Tveir metrar – minna eða meira?

Hvað megum við hleypa fólki nærri okkur á þessu COVID-tíma? Hversu mikil má nándin vera? Þessa dagana ríkir óvissa um hvernig fólk á að heilsast og kveðja. En við erum flest hætt að rjúka á fólk til að faðma og kyssa. Og við reynum að halda tveggja metra fjarlægð. En svo er fjarlægðarreglan að linast. Margir stökkva óhikað í kösina í heitu pottunum. En þrátt fyrir þennan slaka gildir fjarlægðarreglan þó enn þar sem líf liggur við, t.d. í lyfjabúðum og lífshúsum kirkjunnar. Við Hallgrímskirkjufólk reynum að tryggja að þau geti komið til kirkju sem vilja og líka verið viss um að geta haldið sig í tryggri fjarlægð frá öðrum.

En hin menska tveggja metra regla er eitt, en svo er nánd Guðs allt annað. Guð er ekki háður reglum almannavarna. Guð er ekki langt í burtu heldur innan tveggja metranna, innan við skinnið á okkur, líka innan við líffæri, hugsanir og tilfinningar. Guð er innar en innræti okkar, nær okkur en bæði meðvitund og undirmeðvitund. Guð er hin eiginlega nánd. Guð smitar ekki heldur er uppspretta lífsins.

Sannleiksandinn og huggarinn

Textar dagsins er um náin tengsl Guðs og manna. Til að skýra merkingu nándar talar Jesús um Anda Guðs. En hvers konar andi er það? Jesús kallar hann sannleiksanda og segist senda hann. Hann bætir við, að hann sendi hann frá föðurnum. Hver eru þá tengsl Jesú Krists og Guðs föður? Hvernig hugsaði Jesús um samband þeirra? Væru þeir eitt? Já, en hvað merkir það?

Jesús kallar Andann líka huggara. Hvað merkir það hugtak? Gríska orðið að baki er parakletos(παράκλητος). Það þýðir m.a. verjandi, sbr. lögmaður fyrir rétti sem ver sakborning. Þess vegna segja amerískir prestar gjarnan lögfræðingabrandara í prédikun út af texta dagsins. Svo getur orðið parakletos líka merkt leiðtoga, slíkan aðila sem blæs hug og þori í brjóst þeirra sem eru í sama liði. Slíkur er eins og fyrirliði eða leiðtogi, sem eflir liðsandann, kallar til fylgis og árangurs. Andinn er því bæði í sókn og vörn – og alltaf til sigurs fyrir líf og fólk.

Fólk segir stundum: „Ég trúi á Guð en skil ekki þetta með þrenninguna.“ Vissulega eru hugmyndir aldanna um þrenninguna flóknar. Og stundum hefur þrenningarkenningin verið svo nördalega túlkuð, að fólki hefur þótt kenningarnar bara flækjast fyrir aðalmálinu, guðsnándinnni, trúnni. Þegar mest hefur gengið á hafa sprottið fram hreyfingar í kristninni vegna mismunandi túlkunar guðseigindanna. Sumir hafa jafnvel talið, að Jesús talaði um Heilagan anda sem Jesú nr 2, sem myndi koma á eftir númer 1. Og slíkar túlkanir teygja sig yfir í Islam. Múslimar kenna t.d. að huggarinn sé annar fulltrúi Jesú, sem þeir síðan tengja við spámanninn Múhammeð.

Birting og þrenning

En kristnir menn hafa aldrei talið, að huggarinn yrði guðsbirtingur, avatar, einn af mörgum guðsfulltrúum, né heldur að nýir frelsarar kæmu, nýir Jesúsar. Í kristninni er ekki trúarlegur glundroði varðandi Jesú. Hann er einstakur, Andinn er einstakur, faðirinn er einstakur og tengsl þeirra væru best túlkuð sem eining.

Auðvitað vöknuðu spurningar um röðun, mikilvægi, jöfnuð eða valdskiptingu vídda Guðs. Til að skýra innri tengsl guðdóms kristninnar var notað leikhúsmál. Guð væri einn, en kæmi fram með mismunandi hætti, setti upp mismunandi grímur sbr. það sem gert var í leikhúsum til forna. Í þeim leikhúsheimi táknuðu grímur persónur, enda var heitið persona notað um þessar andlitsskýlur. Og vitundin um eitthvað framan í fólki skerpist svo sannarlega á þessum tíma þegar andlitsgrímur eru að verða staðalbúnaður. Á miðöldum þurfti að þýða þessa grímu-persónu-túlkun úr grísku og latínu vestrænnar kristni og yfir á þjóðtungur. Þá var t.d. orðið persona þýtt á íslensku með orðinu grein. Þess vegna segir um guðdóminn í helgikvæðinu Lilju: „Eining sönn í þrennum greinum.“ Einn Guð, en í mismunandi persónum. Guð væri eining en kæmi fram í mismunandi birtingarmyndum.

Mismunandi tíðir og þarfir hafa sem sé leitt fram mismunandi túlkanir. En guðshugtak kristninnar er breitt, hátt og djúpt. Hið ríkulega guðshugtak kristninnar er ekki til óþurftar, heldur hefur það merkingarplúsa, dýptir sem hafa komið til móts við þarfir hvers tíma. Guð er alltaf meira en það sem skerðingar manna benda til.

Í langan tíma hafa nýjar þarfir og áherslur verið að þroskast í heimsbyggðinni. Einhæfingar fjölmiðlunar og yfirborðsleg auglýsingamennska nútímasamfélaga þjóna ekki vel djúpþörfum fólks. Í guðfræði, kirkjulífi og lífi heims er kallað á návist og tilfinningu fyrir tilgangi og merkingardýpt, sem ég túlka sem þörf fyrir návist Guðs. Og íslenskur almenningur er opinn fyrir að túlka reynslu í náttúrunni sem merkingarbæra, trúarlega reynslu. Fólk segir stundum við okkur prestana að það hafi farið í náttúrukirkjuna. Fundið fyrir Guði í grjóti og titrandi, tárvotum smáblómum háfjallanna. Sem sé Guð sé í gaddavírnum og klettakirkjum rétt eins og í kirkjuhúsunum.

Það er mikilvægt að opna fyrir, að Andi Guðs sé alls staðar. Heilagur andi tengist ekki aðeins tilfinningum, reynslu í helgihaldi eða hrifningu einstaklinga á listviðburðum, heldur er Andinn nærri þegar við verðum fyrir sterkri reynslu í samskiptum við fólk eða hefjum augu til fjalla, jökla, fossa eða skynjum leik birtu. Andi Guðs er öko-andi. Jesús er parakletos allrar náttúruverndar. Andinn vekur reynslu og eflir fólk til að græða sár náttúrunnar. Margir kristnir eru ekki aðeins sannfærðir um að náttúran sé heilög, heldur sé best að tala um hina sköpuðu veröld sem líkama Guðs. Sem sé, heilags-anda-guðfræði varði ekki bara persónulíf okkar hið innra, heldur líka náttúruvernd, pólitík, samfélagsþróun og blómstrandi kirkjulíf – af því allt er í Guði.

