Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Ástríki

Róbert, prestur, kom til Íslands í fyrsta sinn eftir fjörutíu og fjögur ár erlendis til að jarðsyngja vinkonu sína. Saga hans og vina hans er um leitina að merkingu, hamingju, tengslum, sambandi og ást. Enginn er dæmdur í þessari sögu heldur eru mismunandi aðstæður fólks túlkaðar af hispurslausri mannúð. Í henni er hlý mýkt þótt söguhetjurnar hafi gert margt misjafnt í aðkrepptum aðstæðum.

Bókin er ástrík. Hún  er margþátta spennusaga en líka þroskasaga og glæpasaga. Flækjan er þétt. Allt á sér samhengi og aðrar og dýpri skýringar en hinar yfirborðslegu. Fjölskyldan á Sóleyjargötunni er væn og heimilið athvarf vinum dótturinnar á heimilinu. Bernska vinanna var erfið. Annar hafði misst föður og hinn fór á mis við pabba. Föðurleysið í sorg eða fjarveru er eitt af íhugunarstefjum þessarar bókar. Við Njarðargötu býr þýsk móðir annars vinanna og með mörg leyndarmál, mikla upphafssögu og líka ástarsögu. Svo er það MR, JB-vískí menntaskólaáranna og mótun í flóknum og ógnandi aðstæðum. Miðbæjarlífið var og er alls konar. Framtíð ungmennannan mótaðist af ytri og innri rökum. Einn fór eftir stúdentsprófið til náms í kaþólskum prestaskóla í München, annar í lögfræði og ein í listnám. Svo eru sögur allra listilega fléttaðar saman. Sagan er að sumu leyti menningarsaga Reykjavíkur í hálfa öld.

Mér þótti áhugavert að fylgjast með söguhetjunum fara um Þingholtin, á Sóleyjargötu, í hús við Njarðargötu, í kirkjur bæjarins og líka Hallgrímskirkju. Þau fóru í ferðir að styttum bæjarins. Vera klerksins í Heidelberg færði lykt af rósum í vit mín og minningar frá skóladögum hrísluðust um mig þegar ég reyndi að staðsetja prestinn í samhengi þeirrar dásamlegu borgar. Eldamennska kemur oft við sögu og skemmti matmanninum en svo urðu afkomendur kokkanna vegan! Vínþekking er orðinn fasti í íslenskum bókum og svo er í þessari líka það ríkulegur húmor að sommelierinn skýrir út bragðgæði appelsíns og malts jólanna.  Miðbæjarlýsingar eru okkur hagvönum í þessum hluta Reykjavíkur gleðigjafar. Göturnar eru þræddar, farið um Hljómskálagarð, Hólavallagarð, að Köllunarstyttunni við Landakotskirkju og Pomona skoðuð í Einarsgarði, kaffihúsin nýtt í Miðbænum sem og skautasvellið á Ingólfstorgi.

Eftir „fjörutíuogfjögur“ ár kemur klerkur svo “heim ” – til baka til að embætta en líka kveðja vinkonu sína, leita að svörum og gera upp. Við kynnumst persónum í gegnum bréfin sem gengu á milli og smátt og smátt opnast stór og mikil saga, mikil leyndarmál, djúptæk átök, miklar tilfinningar og flókin örlög sem eru túlkuð og skýrð. Vel mótaðar persónur og eðlileg viðbrögð þeirra í ólíkum hlutverkum sem smellpassa.

Sagan fór vel af stað og hreif. Ég undraðist hvernig hverju laginu á eftir öðru var svipt frá og óvæntar víddir opnuðust og skýrðu jafnframt af hverju það gerðist sem fyrr var kynnt í bókinni. Sem besti reyfari hélt sagan spennu allt til enda. Síðustu blaðsíðurnar galopnuðu, flækjan gekk upp, púslið lagði sig og heildarmyndin blasti við og öðru vísi en búast mátti við.

Þetta er saga um ást. Útleitandi ást og innleitandi líka. Ástarsókn einstaklinga er vel teiknuð og líka þessi þvert á mæri. Svo er ást Guðs einn af ástarþráðum sögunnar. Manneskjan verður ekki bara til við mök heldur í flóknum vef samskipta. Samskipti eiga sér einnig mörk. Sum eru brotin í þessari sögu og þá verða átök, blóð rennur og sorglegir atburðir verða. Slíku tengist þögn, hylming, ótti, kaupskapur, misnotkun, ofbeldi, þjónusta, fyrirgefning og önnur stórstef mennskunnar og þar með kristninnar. Óvæntasta bók ársins sem ég mæli með. Bókaútgáfan Ástríkur gefur út þessa ástríku bók. Til hamingju Steindór Ívarsson. Ég bíð eftir næstu bók.

