Bleikja eða lax í tómata-appelsínu og kúrenusalsa

 

 

 

 

 

Enn einn dásemdarrétturinn úr Simple-bókinni hans Ottolenghi. Í upprunauppskriftinni er gert ráð fyrir að silungur sé notaður. En þar sem lax er kosinn af meirihlutanum á mínu heimili notaði ég hann. En ég hef hugsað mér að elda þennan rétt í sumar og nota þá sjógengna bleikju. En þetta reyndist ekki bara réttur fyrir mánudag heldur gersemi. Uppskriftin er miðuð við tvo.

Hráefni

150 gr smátómatar, piccolo eða kokteil – fjórðungaðir

1 appelsína – lífræn því börkurinn er raspaður af og síðan safinn krestur úr

2 límónur – safinn úr annari kreistur en hin er skorin til að skreyta.

1 ½ tsk hlynsýróp

1 ½ matskeið kúrenur  sem liggja í 1 msk sítrónusafa í hálftíma – í uppskriftinni er hin útgáfan að nota 1 ½ msk barberries – sem ég fann hvergi í borginni – krydd sem notað er í persneskri og oríentalskri matargerð.

1 tsk fennelfræ – mulið í mortéli

1 msk góð ólífuolía

70 gr ósalt smjör

2 hvítlauksrif – marin eða pressuð

500 gr lax eða bleikja

10 gr koríanderlauf – smásaxað

Salt, pipar að vild – ég notaði líka smávegis af chilliflögum.

Matargerðin

1 Hita ofninn – 200°C

2 Þegar búið er að fjórðunga – þe skera tómatana fjóra hluta– er þeim komið fyrir í skál. Appelsínusafinn, appelsínubörkurinn, límónusafinn, hlynsýrópið, kúrenur, fennelfræið, olían og smávegis af flögusalti yfir sem og nýmalaður pipar. Hræra til að blanda saman hráefnum. Þetta er salsað sem er svo notað til að setja yfir fiskinn þegar hann kemur úr ofninum og er borinn fram. 

3 Bræða smjörið á vægum hita og hvítlaukurinn út í. Þegar smörið er bráðið er slökkt undir. Fiskinum komið fyrir á olíubornu ofnföstu fati. Stráið salti yfir fiskinn. Smjörið fer svo yfir fiskinn. Fatið með fiskinum í sett í ofn og bakað í ca 15 mínútur. Ath að tímalengdin fer eftir hversu stór/þykkur fiskurinn er.

4 Setjið á disk. Setjið kóríanderlaufin niðurskornu í salsað og síðan er því ausið yfir fiskinn. Og svo er flott að skreyta með litfögrum límónum við hliðina. Og einhverjir vilja kreista þær yfir fiskinn.

Ég sauð núðlur með og saltaði og bragðstyrkti með tamarisósu.

Þökkum Drottni því að hann er góður.

Og miskunn hans varir að eilífu.

(tips: Hebreskt rím er m.a. inntaksrím: Gæska Guðs inntaksrímar við miskunn Guðs – og það er ofurkrydd með svona fínum mat).

Verði ykkur að góðu.

 

 

Þú skalt ekki morð fremja!

Fimmta boðorðið er til skoðunar í dag. Hvernig var það nú aftur? Já, það er bannið við að drepa. Þú skalt ekki morð fremja. Boðið er gott en hvar liggja mörkin? Hvenær verður eyðing lífs morð og hvenær ekki? Er bara átt við menn eða getur verið, að endurtúlkun Jesú á boðorðunum þenji regluna út? Varðar boðið jafnvel meira en karla og konur, börn og gamalmenni? Getur verið að náttúran sé systir, bróðir og náungi okkar? Varðar þetta boð umhverfissóða?

Í Íslandsklukkunni er Jón Hreggviðsson alls ekki viss um hvenær menn deyða. Hann svaraði Arnas Arnæus: „Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann?… …Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?” Fimmta boðorðið leynir á sér og á raunar meira erindi við okkur en að banna líkamleg voðaverk.

Í dag verður fjallað um þrennt: Fyrst ástæður boðsins til til forna. Síðan andlega dýpkun Jesú, sem stækkaði umfang boðsins og bætti við innhverfingu þess. Þar á eftir klofum við í guðfræðisögunni alla leið til Lúthers, sem kenndi, að fimmta boðorðið er ekki neikvætt heldur jákvætt og virkjandi. Lúther taldi að við ættum ekki að halda aftur af okkur heldur væru það jákvæðar samfélagsskyldur allra að efla hag allra. Í lokin íhugum við gildi fimmta boðorðins fyrir fólk í samtíðinni. Boð, sem virðist ekki vera sérlega mikilvægt fyrir okkur, sem erum ekki í drápshug, verður allt í einu ágengt og mál dagsins.

Lífsvernd

Lífið er alltaf dýrmætt og á öllum öldum. Þegar blóð hafði flætt, sorgin níst og ástvinir voru grafnir var og verður alltaf niðurstaða hugsandi fólks að nauðsynlegt væri að hefta drápin. Fimmta boðorðið var og er regla um lífsrétt sem var sett gegn hrárri villimennsku, yfirgangi, ofbeldi, vörn gegn hefndum og blóðugri samkeppni, já skikkan gegn hrottaskap. Líf einstaklinga var ekki og mátti ekki vera eitthvað, sem annar gat tekið si svona eða af því svírinn lægi svo vel við höggi eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu og var réttlæting Þorgeirs á mannsmorði. Dráp má aldrei vera geðþóttamál, hrottaleikur og hvatvís hugdetta.

Hið forna samfélag hebreanna bannaði ekki að losa sig við illvirkja. Hagsýni allra tíma hefur reiknað út, að öxin og jörðin geymdu slíka best. Síðan hafa alltaf verið til rök – misgóð – um fælingarmátt dauðarefsinga. Lífsvernd er þó meira en bara einföld hagsýni. Líf mannsins er grundvallað heilagri réttsýni, ákvörðun Guðs. Fimmta boðorðið er stefna Guðs. Lífið er gott – ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að lifa og það sé stundum gaman hjá okkur – heldur vegna þess að Guð hefur ákveðið að manneskjan hafi gildi, maðurinn sé kallaður til samvinnu í guðsverkinu. Efnislega er manneskjan ekki mikils virði – tæplega 60 lítrar af vatni, 2 kg af fitu og 1,2 kg af kalki og einhver grömm af ýmsum efnum. Það er ekki hráefnið sem býr til manngildi. Trúmenn fyrr og síðar hafa ekki álitið lífið heilagt vegna útreiknings á einhverjum stærðum og víddum, heldur af því Guð hefur ákveðið það. Guð var trygging manngildis. Manngildisafstaða trúarinnar hefur síðan alið af sér mannhelgi siðakerfa Vesturlanda, löggjöf þjóða og félaga og mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Trúmenn eiga því að styðja alla viðleitni manna til að tryggja velferð fólks og réttindi. Sá réttur er óháður trú þó trúmenn sjái í þeim rétti guðlega visku.

Jesús og boðorðið

Jesús vissi vel um reglur samfélagsins. Hann beitti sér ekki gegn siðakerfum og hefðum, sem þjónuðu góðu mannlífi. En hann beitti sér alltaf þegar menn vildu hangýta sér lög og reglur í eigin þágu eða einhverrar þrönghyggju, sem væri á kostnað elsku og umhyggju.

Hópur af mönnum, sem vildu klekkja á Jesú færðu t.d. til hans konu, sem var brotleg í siðferðisefnum og svo mjög að skv. reglunum mátti drepa hana með því að henda í hana grjóti. Dólgarnir ætluðu að koma Jesú í bobba. En hann stóð með lífinu í þetta sinn sem endranær þó hann afsakaði ekki gerning konunnar. Viska Jesú var til að eyðileggja prettavit hópsins. Hann sagði að þeir sem væru syndlausir ættu að kasta steinunum (Jóh. 8.7). Við það hurfu kastararnir. Freka karlinum er alltaf illa við að sjónum er beint að honum.

Í Fjallræðunni kemur fram, að Jesús er sammála boðinu, en hann gaf því þó nýja og dýpri merkingu. Hann túlkaði stórt og vítt. Menn megi ekki deyða aðra heldur sé boðið líka andlegt. Við deyðum ekki aðeins fólk með því að meiða líkamlega, heldur með ýmsu móti, t.d. með því að reiðast einhverjum. Jesús stækkar eða víkkar því merkingarsvið boðsins, lætur sér ekki nægja hið ytra heldur færir það inn í fólk, í afstöðu, tilfinningar þess og innræti.

Af hverju þessi stækkun, breikkun og dýpkun Jesú? Það er vegna afstöðu hans til fólks. Jesús leit svo á, að maðurinn væri óendanlega mikils virði og ætti að hegða sér í samræmi við þær notkunarleiðbeiningar, sem Guð setur fyrir gott mannlíf.

