Greinasafn fyrir merki: fasta

Aftur já, – en líka fram

Sagt er að margir Vesturlandabúar komi til kirkju timbraðir í dag og illa fyrir kallaðir. Fastan hefst. Gleðskapur hefur ríkt liðna daga áður en föstuaðhaldið í mat og drykk byrjar. En ég get ekki séð merki um höfuðkvalir þegar horft er fram í kirkjuna! Fastan er merkilegur tími íhugunar, tími Jesúferðar til Jerúsalem og tími til að hugsa um tímann sjálfan og hvernig við dönsum við takt tímans.

Tíminn í grafhýsi

Ég var einu sinni í stórum hópi Íslendinga í Westminster Abbey í London sem við þekkjum m.a. af stórviðburðum í bresku þjóðlífi, konunglegum giftingum og útförum. Það er einkennileg kirkja. Í henni eru um þrjú þúsund og fimm hundruð grafir, legstaðir konunga, skálda, vísindamanna og þjóðhetja. Þó er þessi hvelfing dauðans líka kirkja fyrir lífið. Íslenski hópurinn sat í glæsilegri stúku og komið var að kvöldsöng. Drengjakór gekk inn með kirkjuþjónum og prestum. Kyrrð féll á. Túristarnir voru farnir og aðeins þau eftir sem vildu taka þátt í kvöldsöng. Við höfðum góðan tíma til að horfa og vorum umvafin djúprödduðum ómi hinna miklu hvelfinga. Hugurinn leitaði inn á við. Á tíðagerðarblaðinu var formáli um tímann og afstöðu kirkju og kristinna manna til hans. Þar stóð að kirkjan lifði í fortíð og gamlir lestrar væru lesnir í messum og helgihaldi, textar úr sögu Ísraels. Jú, það er rétt að flestir textar í lífi kirkjunnar urðu til fyrir löngu síðan. En ef fortíðarhyggjan ræður verður allt gamaldags. Það er einmitt hlutverk okkar að skilja hið úrelta frá hinu sem er gilt og klassískt. Það er verkefni hvers manns sem leitar þroska og líka vökullar kirkju.

Kall til framtíðar

Svo stóð þarna á blaðinu að líf kirkjunnar sé líka mál framtíðar. Textar Nýja testamentisins varða framtíð og draga fram verk Guðs. Þeir benda okkur á vonarefnin og beina sjónum fram á veginn. Þeir minna okkur á að við megum snúa okkur fram. Aftur já, – en líka fram. Verðum við ekki rótlaus ef við missum sjónar á fortíðinni? Verðum við sem einstaklingar ekki grunnfærin þegar við hættum að læra af hinu liðna? Jú, svo sannarlega. Svo er það reynsla kynslóðanna að þau sem ekki þekkja og skilja sögu sína eru dæmd til að endurtaka mistök fortíðar. Hinir öfgarnir eru að þegar við lifum bara í fortíðinni og erum hætt að opna gagnvart framtíð og nútíð þá erum við deyjandi. Við þurfum að þola þá spennu að lifa í fortíð og framtíð, því sem var og því sem verður. Þegar kólfurinn er hættur að sveiflast milli framtíðar og fortíðar dofnar allt og deyr að lokum. Aftur og fram, aftur og fram er taktur kirkju og kristins manns og raunar taktur fyrir lífið.

Jesúreisan til Jerúsalem

Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíusálmunum? Ferð Jesú til Jerúsalem sem alltaf er líka lífsreisur allra einstaklinga og kynslóða. Við erum samferða Jesú. En menn voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til að hún yrði ferð til sigurs og að þeirra lið ynni og Jesús yrði þar með þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi að hlutverk hans væri annað en það sem aðdáendur hans og klapplið vildu. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús horfði aftur, þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum væri ætlað að þjóna. Aftur og fram. Ferð Jesú var ekki túristaferð. Hann var ekki í huggulegri kirkjuskoðun. Ferð hans var upp á líf eða dauða. Hann hefði getað látið undan freistingunni og forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar. Eða hvað?

