings. Takk. Ég fel ykkur öll Guði sem horfir á okkur með augum elskunnar. Það er sá Guð sem býr til nýtt líf og gefur okkur daga, ljós, von og blessun. „Heit bæn þín ástarkveðja sé“ stendur yfir aðaldyrum Hallgrímskirkju. Það er Maríustíll mennsku okkar.

Hallgrímskirkja, boðunardagur Maríu, 5. sunnudagur í föstu, 26. mars 2023. Kveðjumessa.

Meðfylgjandi mynd tók Hrefna Harðardóttir. Kristján Sigurður Davíðsson skírður í upphafi messu. 

Ávarp Einars Karls Haraldssonar í Hallgrímskirkju 26. mars 2023

Kæri söfnuður, góðir gestir!

Á fjölmennri samkomu hér í Hallgrímskirkju spurði sessunautur minn: Hver er það sem er að læðast þarna bak við orgelið og upp í kórinn? Er hann með myndavél, spurði ég? Já, þá er þetta sóknarpresturinn að leita nýrra sjónarhorna og fanga ljósbrot í skuggaspili kirkjunnar. Þannig er doktor Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur okkar um níu ára skeið. Endalaust að undrast og dásama þetta mikilfenglega guðshús, Hallgrímskirkju.

Kæri Sigurður Árni, í Hallgrímssöfnuði  verður þín minnst sem fræðara, heimspekings og ástarguðfræðings í prédikunarstólnum. Þú hefur boðið alla velkomna að borði drottins og opnað dyr. Alltaf spyrjandi áleitinna spurninga og opinn fyrir nýjum svörum. Og ekki síst verður þér þakkað að hafa auðgað myndmál Hallgrímskirkju, bæði í orði og með ljósmyndum af birtu, formi og starfi hér í kirkjunni.

Á boðunardegi Maríu hefur séra Sigurður Árni oft verið í stuði eins og hér í dag.

Hann fræðir: Afhverju er fáni Evrópusambandsins blár með geislabaug stjarna? Jú, auðvitað, sem fæstir í kirkjunni vissu raunar, vegna þess að hann er afkvæmi Maríumynda aldanna og blái liturinn kemur úr Maríu-möttlinum.                                               

Hann setur hlutina í heimspekilegt og guðfræðilegt samhengi: Okkur er nauðsyn að fá Maríu ofan af stalli sem ofurhetju handan mannlífs og heims, við þurfum á henni að halda í hringiðu lífsins, með okkur í lífi og sorgum. Semsagt: María til manna.                   

Og svo kemur ástarþemað hjá honum: „María, drottins móðir kær, merkir Guðs kristni sanna“, eins og Hallgrímur segir í Passíusálmunum. „Og sonurinn, Jesús Kristur , lítur til hennar með augum elskunnar.“

Svona getur þetta gengið í prédikunum séra Sigurðar Árna sem margar eru eftirminnilegar. Nú hyggst hann gefa úrval prédikana sinna út á næstunni og hefur sóknarnefnd Hallgrímskirkju í þakkarskyni ákveðið að stuðla að því með sérstökum útgáfustyrk.  

Sigurður Árni er í senn heimsmaður, heimamaður og sveitamaður! Hann kom til okkar fullmótaður af akri kristninnar á Íslandi. Hann hafði efir embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands  verið sveitaprestur og borgarprestur, rektor Skálholtsskóla og fræðslustjóri á Þingvöllum, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og stundakennari við Háskóla Íslands. Aukin heldur er hann heimsmaður með útsýn til annarra landa eftir kristnifræðinám í Noregi og doktorspróf í guðfræði og hugmyndasögu frá Vanderbiltháskóla í Tennessee í Bandaríkjunum.  Raunar var hann heimamaður í Hallgrímskirkju áður en hann var kjörinn hér sóknarprestur, bæði sem kórsöngvari um skeið og afleysingaprestur árið 2003. Hann er líka sveitamaður í sér með djúpar rætur í svarfdælskum sverði og í ræktunarstarfi móður sinnar kringum Litla bæ á Grímstaðaholtinu. Þeirri hlið á sóknarprestinum höfum við einnig fengið að kynnast.

