Inga Rún Ólafsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjuþingsfulltrúi.

Við erum stödd á lokaspretti kosningabaráttu um kjör til biskups Íslands. Það voru margir kallaðir, en nú standa eftir tveir útvaldir, sem kjósa þarf á milli.

Sigurður Árni Þórðarson hefur sett fram skýra framtýðarsýn í 7 liðum um málefni þjóðkirkjunnar. Framtíðarsýn sem lýsir einlægum vilja til þjónustu og sátta við fólkið í landinu, og einnig hugrekki til breytinga og framfara í skipulagi og starfi þjóðkirkjunnar. Ég tilheyri þeim stóra hópi leikmanna sem er tilbúin að styðja framgang hennar undir forystu Sigurðar Árna, sem biskups Íslands.
Þann tíma sem kosningabaráttan hefur staðið yfir, hefur verið aðdáunarvert  að fylgjast með því hvernig Sigurður Árni hefur hagað kosningabaráttu sinni, með dyggum stuðningi eiginkonu sinnar, Elínar Sigrúnar Jónsdóttur.

Það fer ekki framhjá neinum sem þau hitta, hversu frábært teymi er þar á ferð. Eldhugar sem keppa að settu marki með kristna trú, jákvæðni, fagmennsku og virðingu  að leiðarljósi.
Þeir myndu segja í Múmíndal, Tove Jansen,  að Sigurður Árni og Elín séu fólk sem „byggjandi er nýlendu með“.  Ef hugleitt er hvað felst í því að byggja upp nýlendu, þá er varla hægt að hugsa sér meira traust eða hrós á nokkurn mann en það sem í þessum orðum felst. Já, þeir vita sínu viti í Múmíndal og þar vinna menn saman í kærleika.

Kristin trú er ný á hverjum degi. Í dag er tími og tækifæri til að byggja nýlendu framtíðarkirkjunnar. Treystum Sigurði Árna þórðarsyni til að leiða það verkefni í Guðs nafni og kjósum hann biskup Íslands.