Gamalt og nýtt

Í ískaldri höll erkibiskupsins, Lambeth Palace í London, héldu nokkrir fræðimenn fyrirlestra um þróun kirkjulífs í Bretlandi, ensku kirkjuna, helgihaldssögu þeirrar kirkju og kirkjusögu. Í kuldanum fór ég að velta vöngum yfir hver væri God’s frozen people, Íslendingar eða Englendingar. Margir kirkjusöfnuðir í Englandi hafa lent í miklum vandræðum þegar fólkið styður ekki starf þeirra lengur. Kirkjur hafa verið seldar. Þeim hefur verið breytt í flottar íbúðir eða skrifstofuhúsnæði. Eina kirkju hef ég séð sem var orðin að stóru bílaverkstæði. Víða hefur safnaðarfólkið gengið í sjálft sig og þorað að spyrja hvort ekki væri kominn tími til að breyta. Það er ekki nóg að eiga glæsibyggingar og að baki mikla sögu, hefð og fína texta. Ef safnaðarlífið gengur ekki verða menn að taka upp nýja stefnu og jafnvel selja kirkjuhúsin. Kirkja er ekki hús heldur fólk. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan sem kristin kirkja lifir stöðugt í og verður að þola. Þegar breytingar verða í samfélagi eiga kristnir menn að að opna dyr en loka ekki að sér í fortíðarhyggju. Það getur verið pínlegt að ganga í sig og breyta. Hvað um fortíðina? Hvað um framtíðina? Ætlum við að lifa bara í hefðinni og endurtaka það sem alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Niðurstaðan er að best sé að fortíð og framtíð samþættist. Kristnin lifir í krafti fortíðar, lítur til baka og tekur mið af sögunni og hefðinni. En hún hangir ekki bara í hinu liðna heldur horfir fram og verður að opna. Verkefni kristnins fólks er að íhuga hvernig við getum brugðist vel og með ábyrgð í verkefnum lífsins. Okkar viðbrögð spanna bæði fortíð og framtíð. Ef við erum bara annað hvort bregðumst við og erum óábyrg. Ef Jesús hefði bara lifað í fortíð hefði hann aldrei farið upp til Jerúsalem. En hann þorði. Því erum við hér í dag af því hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Aftur en líka fram. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Kannski fastar þú ekki þennan tíma en farðu inn á við og inn í þig. Er eitthvað sem eru bara leifar úr fortíð sem mega hverfa? Getur verið að nú sé komið að pistlinum í lífinu og þú snúir þér 180° og opnir líf þitt mót framtíð og guðskallinu? Til að þú getir lifað í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð. Gott líf er flétta fortíðar og framtíðar.

Sunnudagur í föstuinngangi. Jes. 50. 4–10. 1. Kor. 1. 18-25. Lúk. 18. 31-34.

Myndina tók ég blessunarkveðju á vegg höfuðkirkju Englendinga, Westminster Abbey.

Pútínlandið – ferðir á föstu

Friður sé með þér og ég segi aftur: Friður sé með þér. Nú höldum við brátt inn í föstuna. Þessi dagur er kallaður sunnudagur í föstuinngangi. Fastan í kirkjunni er tími sem hefur texta, skilaboð og umræðuefni. Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíuálmunum. Hvað var það nú aftur? Ferð Jesú til Jerúsalem, sem alltaf er líka um líf og ferðir allra einstaklinga og kynslóða. Ferðlag Jesú er okkar ferð. Okkar ferðir ganga upp í ferð Jesú til Jerúsalem. Við erum samferða Jesú. Jesús á undan og ég á eftir. Það er ferðastíll passíusálma, Nýjatestamentisins og kristninnar.

En þessi ferð var óvissuferð með mög ef, spurningar og til hvers. Lærisveinar og vinir Jesú voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til, að hún yrði ferð til sigurs, að þeirra lið ynni og Jesús yrði þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi, að hlutverk hans væri annað en það, sem margir aðdáendur hans vonuðu og klapplið vildi. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum var ætlað að þjóna. Það var hans vandi að vinna úr. Ferð Jesú var ekki túristaferð, heldur upp á líf eða dauða, líf veraldar eða enda. Hann hefði getað látið undan freistingunni, forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar – eða hvað?

Helförin

Ferðir eru mismunandi og tilgangurinn alls konar. Það vitum við og þekkjum úr okkar eigin lífi. Við verðum líka vitni að alls konar ferðum og sumar ferðir eru alls ekki góðar og enda með skelfingu. Þessa dagana hefur heimsbyggðin fylgst með skelfilegri innrás Rússa inn í Úkraínu. Það er viðburður, sem fæstir áttu von á í Evrópu 21. aldar. Úkraínumenn hafa það eitt til saka unnið að hafa aðra skoðun en einræðisherrann í nágrannalandi þeirra ætlast til að þeir hefðu. Úkraínumenn vildu auka tengsl vestur á bóginn og ganga í samtök Vestur-Evrópu og NATO. Það vildu Rússar ekki. Skoðanafrelsi er ekki virt eða viðurkennt í Rússlandi, nema menn hafi sömu skoðun og valdaklíkan sem öllu ræður. Tugir milljónir líða vegna árásar Rússa. Fjölskyldum er splundrað, konur og börn eru á vergangi. Á næstu vikum geta milljónir orðið landflótta. Hver vill stríð? Einræðisherrann í Moskvu hefur einangrast frá þjóð sinni og dælt falsfréttum í æðar stór-Rússlands. Nú hefur hann við föstuupphaf tekið ákvörðun að fara til sinnar Jerúsalem, til Kiev, og kremja réttkjörna stjórn nágrannaríkis. Hvers konar föstuferð er það? Rússar kunna að sigra einhverjar orustur, en þeir munu tapa þessu stríði því það er röng afstaða sem liggur að baki.