Breytingarskeið

Erindi kirkju og guðfræði er að mæta djúpþörfunum og túlka nánd Guðs í splundruðum og ráðvilltum heimi. Áföll í samfélögum manna, náttúrumengun og aukin vitund um getuleysi ráðakerfa heimsins er að ala af sér nýtt skeið í menningu veraldar. Á breytingatíð megum við að þora að stækka alla okkar trúaríhugun. Kirkjulíf heimsins er að breytast og guðfræði er þróast. Stóru kirjudeildirnar sem leggja áherslu á form hafa veiklast og eru að tæmast. Kall fólks varðar inntak, merkingu og nánd. Kirkjan, guðfræði og prédikun sem og starfshættir eiga að svara raunverulegum þörfum fólks sem og málum menningar og náttúru. Þegar fjarlægð vex á milli fólks, tortryggni vex í menningu og samskiptum vex skynjunin um Guð sem hina hreinu nánd.

Merkir þetta, að við þurfum að breyta kirkjustarfi okkar til að svara kalli tímans og líka svara kalli Anda Guðs? Já. Boðskapur og erindi dagsins er að Jesús Kristur sendir huggarann, anda sannleikans, nánd Guðs. Guð er í sókn og vörn. Við þurfum að gæta að metrum og heilbrigði, en Guð er komin lengra og kallar okkur til starfa í lífsvinsamlegu guðsríki.

Amen.

Prédikun á 6. sunnudegi eftir páska, 24. maí, 2020

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 37.26-28

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

Pistill:  1Pét 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall:  Jóh 15.26-16.4

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.

+ Lilja Helga Gunnarsdóttir +

Það var svo gaman þegar Lilja kom. Hún var glaðlynd, jákvæð og hrífandi. Og stutt stund leið þar til hún var orðin miðja fagnaðarins. Hún laðaði að sér fólk, var fultrúi hins bjarta og góða í lífinu. Og því var svo heillandi að fylgjast með henni í hópi fólks, hve auðveldlega og eðlilega hún var aflvaki kátínu og gleðigjafi. Kristindómur er átrúnaður fagnaðarerindis, gleðifréttarinnar stærstu, að lífið er sterkari en dauðinn. Skarparinn hefur skipulegt veröldina svo að lífið er til að njóta, hafa gaman. Lilja var fólkinu sem hún kynntist, vinkonum sínum og ástvinum fulltrúi þeirrar lífsafstöðu. Hún var fulltrúi hins besta og hafði ríkuleg áhrif á fólk. Hún var elskuð. Og nú kveðjum við. Við minnumst hennar og þökkum fyrir samskiptin. Og við megum gjarnan íhuga hvað það var sem hafði mest áhrif á okkur. Hvað það var sem var minnistæðast í lífi hennar? Við tímaskil megum við þakka og blessa brottför hennar. Nú er hún komin á einhvern Ísafjörð eilífðar. Það er gott að ímynda sér hana í miðjum stórskara í gleðiríku, himnesku samkvæmi þar sem enginn þarf að hafa áhyggjur af tveggja metra reglunni né heldur fjöldatakmörkum. Þar er Lilja í miðjum hópnum, gleðin hrein og hlátrarnir dillandi.

Ættir og upphaf

Lilja Helga Gunnarsdóttir fæddist á Ísafirði mivikudaginn 3. febrúar 1932. Guðlaug Kvaran, móðir hennar, var af skáldprestaættum. Foreldrar Guðlaugar voru hjónin Lilja Metta Kristín Ólafsdóttir og presturinn Jósef Hjörleifsson Kvaran. Afabróðir Lilju var því rithöfundurinn Einar Hjörleifsson Kvaran og langafi Hjörleifur Einarsson, sem sögufróðir kannast við úr íslenskri menningar- og kirkju-sögu 19. aldar.

Faðir Lilju var Gunnar Andrew. Hann fæddist á Þingeyri og var af kjarnmiklum, vestfirskum ættum. Foreldrar hans voru Helga Samsonardóttir og Jóhannes Ólafsson, alþingismaður. Gunnar starfaði við fræðslu- og stjórnunar-störf á Ísafirði og hann var m.a. forstöðumaður sjúkrahússins. Gunnar byggði upp skátastarf á Ísafirði, sem enn er í minnum haft vestra. Gunnar var kraftmikill leiðtogi og efldi hina ungu kynslóð Ísfirðinga til afreka í lífinu.  

Guðlaug og Gunnar eignuðust fimm börn. Lilja var yngst og hún var eina systirin í hópnum. Bræður Lilju voru Bolli, Jósef, Kári og Kjartan. Bolli fæddist við lok fyrri heimstyrkjaldar, árið 1918, og svo fæddust hinir bræðurnir næstu sex árin. Síðan varð hlé eða nær átta ár, en þá kom Liljan í heiminn og var fagnað. Það þarf ekki mikið hugarflug til gera sér grein fyrir að hún naut athygli og elsku, eina stúlkan í hópnum. Bræður og foreldrar voru öflug skjólvörn hennar. En hún þurfti líka að hafa fyrir til að heyrast og sjást í kraftmiklum og kátum hópi. Það efldi félagsgetu hennar og stælti eða jók hæfni hennar sem við nutum síðar. Lilja var alla tíð náin bræðrum sínum og var annt um velferð þeirra og fjölskyldna þeirra. Þá var hún vel tengd foreldrum sínum. Bræður Lilju eru allir látnir og nú er systkinahópurinn allur farinn í sólarkaffið efra.

Lilja ólst upp á Ísafirði fyrstu æviárin og sótti þar skóla. Foreldrar Lilju skildu þegar hún var að komast á unglingsárin. Lilja og Guðlaug, mamman, fluttu þá frá Ísafirði árið 1944 og fóru suður. Mægðurnar bjuggu síðan saman. Fyrst var Guðlaug húsmóðirin en eftir að Lilja byrjaði að búa með Inga sínum, var Guðlaug áfram á heimilinu og svo varð hún amman. Þrjár kynslóðir bjuggu saman. Fyrst eftir suðurferð bjuggu þær mæðgur í Hafnarfirði en síðar í Reykjavík og héldu þar heimili alla tíð síðan.

Vinnan utan heimilis

Lilja var félagslynd og glaðsinna og var því eftirsótt í störf, sem kröfðust félagsgreindar og samskiptahæfni. Lilja hóf ung störf í Reykjavíkurapóteki og vann þar við afgreiðslustörf í nærtvo áratugi. Þá fór hún til starfa í lyfjaheildversluninni Hermes hjá Kjartani, bróður hennar. Hún hafði ekki aðeins samband við apótekara þjóðarinnar símleiðis, heldur fór líka í söluferðir um landið til að koma apótekavörum til smásalanna. Hún þótti öflugur og skemmtilegur sölumaður og gerði góðar ferðir. Svo var það móttakan á Hótel Sögu. Lilja tók þar á móti landsmönnum með bros á vör og átti góð orð fyrir alla. Fyrstu áhrifin á hóteli skipta miklu máli. Og af því Lilja var góð í tungumálum sjarmeraði hún líka erlendu ferðamennina. Þegar hún hafði þjónað landsmönnum og ferðamönnum heimsins á Sögu færði hún sig um set og vann í Búnaðarbankanum. Alls staðar eignaðist Lilja vinkonur og vini. Hún hafði áhuga á fólki, lagði sig fram um að gera vinnustaðina sína ánægjulega og naut því elsku og virðingar.