Sextug og stofnaði fyrirtæki fyrir fólk

Elín mín stofnaði fyrsta fyrirtækið sitt sextug – og blómstrar. Vegna myglu á fyrrverandi vinnustað ákvað hún að velja heilsuna fremur en vinnuna. En fólk hleypur ekki í störf þegar það er komið á sjötugsaldurinn. Hún skoðaði atvinnumöguleikana og fór svo í langa göngu og spurði sjálfa sig hvað hún vildi gera? Hver væri ástríða hennar og hvað henni þætti skemmtilegast? Þegar hún kom heim tilkynnti hún mér að hún ætlaði að stofna sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir fólk sem stæði á krossgötum og væri að íhuga búsetuskipti. Áherslan yrði að þjóna 59+. Hún kynni lögfræðina, hefði brennandi áhuga á fasteignamálum og vildi þjóna fólki. Ég þekkti glampann í augum hennar. Hún var ákveðin, búin að taka stefnuna. Nei, hún hafði engan áhuga á að stofna fasteignasölu því það væri nóg af slíkum. En það vantaði algerlega að þjónustu við fólk áður en það færi á fasteignasöluna og væri að hugsa og meta kostina. Það þyrfti að þjóna fólki sem væri á krossgötum, spyrja það spurninga um óskir, drauma og þarfir. Hún væri nú líka markþjálfi og gæti farið inn í stóru málin. Og svo væri gott að fagmaðurinn hjálpaði við að meta og vega kostina með fólki áður en það færi í leiðangurinn. 

Ég dáðist að hvernig Elín Sigrún gekk í verkin, allt frá fyrstu hugmynd til blússandi rekstrar. Þegar hugmyndin kom skoðaði hún möguleika og útfærslur, kjarnaði svo umfang, viðfangsefni og þjónusturamma. Hún leysti út lögmannsréttindin og gerði samninga við fasteignasölur sem hún hafði góða reynslu af og treysti. Svo kom nafnið Búum vel. Hún skráði fyrirtækið og skráði líka nokkur lén hjá ISNIC, skráningaraðila íslenskra heimasíðna. Svo fór hún á erlendar hönnunarsíður og teiknaði merki eins og hún væri grafískur hönnuður. Svo var það heimasíðan. Elín ákvað að gera þetta bara sjálf frekar en að flækja málin með vefsíðuhönnuðum. Hún valdi wix-umsýslukerfi í stað word-press sem ég kann á. Ekki gafst hún upp þó alls konar hindranir yrðu og um tíma hvarf grunnur sem hún var búinn að vinna. Hún kláraði vefnaðinn og nú er síðan komin upp. Slóðin er www.buumvel.is

Elín Sigrún veit að margir óttast að taka ákvarðanir um peningamál, lagagerninga og fasteignaviðskipti. Margir skelfast þegar lesa þarf samninga og smáa letrið og óttast að gera afdrifarík mistök. Nú nýtir Elín sína fjölþættu þekkingu og reynslu og aðstoðar fólk við að meta kostina varðandi búsetuskipti og vinna pappíra í tengslum við skilnaði eða dánarbú. Fólk fær sinn einkalögmann. Fasteignasölurnar lækka sölugjaldið því vitað er hve þjónusta Elínar skilar fólki miklu öryggi, gleði og farsæld á álagstíma búsetuskipta. Sem sé lækkun þóknunar fasteignasalanna eru laun Elínar.

Það hefur verið sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með Elínu stofna fyrirtækið Búum vel og verða vitni að því hve fagnandi hún gengur til starfa og þjónar fólki af mikilli fagmennsku, alúð og hlýju. Og það vermir þegar fólk tjáir djúpt þakklæti fyrir að hún tryggði að það seldi vel og gerði góð kaup og klúðraði ekki fjármálum sínum. Öryggi er aðalmál í fasteignaviðskiptum.

Búum vel er algerlega ný vídd í þjónustu við fólk sem er á krossgötum, ekki aðeins á Íslandi heldur er svona lögmannsþjónusta einstök. Hugmyndin kemur ekki frá útlöndum, hún kom af himnum og í kollinn á Elínu Sigrúnu Jónsdóttur á göngu við sjóinn. Það verður enginn svikinn af Búum vel og stefna Elínar er að fólk eigi að búa eins og vel og það vill. Hún er til þjónustu reiðubúin.