Réttlætanleg?

Í byrjun vikunnar kom sonur minn til mín og sagði mér frá því, að hann hefði fengið það verkefni í Menntaskólanum í Reykjavík að skrifa röksemdarritgerð. Hann mátti velja efnið og hann ákvað að meta kröfur Rússa til Úkraínumanna. Sonur minn sagðist þurfa að skilja Pútínlandið og líka afstöðu Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt, að hann veldi svo hápólitískt mál sem væri viðfang allra fjölmiðla heimsins. Svo byrjaði hann að skoða sögu Rússa og Úkraínumanna og smátt og smátt komu rökin fram með og móti. Yfirskriftin og viðfangsefnið var: Er innrás Rússa í Úkraínu réttlætanleg? Hann skilaði ritgerð sinni á miðvikudagskvöldi og nokkrum klukkutímum síðar réðust tugir þúsunda Rússa yfir landamærin og mikill fjöldi vígvéla skaut á skotmörk, sem ekki voru bara hernaðarleg heldur líka borgaraleg. Það var ljóst að lama átti innviði Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt að íhuga ritgerð sonar míns og horfa svo á stríðsmyndir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Í ritgerðinni sá ég að saga Rússa og Úkraínumanna fléttaðist saman í meira en þúsund ár. Kiev var um tíma helsta borg á svæði RUS-ættbálkanna á sama tíma og Moskva var eiginlega þorp. Enda hefur Pútín og margir Rússar talað um Kiev, höfuðborg Úkraínu, sem krúnudjásn Rússa. En þessa dagana er krúnudjásnið löðrað blóði úkraínsku þjóðarinnar. Rússar hegða sér sem illmenni er ráðast á heimili ættmenna sinna, skjóta þau og níðast á þeim. Sonur minn skoðaði rök Rússanna og hafnaði þeim og benti í ritgerð sinni á, að Úkraínumenn hafi verið fullvalda ríki, með réttkjörna stjórn, vel virkt og réttlátt stjórnkerfi og hafi gert marga alþjóðlega samninga um samskipti við Rússa. Rússar hafi brotið þessa samninga með því að ráðast inn á Krímskagann og síðar inn í austurhluta Úkraínu. Innrás væri ólögleg og brot á samningum. Ég er sammála honum og bæti við að hún er ósiðleg. Rússar hafa framið afbrot og Pútín er sekur um glæpi gegn mannkyninu.

Jesús og Pútín hafast ólíkt að. Jesús fór í friði og vildi hjálpa fólki. Ferð hans var til að leysa vanda og aðeins hann gat gert það. Engir herir, engin fórnarlömb. Hann var sjálfur farvegur friðarins. Föstuferð Pútíns er alger andstæða. Jesús fór ekki til að spilla valdi eða efna til átaka. Pútín fer með eldi og neyðir fólk til ofbeldis og hlýðni. Hann sendir fólk í dauðann og beitir ofríki gagnvart nágrönnum sínum, fullvalda frændsystkinum og drepur þau ef þau hlýða ekki túlkun hans. Jesús gerði sér grein fyrir að ferð hans til Jerúsalem gæti endað með skelfingu. Hann hafnaði að sölsa undir sig með valdi heldur fór leið friðarins. Hann var tilbúinn að fórna lífinu fyrir sannleika og réttlæti sem pólitískt vald getur aldrei nokkurn tíma tryggt eða skapað. En Pútin telur sig hafa vald til að skilgreina frelsi fólks, jafnvel fullveðja nágranna sinna. Pútínferðin er leiðangur dauðans og opinberar allt það versta í spillingu og sjálfsdýrkun manna sem hafa tapað tengslum við gildi, fegurð og frelsi fólks. Við getum skýrt Pútínatferlið með því að skoða sögu Rússlands, Sovétríkjanna og fall þeirra. Í þessari pútínsku heljarslóð er sorg og reiði en það réttlætir ekki helförina. Fall Sovét er fortíð sem Úkraína lifði líka. En Úkraína vann að sjálfstæðri framtíð sinni þrátt fyrir fortíðina. Að reyna að endurheimta fortíð leiðir oft til glæpa. Það er hin djúpa harmsaga helfarar Pútíns um lendur Úkraínu og að krúnudjásninu. Pútínæðið þarf að stoppa. Pútínlandið þarf að horfast í augu við að Sóvét er fallið. Einræði hentar ekki nútíma, allra síst óupplýst einræði. Fortíð er fortíð en framtíðin kallar á algerlega nýja lífshætti og stjórnunarhætti. Fólk Pútínlandsins og nágrannar þeirra eiga að fá að ráða lífi sínu, lifa í frelsi og taka nýja stefnu. Föstuferð Jesú er andstæða Pútínplágunnar. Jesús vildi líf en Pútín velur dauða.  

