Biðukollur – öldrunartákn eða lífstákn?

Það er heillandi að lúta niður og horfa á biðukollur í vindi. Strekkingurinn rikkir í bifhárin og fræin fjúka upp og oft langa leið. Stundum er flugsveitin stór. Það er jú guðlegt örlæti í fjölbreytileika sköpunarverksins. Fljúgandi fræ eru ekki dæmd dauðasveit heldur fremur líflegt hópflug. Mér hefur alltaf þótt túnfífill fallegt blóm og mismunandi vaxtar- og þroska-skeið hans vera hrífandi. Fólk sem bara sér hrörnun og dauða í biðukollum á eftir að uppgötva undur lífsins. Flugskeiðið síðasta er ummyndarferli til lífs en ekki endanlegs dauða. Biðukollur eru ekki öldrunartákn heldur lífstákn. Þær eru ekki komnar að dauða heldur fæðingu. 

Myndirnar tók ég á hlýjum strekkingsdegi 7. júlí 2024 við Skerjafjörð. Biðukollurnar stundu ekki heldur hlógu. Taxacum officinale.

Var tekinn í hópinn á fjöllum

Ég kynntist Langasjó og afrétti Skaftártungumanna í fylgd og skjóli Vals Oddsteinssonar í Úthlíð í Skaftártungu. Haustið 1983 komu nokkrir íbyggnir karlar í prestssetrið. Með rjúkandi espressókaffi í bollum upplýstu þeir að ábúendur í Ásum yrðu að smala afréttinn með öðrum sveitungum. Sem gamall sveitastrákur þekkti ég meginreglur varðandi fjallskil. En ég varð hugsi yfir viku á fjöllum, tímamissi  – ég var jú að skrifa doktorsritgerð. Karlarnir glottu yfir slíkri iðju en sögðu að ekki væri hægt að komast undan samfélagsskyldunni. Bókverkin gætu beðið. Nei, það væri ekki hægt að borga einhverjum öðrum til að fara á fjall. Ábúandinn yrði að gegna og sinna hlutverki sínu. Jamm og já og það var það. Ég var hugsi en tók til pjönkur fyrir vikuferð og gekk frá skruddum og tölvu. En fjallageimurinn fangaði mig og vitund mína. Samfélagið á fjöllum var heillandi þrátt fyrir puðið og viðurgerningur var frábær. Á gólfinu milli sofandi fjallmanna og meðal hunda í Hólaskjóli var ég tekinn í hópinn. Ég var orðinn einn af þeim en ekki lengur prestlingur í fræðageimi. Það sem ég hélt að yrði tap og missir varð mér til happs. Ég var innan hrings en ekki utan.

Valur í Úthlíð var og er höfðingi. Honum var umhugað um velferð okkar fjallmanna. Hann vildi tryggja að tafir frá doktorsritgerð yrðu ekki sárar heldur góðar – að ég kynntist dýrðarveröldinni og fengi að sjá sem mest. Þegar hann fór inn að Jökulheimum vildi hann að ég færi með. Því sá ég og hreifst af Fögrufjöllum austan við Langasjó. Fáar kindur voru á svæðinu enda gróðurrýrt. Óþarfi var því að fara á hestum um allt flæmið. En Valur átti öflugan og vel þjálfaðan smalahund sem við slepptum þegar við sáum fé. Hundurinn kunni hlutverk sitt fullkomlega, hljóp beint að ánum og hélt í þær án þess að merja þær eða meiða. Við náðum mömmunum fyrirhafnarlítið og þar með lömbunum líka. Síðan lyftum við fénu á kerru og héldum áfram leitinni. Við skimuðum og töluðum um lífið. Það var heillandi að fara um með manni sem bæði elskaði og þekkti náttúruna. Valur var veitull á sögur af dýrum, náttúrufari og afskiptum manna í þessari undraveröld. Ég smalaði líka Eldgjá og hesturinn sem nágranni minn lánaði mér fældist í rokinu á gjárbarminum. Ég náði þó að snúa skepnuna niður áður en við flugum fram af. Strútslaug, Skaftá – hvílíkar gersemar.

Seinna hringdi Valur til mín og spurði hvort ég vildi fara með honum og fleirum til sleppa seiðum í Langasjó. Skaftártungumenn vildu gera tilraun og kanna hvort fiskur gæti lifað í vatninu. Ég hef alla tíð sótt í og að vatni. Ferðir með Úthlíðarhöfðingjanum höfðu verið gjöfular og nú þurftu brúnaþungir karlar ekki að nefna skyldur eða sveitarsiði. Þetta varð ævintýraferð og við slepptum seiðum sem hafa lifað. Niðurstaðan er skýr og á íslenska ferðavefnum um veiði í Langasjó segir: „Þar er mikið að bleikju frá 1-5 pund og góð aðsaða fyrir veiðimenn í fjallaskála.

Myndin: Valur Oddsteinsson í Úthlíð að sleppa seiðum í kristaltæran Langasjó, sem er um tuttugu km. langur og allt að 75 m. djúpur. Takk Valur, Skaftártungumenn og Skaftfellingar.

