Greinasafn fyrir flokkinn: Umsagnir

Hér má lesa greinar frá stuðningsmönnum Sigurðar Árna.

Jóna Hrönn Bolladóttir og Bjarni Karlsson

Biskupskosningar í seinni umferð

Nú verður kosið á milli tveggja frambjóðenda í biskupskjöri í seinni umferð og eftir miðjan apríl kemur í ljós hver hefur verið valinn til þjónustunnar. Við hjónin styðjum dr. Sigurð Árna Þórðarson til embættis.

Eitt það fyrsta sem maður nemur í návist Sigurðar Árna er það að hann er listfengur maður og hefur auga fyrir því fagra. Sá sem getur verið á valdi listarinnar hefur líka djúpan anda. Sigurður Árni hefur ekki bara auga fyrir tónum, orðum og litum heldur ber hann ekki síður skyn á litbrigði mannlífsins og honum er eðlislægt að sjá hið einstaka í fari þess sem hann mætir. Það er gott að vera nálægt Sigurði Árna því hann hefur áhuga fyrir því sem fólk hefur fram að færa og þegar hann tekur orðið í hópi fólks gerir hann það augljóslega til þess að varpa því aftur út í hópinn og leyfa hugmyndunum að taka á sig form. Allir sem þekkja Sigurð Árna þekkja hann af samtalinu, hlustuninni og velviljanum. Þess vegna vitum við að hann verður ekki leiðtogi sem einangrast með eigin hugsanir og hugmyndir heldur er hann leiðtogi sem alltaf er að læra.

Biskupsembættið er sterk táknmynd fyrir kirkjuna í landinu. Sá sem er biskup ber embættið á persónu sinni. Við höfum átt langa samleið með sr. Sigurði Árna og við vitum af reynslu að hann er opinn fyrir nútímanum.

Í persónu Sigurðar Árna sameinast ýmsir ólíkir pólar:
Þótt hann kunni manna best að hvíla í hefðinni og sinni hinu hefðbundna prestshlutverki þá vill hann um fram allt þekkja samtíð sína og horfa til framtíðar.
Undir fáguðu og hlýlegu viðmóti býr óþol í sr. Sigurði Árna. Óþol gagnvart ójafnrétti og hvers kyns þvingunarvaldi.
Hann á rætur í leikmannahreyfingu kirkjunnar og hefur alla tíð átt þá þrá að sjá barna- og unglingastarf kirkjunnar blómstra en um leið er hann doktor í trúfræði með áherslu á íslenska menningu.
Hefðbundinn kristindómur liggur sr. Sigurði Árna við hjartastað en einmitt vegna þess að Jesús Guðspjallanna er vinur hans hefur hann þróað með sér víðsýna og milda lífsafstöðu.
Sigurður Árni hefur lifað mikla reynslu bæði í starfi og einkalífi og hver sem kemur inn á heimili þeirra hjóna, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur og Sigurðar Árna, finnur að undir þaki þeirra býr hamingja. Sigurður og Elín eru jafningjar og samherjar sem varpa ljósi hvort á annað.

Við berum þá von í brjósti að Sigurður Árni Þórðarson verði næsti biskup Íslands.

Birt á: http://hjonablogg.eyjan.is/2012/03/biskupskosningar-i-seinni-umfer.html

Kristinn Örn Sigurðsson, hugbúnaðarsérfræðingur

Yndislegur maður í alla staði

Sem efasemdarmaður get ég átt góðar samræður við Sigurð Árna. Hann leggur sig fram við að skilja önnur sjónarmið, auðvelt er að rökræða við hann því hann er alls ekki þröngsýnn á önnur trúarbrögð eða þá sem trúa ekki. Ég hef sjaldan hitt jafn yndislegan og góðan mann sem treður ekki skoðunum sínum upp á aðra.

Sigurður Árni berst fyrir vellíðan og réttindum fólks, burt séð frá því hvað það trúir. Ég get ekki hugsað mér betri einstakling til þess að þjóna sem biskup þjóðarinnar.

Katrín H. Árnadóttir, viðskipta- og umhverfisfræðingur

Lengi býr að fyrstu gerð. Þessi málsháttur kom upp í huga mér þegar ég settist niður til að skrifa hugleiðingu um vin minn Sigurð Árna Þórðarson í tilefni þess að hann býður sig fram til biskups.