Lúther úthverfði

Þá tökum við langt guðfræðiskref og til siðbótartímans. Margir verða hissa á boðorðaafstöðu Marteins Lúthers, en hrífast þegar skýringarnar hans eru skoðaðar. Lúther þekkti vel sögu siðfræðinnar og að Jesús túlkaði alltaf mannræktandi. Í skýringu Lúthers á fimmta boðorðinu er ekki talað um einangrað ofbeldisverk, heldur er ramminn stór og jákvæður: “Við eigum að óttast og elska Guð, svo við ekki meiðum náunga okkar, né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.”

Í viðbót við innhverfingu Jesú varðandi boðorðin úthverfir Lúther og í samræmi við anda Jesú. Boðorðið hefur samfélagsvídd. Samkvæmt Lúther er ekki aðeins bannað að skadda aðra, heldur er hlutverk okkar að efla aðra og bæta hag þeirra. Hlutverk okkar er að tryggja velferð annarra, beita okkur í samfélaginu svo við eflum lífsgæði, ekki aðeins okkar eigin, heldur samfélagsins alls. Við hlýðum fimmta boðorðinu þegar við erum tilfinningalega og samfélagslega heilbrigð og ábyrg og samfélagið virkar vel og til hags fyrir heildina. Bannið við morðum, fimmta boðorðið, varðar stjórnmál okkar, umhverfismál, samskipti við aðra. Líf okkar er, samkvæmt guðlegri ákvörðun, heilagt. Við eigum að hegða okkur í samræmi við þá skilgreindu stöðu okkar með því að rækta umhyggju og gera öðrum gott.

Boðorð fyrir okkur

Já, hvenær drepur maður mann? Við deyðum þegar við stingum, skjótum, lemjum eða keyrum á einstaklinga svo þeir láta lífið. Það er óheimilt trúarlega og líka lögbrot. Samfélagið hefur reglur um slíkt og refsar fyrir. En svo er allt hitt að auki. Við getum deytt þegar tilfinningar okkar leiða okkur í gönur, þegar við leyfum heift að sá sér hið innra, spíra þar og vaxa. Þá verður til dauðaferli. Reiði, hatur, vondar hugsanir og ljótleiki eyða og deyða. Ofsi hið innra er eitur, sem lífið þolir illa eða ekki. Þegar slíkt lifnar í þér og vex er dauðinn að grípa þig og kæfa. Þú byrjar að deyja.

Við deyðum þegar við tökum þátt í eða leyfum að varnarlitlir séu beittir harðræði, einelti, rangsleitni, ofbeldi, baktali og öðru álíka. Við erum samsek þegar við leyfum kerfum að viðhaldast, sem niðurlægja fólk, réttlæta kynjamismunun, þjóðamismunun, kynþáttamismunun eða aðra óeðlilega og ómannlega aðgreiningu hinna betri og hinna verri, hinna æðri eða óæðri. Maður drepur mann ef við gætum ekki hagsmuna fólks og reynum að efla hag og velferð annarra. Boðið er róttækt og lífið er heilagt. Mannlíf fólks er eitthvað, sem okkur ber að virða og engan afslátt veita. Og svo er náttúran systir okkar sem við höfum ekki heimild til að deyða.

Guð vill að lífið sé virt, þitt eigið líf, líf þeirra sem þú elskar, en líka líf hinna sem þér er í nöp við eða eru þér jafnvel kvalræði, líf allra, kvenna og karla, allra manna, allrar veraldar. Við eigum ekki aðeins að beita okkur í mannvernd, náttúruvernd og samfélagsvernd vegna þess að það sé hagkvæmt og tryggi okkur sjálf, heldur vegna þess að Guð vill það. Í því verður siðsemin róttæk og boðið djúpt og altækt. Og boðið á við þig og mig.

Amen

Hallgrímskirkja, 10 mars 2019. Í röð boðorðaprédikana í janúar – apríl, 2019.

Lexían

Þú skalt ekki morð fremja.

  1. Mósebók 20,13

Pistillinn

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Rómverjabréfið 13,8-10

Guðspjallið

Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur skal svara til saka fyrir dómi. En ég segi yður: Hver sem reiðist[ bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis. Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum.

Matt. 5, 21-25

 

+ Sigurður Pálsson + minningarorð

Lítill drengur hljóp um forkirkju Hallgrímskirkju eftir messu. Sigurður Pálsson sá til hans og tók eftir að reimarnar á skónum hans voru langar og lausar. Og presturinn fór til drengsins, heilsaði honum, bað hann að bíða og kraup síðan á hnén og batt reimarnar. Strákur hélt svo áfram hlaupunum, en atferlið varð gjörningur undursins í minningu þeirra sem sáu. Stór maður sá barnið og greindi hættuna, beygði sig til að þjóna því svo leikurinn yrði frjáls. Þannig bregst góður maður við, góður prestur líka og þannig þjónar lifandi kirkja lífinu, mætir stóru fólki og litlu og tryggir lífsþvengina. Sigurður Pálsson mat leik barna mikils og vildi að börn væru í kirkjunni. Oft sagði hann, að barnahljóðin væru hinn fegursti söngur. Hann samþykkti líka kenninguna um, að himnaríki væri í gleðileik ungra barna. „Leyfið börnunun að koma til mín og varnið þeim eigi.“ Frá upphafi og til loka virti Sigurður Pálsson þessi elskuorð Jesú Krists. Við ævilok íhugaði hann lífsstarf sitt og sagði: „Stóran hluta starfsævi minnar hef ég með einum eða öðrum hætti unnið að kristinni fræðslu barna og ungmenna. … og legg til að íslenska þjóðkirkjan og söfnuðir hennar geri barna, unglinga- og foreldrastarf að algjöru forgangsverkefni næstu tvo áratugi, og þá meina ég algjöru forgangsverkefni.“ „Leyfið börnunun að koma til mín og varnið þeim eigi.“

Akur, upphaf og nám

Sig­urður Páls­son var alinn upp til mannræktarstarfa og orðaiðju. Hann fædd­ist 19. sept­em­ber árið 1936. Sigurður var son­ur Páls Sigurðsson­ar, prent­ara, og Mar­grét­ar Þor­kels­dótt­ur, húsfreyju. Þau og fjölskyldan bjuggu í húsinu Akri við Bræðraborgarstíg og heimilið var gróðurreitur gæskunnar. Foreldrar Sigurðar innrættu börnum sínum guðsvirðingu og þar með mannvirðingu og kenndu þeim að styðja þau sem voru höll í lífinu. Þorkell (Tolli) var elstur en Sigurður (Diddi) lang-yngstur. Þrjár systur voru á milli bræðranna. Svandís (Dísa) var næst yngst, en ólst ekki upp með systkinum sínum en var í góðum tengslum við þau. Eldri systurnar Steinunn (Denna) og Kristín (Dista) höfðu svo gaman af og skiptu sér af yngsta bróðurnum, að hann átti eiginlega þrjár mæður. Það varð honum til lærdóms og styrks. Alla tíð síðan kunni Sigurður að meta, virða og umgangast sterkar konur.

Sigurður Pálsson ólst upp í gamla vesturbænum, í litríku mannlífi og umhverfi. Hann var uppátækjasamur og kannski voru það hin nánu tengsl við undur hvítasunnunnar að hann varð – að eigin sögn – dúfnakóngur vesturbæjar. Foreldrarnir leyfðu honum, sem ekki var sjálfsagt, að nota háaloftið fyrir fugla og Akur varð umferðarstöð þessara fiðruðu engla og guðstákna.

Þegar Sigurður hafði aldur til fór hann í Miðbæjarskólann. Sigurður lauk kenn­ara­prófi og söng­kenn­ara­prófi frá Kenn­ara­skóla Íslands árið 1957. Þegar hann var orðinn aldraður sagðist hann aldrei hafa lært að leika sér. En uppeldis- og skólamál, andlegt og menningarlegt uppeldi urðu verkefni og áhugaefni hans alla ævi. Sigurður var eiginlega að ala sjálfan sig upp meðan hann lifði. Og honum var leikur að læra. Hann hætti aldrei að menntast, stæla andann og afla sér þekkingar. Hann var viskusækinn lestrarforkur og aðaláhugaefnin voru uppeldisfræði og guðfræði.

