Aftur já, – en líka fram

Sagt er að margir Vesturlandabúar komi til kirkju timbraðir í dag og illa fyrir kallaðir. Fastan hefst. Gleðskapur hefur ríkt liðna daga áður en föstuaðhaldið í mat og drykk byrjar. En ég get ekki séð merki um höfuðkvalir þegar horft er fram í kirkjuna! Fastan er merkilegur tími íhugunar, tími Jesúferðar til Jerúsalem og tími til að hugsa um tímann sjálfan og hvernig við dönsum við takt tímans.

Tíminn í grafhýsi

Ég var einu sinni í stórum hópi Íslendinga í Westminster Abbey í London sem við þekkjum m.a. af stórviðburðum í bresku þjóðlífi, konunglegum giftingum og útförum. Það er einkennileg kirkja. Í henni eru um þrjú þúsund og fimm hundruð grafir, legstaðir konunga, skálda, vísindamanna og þjóðhetja. Þó er þessi hvelfing dauðans líka kirkja fyrir lífið. Íslenski hópurinn sat í glæsilegri stúku og komið var að kvöldsöng. Drengjakór gekk inn með kirkjuþjónum og prestum. Kyrrð féll á. Túristarnir voru farnir og aðeins þau eftir sem vildu taka þátt í kvöldsöng. Við höfðum góðan tíma til að horfa og vorum umvafin djúprödduðum ómi hinna miklu hvelfinga. Hugurinn leitaði inn á við. Á tíðagerðarblaðinu var formáli um tímann og afstöðu kirkju og kristinna manna til hans. Þar stóð að kirkjan lifði í fortíð og gamlir lestrar væru lesnir í messum og helgihaldi, textar úr sögu Ísraels. Jú, það er rétt að flestir textar í lífi kirkjunnar urðu til fyrir löngu síðan. En ef fortíðarhyggjan ræður verður allt gamaldags. Það er einmitt hlutverk okkar að skilja hið úrelta frá hinu sem er gilt og klassískt. Það er verkefni hvers manns sem leitar þroska og líka vökullar kirkju.

Kall til framtíðar

Svo stóð þarna á blaðinu að líf kirkjunnar sé líka mál framtíðar. Textar Nýja testamentisins varða framtíð og draga fram verk Guðs. Þeir benda okkur á vonarefnin og beina sjónum fram á veginn. Þeir minna okkur á að við megum snúa okkur fram. Aftur já, – en líka fram. Verðum við ekki rótlaus ef við missum sjónar á fortíðinni? Verðum við sem einstaklingar ekki grunnfærin þegar við hættum að læra af hinu liðna? Jú, svo sannarlega. Svo er það reynsla kynslóðanna að þau sem ekki þekkja og skilja sögu sína eru dæmd til að endurtaka mistök fortíðar. Hinir öfgarnir eru að þegar við lifum bara í fortíðinni og erum hætt að opna gagnvart framtíð og nútíð þá erum við deyjandi. Við þurfum að þola þá spennu að lifa í fortíð og framtíð, því sem var og því sem verður. Þegar kólfurinn er hættur að sveiflast milli framtíðar og fortíðar dofnar allt og deyr að lokum. Aftur og fram, aftur og fram er taktur kirkju og kristins manns og raunar taktur fyrir lífið.

Jesúreisan til Jerúsalem

Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíusálmunum? Ferð Jesú til Jerúsalem sem alltaf er líka lífsreisur allra einstaklinga og kynslóða. Við erum samferða Jesú. En menn voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til að hún yrði ferð til sigurs og að þeirra lið ynni og Jesús yrði þar með þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi að hlutverk hans væri annað en það sem aðdáendur hans og klapplið vildu. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús horfði aftur, þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum væri ætlað að þjóna. Aftur og fram. Ferð Jesú var ekki túristaferð. Hann var ekki í huggulegri kirkjuskoðun. Ferð hans var upp á líf eða dauða. Hann hefði getað látið undan freistingunni og forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar. Eða hvað?

Gamalt og nýtt

Í ískaldri höll erkibiskupsins, Lambeth Palace í London, héldu nokkrir fræðimenn fyrirlestra um þróun kirkjulífs í Bretlandi, ensku kirkjuna, helgihaldssögu þeirrar kirkju og kirkjusögu. Í kuldanum fór ég að velta vöngum yfir hver væri God’s frozen people, Íslendingar eða Englendingar. Margir kirkjusöfnuðir í Englandi hafa lent í miklum vandræðum þegar fólkið styður ekki starf þeirra lengur. Kirkjur hafa verið seldar. Þeim hefur verið breytt í flottar íbúðir eða skrifstofuhúsnæði. Eina kirkju hef ég séð sem var orðin að stóru bílaverkstæði. Víða hefur safnaðarfólkið gengið í sjálft sig og þorað að spyrja hvort ekki væri kominn tími til að breyta. Það er ekki nóg að eiga glæsibyggingar og að baki mikla sögu, hefð og fína texta. Ef safnaðarlífið gengur ekki verða menn að taka upp nýja stefnu og jafnvel selja kirkjuhúsin. Kirkja er ekki hús heldur fólk. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan sem kristin kirkja lifir stöðugt í og verður að þola. Þegar breytingar verða í samfélagi eiga kristnir menn að að opna dyr en loka ekki að sér í fortíðarhyggju. Það getur verið pínlegt að ganga í sig og breyta. Hvað um fortíðina? Hvað um framtíðina? Ætlum við að lifa bara í hefðinni og endurtaka það sem alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Niðurstaðan er að best sé að fortíð og framtíð samþættist. Kristnin lifir í krafti fortíðar, lítur til baka og tekur mið af sögunni og hefðinni. En hún hangir ekki bara í hinu liðna heldur horfir fram og verður að opna. Verkefni kristnins fólks er að íhuga hvernig við getum brugðist vel og með ábyrgð í verkefnum lífsins. Okkar viðbrögð spanna bæði fortíð og framtíð. Ef við erum bara annað hvort bregðumst við og erum óábyrg. Ef Jesús hefði bara lifað í fortíð hefði hann aldrei farið upp til Jerúsalem. En hann þorði. Því erum við hér í dag af því hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Aftur en líka fram. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Kannski fastar þú ekki þennan tíma en farðu inn á við og inn í þig. Er eitthvað sem eru bara leifar úr fortíð sem mega hverfa? Getur verið að nú sé komið að pistlinum í lífinu og þú snúir þér 180° og opnir líf þitt mót framtíð og guðskallinu? Til að þú getir lifað í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð. Gott líf er flétta fortíðar og framtíðar.

Sunnudagur í föstuinngangi. Jes. 50. 4–10. 1. Kor. 1. 18-25. Lúk. 18. 31-34.

Myndina tók ég blessunarkveðju á vegg höfuðkirkju Englendinga, Westminster Abbey.