Blómkál – hvítlaukur og krydd

Foreldrar mínir ræktuðu blómkál og á hverju hausti var blómkál í boði. Við hámuðum í okkur hrátt blómkáli og mamma notaði blómkál í ýmsa rétti, sauð og steikti. Mér þykir gaman að yngri kynslóðin á mínu heimili hefur uppgötvað bragðgæði nýupptekins blómkáls: „Þetta er bragðupplifun,“ sagði sonur minn um daginn. Hér er blómkálsréttur með Ottolenghi-snúningi.

Blómkálshöfuð meðalstórt, skorið í 1-2 cm blóm (stilkurinn ekki notaður)

4 hvítlauksgeirar
1/4 bolli góð ólífuolía
1 tsk reykt paprika

1 tsk chlliflögur

1 tsk kúmmín

1/2 tsk túrmerik

Saltið og piprið að smekk.

Steinselja skorin til skreytingar
1 sítróna skorin í fjóra hluta

Blómkálið gufusoðið í 5-7 mínútur. Á meðan kálið er soðið er kryddið sett í olífuolíu á pönnu og hrært saman. Þegar kálið hefur verið soðið er það sett í kryddolíuna á pönnunni og steikt við meðalhita þar til það er gullið og augjóslega steikt. En pönnusteikingin ætti að taka 5-8 mín. Komið fyrir á diskum og streytið með steinselju eða dilli. Allt í lagi að smella þrílitri fjólu líka sem kórónu á diskinn. Blómkálstíminn er kartöflutími og því ljómandi að sjóða nýjar kartöflur, merja lítillega og hella yfir bráðnu kryddsmjóri. Betra verður það ekki.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Verði ykkur að góðu.

 

Grænkálssnakk

Grænkál er ofurfæða, mettað vítamínum og næringarefnum. Svo er kolvetni, prótein og grænkálið er stútfullt af trefjum. Einfalt er að búa til grænkálssnakk sem flestum þykir bragðgott. Heilsan batnar og skapið líka. 

Innihald:

100 gr grænkál

1 msk olía

Krydd að smekk: t.d. með hvítlaukskryddi, chilli, salt og pipar.
Kveikja á ofninum og stilla á 140°C.

Grænkálið er skolað ef þarf. Muna að þerra. Mjúk blöðin eru rifin af stilkum og í bita. Olía og krydd sett í skál og blandað. Hella ólíunni yfir grænkálsbitana og hræra vel í svo olían fari á allt kálið.

Bökunarpappír komið fyrir á ofnskúffu og kálinu komið fyrir á pappírnum. Kálið bakað í ofninum í 20-25 mínútur. Hafið auga á kálinu og metið hvenær það er fullbakað.

Næring í 100 gr; kolvetni: 30 gr; prótein: 17,5 gr; fita: 48,7 gr; trefjar: 15,5 gr

Helgamagga er með ljómandi útgáfu og frá henni fékk ég næringarlistann.

Lambakóróna með kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu

Lambakjöt er besta kjötið og nýjar kartöflur eru nammi. Uppskriftahugmyndir Bjarka Þórs Valdimarssonar voru í Mogganum í morgun. Þær vöktu athygli okkar og við aðlöguðum þær að smekk heimilsfólksins. Lambakórónur voru til í Melabúðinni (200 gr. á mann). Nýjar kartöflur eru dásamlegar fyrir kartöflusalat í byrjun ágúst. Við elduðum þetta heilsufæði til heiðurs nýjum forseta.

Kjötið var marinerað í nokkra klukkutíma. Við áttum ókjör af myntu og sítrónumelissu í garðinum og ég notaði mikið af báðum, fínsaxaði og bætti svo þurrkuðu tímían og rósmarín út í. Safi úr einni sítrónu bættist við, slatti af ólífuolíu, salt og pipar skv. smekk. Kjötið var penslað og leyft að standa (og best sem lengst). Þegar farið er að steikja er kjöthitamælir settur í kjarna á kjötstykkjum og steikt – á grilli eða í ofni – þar til hitinn er 67°C (sem er smekksatriði).

