Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Loksins?

Eftir seinni heimstyrjöld voru haldin stríðsréttarhöld í Nürnberg. Vitni var leitt fram. Hann hafði flúið fangabúðir nasista með gasklefunum, farið huldu höfði og leitað afdreps í gyðingakirkjugarði í Wilna í Póllandi. Saga mannsins var rosaleg. Hann varð vitni að fæðingu barns í grafhýsi. Ung kona, sem einnig fór huldu höfði, hafði ekki í önnur hús að venda en þessa friðarhöfn dauðans. Þar ól hún barn sitt í þessari undarlegu fæðingardeild. Starfsmaður kirkjugarðsins, áttræður grafari, var eina tiltæka ljósmóðirin. Þegar barnið hafði rekið upp fyrstu grátrokuna muldraði hinn aldraði Gyðingur og trúmaður: „Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?” Þremur dögum síðar sá vitnið í Nürnberg barnið og móður þess á nýjan leik. Hungruð og örvæntingarfull móðirin gat ekki mylkt barni sínu. Eina fæða barnsins voru tárin, sem hrutu af hvörmum hennar. Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?

Sagan frá Wilna rífur í. Okkur hættir til að gleyma að við erum óendanlega mikils virði. Ástæðan er sumpart sú, að við skiljum ekki tilveru okkar dramatískt. Grafarinn í Wilna var nauðbeygður til að stara opineygður á nakta veröld, heim hinna mestu átaka lífs og dauða. Hann tók á móti barni í myrkri. Hann túlkaði tilveruna róttækt, annað hvort sem myrkur eða ljós, annað hvort líf eða dauða.

Merking píslarsögunnar

Skírdagur. Að skíra merkir að hreinsa. Í kirkjunni voru ölturu þvegin og þrifin á þessum degi. Allt á þetta rætur í að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og undirbjó þá til máltíðar. Enn í dag verða þessir kyrruvikudagar tilefni kristnum lýð, að íhuga merkingu píslarsögunnar. Hvaða máli skiptir okkur dauði og þjáning Jesú? Hefur okkur yfirsést að við og Jesús erum samferðamenn? Hefur okkur lærst að skilja hvaða gildi það hefur að fylgja honum á göngunni? Hvernig getur krossfesting manns orðið öðrum að gagni? Hvernig getur þjáning eins manns skipt aðra sköpun, hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Er þjáning og pína Krists frábrugðin písl annarra? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Var hann Guð-maður, var hann Guð? Hvað þýðir það, að hann hafi verið Guð? Þetta eru þær spurningar sem leita á og hafa verið viðfangsefni kristinna manna frá öndverðu. Allar hreyfingar í guðfræðinni fyrr og síðar hafa verið tilraunir til að svara þeim. En skilningur er skertur. Skiljum við til fullnustu ást okkar til barna, maka eða náttúru? Hvernig er hægt að skilja grimmd nauðgarans og valdslosta kúgarans? Illskiljanleg öfl eru að verki í lífi manna.

Guðsaugun

Mestu máli skiptir að hverfa frá eigin sjónarhóli. Við megum læra að horfa með augum Guðs, sjá sálf okkur og veröldina frá sjónarhæð himinsins. Á föstunni og í kyrruviku göngum við á vit sögu Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun förum við smátt og smátt að sjá heiminn með Guðsaugum. Förum að sjá að saga Jesú er saga Guðs um okkur og heiminn. Þá förum við að skynja að Guð segir sögu um sig og afstöðu sína gagnvart okkur öllum.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að skilja þjáningu hans heldur fara með honum. Jesús hefur gengið um öldudal mannlegrar þjáningar og þjáist áfram meðan einhver hinna minnstu systra eða bræðra líður. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja til lífs og umsköpunar. Það líf sem Jesús hvatti til var ekki eitthvað hulið einkamál eða blíð og átakalaus barnatrú og vilji til að sætta sig við allt misrétti. Sú hvatning og sá kraftur, sem Jesús miðlaði var kvaðning til baráttu gegn öllu því sem heftir gott og gleðiríkt líf. Að fylgja Jesú getur ekki þýtt aðgerðarleysi né uppgjöf. Þvert á móti er Jesúfylgdin virk og starfarík afstaða, sem einkennist af þori og kjarki til að horfast í augu við lífið eins og það er og vilja og afli til að breyta þeim aðstæðum sem brjóta í bág við vilja Guðs. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi og það eru gleðifréttir um frelsi hinna fátæku, lausn hinna þjáðu og kúguðu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrking hinum hrelldu. Þessi boðskapur á að vera okkur öllum hvatning til að svipta hulunni af blekkingarvefum sem umvefja okkur á vinnustað, út í hinum stóra heimi stjórnmála, syrjalda, arðráns og kúgunar. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er okkur kannski erfiðast að viðurkenna og opinbera sjálfsblekkingu okkar.