Á Skólavörðuholtinu hefur Sigurður Árni átt góða daga, enda lýsir hann þeim sem samfelldri veislu í miklu og alþjóðlegu fjölmenni. Draumar hans um að fá bestu kokka þjóðarinnar til að elda með sér á kirkjuhátíðum hafa ekki að öllu leyti ræst þótt við höfum fengið að smakka á biblíumat sóknarprestsins sem hann er þekktur fyrir. Nýtt og fullkomið eldhús er á óskalistanum hér í Hallgrímskirkju og þá mun sá draumur væntanlega rætast. Hann hefur líka verið áhugasamur um að Hallgrímskirkja og veraldarvefurinn spili betur saman og helgihaldinu verði fjölmiðlað. Starfi í þeim anda verður haldið áfram. Listaverk í turni verður einnig að veruleika einn góðan veðurdag. Spor Sigurðar Árna marka veginn framávið.

En maður kemur í manns stað. Mér er mikil ánægja að tilkynna það hér að okkur hefur borist formleg tilkynning um það að séra Irma Sjöfn Óskarssdóttir hefur verið ráðin sóknarprestur við Hallgrímskirkju frá og með 1. apríl næstkomandi. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur í því efni farið að ósk sóknarnefndar. Jafnframt hefur Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, tilkynnt okkur að doktor Jón Ásgeir Sigurvinsson héraðsprestur, muni gegna starfi prests við Hallgrímskirkju næstu þrjá mánuði og er það góð ráðstöfun að okkar mati. Þá er þess að geta að hafin er fyrir tilstilli biskupsstofu og á vegum prófasts þarfagreining vegna fyrirhugaðrar auglýsingar á prestsstarfi við Hallgrímskirkju. Ég vil koma á framfæri þökkum til biskups og prófasts fyrir skjóta og skilvirka afgreiðslu á erindum Hallgrímskirkju vegna þeirra mannabreytinga sem hér eru á döfinni.    

En i dag er kveðjudagur til heiðurs fráfarandi sóknarpresti. Hér á eftir er öllum boðið í snittur og kaffi í Suðursal þar sem séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir stjórnar dagskránni og Steinar Logi Helgason kórstjóri söngnum. Séra Sigurður Árni hefur gefið það út að hann ætli sér að læra meira og læra margt nýtt, fara lengra og breyta mörgu. Það er lofsvert viðhorf og við óskum honum heilsu og þreks til þess að láta draumana rætast. En fyrst er það útgáfa Sigurðarpostillu sem ég nefndi áðan. Um leið og sóknarnefnd þakkar þér samstarf og leiðsögn bið ég þig að koma hér, doktor Sigurður Árni, og taka við útgáfustyrk þér til handa frá Hallgrímssöfnuði.

Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju. Myndina tók Hrefna Harðardóttir. 

Ég hef engar á­hyggjur af Guði

Viðtal – Máni Snær Þorláksson – m

Tæpir fjórir áratugir eru liðnir síðan dr. Sigurður Árni Þórðarson var vígður prestsvígslu í Dómkirkjunni. Nú er komið að tímamótum því í Hallgrímskirkju á morgun heldur Sigurður sína síðustu messu. Hann ætlar þó ekki að sitja auðum höndum. Hann er búinn að sækja um í meistaranámi, ætlar að læra ljósmyndun og taka upp þráðinn í matargerðinni. „Ég held að ævin sé stöðugt lærdómsferli. Mér finnst rosalega gaman að læra og heyra nýja hluti, sjá allt smella saman með nýjum hætti. Ég hef gaman að þessum fjölbreytileika, litríki og öllum þessum furðum sem lífið er,“ segir Sigurður í samtali við blaðamann.

Fólkið stendur upp úr

Það sem stendur uppi á ferli Sigurðar er að hans sögn fólkið sem hann hefur komist í kynni við. „Mér finnst fólkið sem maður er að þjóna langmikilvægast. Skemmtilegast í prestsstarfinu er að horfa í augun á litlum börnum sem ég er að fara að skíra því það er svo bullandi skemmtilegt, ævintýralíf í augunum á þeim og ekkert nema framtíð og mikil hamingja.“ Það að þjóna fólki á hinum enda lífsins er Sigurði einnig minnisstætt en þó af öðrum ástæðum. „Það er bara hjartaslítandi að vera með fólki í sorgaraðstæðum,“ segir hann. „Þetta eru svona stóru augnablikin og svo allt þetta inni á milli. Það er fólkið fyrst og fremst. Kirkja er fyrst og fremst það að fólk kemur saman og á sér samfélag um þetta mesta, stærsta og dýpsta í lífinu. Þetta sem við köllum trú og Guð.“

Sigurður segir að fólk geri sér ekki endilega grein fyrir því hvað kirkjan þjónar og aðstoðar mikið af fólki: „Mér finnst vera mjög merkilegt líka þetta mikla traust sem fólk sýnir prestinum sínum, það leitar til presta í alls konar málum. Maður náttúrulega bara finnur það hvað það er mikil þörf á góðum prestum í nærsamfélagi hvar sem er á landinu. Þeir þurfa að vera þjónustuliprir og tilbúnir til þjónustu. “