Ég var svo lánssamur að sitja með honum í tímum í guðfræðideild HÍ. Nám hans var okkur félögum hans m.a. eftirminnilegt því ef hann var bundinn í vinnu sendi hann kasettutæki í tíma. Einhver okkar félaganna ýtti á rec-takkann og Sigurður hlustaði á spólurnar eftir vinnu. Þórir Kr. Þórðarson setti honum stundum sérstaklega fyrir og talaði þá niður í kasettutækið, sem var eftirminnilega kúnstugt. Ég grunaði kennarann um, að kanna hvort Sigurður hlustaði raunverulega – en hann var þá í mörgum störfum og önnum kafinn. Ég dáðist að skilvísi Sigurðar, sem vann samviskusamlega aukaverkefnin sem kennari og kasetturnar báru honum.

Sigurður lauk BA-prófi í kristn­um fræðum árið 1977, en svo kom hann síðar kasettutækislaus og lauk embættisprófi í guðfræði árið 1986. Uppeldisfrömuðurinn og trúmaðurinn samþættu enn betur uppeldisfræðina og guðfræðina og Sigurður lauk doktors­prófi í mennt­un­ar­fræði frá Kenn­ara­há­skóla Íslands (KHÍ) árið 2008. Hann skrifaði merka ritgerð um trúaruppeldi og kristinfræði í skólasögu Íslands á tuttugustu öld. 

Skóli, námsgögn og kirkja

Sigurður kom víða við sögu í vinnu. Þegar hann kenndi við Breiðagerðis­skóla á sjötta og sjöunda áratugnum varð hann frægur fyrir að efla nemendur sína umfram allar skyldur og koma þeim til meiri þroska en vænta mátti. Sigurður fór úr kennarafötunum á vorin og í lögreglubúninginn og þótti bæði góður lögregluþjónn og sérlega glæsilegur. Sigurður var vegna verka sinna kallaður til starfa sem skrif­stofu­stjóri hjá Rík­is­út­gáfu náms­bóka um það leyti sem stúdentabyltingarnar riðu yfir og breyttu menningu Vesturlanda. Svo sinnti hann stundakennslu víða, í MR í nokkur ár, í Kennaraháskólanum í 31 ár, og við guðfræðideildina í Hí í sextán ár. Frá áttunda áratug síðustu aldar og fram á þessa öld var Sigurður helsti sérfræðingur þjóðarinnar í trúaruppeldisfræði, aðalmaðurinn við mótun og kennsluhætti kristinna fræða og trúarbragðafræðslu skólanna. Hann skrifaði kennsluefnið eða stýrði vinnu og vinnslu þess. Hann vann við útgáfu námsbóka, vann hjá Námsgagnastofnun og var af stjórnvöldum kallaður til starfa þegar málaflokkar trúarbragða- og kristindómsfræðslu voru til umræðu.  

Sig­urður var vígður prest­ur árið 1988. Hann fékk þá leyfi frá námsgagnavinnu í tæpt ár og var settur sókn­ar­prest­ur í Hall­gríms­sókn. Prestsþjónustan markaði ný spor og eftir veruna í Hallgrímskirkju var Sigurður ráðinn til að verða fram­kvæmda­stjóri Hins ís­lenska biblíu­fé­lags, sem átti sér starfsstöð hér í kirkjunni. Félagið blómstraði í þau sjö ár, sem hann stýrði því. En þegar þegar prestaskipti urðu árið 1997 var Sigurður skipaður sóknarprestur þessarar kirkju. Söfnuði Hallgrímskirkju – og öllum heiminum – þjónaði Sigurður í nær áratug og lét af störfum árið 2006. 

Biblíufélagið og leikmannahreyfingin

Sigurður kom víða við sögu kristnilífs þjóðarinnar. Hann var forkur til vinnu, hæfur félagsmálamaður, tillitssamur og hlýr í samskiptum og skilaði alltaf sínu án tafa. Hann var  eftirsóttur til stjórnarstarfa og sjálfboðastarfa. Hann var m.a. í stjórn Biblíufélagsins í tólf ár og var í þýðing­ar­nefnd Gamla testa­ment­is­ins í sautján ár. Sigurður var kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska biblíufélags árið 2015.

Hann gegndi ábyrgðarstörfum og stjórnunarstöðum í KFUM og var um skeið formaður félagsins (og heiðursfélagi). Þá var hann í áratugi einn helsti foringi kristilegu skólahreyfingarinnar. Hann var formaður KSS og síðan trúnaðarmaður í starfi samtakanna. Þau Jóhanna G. Möller þjónuðu ungu fólki með samtölum, ráðgjöf og sóttu árum saman kristileg skólamót í Vatnaskógi, Sigurður sem snjall leiðbeinandi og Jóhanna heillandi vinkona unga fólksins.

Sigurður var músíkalskur. Hann var mentaður söngkennari og stjórnaði einnig Æskulýðskór KFUM- og K í sex ár. Ég var svo lánssamur að njóta hans sem stjórnanda. Hann var taktfastur, næmur og vel heyrandi stjórnandi. Og svo samdi hann sönglög. Í Sigurði var líka skáldaæð og hann samdi talsvert af sálmum, sem notaðir eru í kirkjunni.

Sigurður var sískrifandi alla tíð. Hann var leiftrandi penni, og auk kennslu­rita í kristn­um ritaði hann mikinn fjölda tímaritagreina og bækur. Hann skrifaði t.d. merkilega og áhrifaríka bók um börn og sorg, rit um Vatnaskóg og sögu Gídeonfélagsins. Sigurðarbókin um sögu Hall­gríms­kirkju er stórkostleg og ber rannsóknarmanninum og höfundarhæfileikum hans fagurt vitni.

Jóhanna, Ágú og Magga Stína

Svo voru það Hanna og Diddi. Jóhanna G. Möller var barn þegar hún vissi hver Sigurður Pálsson var. Hún hafði séð hann og tók eftir að hann sá hana líka. Hún var bráðger og ákveðin, var bara þrettán ára, með eld í hjarta og huga þegar hún mætti Sigurði á gangi í KFUM-húsinu við Amtmannsstíg. Hann var fjórtán ára. Hann sá hana, en sagði ekkert við hana og hún kallaði á eftir honum: „Ætlar þú að ganga fram hjá mér án þess að tala við mig?“ Það er kraftmikil pick-up lína og virkaði svo vel, að hún dugði til heillar ævi. Sigurður snarsnerist og heyrði æ síðan hvað Jóhanna G. Möller sagði. Hann tók mark á henni, innsæi hennar og tillögum. Frá unglingsárunum vissu þau, að hún byggi í hjarta hans og hann í hennar. Þau gengu í hjúskap bráðung, voru alltaf ástfangin því þau unnu stöðugt að sáningarstarfi á akri ástarinnar.

Ég er búinn að fylgjast með ofurást Sigurðar og Jóhönnu í hálfa öld og hef dást að. Kærleiksrík virðing þeirra fyrir hvoru öðru var til fyrirmyndar öllu unga fólkinu, sem þau hjónin þjónuðu. Jójó og Pálsson voru svo ótrúlega ólík, en það blossaði á milli þeirra gagnkvæm vinátta, kærleikur og mannvirðing af Jesútaginu. Elska eilífðar speglaðist í ástarbandi þeirra. Á síðustu metrunum þegar máttur Sigurðar var skertur og sjón hans farin sat Hanna við rúmið hans og þau játuðu hvoru öðru ást sína. Og Jóhanna spurði: „Sérðu mig?“ Þá svaraði hann: „Ég kann þig utanað!“

Já, þau þekktu hvort annað algerlega. Sig­urður og Jóhanna gengu í hjónaband árið 1957 og bjuggu fyrst í kjallaranum á Akri við krossgötur Bræðraborgarstígs og Túngötu og nutu návistar við dýrðarfólkið hans Didda, eins og Sigurður var gjarnan kallaður. Svo fóru þau að byggja í Frostaskjólinu. Ég undraðist að Sigurður, sem bjó svo nálægt KR-vellinum væri algerlega ósnortinn af röndótta stórveldinu. En hann gat alveg skilið að það þyrti að syngja á leikjum: „Heyr mína bæn…!“ Sigurður var sérlega handlaginn og afbragðs smiður. Við bygginguna naut hann ættmenna og vina. Húsið reis og varð rúmgott og fagurt heimili þeirra Hönnu, dætranna og afkomenda. Og svo smíðaði hann síðar mörg smáhús fyrir leiki afkomenda sinna. Pálsson var afar góður við Hönnu sína, rómantískur og uppátækjasamur. Hann bjó til ævintýraveröld í kringum rúmið hennar á afmælisdögum, raðaði hjartasúkkulaði á stóla og orkti ljóð til hennar. Ástarljóðin eru litrík og dásamleg.

Þau Hanna og Diddi eignuðust tvær dætur Ágústu Helgu og Margréti Kristínu. Ágústa Helga fæddist inn í haustið árið 1960 og lést síðla vetrar árið 1990 (f. 21. ágúst og lést 9. apríl). Hún var lögfræðingur. Margrét Kristín fæddist 11. desember 1963.