Myntu-jógúrtsósa

1 bolli grísk jógúrt 
1/2 bolli smátt skorin mynta
2 hvítlauksgeirar smátt skornir
1⁄2 tsk. kummin
1⁄4 tsk cayenne
Safi úr hálfri sítrónu
Salt og pipar eftir smekk
Öllum hráefnum blandað í skál

Sumarkartöflusalat

1 kg nýjar kartöflur
2 rauð epli
1 piklaður rauðlaukur (þokkalega fínt saxaður laukur og síðan safi úr einni límónu yfir og látið standa)
1 bolli majónes
2 msk. dijon-hunangs-sinnep
2 msk capers
Ferskt dill skv. smekk
Sjóðið kartöflurnar í 20-25 mín.
Blandið saman hráefnunum.

Ég átti ekki mynd af matnum – svo fallegar möndlukartöflur fá að tjá gæði matarins. 

Bæn: Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid

Daginn eftir forsetakjörið árið 2016 fórum við hjónin að heimili Elizu Reid og Guðna Th. Jóhannessonar til að fagna kjöri hans. Þann dag komu sænskir vinir okkar í heimsókn frá Svíþjóð. Þau spurðu okkur hvað við ætluðum að gera síðar um daginn. Við sögðum þeim að við færum að hylla hinn nýkjörna og spurðum hvort þau vildu koma með. Þau spurðu að hætti sænskra regluvarða: „Eruð þið bókuð og á boðslista? Þarf ekki að tilkynna okkur til öryggislögreglunnar?“ Við hlógum og upplýstum þau um slaka og almannafrið á Íslandi. Svo voru þau með okkur í garðinum á Nesinu og birtust síðan á forsíðum sænskra fréttamiðla. Ástvinir og vinir þeirra sænsku hringdu til þeirra andstuttir og upplýstu þau um frægð þeirra í krafti Guðna og Elizu. Og vinum okkar þótti ekki verra að segja að þau væru búin að taka í hendina á nýkjörna forsetanum sem löndum þeirra þóttu ótrúleg tíðindi. En í þessu kjarnast munur á tengslum sænsks kóngs við þjóð sína og forseta á Íslandi við almenning. Sænsku vinir okkar voru hugsi yfir nánd almennings og þjóðhöfðingja. Þau höfðu þörf fyrir að tala um forsetakjörið á Íslandi. Svo sagði vinur okkar: „Gerið ykkur grein fyrir hvað það er merkilegt að fá að kjósa þjóðhöfðingja? Við sitjum bara uppi með kóng og getum ekkert gert og engu breytt. Ég vildi að ég gæti valið mér þjóðhöfðingja. Þið eigið gott – þið Íslendingar.“ Og við urðum hugsi og viðurkenndum að okkur þætti sjálfsagt að kjósa þjóðhöfðingja. Það er þakkarvert en ekki sjálfsagt að við getum valið fulltrúa okkar og ráðið málum okkar sjálf. Það er eitt af þessu stórkostlega og mikilvæga í okkar samfélagi að kjósa, að velja sér stefnu og velferð. Við veljum fólk til forystu og við völdum Guðna Th. Jóhannesson til forseta og fengum Elizu Reid að auki. Guðni hefur verið góður forseti, dugmikill túlkandi, rödd viskunnar og sendifulltrúi menningardýpta. Nálægur og öflugur, húmoristi og spakur, hlýr og eflandi. Og Eliza hefur uppfært hlutverk forsetamaka með áhugaverðum hætti. Lof sé þeim báðum og takk fyrir þjónustu þeirra. Svo hef ég samúð með fræðimanninum Guðna sem þarf næði og hlé frá asa og erli til að halda inn í leyndarskjalasöfn menningarinnar og skrifa síðan. Forseti farinn en fræðimaðurinn kominn.

Meðfylgjandi mynd er úr Hallgrímskirkju 30. október 2016. 

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem.