Biskupar á Íslandi

Höfundur: Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju

 

Biskup Íslands er æðsti embættismaður kirkjunnar. Hann hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Hann er forseti kirkjuráðs. Hann fylgir eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hefur ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar. (Af kirkjan.is)

Hlutverk biskups er eðlilega mikið í umræðunni nú í aðdraganda biskupskjörs. Mikilvægt er að hver og einn myndi sér sína skoðun, kynni sér söguna og það samhengi sem embætti biskups er í, spyrji um framtíð kirkjunnar og þá framtíðarsýn sem biskupsefnin hafa og myndi sér þannig sjálfstæða skoðun um hlutverk biskupa. Hér á eftir eru nefndir nokkrir punktar úr sögu biskupa á Íslandi til upprifjunar.

Á hvítasunnudag 1056 vígði Aðalbert erkibiskup í Brimum, Ísleif Gissurarson (f. 1006) til biskups. Hann var biskup yfir öllu Íslandi þar til hann lést árið 1080. Tveimur árum seinna fékk sonur hans, Gissur Ísleifsson (f. 1042) biskupsvígslu. Gissur gekk sköruglega fram í biskupsþjónustu sinni, lét byggja Péturskirkju í Skálholti og setti biskupsstól þar með því að leggja kirkjunni til Skálholtsland ásamt fleiri löndum og lausafé. Þá fékk Gissur, í samstarfi við Sæmund Sigfússon, prest í Odda, Markús Skeggjason, lögsögumann og ýmsa höfðingja, því framgengt að landsmenn greiddu tíund. Skyldi sá peningur nýtast til þess að sinna fátækum, byggja kirkjur og fjármagna starf kennimanna og biskupa. Þar með var grunnurinn lagður að biskupsstól í Skálholti og þjónustu kirkjunnar við landsmenn. Fram að siðbreytingu áttu 30 biskupar eftir að sitja í Skálholti.

Í biskupstíð Gissurar Ísleifssonar var landinu skipt upp í tvö biskupsdæmi. Skálholtsstóll hafði áfram skyldum að gegna gagnvart Austfirðinga-, Sunnlendinga-, og Vestfirðingafjórðungi, en nýr biskupsstóll á Hólum í Hjaltadal skyldi þjóna Norðlendingafjórðungi. Fyrsti biskup á Hólum í Hjaltadal var Jón Ögmundarson. Alls sátu 23 biskupar á Hólum í kaþólskum sið.

Biskupar á landamærum siðbreytingar

Þann 3. október 1542 tók Gissur Einarsson biskupsvígslu í Kaupmannahöfn. Vígsla hans markar nýja tíma í biskupsþjónustu á Íslandi. Gissur var fyrsti biskupinn í lútherskum sið hér heima og tók til hendinni sem slíkur. Hann þýddi m.a. nokkur rit Nýja testamentisins yfir á íslensku, breytti formi messunnar úr kaþólskum sið yfir í lútherskan sið, innleiddi kirkjuskipan Kristjáns III sem var lögtekin í Skálholtsbiskupsdæmi 1541 og gekk að eiga Katrínu Hannesdóttur, til að undirstrika að nú sæti hér á landi lútherskur biskup sem mætti kvænast.

Á sama tíma sat Jón Arason á biskupsstól á Hólum, hélt uppi kaþólskum sið og neitaði að innleiða kirkjuskipan konungs. Skálholtsbiskup lést fyrir aldur fram árið 1548. Í kjölfar þess fór Jón Arason fylktu liði til Skálholts, staðráðinn í að hafa áhrif á hver yrði næsti biskup þar, enda mikilvægt að hans mati að koma á kaþólskum sið í landinu öllu. Það varð afdrifarík för. Aftaka Jóns Arasonar og sona hans, sem fram fór í Skálholti að morgni 7. nóvember 1550 er svartur blettur á sögu kristni á Íslandi.