Sigurður segir það mikilvægasta í starfinu hafa verið að þjóna fólki.VÍSIR/VILHELM

Hluti af hópnum

Sem fyrr segir eru liðnir tæpir fjórir áratugir síðan Sigurður hóf störf sem prestur. Hann segir að mikill munur hafi verið á hans fyrstu árum í starfinu og þeim síðustu. „Ég náttúrulega var sveitaprestur. Það er allt allt annað,“ segir Sigurður.

„Þá var maður í þeirri stöðu að nágrannarnir, bændurnir, þeir bara bönkuðu upp á og sögðu: „Já, nú þarft þú að koma með okkur á fjall.“ Ég sagðist ekki hafa neinn tíma til þess að fara á fjall því ég var að skrifa doktorsritgerð. Þeir sögðu að það skipti engu máli, ég þyrfti að sinna skyldu minni og fara að smala.“

Sigurður, sem er að eigin sögn gamall sveitakarl, vissi að smölunin skipti máli. Hann fór því ekki að þræta við bændurna og slóst í för með þeim. „Þannig að það var settur undir mig hastur hestur og síðan var ég á fjöllum í heila viku með Skaftártungumönnum, við fórum inn í Eldgjá og alveg inn í Jökulheima, að fjallabaki og á þessu stórkostlega svæði.“

Sigurður segir að þarna hafi hann orðið hluti af samfélaginu sem hann þjónaði, einn af hópnum: „Þegar maður er í þessu, sefur við hliðina á hrjótandi nágrönnum, hugar að meiðslum hunda og hestanna, puðar rasssár á fjöllum í heila viku þá er maður orðinn „insider“, kominn inn í hringinn. Þegar maður er búinn að vera í svoleiðis aðstæðum er maður orðinn einn af þeim. Ekki bara einhver kall sem kom að sunnanm, úr Reykjavík. Það er mjög mikilvægt í þessum prestsskap, að vera einn af þeim, einn af hópnum. Allir hafa hlutverki að gegna í slíku samhengi.“

Táknstaður heilagleikans

Í heilan áratug var Sigurður prestur við Neskirkju í Vesturbænum. Hann segir prestþjónustuna þar hafa verið frábrugðna þeirri sem hann kynntist í sveitinni, sérstaklega í ljósi þess að Neskirkja þjónustar þúsundir manna. „Maður náttúrulega þekkti marga en  var ekki í þessari stöðu að sofa við hliðina á hrjótandi fólki á fjöllum. Þannig það verður öðruvísi þjónusta og hún verður mun sérhæfðari.“

Starfið í Hallgrímskirkju var svo enn annar handleggur. Sigurður bendir á að þangað kemur miklu fleira fólk hvaðanæva úr heiminum. „Það er gríðarlegt flóð af fólki sem maður er að þjóna með einum eða öðrum hætti,“ segir hann. „Hallgrímskirkja hefur allt aðra stöðu heldur en borgarkirkja eða sóknarkirkja, hún er líka pílagrímakirkja í heiminum og sem slík er hún mjög merkileg. Það er milljón manns sem kemur í kirkjuna á hverju ári, Hallgrímskirkja er lógó Íslands.“

Þó starfið í Hallgrímskirkju sé öðruvísi þá segir Sigurður það snúast að lokum um það sama, að þjóna fólki.VÍSIR/VILHELM

Þá bendir Sigurður á að Hallgrímskirkja er á lista yfir tíu mikilvægustu íhugunarhús heimsins hjá The Guardian. „Af hverju er það? Jú það er vegna þess að fólk nær sambandi. Þetta er kirkja sem fólk einfaldlega tengir eitthvað mikilvægt inn í, það fer inn í kirkjuna og upplifir, kveikir á kertum og nær sambandi við sjálft sig og það sem við köllum Guð,“ segir hann. „Þannig að Hallgrímskirkja er öðruvísi, hún hefur svolítið hlotið svona stöðu sem táknstaður heilagleikans. Það er bara mjög mikilvægt, við þurfum svoleiðis staði líka í veröldinni.“

Að sögn Sigurðar kemur þetta allt niður á því sama að lokum, starfið snýst um að þjóna fólki: „Við erum í grunninn öll með bæði þessa vanda og vonir og gleði og sorgir. Þau sem koma að utan sem koma inn í Hallgrímskirkju, það eru bara manneskjur sem eru ósköp líkar hrjótandi bændum í Skaftártungu.“

Hefur engar áhyggjur af Guði

Á ferli Sigurðar hefur margt breyst, til að mynda Þjóðkirkjan. Að hans mati hefur Þjóðkirkjan stofnanavæðst svolítið. Hún sé að einhverju leyti að verja formið frekar en inntakið.