Maður Ágústu var Búi Kristjánsson. Synir þeirra Ágústu eru Haukur Þór, Birgir Hrafn og Arnar Már. Barnabarnabörnin eru þrjú, Viktor Örn, Daníel Leó og Atli Hrafn.

Margrét Kristín er tónlistarkona, leikkona og kennari. Maður hennar er Börge J. Wigum. Börn þeirra eru Embla Gabriela og Ágúst Örn.

Sigurður Pálsson þjónaði þessu fólki, var faðmur þeirra og klettur, alltaf nærfærinn vinur og líka áttaviti. Hann lagði allt frá sér þegar þau komu og þegar þau þörfnuðust hans. Og alltaf gladdist hann hjartanlega þegar þau vitjuðu hans. Og það var undursamlegt að sjá hve augu hans ljómuðu þegar hann talaði um þau og sagði frá þeim.

Eigindir

Hvernig manstu Sigurð Pálsson? Manstu skartmennið? Manstu söngvarann, sem lifnaði allur þegar hann söng? Eða glettinn vísumann, sem skellti fram kaldhamraðri Káinn-vísu sem sprengdi drungann? Manstu brosið og kankvísan svip hans? Manstu hina virku hlustun Sigurðar, algeru nánd og virðingu fyrir þér? Fermingarungmenni, sem hann fræddi á sínum tíma sagði þegar fréttin um lát Sigurðar barst: „Hann var svo óvenjulegur því hann virti okkur krakkana. Við fundum hvað hann var hógvær maður.“

Sigurður þjónaði mörgum og margir sóttu til hans í kirkjuna. Einu sinni kom einn af fastagestum hans í gættina á skrifstofunni, illa á sig kominn og spurði þvoglumæltur: „Má ég koma inn?“ Sigurður leit upp frá vinnu sinni við skrifborðið og svaraði ljúflega: „Gerðu svo vel.“ Og hann kom inn, settist í fína sófasettið Guðjóns Samúelssonar, fór svo úr skónum, lagðist upp í sófa og sofnaði svo vært undir brosmildu umhyggjutilliti sóknarprestsins, sem hélt áfram að undirbúa fræðslu kvöldsins og velja sálma fyrir helgarmessuna. Svo hálftíma síðar vaknaði sófamaðurinn, reis upp, fór í skóna sína og sagði endurnærður við Sigurð. „Þetta var gott. Vertu blessaður.“ Og Sigurður svaraði: „Gangi þér vel, vinur.“ Margir telja að þessi sálgæslustund sé með þeim best heppnuðu í Hallgrímskirkju!

Já, Sigurður kunni að hlusta en hann kunni líka að tala. Manstu hve orðheppinn hann var? Eða skýra, hljómmikla og rökfasta málafylgju hans í ræðu? Manstu getu hans til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, skýr viðbrögð hans og hæfni til að orða það sem skipti máli? Málgetan og snerpan kom víða fram, líka í málleikjum heimilislífsins. Sigurður gaf ástvinum sínum gjarnan viðurnefni. Ágústu Helgu kallaði hann Gullbrá og Möggu Stínu Skrjóð og Kríli. Svo voru þau öll hin: Stórólfur, Krummi, Glókollur, Stubbur og Djásnið. Og að festa öryggisbelti í bílnum var að festa sig í sessi! Allt lifnaði við tillit hans og hann nefndi veröldina. Og þó hann teldi, að hann kynni ekki að leika sér var hann kátastur í suðurhlíðum tungumálsins. Og eins og brandrar og ljóð eru samsetningur hins óvænta varð fólk litríkt og viðburðir sögulegir í meðförum Sigurðar. Reyndar var dóttirdóttir hans ósammála því, að afi hafi ekki kunnað að leika sér. Hún spurði hann beinlínis hvort hann hefði lært að leika í prestaskólanum!

Manstu kyrru Sigurðar, sterka hlustun, hve áhugasamur hann var þegar lífið hríslaðist í fólki, sem hann hitti eða leitaði hans? Manstu trúnaðinn, fínleikann, íhyglina og traustið? Og svo lifði hann með ákefð og áköfust var elskan gagnvart Hönnu hans, dætrum og öllum afkomendunum. Hann virti tilfinningar og dæmdi þær ekki. Ástin og sorgin eru stór stef í kenningu hans. En hann lagði líka mjög upp úr vilja og að ígrundaða stefnufestu. Það er merkilegt að lesa hjónavígsluræður Sigurðar og hve skýrt hann talaði um að elskan væri ákvörðun.

Heilindin og glíman

Sigurður var maður heilindanna. Hann var heils hugar í öllu, hvort sem var í dúfnarækt, söngiðkun, lærdómi eða ástinni. Burðargrind lífs hans og verundar var trúin á Guð. En dauði Ágústu splundraði einfeldni og sleit klisjur trúarinnar, reif glansmyndirnar. Áfallið markaði skil í lífi hans. Það var ekki bara áfall grátandi föður, heldur varð líka brestur í grundvelli lífsins. Af hverju Guð? „Úr djúpinu ákalla ég þið Drottinn.“ „Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt.“ Þetta eru biblíustefin, sem Sigurður notaði til að ramma eigin glímu og urðu þrástef í ræðum hans um sorg og í minningarorðum útfaranna. Sigurður háði djúpmennska Jobsglímu allt til enda. Efinn, öflug systir trúarinnar, varð fyrirferðarmikil í vitund hans. Sjálfur lýsti hann því, að við stóráfall yrði maður eins og þriggja hæða hús og ljósin kviknuðu aldrei í kjallaranum. Og hann sagði, að krepptur hnefi væri öflugasta bænin! En svo sagði hann líka að reynslan hefði kennt honum, að kristin trú væri trú vonarinnar. Sigurður skrifaði: „Glansmyndir mást með tímanum. Ég er hættur að hafa gaman af þeim. Raunveruleikinn, með ljósi og skuggum stendur mér nær. … Guð, ég þakka þér fyrir gjöf vonarinnar.“

Við Sigurður vorum trúnaðarvinir og hann sagði mér oft frá sorgarleiðum lífsins og hve svarti hundurinn glefsaði sárt. En Sigurður lamaðist ekki heldur brást við dótturmissinum með því að auka þjónustuna við fólkið sitt og lifendur. Viðbrögð hans voru fjölþætt og siðferðileg í því að axla enn meiri ábyrgð og víkja sér aldrei undan elskunni og ábyrgðinni gagnvart konu sinni, dóttur og barnabörnum. Aldrei að víkja, aldrei að bregðast, aldrei að brotna. Lífsdrama Sigurðar var djúp-guðlegt. Hann brást við áföllum í samræmi við merkingu guðsástarinnar gagnvart harmi heimsins – með því að elska. Myndin af Sigurði í hugum ástvina hans, fjölskyldu og vina er mynd hinnar skilyrðislausu ástar.

Presturinn

Sigurður Pálsson batt lífsreimar fólks í kirkjunni og hann var afburða kennimaður. Prédikanir hans voru skírðar í eldi mikillar lífsreynslu. Engir prestar á Íslandi síðustu tvö hundruð árin hafa prédikað betur og dýpra um sorg og böl en hann. Hann var söngvari hinnar sáru visku.

Stíll prédikana Sigurðar var hraður, myndrænn, oft óvæntur og launfyndinn. Hann upplýsti par í hjónavígsluræðu að hjónabandið væri ekki vatnshelt og það þyrfti tvo til að ausa svo hjónabáturinn sykki ekki. Sigurður byrjaði gjarnan prédikanir bratt og með sláandi setningum, sem römmuðu eða mörkuðu það sem síðan var rætt. „Lífið er rán“ er eitt upphafið. „Lífið er óvissuferð“ er önnur upphafssetning, sem kemur oft fyrir.

Það var aldrei neitt ódýrt eða klisjukennt í bókum, greinum, ræðum, kennslu, hugleiðingum eða kenningu Sigurðar Pálssonar. Hann var alltaf frjór, skarpur, leitandi og á andlegri hreyfingu. Sigurður Pálsson hafði alla tíð hlýtt hjarta en kaldan heila. Hann skrifaði hugleiðingar og prédikanir með hjartablóði sínu. Engin ódýr svör. Hann var með báða fætur á jörðinni, en andi hans fór hátt og djúpt. Hann opnaði alltaf, þorði að fara að baki hinu skiljanlega. Hann þekkti mörkin, en fann fyrir hvenær hann var í óskiljanleikanum, þreifaði þar til leita að því sem bera mætti inn í ljósið og til visku. Sigurður var ofurkvika, sem titraði yfir minnsta áreiti, opnaði hjartagrunn og faðminn gagnvart hinu stóra og stærsta og vann úr. Viðmælendur hans voru fólk með opna hjartastöð, hugsandi gruflendur sem fann til, fólk á ferð sem þorir og þolir að breyta um kúrs. Erindið var alltaf stórt. Af því hann var sílesandi og fjallaði vel um bækur var fræðandi og menntandi að hlusta á Sigurð, sem tengdi og túlkaði veraldir mennta fyrir tilheyrendur sína. Hann leitaði friðar í ófriði, að ljósinu í myrkrinu. Hann talaði um fyrirgefningu og lausn. Í honum bjó engin kyrrstaða heldur hræring. Hann var aldrei alveg niðri, heldur alltaf á uppleið og í föruneyti Jesú Krists.