Ingi, heimilið og ríkidæmið í fólkinu

Svo var það Ingimundur Magnússon. Ingi sá hana fyrst á götu í Hafnarfirði þegar hún var unglingur. Hann man enn hvernig kápan hennar var og að hægt var að snúa henni við og þá var komin ný flík. Síðar sagði Ingi Lilju frá þessari sýn, sem greiptist í huga hans. Ingi hafði sem sé frá bernsku gott auga fyrir fegurðinni og gæðunum. Svo hittust þau í Hveradölum næst þar sem unga fólkið safnaðist saman til að hafa gaman og flest fóru eitthvað upp í brekkurnar. Ingi mundi eftir kápustúlkunni úr Hafnarfirði og hún gerði sér grein fyrir hve flottur hann var. Þau Lilja náðu saman og gengu síðan saman æfiveginn. Hún 17 og hann 18. Svo fékk Ingi forsetaleyfið að hann mætti ganga í hjónaband bráðungur. Þau sögðu já í kirkjunni í októberlok árið 1951. Hún var drottingin í lífi hans og hann kóngurinn. Gott líf og litríkt.

Synir þeirra Lilju eru Magnús, Gunnar og Bolli Þór.

Magnús er framhaldsskólakennari. Kona hans er Brynhildur Ingvarsdóttir, augnlæknir. Sonur Magnúsar er Ingi Fjalar og kona hans er Sólveig Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Þór Fjalar, Magnús Fjalar og Katrín Helga. Jóhanna Katrín Magnúsdóttir er gift Finni Vilhjálmssyni. Þau eiga börnin Öldu, Ægi og ónefnda dóttur. Svo eru Lilja Ósk Magnúsdóttir og Gunnar Ingi Magnússon. Unnusta hans er Eva Harðardóttir.

Annar sonur Lilju og Inga, Gunnar, er framkvæmdastjóri. Kona hans er Hrund Sch. Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingur. Börn Gunnars eru Davíð, Jakob, Soffía og Magnús. Kona Davíðs er Nína Björg Arnbjörnsdóttir. Börn þeirra eru Soffía Hrund og Gunnar Óli. Börn Nínu eru Kjartan Páll og Kolbrún Dís. Unnusti Soffíu er Jón Dagur Þorsteinsson og Glódís Ylja Hilmarsdóttir er unnusta Magnúsar.

Bolli Þór Bollason er svo þriðji strákurinn og elstur. Hann kom ungur til Guðlaugar ömmu sinnar og Lilju þegar blóðforeldrar hans skildu. Faðir Bolla var bróðir Lilju og þeim mægðum rann blóðið til skyldunnar og hann varð eiginlega sonur þeirra beggja og gat þar með ráðið sjálfur til hvorrar hann leitaði. Það var því talsverð forréttindastaða, að njóta styrkleika tveggja kvenna sem voru báðar miklar fyrir sér. Svo þegar Ingi kom á heimilið varð hann stjúpi Bolla. Bolli Þór var ráðuneytisstjóri. Kona hans er Hrefna Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Börn Bolla eru Ólöf og maki hennar Guðmundur Pálsson. Þau eiga Pál, sem giftur er Margréti Ósk Hildar Hallgrímsdóttur. Sonur  þeirra er Guðmundur Alex. Anna Þórunn er gift Jósef K. Jósefssyni og þau eiga synina Daníel Loga og Arnór Breka. Þá er Guðmundur Ingi og Lárusog unnusta hans er Aþena Eir Jónsdóttir Elizondo og þau eiga óskírða dóttur. Svo er það Lilja Guðlaug, sem fékk nöfn mæðranna beggja. Sonur hennar er Jóhann Arnar Sigurþórsson. Unnusta hans er Ástrós Eiðsdóttir og á dóttirina Katrínu. Þá er Lárus og kona hans er Lára Björg Björnsdóttir. Dóttir þeirra er Halla María. Þórunn er gift SigurgeiriGuðlaugssyni og þau eiga synina Aron Fannar, Ísak Andra og Guðlaug Breka. Stjúpdóttir Bolla er Jóhanna Guðmundsdóttir. Hennar maður er Mohsen Rezakahn Khajeh. Börn þeirra eru Bolli Þór og unnusta hans er Heiðveig R. Madsen. Síðan eru Lárus og Anna Birna. Dóttir Jóhönnu er Halla Guðrún Richter og hún á börnin Jóhönnu, Jakob og Önnu Lilju. Dætur Hrefnu eru Karen Þóra og Hanna Christel Sigurkarlsdætur.

Þetta er mikill ættbogi sem Lilja fylgdist með. Hún hafði áhuga á fólki, fagnaði auðlegðinni í fólki og opnaði heimili sitt og hjarta fyrir öllum sem hún mátti og gat sinnt. Mörg þessara, sem hér hafa verið nefnd voru svo lánsöm að fá að gista hjá Lilju og Inga eða fara í sumarbústaði með þeim eða í ferðir um landið. Í Lilju var alltaf einhver lífsplús sem hún var tilbúin að deila með öðrum og leyfa öðrum að njóta. Undur lífsins. Fyrir hönd alls þessa fólk er þakkað í dag.

Svo eru þau sem beðið hafa fyrir kveðjur til ykkar. Fólkið hans Bolla sem býr í Danmörkukemst ekki til útfararinnar vegna ferðaskerðinga. Lilja Guðlaug og sonur hennar, Jóhann Arnar, og Jóhanna og fjölskylda biðja fyrir kveðjur. Þá biðja einnig fyrir kveðjur Soffía í Danmörk og Ingi Fjalar í Noregi, en þau komast ekki heldur af sömu ástæðum. Elín Kristjánsdóttir, æskuvinkona Lilju, biður fyrir saknaðarkveðju.

