Sigurður Árni í hnotskurn

Maðurinn

Jákvæðni, áhugi, hlýja og nánd eru áberandi persónueinkenni Sigurðar Árna. Hann er yfirvegaður, þægilegur í samskiptum og á auðvelt með að tengjast fólki. Góður hlustandi, hefur áhuga á fólki, líðan þess og skoðunum. Hann sér styrkleika náungans, hrósar, styður og lyftir upp samstarfsfólki sem og öðrum þeim sem hann mætir í daglega lífinu.

Sigurður Árni er hamingjumaður í einkalífi en kona hans er Elín Sigrún Jónsdóttir, lögræðingur. Hann á fimm börn, þrjú barna hans eru af fyrra hjónabandi þau Katla, Saga og Þórður. Börn Sigurðar Árna og Elínar eru síðan tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Þetta barnalán Sigurðar tengir hann vel við ungt fólk og veitir honum innsýn í menningu þess. Hann ræktar fólkið sitt og hafa þau Elín búið sér hlýlegt og fallegt heimili í vesturbæ Reykjavíkur. Garðrækt er eitt af áhugamálum Sigurðar. Á síðustu árum hefur skógrækt einnig verið Sigurði Árna hugleikin og hefur hann meðal annars ræktað ávaxtatré sem nú þegar hafa borið ávöxt.

Leiðtoginn

Sigurður Árni hefur unnið með veikleika sína og styrkleika og gerir sér grein fyrir því hvar þeir liggja. Hann á auðvelt að vinna með fólki og þjóna öðrum, er djúpsær leiðtogi og þorir að skoða nýjar leiðir sem þjóna markmiðum trúar og kirkju. Hann er opinn, lausnamiðaður og íhugull framkvæmdamaður. Sigurður Árni er atorkusamur, lætur verkin tala og þorir að taka á þeim málum sem upp koma hverju sinni.

Presturinn

Sigurður Árni er góður prédikari, snjall ritskýrandi og samtímamiðaður í ræðum sínum. Hann er ötull við að birta prédikanir sínar á vefnum og eru þær að jafnaði mikið lesnar. 
Sigurður Árni er góður söngmaður og vill að helgiþjónusta messunnar sé fögur, einlæg og aðgengileg. Hann er góður sálusorgari og umhyggjusamur í hinum persónulegu þáttum prestsþjónustunnar. Hann hefur áhuga á að efla samfélag og samskipti fólks og ósjaldan má sjá Sigurði Árna bregða fyrir í eldhúsi kirkjunnar þar sem hann töfrar fram ljúffengar máltíðir og stendur fyrir borðsamfélagi í kirkjunni.

Námsmaðurinn og fræðimaðurinn

Sigurður Árni er vel lesinn guðfræðingur. Hann lauk kandídatsprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1979 með ágætiseinkunn 9,10 sem er ein hæsta einkunn sem gefin hefur verið í guðfræðinámi við HÍ. Eftir að hafa lokið kandídatsprófi lá leið hans í framhaldsnám til Bandaríkjanna og lauk hann doktorsprófi frá Vanderbilt-háskóla í Nashville Tennessee árið 1989. Sérsvið Sigurðar Árna er trúfræði og hugmyndasaga síðustu alda. Doktorsritgerð hans var um myndmál í íslenskri guðfræði og var hún endurútgefin af alþjóðlega bókaforlaginu Peter Lang í febrúar 2012. Fræðimennska Sigurðar Árna mun nýtast honum vel í biskupsstarfi vegna þess hve samtímamiðuð hún er. Hann hefur skrifað mikið um málefni trúar og kirkju og er fastur pistlahöfundur í Fréttablaðinu.

Starfsmaðurinn

Sigurður Árni er bæði landsbyggðarmaður og borgarbarn. Hann hefur þjónað sem prestur í dreifbýli og þéttbýli, í Vestur-Skaftafellssýslu, S-Þingeyjarsýslu, Árnessýslu og Reykjavík, verið fræðari og rektor Skálholtsskóla og starfað sem verkefnisstjóri á biskupsstofu. Hann breytti lýðháskólanum í Skálholti í menningarmiðstöð og lagði grunn að flestum þeim starfsþáttum sem Skálholt er þekkt fyrir, s.s. kyrrðardaga, ráðstefnur og námskeið. Einnig beitti hann sér fyrir nýjum fræðsluháttum hjá þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem enn í dag er byggt á þeirri skipan sem hann kom á. Sigurður Árni kom með tillögur á prestastefnu að safnaðaruppbyggingu þjóðkirkjunnar og vann síðar að henni á vegum biskups Íslands. Í prestsstörfum í Hallgrímskirkju og síðar í Neskirkju hefur Sigurður beitt sér fyrir eflingu innra starfs safnaðanna, aukinni virkni og fjölbreytni í starfi. Sigurður Árni var valinn á kirkjuþing 2010 og hlaut hann flest atkvæði presta, hann er varamaður í kirkjuráði og formaður framtíðarnefndar kirkjuþings.

Yfirlýsing stuðningsmanna Sigurðar Árna Þórðarsonar