Akur eilífðar

„Þá er búið að hafa gaman af því.“ Þannig byrjaði Sigurður einu sinni prédikun á jólanótt. Eftirminnileg setning, sem batt saman alla skóþvengi atsins á aðfangadagskvöldi. En nú er söngvari viskunnar þagnaður. Hann miðlar þér ekki framar, veitir þér ekki athygli, hlustar ekki framar á þig eða kallar þig til visku. Rödd hans, sem hljómaði í hvelfingum þessa mikla hliðs himins, er nú þögnuð. Síðustu orðin, sem ég heyrði hann fara með í þessum heimi – þá orðinn raddlítill, voru:

„Guð sefaðu svíðandi hjarta

og sendu mér ljósið þitt bjarta.

Og gef mér þinn græðandi frið.“

(5 v. í sálmi 924 í sálmabókarviðbæti)

Þetta var hinsta bæn hans. Já, hann er farinn inn í friðinn, hinn græðandi frið. Hjartað er sefað og svíður ekki lengur. Ljósið er algert. „Trú er heimþrá,“ sagði hann. Orð hans um trú og efa enduróma ekki framar í þessum hvelfingum en eru geymd í ofurkviku, ofurhlust Guðs. Hann er ekki í djúpi angistar, heldur djúpi elskunnar, ekki lengur með krepptan hnefa og sviða í sinni, heldur blessaður, græddur og bjartur. Og hann hann fær að sjá Ágústu – og alla burtkallaða ástvini – koma hlaupandi á móti sér yfir engi vonanna. Hann er kominn heim á Akur eilífðar.

Guð geymi Sigurð Pálsson – og Guð hjálpi okkur öllum.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2019. 

Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfi í Hallgrímskirkju. 

Biblíulestrar

Sálmur 27.7-9

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt,
ver mér náðugur og bænheyr mig.
Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
Hyl eigi auglit þitt fyrir mér,

Hrind mér eigi burt
og yfirgef mig eigi, 
þú Guð hjálpræðis míns.

Sálm 130

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Kærleiksóðurinn

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn. Nú er þekking mín í molum en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, 
en þeirra er kærleikurinn mestur.

Fyrra Korintubréf 13

Jesús og börnin

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Markús 10.13-16

Jakob Jónsson – prestur, skáld, fræðimaður

Þegar ég kom til starfa í Hallgrímskirkju var mér þörf á stól og skrifborði. Ég fór um kirkjuna til að leita að húsgögnum, sem ekki væru notuð, kíkti í allar vistarverur þessa mikla húss sem er eins ævintýralegt og Hogwart-skóli. Leitin varð að lokum tenging við sr. Jakob.  Í háloftum turnsins sá ég fagurt, bogið tekkskrifborð, sem höfðaði eða talaði sterkt til mín, en ég vissi ekki af hverju. En ég skildi það þegar mér var sagt að þetta væri skrifborðið hans sr Jakobs. Þá mundi ég. Ég hafði séð það heima hjá honum og tengdi við hann hið innra. Borðið hafði verið gefið til kirkjunnar skömmu áður en ég kom til starfa. Og nú er fagra, danska skrifborðið hans á skrifstofunni minni, vekur athygli þeirra sem koma. Og það verður samtalstilefni um persónuna, rithöfundinn, fræðimanninnn og kennimanninn Jakob Jónsson. Ég hugsa um hann oft, um þanka hans, áhyggjur, hugsjónir og líka prédikun þegar ég sest niður við borðið og hamra á tölvuna.

Jakob Jónsson var stórveldi í kirkjulífi Íslands og risi í menningarlífinu á tuttugustu öld. Hann var embættismaður, vísindamaður, skáld, félagsmálamaður, menningarmaður og prestur. Í uppvextinum heyrði ég foreldra mína tala um hann. Á heimili mínu var hlustað á sr. Jakob þegar hann messaði í útvarpinu og greinar hans í dagblöðunum voru lesnar. Og ættmenni Jakobs komu víða við sögu: Eysteinn, bróðir hans, var áberandi í pólitíkinni, röddin hans Jökuls var seiðandi í útvarpinu og bækur hans voru lesnar, Svava var áberandi í menningarlífi og stjórnmálum og Þór stjórnaði veðrinu. Og þegar eitthvert þeirra – eða annarra ættmenna og afkomena Jakobs kom við sögu – var Jakob gjarnan nefndur einnig. Ég man að faðir minn talaði meira um sr. Jakob en móðir mín.

Kom þetta úr mér?

Árið 1983 fór ég að safna efni í doktorsritgerð mína sem er um minni í trúarhefð Íslendinga. Og þar sem hluti ritgerðarinnar fjallar um tuttugustu aldar guðfræði vildi ég gjarnan hitta, sem flesta sem höfðu komið að máli. Ég hitti dr. Jakob einhverju sinni á fundi og hann var áhugasamur um verkefni mitt. Ég hreifst af fjörinu, kíminni greindinni og getunni til greiningar. Við ákváðum að hittast og ég fór heim til hans og mér þótti merkilegt að hlusta á þennnan merka skáldprest túlka menningarstrauma og kirkulíf aldarinnar. Þar sem ég bjó á þessum tíma austur í Skaftártungu tók sr. Jakob upp á því að senda mér bréf. Þau voru lífleg, greinandi og skemmtileg. Ég spurði hann um guðfræði hans. Jakob vitnaði í ritverk Carlo Collodi sem heitir á frummálinu Pinocchio sem við þekkjum sem teiknimyndahetjuna Gosa. Í bréfi Jakobs frá 9. janúar 1984 segir hann: „Ræður mínar eru ákaflega misjafnar að gæðum, að sjálfsögðu, og við endurlestur segir maður stundum við sjálfan sig eins og Pinochio í Pleasure Island: „Did that come out of me?“ Og hvað var það sem kom út úr honum, hvað hugsaði hann og skrifaði, sagði og prédikaði?

Uppvöxtur, gildi og andi

Jakob var tuttugustu aldar maður.[i]Hann fæddist í upphafi aldar og bar í sjálfum sér hugsjónir og menningarbylgjur aldarinnar – spannaði öldina. Hann fæddist á Hofi í Álftafirði um miðjan vetur árið 1904. Hann sleit barnsskóm eystra, fór til náms fyrir sunnan, starfaði erlendis og síðan í Reykjavík. Hann var Austfirðingur með útsýn, síðan Íslendingur og svo heimsborgari. Hann lést um sumar, eystra, á heimahögunum á þjóðhátíðardeginum 17. júní árið 1989.

Hans Jakob Jónsson var sonur prestshjónanna Sigríðar Hansdóttur Beck og Jóns Finnssonar. Það er heillandi að lesa lýsingar Jakobs um móður hans og fólkið hennar. Það var söngelskt og litríkt fólk. Í æfisögunni segir Jakob frá uppeldi og trúarmótun sinni, hvernig áhrifin frá báðum foreldrum fléttuðust saman í vitund hans og hvenig hann vann sjálfur úr. Hann segir fagurlega frá uppeldisaðferðum móður sinnar og ljóst er að hún, eins og faðirinn, hefur lagt Jakobi í brjóst ábyrgðartilfinningu og mannvirðingu, gilti einu hverrar stöðu það var. Og í prédikunum sést vel hve næmur Jakob var á gildi kvenna. Hann ræddi fagurlega um konur, um Maríu móður Jesú og svo var mesta leikverk hans um konuna, sem Hallgrímur elskaði, Tyrkja Guddu.

Um föður sinn segir Jakob, að hann hafi verið maður mannúðar og frelsisástar. Og Jakob taldi – og örugglega ekki úr lausu lofti gripið – að á sinni tíð hafi Jón sennilega verið með lærðustu sagnfræðingum þjóðarinnar. Sonurinnn tók í arf frá föðurnum menningaropnun og vitund um hið djúpa samhengi sögunnar. Jón kenndi syni sínum að skoða fólk, meta aðstæður og ummæli Jóns brendist í vitund sonarins: Faðir hans sagði einhvern tima: „Ég met menn eftir því hvernig þeir tala um andstæðinga sína.“ Veganestið að heiman var því kjarnmikið og giftudrjúgt.