Minningarnar

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERA

Að kveðja vini sína og ástvini er mikilvægt, þakka fyrir tímann, hlátrana, hlýjuna, ferðalögin, gleðiefnin og allt þetta ríkulega, sem Lilja gaf vinum og fólkinu sínu. Hvernig manstu hana? Manstu eftir pólitískum áhuga ömmu krata? Manstu, að Ísafjörður var nánast himanríki á jörðu og þau voru eðalborin sem þaðan komu – eða fengu syndakvittun út á upphafið? Manstu félagsgetu Lilju, verkin hennar, matin sem hún bjó til og kökurnar sem hún gladdi með? Manstu hve ræktarsöm hún var? Manstu að hún gat verið föst fyrir í uppeldinu? Það muna strákarnir alla vega! Manstu hve fagurlega hún bjó heimili sitt? Og manstu kannski líka, að þegar hún var á Kaplaskjólsveginum hrópaði hún á strákana sína út á völl? Það var nú þægilegt fyrir hana en kannski þótti þeim síðra að fá svona beinskeitt kall úr eldhúsinu heima og út á og yfir KR-svæðið. Manstu menntunaráhersluna hennar Lilju og flestir ættu að fara vesturbæjarleiðina, Melaskóla, Hagaskóla, MR og HÍ? Aðrar leiðir voru síðri að hennar áliti. Manstu handverkskonuna Lilju og hve dugmikil hún var og gaf mörgum fallegar peysur og prjónles? Og svo var hún á ferðinni og allt til hinstu stundar var hún dugmikil og snögg í hreyfingum. Sagði Lilja þér einhvern tíma sögur, sem hún spann og dramatíseraði þau ósköp, að sögurnar urðu upphafin ævitýri? Lilja gat spunnið. Hún átti til skálda að telja. Manstu hve Lilju var létt að halda uppi vörnum fyrir sitt fólk? Manstu umhyggju hennar? Hvað þótti þér skemmtilegast við Lilju? Hvað sagði hún sem lifir í þér? Hvað hefur þú lært af henni eða getur dregið lærdóm af til að efla þitt eigið líf?

Mörk tímans – tilgangur á göngu lífsins

Það var svo gaman þegar Lilja kom. Nú kemur hún ekki framar í Neskirkju og ekki í þitt hús. Nú lifir hún í minningu þinni. Amma krati fer ekki framar með þér á pólitískan fund. Hún fær sé enga fingurbjörg framar hjá þér. Hún hringir ekki. Hún drífur ekki stóran hóp af vinkonum sínum í ferð til útlanda. Hún setur ekki framar upp andlitið eða spyr um ástalíf þitt. Hún kemur ekki framar og býður barnafólkinu pössun eða kemur með súkkulaðiköku Lilju í afmælin. Hún er farin. Svo verður hún jarðsett síðar í Sóllandinu nær. Lilja var trúuð og hún hafði unnið úr gæðum og áföllum lífsins. Hún gekk ljóssins megin í lífinu og þjónaði fólki. Og svo túlkaði hún líf sitt og sinna með jákvæðum hætti. Um dagana sendi hún frá sér margar minningargreinar. Fyrsta lína í einni þeirra er þessi: „Hvert er hlutverk okkar og tilgangur á göngu lífsins.“ Það eru meginspurningar, sem læðast að okkur þegar við elskum og kveðjum. Og svarið er: Að vera lífsins megin, þjóna gleðinni og trúa að lífið lifir. Lilja sagði við æfilok: „Nú fer ég bráðum til ömmu Guðlaugar.“ Og nú er hún farin inn í Sólland eilífðar.

Guð geymi Lilju og Guð styrki Inga, Magnús, Gunnar, Bolla og ykkur ástvini og vini.

Kistulagning, útför og erfidrykkja í Neskirkju og safnaðarheimili kirkjunnar miðvikudaginn 27. maí. Bálför og jarðsett í Sóllandi. 

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERA

Uppstigningarfontur Hallgrímskirkju

Mér þykir alltaf jafn skemmtilegt að skíra börn. Það er svo undursamlegt að horfa í augu þeirra, ausa þau vatni og sjá viðbrögðin, finna fyrir straumi umhyggju, gleði og kærleika foreldra og ástvina. Í skírninni verða skírnarþegarnir meira en fólk tímans. Þau verða líka borgarar eilífðar og guðsríkis. Með tvöfalt ríkisfang.

Skálar skírnar

Í heimaskírnum er tekin fram besta skál heimilisins, oft kristalsskál eða vandaður hönnunargripur. Vatni er hellt varlega í skálina, gætt að hitanum og svo er hún borin þangað sem athafnirnar eru, oftast í stofunni. Þetta eru fallegar skálar og hafa tilfinningagildi í fjölskyldum. Þær hafa verið á borðum á stærstu hátíðum og mikilvægu stundum fjölskyldunnar.

Svo eru skírnarskálarnar í kirkjunum mismunandi líka. Í kirkjum fyrri tíðar var skálin stundum fat sem hékk á vegg en var tekið ofan þegar skírt var. Fontar í kirkjum hafa oft verið gefnir. Í Neskirkju í Reykjavík er t.d. fagur skírnarfontur Þór Sigmundsson, steinsmiður, gerði. Á sama tíma og kona Þórs bar sveinbarn undir belti klappaði steinsmiðurinn grjótið og gaf kirkjunni gripinn. Þegar drengurinn var kominn í heiminn var hann fyrsta barnið sem skírt var í Neskirkjufontinum.[i] Fonturinn er dýrgripur. Dómkirkjufonturinn sömuleiðis. Og við getum farið um borg og land og uppgötvum þá að fontarnir eru listaverk sem hæfa undraathöfn veraldar.

Vertu Guð faðir, faðir minn

Skírnarfontur Hallgrímskirkju er dýrgripur líka. Hann er gefinn af kvenfélaginu og velunnurum. Þegar himinljósið skín í kirkjunni sést litadýrð þegar ljósið brotnar í fontinum og myndar friðarboga og jafnvel fleiri en einn. Þegar bjart er sést líka letur bæði á dökka fletinum á fontinum og líka þeim ljósa.

Á blágrýtishlutanum er bæn Hallgríms Péturssonar: „Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.“ Það er við hæfi að klappa bænina á skírnarsáinn, því það er lífsháttur kristins fólks að endurnýja tengslin við skapara og lífgjafann – á hverjum degi og hverri tíð. Biðja Guð um að vera faðir, vinur, nánd. Guðstengsl eru nándartengs.

Trú og skírn

En svo sést líka texti inn í fontinum. Hægt er að lesa biblíuvers í gegnum þykkan kristalinn. Þar stendur: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Versið er í 16. kafla Markúsarguðspjalls. Orð eru í guðspjalli dagsins. Skírnarfontur Hallgrímskirkju er fontur uppstigningardags. Það er vel. Uppstigningardagur er stórdagur kristninnar þó hann hafi í vitund fólks ekki sömu stöðu og jól og páskar. En á þessum degi eru mergjaðir og máttugir textar fluttir. Textar um Guð, komu Guðs og að Guð er á ferð í þágu lífsins. Það er eins og uppstigningardagur tjái umfang hins kristna erindis gleðinnar, sé eins og summudagur jóla, páska og hvítasunnu.

