Árni Johnsen – in memoriam

Þegar Árni Johnsen er horfinn sjónum okkar þyrlast upp minningamyndir af honum. Þegar ég sá hann í fyrsta sinn festist sú mynd í huga minn. Árni stóð á gangstéttinni Miðbæjarskólamegin við Laufásveginn, skammt frá Þrúðvangi. Hann stóð þarna í ljósum fötum og í furðulega háum leðurstígvélum. Ekki bara töffari heldur eiginlega sem grískur guð. Myndin af Árna stimplaðist eða jafnvel brenndist í hugann. Nærri hálfri öld síðar finn ég miðbæjarlyktina, man veðrið, þessi stórkostlegu stígvél – og Árna.

Svo kynntumst við síðar. Árni hafði gaman af forvera mínum sr. Valgeiri í Ásum og skrifaði um hann mikla grein í Moggann í febrúar árið 1982. Sumir sóknarmenn í Ásaprestakalli tóku upp þykkjuna fyrir prest sinn og töldu að Árni hefði ekki átt að skrifa allt sem kom fram í greininni. Skaftfellingar skrafa heima en bera ekki sögur á torg og alls ekki út fyrir sýslumörk og töldu að greinin hefði átt að vera með skaftfellska laginu. Þegar ég sagði Árna það síðar hló hann og viðurkenndi að hans stíll væri annar en austan sands. 

Ég hitti Árna oft í Skálholti og alltaf var hann auðfúsugestur. Svo þegar ég og mitt fólk fluttum í Þingvallabæ hafði Árni samband og vildi halda fund í stofu þjóðgarðsvarðar. Árni var þá í fundaham og hélt tuttugu fundi á Suðurlandi. Þar sem Þingvallabærinn var eins konar félagsheimili sveitunganna varð niðurstaðan að opna Árna bæinn. En hvellur varð á Alþingi vegna áforma Árna um fundaherðferðina og ekki síst að hann ætlaði að funda í Þingvallabæ. En Árni vissi hvað hann var að gera og mótmælin á Alþingi urðu til að mun fleiri sóttu fundina en annars hefði orðið. Svo var hátíðarfundur um efnið hagræðingu og bjartsýni í stofunni okkar þann 1. desember 1993. Þingforsetinn Salóme Þorkelsdóttir og Björn Bjarnason, þá alþingismaður, héldu góðar tölur auk Árna. Bekkurinn var þröngt setinn en fundurinn var bæði eftirminnilegur, efnislega ríkulegur og ákaflega skemmtilegur. Sigurður Jónsson fréttaritari Mbl. sagði frá í sínu blaði og tók meðfylgjandi mynd utan við Þingvallabæ í fundarlok.

Ég mat mjög dugnað Árn Johnsen, frumkvæði, eljusemi, áræðni og glaðværð. Hann var Eyjum og Suðurlandi dugmikill þingmaður. Svo var alltaf skemmtilegt að vera þar sem Árni var og söngur. Við gerðum okkur flest grein fyrir að hann fór stundum fram úr sér og reisti sér hurðarás um öxl sem var vont. En hrífandi og frumlegur var hann. Síðast hitti ég hann þegar ég skírði dótturdóttur hans. Þá var hann kyrr, íhugull og þakklátur fyrir ungviðið og afkomendur sína. Þar var hamingjumaðurinn.   

Þjóðhátíðin í Eyjum er aðeins sem sýnishorn og dauft dæmi himingleðinnar. Það sefar að vita af Árna í söngdýrðinni hið efra – og mér finnst eins og hann sé kominn í ljósu og háu leðurstígvélin. Þannig sé ég hann í birtunni.

Guð geymi og styrki Helgu Brá og Þórunni Dögg, dætur Árna, Halldóru eiginkonu hans, ástvini og afkomendur. 

Mynd Sigurðar Jónssonar sem varðveitt er af Héraðsskjalasafni Árnesinga sýnir nokkra Þingvellinga sem sóttu fundinn 1. des 93. Nokkur eru látin – Guð geymi þau og líkni okkur sem lifum.