Guð fer fyrir

„Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?“ Lítið barn fæddist í Wilna. Þremur dögum síðar hafði það ekki fengið neina mjólk úr móðurbrjóstum. Vonir öldungsins kulnuðu enn einu sinni. Skírdagspísl og dauði á föstudeginum fyrir páska. Hefur þú loks sent okkur lausnara og leiðtoga? Barnið dó, en Kristur reis.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags, vonar og vonbrigða. Lífið á engan ódýran endi. Úr grafhvelfingu sprettur fram það nýja líf, sem binda má von við. Sú saga varð ekki aðeins einu sinni heldur er hún táknræn saga um sögu okkar.

Skírdagshugleiðing í Neskirkju 2005.

Aftur já, – en líka fram

Sagt er að margir Vesturlandabúar komi til kirkju timbraðir í dag og illa fyrir kallaðir. Fastan hefst. Gleðskapur hefur ríkt liðna daga áður en föstuaðhaldið í mat og drykk byrjar. En ég get ekki séð merki um höfuðkvalir þegar horft er fram í kirkjuna! Fastan er merkilegur tími íhugunar, tími Jesúferðar til Jerúsalem og tími til að hugsa um tímann sjálfan og hvernig við dönsum við takt tímans.

Tíminn í grafhýsi

Ég var einu sinni í stórum hópi Íslendinga í Westminster Abbey í London sem við þekkjum m.a. af stórviðburðum í bresku þjóðlífi, konunglegum giftingum og útförum. Það er einkennileg kirkja. Í henni eru um þrjú þúsund og fimm hundruð grafir, legstaðir konunga, skálda, vísindamanna og þjóðhetja. Þó er þessi hvelfing dauðans líka kirkja fyrir lífið. Íslenski hópurinn sat í glæsilegri stúku og komið var að kvöldsöng. Drengjakór gekk inn með kirkjuþjónum og prestum. Kyrrð féll á. Túristarnir voru farnir og aðeins þau eftir sem vildu taka þátt í kvöldsöng. Við höfðum góðan tíma til að horfa og vorum umvafin djúprödduðum ómi hinna miklu hvelfinga. Hugurinn leitaði inn á við. Á tíðagerðarblaðinu var formáli um tímann og afstöðu kirkju og kristinna manna til hans. Þar stóð að kirkjan lifði í fortíð og gamlir lestrar væru lesnir í messum og helgihaldi, textar úr sögu Ísraels. Jú, það er rétt að flestir textar í lífi kirkjunnar urðu til fyrir löngu síðan. En ef fortíðarhyggjan ræður verður allt gamaldags. Það er einmitt hlutverk okkar að skilja hið úrelta frá hinu sem er gilt og klassískt. Það er verkefni hvers manns sem leitar þroska og líka vökullar kirkju.

Kall til framtíðar

Svo stóð þarna á blaðinu að líf kirkjunnar sé líka mál framtíðar. Textar Nýja testamentisins varða framtíð og draga fram verk Guðs. Þeir benda okkur á vonarefnin og beina sjónum fram á veginn. Þeir minna okkur á að við megum snúa okkur fram. Aftur já, – en líka fram. Verðum við ekki rótlaus ef við missum sjónar á fortíðinni? Verðum við sem einstaklingar ekki grunnfærin þegar við hættum að læra af hinu liðna? Jú, svo sannarlega. Svo er það reynsla kynslóðanna að þau sem ekki þekkja og skilja sögu sína eru dæmd til að endurtaka mistök fortíðar. Hinir öfgarnir eru að þegar við lifum bara í fortíðinni og erum hætt að opna gagnvart framtíð og nútíð þá erum við deyjandi. Við þurfum að þola þá spennu að lifa í fortíð og framtíð, því sem var og því sem verður. Þegar kólfurinn er hættur að sveiflast milli framtíðar og fortíðar dofnar allt og deyr að lokum. Aftur og fram, aftur og fram er taktur kirkju og kristins manns og raunar taktur fyrir lífið.