Postuli Jesú

Við megum þakka fyrir og gleðjast yfir fonti kirkjunnar. Leifur Breiðfjörð, Guðjón Samúelsson og Andrés Narfi Andrésson eru helstu sjónlistarmenn Hallgrímskirkju. Ef Bach er fimmti guðspjallamaðurinn er Leifur Breiðfjörð okkur einn af postulum Jesú. Leifur hefur gert aðaldyr kirkjunnar, stóra gluggann yfir innganginum, glermyndir inngangsdyra inn í kirkjuna, unnið við prédikunarstólinn og svo hannað skírnarfontinn. Mér þótti heillandi að sjá skissur Leifs og hvernig hann vann undirbúningsvinnuna. Ákveðið var að kristallinn yrði steyptur í Tékklandi af miklum kristalssnillingum, vinum Leifs og Sigríðar, konu hans. Tékkarnir töldu vandalítið að steypa, en annað kom á daginn. Stykkin voru svo stór, að þau sprungu í kælingunni og efasemdir vöknuðu um að hægt væri að steypa svo stór stykki. En þegar búið var að lengja kælitímann í þrjá mánuði gekk verkið loks upp og hægt var að setja stykkin saman. Úr varð þetta listaverk og uppstigningardagsundur sem fonturinn er.

Nánd Guðs

 

Sá sem trúir og skírist – þar er tvenna lífsins. Mun hólpinn verða – það merkir að vera Guðs, búa með Guði og njóta allar blessunar tíma og eilífðar. Þessi boðskapur brosir við öllum þeim, sem koma í kirkjuna og liðast inn í sauma og vitund skírnarbarnanna sem eru ausin vatni. Þetta rifjum við upp í dag og minnum okkur á þennan uppstigningardag.

Erindi við allan heiminn

Það er fögnuður og lífsnánd í sálmum dagsins sem við syngjum. Og það er gleði í Biblíutextunum einnig. Áhersla uppstigningardags er ekki á yfirskilvitlegan viðburð, að Jesús hvarf sjónum manna, steig upp í himininn. Biblían beinir aldrei sjónum út úr heimi heldur inn í hann. Áherslan er ekki á töfra heldur gæsku og hamingju. Textar dagsins fjalla um að allur heimurinn má fá að heyra og njóta að Guð elskar. Hin mikla sýn lexíu dagsins úr Daníelsbók varðar að Guð hefur allt vald. Í pistlinum, hinni dramatísku sögu úr Postulasögunni er ljóst, að Jesús er ekki fjarlægur andi sem bara gufaði upp. Jesús Kristur var og er lifandi vera, sem borðaði með fólki, hafði ekki hugsað sér að reisa lítið konungsríki á hjara veraldar heldur vera lífgjafi öllum heimi, sínálægur, síverandi með fólki og heiminum sem Guð elskar. Og Jesús segir að boða eigi ekki aðeins mannkyni heldur öllu sköpunarverkinu gleðifréttirnar.

Dagur uppstigningar varðar að framtíðin er ekki lokuð heldur opin. Og að Guð gefur gæði, gildi og stefnu fyrir lífið. Svo er það okkar að játa þessa djúpu heims- og mannsýn kristninnar og þora að leyfa gildum og gæðum og hamingjumálum að vera forgangsmál okkar.

Gengur af himni geislabrú í gegnum jarðardal

Það er hægt að fara að skírnarfonti Hallgrímskirkju og sjá kristalinn og dást að formi hans, sjá litadýrð brotins ljóss. Og friðarbogar himins og fonts minna okkur á að rækta frið við menn, Guð og okkur sjálf. Þegar við beygjum okkur niður sjáum við textana, sem tjá hið guðlega samhengi og við erum fullvissuð um að trú og skírn eru staðfesting á þegnrétti okkar manna í tíma og eilífð. Þannig er kærleikur kristninnar, hógvær, hlýr, umlykjandi og ríkur að birtu og fegurð. „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.

Áðan sungum við sálm Rósu B. Böndal nr. 169 í sálmabók. Í fyrsta versi sálmsins segir, sem túlkar fontinn en líka inntak uppstigningardags:

Ljómi Guðs veru líður nú

um landsins fjallasal.

Gengur af himni geislabrú

í gegnum jarðardal.

Amen.

Uppstigningardagur 21. maí, 2020.

 

 

 

[i] https://kirkjan.is/kirkjan/utgafa/pistlar-og-postilla/postilla/postilla/?itemid=9ae72227-b35c-11e7-8393-d8fc93750be7

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Myndskeið er að baki þessari smellu

Guð sem ert faðir og móðir alls sem er

Kenn okkur að vera synir og dætur, sem tala við þig, að hræðast ekki í návist þinni. Kenn okkur heilindi í samskiptum við þig, í orðum, verkum og vinnu, heima og að heiman. Alls staðar ert þú – þar sem við erum vilt þú vera nærri. Gef okkur vilja til að horfa í spegil lífssögu okkar, opna fyrir reynslu nýjunga, margbreytileika, nýrra möguleika, dýptar – opna fyrir þér.

Guð sem talar í náttúrunni

Gef okkur vitund um fegurð daggardropa, blómknúppa, grasnála, opnandi brums, syngjandi fugla. Kenn okkur að skynja návist þína í litum, lykt, verðandi og hræringum náttúrunnar. Lof sé þér fyrir sköpunarverkið allt, sögur, orð, sólstafi og djúpsvart myrkur, fyrir fjölbreytileika veraldar, marglita menningu, ólíkt fólk, nánd og fjarlægðir, smákorn og sólir.

Guð – líf kirkjunnar

Úthell blessunaranda þínum yfir alla þjóna hennar. Við biðjum fyrir starfsfólki, barnastarfi, fyrir kirkjuvörðum, listafólki, biskupum, söngvurum, prestum, organistum, djáknum sóknarnefndarfólki, sjálboðaliðum, messuþjónum – já öllum þeim sem gegna þjónustu í kirkju þinni.

Guð sem ert uppspretta lífs

Við biðjum um siðvit, jöfnuð og réttæti í samfélagi okkar. Gef að mannvirðing einkenni samskipti okkar og tengsl. Hjálpa okkur að rækta frið og virða vit, þekkingu og sannleika. Við biðjum þig að gefa öllum þjónum almennings vernd og þjónustuanda. Gef dómurum speki til réttlátra dóma, löggjöfum skarpskyggni og ríkisstjórn vits og forseta blessun þína. Við þökkum þér fyrir samfélag okkar og menningu, fyrir öll sem hér búa og starfa. Hjálpa okkur að axla ábyrgð á velferð fólks, á byggð og landi, lífi og heimi, heiminum þínum, sem þú elskar og frelsar.

Guð sem sem vitjar allra

Við biðjum þig að blessa hin sjúku og nefnum nöfn þeirra í hljóði …

Við biðjum fyrir hinum sorgmæddu og deyjandi. Við biðjum fyrir þeim sem eru í fangelsi, í fjötrum skulda, í greipum fíknar eða feni samfélagsins. Ver með þeim og leys bönd þeirra. Ver með fjölskyldum þeirra.

Þú mikli Guð
Hjálpa okkur að sjá í reynslu daganna að þú ert með í för, þú gengur okkur við hlið, þú fylgir okkur í sorginni, þú brosir við okkur í augum ásvina og elskunnar. Þú ert okkur við hlið. Hjálpa okkur að lesa sögu okkar sem samfylgdarför, að líf okkar hefur ávallt verið fólgið í sögu þinni, okkar smásaga er brot hinnar stóru sögu, sem þú hefur sagt og heldur áfram að segja okkur, meðan þú yrkir veröldina. Þökk fyrir að við megum lifa í þeirri sögu sannleikans um okkur og þig.

Guð vors lands

Þú hefur skapað okkur til frelsis og ábyrgðar. Í þínar hendur felum við alla viðleitni til að byggja og móta réttlátt þjóðfélag. Kenn okkur að bera virðingu fyrir skoðunum og sjónarmiðum annarra. Lát okkur aldrei gleyma því að heimurinn er stærri en okkar eigin byggð og og land. Þú ert öllu valdi, öllum heimi æðri. Allt skapar þú, allt leysir þú og allt blessar þú og helgar. Þinn er mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

2020 Bæn á bænadegi þjóðkirkjunnar. Hallgrímskirkja 5. sdepáska.

 

Neskirkja, sókn, bygging og líf

Kona, sem kom í Neskirkju, leit í kringum sig og sagði: ”Þetta er falleg kirkja. Hún er svo stílhrein, ekkert auka sem flækir.” Ungur drengur stóð við kórtröppurnar skömmu síðar og sagði hugsi: ”Þessi kirkja er ekki eins og kirkja á að vera.” Og af því honum þótti kirkjan ekki nægilega kirkjuleg væri hún þar með ekki heldur falleg. Hvenær er kirkja fögur? Smekkur fólks er mismunandi og því er afstaða þess til fegurðar kirkju með ýmsu og ólíku móti. Um húsgæði má deila og líka hafa á þeim mismunandi skoðanir. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Neskirkja er því fallegt hús því hún er hús Guðs. En að auki er kirkjuhúsið einnig merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn. 

Sérstæð en hentug kirkja

Neskirkja hefur gjarnan verið nefnd fyrsta nútímakirkjan á Íslandi. Á byggingartíma og fyrstu árum þótti hún framúrstefnuleg og ókirkjuleg. En þeim, sem sækja helgihald Neskirkju og kynnast henni, ber saman um að hún er meira en tískubóla og þolir vel harða smekkdóma tíðanna.

Kirkjan er nú friðlýst hið ytra, enda þykir bygging hennar marka tímamót í íslenskri byggingarsögu. Efnt var til samkeppni um teikningu kirkjunnar árið 1944 og hlaut Ágúst Pálsson, húsameistari, fyrstu verðlaun. Ekki var þó byggt eftir frumtillögunni því margir óttuðust, að söfnuðurinn myndi ekki geta staðið straum af kostnaðinum við stora byggingu. Ágúst var því beðinn að minnka breyta upprunalegri tillögu og minnka bygginguna. Hann varð við beiðninni og byggingaframkvæmdir hófust árið 1952 og stóðu í fimm ár. Neskirkja var vígð á pálmasunnudegi 1957 og pálmasunnudagur þar með kirkjudagur hennar.

Mörgum þótti tillaga Ágústs sérstæð, enda er kirkjan ósamhvef, asymmetrísk. Aðalinngangur kirkjunnar er frá norðri en ekki vestri eins og í flestum kirkjum á Íslandi. Blaðadeilur urðu um byggingarskipulagið. Fullbyggt þótti flestum kirkjuhúsið nýstárlegt, rúmgott og húsgerðin hentug fjölbreytilegu safnaðarstarfi. Ágúst var harmónikuleikari og má jafnvel sjá í Neskirkju stíliseraða harmóníku, hugvitsamlegan spuna með form dragspilsins. Suðurglugginn er sem bassablokkin, kirkjuskip sem belgur og forkirkja eins og hljómborðið. Ef svo er túlkað má sjá í innkomu fólks í forkirkju hjómupphaf, síðan verður tónlist þegar menn eru í kirkju og í samverkan við Heilagan anda. Neskirkja er því n.k. hljóðfæri til andlegra tónsmíða. Það var því ekki undarlegt, að Ágúst skyldi leggja mikla áherslu á Neskirkju hefði góðan hljóm.

Í Neskirkju var safnaðarheimili tengt kirkjubygginguni sjálfri í fyrsta skipti hérlendis. Á upphaflegu teikninguni var gert ráð fyrir mun stærri sal en gerður var. Val á efni var í samræmi við tímann, t.d. timburplötur á veggjum, tex í lofti, flúrperur fyrir hina óbeinu lýsingu kirkjunnar og linoleumdúkur á gólfum. Vandað var til búnaðar. Auk kirkjubekkjanna voru stólar Arne Jacobsen, ”Sjöan,” keyptir, en höfðu þá ekki hlotið lof og frægð, sem síðar varð. Kirkjan á enn megnið af þeim stólum, sem nú hafa þjónað fólki vel. Þeir eru nú eiginlega antíkmunir og minna á natni og listræna alúð þeirra, sem ákvörðuðu búnað við upphaf. Skoðanir á kirkjubekkjunum voru frá upphafi ólíkar. Einhverjum þóttu sætin líkjast um of sætum í kvikmyndahúsum og þau jafnvel vera óeðlilega þægileg!  Slíkar gagnrýnisraddir eru nú alveg hljóðnaðar.

Söngloftið, sem nú er horfið, var í kór kirkjunnar og setti svip á kirkjuskipið. Kirkjuloftið hækkar frá vestri til austurs en kyssir ekki hinn háa kórvegg. Yfir altarinu er loft mun hærra en yfir öðrum hluta kirkjuskipsins og miðlar með hljóðlátu táknmáli sínu hvað er æðst og hæst.

Við hönnun kirkjunnar hugði Ágúst Pálsson mjög að birtuflæði kirkjunnar og þar með gluggaskipan. Allir gluggar kirkjuskipsins, 40 smágluggar og 1 stórgluggi, vísa að kór hennar. Nærri altari er hinn mikli suðurgluggi, sem varpaði ljóshafi yfir kórinn. Í sólskini varð oft heitt í kórnum á messutíma og brann á prestum og söngfólki og perlaði á ennum! Þegar steindur gluggi Gerðar Helgadóttur var settur upp í þennan glugga árið 1990 var girt fyrir hitasviftingar en einnig óheft ljósflæði. Kirkjan varð ekki eins ljósrík og hún var fyrstu áratugina, en litaflóðið varð oft stórkostlegt um og eftir hádegið á sólardögum. Það var bónus breytingarinnar. Taka varð Gerðargluggann niður vegna viðgerða og hefur hann ekki verið settur upp aftur. Þegar dökkt gler gluggans hindraði ekki lengur ljósflæðið heillaði marga hve birti í kirkjunni. Því hefur ekki verið eining um hvort setja eigi gluggann upp að nýju. 