 

Ísraelskur flugfiskur að hætti El AL

Ísrael er orðinn kandídat í keppninni hvert sé besta matarland í heimi. Það er ekki einkennilegt því Ísraelar komu úr öllum heimshornum og tóku matarmenninguna með sér til nýja landsins. Þar hefur svo orðið sambræðsla og besta kokkhúsfólkið lærir hvert af öðru. Svo er Ísrael undraland ræktunar ávaxta og grænmetis og allt er ferskt. Kryddið á mörkuðunum – maður minn – betra verður það ekki. Þessi uppskrift var í flugblaði EL AL þegar ég fór heim. Yfirkokkurinn hjá ísralelska flugfélaginu vinnur stöðugt að nýjum uppskriftum fyrir matinn í háloftunum. Þegar ég vaknaði eftir næturheimkomu skaust ég í Krónuna og keypti í réttinn og eldaði svo fyrir mitt fólk í kvöldmatinn. Þetta er uppskrift frá Ísrael en fyrirmyndin kom upprunalega frá Marokkó. Ljómandi flugfiskur fyrir heimamat.

Fyrir fjóra

700-800 gr. þorskflök – eða annar uppáhaldsfiskur

Tómatdós – vökvinn síaður af

5 hvítlaukrif – skorin

1 chilli – fræhreinsað og niðursaxað

Kóríanderbúnt – niðursaxað

Kjúklingabaunir – dós af niðursoðnum baunum og vökvinn síaður frá

Ein lítil krukka af grilluðum paprikum – saxaðar

Sítrónusafi af einni sítrónu

1/2 tsk cummin

1 tsk reykt þ.e. sætt paprikuduft

1/2 tsk möluð kóríanderfræ

15 gr harissa

10 söxuð hvítlauksrif eða sletta úr krukku með hvítlauksmauki

Salt og pipar 

Mareiðsla

Steikingarolía sett í pönnu. Átti reyndar að vera harissaolía en ég átti hana ekki svo ég notaði góða olíu. Söxuðu hvítlauksrifin setti ég út í olíuna og chilli líka. Steikti lítillega og setti svo allt hitt gumsið á pönnuna og hrærði saman og sauð þar til megnið af vökvanum var gufaður upp. Skildi eftir ofurlítið af sítrónusafa og kóríander til að setja á í lokin áður en rétturinn var borinn fram. Smakkaði til og saltaði og piprði. Þorskinn skar ég í falleg stykki og setti síðan yfir blönduna á pönnunni, saltaði lítillega og pipraði og jós síðan pönnublöndunni yfir fiskstykkin. Sauð síðan fiskinn á pönnunni í 5-8 mín eða þar til fullsoðið var (ekki of lengi). Setti síðan sítrónusafann og skorna kóríander yfir og bar fram.

Ljómandi að bera fram með ristuðu nanbrauði eða súrdeigsbrauði og jógurtsósu. Nú svo vilja aðrir hafa með bygg, hrísgrjón eða bara karftöflur. Vatnsmelónurnar voru víða í Ísrael síðustu vikurnar svo ég saxaði niður helming með. Vatnsmelóna er ekki aðeins bragðgóð heldur poppar upp rétti. Best er að borða svona mat í Ísrael en næstbest að elda heima og borða með fólkinu sínu.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Ísrael

„Viltu koma með mér til Ísrael?“ spurði ég konu mína. Ég fór til Ísrael fyrir nær hálfri öld síðan og hef haft heimþrá síðan. Svo ég spurði reglulega mína ferðaglöðu konu um Ísraelsferð en alltaf hindruðu vopnaskak eða aðrar ástæður – þar til nú. Vinafólk okkar ætlaði til Jerúsalem í lok maí og var svo vinsamlegt að hvetja okkur til að koma með. Við slógum til. Ég hafði rýmri tíma en samferðafólk mitt og ákvað að verða undanfari, skoða aðstæður og staði og gera áætlun til að hámarka gæði ferðar okkar. Svo sótti ég námskeið hjá græna rabbíanum í Jerúsalem og sinnti fræðistörfum. Mér hefur löngum reynst best að skoða borgir með fótunum og gekk um Tel Aviv og Jerúsalem í nokkra daga og andaði að mér sögu, menningu og mannlífi.

