Greinasafn fyrir merki: fasta

Jesús í lit

Hver er mynd þín af Jesú? Hvaða mynd hefur verið dregin upp í huga þér af Jesú Kristi? Er hún dapurleg eða gleðileg? Í bernsku minni þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni. Það var eins og trúin væri í bakkgír. Af hverju þessi dapurlegi stíll, dempandi og jafnvel kæfandi drungi?

Jesúsaga föstunnar er ekki beinlínis til að efla trú okkar á mannkynið. Góðmenni framselt í hendur níðinga. Jesús á leið frá heimahögum og undir hramm spillts valds. Vald fer oft illa með hið fagra og góða, einlægni og ást. “…krossfestur, dáinn og grafinn. Steig niður til heljar.” Sorgleg frásögn með gott upphaf en nístandi framhald.

Og svo hafa Passíusálmarnir hljómað eða verið lesnir, sálmar sem segja passíu – píslarsögu Jesú. Sálmarnir færðu yfirskilvitlegan drunga – að mér fannst fyrrum – yfir trúarlífið, mannlíf og kirkjuhúsin. Og ég spurði: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu og hvaða gleðifrétt er það?

Þjáningin

Þjáning hittir alla menn – þig líka. Enginn flýr sorgina. Þroskað fólk glímir við endanleika sinn og annarra. “Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta” segir í Davíðssálmum. Er trú og kristni einkum meðal gegn dauðaógn eða er trú eitthvað annað og jafnvel stórum meira?

Á föstunni fléttast saga Hallgríms og í kirkjulífið og hluta þjóðlífsins. Við höfum líklega oftúlkað Hallgrím sem píslarmann. Hann málaði harmsögur heims og fólks svo vel að líðandi Íslendingar hafa um aldir fundið til samsemdar boðbera Guðs og sjálfs sín. Sjónum hefur gjarnan verið beint að dapurlegum þáttum í lífi Hallgríms sjálfs. Hann lenti visslega í klandri og klúðraði ýmsu. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina sem ekki ætti að leggja á nokkuð foreldri. Svo varð hann fyrir þeim skelfilega sjúkdómi að rotna lifandi.

Hallgrímur í lit

En hvað um hitt? Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím, trú og kirkju? Nei, hann var í lit. Hallgrímur var skemmtilegur, eldhugi, fjölmenntaður, líklega góður pabbi og líflegur maður. Píslarmaðurinn var líka elskhugi og eftirlæti allra, sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús – sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni, gjósandi listamaður.

Og hvað svo? Passíusálmarnir fimmtíu lýsa síðustu dögum Jesú. Myndin af Jesú er af himinkonungi sem er allt annað en upphafinn. Hann er himinkonungur, en kemur til að þjóna án allrar upphafningar. Það er ástin en ekki dauðinn sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana. Jesús gekk inn í hlutverk menna til leysa þá frá vonleysi, þjáningu, lífsharmi. Áherslan er ekki á þjáningu heldur á hvað og hver megni að leysa vanda mannanna. Og það er elskandi Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Jesú er ekki lýst sem hinum örugga konungi að baki víglínu, heldur hetjunnar, sem mætir, er og fórnar sér til að sigur vinnist. Hann hlýðir, fer fram í staðfastri auðmýkt og víkur sér ekki undan baráttu og þjáningu. Hann er ekki ofurkóngurinn heldur lífsþjónninn.

Að baki myrkrinu er ljós, að baki depurðinni er gleði. Sagan er ekki um pínu heldur um lífgjöf. Passíusálmar eru ekki sjálfspíslarsálmar heldur ástarsaga – margþætt og lífstrú saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi sálmanna heyrist grunnstefið:

Guð elskar, Jesús elskar, Guð elskar – alla menn – þig.

Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er gott, lífið er elskulegt, að Guð er alltaf nærri þér – og að eftir dauða kemur líf.