Jesúreisan til Jerúsalem

Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíusálmunum? Ferð Jesú til Jerúsalem sem alltaf er líka lífsreisur allra einstaklinga og kynslóða. Við erum samferða Jesú. En menn voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til að hún yrði ferð til sigurs og að þeirra lið ynni og Jesús yrði þar með þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi að hlutverk hans væri annað en það sem aðdáendur hans og klapplið vildu. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús horfði aftur, þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum væri ætlað að þjóna. Aftur og fram. Ferð Jesú var ekki túristaferð. Hann var ekki í huggulegri kirkjuskoðun. Ferð hans var upp á líf eða dauða. Hann hefði getað látið undan freistingunni og forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar. Eða hvað?

Gamalt og nýtt

Í ískaldri höll erkibiskupsins, Lambeth Palace í London, héldu nokkrir fræðimenn fyrirlestra um þróun kirkjulífs í Bretlandi, ensku kirkjuna, helgihaldssögu þeirrar kirkju og kirkjusögu. Í kuldanum fór ég að velta vöngum yfir hver væri God’s frozen people, Íslendingar eða Englendingar. Margir kirkjusöfnuðir í Englandi hafa lent í miklum vandræðum þegar fólkið styður ekki starf þeirra lengur. Kirkjur hafa verið seldar. Þeim hefur verið breytt í flottar íbúðir eða skrifstofuhúsnæði. Eina kirkju hef ég séð sem var orðin að stóru bílaverkstæði. Víða hefur safnaðarfólkið gengið í sjálft sig og þorað að spyrja hvort ekki væri kominn tími til að breyta. Það er ekki nóg að eiga glæsibyggingar og að baki mikla sögu, hefð og fína texta. Ef safnaðarlífið gengur ekki verða menn að taka upp nýja stefnu og jafnvel selja kirkjuhúsin. Kirkja er ekki hús heldur fólk. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan sem kristin kirkja lifir stöðugt í og verður að þola. Þegar breytingar verða í samfélagi eiga kristnir menn að að opna dyr en loka ekki að sér í fortíðarhyggju. Það getur verið pínlegt að ganga í sig og breyta. Hvað um fortíðina? Hvað um framtíðina? Ætlum við að lifa bara í hefðinni og endurtaka það sem alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Niðurstaðan er að best sé að fortíð og framtíð samþættist. Kristnin lifir í krafti fortíðar, lítur til baka og tekur mið af sögunni og hefðinni. En hún hangir ekki bara í hinu liðna heldur horfir fram og verður að opna. Verkefni kristnins fólks er að íhuga hvernig við getum brugðist vel og með ábyrgð í verkefnum lífsins. Okkar viðbrögð spanna bæði fortíð og framtíð. Ef við erum bara annað hvort bregðumst við og erum óábyrg. Ef Jesús hefði bara lifað í fortíð hefði hann aldrei farið upp til Jerúsalem. En hann þorði. Því erum við hér í dag af því hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Aftur en líka fram. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Kannski fastar þú ekki þennan tíma en farðu inn á við og inn í þig. Er eitthvað sem eru bara leifar úr fortíð sem mega hverfa? Getur verið að nú sé komið að pistlinum í lífinu og þú snúir þér 180° og opnir líf þitt mót framtíð og guðskallinu? Til að þú getir lifað í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð. Gott líf er flétta fortíðar og framtíðar.

Sunnudagur í föstuinngangi. Jes. 50. 4–10. 1. Kor. 1. 18-25. Lúk. 18. 31-34.

Myndina tók ég blessunarkveðju á vegg höfuðkirkju Englendinga, Westminster Abbey.

Maríustíllinn, já, nei og frelsið

Lífið er verðandi – allt hreyfist. En þolum við breytingar? Og jafnvel: Þorum við að verða, vaxa, umbreytast og opna? Kristján Sigurður – nýskírður – velur ekki að breytast. Hann bara er í umbreytingu bernskunnar. Hann vex, lærir, opnar og fylgir flæði lífsins. Í dag flæddi blessunarvatnið í fontinn og vætti höfuð hans. Svo þarf hann að læra að segja já og nei og hvað frelsið merkir. Læra Maríustílinn.