Andstæður og mennska

Ísrael er land andstæðna. Togstreitan er mikil milli hópa bæði í Ísrael og líka á vesturbakkanum. Allar klisjur um Ísrael eru rangar en hafa þó flestar eitthvað til síns máls. Ísrael er hvorki algott né alvont heldur stórkostlegt land þar sem undursamlegt fólk býr en líka eigingjarnir hagsmunaseggir og spellvirkjar. Víða hafa hópar orðið að tröllum í baráttu og afstöðu að nær ógerlegt er að breyta skoðun þeirra eða lífi. Því hafa deildur verið og verða svo átakanlega harðar og blóðugar. Bara mennskan ein slítur af sér fordóma, stöðu og ætterni. Þegar lítill drengur var í lífshættu einn morguninn nærri hótelinu okkar brugðust allir við og af krafti. Ísraelska lögreglan fjölmennti með hraði, Rauði krossinn líka og palestínsku leigubílstjórarnir hlupu til hjálpar. Engu skipti hver átti í hlut, allir brugðust við af mennskri samkennd. Reynsla okkar af þessum viðburði situr í okkur sem fögur tjáning um að mennskan er ómennskunni sterkari – lífið er sterkara en dauðinn. Þrátt fyrir vonleysi flestra um lausn á vanda Ísraels og Palestínumanna urðum við vitni að getunni til að sameinast um lífsvernd. Vonin lifir.

Ísraelar tala

Ísraelar deila um flest og greinir á um gildi og leiðir. Trúarhóparnir eru margir og merkingarkerfin ótrúlega flókin sem gerir úrlausnarefni langsótt og lausnarleiðir torfarnar. Það eru ekki aðeins Gyðingar, múslímar og kristnir sem búa í landinu helga heldur alls konar hópar með ólík viðmið. Sannleikurinn ísraelski er margflókinn og margþættur. Gyðingadómurinn er t.d. langskorinn og þverskorinn og margar stefnur iðkaðar í togstreitu. Palestínumenn eru þolendur og líðendur alls konar mismununar sem má nánast ekki tala um. Við ræddum við marga í Ísrael, fregnuðum og spurðum, lögðum okkur eftir afstöðu og tjáningu og hlustuðum á margar dramatískar sögur og var treyst fyrir miklum tilfinningum. Það þótti okkur merkilegt og áhrifaríkt. Stafsfólk á gististöðum, þjónar á veitingastöðum, bílstjórar í leigubílum og rútum, farastjórar og útlendingar búsettir í Ísrael og verslunarfólk svaraði óhikað spurningum okkar, virti löngun okkar til skilnings og treysti okkur fyrir blóðríkum sögum og sumar voru nístandi dapurlegar. Jafnvel vegfarendur á götum stöldruðu við til að ræða í þaula stórmál. Áhugi okkar á lífi og sögu fólksins sem byggir landið helga reyndist lykill að því að opna flestar skrár. Við komum úr öðrum heimi og máttum því spyrja lykilspurninga. Við furðuðum okkur á hve viljugt fólk var að ræða við okkur, miðla okkur skoðun eða upplýsingum, rökstyðja sitt mál, segja kostulegar sögur og vera okkur vinsamlegt. Alls staðar komum við að opnum dyrum og allt var gerlegt – nema þá helst að fá leigubíl þegar okkur hentaði. En nú erum við búin að fá okkur appið Get the taxi – og það virkar.

Öðru vísi

Landið er dásamlegt og andstæður líka miklar. Ísrael er mun meira gróið nú en fyrir nær hálfri öld. Vatnsvit og vatnsnotkun íbúanna hefur gerbreytt ásýnd landsins. Ísraelar eru jú uppfindingamenn bestu úðakerfa heimsins. En Dauðahafið er mun dauðara en það var og lækkun þess er dramatísk. Mikið hefur verið byggt frá því ég fór fyrst um Ísrael. Vegakerfið er gott og auðvelt að komast um. Bílaleigurnar ágætar. Sporvagnakerfið nýja sem verið er að byggja upp í Jerúsalem er frábært og lestakerfið milli Tel Aviv og Jerúsalem líka. Miðað við Ísrael nútímans var fyrsta ferð mín til landsins helga á miðöldum!

Matur

Er hægt að fara út að borða í Ísrael? Já, svo sannarlega. Maturinn er góður og víða framúrskarandi. Hráefnið er gott og eldamennskan fjölbreytileg. Ísraelar nútímans eiga sér bakgrunn í flestum kimum Evrópu og Asíu – já alls heimsins. Þeir hafa tekið matarmenningu og hefðir með sér og því er matargerðin fjölvídda líka eins og pólitíkin og kryddheimurinn er stór. Þó að ákveðnir hópar hafi reglur um leyfilegan kost eru aðrir sem hafa aðrar hugmyndir. Því er úrvalið mikið. Vert er að skoða ferðavefina, íhuga eigin matarsmekk og prufa nýja rétti. Svo er ástæða til að fara á matarmarkaðina í stærri borgum til að skoða hráefni og krydd og njóta hins kúlínaríska ríkidæmis landsins helga. Lyktin á þessum stöðum er flókin, hrífandi og oft undursamleg. Göturéttirnir geta verið stórkostlegir t.d. shawarma-pítur í Betlehem eða shakshuka á Tmol Shilshom í Jerúsalem. Fiskistaðurinn Uri Buri í Akkó er pílagrímastaður og félagi minn keypti því matreiðslubók ofurkokksins skeggjaða. Margir frábærir veitingastaðir eru í Tel Aviv og Jerúsalem og ég hef hvorki fyrr eða síðar fengið eins góða nautasteik og á Culinary workshop í Jerúsalem. Þar er iðkuð framúrskarandi tilrauna-eldamennska eins og víða í þessum litríku og líflegu borgum. 