Kristin trú? Er hún þér slíkt fagnaðarerindi að þú finnir gleðina ólmast innan í þér? Eða tjáir þú og upplifir trúna með einhverju öðrum og hófstilltari hætti?

Þú mátt skipta út svörtu myndinni af Hallgrími og sjá hann í lit. Hver er mynd þín af Jesú? Er hún í sauðalitunum eða laðandi litum? Klisjumyndum af svart-hvítum Jesú má henda. Og svo er það þín eigin mynd af trú. Er kominn tími til að uppfæra? Ástarsagan er sögð og lifuð vegna þín.

Höfuð, fætur, hendur, hjarta – líka magi

IMG_2024Vilborg Arna Gissurardóttir, afrekskona, fór frá Íslandi í morgun. Hún er búin að klífa sex af sjö hæstu fjallatindum heimsins. Aðeins Everestfjall er eftir. Hún ætlar á toppinn. Ég hef fylgst með Vilborgu Örnu frá því hún gekk á skíðum á Suðurpólinn. Ég dáðist að hve vel hún undirbjó þá ferð, að gildum hennar, einbeittni sem hún sýndi og hve öguð hún var. Hún stælir sinn innri mann, gætir lífsháttum og heilsu. Vilborg Arna er hetja og nú er sjöundi tindurinn eftir. Næstu vikur mun hún gæta að næringu og aðlaga líkama sinn að hæð og stilla höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magan líka! Guð geymi hana og varðveiti hana.

Um næringu

Þetta er ofurlítill inngangur að óbyggðaferð hins kristna safnaðar. Aðalsaga dagsins er af fjallaferð og frásögnin er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð þar sem lítið var um mat. Í ljós kom að ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og allir fengu það sem þeim var þörf á, líkamsfæðu, næringu fyrir anda og samhengi fyrir lífið. Fólk á ferð fékk næringu til lífs – ekki bara fyrir magann heldur líka höfuð, fætur, hendur, hjarta og samfélag.

Það eru ekki margar sögur sem öll guðspjöllin segja. En þetta er ein af þeim. Sagan er þó sögð með mismunandi móti í guðspjöllunum. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna öðru vísi en hin guðspjöllin, sem kölluð eru samstofna guðspjöllin. Einkenni Jóhannesarguðspjalls eru tvenndir sem gjarnan eru hugtakapör í spennu. Þegar minnst er á ljós er myrkur í baksviði þessa guðspjalls. Lífsáhersla þess er í andstöðu við dauða. Trú er rædd með vísan til alvöru vantrúar. Jóhannesarguðspjall er dramatískt og tilgangurinn sá að beina sjónum fólks til Jesú sem lausnara lífsgátunnar – að hann er ljós í myrkri, „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Næring

Rauður þráður í textum dagsins er næring – og næring er það sem menn og mannlíf þarfnast til að lífið sé gott. Næring er það sem viðheldur lífi mannsins og eflir. Ekki einungis líkamlega, heldur einnig andlega. Gef oss í dag vort daglegt brauð … minnir á að næringin þarf að vera stöðug.

En hvers þörfnumst við til að við lifum í samræmi við gerð okkar og þarfir? Brauð og fiskur, líkamsfæðan, er aðeins eitt af því sem er okkur lífsnauðsyn. Í enskumælandi heimi er stundum talað um primary food og secondary food, grunnfæði og annað fæði.

Hver heldur þú að sé frumfæða hvers manns? Alveg í samræmi við boðskap Jesú: „Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði einu…“ Frumfæða manneskjunnar er ekki fiskur eða brauð, heldur það sem nærir dýptir og eflir hamingjuna.