Biskup, embættismaður meðal embættismanna

Fyrstu lúthersku biskuparnir á Íslandi þurftu að glíma við þá áskorun að það var ekki fólkið sem þeir voru að þjóna sem höfðu kosið að skipta yfir í lútherskan sið. Kirkjuskipan Kristjáns III lagði þeim þær skyldur á herðar að þjóna sem undirsátar konungs. Staða kirkjunnar var nú gerbreytt. Þó hún væri áfram hluti hinnar alþjóðlegu kirkju hafði hún að hluta misst sjálfstæði sitt. Hún var nú óaðskiljanlegur hluti konungsvaldsins og biskup, embættismaður meðal embættismanna.

Upphafsár siðbreytingarinnar á Íslandi einkennast af stöðugri uppbyggingu á breyttum innviðum kirkjunnar og innleiðingu á ýmsum nýjum áherslum. Þrír biskupar koma þar sérstaklega við sögu. Annars vegar Skálholtsbiskuparnir Gísli Jónsson (1556-1587) og Oddur Einarsson (1588-1630) og hins vegar Hólabiskupinn Guðbrandur Þorláksson (1571-1627). Nú brá svo við að kirkjugestir gátu tekið þátt í messunni á eigin tungumáli, gengið til altaris ef þeir kusu, lesið Nýja testamentið á íslensku og með útgáfu Guðbrandsbiblíu 1584, biblíuna alla. Með útgáfu Hólabókar (sálmabók Guðbrands) árið 1589 var svo stigið stórt skref í átt að þátttöku hins almenna kirkjugests í helgihaldinu, því þar voru 328 sálmar á íslensku. Í stað latínusöngs presta og djákna hljómaði nú almennur safnaðarsöngur. Vert er þó að hafa í huga að allur safnaðarsöngur var án undirleiks því engin voru hljóðfærin í kirkjunum.

Færri biskupar, minna vald

Um aldamótin 1800 fækkaði biskup kirkjunnar á Íslandi úr tveimur í einn. Samfara miklum þrengingum, efnahagslegri lægð og stóráföllum á seinni hluta 18. aldar, gróf undan biskupsstólunum tveim. Þeir voru nú ekki lengur þau stórveldi sem þau höfðu eitt sinn verið og þar kom að biskupsstólarnir á Hólum og í Skálholti voru lagðir niður. Staðan var þó á vissan hátt ólík í stiftunum tveimur. Í Skálholti höfðu t.d. flestöll hús skemmst eða hrunið í Suðurlandsskjálftunum 1784. Á Hólum stóð hins vegar ný, reisuleg dómkirkja, vígð 1763. Sú kirkja stendur enn þann dag í dag.

Árið 1801 varð Geir Vídalín fyrsti biskupinn yfir Íslandi í seinni tíð. Allt frá því að Hólastóll var stofnaður 1106 höfðu verið tveir biskupar í landinu. Sú breyting að biskup sæti nú í Reykjavík var gerð samhliða mörgum öðrum stjórnvaldsákvörðunum og skipulagsbreytingum sem áttu sér stað í samfélaginu á þessum tíma. Aðeins liðu 70 ár fram að næstu breytingu á biskupsembættinu. Stofnun embættis landshöfðingja 1873 gerði það að verkum að hlutverk biskups dróst saman, með trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar 1874 varð grundvallarbreyting á stöðu kirkjunnar og 1875 yfirtók landshöfðingi það hlutverk biskups að skipa dóm í málum kennimanna og fór nú einnig með það hlutverk að víkja prestum úr embætti. Verksvið og vald biskups þrengdist svo enn frekar með tilkomu heimastjórnarinnar 1904.