 

Brautarhólsfjölskyldan 1970

Þessi fjölskyldumynd frá Brautarhóli er líklega frá 1970. Gunnar Þór f. 1968 er í fangi himinsæls föður síns. Kristján Tryggvi f. 1962 hlær og tilefnið var barátta mín við að hemja hundinn í fangi mér til hægri á myndinni. Stefanía er einbeitt. Frændi, Sigurður M. Kristjánsson, sagði gjarnan að ég væri elsta barn þeirra Stefaníu og þau báru ábyrgð á sveitaveru minni fjórðung úr ári. Ég fór norður í Brautarhól í sauðburðinn strax í maí og fór ekki suður fyrr en í lok september í 16 eða 17 sumur. Stundum var ég kominn norður áður en þau Sigurður og Stefanía voru komin frá Laugum, þar sem frændi var stjóri í héraðsskólanum. Á þessum árum frá 1968-73 var ég ekki bara kaupamaður heldur ráðsmaður og þau frændi og Stefanía treystu mér fyrir búrekstri og fóru með börn sín á margra daga skólastjórafundi. Ég sá um mjaltir og annað sem þurfti að gera. Þá lærði ég að axla ábyrgð. Margt gat komið fyrir og einu sinni bar kýr og legið fylgdi með kálfinum. Hvað gerir aleinn unglingur í slíkum aðstæðum? Enginn dýralæknir var í dalnum þá en ég hringdi í Halldór á Jarðbrú sem kom strax. Við þvoðum legið úthvert sem best við gátum, tróðum því svo inn aftur og saumuðum fyrir. Síðan sprautuðum við pensillini í skepnuna. Henni varð ekki meint af og lifði og átti síðar marga kálfa þmt tvíbura og án úthverfs legs. En mér þótti betra þegar allir voru heima því þá stóðum við saman í stórræðum og glöddumst í tómstundum. Ég varð nyrðra ekki aðeins tvítyngdur, þ.e. mælandi á norðlensku og reykvísku, heldur líka sveitakall, náði tengslum við moldina, lífssamhengi og tímaþykkni íslenskrar bændamenningar. Ég varð líka ábyrgur og óháður móður og föður sem tryggði frelsi til ákvarðana, hugsunar og stefnu. Það lagði grunn að sjálfstæði mínu. Takk fyrir frænda og Stefaníu, Brautarhól, sveit og Svarfaðardal. Hamingjuár. Takk fyrir dásemdartíma bernsku og mótunarára.

Hrífurnar á Brautarhóli

Heyskapur á Brautarhóli um 1970. F.v. Sigurður M. Kristjánsson, skólastjóri á Laugum og bóndi á Brautarhóli, Stefanía Jónasdóttir, kona hans, Kristín Þórðardóttir og Kristján Tryggvi Sigurðsson, sonur Stefaníu og frænda, og ónefndur kálfur. Bændur í Gröf að hirða af árspildunni, veiðimaður að veiða í Grafarhyl Svarfaðardalsár – gæti verið Gísli á Hofsá eða Stefán Jónsson, fréttamaður og faðir Kára. Búið á Brautarhóli var stórt miðað við hektarafjöldann. Því voru allir skikar á Bratuarhóli slegnir, líka mýrlendið. Víða var þó svo blautt að handsnúa varð, deiglendið leyfði ekki vélarnotkun. Við, Sigurður frændi og nafni, jafnvel slógum sumt með elsta laginu, með orfi og ljá. Það var ilmandi góð lykt af mýrarstörinni og alltaf svolítið ryk. Heyskapur var hátíðartími.

Krem úr bývaxi og úr Borgarfirði

Elín Sigrún, kona mín, var beðin að halda fyrirlestur um erfðarétt, erfðaskrár og kaupmála fyrir eldri borgara í uppsveitum Borgarfjarðar. Hún tók beiðninni ljúflega, dagurinn var ákveðinn og ég bauðst til að aka fyrirlesaranum í félagsheimilið Brún í Bæjarsveit. Veðrið á fundardegi var hið besta og héraðið var heillandi fagurt. Eftir að formlegri dagskrá lauk var sest niður og kaffið var gott og veitingarnar stórkostlegar. Sögur flugu og hlátrar ómuðu. Ég hitti Magnús B. Jónsson, fyrrum skólastjóra bændaskólans, og rifjaði upp með honum skemmtilega heimsókn guðfræðinema í Hvanneyri og Borgarfjörð fyrir nær hálfri öld! Það var gaman að sjá blikið í augum Magnúsar. Jói í Litla Hvammi, borðfélagi minn, sá þurrkblett í lófa mínum og spurði hvað ég notaði til mýkingar. Ég viðurkenndi að tilraunir hefðu ekki skilað handmýkt. Hann taldi að bývaxið frá Litla Hvammi gæti dugað og sagði mér frá býflugum þeirra hjóna og kremgerð. Með gleði í hjarta, hlátra í eyrum og kvöldsól í augum ókum við svo suður. Nokkrum dögum síðar kom ég heim og þá var bíll að leggja við húsið okkar. Þar var kominn Jói í Litla Hvammi og án þess að gera boð á undan sér. Með bros í augum rétti hann mér krukku með bývaxkremi og bað mig að prufa hvort það hefði jákvæð áhrif á exemblettinn þurra. Síðan hef ég notað áburðinn frá Litla Hvammi og viti menn – þetta er besta kremið – undrasmyrsl. Svo er það drýgra heldur annað krem. Þurru blettirnir skána og ég lofsyng hjónin og býflugurnar í Litla Hvammi. Og lyktin – maður minn – hún er dásamleg og minnir mig á faðm Borgarfjarðar og skemmtilegt og umhyggjusamt fólk. Takk fyrir.