Úti og inni

Hússtærðin var minnkuð frá upphafstillögu. Við það breyttust form kirkjunnar og jafnvel sködduðust. Á norðurhlið hússins gætir t.d. nokkurs ósamræmis, einkum í hlutföllum safnaðarheimilishlutans og tengingu hans við kirkjuskipið sjálft. Kirkjuskipið var stytt og lækkað og raskaði sú minnkun nokkuð jafnvægi hússins miðað við upphafstillögur.[i]

Safnaðarheimili var byggt á árunum 2002-04. Gerð og lögun þess hefur bætt fyrir smækkun kirkjunnar. Kirkjan nýtur viðbótar safnaðarheimilins og saman mynda húsin samstæða heild. Hönnuðir safnaðarheimilis voru VA-arkitektar og höfð þeir hugmyndina um þorpið að leiðarljósi. Kirkjan er sem þorpskirkja sem stendur við torgið. Milli kirkju og safnaðarheimilis er brú eins og lækur lífsvatnsins liðaðist um grænar grundir kirkjulóðarinnar. Frá torginu liggur síðan gata með vinnustöðum, misstórum og sveigjanlegum vinnurýmum, á báðar hendur. Safnaðarheimilið er afar bjart og rímar vel við kirkjurökkrið.

Nokkrar breytingar hafa verði gerðar á kirkjunni. Árið 1990 var lokið við endurbætur utan sem innan. Kross á turni var þá endurnýjaður og turninn styttur. Krossinn varð tvíarma, en var áður fjórarma. Breytingin var ekki til bóta og vert að færa til upphafsskipunar að nýju. Innanstokks hafa einnig orðið nokkrar breytingar. Fyrst voru söngsvalir kirkjunnar stækkaðar svo rýmra yrði um kórinn. Altari kirkjunnar var einnig fært frá vegg.

Orgel

Í kirkjuna nýbyggða var keypt þýskt, tuttugu og einnar raddar orgel. Þegar það var sett upp kom í ljós, að það var síðra en stefnt hafði verið að. Áttu organistar oft í vandræðum með orgelið, þrátt fyrir að vel væri jafnan hugsað um það. Var talað um, að orgelið væri orðið svo dintótt að organisti kirkjunnar, Reynir Jónasson, væri sá einni sem kynni á kúnstir þess.

Ákveðið var árið 1999 að kaupa til kirkjunnar nýtt orgel af þýsk-bandaríska orgelsmiðnum Fritz Noack í Boston. Orgelið er 31 radda, rómantískt orgel. Orgelsmiðurinn fylgdi smíðinni eftir með greinargerð: „Það var fljótlega ákveðið að orgelið fyrir Neskirkju yrði að henta fyrir breitt svið orgeltónlistar, fyrir guðsþjónustur, undir kórsöng og fyrir tónleika góðra orgelverka. Spilaborð orgelsins er skilið frá til þess að organistinn geti stjórnað kórnum en tengingar eru undir kórgólfinu. „Registur“ orgelsins eru rafstýrð. Neskirkjuorgelið er sambland af klassísku, evrópsku orgeli og amerísku 19. aldar orgeli, en útkoman er nútímaorgel…”

Með tilkomu nýs orgels voru gerðar breytingar í kirkjuskipi. Söngsvalinar voru fjarlægðar og stað teppis á gólfi kórsins komu steinflísar. Spónpanill á  kórvegnum var einnig fjarlægður og veggurinn sléttaður og hvítmálaður. Í kirkjunni hefur aldrei verið altaristafla heldur einfaldur kross á kórvegg. Ástæðan er áhrif frá kirkjuarkitektúr látleysis.

Gluggar

Í kirkjunni hafa verið tveir steindir gluggar Gerðar Helgadóttur. Eldri glugginn er í forkirkjunni og var fullgerður árið 1967. Glugginn var gjöf Kvenfélags Neskirkju til að minnast 25 ára afmælis safnaðarins. Þóra Kristjánsdóttir segir svo um gluggan: “Í höndum Gerðar varð glugginn eins konar gátt út í hina stóru veröld fyrir utan. Í stað þess að sjá út á Melana og ys og þys hins daglega lífs, er sjónum manna beint að æðri vídd.  Glugginn er alsettur þykku handskornu gleri sem er fest saman með blýi og hefur Gerður málað í glerið með svörtu á stöku stað til frekari áherslu. Neðst er rönd í jarðarlitum, – brúnum, gulum, og grænum. Þá taka blárri fletir við í ótal litbrigðum, svo og hvítir og einstaka rauðir. Sumir hafa séð í þessum litbrigðum heilagt fjall og vatn, – aðrir fiska, það er að segja tákn Krists, allt eftir næmi og innsæi hvers og eins. Þannig vildi Gerður hafa þessa gátt, að hver skoði hana út frá sinni sál og trúarþörf.”[ii]

Fljótlega var hugað að framhaldi að samvinnu við Gerði og gerði hún að minnsta kosti þrjár tilögur um steindan glugga inni í kórnum. Glugginn er 12 metra hár og liðlega þrír og hálfur á breidd og því yfir fjörutíu fermetrar. Gerður lést áður en hún gat fylgt hugverki sínu úr hlaði. Þegar til átti að taka fannst aðeins ein tillaga í safni hennar og var hún notuð. Glugginn var helgaður í október 1990. Þóra segir um þennan glugga:  ”Tillaga Gerðar um himinbláan glugga, í himinsins ótal litbrigðum, var sjálfgefin. Þessi gluggi er einnig gátt, en nú býður listakonan ekki upp á neitt val. Hér sjá menn ljós í myrkrinu, kross hátt á himninum, ljós eftir myrkur.”[iii]

Grænir litir og blá litbrigði og skipan gluggans má túlka sem vísun í byggð Haga og Mela á landrönd nessins í víðáttum hafs og himins. Gluggin er sem vottur um líf og lífsþrá í faðmi hafs og himinbláma. Glugginn er tvískiptur. Í miðju hans er lína, n.k. sjóndeildarhringur. Neðan hans má sjá veröld og umhverfi safnaðar kirkjunnar. Ofan hans er himinhvelfing, dýrðarveröld, heimur Guðs, sem umfaðmar veröld og menn. Rauðu og gulu litirnir laða, vekja íhugun um sálir og eilífð, ljós og líf.

Glugginn er yfirgnæfandi og fjölbreytilega blár. Bláir litir hafa í kirkjulistinni gjarnan verið tengdir aðventunni, hinnar bíðandi veraldar og Maríu, móður Jesú. Í ljósi blámans má túlka gluggan sem glugga aðventu en líka jóla. Á efri hluta gluggans er ljóskross, sem beinir huga til kross Jesú Krists. En vegna tengingar bláu litanna við aðventu má túlka ljóskrossinn líka sem stjörnu jólanna, Betlehemsstjörnuna, sem skín myrkri og þurfandi heimsbyggð á hinni helgu nótt.

Báðir gluggarnir, þ.e. í kór og forkirkju, voru unnir á verkstæði Oidtmann í Linnich[1] í Þýskalandi. Stóri glugginn er enn í viðgerð eða hefur ekki verið settur upp vegna þess hve glugginn myrkvar kirkjuskipið. 