Frumfæða – fyrsti flokkur fæðunnar eru tengsl við fólkið okkar og ástvini. Enginn lifir aleinn og bara fyrir sjálfan sig. Enginn lifir nema í samhengi við aðra. Í öðru lagi er hreyfing. Við þörfnust þess að líkami okkar njóti hreyfingar. Við þurfum ekki að fara allt í bíl eða sitja í stól alla daga en við þörfnumst áreynslu til að líkama okkar líði vel. Svo er þriðji þátturinn – vinnulífið. Gleði í starfi er nauðsyn. Fjórði þátturinn er andlega lífið. Ef dýpstu lífsþættirnir eru í óreiðu berst vanlíðan til alls annars.

Frumfæða mennskunnar eru þessir fjórir flokkar – ástvinatengsl, hreyfing, vinnulíf og andans rækt. Til að minna okkur á þessa þætti getum við þulið: Höfuð, fætur, hendur hjarta. Höfuð fyrir tengsl við fólkið, fætur fyrir hreyfingu, hendur fyrir störfin, hjarta fyrir andlega miðju okkar, andann. Höfuð – fætur – hendur – hjarta. Og svo myndast við hreyfinguna kross!

Hvernig er með tengsl þín við fólkið þitt? Einhverjar hömlur eða festur? Hvernig gengur þér að hreyfa þig? En vinnulífið eða störfin þín: Er allt í lagi með það – eða má bæta? Og hvernig gengur þér með ástarsambandið við Guð? Ertu í klemmu eða vanda í einhverju? Ertu að reyna að leysa málin með trixum og yfirborðsaðferðum?

Höfuð – fætur – hendur – hjarta – og svo bætist við magi. Líkamsfæðið er okkur nauðsyn líka. En það skiptir máli hvað við setjum ofan í okkur. Það getur orðið til lítils að njóta góðs frumfæðis ef líkamsfæðið er rusl. Og margt í nútímafæði verður ekki til blessunar heldur bölvunar af því það er í óhófi.

Þú lifir til að vera hamingjusamur eða hamingjusöm. Guð hefur skapað þig þannig. Hvers þarfnastu? Súrefnis, vatns og líkamlegrar næringar. Já, en líka andlegrar næringar og félagslegrar líka. Þú hefur gott af viðurkenningu, að einhver sjái þig og meti. Og þú þarfnast þess að vinna þín og störf þín séu gæfuleg og gefandi. Þú þarfnast margs konar næringar til að lifa vel og með hamingju.

Fjallaferð

Vilborg Arna er á ferð á hæsta fjall jarðarkúlunnar. Og nokkrir Íslendingar hafa þegar farið á tindinn m.a. Leifur Örn Svavarsson sem býr hér í sókninni okkar.

Fjallamaðurinn Jon Krakauer skrifaði einu sinni metsölu- og háfjallabókina Into thin air. Það er merkileg bók sem segir frá hræðilegum slysaleiðangri á Everest-tind árið 1996. Súrefni og andnauð komu við sögu. Öll, sem hafa kynnt sér fjallamennsku, vita að á hæstu tindum er súrefni ekki sjálfgefið eða auðfengið.

Krakauer segir m.a. frá Andy Harris sem komst á toppinn. En hann var of lengi uppi og lenti í súrefnisnauð á niðurleið. Harris hafði samband við tengla sína í neðar í fjallinu og sagði þeim frá vandanum og að hann hefði séð súrefniskúta sem aðrir fjallamenn hefðu skilið eftir. En hann hélt að þeir væru allir tómir. Hin, sem þegar höfðu farið niður og séð kútana, vissu hins vegar að þeir voru allir fullir af súrefni. Þeir báðu því Harris að nota súrefnið sér til bjargar. En hann trúði þeim ekki og það var honum til tjóns og dauða. Vegna súrefnisskorts vann heili hans ekki sem skyldi. Hann kvartaði yfir skortinum en var ófær um að nota það sem var þó innan seilingar og hefði bjargað honum. Það sem maðurinn hafði nærri var fjarri vitund hans. Súrefnisnauðin brenglaði dómgreind Harris og hann lét lífið.