Biskupavígslur á Íslandi

Konungsúrskurður frá árinu 1789 mælti svo fyrir um að framvegis skyldu biskupar vígðir á Íslandi. Allt frá siðbreytingu höfðu biskupsefni haldið utan og verið vígð af Sjálandsbiskupi í Kaupmannahöfn. Á þessu hafði aðeins verið gerð ein undantekning þegar Brynjólfur Sveinsson vígði Jón Vigfússon 1672. En Geir Vídalín var vígður samkvæmt þessum konungsúrskurði á Hólum til þjónustu sem Skálholtsbiskup. Þegar hins vegar var aðeins orðinn einn biskup á landinu, var erfitt um vik að framfylgja þessum úrskurði konungs. Þar kom að stofnuð voru sérstök embætti vígslubiskupa árið 1909 til að tryggja mætti að á landinu væru einstaklingar með biskupsvígslu sem gætu þá vígt næsta biskup. Þjóðviljinn (24.11.1909) greindi frá fyrstu kosningum vígslubiskupa á eftirfarandi hátt:

Í Skálholtsbiskupsdæmi hinu forna var kosinn:
Valdimar Briem, prófastur á Stóra-Núpi, er hlaut 66 atkvæði af 84 atkvæðum, er greidd voru.
— Næstir honum hlutu atkvæði
lector Jón Helgason í Reykjavík (12 atkv.)
og prófastur Jens Pálsson í Görðum (3 atkv.)
Í Hólabiskupsdæmi var kosinn:
Geir prófastur Sæmundsson á Akureyri, er hlaut 16 atkv.
Auk hans hlutu þessir atkvæði:
síra Björn Jónsson í Miklabæ (4 atkv.j,
Stefán M. Jónsson á Auðkúlu (4 atkv.),
síra Jónas Jónasarson á Hrafnagili (4 atkv.)
síra Arni Jónsson á Skútustöðum (3 atkv.)
o, fl. færri atkvæði. —

Fleiri kirkjur, fleiri biskupar

Um og eftir aldamótin 1900 fjölgaði trúflokkum og trúarstefnum ört hér á Íslandi. Í þeim hópi hafði rómversk-kaþólska kirkjan sérstöðu þar sem vígðir þjónar kirkjunnar veittu starfinu forstöðu. Árið 1923 skilgreindi Róm Ísland sem sérstakt trúboðssvæði og var Marteinn Meulenberg gerður að biskupi rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi 1929. Þar með höfðu lúthersku biskuparnir á Íslandi eignast samstarfsfélaga úr annarri kirkjudeild. Ný öld, nýir tímar í trúmálum þjóðarinnar voru í uppsiglingu. Við lok tuttugustu aldarinnar stóðu báðar kirkjudeildirnar sem og önnur félög sem kenna sig við lífsskoðanir og trú frammi fyrir gerbreyttu landslagi. Hlutfall þeirra sem tilheyrðu þjóðkirkju var komið niður fyrir 80% og spurningar uppi um stöðu og hlutverk biskups þjóðkirkjunnar. Meðal annars er spurt hvort að megináherslan í hlutverki biskups eigi að vera á framkvæmdastjórahliðinni (þar sem hann væri þá verkefnastjóri ferla, kerfis og fjár) eða á hirðishlutverkinu (þar sem hann væri þá andlegur leiðbeinandi og túlkandi trúar, kenningar og merkingar).

Kynntu þér málið! Saga kirkju og kristni á Íslandi er fjölbreytt og áhugaverð saga sem vert er að kynna sér. Þeim sem áhuga hafa að gera slíkt er bent á að í bókabúðum og á bókasöfnum landsins má finna fjölda góðra bóka og greina í tímaritum um þessa sögu, m.a.:

2012

2010

2006

2000

Einnig er margt tengt efni að finna á netinu, m.a.:

Hér á sigurdurarni.is má einnig finna lista yfir alla biskupa á Íslandi:

Við ritun þessa pistils var stuðst við eftirfarandi bækur:
•    Kristni á Íslandi III. Frá siðaskiptum til upplýsingar, 2000.
•    Kristni á Íslandi IV. Til móts við nútímann, 2000.
•    Saga biskupsstólanna, 2006.