Messan í dag er kveðjumessa. Prestur hættir störfum í Hallgrímskirkju og er á leið inn í þriðja æviskeiðið og annar tekur við. Búið var að ákveða og ganga frá skipulagi messunnar þegar foreldrar drengsins báðu um skírn. Þar sem skipulagið og tónlistin voru ákvörðuð var ekki sjálfgefið að gerbreyta athöfninni. En hvað er kirkja? Skírn er aðalmál í kristninni og kirkja er ekki lokað kerfi og hús heldur iðandi af mannlífi og þjónn lífsins. Við breyttum því skipulaginu og Kristján Sigurður var boðinn velkominn. Í skírnargerningnum megum við nema þá djúpu visku heims og himsins að lífið er gott, gefandi og með galopna framtíð. Við erum öll börn á leiðinni, börn tíma en líka eilífðar, ekki í lokuðu kerfi, föst í rásinni heldur á guðsvegum. Við megum breytast og hugsa nýjar hugsanir. Við megum þora að verða. Börnin læra að treysta en líka greina fals. Þau læra að ganga, tala og hlægja. Og ég má fæðast til nýrrar tilveru og þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af sprunguviðgerðum í Hallgrímskirkju, verkefnum og ferðamönnum. Nú eru það bara þau fagnaðarefni lífsins að njóta samveru með ástvinum og góðu fólki og halda áfram að njóta lita, orða, tóna, ilms, bragðs og bregðast hrifinn við elsku daganna. Táknmál þessa kirkjudags er ávirkt og Maríustíllinn er mikilvægur. Boðunardagur Maríu er einn af þessum stórkostlegu dögum sem hvíslar að okkur að Guð sé elskandi vinur.

María og helgisagan

„María, drottins móðir kær, merkir guðs kristni sanna“ ljóðar Hallgrímur í 37. passíusálmi. Á þessum sunnudegi föstunnar íhuga kristnir menn um allan heim Maríu. Það eru jú níu mánuðir til jóla. María nærði Jesúfóstrið í móðurlífi sínu, gaf honum síðan nýfæddum brjóst og varð honum öflugur uppalandi. En siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá vegna þess að Rómarkirkja miðalda hafði klúðrað guðfræði Maríu. Maríu hafði eiginlega verið stolið og gerð að gínu valdsins, gínu á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega og mannlega var læst í fjötra sem svo urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. En engum líður vel sem gínu og Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni sem ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins og með okkur í hvunndagsverkefnunum. Maríustíllinn er mikilvægur.

Helgisaga er trú á vængjum ljóðsins. Sagan um Maríu er slík yfirjarðnesk saga. Menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Maríudýrkun stigmagnaðist fyrsta árþúsund kristninnar og kenningaflækjan gildnaði og endaði með að karlaþing kaþólsku kirkjunnar ákváðu að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú skiluðu Maríu sem endurunninni mannveru. Djúphvatar sögunnar breyttu henni. Hún var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins eins og Bósi Ljósár.

Maríustíllinn
En María er ekki frelsari mannkyns heldur persóna sem vann úr stórmálum. Þegar við sviptum burt búrkum og menningarspjörum aldanna af henni sjáum við venjulega manneskju sem var sömu gerðar og við hin. Hún fann til, meiddi sig, hreifst, lærði, hló og grét. Hún lærði að hafna sumu og játast öðru. Lærði frelsi og mörk þess eins og þú og við öll. Svo sýnir helgisagan okkur engil með hvíta lilju sem tjáði táningsstúlku mikil tíðindi. Hefði hún getað sagt nei? Hafði hún val? Já, hún var ekki viljalaus þolandi heldur fullveðja aðili og gerandi. Í því er fólgin merking sögunnar og varðar okkur öll. Það er Maríustílllinn og Maríustefnan. Það tekur enginn frá okkur hið rótttæka frelsi að ákveða hvað við viljum vera, gera og játast og hverju við höfnum. Það var niðurstaða fanganna í útrýmingarbúðum nazista að það væri hægt að taka frá fólki allt – líka lífið – en það væri aldrei hægt að taka frá fólki frelsið í djúpi sálarinnar nema fólk tæki þá ákvörðun að hafna eigin frelsi eða misvirða það. Farþegar í lífinu hafa tapað Maríustílnum. Mál Maríu varðar tengsl Guðs og manneskju – það sem heitir trú á máli kristnninnar. Guð sendir ekki engla til okkar eins DHL-bílstjóra með sendingu. Lífið er ekki heimsendingarþjónusta heldur stöðug verðandi og við erum fullveðja ákvörðunaraðilar í því ferli. Við tökum ákvörðun um stefnuna. Mín guðstúlkun er að í því ferli sé Guð sínánd, að Guð sé í öllum viðburðum, kraftuppstretta elskunnar í okkur öllum. Frelsi er eitt af undrum lífs. Af því frelsið býr í okkur getur jafnvel Guð ekki neytt okkur að elska sig. Að elska er val. En þau sem bara hlýða hafa snúið baki við frelsinu, valið að varðveita ekki frelsið. Gína valds svarar ekki, gína á stalli ansar ekki, meðvirk manneskja ekki heldur. En María var frjáls. Hún var ekki táningur í fornöld sem var skipað að verða staðgöngumóðir. Hún gat sagt nei og hún gat sagt já við tillögu himinsins. Það er Maríustíllinn – hafa val um já og nei.