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Þessa föstu verða margar sögur sagðar. Föstuferð Jesú til Jerúsalem sem var svo sannarlega dapurleg. En niðurstaða Jerúsalemferðarinnar var að dauðinn dó en lífið lifir. Svo er harmsaga Úkraínu. Hvaða ferð ferð þú þessar næstu viukur? Fasta er dramtísk. Jesús var opinn og þorði. Hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Hann vissi að kjarni lífsins er ekki að hafa vald til að stjórna fólki, menningu og hugsun. Lífsskilningur Jesú var að gefa fólki frelsi frá mistökum, syndum og öllu sem gæti hindrað fólk til þroska, friðar og hamingju. Af þessu getum við lært. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð, sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Jesús á undan og ég á eftir, stíll guðspjallanna, andi Passíusálma, fyrirmynd fyrir okkur. Jesúreisan er til lífs. Jesúafstaðan er eflir lífið.

Á svona dramatískum tíma er gott að geta á ný gengið að borði Drottins. Þar er veisla himins og jarðar. Guð býður til þeirrar veislu og þar er allt rétt og gott. 

Lexían; Jes. 50. 4–10. Pistillinn: 1. Kor. 1. 18-25. Guðspjallið: Lúk. 18. 31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Sunnudagur á föstuinngangi, 27. febrúar, 2022. Myndin er af litríku bænatré Hallgrímskirkju og að baki er verndarengill á íkón Kristínar Gunnlaugsdóttur. Ljósmynd SÁÞ

Dekraðu nú við ástina!

„Það er gott að elska.“ syngur þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar. Í dag er Valentínusardagur og auglýsendur heimsins magna upp ástarbrímann og hvetja alla að dekra ástina. Tilboðunum rignir yfir, gistitilboð á hótel Sigló eða góðgæti á Forréttabarnum og dekur á Hópkaup til að koma elskunni á óvart. Já, Valentínusardagurinn er alls konar. En þetta er góður dagur og fyrir ástina. Hvaða ást? Alla ást; til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs, náttúrunnar og líka Guðs. Og kannski eru einhver hér í hópnum sem bara hugsa um konudaginn og mæðradaginn sem ástardaga – og sjá engan tilgang í að bæta amerískum Valentínusardegi í ástardagasafnið. En raunar eru allir dagar fyrir ástina.

Þær góðu fréttir bárust nú í vikubyrjun að nú mætti opna kirkjur. Við sungum dásamlegan sálm í byrjun þessarar guðsþjónustu. „Opnið kirkjur allar …“ Nærri hálft ár er liðið frá því að Hallgrímssöfnuður kom til sunnudags-guðsþjónustu. Það er því hátíð í dag. Hallgrímskirkja hefur vissulega verið opin. Helgistundir hafa verið í kirkjunni í hádeginu, síðustu mánuðina, lengstum sex sinnum í viku hverri. Við höfum gætt vel að sóttvarnarreglum og tryggt að þrátt fyrir stærð kirkjunnar hafi fjöldinn ekki verið meiri en reglur hafa sagt til um. Við höfum gætt fjarlægðarmarka og hætt að faðmast og kyssast. Við signum hins vegar og krossum hvert annað úr hæfilegri fjarlægð. Og við höfum beðið saman. Guð er óbundinn af sóttvarnarreglum og hefur blessað samfélag safnaðarins. En nú megum við koma saman í stærri hópum en áður. 150 manns mega vera við helgiathafnir í kirkjunni þessar vikurnar og vonandi fleiri þegar á líður. Haffi Haff, tónlistarmaður og messuþjónn kom í vikunni og hvatti til að á þessum degi minntum við okkur á kærleikann, ástina, tengslin í öllum myndum. Það er ekki bara forsetafrú vestur í Ameríku sem undirbýr Valentínusarhjörtu heldur undirbjó Haffi Valentínusarhjörtun fyrir Hallgrímskirkju og lagði Kristnýju og Kristínu lið í undirbúningi barnastarfsins. Nýr opinn tími. „Fyllum kirkjuna af ást“ sagði Haffi. Já, það er svo sannarlega opinn tími. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi.