Þetta er sláandi saga um mistök sem kostuðu líf. Sagan varð mér táknsaga um mannlíf og mikilvægi þess að bregðast rétt við og með góðri dómgeind. Sagan minnir okkur á að menn geta tapað lífi þegar aðstæður eru rangtúlkaðar. Hvað verður okkur til næringar? Hvað verður okkur til góðs? Hvers þörfnumst við með til að lifa vel?

Jesús gefur lífið

Jesús segir: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús gefur lífið – að hann sé forsenda lífs og næring þess lífs.

Og við erum hinn stóri hópur mannkyns á fjalli lífsins. Hvað verður til góðs? Viltu þiggja næringuna sem Jesús Kristur blessar og öll gæðin sem hann gefur þér? Finnur þú til þarfar en trúir ekki að súrefni sé á tönkunum við hlið þér? Trúir þú ekki ráðgjöfum þínum sem segja þér, já biðja þig, að nota það sem er við hendi? Tjáir þú bara vöntun þína og er dómgreind þín að bresta vegna skorts þíns? Eða tekur þú við blessuninni þér til lífs. Trúin er í þágu fjallaferða lífsins – súrefni til bjargar. Höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magi – og allt í kross.

Amen.

Prédikun 4. sunnudag í föstu, 30. mars, 2014. A-textaröð.

Haustfasta í Neskirkju

kvöldmáltíðarmynd barna 450Viltu breyta mataræði og líðan? Efnt verður til haustföstu í Neskirkju 7. – 17. október. Fastan er ekki erfið en þó endurnýjandi. Matur á borðum föstufólks verður grænmeti, ávexti, heilkorn (glúteinlaust) og hnetur í þessa 10 daga sem fastan varir. Og fólk fær margvíslegan stuðning til að námskeiðið nýtist sem best.

Matur hefur mikil áhrif á líðan og heilbrigði – og sömuleiðis skiptir miklu máli hvernig fólk stuðlar að andlegri hreinsun og endurnýjun.

Margrét Leifsdóttir, heilsumarkþjálfi IIN og arkitekt, og hjónin Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur og ACC markþjálfi og dr. Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur, halda námskeið í safnaðarheimili Neskirkju um mat, hreinsun, föstu og heilsurækt.

Námskeiðsfundir eru þrír; matreiðslunámskeið, upphafs- og lokafundur.

Innifalið:

Matreiðslunámskeið fimmtudaginn 3. okt. 18:30-21:30

Upphafsfundur föstu kl. 20:00 – 21:30, mánudaginn 7. okt. og lokafundur fimmtudaginn 17. okt. kl. 20:00 – 21:30, bæklingur um hreinsunina ásamt uppskriftum, daglegir tölvupóstar og pepp. Allir þátttakendur fá einn frían tíma í markþjálfun

Matreiðslunámskeið verð 5.200.- Föstunámskeið 12.500- (hjón greiða aðeins eitt gjald f. föstunámskeið).

Sendið þátttökutilkynningu til s@neskirkja.is eða skráið í s. 5111560, fyrir mánudaginn 30. september.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda.

Gríma, sál og systir

IMG_0688Að baki vestrænum heitum fræðigreinarinnar sálfræði er nafn grísku gyðjunnar Psyche. C. S. Lewis skrifaði ekki aðeins ævintýrabækur um Narníu heldur um bókmenntir og trúarefni og m.a. um systurnar Psyche og Órúal. Psyche var sögð traust í lífsraunum og fögur. Hún fangaði hjarta elskuguðsins Erosar. Saga Psyche er fyrirmyndar- eða kennslu-saga um þroskaleit sálar. Órúal var ólík systurinni ástríku. Hún hafði veika sjálfsmynd og fyrirvarð sig fyrir útlit sitt. Hún faldi andlitið á bak við grímu, sótti í völd og sölsaði undir sig konungsríki föður síns. Landsmenn Órúal sáu grímuna og ímynduðu sér að hún væri fögur. En engum kom til hugar að gríman væri vörn hryggðarmyndar.