Kall Guðs berst okkur öllum í verðandi lífsins. Við erum aldrei svo illa komin að allt lokist. Erkiboðskapur kristninnar er ekki um prósentur gjaldenda í kirkjufélagi heldur að Guð er nær okkur en lífið sjálft. Við erum alltaf í kompaníi með Guði hvert sem við förum og hvað sem við gerum. Guð alltaf nærri, aldrei ágengur heldur virðandi vinur og elskhugi. „Óttast þú eigi … því að þú hefur fundið náð hjá Guði.“ Maríustílllinn er: „Já, verði mér eftir orðum þínum.“

Prestsþjónusta

Nú stend ég hér og miðla því sem ég veit réttast í hinum löngu hugsunum kristninnar. Það er sterk reynsla að horfa fram í kirkjuna – í öll þessi augu – og sjá svo mörg koma sem ég hef þjónað sem prestur, skírt, fermt, gift, talað við eða gengið með sorgarvegi. Þegar læknir lýkur störfum á spítala koma fyrrverandi sjúklingar ekki til að kveðja. Ekki heldur þegar kennari lýkur störfum. En svo mörg koma til að þakka eða sýna kærleika og mörg hafa orðað í mín eyru þakkir eða sent mér kærleikstjáningar sem eru hjartastyrkjandi. Að vera prestur er merkingarþrungið starf og líf. Skemmtilegast hefur mér þótt að skíra börnin. Það er ævintýralegt að horfa í vonaraugu krúttanna sem eiga framtíðina og frelsi til að verða. Og svo þjóna fólki í helgihaldi, túlka líf og þjóna kirkjulegum fagnaðarathöfnum en ganga líka með öðrum þung skref. Ég hef verið sá lukkuhrólfur að þjóna sem prestur í dreifbýli og þéttbýli. Liðnir áratugir hafa verið ævintýri. Fæst í Hallgrímskirkju er venjulegt og flest er í ofurstærð. Kirkjan er ekki aðeins sóknarkirkja heldur einn af mikilvægustu helgistöðum heimsins sem gerir kröfur til þeirra sem þjóna Hallgrímskirkju.

Nú ákveð ég að hætta og fyrr en mér er skylt. Það eru líka forréttindi að geta fæðst til nýrrar veru og nýs lífs. Ég fer líka fullur trausts til þeirra sem taka við. Minn góði kollegi Irma Sjöfn Óskarsdóttir tekur við sóknarprestskeflinu. Það er frábært því hún hefur ræktað með sér góða kirkjusýn, Maríustílinn og mannvinsemd. Svo kemur nýr prestur til starfa í sumar. Í kirkjunni er mannval og í rauninni þarf getumikið fólk til að þola álagið sem er hér alla daga. Mig langar við leiðarlok að þakka þeim elskuna og umburðarlyndið, húmorinn, festuna og snilldina. Þökk sé öllum messuþjónunum, starfsfólki kirkjunnar, sjálfboðaliðunum, sóknarnefndarfólkinu, tónlistarfólkinu, sóknarfólkinu – já, líka öllu þessu litríka fólki sem sækir í þennan helgidóm. Formenn sóknarnefndar gegna þjölþættum ábyrgðarstörfum í Hallgrímskirkju. Jóhannes Pálmason og Einar Karl Haraldsson hafa verið sérlega farsælir og haldið sjó og oft í snúnum málum. Ég þakka þeim samstöðuna. Jóhannes var langt á undan sinni samtíð þegar hann heyrði af myglu í prestsskrifstofu. Hann brást ákveðið við og lét gera viðeigandi ráðstafanir og bjargaði heilsu minni. Enginn flótti þar heldur metnaður og mannúð. Og Einar Karl er alltaf með augu á framtíðinni og leitar að lausnarleiðum og er okkur sívirk fyrirmynd. Kærar þakkir.

