Greinasafn fyrir merki: ást

Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókinaAppelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.

Stríð, börn, eldgos og ást

Ávarp dr. Sigurvins Lárusar Jónssonar á örþingi í Neskirkju 11. nóvember 2023. Mynd/sáþ var tekin á vígsludegi Sigurvins 11. maí 2011. 

Góðu vinir, það er mér heiður að fá að tala hér í dag um ástina.

Sigurvin Lárus Jónsson heiti ég og er vinur Sigurðar Árna, áhugamaður um ástina, prestur og fræðimaður á sviði Nýja Testamentisins.

Ástin er það eina sem skiptir máli í lífinu, svo einfalt er það. Ást er það sem skapar okkur; án ástar kemst ekkert ungabarn til eðlilegs líkamlegs þroska, það hefur sár reynsla kennt okkur; án ástar kemst enginn unglingur til manns; og án ástar er engin fullorðin manneskja farsæl. Ástin er okkur allt.

Þetta orðar Sigurður Árni í þessari nýútkomu bók í umfjöllun sinni um trúarjátningu, kjarna þess sem kristnir menn deila og miðla, er hann segir „Trúarjátning … tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og safnaðarsöng í helgihaldi er trú játuð með tjáningu sem er svipuð og tjáningar ástfangins fólks sem hvíslar ástarorð í eyra hins elskaða. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hver annan með orðum elskunnar. Almætti snýst ekki um mátt heldur ást. Í trúarjátningunni mætti því allt eins orða: Ég trúi á alelskandi Guð.“ (bls. 73).

Sem prestur hef ég aldrei upplifað ástvini í sorgarhúsi leggja áherslu á það sem við höldum á lofti sem forgangsatriðum í fjölmiðlum, að græða fé, finna frægð eða öðlast frama. Nei, fólkið sem stendur næst, þeim sem kveður, ræðir einungis ást, og því miður á stundum skorti á ást. Ástin er okkur allt, annað er eftirsókn eftir vindi.

Ég er þakklátur fyrir þessa bók, kæri Sigurður Árni; sem vinur, en ég samgleðst þér að hafa kjarnað og miðlað þá prédikun um ástina sem þú hefur haldið á lofti í starfi þínu og lífi; sem prestur, því hér er komið út verkfæri sem prestar geta sótt í, nýtt skapalón fyrir prédikun inn í samtímann; og síðast en ekki síst sem fræðimaður.

Og nú langar mig að setja bókina í fræðilegt samhengi þess fags sem ég tilheyri, ritskýringu. Sigurður Árni er eins og þið vitið trúfræðingur, menntaður við einn fremsta háskóla Bandaríkjanna, Vanderbilt, en hann skrifaði doktorsritgerð um það sem okkur liggur á hjarta sem Íslendingar, Líf og mæri: Liminality in Icelandic religious tradition. Þar er á ferðinni greining á íslenskri guðfræði, sem mótast af því að búa í og á síkviku landi. Trúfræði sem er ekki einungis akademískar æfingar, heldur guðfræði sem getur gagnast með beinum hætti við þessa atburði sem nú eiga sér stað við Grindavík. Hagnýt guðfræði þjóðar sem býr á eldfjallaeyju, þar sem er allra veðra von.

Bókin þín núna er að sama skapi hagnýt guðfræði, guðfræði ástarinnar annarsvegar og aðferðafræði prédikunarinnar hinsvegar. Það sem ég vil sem biblíufræðingur minna á er að öll hagnýt guðfræði byrjar á lestri Biblíunnar.

Það orðar Sigurður Árni undir yfirskriftinni „Að lífga heiminn“; er hann segir: „Þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja helga texta. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita.“ (bls. 96).

Þessi deigla Biblíunnar birtist með beinum hætti í orðræðu Biblíunnar um ástina. Jesús sagði „elska skaltu“, og er þar að vinna með hefðina, Þriðju Mósebók: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (3M 19.18). Páll hinsvegar setur ástina, agape, á oddinn og endurskilgreinir hugtakið sem útgangspunkt sinnar guðfræði. Sá kærleikur sem við hittum fyrir í óði Páls til kærleikans er nýr í hugmyndasögunni, þó hann byggi sannarlega á hefðum Biblíunnar og arfleifð Krists.

Öllum fræðilegum erindum ber að hafa rannsóknarsögu og þar legg ég til, Nygren, Wischmeyer og Sigurð Árna Þórðarson.