Sigurði Árna kynntist ég þegar hann og góð vinkona mín Elín Sigrún Jónsdóttir hófu samband og hafa fjölskyldur okkar átt margar og dýrmætar stundir saman í fjölda ára. Það sem einkennir Sigurð Árna er einstök næmni og umhyggja fyrir öðru fólki, næmt fegurðarskyn gagnvart náttúrunni í hvaða mynd sem er og einstakt listfengi sem nýtur sín í ræðu, riti og ekki síst í ljósmyndum hans. Í jólapakkanum frá þeim hjónum í ár var bók sem Sigurður Árni hafði skrifað og gefið út um móður sína, Svanfríði Guðnýju Kristjánsdóttur, sem lést árið 2004, þá 94 ára að aldri. Bókin er minningarrit en er jafnframt menningarsaga ásamt hugleiðingum um móður- og föðurarf og tengsl mannsins við Guð og trúarlíf. Bókin er rituð af miklum kærleik, skilningi, umhyggju og listfengi og ber höfundi sínum gott vitni. Hin fallega lýsing Sigurðar Árna á persónu og eiginleikum móður sinnar í bókinni hef ég fundið búa
í honum sjálfum sem felst m.a. í elsku hans á náttúrunni, umhyggju fyrir öðrum, gegnheilu trúarlífi, staðfestu, sjálfstæði og trausti. Glögglega má sjá við lestur bókarinnar hve gott , heilt og trúrækið uppeldi skilar sér í heilsteyptum einstaklingi og má því segja að eiginleikar Sigurðar Árna eigi sér bæði djúpar og sterkar rætur.

Vináttan við Sigurð Árna og Elínu Sigrúnu hefur ætið verið umvafin elsku, trausti og virðingu. Sigurður Árni leggur sig fram við að hlusta og skilja hvað býr að baki töluðu orði og spyr viðmælendur sína spurninga sem oftar en ekki er skautað yfir í hinu daglega lífi. Heilindi eru hans einkunnarorð og gerir hann kröfur til samferðamanna sinna um það sama.

Í ljósi þeirra tímamóta sem kirkjan stendur á í dag, þar sem efla þarf m.a. traust, gegnsæi og andlega leiðsögn er ég ekki í nokkrum vafa um að séra Sigurður Árni Þórðarson sé rétti maðurinn til að leiða það vandasama starf sem næsti biskup Íslands.

Ingi Bogi Bogason, aðstoðarskólameistari

Kirkjan, eins og margar aðrar stofnanir samfélagsins, gengur gegnum umbrot, uppbrot og uppgjör. Hún hefur alltof lengi verið þolandi aðstæðna í stað þess að skapa sér eigin framtíð. Kirkjan þarf framsýnan leiðtoga sem leiðir hana af öryggi inn í nýja tíma. Kirkjan þarf leiðtoga sem þekkir aðstæður og þarfir fólks um allt land. Ég hef þekkt Sigurð Árna frá barnæsku. Ég trúi því að hann sé þessi leiðtogi.

Sesselja Thorberg, hönnuður

Fyrir um áratug fluttum við hjónin í Vesturbæinn. Okkar leið lá í messu í Neskirkju. Við fengum hlýjar og góðar móttökur og Sr. Sigurður Árni tók okkur opnum örmum. Það var að mörgu leiti fyrir hans tilstuðlan að við ákváðum að mæta reglulega í messu. Öll umgjörð í Neskirkju er svo notaleg, starfsfólkið er yndislegt og söfnuðurinn einstaklega vinalegur. Sr. Sigurður hefur séð um skírn, fermingu, giftingu og uppherslu hjá okkar fjölskyldu. Sr. Sigurður gefur sig allan í starfið, er fullur eldmóði og hefur mikinn áhuga á því sem hann tekur sér fyrir hendur í starfi. Hann er til sóma fyrir Neskirkju og starfstéttina.

Sr. Sigurður er hugsjónamaður, kemur vel fyrir og er samkvæmur sjálfum sér. Sr. Sigurður klárar verkið. Fólki líður vel í kringum Sr. Sigurð og ber traust til hans.

Þannig persónu vil ég sjá sem biskup Íslands.