„Ég hef engar áhyggjur af Guði en ég hef svolitlar áhyggjur af Þjóðkirkjunni. En ég held að kristnin lifi og þessi kærleiksboðskapur, þessi trúarboðskapur, þessi menningarboðskapur kirkjunnar – hann lifir.“

Sigurður hefur engar áhyggjur af Guði.VÍSIR/VILHELM

Sigurður segir að kirkjan hafi þó ekki lokið sínu hlutverki, hún sé núna á breytingaskeiði og eigi eftir að fara inn í öflugan tíma. Hann bendir svo á að munur sé á stofnun og inntaki:

„Það er munur á kirkju og kristni. Kirkjan á alltaf að reyna að vera kristnin en hún hins vegar hefur engan einkarétt á trú. Kristnin er það djúpa í þessu en stofnanirnar, þær breytast með hliðsjón til þróun þjóðfélaganna. Auðvitað var Þjóðkirkjan svo tengd ríkinu en hún er eiginlega á breytingaskeiði núna og er ekki alveg búin að átta sig á því hvaða hlutverki hún gegnir. En ég held að hún komi til með að gegna mjög mikilvægu hlutverki í íslensku þjóðfélagi.“

Ritlist, ljósmyndun og matur

Sigurður krossar nú puttana og vonar að hann komist inn í meistaranám í ritlist í Háskóla Íslands: „Ég veit ekki hvort ég kemst inn en ég er búinn að skrá mig í ritlist. Ef ég kemst ekki inn þá er það bara vegna þess að það er svo erfitt að komast inn. Ég heyri það að rithöfundar hafi ekki komist inn þannig ég þarf ekkert að skammast mín.“

Ef Sigurður kemst ekki í ritlistina þá verður hann þó með nóg fyrir stafni. Hann ætlar að læra meira í ljósmyndun og hefur skráð sig í nám til þess á vefnum. Þá ætlar hann einnig að fara aftur í gamalt langtímaverkefni sem hann hóf þegar hann var sóknarprestur í Neskirkju. „Það er að vinna með biblíumat,“ segir hann.

„Hún er mjög skemmtileg, matreiðslan frá þessu svæði, Sýrlandi, Líbanon, Írak, Íran, Palestínu og Egyptalandi. Ég ætla að halda áfram með svona verkefni sem ég var með þegar ég var að elda biblíumat í Neskirkju. Þannig þetta verða orð, ljós og matur.“

Hættir í góðu formi

Sem fyrr segir verður síðasta messa Sigurðar haldin á morgun í Hallgrímskirkju. Séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir mun svo taka við starfi Sigurðar í kirkjunni sem sóknarprestur.

Messan hefst klukkan 11:00 og segir Sigurður að um hátíð verði að ræða.

„Það er einn prestur að fara og annar að taka við. Það er mjög gleðilegt. Það er búið að ákveða að hinn presturinn í Hallgrímskirkju taki við mínu starfi sem ég er mjög glaður yfir og mér finnst það alveg dásamlegt. Þetta er svona kveðjumessa, full kirkja, allir kátir, mikið af snittum og allir fallegir til augnanna.

Það er bara mjög gott að fara úr prestsstarfi áður en allir eru farnir að bíða eftir að maður hættir. Það er miklu betra að það sé þannig.“

Sigurður segir gott að hætta áður en fólk er byrjað að bíða eftir því.VÍSIR/VILHELM

Sigurður segir einmitt að lokum að það sé mikilvægt að fólk hætti að vinna áður en það er orðið um seinan. „Mér finnst vera ástæða til þess að hætta á meðan ég er í góðu formi og get verið að þjóna duttlungum mínum og fólkinu mínu,“ segir Sigurður. Hann hlakkar til að njóta lífsins með eiginkonu sinni, Elínu Sigrúnu Jónsdóttur lögfræðingi. „Það er svo yndislegt að vera með henni, hlægja saman og ferðast,“ segir hann. Þá hlakkar hann til að verja tíma með börnunum og öllum sínum ástvinum. „Ég held að maður eigi að hætta í vinnu áður en maður verður alveg farlama.“

Visir.is  

Takk

Þessi mynd kom af himnum – falleg kveðja og þakkarverð tímasetning. Ég þakka líka Hallgrímssöfnuði og öllu því dásamlega fólki sem ég hef hitt, notið samvista með og þjónað. Kveðjumessan verður í Hallgrímskirkju á boðunardegi Maríu þ.e. 26. mars. Ég læt af störfum sem sóknarprestur Hallgrímskirkju 31. mars 2023. Takk fyrir mig – ný fæðing í vændum. Ég hef skráð mig í meistaranám í HÍ og í dekurnám á vefnum. 