Biblíutextar dagsins eru margræðir og fjölþættir. Yfirskrift þessa sunnudags og textanna á vef kirkjunnar er: Krossferill – vegur kærleikans. Og vissulega er það ein útgáfan af Valentínusardegi. Lifið betur og með ábyrgð er merking lexíunnar. Bætið vegi lífsins. Það er ekki verið að tala um Sundabraut eða Borgarlínu – heldur leiðir hjartans og hamingjuleiðir samfélagsins. Og pistillinn: Gætum að samfélagsmótun, uppeldi og sjálfsvirðingu. Það er ekki aðeins verið að tala í anda hinnar splunkunýju heimildarmyndar Hækkum rána sem var sýnd á sjónvarpsstöð Símans nú í vikunni heldur um hið stóra uppeldissamhengi allra manna, helgi lífsins og helgi alls sem Guð hefur gert. Uppeldi stelpna og stráka fellur undir það og hlutverk okkar allra er að vera meðskapendur Guðs, samverkafólk. Svo er texti Jóhannesar í þeim anda. Ég staldraði við eitt stef: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Það er ljóst að Jesús hafði áhyggjur. Hann óttaðist. Það eru djúpir skuggar sem hann uppteiknar í ræðu sinni um veginn, ljósið og leiðina. Og það er ástæða til að hugsa um lífið á Valentínusardegi, í ástarbríma á föstu.

Ástalífið á sér skugga og birtustundir rétt eins og lífið í öllum myndum. Þó heimsbyggðin hafi ákveðið að mannréttindi skuli virða, samþykkt barnasáttmála og sett í lög alls konar hvata, stefnur og bætur brengla fjársókn, hluthyggja, valdasókn, fíknir og aðrar útgáfur illskunnar líf einstaklinga, fjölskyldna, samfélaga, mannkyns og lífheims. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Þessa síðustu daga hafa réttarhöld staðið yfir í þinghúsinu í Washington yfir fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Ég hef verið hugsi yfir stöðu lýðræðis í heiminum eins og milljónir um allan heim. Lýðræði er æfintýraleg tilraun til félagslegs samkomulags um að allir megi koma að stjórn ríkis. En slíkt samkomulag er ekki gefið og getur auðveldlega þokað fyrir ofbeldisfullu valdi sem hrifsar taumana til sín, vill meira og helst allt. Lífið sækir fram en það mætir alltaf fyrirstöðu og lífverur þurfa að hafa fyrir lífinu. Lýðræði þarf að rækta til að það lifi. Réttarhöldin í Washington eru aðeins dæmi um lýðræðisskaða í þessu mikla lýðræðisríki og að nú er vetur lýðræðis þar vestra. Tekst að hreinsa og bæta? Kemur vor? Vonska mannanna er ekki bara í röðum Trumpistanna heldur í öllum mönnum, kennir kristnin. Okkur öllum.

„Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Ég minnist úr eigin lífi hvernig líf mitt lenti haustfrostum, fræ féllu, veturinn varð skeliflegur en svo voraði að nýju. Ekkert er sjálfgefið og hamingjan er engin fasteign sem er bundin af eignarhaldi og einkarétti. Lífið þarfnast alúðar, umhyggju, ræktunar. Við verðum að gangast við þroskaverkefnum okkar, áföllum og vaxtartímum.

Hvernig er með þitt líf? Hefur einhvern tíma gefið á? Hefur þú misst, tapað, týnt? Hefur vetrað í líf þínu. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Lífssögurnar eru alls konar og ástarsögurnar þar með líka. Á föstunni erum við minnt á að lífið er ekki sjálfgefið heldur barátta. Og við megum líka minna okkur á anda og boðskap Passíusálma og höfundar þeirra. Passíusálmarnir draga upp þá mynd að himinkonungur kom til að þjóna og að lokum með svo róttæku móti að hann lét líf fyrir aðra. Það er íhugandi hlið ástalífsins. Fastan og píslarsagan dregur upp skuggahliðar lífsins. Við erum minnt á baráttu, brenglun, illskuna sem beyglar jafnvel deyðir. Píslarsaga er ekki bara saga Jesú heldur alls lífs. Jesúsagan dregur saman alla þætti mannllífs og veraldar.