Maríustefnan

Vinir mínir spyrja mig: Hvað ætlar þú svo að gera? Ganga frá ástarpostillunni – úrvali prédikana minna – sem kemur út í haust. Svo ætla ég að gleðjast með skemmtilegu konunni minni, ástvinum og vinum. Læra meira, elda meira, elska meira og vera eins og María – hlusta eftir hvísli Guðs í viðburðum daganna og bregðast við í anda Maríustílsins og segja: „Já, ég er vinur þinn Guð – þjónn þinn – verði mér eftir orðum þínum.“ Það verður engin ólétta úr því! En stórkostlegt fagnaðarerindi er það.

Kæru vinir, nú eru skil. Ég þakka Guði fyrir árin í ykkar þjónustu. Ég hef notið blessunar umfram það sem ég kunni að biðja. Ég hef notið elskusemi ykkar umfram alla skyldu, söngs, hlátra og sagna. Í tárum ykkar hefur verið traust. Í gleði ykkar og orðum hafa speglast trúnaður. Ég hef notið visku ykkar, fyrirbænar og stuðnings. Takk. Ég fel ykkur öll Guði sem horfir á okkur með augum elskunnar. Það er sá Guð sem býr til nýtt líf og gefur okkur daga, ljós, von og blessun. „Heit bæn þín ástarkveðja sé“ stendur yfir aðaldyrum Hallgrímskirkju. Það er Maríustíll mennsku okkar.

Hallgrímskirkja, boðunardagur Maríu, 5. sunnudagur í föstu, 26. mars 2023. Kveðjumessa.

Meðfylgjandi mynd tók Hrefna Harðardóttir. Kristján Sigurður Davíðsson skírður í upphafi messu. 

Guðsvirðing, mannvirðing og elskan

Ég las bókina Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur þegar hún kom út. Fyrir nokkrum dögum var ég búinn að hlusta á sögu á Storytel – reyndar Stóra bróður – og leitaði að nýrri bók til að hlusta. Þá datt ég inn á Eyland og byrjaði að hlusta á höfundinn lesa. Þá mundi ég hver ég hafði heillast af bókinni en gerði mér líka grein fyrir því líka að ég hafði gleymt mjög mörgu í flækju og framvindu sögunnar. Ég var búinn að gleyma hve sagan byrjar vel og að hún grípur föstum tökum. Svo ég hélt áfram að hlusta og datt að nýju inn í þessa heillandi framvindu. Ég dáðiist að ritfærni Sigríðar og myndrænum stíl. Ég heillaðist að nýju af hugmyndaauðgi og dýpt sögunnar.Vá, hvílík rosasaga.

Í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins og engin skip heldur. Þær flugvélar og skip sem fara koma ekki aftur. Ekkert er vitað um afdrif þeirra. Öll fjarskiptasamskipti rofna, allir strengir óvirkir og radíómatörarnir ná engu sambandi heldur. Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað varð eða verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma sem leiddi til algers kerfishruns. Eyland er lítil bók um risastóra hugmynd. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða kraftur, siðferði og seigla býr í menningunni? Eyland lýsir vel hvernig kerfi vernda líf en líka hve stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menning er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorðin

Lexía dagsins varðar það sem varnar að frumskógarlögmálin taki yfir og hinn sterki drepi allt og sé hinn eini sem lifi af. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði reynt langvarandi kerfishrun. Slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og hryllilega reynslu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á fjalli á Sínaískaga. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur erueinfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kom í hinum fornu samfélögum á undan ritun. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin meðal okkar valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Þjóðfélag byggir á sáttmála sem er auðvelt að flekka og eyðileggja. Menning er þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Hegðunarreglurnar sem við köllum boðorð urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, landbúnað og samskipti innbyrðis sem og við aðrar þjóðir. Þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, fontur hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notið þessar speki viðuppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hafði áhrif á mannréttindalöggjafar sem varðar vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga heldur einnig bera virðingu fyrir djúpgildum menningar og heimsins. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Guðsvirðing og mannvirðing

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að færa gamalt efni í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra – og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum er það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvernd og manngildi. Þar er mannvirðingin tjáð – að við eigum að virða og elska fólk – alla. Kærleiksboð Jesú er um guðsvirðingu og mannvirðingu – þetta tvennt fer saman. Og ástin – elskan sem tengir.