Jerúsalem lambalæri – fyrirheitna lambið

„Af hverju er lambalæri ekki alltaf eldað svona?“ spurði sonur minn þegar ég eldaði þetta Jerúsalemlamb. Við vorum öll hissa að hafa ekki notið slíkrar dýrðar fyrr en palestínsk kryddun hentar lambakjöti vel.

F 8

2 tsk piparkorn

5 negulnaglar

½ tsk kardimommur

¼ tsk fenugreek – Grikkjasmári

1msk kumminfræ

1 tsk fennelfræ

1 stjörnuanís

½ kanelstöng

 

½ múskathenta – rifin

¼ tsk malaður engifer

1 msk sæt paprika

1 msk sumac

¾ msk maldonsalt

25 gr ferskur, niðurrifinn engifer

4 hvítlauksgeirar, marðir

40 gr. niðursaxað kóríander, stilkar og blöð

60 ml sítrónusafi

120 ml jarðhnetuolía (eða ólífuolía)

Lambalæri 2,5-3 kg

Setjið fyrstu átta hráefnin á heita pönnu og þurrsteikið í eina til tvær mínútur þar til kryddið fer að springa og ilma. Hristið eða hrærið með sleif. Gætið að því að brenna ekki kryddið. Bætið síðan við múskatmulningnum, engifer og paprikuduftinu og hrærið saman við það sem fyrir var á pönnunni og leyfið að hitna í nokkrar sekúndur. Merjið eða malið síðan allt af pönnunni í mortéli eða kryddkvörn. Færið síðan í skál og bætið öllu hráefninu sem eftir er saman við – nema lambinu. 

Engin ástæða til að hætta við eldamennskuna ef Grikkjasmári er ekki til í kryddskúffunni eða eitthvert annað hráefni. Notið nef og heila til að finna staðgengil krydds. Ellefu fyrstu hráefnin eru nokkurn vegin það sem þekkt er sem líbönsk kryddblanda. Kebabkryddið – shawarma – frá Kryddhúsinu getur dugað í tímaþröng.

Stingið í lærið með oddhvössum hníf 1 – 1 ½ cm stungugöt til að búa til kryddleiðir inn í kjötið. Setjið lærið síðan í steikarfat og þekið með kryddblöndunni og notið hendur til að breiða yfir allt og þrýsta á lærið. Lokið með álpappír eða fatloki og leyfið að marinerast í nokkra klukkutíma í ísskáp – og helst yfir nótt.

Yotam Ottolenghi leggur til að ofnhitinn sé 170°C en ýmsir hafa hitann lægri 140°C. Ég miða við 150°C. Þetta er jú hægsteiking. Kúpta lærishliðin snúi upp. Setjið 3 dl af sjóðandi vatni í fatið. Steikið í fjóra og hálfan klukkutíma. Kíkið reglulega í fatið til að tryggja að alltaf sé vökvi í botninum – ca ½ cm. Veiðið vökva á klukkutímafresti úr botni steikarfatsins og bleytið – þ.e. látið renna yfir lærið til að það ofþorni ekki í steikingunni. Síðustu þrjá klukkutímana er vert að breiða álþynnu yfir lærið. Þegar fullsteikt er takið steikina úr ofninum og leyfið að standa í 10-15 mínútur áður en  skorið er og steikin borin fram.

Mæli með að bera fram með hrísgrjónarétti og jógúrtsósu – t.d. 400 gr. grísk jógúrt, fjögur marin hvítlauksrif og rifin agúrka saman við. Mæli með Basmati og villihrísgrjónarétti Ottlenghi bls 106 í Jerúsalembókinni. Ef ekki fást villihrísgrjón eru ágæt grjónin frá Gestus Ris Parboiled & Vilde. Á pakkningunni eru suðuupplýsingar.

Uppskriftin er úr Jerusalem, bók þeirra félaga Sami Tamimi og Yotam Ottolenghi. Ég fann uppskriftina líka á netinu og hún er að baki þessari smellu.

Svona lítur kjötið út þegar það var sett í næturgistingu í ísskápinn.