Greinasafn fyrir merki: Messías

Loksins?

Eftir seinni heimstyrjöld voru haldin stríðsréttarhöld í Nürnberg. Vitni var leitt fram. Hann hafði flúið fangabúðir nasista með gasklefunum, farið huldu höfði og leitað afdreps í gyðingakirkjugarði í Wilna í Póllandi. Saga mannsins var rosaleg. Hann varð vitni að fæðingu barns í grafhýsi. Ung kona, sem einnig fór huldu höfði, hafði ekki í önnur hús að venda en þessa friðarhöfn dauðans. Þar ól hún barn sitt í þessari undarlegu fæðingardeild. Starfsmaður kirkjugarðsins, áttræður grafari, var eina tiltæka ljósmóðirin. Þegar barnið hafði rekið upp fyrstu grátrokuna muldraði hinn aldraði Gyðingur og trúmaður: „Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?” Þremur dögum síðar sá vitnið í Nürnberg barnið og móður þess á nýjan leik. Hungruð og örvæntingarfull móðirin gat ekki mylkt barni sínu. Eina fæða barnsins voru tárin, sem hrutu af hvörmum hennar. Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?

Sagan frá Wilna rífur í. Okkur hættir til að gleyma að við erum óendanlega mikils virði. Ástæðan er sumpart sú, að við skiljum ekki tilveru okkar dramatískt. Grafarinn í Wilna var nauðbeygður til að stara opineygður á nakta veröld, heim hinna mestu átaka lífs og dauða. Hann tók á móti barni í myrkri. Hann túlkaði tilveruna róttækt, annað hvort sem myrkur eða ljós, annað hvort líf eða dauða.

Merking píslarsögunnar

Skírdagur. Að skíra merkir að hreinsa. Í kirkjunni voru ölturu þvegin og þrifin á þessum degi. Allt á þetta rætur í að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og undirbjó þá til máltíðar. Enn í dag verða þessir kyrruvikudagar tilefni kristnum lýð, að íhuga merkingu píslarsögunnar. Hvaða máli skiptir okkur dauði og þjáning Jesú? Hefur okkur yfirsést að við og Jesús erum samferðamenn? Hefur okkur lærst að skilja hvaða gildi það hefur að fylgja honum á göngunni? Hvernig getur krossfesting manns orðið öðrum að gagni? Hvernig getur þjáning eins manns skipt aðra sköpun, hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Er þjáning og pína Krists frábrugðin písl annarra? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Var hann Guð-maður, var hann Guð? Hvað þýðir það, að hann hafi verið Guð? Þetta eru þær spurningar sem leita á og hafa verið viðfangsefni kristinna manna frá öndverðu. Allar hreyfingar í guðfræðinni fyrr og síðar hafa verið tilraunir til að svara þeim. En skilningur er skertur. Skiljum við til fullnustu ást okkar til barna, maka eða náttúru? Hvernig er hægt að skilja grimmd nauðgarans og valdslosta kúgarans? Illskiljanleg öfl eru að verki í lífi manna.

Guðsaugun

Mestu máli skiptir að hverfa frá eigin sjónarhóli. Við megum læra að horfa með augum Guðs, sjá sálf okkur og veröldina frá sjónarhæð himinsins. Á föstunni og í kyrruviku göngum við á vit sögu Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun förum við smátt og smátt að sjá heiminn með Guðsaugum. Förum að sjá að saga Jesú er saga Guðs um okkur og heiminn. Þá förum við að skynja að Guð segir sögu um sig og afstöðu sína gagnvart okkur öllum.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að skilja þjáningu hans heldur fara með honum. Jesús hefur gengið um öldudal mannlegrar þjáningar og þjáist áfram meðan einhver hinna minnstu systra eða bræðra líður. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja til lífs og umsköpunar. Það líf sem Jesús hvatti til var ekki eitthvað hulið einkamál eða blíð og átakalaus barnatrú og vilji til að sætta sig við allt misrétti. Sú hvatning og sá kraftur, sem Jesús miðlaði var kvaðning til baráttu gegn öllu því sem heftir gott og gleðiríkt líf. Að fylgja Jesú getur ekki þýtt aðgerðarleysi né uppgjöf. Þvert á móti er Jesúfylgdin virk og starfarík afstaða, sem einkennist af þori og kjarki til að horfast í augu við lífið eins og það er og vilja og afli til að breyta þeim aðstæðum sem brjóta í bág við vilja Guðs. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi og það eru gleðifréttir um frelsi hinna fátæku, lausn hinna þjáðu og kúguðu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrking hinum hrelldu. Þessi boðskapur á að vera okkur öllum hvatning til að svipta hulunni af blekkingarvefum sem umvefja okkur á vinnustað, út í hinum stóra heimi stjórnmála, syrjalda, arðráns og kúgunar. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er okkur kannski erfiðast að viðurkenna og opinbera sjálfsblekkingu okkar.

Guð fer fyrir

„Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?“ Lítið barn fæddist í Wilna. Þremur dögum síðar hafði það ekki fengið neina mjólk úr móðurbrjóstum. Vonir öldungsins kulnuðu enn einu sinni. Skírdagspísl og dauði á föstudeginum fyrir páska. Hefur þú loks sent okkur lausnara og leiðtoga? Barnið dó, en Kristur reis.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags, vonar og vonbrigða. Lífið á engan ódýran endi. Úr grafhvelfingu sprettur fram það nýja líf, sem binda má von við. Sú saga varð ekki aðeins einu sinni heldur er hún táknræn saga um sögu okkar.

Skírdagshugleiðing í Neskirkju 2005.