Anders Nygren eiga allir guðfræðingar að þekkja en hann var sænskur prestur, trúfræðingur, prófessor í Lundi og síðar biskup. Nygren sagði grískuna eiga tvö hugtök yfir ástina og dró skörp skil á milli þeirra, eros væri hin kynferðislega, eigingjarna ást, skilyrtum háð og jafnvel duttlungum, á meðan að agape væri hinn kristni kærleikur, sem er gefandi og fórnandi og byggir á skilyrðislausri ást Guðs til mannanna. Bók hans Eros och Agape kom út í tveimur hlutum 1930 og 1936 og var tímamótaverk, en er jafnframt barn síns tíma. Mynd hans af eros endurspeglar ekki með trúverðugum hætti grísk/rómverska menningu og skilin sem hann dró á milli eros og agape er hvergi að finna í Nýja testamentinu – eros er hvergi að finna í Nýja testamentinu. Það sem hann gerði vel er að gera kærleikanum skil sem kjarnaatriði kristinnar guðfræði.

Þá að Oda Wischmeyer. Prófesorinn minn er þýsk, heitir Eva-María, og í Þýskalandi eignast maður foreldra í fræðunum, hún er mín doktormutter. Oda þessi er með sömu skilgreiningu amma mín, fyrrum prófessor í Erlangen, heiðursdoktor frá Lundi, og fyrsti biblíufræðingurinn til að skrifa bók um agape síðan Nygren, á 90 árum – hugsið ykkur. Bók hennar Love As Agape: The Early Christian Concept and Modern Discourse frá 2021 rekur hugtakið frá grikkjum og gyðingum, til Páls, og þaðan í gegnum menningarsöguna og segir tvennt: annarsvegar að Páll sé einstakur í notkun sinni á agape og hinsvegar, sem engum kemur á óvart, að Ástin, trú og tilgangur lífsins eru samofin. Það er sem er óvenjulegt við agape hugtakið hjá Páli er að ástin, kærleikurinn, er svarið við öllum spurningum okkar – bókstaflega. Þau sjö bréf sem við eigum varðveitt frá Páli eru rituð á þeim forsendum að Páll er að bregðast við vanda eða átökum sem eiga sér stað í samfélaginu. Vandanum er oft lýst með nákvæmum hætti, flokkadrættir, tilvistarótti og átök manna á milli, en svör Páls eru ekki nákvæm, hann leysir aldrei vanda, bendir einungis á kærleikann – agape.

Hvaða kærleika? Í bókinni Ástin, trú og tilgangur lífsins, segir Sigurður Árni Þórðarson „Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður.“ (bls. 26) og hann lýsir ástaróði Páls í samaburði við kónginn: „„Það er gott að elska,“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. … „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi,“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar“ (bls. 63).

Ef ég hefði byrjað þessa ræðu á orðunum, ‚við stöndum nú á tímamótum‘,væri það sígilt stef. Við stöndum alltaf á tímamótum og frammi fyrir erfiðum áskorunum, stríð, hamfarir mannleg eymd.

Hvernig leysum við stríð – með ást!

Hvernig bregðumst við við eldgosi – með ást!

Hvernig ölum við upp börn, höldum í maka, réttum af samfélagslegt óréttlæti, fyrirgefum misgjörðir, stöðvum hnatthlýnun og bindum enda á fátækt – með ást.

 

Ástin, kærleikurinn, eros og agape, eru eina leiðin áfram og eina leiðin til að lifa.

 

„Hver er áhersla prédikana í þessari postillu? Mér hefur þótt vestræn menning vera ástarskert. Heimspeki og mannvísindin almennt eru ekki ástarleitandi greinar. Djúpboðskapur kristninnar er um elsku Guðs og ástarsókn manna en oft kalla hörmungar, samfélagsmál, stríð og önnur stórmál á kirkjuræður um heldur ástarrýr stef. Í lífi og starfi hef ég sannfærst um að ástin er grunnstef trúar, lífs, siðferðis og Guðs. „Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. Ég hef horft í augu á fjölda fólks sem tjáir djúpa ást. Aðrir hafa talað um ástarþrá. Ástarsögur fólks hafa heillað mig. Svo eru harmsögur fólks stundum skuggalegar ástarsögur. Á bak við ástarsögur heimsins og okkur öll er ástarsaga Guðs.“ (bls. 415)

 

Takk Sigurður Árni fyrir að orða það og boða til þjóðarinnar með Ástin, trú og tilgangur lífsins.