Veldi Órúal féll, hún var svipt stöðu, klæðum og grímu og að lokum leidd berstrípuð fyrir guðlegan dómstól. Þegar varnir voru fjarlægðar kom keipakrakki í ljós. Hún vældi yfir að veröldin væri ekki eins og hún vildi. Sagan er um grímulausa sjálfshverfingu og þar með frekju. Sagan segir síðan hvernig Órúal gekk í sig, náði þroska og gerði sér grein fyrir að til að ávinna allt varð hún að missa. Til að þroskast varð hún að fleygja hækjum lífsins. Til að vitkast varð hún að viðurkenna sjálfa sig og útlitið líka.

Sagan um fólk bæði í fornöld og nútíma. Líf margra er æðisgengin leit að grímum og ímyndum. Er það kannski versta fíkn mannsins að dýrka eigin ásýnd, eigin ímynd og eigin draum? Þegar svo er komið er ímyndin orðin að sannleika og raunveran orðin að lygi.

Ásjónur eru okkur mönnum mikilvægar. Eðlilegur barnsþroski er jafnvel tengdur andlitum. Fólk í öllum sögum, líka í Biblíunni, er fólk sem leitar myndar sinnar. Kristnir menn hafa af eigin reynslu sagt að besti sálarspegillinn sé Jesús Kristur. Þar sé mynd Guðs í mannsmynd. Því stórkostlegri ímyndum sem við komum okkur upp því lengra erum við frá raunmynd okkar. Því betur sem við leyfum grímum að falla af okkur því betur og nær komum við sjálfum okkur, mynd Guðs.

Verkefni föstutímans er að spegla sálina. Tilgangurinn er að undirbúa innri mann fyrir atburði kyrruviku og páska. „Spegill, spegill herm þú mér.“ Allt sem segir okkur satt um okkur sjálf verður okkur sannleiksspegill, Passíusálmar, píslarsagan, goðsögur, barnaspeki, kvikmyndir eða bókmenntir. Verkefni föstu er: Fella grímu og spegla sál.

Pistill í Fréttablaðinu 4. mars, 2013

Ofbeldi í borginni

Ofbeldi í borginni hljóðskrá
DSC03022Má bjóða þér til Parísar? Má bjóða þér til London? Viltu koma til Rómar? Ég er meðlimur í alþjóðlegum húsaskiptasamtökum og allt frá jólum hefur rignt inn tilboðum um skipti á húsakynnum. Í gærkvöldi kom tilboð um lán á húsi á Bretagne og annað um lán á íbúð í Barcelona. Ég hef fengið tilboð um að fara til Namibíu og búa þar í höll. Margir Danir vilja líka gjarnan koma til Íslands, fá húsið okkar lánað og bílinn líka og bjóða eigið hús og bíl á móti. Svisslendingar, Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar hafa í löngum bunum sent húsaskiptabeiðnir – einnig Bandaríkjamenn og Kanadamenn. Svo eru líka mörg tilboð frá ýmsum stöðum í Ísarel. Við – fjölskylda mín – spyrjum okkur hvort við ættum að fara eitthvað þetta árið? Langar mig eitthvað út í heim?

Og þá að þér – ætlar þú eitthvað? Ætlar þú kannski í stórborgarferð? Ferðaskrifstofurnar eru farnar að auglýsa og vekja athygli á ýmsum möguleikunum og tilboðum. Til hvers að fara? Kannski höfum við enga löngun til að fara til útlanda. En líf okkar er samt ferðalag og sú reisa – og fólksins okkar – skiptir okkur mestu máli.

Fastan er ferðalag        

Í dag er ferðadagur. Kirkjutextarnir sem lesnir eru í messum þjóðkirkjunnar beina huga okkar að ferðalagi. Það er raunar borgarferð, en samt koma ekki við sögu neinar þotur, hótel eða skip. Ferðin sem er að hejfast er föstuferð Jesú til höfuðborgarinnar Jerúsalem.