Af minningum Jakobs má ráða að hann var næmur, tilfinningaríkur og opinn. Hann talar oft um djúpa skynjun og reynslu og hafði alla ævi áhuga á ofurreynslu. Einu sinni var hann í messu í Beruneskirkju og upplifði eitthvað annað og meira en skynveruleikann. Í fermingarathöfninni skynjaði hann djúp tengsl við alla sem voru í kirkjunni. Og hann skrifaði í Játningum (1948): „Ég fann, að hið sama „líf“ eða „andi“ sem var í sjálfum mér, var allt í einu öllu … Meðvitund mín gerði hvorttveggja í senn, að verða að engu og verða allt.“ Síðar sagði hann þessa dulræna skynjun ekki hafa fullnægt sér, nema af því að hún fékk sína skýringu í skynjun opinberunar Guðs í Kristi (s 19).[ii]Lífstúlkun og guðfræði Jakobs var alla tíð Kristsmiðlæg.

Ad astra

Þegar heimanáminu fyrir austan lauk fór Jakob suður og hóf nám í MR og lauk stúdentsprófi 1924. Jakob var fjölhæfur og jafnvígur á greinar fræðanna og hefði allt eins getað lagt fyrir sig raungreinar sem mannvísindi. Ólafur Daníelsson, kennari hans, spurði hann hvað hann ætlaði að læra í framhaldi stúdentsprófsins. „Guðfræði“ svaraði Jakob en komst síðar að því að dr. Ólafur hefði fremur viljað að hann legði fyrir sig stærðfræði. (s 37) Jakob var margra vídda, var vísindaþenkjandi tilfinningamaður og því opin fyrir fleiru en efnistúlkunum einum. Þegar ég les bækur Jakobs sýnist mér ljóst, að hann hafi orðið fyrir áhrifum úr ólíkum áttum. Veraldir fræðanna voru margar á fyrri hluta tuttugustu aldar og mörk voru teygjanleg og hreyfanleg milli greina og milli hins tæka og ótæka. Og ég minni á, að margir glímdu við mörk skynsemi í kjölfar upplýsingarinnar, hvernig væri hægt að halda saman hinu andlega, siðlega, vísindalega, efnislega, listræna og mennska í tilverunni. Jakob lærði að sjá hið smáa í samhengi hins stóra og sótti í heildarsýn sem gat tekið til hins smáa án þess að riðla öllu.

Guðfræðisamhengið

En hvernig var þá guðfræðilegur prófíll Jakobs Jónssonar? Eitt er heimasamhengi uppeldis og foreldra. Annað eru eigindir og hæfni einstaklings og svo það þriðja eru hugðarefni og menningarlegt eða fræðasamhengi ,sem menn hrífast af og lifa í. Þegar Jakob Jónsson fór suður til skóla voru átök í íslensku samfélagi um margt, stefnu íslenskrar þjóðar og menningar og líka var ágreiningur um eðli og stefnu kristninnar og mörk trúar. Samfélag Íslendinga var að losna úr festum fortíðar, menningarlegrar og efnahagslegrar einhæfni. Nýguðfræðin sló í gegn en átti sér tvær víddir á Íslandi, annars vegar þá almennu guðfræðilegu frjálshyggju sem kom fram í Þýskalandi í lok 19. aldar og teygði sig langt inn í tuttugustu öldina. Hins vegar voru sálarrannsóknir, sem var ekki hindurvitnatrú heldur meðvituð fræðatilraun til að styðja hið óskilvitlega skilvitlegum rökum. Hin nýja guðfræði heillaði unga manninn Jakob Jónsson. Og Jakob var hrifnari af Haraldi Níelssyni en Jóni Helgasyni, sem voru leiðtogar sitt hvors hóps þeirrar bylgju, sem nefnd var nýguðfræði. Jakob sagði, að Haraldur væri mesti prédikari sem hann hafði hlustað á um sína daga (s 42). Jakob var eins og bestu menn sálarrannsókna í því að álíta ekki spíritisma trúaratriði heldur aðferð, tæki og vísindalegt verklag á sannleiksvegi hinna mestu gæða og himnesks sannleika. Jakob lauk guðfræðinámi á umbrotatíma. Og með félögum sínum vitjaði Jakob deyjandi Haraldar Níelssonar og meistarinn fól þeim að taka við keflinu og boða hinn frjálsa kristindóm (s 43). Ungu mennirnir voru ekki aðeins opnir fyrir vísindum, trúarlegum sönnunum, heldur líka pólitískum þörfum samfélagsins. Og guðfræðingarnir ætluðu ekki á láta sitt eftir liggja. Jakbob var einn af Straumamönnunum. Hann stofnaði til tímarits með Páli Þorleifssyni, Lúdvíg Guðmundssyni og Einari Magnússyni sem allir urðu mikilvirkir í samfélagi okkar Íslendinga. En eitthvað hefur gengið á – því Jón, faðir Jakobs, var smeykur um að ungu guðfræðingarnir færu offari. Hann bað son sinn að gæta sín í skrifum, nefndi sérstaklega að Jakob ætti ekki abbast upp á Sigurbjörn Ástvald Gíslason, forystumann í Dómkirkjunni, KFUM og stofnanda elliheimilisins Grundar. Hann ætti það ekki skilið. Og Jakob ætti að gæta sín líka á að mógða ekki biskupinn eða aðra kirkjunnar menn (s 45). Ég staldraði við þessa bón Jóns Finnssonar: Þekkti hann kapp sonarins? Var hann að lýsa eigin varfærni? Var hann búinn að lesa tákn tímanna?

Hinn guðfræðilegi prófíll

Þegar skoðuð er guðfræði Jakobs Jónssonar koma ýmis einkenni í ljós. Og þau varða áherslu á innra líf, hið persónulega í lífi einstaklinga. Og hvað merkir það í þessu fræðilega og menningarlega samhengi hans?

Jakob forðast alla tíð frumspeki og trúarheimspekilega þanka um Guð. Hann skilgreindi trú með samfélagslega tengjandi og hagnýtum hætti. Trú taldi hann að ætti að skila gildum og gæðum út í þjóðfélag manna og efla mannfélagið. Hann áleit hvers kyns rétttrúnað fremur „rangtrú“ eða „skakktrú“ fremur en sanna trú (s 48). Rannsóknir á Biblíunni áttu hug hans umfram það að raða hugmyndum trúfræðinnar í hyllukerfi réttrar trúar. Hann var – eins og meiri hluti nýguðfræðinga fyrri hluta tuttugust aldar – fremur með hugann reynslu en trúarlegt bókhald. Jakob hafði meiri áhuga á reynslu fólks en ópersónulegum staðreyndum. Sem sé líf persónunnar umfram sértæka þekkingarmola. Reynsla fólks og hans sjálfs beintengdi hann við Jesú Krist guðspjallanna fremur en við hugsun eða kenningakerfi miðaldanna. Og tenging Guðs við mannheim kom fram í persónu Jesú, sem gæti fremur tengst upplifunum einstaklinga en síður í einhverjum kenningasmíðum síðari tíma manna.[iii]Guðfræðilegur prófíll Jakobs var því nýguðfræilegur og annar en þeirra sem voru uppteknir af að verja einhverja rétta línu eða uppáhaldskenningar. Og við getum kallað þetta nýkantíska guðfræðinálgun, sem er í anda þess sem margir guðfræðingar aðhylltust á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Prédikunargerð

Þegar farið er yfir ritverk og embættisverk Jakobs Jónssonar sést berlega hve mikill fagmaður hann var. Hann lagði reyndar mikið upp úr gæðum í öllu sem gert var, hvort sem er í kennslu fermingarungmenna, hjónaviðtölum, prédikun, sálgæslu og útförum. Hann hafði skoðun á sniði, gerð, tilgangi og atferli prestanna í öllum verkum. Jakob var proffi.

Jakob lærði að undirbúa ræður í foreldrahúsum. Hann fylgdist með og vissi hvernig faðir hans undirbjó sig og flutti síðan mál sitt í kirkjunum. Í guðfræðideildinni var það Sigurður Sívertssen sem leiðbeindi guðfræðinemum við ræðugerðina. Jakob segir frá því að hann lenti í brasi við Jón Helgason, biskup, þegar hann skilaði ræðu til dóms, væntanlega prófræðu. Biskup var ósáttur við eitthvað í ræðunni og vildi fá unga manninn til að strika út það, sem honum þótti miður. Sigurður bar biskupsboðskapinn til Jakobs, en honum var ekki í hug að beygja sig, vildi ekki fella niður hinn umdeilda hluta við flutning. Og hann fékk að kenna á biskupsstefnunni og fékk hraksmánarlega lágt fyrir. En Sigurður Sívertssen tjáði hinum unga prédikara, að þó hann hefði ekki breytt prédikuninni hefði hann sýnt manndóm í að fylgja sannfæringu sinni. Það þótti bæði Jakobi og Sigurði meira virði en einkunnagjöfin. Og Jakob mat mikils kennara sinn en síður biskupinn.