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.Við getum ímyndað okkur margt um Guð með því að skoða vel ástarsögur. Við getum skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa liðna árs, COVID-tímans? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.“ Nú er dagur ástar, dagur á föstu. Við megum næra ástina okkar. En það merkir ekki bara að dekra við fólkið okkar heldur líka okkur sjálf. Þora að horfa inn á við og huga að dýptunum.

Í Biblíunni er sagt frá lífinu í öllum myndum. Þar eru sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig. „Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“ Kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Líf okkar er köflótt en saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Viltu ástarsögu eða sorgarsögu? Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um þig.

Amen.

Lexía: Jes 57.14-15
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.

Pistill: Heb 12.9-13
Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.

Guðspjall: Jóh 12.23-36 
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra. Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“ Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja. Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist. 

Prédikun SÁÞ 14. febrúar 2021.

Jesús í lit

Hver er mynd þín af Jesú? Hvaða mynd hefur verið dregin upp í huga þér af Jesú Kristi? Er hún dapurleg eða gleðileg? Í bernsku minni þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni. Það var eins og trúin væri í bakkgír. Af hverju þessi dapurlegi stíll, dempandi og jafnvel kæfandi drungi?

Jesúsaga föstunnar er ekki beinlínis til að efla trú okkar á mannkynið. Góðmenni framselt í hendur níðinga. Jesús á leið frá heimahögum og undir hramm spillts valds. Vald fer oft illa með hið fagra og góða, einlægni og ást. “…krossfestur, dáinn og grafinn. Steig niður til heljar.” Sorgleg frásögn með gott upphaf en nístandi framhald.

Og svo hafa Passíusálmarnir hljómað eða verið lesnir, sálmar sem segja passíu – píslarsögu Jesú. Sálmarnir færðu yfirskilvitlegan drunga – að mér fannst fyrrum – yfir trúarlífið, mannlíf og kirkjuhúsin. Og ég spurði: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu og hvaða gleðifrétt er það?

Þjáningin

Þjáning hittir alla menn – þig líka. Enginn flýr sorgina. Þroskað fólk glímir við endanleika sinn og annarra. “Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta” segir í Davíðssálmum. Er trú og kristni einkum meðal gegn dauðaógn eða er trú eitthvað annað og jafnvel stórum meira?

Á föstunni fléttast saga Hallgríms og í kirkjulífið og hluta þjóðlífsins. Við höfum líklega oftúlkað Hallgrím sem píslarmann. Hann málaði harmsögur heims og fólks svo vel að líðandi Íslendingar hafa um aldir fundið til samsemdar boðbera Guðs og sjálfs sín. Sjónum hefur gjarnan verið beint að dapurlegum þáttum í lífi Hallgríms sjálfs. Hann lenti visslega í klandri og klúðraði ýmsu. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina sem ekki ætti að leggja á nokkuð foreldri. Svo varð hann fyrir þeim skelfilega sjúkdómi að rotna lifandi.

Hallgrímur í lit

En hvað um hitt? Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím, trú og kirkju? Nei, hann var í lit. Hallgrímur var skemmtilegur, eldhugi, fjölmenntaður, líklega góður pabbi og líflegur maður. Píslarmaðurinn var líka elskhugi og eftirlæti allra, sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús – sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni, gjósandi listamaður.

Og hvað svo? Passíusálmarnir fimmtíu lýsa síðustu dögum Jesú. Myndin af Jesú er af himinkonungi sem er allt annað en upphafinn. Hann er himinkonungur, en kemur til að þjóna án allrar upphafningar. Það er ástin en ekki dauðinn sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana. Jesús gekk inn í hlutverk menna til leysa þá frá vonleysi, þjáningu, lífsharmi. Áherslan er ekki á þjáningu heldur á hvað og hver megni að leysa vanda mannanna. Og það er elskandi Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Jesú er ekki lýst sem hinum örugga konungi að baki víglínu, heldur hetjunnar, sem mætir, er og fórnar sér til að sigur vinnist. Hann hlýðir, fer fram í staðfastri auðmýkt og víkur sér ekki undan baráttu og þjáningu. Hann er ekki ofurkóngurinn heldur lífsþjónninn.

Að baki myrkrinu er ljós, að baki depurðinni er gleði. Sagan er ekki um pínu heldur um lífgjöf. Passíusálmar eru ekki sjálfspíslarsálmar heldur ástarsaga – margþætt og lífstrú saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi sálmanna heyrist grunnstefið:

Guð elskar, Jesús elskar, Guð elskar – alla menn – þig.

Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er gott, lífið er elskulegt, að Guð er alltaf nærri þér – og að eftir dauða kemur líf.

Kristin trú? Er hún þér slíkt fagnaðarerindi að þú finnir gleðina ólmast innan í þér? Eða tjáir þú og upplifir trúna með einhverju öðrum og hófstilltari hætti?

Þú mátt skipta út svörtu myndinni af Hallgrími og sjá hann í lit. Hver er mynd þín af Jesú? Er hún í sauðalitunum eða laðandi litum? Klisjumyndum af svart-hvítum Jesú má henda. Og svo er það þín eigin mynd af trú. Er kominn tími til að uppfæra? Ástarsagan er sögð og lifuð vegna þín.

Höfuð, fætur, hendur, hjarta – líka magi

IMG_2024Vilborg Arna Gissurardóttir, afrekskona, fór frá Íslandi í morgun. Hún er búin að klífa sex af sjö hæstu fjallatindum heimsins. Aðeins Everestfjall er eftir. Hún ætlar á toppinn. Ég hef fylgst með Vilborgu Örnu frá því hún gekk á skíðum á Suðurpólinn. Ég dáðist að hve vel hún undirbjó þá ferð, að gildum hennar, einbeittni sem hún sýndi og hve öguð hún var. Hún stælir sinn innri mann, gætir lífsháttum og heilsu. Vilborg Arna er hetja og nú er sjöundi tindurinn eftir. Næstu vikur mun hún gæta að næringu og aðlaga líkama sinn að hæð og stilla höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magan líka! Guð geymi hana og varðveiti hana.

Um næringu

Þetta er ofurlítill inngangur að óbyggðaferð hins kristna safnaðar. Aðalsaga dagsins er af fjallaferð og frásögnin er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð þar sem lítið var um mat. Í ljós kom að ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og allir fengu það sem þeim var þörf á, líkamsfæðu, næringu fyrir anda og samhengi fyrir lífið. Fólk á ferð fékk næringu til lífs – ekki bara fyrir magann heldur líka höfuð, fætur, hendur, hjarta og samfélag.

Það eru ekki margar sögur sem öll guðspjöllin segja. En þetta er ein af þeim. Sagan er þó sögð með mismunandi móti í guðspjöllunum. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna öðru vísi en hin guðspjöllin, sem kölluð eru samstofna guðspjöllin. Einkenni Jóhannesarguðspjalls eru tvenndir sem gjarnan eru hugtakapör í spennu. Þegar minnst er á ljós er myrkur í baksviði þessa guðspjalls. Lífsáhersla þess er í andstöðu við dauða. Trú er rædd með vísan til alvöru vantrúar. Jóhannesarguðspjall er dramatískt og tilgangurinn sá að beina sjónum fólks til Jesú sem lausnara lífsgátunnar – að hann er ljós í myrkri, „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Næring

Rauður þráður í textum dagsins er næring – og næring er það sem menn og mannlíf þarfnast til að lífið sé gott. Næring er það sem viðheldur lífi mannsins og eflir. Ekki einungis líkamlega, heldur einnig andlega. Gef oss í dag vort daglegt brauð … minnir á að næringin þarf að vera stöðug.

En hvers þörfnumst við til að við lifum í samræmi við gerð okkar og þarfir? Brauð og fiskur, líkamsfæðan, er aðeins eitt af því sem er okkur lífsnauðsyn. Í enskumælandi heimi er stundum talað um primary food og secondary food, grunnfæði og annað fæði.

Hver heldur þú að sé frumfæða hvers manns? Alveg í samræmi við boðskap Jesú: „Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði einu…“ Frumfæða manneskjunnar er ekki fiskur eða brauð, heldur það sem nærir dýptir og eflir hamingjuna.

Frumfæða – fyrsti flokkur fæðunnar eru tengsl við fólkið okkar og ástvini. Enginn lifir aleinn og bara fyrir sjálfan sig. Enginn lifir nema í samhengi við aðra. Í öðru lagi er hreyfing. Við þörfnust þess að líkami okkar njóti hreyfingar. Við þurfum ekki að fara allt í bíl eða sitja í stól alla daga en við þörfnumst áreynslu til að líkama okkar líði vel. Svo er þriðji þátturinn – vinnulífið. Gleði í starfi er nauðsyn. Fjórði þátturinn er andlega lífið. Ef dýpstu lífsþættirnir eru í óreiðu berst vanlíðan til alls annars.