Ferðin okkar

Þegar Elín og ferðafélagarnir voru komnir dvöldum við saman í sólarhring í Tel Aviv. Svo leigðum við bíl og ókum norður frá borginni og til Cesareu. Eftir að hafa skoðað þá fornu hafnarborg, fórum svo til Haifa og síðan til Akko og gistum þar. Borgin varðveitir m.a. sögur og byggingar frá tímum krossferða og miðaldahernaðar. Við ókum síðan til Nasaret, skoðuðum bæinn og leituðum að uppeldisstað Jesú. En ferðirnar í fótspor Jesú eru tilgátuferðir og ráð að leyfa umhverfi, lykt, veðri, gróðri og svipbrigðum fólks staðanna að lifa í minni ekki síður en reynslu af stöðum sem einhverjir forkólfar markaðstækifæra hafa ákveðið í tímans rás. Í Nasaret fannst mér merkilegast að aka um iðnaðarhverfi með trésmiðju, bílaverkstæðum og alls konar smiðjum. Ég hugsaði til Jósefs, Maríu, Jesú og bræðra. Svo var haldið til Tiberias og þar gistum við. Við fórum til Kapernaum og upp á Fjallið sem talið er að Jesús hafi flutt fjallræðuna. Báðir staðirnir eru fagrir og túristavænir. Ég hafði áætlað að aka svo suður Jórdandalinn og fara á tvo staði sem hafa verið tilnefndir sem skírnarstaðir Jesú en hryðjuverkaógn og vegaviðvaranir breyttu ferðaáætlun okkar. Við ókum hraðbrautina suður Ísrael og alla leið til Jerúsalem. Vegalengdirnar í Ísrael eru svipaðar og á Suðurlandinu á Íslandi og akstur milli staða er engin fyrirstaða fyrir vegavana Íslendinga.

Stefnan var að gista í íbúðahóteli við Jaffastræti nærri Jaffahliðinu en íbúðirnar sem við áttum að fá reyndust svo herfilega myglaðar að við hrökkluðumst í burtu og fundum okkur heilnæmari vistarverur á hóteli. Við fórum svo gönguferðir um gömlu borgina og notuðum nokkrum sinnum leigubíla til að fara lengri leiðir. Jerúsalem er ekki bílaborg. Umferðin er hæg og stundum fljótlegra að ganga en að fara í leigubíl, líka utan gömlu borgarinnar. Við fórum einnig í skipulagða hópferð í til Dauðahafsins og Masada og okkur var ráðlagt að bæta við nokkrum krónum og fara í VIP-ferð. Þeim krónum var vel varið. Svo fengum við palestínskan leigubílstjóra til að fara með okkur til Betlehem og alla leið til Tel Aviv. Við sömdum fyrirfram um verð og allt stóðst. Síðustu dagana vorum við í Tel Aviv sem er eitt best varðveitta leyndarmál svæðisins fyrir botni Miðjarðarhafs. Brátt verður flogið beint frá Keflavík til Ben Gurion og mun einfalda mörgum að ákveða að fara í pílagrímsferð til Ísrael. Shalom og góða ferð. Ég mun koma aftur og Elín mín væntanlega líka – og vonandi stór hópur með okkur . Við erum svo sannarlega velkomin. 

Ísak Harðarson +++

Ísak Harðarson er dáinn. Hann er mörgum okkar harmdauði. Mér þykir vænt um ljóðin hans og tel hann vera besta skáld minnar kynslóðar. Mér fannst hann vera vinur minn – eiginlega trúnaðarvinur því svo ærlega og fagurlega talaði hann. Ljóð Ísaks voru öðruvísi en hinna skáldanna. Mörg afvopnuðu mann eins og glöð börn. Hnyttin viska þeirra laðaði. Máttugt líkingamál ljóðanna var grípandi. Snöggur viðsnúningur þeirra opnaði huga. Trúartúlkun og ekki síst guðstúlkun Ísaks heillaði mig og mér fannst hann jafnan orða lífsglímuna með ferskum hætti.