Blaðalaus en skipulagður

Þór Jakobsson skrifaði skemmtilega grein um föður sinn, heimilislíf Jakobs, Þóru og barnanna og birti hana í tímaritinu Skildi.[iv]Þar kemur fram að Jakob skrifaði gjarnan eða undirbjó ræður sínar á laugardagskvöldum. Margar ræður flutti Jakob blaðalaust. Jakob tilgreinir sjálfur, að þegar hann var prestur á Norðfirði á árunum 1929-35 hafi hann byrjað að prédika blaðalaust við og við. Einu sinni samdi Jakob ræðu og var komin með hana í kirkju – en tilfinningamanninum þótti hún svo köld að hann skildi hana eftir á altarinu – eins og hann sagði – til þess að freistaðist ekki að grípa í hana ef honum fataðist andlega flugið. Jakob lærði að leyfa sér að fljóta á öldu andagiftarinnar. Hann vissi að hann gat leyft frelsi, stemningu og innblæstri að opna, vinna úr og miðla túlkun og viðbrögðum til áheyrenda sinna (s 59). Jakob var tilfinningaríkur og nýtti gáfuna í þágu prédikunar. Og auðvitað var beint augnsamband til góðs, vakti með tilheyrendum ilfinningu fyrir að við þá væri talað beint en ekki prédikað yfir þeim og óháð viðbrögðum. Ræður Jakobs urðu því nær gagnvirku samtali en einræðu. Og prédikarinn var svo hugaður að leyfa sér flugið líka í útvarpsmessum. Einu sinni var kvartað yfir ræðu Jakobs í útvarpinu. Hringt var í Helga Hjörvar til að fá handritið að ræðunni, væntanlega til að gera mál úr. En Helgi svaraði snarlega að útvarp væri til að hlusta á það en ekki lesa það. Ræðan var ekki til skrifuð.

Það er merkilegt að skoða ræðuskipulag Jakobs. Ég var að skoða hið dásamlega safn Jakobs Jónssonar í handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar. Jakob og fjölskyldan hafa haldið vel saman ræðusafninu. Jakob hefur verið afar skipulagður í undirbúningi prédikana sinna. Hann einfaldlega bjó til nákvæmt yfirlit sem hann gat síðan fylgt. Hann var búinn að semja ræðurnar í huga og vissi hvernig og hvað hann ætlaði að segja. Kirkjuræðurnar voru með skýrri grind, en svo leyfði hann sér að leggja inn anda, tilfinningu, samtal, ljósgeisla augnabliksins, kátínu samfélagsins. Og því urðu prédikanir Jakobs svo góðar, skipulagðar, en spontan andríkar.

Guðsþjónusturnar geta verið eins og aðrar mannlegar samkomur. Ímislegt kemur upp á. Skemmtileg saga er til af því, að Jakob brást við augnabliksmálunum. Hann þorði að vera, hvíla í stundinni og bregðast við. Einu sinni var Jakob að messa í Vatnabyggð. Jökull, sonur hans, var með honum og þeir feðgar voru í fjórðu messu dagsins. Og til að leggja ekki frekara messufarg á ungsveininn fékk Jökul fékk vera utan dyra við leik og það var heitt úti. Þegar Jakob var í miðri prédikun kom drengurinn inn, stilltur og prúður, laumaði sér til föður síns og spurði lágt: „Pabbi ertu ekki bráðum að vera búinn.“ Og pabbinn spurði lagróma hvað væri að. Og drengurinn svaraði: „Ég þarf að fá að drekka.“ Honum var þá einfaldlega svo heitt að hann þurfti að drekka. “Ertu ekki bráum að verða búinn“ (s 86). Það þekkjum við prestarnir, en ástæðurnar geta verið margar og ófyrirséðar, í kirkjum sem utan. Jakob þorði að vera.

Málsnið

Ekki þarf lengi að lesa í ritverkum Jakobs Jónssonar til að sjá hve lipur penni hann var. Hann skrifar litríkan, myndrænan og leiftrandi texta. Mál sitt kryddaði hann gjarnan með dæmum og stutt er í gáskann og sögurnar kættu. T.d. af sr. Jóhanni Þorkelssyni, sem var veikur en batnaði og var á leið til skips. Og klerkur var spurður hvort hann væri að leið til útlanda: „Já„ sagði hann. … „Sumir vinir mínir voru raunar farnir að búast við að ég væri að fara til himnaríkis, en ég verð víst að kannast við, að mig langaði meira til Kaupmannahafnar.“

Jakob bar alla tíð djúpa virðingu fyrir tilheyrendum sínum, vildi ná sambandi, taldi mikilvægt að tengja við forsendur og viðhorf þeirra sem nutu prédikunarinnar. Prédikanir Jakobs voru því áheyrilegar. Hann sagði það sem fyrir honum var sannast og réttast á hverjum stað og hverri stundu. Og tilheyrendurnir voru fólkið sem sótti í kirkjuna, vildi fræðslu. Af því Jakob var afburðafræðari fékk fólk fræðslu, ekki síst í málum Nýja testamentisins. Og það var ekki bara siðfræði, skipulag þjóðfélagsins eða persónulegir fordómar prestsins sem það tók með sér frá kirkju eða heyrði í útvarpinu.

Einu sinni kom sr. Árni Þórarinsson eftir útvarpsmessu og á tröppurnar hjá Jakobi, sem var á leið út til prestsverka og gat því ekki boðið gamla manninum inn. Og gamli maðurinn sagði við Jakob. „Ég kom bara til að þakka þér fyrir prédikunina í útvarpinu í morgun. Það var afbragðs ræða – afbragðs ræða. Ég hélt fyrst, að það ætlaði að verða eins og vant er – tómur mórall.“ En þó Jakob talaði um samfélagsmál var honum hið eiginlega erindi ekki það sem sett var á disk og upp í munn, heldur mun fremur hin dýpri gæði, það sem nærði sál manna og andann. Honum var í mun að benda fólki á guðleg nánd sem hann sjálfur taldi sig hafa orðið fyrir. En þeirri nánd er ekki miðlað með fyrirskipunum í símskeytastíl, lögmálsprédikun. Frá upphafi reyndi Jakob að miðla jákvæðum mannskilningi, ábyrgð og manngæsku. Hann leitaði jafnan hins jákvæða, þess sem er hinn eiginlegi stofn kristninnar frá upphafi, erindis um fögnuð frá Guði.

Sjálfstæður

Jakob kom til starfa fyrstur presta í Hallgrímskirkju í ársbyrjun 1941 og starfaði lengur en nokkur annar prestur við þessa kirkju. Fyrstu árin voru annir gífurlegar í nýjum söfnuði, í stríði, aðstöðuleysi og gríðarlegum breytingum. En svo lauk heimsstyrjöld, festa komst á störf og líf og Jakob fylgdist með því sem gerðist í heimi menningar og fræða, líka guðfræðinni. Fyrra stríð hafði mikil áhrif á guðfræðina og hið seinna líka. Jakob skrifaði: „Mér krossbrá þegar ég kynntist guðfræðingum í Evrópu eftir stríðið.“ Allt var breytt. Andstæðurnar voru orðnar meiri og aðarar en á Íslandi. Játningartrúnaður var eitt, nýjar línur í biblíuvísindum, bókmenntarannsóknir ritningar og kerygmaáhersla. Jakob taldi engar játningar ofar Biblíunni sjálfur og stunda ætti sem mestar biblíurannsóknir.

En gamlar víglínur voru horfnar og Jakobi fannst hann vera orðinn einn á báti með sín áhugamál. Einfari er orð sem hann notaði um sjálfan sig. Honum fannst hann ekki eiga samleið með félaginu sem var með útlenska titilinn – og á við félag játningartrúrra presta – né í hinum hópnum. Hann skrifaði mér í bréfi við lífslok sín að erindi hans hafi alltaf verið tvenns konar. Annars vegar að fá trúað fólk til að sækja messur og hins vegar að fá prestana til að lesa guðfræði! Gott markmið. Hann, lífsreyndur, brýnir til frumleika og þors í hugsun. Við eigum að þora – segir hann. „Það getur verið óþægileg tilfinning í bráð að fara hvergi …. inn í einhverja sérstaka klíku, en þegar litið er til baka, er ég því feginn að hafa fremur kosið einmanaleikann.“

Og á þessum síðari árum fékk skáldið tíma til að yrkja og skrifa leikbókmenntir. Fræðimaðurinn fékk líka næði. Og doktorsritgerð Jakobs um kímni og skop í Nýja testamentinu var frumlegt framlag til biblíufræðanna. Jakob opnaði æðar, sem aðrir hafa síðan skoðað. Einn af hagyrðingunum þakkaði Jakobi fræðimanni fyrir með vísu sem margir þekkja: Hún er svo í ævisögu Jakobs.