Kristur og bænir

Í andyri kirkjunnar er Kristslíkneski úr tré sem Ágúst Sigmundsson skar. Myndin sýnir Jesú sem breiðir út faðm sinn mót þeim sem gengur í guðshúsið. Á síðari árum hafa bænaskálar verið settar á steinaltarið frammi fyrir líkneskinu. Æ fleiri koma fyrir kertum, kveikja og gera þar bæn sína. Hin rúma forkirkja hefur því á síðari árum orðið staður tilbeiðslu fremur en fatahengi.

Samhengi sögunnar

Nessöfnuður er eldri kirkjuhúsinu og munar 17 árum. Dómkirkjusöfnuðinum var skipt upp og í fjóra hluta árið 1940.[iv] Þá var Nesprestakall stofnað. Kirkjan átti að þjóna Melum, Högum og líka öllu Seltjarnarnesi og fékk þaðan nafn sitt. Upphaflega var Nessókn allt svæðið vestan og sunnan Hringbrautar og Miklubrautar. Seltjarnarnes varð sjálfstæð sókn árið 1974. Nú eru innan sóknarmarka byggðin sunnan og vestan Hringbrautar og flugvallarins ásamt Skerjafirði og að bæjarmörkum Seltjarnarness. Dómkirkjusókn teygir anga suður fyrir Hringbrautina á einum stað. Aðalbygging Háskólans og Þjóðminnjasafnið ”tilheyra” Dómkirkjusvæðinu, en engir eiga lengur lögheimili í þeim byggingum svo tota Dómkirkjunnar er táknræn en íbúalaus.

Prestar, organistar, djákni og helgihald

Í liðlega tvo áratugi þjónaði aðeins einn prestur sístækkandi Nessöfnuði. Annað prestsembætti var stofnað og lagt til safnaðarins árið 1963 og prestakallið varð þar með tvímenningsprestakall. Þegar sókn var stofnuð á Seltjarnarnesi 1974 þjónuðu Nesklerkar þeim áfram eða til ársins 1988, en þá fengu Seltirningar sinn prest er Seltjarnarnesprestakall var stofnað.

Fyrstu sautján árin var Nessöfnuður án kirkju. Háskólakapellan, sem vígð var á stofnári safnaðarins árið 1940, og skólinn á Seltjarnarnesi voru guðsþjónusturými safnaðarins og nýtt fyrir giftingar, skírnir og greftranir. Þá var heimili prestsins mikið notað til athafna, eins og algengt var á Íslandi á þessum árum.

Fyrsti prestur kirkjunnar var Jón Thorarensen og þjónaði hann söfnuðinum frá 1940 allt til 1972 eða í 32 ár. Frank M. Halldórsson var kosinn árið 1963 sem sóknarprestur þegar sóknin var gert að tvímenningsprestakalli og þjónaði til 2004 og því allra Neskirkjupresta lengst. Árið 1972 tók Jóhann S. Hlíðar við embætti af sr. Jóni og þjónaði hann til ársins 1975. Þá tók við Guðmundur Óskar Ólafsson og naut söfnuðurinn starfa hans í nítján ár eða allt til ársins 1994. Halldór Reynisson kom til starfa árið 1994 og þjónaði með hléum til ársins 2001. Örn Bárður Jónsson hóf störf í söfnuðinum í fjarveru sr. Halldórs árið 1998, var valinn prestur 2001 og sóknarprestur árið 2004 og fékk lausn frá embætti 2016. Árið 2004 var Sigurður Árni Þórðarson kjörinn prestur safnaðarins og þjónaði til ársloka 2014. Skúli Sigurður Ólafsson var valinn sóknarprestur og kom til starfa í Neskirkju í febrúarbyrjun 2016. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var valinn prestur í maí sama ár, þ.e. 2016. 

Neskirkju hefur haldist vel á klerkum sínum aðeins níu prestar hafa verið skipaðir til þjónustu í söfnuðinum frá upphafi. Margir aðrir prestar hafa þjónað í afleysingum. Þá hefur Neskirkja orðið mikilvæg uppeldismiðstöð þjóðkirkjunnar, því margir guðfræðingar hafa fengið þjálfun í starfi kirkjunnar og notið hennar í prestsþjónustu síðar. Sigurvin Jónsson, þá æskulýðsprestur, var vígður árið 2011 og þjónaði söfnuðinum sem æskulýðsprestur þar til hann fór utan til doktorsnáms. 

Kristín Bögeskov var vígð árið 1995 til djáknaþjónustu í Neskirkju og starfaði einkum við heimaþjónustu á vegum safnaðarins.

Rúnar Reynisson hóf störf við Neskirkju fyrir þremur áratugum sem æskulýðsfulltrúi. Síðari ár hefur hann verið skrifstofustjóri og framkvæmdastjóri kirkjunnar. 

Við kirkjunna hafa aðeins þrír organistar starfað frá upphafi eða yfir fimmtíu ár. Þeir eru Jón Ísleifsson frá 1940 til 1973, Reynir Jónasson frá 1973 til 2002 og Steingrímur Þórhallsson frá 2002.

Lífslán Neskirkju

Neskirkja hefur búið við prestalán og notið góðra starsmanna. En veraldlegt aðallán hennar er fólkið sem sækir kirkju sína, vitjar hennar og notar, hvunndags, á hátíðum, gleðistundum og dögum sorgar. Neskirkja er í miðju sóknarinnar ásamt með öðrum mikilvægum stofnunum hverfisins. En hún er líka í miðju vitundar meiri hluta fólks í hverfinu og hefur jafnan notið velvilja. Afar stór hópur þjónar kirkjulífinu. Hin síðari ár eru á annað hundrað manns árlega sem gefur af tíma sínum til að vinna að einhverjum þætti safnaðarstarfsins. Allt leggst þetta saman í andlegt kirkjuhús sem fólk, söfnuður, prestar og hús þjóna. Og það er fallegt því það er ríki Guðs.

Texti og myndir: Sigurður Árni Þórðarson. Þetta var skrifað fyrir nokkrum árum og ég bætti aðeins við upplýsingum um nýja presta Neskirkju. 

[1] http://www.glasmalerei-oidtmann.de/

[i] Hörður Ágústsson,  “Neskirkja,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 14.

[ii] “Ljósið í myrkrinu: Um steinda glugga Gerðar Helgadóttur í Neskirkju,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 15.

[iii] Sama rit, s. 15.

[iv] Reykjavíkurprestakalli, þ.e. dómkirkjusókn, var skipt í fjögur prestaköll með lögum frá 7. maí 1940. Hallgrímsprestakall varð tvímenningsprestakall en Laugarnes- og Nesprestakall urðu einmenningsprestaköll. Prestskostningar í öllum sóknunum voru 15. desember sama ár er sr. Jón Thorarensen varð efstur í kosningu til embættis prests Neskirkju.