Kærleiksboðið í krossinum

Krossar heimsins minna á það sama – á tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin við Guð. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Náungi okkar er allt sem við berum ábyrgð á. Vald manna er orðið svo mikið að mannkyn ber líka ábyrgð á lífríki heimsins. Náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið – en ekki aðeins um þig, heldur um fólk, mannkyn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim og náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla annarrar Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, Gyðingdómi og Islam. Þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: „Ég er Drottinn guð þinn” er aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er – líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fornöld. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við fólkið sitt við kvöldverðarborðið. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí til að hafa hátt um sið og reglur heldur vera Guðs. Að vera Guðs er að elska. Það er mál fyrsta boðorðsins. Afleiðing þess að elska Guð er að lifa í þeirri elskuafstöðu til lífsins og leggja lífinu lið. Það er mál seinni orðanna og hindrar kerfishrun – að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða – það er hin kristna staða og líf.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2023.

Ég trúi ekki heldur á þann Guð

Hvar var Guð í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi? Hvar er Guð í þessu andstyggilega árásarstríði Rússa í Úkraínu? Hvar er Guð þegar þér líður illa og verður fyrir olbeldi? Er Guð ábyrgur fyrir þessum ósköpum? Er Guð ekki almáttugur? Er Guð jafnvel vondur?

Að tjá Guði sterkar tilfinningar og æpa reiðilega til Guðs hafa menn allra alda iðkað. Leikarinn Stephen Fry var einu sinni spurður í sjónvarpsviðtali hvað hann myndi segja ef hann dæi og hitti Guð? Fry sagði að hann myndi spyrja hvernig Guð dirfðist að skapa heim sem í væri svo mikil þjáning sem menn bæru enga ábyrgð á. Í framhaldinu velti Fry upp af hverju hann ætti að virða illan, heimskan guð sem skapaði veröld sem væri svo full af óréttlæti og þjáningu? Niðurstaða Fry var að Guð væri sturlaðaður og sjálfselskur. Það var hiti í þessum ummælum og sársauki, nánast Jobsbókarfuni. Stephen var allt í einu í nýju hlutverki, nýrri senu við Gullna hliðið og hellti úr reiðiskálum sínum yfir Guð. Hugrakkur maður sem mótmælir illum einræðisherra. Hvernig lyki slíkri senu og svar Guðs væri áhugavert. En er það Guð sem Fry á orðastað við? Er Guð svona illur?

Hverjum að kenna?

Þegar við verðum fyrir böli, sjúkdómum og hryllilegri reynslu möglum við. Hver ber sökina? Oft kennir fólk Guði um. Hvar er Guð þegar dauðinn slær? Er bölið Guði að kenna? Er Guð að leika sér að heiminum? Er það Guð sem ýtir á snjóflóðið sem steypist yfir byggð manna og fjöldi fólks ferst? Er það Guð sem sendir brotsjó yfir skip og allir farast? Er það Guð sem býr til krabbameinsfrumur í fólki svo það deyr? Ef það er Guð sem gerir þetta þá hefur Stephen Fry ekki aðeins rétt til að hrauna yfir Guð heldur líka rétt til að kalla Guð illan. Slíkur Guð er hvorki góður né tilbeiðsluverður.

Í tvo áratugi hef ég spurt yfir þúsund fermingarungmenni í Reykjavík spurningarinnar um hverjum bölið sé að kenna. Eru sjúkdómarnir og hryllilegir atburði sök Guðs? Stephen Fry telur að svo sé en fermingarbörn í Reykjavík mun síður. Það er kraftur í ákæru hans en ég held að hann misskilji guðsmynd kristininnar. Af hverju? Ein af meginástæðunum er misskilningur á valdi. Margir telja að guðsmynd kristninnar sé gegnsýrð valdi. Vissulega hafa valdasæknir menn allra alda séð í Guði máttarvald og túlkað það vald sem einræðisvald sem allir ættu að hlýða skilyrðislaust. Og vísa til postulegu trúarjátningarinnar þar sem játuð er trú á almáttugan Guð. En hvað þýðir almætti? Fólk sem reynir að skilgreina tilveruna fremur ómúsíkalskt misskilur svona orð og heldur að almætti merki einfaldlega að nota vald til að ráða öllu, alltaf, alls staðar og í öllum málum. En almætti Guðs er annarar merkingar. Almætti Guðs er ekki skilgreining á hver Guð er heldur á afstöðu trúmannsins til Guðs. Trúarjátning er ekki lagatexti, vísindaformúla heldur tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og söng safnaðar Guðs í helgihaldi er trú játuð með tjáningu, rétt eins og ástfangið fólk hvíslar ástarorð í eyru ástvinar. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hvern annan með gífuryrðum elskunnar. Almætti er ekki um mátt heldur ást.