Til að marka upphaf þessarar ferðar eru haldnar veislur um hinn vestræna heim og þann hluta sem er undir áhrifum af kristnu tímatali. Við föstuupphaf skemmtir fólk sér víða þessa helgi, með áti, drykkju, karnivalgöngum og sprelli. Á Íslandi byrjar föstuundirbúningurinn með messuhaldi þessa sunnudags sem er í föstuinngangi, svo kemur bolludagurinn og sprengidagurinn sem tengjast föstuupphafinu. Á öskudeginum gengur svo sjö vikna fastan í garð og börnin klæðast alls konar furðubúningum. Við megum gjarnan nota tækifæri og kynna börnunum af hverju allur þessi viðbúnaður við upphaf föstutímans og föstuferðarinnar.

Upp til Jerúsalem

Á öskudeginum hefst Jesúferðin og ganga kirkju hans til Jerúsalem. Sú ferð hefur verið túlkuð, lifuð og endursögð með fjölbreytilegu móti um aldir.

Margar passíur eru til og Passíusálmarnir eru ein útgáfan. „Upp, upp mín sál“ er meginstef þeirra sálma. Og Jesús segir í texta dagsins að nú sé ferðinni heitið upp – upp hvert? Jú, til Jerúsalem sem er hátt uppi – í um 800 metra hæð. Til að fá tilfinningu fyrir þeirri hæð er ágætt að muna að það er nærri hæð Esjunnar. Og til að undirbúa fjallaferðina heldur Jesús fararstjóri fund með tólf vinum. Og litla Jesúklúbbnum þykir ferðaplanið spennandi.

En frásögn af fundinum er bæði undarleg og skelfileg. Fararstjórinn gefur mjög nákvæmar upplýsingar um hvernig ferðin muni þróast en það er eins og ferðarfélagarnir skilji ekkert eða séu í bullandi afneitun. Þeir eru með hugann við annað en það, sem Jesús segir þeim. Einhverjir töldu, að Jesús myndi verða hinn pólitíski frelsari Gyðinga og þessi ferð yrði fyrsta alvöru atlagan gegn Rómverjum. Þeir hafa haft blinda trú á að þessi stórkostlegi ræðusnillingur, spekingur og kraftaverkamaður myndi snúa sig – og þá líka – út úr öllum hugsanlegum klípum. Og því virðast þeir ekki hlusta. Þeir tóku ekki eftir þessum rosalega texta sem Jesús vísaði til, skildu ekki að í borginni yrði Jesús fyrir skipulögðu einelti og einbeittum manndrápsvilja. Náðu ekki að Jesús var sér meðvitaður um hættuna en lét ekki eigin hag ganga fyrir heldur sá hlutverk sitt í stærsta mögulega samhengi.

Alger hörmung

Fararstjórinn er alveg skýr og lýsir með ákveðnu móti: Hann verði fangelsaður og misþyrmt, hann verði niðurlægður og síðan tekinn af lífi. En um viðbrögð ferðafélaganna segir: “Þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.” Fólk á erfitt með ofbeldi.

Ef ég hefði heyrt svona kynningu hjá fararstjóra ferðaklúbbs hefði ég þverneitað að fara með. Myndir þú fara í ferð, ef stjórnandinn spáði hinu versta, að hann yrði limlestaður, hæddur og síðan líflátinn? Einelti er hræðilegt, hvers konar ofbeldi er andstyggilegt. Stöldrum við.

Tími íhugunar en ekki sjálfspíslar

Krossinn var borinn inn í messuupphafi. Krossburðurinn minnir á hvað kirkjan er og hver ferðaáætlun kristins lýðs er. Krossinn er ferðarlýsing og tákn og blasir við okkur alla messun og túlkar líf. Svo byrjar fastan hjá okkur og við förum í þessa ferð um föstutímann, með Jesú.