Allt er sextugum fært. Já, Elín Sigrún er fyrirmynd okkur eldra fólkinu og til fyrirmyndar í störfum. Og tímalínan þessi: Tala fyrst við Elínu Sigrúnu og þar á eftir að tala við fasteignasölurnar. Fá sinn eigin lögmann en borga ekkert meira.

Skrifstofa Búm vel verður í nýsköpunarhúsinu Grósku, húsinu við hlið Íslenskrar erfðagreiningar. Það verður væntanlega tekið í notkun í lok nóvember 2020. 

 

Saga býflugnanna

Það er nafnið á bók Maju Lunde. Saga býflugnanna er marglaga saga. Hún spannar ekki aðeins langan tíma heldur tengir saman lönd og álfur, menningarhefðir og ólíkt fólk.

Árið 1852 reis Willam upp úr langvarandi þunglyndi og fór að vinna að nýrri gerð býflugnabúa. Við kynnumst sögu hans og draumum um að geta helgað sig vísindum. En hann datt út og niður. Lífið hélt þó áfram og börnin hans höfðu sínar vonir. Og þær fléttuðust í aðrar sögur og vísuðu til framtíðar, eins og vonir manna gera.

Svo er í býflugnasögunni hoppað til George sem stritaði við býflugnaræktun í Bandaríkjunum árið 2007. Lífsbaráttu hans, konu hans og draumum sonarins er lýst. Allt í einu varð skyndidauði í búum George og líf fjölskyldunnar breyttist fullkomlega. En sonurinn átti sér sýn um annað en iðnarbúskap, sýn um lífvænlega veröld. Vonir vísa fram.

Svo er líka hoppað í sögunni til Tao sem vann við að handfrjóvga ávaxtatré í Kína árið 2098  þegar býflugur heimsins höfðu dáið. Tao á mann og líka son. Hún stritar á ökrunum en hefði gjarnan viljað helga sig bókum og fræðum, en sá lúxus hafði vikið fyrir líkamspuði. Svo varð slys sem breytti lífi Tao og hún lagðið upp í mikla ferð til að leita að syni sínum og kanna örlög hans.

Í þeirri ferð fléttast saman saga Williams frá 1852, saga George frá 2007 og saga Tao árið 2098. Þau áttu öll börn sem voru ekki aðeins viðtakendur í lífinu, heldur gerendur. Saga þeirra allra tengist grunnþáttum lífsins, sem býflugur eru tákn fyrir. Þegar býflugurnar urðu skyndidauðanum að bráð breyttist allt í veröldinni.

Í fyrra las ég bókina Blá eftir Maju Lunde. Og svo las ég þessa merkilegu, margslungnu og vel fléttuðu bók Saga býflugnanna. Báðar bækurnar eru náttúrutengdar. Þær segja sögur um afleiðingar þess ef fólk tapar náttúruvisku, virðir ekki teikn umhverfisins og skeytir ekki um hjálparbeiðni lífríkisins, þ.e. vill ekki heyra guðshvíslið. Mæli með báðum bókunum.

Saga býflugnanna er áleitin bók um frumþætti lífs. Maja Lunde er klókur og fræðalesinn höfundur. Í Blá er það vatnið og ríkidæmi þess sem er í forgrunni, en flugnafræðin í býflugnabókinni. Maja Lunde kann þau og miðlar þeim ásamt því að segja spennandi sögu hinna vængjuðu vina planta og mannfólks. Sögurnar þeyta upp alls konar skemmtilegheitum. Guðfræðingnum þótti t.d. skemmtilegt að ein söguhetjan las Rómverjabréfið til að fræðast um Pál postula. Skýringin var að það rit gæfi besta yfirlitið um guðfræði postulans. Maja Lunde vel lesin og búin að vinna heimavinnuna. Hún er ekki aðeins penni skemmtandi fagurbókmennta eða hliðrænna veralda heldur þekkingartúlkandi fræðari sem vekur til vitundar um tengsl við umhverfi og ríki lífsins.

Ingunn Ásdísardóttir þýddi, hún er í uppáhaldi á mínum bæ. Forlagið gefur út. Mæli með Maju Lunde. Og varðandi býflugurnar er ég að velta vöngum yfir hvort ég ætti að fá mér bú.  

  1. ágúst, 2020.

Svona til dýpkunar er hér að baki þessari smellu grein á BBC um býflugurnar á okkar tíma. 