Fólk er gjarnan upptekið af valdi – hinu ytra toppavaldi. Það er annað vald en vald elskunnar. Fólk sækist í að stjórna, verða hluti af yfirvaldi, fjármálavaldi og stjórnvaldi. Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinar Jesú voru uppteknir af því hver þeirra hefði náð lengst, hver þeirra væri á toppnum. Þeir töluðu um þetta sín í millum og voru í samkeppni um vald. Þá notaði Jesús tækifæri til að kenna þeim eðli hins guðlega valds. Vald í heimi Jesú er ekki að vera á toppnum og láta þjóna sér. Jesús tilkynnti sínu liði að eðli valds væri að þjóna öðrum. Hann léti ekki þjóna sér heldur gengi í þjónustustörfin. Það ættu þeir líka að gera. Þar með umbreytti Jesús öllu, endurskilgreindi allt, sneri öllu á hvolf og breytti heiminum. Trú er ekki það að ná völdum heldur að lifa í tengslum við ástvinin Guð. Vald Guðs er ekki í þágu stjórnar heldur persónulegra tengsla og næringar lífs. Almáttugur Guð er Guð elskunnar. Ef við játumst svo róttækri hugsun förum við að skilja erindi, orð og gerðir Jesú Krists og guðsafstöðu hans. Sagan af Jesú er ekki fólgin í valdi heldur barni. Guð í Jesú Kristi er ekki sigursæll stríðsguð heldur hæddur, hjálparlaus Guð, deyjandi á krossi. Það er ekki mikið “almætti” þar – eða hvað?

Hvaða valdi viltu fylgja, æðstu strumpum veraldar eða valdi þjónustunnar. Viltu vera mestur, æðstur, bestur og stærstur eða viltu beygja huga og hné frammi fyrir hinu mjúka og sveigjanlega áhrifavaldi elskunnar? Ef svo – ja, þá ertu farinn að taka þátt í að umbylta valdastigunum veraldar.  Ég held að í ljósi slíks skilnings getum við nálgast reiðilestur Stephen Fry með jákvæðum hætti. Hann er á móti ofurvaldi Guðs. Hann mótmælir hinum alráðandi valdsguði. Og er það svo hræðilegt? Nei, það er skiljanlegt og eðlilegt. Og kannski kemur á óvart að Fry, þú og allir mótmælendur ofurvalds og böls eiga sér líka marga fulltrúa í Biblíunni. Job sem sagt er frá í Jobsbók og aðrir höfundar sálma biblíunnar hafa möglað og mótmælt allsráðandi Guði og molað þar með úr slíkri guðsmynd. Stephen Fry trúir ekki á valdagírugan Guð og getur ekki trúað á hann. Ég trúi ekki á slíkan Guð heldur. Jesús var ekki í neinu sambandi við slíkan Guð. Hann er ekki til, var ekki til og verður aldrei til nema í hugum þeirra sem sækja í vald og hafa eigingjarna þörf fyrir slíkan valdsguð.

Myndin af Guði

Guðsmyndir manna eru gjarnan tjáning á þrá og því klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guð er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika mannanna. Valdsæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd eða eigin hrylling. Slíkur Guð er ekki Guð kristninnar. Og gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig Guð væri hræðilegur.

Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Ég vil ekki trúa á hann. Ég trúi ekki að slíkur Guð sé til. Slíkur Guð væri fáránlegur. Sá Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og er jafn nálægur í gleði og í böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég er með þér, nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en valdauðmýkt. Einkenni heilbrigðs guðssambands er frelsi. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í öllu lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og laðar til farsældar.

Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Jesús segir: „En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.“

Amen.

Meðfylgjandi mynd sáþ – góðviðrisdagur við Skerjafjörð

A few words on the sense of the sermon. Where is God in wars, avalanches, earthquakes, disasters and tragedies. Is God responsible? Is that the meaning of almighty? Those accusing God for being cruel are right if almighty means causing everything. But the so-called attributes of God are not philosophical definitions of God but rather statements of love and utterings of veneration. God‘s way of dealing with the world is not to exercise power but rather to love. I don‘t believe in a cruel despot. That type of a tricky god is not worthy of trust or faith. The God Jesus Christ revealed is a caring and loving being not causing evil but supportning humans and life fighting evil. God is not the tyrant of the world but rather the lover of the world.

  1. sunnudagur í föstu.

Lexía: 1Mós 4.3-7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistill: Jak 1.12-16

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Guðspjall: Lúk 22.24-34

Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“