Frumfæða mennskunnar eru þessir fjórir flokkar – ástvinatengsl, hreyfing, vinnulíf og andans rækt. Til að minna okkur á þessa þætti getum við þulið: Höfuð, fætur, hendur hjarta. Höfuð fyrir tengsl við fólkið, fætur fyrir hreyfingu, hendur fyrir störfin, hjarta fyrir andlega miðju okkar, andann. Höfuð – fætur – hendur – hjarta. Og svo myndast við hreyfinguna kross!

Hvernig er með tengsl þín við fólkið þitt? Einhverjar hömlur eða festur? Hvernig gengur þér að hreyfa þig? En vinnulífið eða störfin þín: Er allt í lagi með það – eða má bæta? Og hvernig gengur þér með ástarsambandið við Guð? Ertu í klemmu eða vanda í einhverju? Ertu að reyna að leysa málin með trixum og yfirborðsaðferðum?

Höfuð – fætur – hendur – hjarta – og svo bætist við magi. Líkamsfæðið er okkur nauðsyn líka. En það skiptir máli hvað við setjum ofan í okkur. Það getur orðið til lítils að njóta góðs frumfæðis ef líkamsfæðið er rusl. Og margt í nútímafæði verður ekki til blessunar heldur bölvunar af því það er í óhófi.

Þú lifir til að vera hamingjusamur eða hamingjusöm. Guð hefur skapað þig þannig. Hvers þarfnastu? Súrefnis, vatns og líkamlegrar næringar. Já, en líka andlegrar næringar og félagslegrar líka. Þú hefur gott af viðurkenningu, að einhver sjái þig og meti. Og þú þarfnast þess að vinna þín og störf þín séu gæfuleg og gefandi. Þú þarfnast margs konar næringar til að lifa vel og með hamingju.

Fjallaferð

Vilborg Arna er á ferð á hæsta fjall jarðarkúlunnar. Og nokkrir Íslendingar hafa þegar farið á tindinn m.a. Leifur Örn Svavarsson sem býr hér í sókninni okkar.

Fjallamaðurinn Jon Krakauer skrifaði einu sinni metsölu- og háfjallabókina Into thin air. Það er merkileg bók sem segir frá hræðilegum slysaleiðangri á Everest-tind árið 1996. Súrefni og andnauð komu við sögu. Öll, sem hafa kynnt sér fjallamennsku, vita að á hæstu tindum er súrefni ekki sjálfgefið eða auðfengið.

Krakauer segir m.a. frá Andy Harris sem komst á toppinn. En hann var of lengi uppi og lenti í súrefnisnauð á niðurleið. Harris hafði samband við tengla sína í neðar í fjallinu og sagði þeim frá vandanum og að hann hefði séð súrefniskúta sem aðrir fjallamenn hefðu skilið eftir. En hann hélt að þeir væru allir tómir. Hin, sem þegar höfðu farið niður og séð kútana, vissu hins vegar að þeir voru allir fullir af súrefni. Þeir báðu því Harris að nota súrefnið sér til bjargar. En hann trúði þeim ekki og það var honum til tjóns og dauða. Vegna súrefnisskorts vann heili hans ekki sem skyldi. Hann kvartaði yfir skortinum en var ófær um að nota það sem var þó innan seilingar og hefði bjargað honum. Það sem maðurinn hafði nærri var fjarri vitund hans. Súrefnisnauðin brenglaði dómgreind Harris og hann lét lífið.

Þetta er sláandi saga um mistök sem kostuðu líf. Sagan varð mér táknsaga um mannlíf og mikilvægi þess að bregðast rétt við og með góðri dómgeind. Sagan minnir okkur á að menn geta tapað lífi þegar aðstæður eru rangtúlkaðar. Hvað verður okkur til næringar? Hvað verður okkur til góðs? Hvers þörfnumst við með til að lifa vel?

Jesús gefur lífið

Jesús segir: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús gefur lífið – að hann sé forsenda lífs og næring þess lífs.

Og við erum hinn stóri hópur mannkyns á fjalli lífsins. Hvað verður til góðs? Viltu þiggja næringuna sem Jesús Kristur blessar og öll gæðin sem hann gefur þér? Finnur þú til þarfar en trúir ekki að súrefni sé á tönkunum við hlið þér? Trúir þú ekki ráðgjöfum þínum sem segja þér, já biðja þig, að nota það sem er við hendi? Tjáir þú bara vöntun þína og er dómgreind þín að bresta vegna skorts þíns? Eða tekur þú við blessuninni þér til lífs. Trúin er í þágu fjallaferða lífsins – súrefni til bjargar. Höfuð, fætur, hendur, hjarta – og magi – og allt í kross.

Amen.

Prédikun 4. sunnudag í föstu, 30. mars, 2014. A-textaröð.