Lena Rós Matthíasdóttir, prestur í Grafarvogskirkju

Heyrir, sér, veit og skynjar!

Í nærveru góðs leiðtoga finnur þú til mikilvægis þíns og upplifir tengsl sem þú þarft ekki að hafa fyrir að mynda.  Ástæðan er sú að leiðtoginn sem heyrir þig, sér þig, þekkir þig og skynjar persónu þína, býr yfir þeirri eðlislægu löngun að vilja kynnast þér og leggur sig fram um það af fyrra bragði.  Góður leiðtogi er gæddur þessum fallegu eiginleikum.

Kynni mín af Sigurði Árna Þórðarsyni, haustið 1995 bar einmitt að með þessum hætti.  Ég hugleiddi þá hvað það væri sem hann hefði og mig skorti, en sem ég vildi svo gjarna tileinka mér.  Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar, þegar ég hafði hlotið vígslu og leiðir okkar lágu oftar saman, að ég áttaði mig á því að það voru einmitt þessir eiginleikar.  Góður leiðtogi hefur nefnilega áhuga á fólki og leggur sig fram um að kynnast því.

Guðfræðin sem Sigurður Árni ber fram í orði og á borði endurspeglar einnig þessar hliðar hans.  Ég kalla hana guðfræði skynjunarinnar, því hún er svo ljóðræn og myndræn en um leið einföld og líkamleg. Hún heyrir, sér, veit og skynjar.  Í gegnum tíðina hef ég lagt mig fram um að lesa ræður hans, en það hefur verið mér góð leiðsögn í predikun á ,,mannamáli” og hjálpað mér að upplifa Guð með fingurgómum, í sjón, heyrn og bragðlaukum, svo eitthvað sé nefnt.  Góður leiðtogi byggir brú milli hins upptekna nútímamanns og Guðs.

Í Sigurði Árna finn ég leiðtoga sem hefur tamið sér vakandi núvitund.  Með lífsreynslu sinni, menntun og starfi hefur hann tamið sér einbeitta athygli gagnvart því sem að baki er jafnt og því sem er framundan.  Þennan eiginleika hans merki ég í samtali um heimilisguðrækni, skírnaruppfræðslu og æskulýðsmál.  Góður leiðtogi er hugrakkur og vinnur framtíðarsýn sinni veg á líðandi stundu í órjúfanlegu samhengi við fortíðina og upprunann – Jesú Krist.

Ég treysti Sigurði Árna Þórðarsyni til að vera fremstur á meðal jafningja í félaginu okkar, Þjóðkirkjunni.

Sigurður Sigurðarson, ráðgjafi í markaðsmálum og almannatengslum

Sr. Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, er mikill kennimaður, sómamaður og ljúfur í eðli sínu. Hann er margfróður enda víðlesinn.

Ekki aðeins er hann góður prestur heldur þekkir vel til um allt land, hefur ferðast og gengið á fjöll og ann náttúru landsins rétt eins og títt er um þá sem þekkja hana af eigin raun.

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að kynnast sr. Sigurði Árna og Elínu konu hans. Eftir þau kynni tel ég hann nafna minn verða góðan biskup þó svo að ég hafi það nú ekki beinlínis á takteinum hvernig góður biskup á að vera. Veit þó það að hvur setur mark sitt á það starf sem hann gegnir og viss er ég um að eðlislægir kostir Sigurðar eru slíkir að hann mun verða embættinu til mikils sóma.

Þó Sigurður sé drengur góður á hann sér betri hlið og það er hún Elín Jónsdóttir, kona hans. Hún er mikill skörungur, skarpgreind og eins og maður hennar, víðlesin og margfróð.

Þau Sigurður og Elín kynntust fyrir algjör tilviljun í fjallaferð með Ferðafélagi Íslands. Þá var eins og æðri máttarvöld hefðu tekið sig til og fært þau saman. Þó hér hafi verið stiklað á heldur háfleygan hátt um þau skötuhjú verður þá að fylgja með að þeim fylgir engin mærð eða vella. Þau eru hláturmild, hafa gaman af græskulausu gamni og ekki síst taka þau sig mátulega hátíðlega.

Mikið væri nú gaman að breyta svolítið til og fá nýja kynslóð í embætti biskups, helst náunga eins og Sigurð Árna, mann sem hlustar og skilur og getur fært kirkjuna nær þjóðinni. Þá yrði breyting sem skiptir máli. Persónulega held ég að biskupskjör sé ekki spurning um kynferði heldur mannkosti.

http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1230631/