Kristján B. Jónasson gaf út safnrit ljóða Ísaks, Ský fyrir ský, árið 2000 á vegum Forlagsins. Takk fyrir. Ísak samdi ljóð þeirrar bókar á árunum 1982-95. Ég mat Ísaksljóðin svo mikils að í staðinn fyrir krimma og skvísubækur tók ég safnið með mér á sólarströnd og las með áfergju. Þegar ég leysti nafna minn af í Hallgrímskirkju haustið 2003 efndum við sr. Jón Dalbú til fræðsludagskrár um ljóð Ísaks. Kristján B. Jónasson og Andri Snær Magnason fluttu þá snjallar ræður um skáldið en Andri Snær skrifaði frábæran inngang að 2000-útgáfunni. Ísak tók þátt í Passíusálmaplús sem ég stýrði á vegum Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju.

Bækur Ísaks Harðarsonar hafa verið félagar mínir í mörg ár. Mér þykir vænt um þær. Ég gaf þær ekki frá mér þegar ég bar marga tugi af bókakössum í Basar kristniboðssambandsins í vetur. Ísak er klassík. Ísaksljóðin eru framtíðarljóð. Næst-efsta bókin á kollinum við hlið lestrarstólsins míns er gula bókin: Hitinn á vaxmyndasafninu. Nærri lífslokum skrifaði Ísak sjö kraftaverkasögur.

Meðfylgjandi mynd úr safninu Ský fyrir ský birtir ljóð Ísaks Harðarsonar: Vegurinn til Sunnuhlíðar. Guð geymi Ísak Harðarson í Sunnuhlíð eilífðar. Guð styrki ástvini hans og blessi okkur öll.

 

 

 

Aftur já, – en líka fram

Sagt er að margir Vesturlandabúar komi til kirkju timbraðir í dag og illa fyrir kallaðir. Fastan hefst. Gleðskapur hefur ríkt liðna daga áður en föstuaðhaldið í mat og drykk byrjar. En ég get ekki séð merki um höfuðkvalir þegar horft er fram í kirkjuna! Fastan er merkilegur tími íhugunar, tími Jesúferðar til Jerúsalem og tími til að hugsa um tímann sjálfan og hvernig við dönsum við takt tímans.

Tíminn í grafhýsi

Ég var einu sinni í stórum hópi Íslendinga í Westminster Abbey í London sem við þekkjum m.a. af stórviðburðum í bresku þjóðlífi, konunglegum giftingum og útförum. Það er einkennileg kirkja. Í henni eru um þrjú þúsund og fimm hundruð grafir, legstaðir konunga, skálda, vísindamanna og þjóðhetja. Þó er þessi hvelfing dauðans líka kirkja fyrir lífið. Íslenski hópurinn sat í glæsilegri stúku og komið var að kvöldsöng. Drengjakór gekk inn með kirkjuþjónum og prestum. Kyrrð féll á. Túristarnir voru farnir og aðeins þau eftir sem vildu taka þátt í kvöldsöng. Við höfðum góðan tíma til að horfa og vorum umvafin djúprödduðum ómi hinna miklu hvelfinga. Hugurinn leitaði inn á við. Á tíðagerðarblaðinu var formáli um tímann og afstöðu kirkju og kristinna manna til hans. Þar stóð að kirkjan lifði í fortíð og gamlir lestrar væru lesnir í messum og helgihaldi, textar úr sögu Ísraels. Jú, það er rétt að flestir textar í lífi kirkjunnar urðu til fyrir löngu síðan. En ef fortíðarhyggjan ræður verður allt gamaldags. Það er einmitt hlutverk okkar að skilja hið úrelta frá hinu sem er gilt og klassískt. Það er verkefni hvers manns sem leitar þroska og líka vökullar kirkju.