Á fyrri tíð föstuðu menn til að skerpa íhugun, ganga á vit hinum dýpri trúarlega veruleika. Á fyrri tíð var tilgangur föstunnar ekki að pína sjálfan sig með því að halda við sig í fæðu, heldur til að skerpa hina andlegu sjón.

Á föstutímanum förum við í fjallgöngu með Jesú. Það er tími ferðalags með Jesú. Hann var ekki handtekinn fyrr en að kvöldi skírdags. Vafalaust hefur Jesús verið angistarfullur einhvern tíma á ferðinni, en pínan hefst ekki fyrr en í kyrruviku, á skírdegi fyrir páska. Leyfum depurðinni að bíða þess tíma.

Meinlæti af hörkutaginu hefur engan trúarlegan tilgang og kristnin er ekki og á ekki að vera píslarsækinn. Kristnin er fremur veislutrú og leggur áherslu á lífið og gleðina. Fastan er ekki og á ekki að vera skuggalegur tími depurðar og sorgar yfir vonsku mannanna, illsku eða gæskuskorti. Á föstunni megum við staldra við kraftaverk lífsins. Fastan er fremur tími til að skoða starf, stöðu, gerðir, boðskap og sögu Jesú og spegla eigið líf í spegli hans, sögu hans. Sú saga er um að lífið er dramatísk ferð, sem endar ekki dauða heldur lífi.

Hver Guð er
Hvernig er hægt að nota þennan föstutíma framundan? Hann er ferðatími fyrir hinn innri mann og endurnýjun mennsku og menningar. Vissulega er hægt að minnka mat og drykk. Við hefðum flest gott af! Og sumir leggja það á sig sem erfitt er – opna ekki netið, tölvupóstinn eða facebook og halda sér frá netinu í heilan sólarhring! Það getur verið ein tegund föstu ef aðgerðin varðar að fara ofurlítinn spotta á uppleið föstunnar.

Borgartilboðið Jerúsalem 2013 er fyrir alla. Við erum ekki kölluð til að fara hættuför til dauða heldur leyfa föstusögu að verða stórsögu sem við tengjust. Jesúsagan er ekki bara um hóp ferðafólks á afmörkuðum stað eða tíma, heldur saga um heiminn, mannkyn og Guð. Föstusagan er einn kafli í stórsögu, sem Guð hefur sagt um sig, ferðasögu, sem á sér upphaf í elsku til okkar manna og vilja til að ganga með okkur á öllum vegum okkar. Það er saga um makalausa guðsför um mennskan móðurlíkama konu, uppvöxt í mannheimi, mannkyni í gleði og sorg, gæsku og grimmd, reynslu af þér og mér. Allar smásögur okkar koma síðan saman í krossi á hæð, angist og dauða. Þeirri sögu lauk ekki á Golgatahæð heldur hélt hún áfram í grafhýsi og páskasögu. Það er um að lífið er þrátt fyrir allt gott, litríkt, ástríkt, vonbjart, skemmtilegt og mikilfenglegt.

Það er ferðasaga Guðs, sem smásögur okkar eru hluti af. Á föstu er sögð ofursagan um samspil lífs og dauða, Guðs og heims. Sú erkisaga skiptir öllu máli. Ferðatilboðin eru fjölmörg. Borgarreisur eru í boði. Húsaskipti líka. En merkilegasta ferðin er ferðin upp og mega ferðast með besta mögulega ferðafélaganum sem völ er á ? Fastan er að hefjast – ferðin er að byrja. Hvert ætlar þú?

Amen

Prédikun í Neskirkju á sunnudegi í föstuinngangi, 10. febrúar, 2013.

Textaröð: B

Lexía: Jes 50.4–11


Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.

Pistill: 1Kor 1.18-25


Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa.

Guðspjall: Lúk 18.31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.