Flaggskip þjóðkirkjunnar

Í aðdraganda biskupskjörs var ég spurður um fyrstu verkefni í starfi ef ég yrði kjörinn biskup. Af þremur forgangsverkefnum er varða ungt fólk, fjármál og starfsfólk tel ég að mikilvægasta verkefnið varði æsku þjóðarinnar.

Heilbrigð kirkja þjónar fólki. Þjóðkirkjan á að leggja sérstaka rækt við framtíðarfólkið, börn og unglinga, og þjóna barnafjölskyldum vel. Sem barn naut ég þeirra forréttinda að alast upp í barnvænu trúarumhverfi kirkjunnar. Þjónusta mín við kirkju Krists í landinu á rætur í þeirri sáningu og umönnun, sem ég naut í æsku. Ég á sjálfur ung börn og uppeldismál eru mér því áhugaefni og daglegt viðfangsefni.

Við upphaf 21. aldar er trúaruppeldi þeirrar kynslóðar, sem nú er að vaxa úr grasi, mikilvægasta fjárfesting kirkjunnar. Brýn verkefni eru að tryggja góða þjónustu við börn og unglinga óháð búsetu og að efla fagmennsku í æskulýðsstarfi.

Æskulýðsstarf kirkjunnar er grunnþjónusta, sem á að vera í boði í öllum sóknum. Aðstæður eru ólíkar og söfnuðir í dreifbýli og þéttbýli hafa ólíkar þarfir. Þess vegna skiptir höfuðmáli að greina þarfir sóknanna á landsvísu og byggja upp frá grasrótinni glaða og ríka kirkju. Uppbygging í barna- og unglingastarfi hefur margfeldisáhrif því á bak við hvert glatt barn í kirkjustarfi eru ánægðar fjölskyldur.

Kirkjan þarf að tryggja faglegt umhverfi fyrir barna- og æskulýðsstarf. Það verður aðeins gert með fagmenntuðu fólki, sem hefur umsjón með og ber ábyrgð á starfinu. Á landsbyggðinni sinna sóknarprestar barna- og unglingastarfi og þeim þarf að tryggja aðgang að kennsluefni og faglegu baklandi til að sinna unga fólkinu sem best. Nýta þarf samstarfssvæði safnaða þar sem margar sóknir starfa saman líkt og nýtt átaksverkefni í æskulýðsmálum í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi er vísir að. Þar verður ráðinn æskulýðsfulltrúi í hálft starf til að styðja minni söfnuði í prófastsdæminu við uppbyggingu æskulýðstarfs. Þá þarf að tryggja aðgang ungs fólks að leiðtogaþjálfun.

Samstarf er lykillinn að árangri. Með því að færa efnisgerð og forystu um einstaka þætti æskulýðsstarfs út til safnaðanna nýtist mannauður kirkjunnar til fulls. Þannig gætu sóknir, sem skara fram úr á einstökum sviðum, fengið fjárveitingu til að leiða þann málaflokk í ákveðinn tíma og orðið „móðurkirkjur“ þess starfs. Með því að færa verkefni út í söfnuðina má nýta sérþekkingu þeirra í þágu heildarinnar. Hlutverk biskupsstofu verður síðan að miðla því efni, sem til verður og samþætta samstarf safnaðanna.

Barna- og æskulýðsstarf er flaggskip kirkjunnar og ætti að vera forgangsverkefni á komandi árum. Unga fólkið er framtíð kirkjunnar og starf í þess þágu kallar fjölskyldur í landinu til liðs við kirkjuna.