 

Sigurvin Lárus Jónsson, vinur, prestur, fræðimaður.

Rannsókn á lygi – og ást

Hvað gerist þegar fals mótar sál og samfélag? Hvernig verpist veruleikinn þegar lygin tekur yfir? Hvernig farnast fólki þegar það er kramið af kerfisvaldi sem aðeins leyfir eina túlkun og eina skipan veraldar – en ekki fjölbreytileika?

Ekki gleyma mér er minningabók Kristínar Jóhannsdóttur sem fjallar um þessi stóru stef. Í bókinni rifjar hún upp námstíma sinn í klofnu Þýskalandi, í Freiburg, Leipzig og Berlín. Námstími erlendis er jafnan umbrotatími í lífi fólks og var í lífi Kristínar mjög dramatískur. Hún segir frá námsgreinum sem hún stundaði. Samanburður á menntunaráherslum báðum megin járntjalds er athyglisverður. Kristín teiknar upp pólitík og með sérlega athyglisverðum hætti samfélagsgerð hins kommúníska þjóðfélags. Svo læðist ástin og tengslin við fólk á milli lína og litar allar blaðsíður Ekki gleyma mér. Þrá, miklar tilfinningar, snerting, unaður, eftirsjá, sorg koma við sögu.  

Það sem snart mig m.a. í bók Kristínar er líf í lygi. Ekki lygi einstaklingsins heldur samfélagi lyganna sem síðan gerir fólk falskt. Samfélagið í Stasi-landinu austan járntjalds var hræðilegt kúgunarsamfélag. Fólkið var alls konar en samfélagsgerðin var á kostnað lífsgæða og lífshamingju. Allir sem bjuggu austan tjalds voru hugsanlega njósnarar. Tortryggnin læddist því um. Ástin var full af grun um svik. Óttinn við fals var alltaf með í för og alls staðar. Lífið var hamið í samfélagi lyganna. Lygasamfélag varð harmafélag og tilfinningalegt sóunarfélag. Samfélagsgerðin bjó til sorgbitið fólk. Barnið dó en hefði mátt lifa. Líf hefði geta orðið hamingjuríkt en grunsamfélag lyginnar hindraði. Bók Kristínar Jóhannsdóttur Ekki gleyma mér er heillandi og vel skrifuð minningabók sem opnar margar gáttir. Opinská úrvinnsla höfundar er trúverðug. 

Við reynum öll að vinna úr aðstæðum, tengslum, tilfinningum og stöðu í samfélagi. Við veljum og stundum úr óljósum kostum í flóknum aðstæðum. En líf í lygi er líf í álögum og leiðir til óhamingju og áfalla. Stasilandið var vont samfélag fólks og það féll. Ekkert samfélag er fullkomið en okkar er skyldan að beita okkur fyrir að þjóðfélag og samfélagsgerð þjóni sem flestum og tryggi möguleika fólks til að elska, tengjast, vinna, menntast og nýta hæfni og gáfur sem best. Samfélag er félag um það sem við eigum saman; gildi, mennsku, menningu, frelsi og ábyrgð. Stasilandið féll en skammsýnir villumenn reyna gjarnan að búa til eigin hömlulönd, hvort sem það er Pútínland, Trumpland, XI-land, ofbeldisfjölskylda á Akureyri eða meðvirknisfjölskylda í Hlíðunum. Ástin fæddist í Stasilandi en veslaðist upp og dó. Ástin lifnar alls staðar þar sem fólk er og á að fá að dafna, nærast og lifa.

Kristín Jóhannsdóttir: Takk fyrir heiðarleikann og þar með merkilega bók sem vekur marga þanka um dásemdir lífsins.

Meðfylgjandi mynd er af forsíðu bókarinnar. 

Ég talaði um Stasilandið í prédikun fyrir nokkrum árum og hægt að nálgast ræðuna að baki þessari smellu.