Kall til framtíðar

Svo stóð þarna á blaðinu að líf kirkjunnar sé líka mál framtíðar. Textar Nýja testamentisins varða framtíð og draga fram verk Guðs. Þeir benda okkur á vonarefnin og beina sjónum fram á veginn. Þeir minna okkur á að við megum snúa okkur fram. Aftur já, – en líka fram. Verðum við ekki rótlaus ef við missum sjónar á fortíðinni? Verðum við sem einstaklingar ekki grunnfærin þegar við hættum að læra af hinu liðna? Jú, svo sannarlega. Svo er það reynsla kynslóðanna að þau sem ekki þekkja og skilja sögu sína eru dæmd til að endurtaka mistök fortíðar. Hinir öfgarnir eru að þegar við lifum bara í fortíðinni og erum hætt að opna gagnvart framtíð og nútíð þá erum við deyjandi. Við þurfum að þola þá spennu að lifa í fortíð og framtíð, því sem var og því sem verður. Þegar kólfurinn er hættur að sveiflast milli framtíðar og fortíðar dofnar allt og deyr að lokum. Aftur og fram, aftur og fram er taktur kirkju og kristins manns og raunar taktur fyrir lífið.

Jesúreisan til Jerúsalem

Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíusálmunum? Ferð Jesú til Jerúsalem sem alltaf er líka lífsreisur allra einstaklinga og kynslóða. Við erum samferða Jesú. En menn voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til að hún yrði ferð til sigurs og að þeirra lið ynni og Jesús yrði þar með þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi að hlutverk hans væri annað en það sem aðdáendur hans og klapplið vildu. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús horfði aftur, þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum væri ætlað að þjóna. Aftur og fram. Ferð Jesú var ekki túristaferð. Hann var ekki í huggulegri kirkjuskoðun. Ferð hans var upp á líf eða dauða. Hann hefði getað látið undan freistingunni og forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar. Eða hvað?

Gamalt og nýtt

Í ískaldri höll erkibiskupsins, Lambeth Palace í London, héldu nokkrir fræðimenn fyrirlestra um þróun kirkjulífs í Bretlandi, ensku kirkjuna, helgihaldssögu þeirrar kirkju og kirkjusögu. Í kuldanum fór ég að velta vöngum yfir hver væri God’s frozen people, Íslendingar eða Englendingar. Margir kirkjusöfnuðir í Englandi hafa lent í miklum vandræðum þegar fólkið styður ekki starf þeirra lengur. Kirkjur hafa verið seldar. Þeim hefur verið breytt í flottar íbúðir eða skrifstofuhúsnæði. Eina kirkju hef ég séð sem var orðin að stóru bílaverkstæði. Víða hefur safnaðarfólkið gengið í sjálft sig og þorað að spyrja hvort ekki væri kominn tími til að breyta. Það er ekki nóg að eiga glæsibyggingar og að baki mikla sögu, hefð og fína texta. Ef safnaðarlífið gengur ekki verða menn að taka upp nýja stefnu og jafnvel selja kirkjuhúsin. Kirkja er ekki hús heldur fólk. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan sem kristin kirkja lifir stöðugt í og verður að þola. Þegar breytingar verða í samfélagi eiga kristnir menn að að opna dyr en loka ekki að sér í fortíðarhyggju. Það getur verið pínlegt að ganga í sig og breyta. Hvað um fortíðina? Hvað um framtíðina? Ætlum við að lifa bara í hefðinni og endurtaka það sem alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Niðurstaðan er að best sé að fortíð og framtíð samþættist. Kristnin lifir í krafti fortíðar, lítur til baka og tekur mið af sögunni og hefðinni. En hún hangir ekki bara í hinu liðna heldur horfir fram og verður að opna. Verkefni kristnins fólks er að íhuga hvernig við getum brugðist vel og með ábyrgð í verkefnum lífsins. Okkar viðbrögð spanna bæði fortíð og framtíð. Ef við erum bara annað hvort bregðumst við og erum óábyrg. Ef Jesús hefði bara lifað í fortíð hefði hann aldrei farið upp til Jerúsalem. En hann þorði. Því erum við hér í dag af því hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Aftur en líka fram. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Kannski fastar þú ekki þennan tíma en farðu inn á við og inn í þig. Er eitthvað sem eru bara leifar úr fortíð sem mega hverfa? Getur verið að nú sé komið að pistlinum í lífinu og þú snúir þér 180° og opnir líf þitt mót framtíð og guðskallinu? Til að þú getir lifað í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð. Gott líf er flétta fortíðar og framtíðar.

Sunnudagur í föstuinngangi. Jes. 50. 4–10. 1. Kor. 1. 18-25. Lúk. 18. 31-34.

Myndina tók ég blessunarkveðju á vegg höfuðkirkju Englendinga, Westminster Abbey.