Oft oss Jakob kæta kunni,

Því klerkurinn góðri skemmtun ann

og brandarana í Biblíunni

betur en aðrir þekkti hann.

Jakob skrifaði líka merka bók um Hallgrím Pétursson. Áður en Jakob gaf hana út hafði í fræðaheiminum einkum verið rætt um Passíusálmana út frá lífsreynslu Hallgríms – eins og rekja þyrfti einstaka þætti út frá sjúkleik eða áföllum. Arne Möller og Magnús Jónsson höfðu einkum farið þá leið í skrifum sínum. En Jakob opnaði nýjar æðar með því að skoða Passíusálmana bókmenntalega. Þegar ég á sínum tíma rannsakaði Passíusálamana hafði ég mikið gagn af skrifum Jakobs. Aðferðin er vissulega barn síns tíma en nálgunin var frumleg og opnaði.

Afburðamaður Jakob Jónsson, embættismaður, skáld, fræðimaður, prestur, skapandi brautryðjandi. Þökk sé honum öll störf hans í þágu Hallgrímssafnaðar og kirkju Íslands.

Fyrirlestur SÁÞ í Norðursal Hallgrímskirkju um dr. Jakob Jónsson, 3. mars, 2019. Í röð fyrirlestra um prédikun og kenningu presta Hallgrímskirkju frá 1941 – 2015. Hvernig mæltist prestinum? 

Myndin yfir greininni er af yfirliti ræðu Jakobs Jónssonar sem hann flutti á biblíudeginum 8. febrúar, 1942. 2. sd. í níuviknaföstu. Þetta yfirlit gefur innsýn í hvernig hann skipulagði ræður sínar og þær sem virtust vera blaðalausar voru skipulagðar. 

[i]Hans Jakob Jónsson, fæddist á Hofi í Álftafirði í Suður-Múlasýslu 20.1. árið 1904. Foreldrar hans voru Jón Finnsson, prestur í Álftafirði og á Djúpavogi, og Sigríður Hansína Hansdóttir Beck.Kona Jakobs var Þóra Einarsdóttir. Börn þeirra: Guðrún Sigríður, hjúkrunarfræðingur og Íransfræðingur; Svava, bókmenntafræðingur, rithöfundur og alþm.; Jökull, rithöfundur; Þór, veðurfræðingur og Jón Einar, lögmaður. Jakob varð stúdent frá MR 1924. Hann lauk embættisprófi í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1928, var við framhaldsnám í sálfræði við Winnipeg-háskóla 1934-35, stundaði nám í kennimannlegri guðfræði og nýjatestamentisfræðum við Háskólann í Lundi 1959-60 og lauk lícentíatsprófi í guðfræði við háskólann í Lundi 1961 og varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 1965.Jakob var aðstoðarprestur hjá föður sínum á Djúpavogi 1928, sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli 1929-35, prestur í Kanada 1935-40 og í Hallgrímskirkjuprestakalli 1941-1974. Hann var skólastjóri við gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1931-34, stundakennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1941-42 og MR 1944-50. Hann var formaður Prestafélags Íslands í áratug og gegndi margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum. Jakob skrifaði fjölda rita um guðfræði og skrifaði einnig leikrit. Jakob lést á Djúpavogi 17. Júní árið 1989.

[ii]Jakob Jónsson, Frá sólarupprás til sólarlags, Minningabrot, Skuggsjá, Bókabúð Ólivers Steins, Hafnarfjörður, 1981. Hér er vísað til blaðsíðutals þeirrar bókar og þegar vísað er í síður í þessum lestri er vísað til þeirar bókar.

[iii]Sjá helstu þætti nýguðfræði í samantekt Alfred Ernest Garvie í bók  James C. Livingston, Modern Christian Thought: From the Enlightenment to Vatican II,(New York: Macmillan Publishing C., Inc., London: Collier Macmillan Publishers, 1971), 246.

[iv]Þór Jakobsson, Um föður minn, sr. Jakob Jónsson, dr. theol. (1904-1989) nokkrar svipmyndir, Skjöldur ; 2007; 16 (6) = (66): bls. 18-23.

 

Jesús í lit

Hver er mynd þín af Jesú? Hvaða mynd hefur verið dregin upp í huga þér af Jesú Kristi? Er hún dapurleg eða gleðileg? Í bernsku minni þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni. Það var eins og trúin væri í bakkgír. Af hverju þessi dapurlegi stíll, dempandi og jafnvel kæfandi drungi?

Jesúsaga föstunnar er ekki beinlínis til að efla trú okkar á mannkynið. Góðmenni framselt í hendur níðinga. Jesús á leið frá heimahögum og undir hramm spillts valds. Vald fer oft illa með hið fagra og góða, einlægni og ást. “…krossfestur, dáinn og grafinn. Steig niður til heljar.” Sorgleg frásögn með gott upphaf en nístandi framhald.

Og svo hafa Passíusálmarnir hljómað eða verið lesnir, sálmar sem segja passíu – píslarsögu Jesú. Sálmarnir færðu yfirskilvitlegan drunga – að mér fannst fyrrum – yfir trúarlífið, mannlíf og kirkjuhúsin. Og ég spurði: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu og hvaða gleðifrétt er það?

Þjáningin

Þjáning hittir alla menn – þig líka. Enginn flýr sorgina. Þroskað fólk glímir við endanleika sinn og annarra. “Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta” segir í Davíðssálmum. Er trú og kristni einkum meðal gegn dauðaógn eða er trú eitthvað annað og jafnvel stórum meira?

Á föstunni fléttast saga Hallgríms og í kirkjulífið og hluta þjóðlífsins. Við höfum líklega oftúlkað Hallgrím sem píslarmann. Hann málaði harmsögur heims og fólks svo vel að líðandi Íslendingar hafa um aldir fundið til samsemdar boðbera Guðs og sjálfs sín. Sjónum hefur gjarnan verið beint að dapurlegum þáttum í lífi Hallgríms sjálfs. Hann lenti visslega í klandri og klúðraði ýmsu. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina sem ekki ætti að leggja á nokkuð foreldri. Svo varð hann fyrir þeim skelfilega sjúkdómi að rotna lifandi.

Hallgrímur í lit

En hvað um hitt? Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím, trú og kirkju? Nei, hann var í lit. Hallgrímur var skemmtilegur, eldhugi, fjölmenntaður, líklega góður pabbi og líflegur maður. Píslarmaðurinn var líka elskhugi og eftirlæti allra, sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús – sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni, gjósandi listamaður.

Og hvað svo? Passíusálmarnir fimmtíu lýsa síðustu dögum Jesú. Myndin af Jesú er af himinkonungi sem er allt annað en upphafinn. Hann er himinkonungur, en kemur til að þjóna án allrar upphafningar. Það er ástin en ekki dauðinn sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana. Jesús gekk inn í hlutverk menna til leysa þá frá vonleysi, þjáningu, lífsharmi. Áherslan er ekki á þjáningu heldur á hvað og hver megni að leysa vanda mannanna. Og það er elskandi Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Jesú er ekki lýst sem hinum örugga konungi að baki víglínu, heldur hetjunnar, sem mætir, er og fórnar sér til að sigur vinnist. Hann hlýðir, fer fram í staðfastri auðmýkt og víkur sér ekki undan baráttu og þjáningu. Hann er ekki ofurkóngurinn heldur lífsþjónninn.

Að baki myrkrinu er ljós, að baki depurðinni er gleði. Sagan er ekki um pínu heldur um lífgjöf. Passíusálmar eru ekki sjálfspíslarsálmar heldur ástarsaga – margþætt og lífstrú saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi sálmanna heyrist grunnstefið:

Guð elskar, Jesús elskar, Guð elskar – alla menn – þig.

Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er gott, lífið er elskulegt, að Guð er alltaf nærri þér – og að eftir dauða kemur líf.

Kristin trú? Er hún þér slíkt fagnaðarerindi að þú finnir gleðina ólmast innan í þér? Eða tjáir þú og upplifir trúna með einhverju öðrum og hófstilltari hætti?

Þú mátt skipta út svörtu myndinni af Hallgrími og sjá hann í lit. Hver er mynd þín af Jesú? Er hún í sauðalitunum eða laðandi litum? Klisjumyndum af svart-hvítum Jesú má henda. Og svo er það þín eigin mynd af trú. Er kominn tími til að uppfæra? Ástarsagan er sögð og lifuð vegna þín.