Guðsvirðing, mannvirðing og elskan

Ég las bókina Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur þegar hún kom út. Fyrir nokkrum dögum var ég búinn að hlusta á sögu á Storytel – reyndar Stóra bróður – og leitaði að nýrri bók til að hlusta. Þá datt ég inn á Eyland og byrjaði að hlusta á höfundinn lesa. Þá mundi ég hver ég hafði heillast af bókinni en gerði mér líka grein fyrir því líka að ég hafði gleymt mjög mörgu í flækju og framvindu sögunnar. Ég var búinn að gleyma hve sagan byrjar vel og að hún grípur föstum tökum. Svo ég hélt áfram að hlusta og datt að nýju inn í þessa heillandi framvindu. Ég dáðiist að ritfærni Sigríðar og myndrænum stíl. Ég heillaðist að nýju af hugmyndaauðgi og dýpt sögunnar.Vá, hvílík rosasaga.

Í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins og engin skip heldur. Þær flugvélar og skip sem fara koma ekki aftur. Ekkert er vitað um afdrif þeirra. Öll fjarskiptasamskipti rofna, allir strengir óvirkir og radíómatörarnir ná engu sambandi heldur. Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað varð eða verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma sem leiddi til algers kerfishruns. Eyland er lítil bók um risastóra hugmynd. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða kraftur, siðferði og seigla býr í menningunni? Eyland lýsir vel hvernig kerfi vernda líf en líka hve stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menning er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorðin

Lexía dagsins varðar það sem varnar að frumskógarlögmálin taki yfir og hinn sterki drepi allt og sé hinn eini sem lifi af. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði reynt langvarandi kerfishrun. Slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og hryllilega reynslu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á fjalli á Sínaískaga. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur erueinfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kom í hinum fornu samfélögum á undan ritun. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin meðal okkar valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Þjóðfélag byggir á sáttmála sem er auðvelt að flekka og eyðileggja. Menning er þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Hegðunarreglurnar sem við köllum boðorð urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, landbúnað og samskipti innbyrðis sem og við aðrar þjóðir. Þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, fontur hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notið þessar speki viðuppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hafði áhrif á mannréttindalöggjafar sem varðar vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga heldur einnig bera virðingu fyrir djúpgildum menningar og heimsins. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Guðsvirðing og mannvirðing

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að færa gamalt efni í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra – og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum er það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvernd og manngildi. Þar er mannvirðingin tjáð – að við eigum að virða og elska fólk – alla. Kærleiksboð Jesú er um guðsvirðingu og mannvirðingu – þetta tvennt fer saman. Og ástin – elskan sem tengir.

Kærleiksboðið í krossinum

Krossar heimsins minna á það sama – á tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin við Guð. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Náungi okkar er allt sem við berum ábyrgð á. Vald manna er orðið svo mikið að mannkyn ber líka ábyrgð á lífríki heimsins. Náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið – en ekki aðeins um þig, heldur um fólk, mannkyn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim og náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla annarrar Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, Gyðingdómi og Islam. Þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: „Ég er Drottinn guð þinn” er aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er – líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fornöld. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við fólkið sitt við kvöldverðarborðið. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí til að hafa hátt um sið og reglur heldur vera Guðs. Að vera Guðs er að elska. Það er mál fyrsta boðorðsins. Afleiðing þess að elska Guð er að lifa í þeirri elskuafstöðu til lífsins og leggja lífinu lið. Það er mál seinni orðanna og hindrar kerfishrun – að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða – það er hin kristna staða og líf.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2023.

Saknaðarilmur

Hvernig er lyktin af sorg og látinni móður? Hvernig er lyktin af ást? Saknaðarilmur er saga Elísabetar Jökulsdóttir og er um móðurmissi og tilfinningar og minningar sem vakna við uppgjör og úrvinnslu. Sagan teiknar upp flóknar persónur dóttur og móður og hvernig þær lifðu og höfðu víxlverkandi áhrif á hvora aðra. Sagan er átakanleg frásögn um sorgardýptir og blæbrigði. Saknaðarilmur hreif mig. Hún tjáir að höfundur hefur unnið með vanda sinn og náð sátt. Þetta er átakanleg bók en líka hrífandi uppgjör sem allir geta lært af.

Í Saknaðarilmi gerir dóttir upp við móðurina, gjafir hennar, umhyggju en líka hörku og kulda í samskiptum. Myndin sem Elísabet dregur upp af móður sinni er mótsagnakennd. Harkan í samskiptum þeirra særir en ástarleitin hrífur. Stundum er elskan harðhent og jafnvel ofbeldisfull. Andstæður persónu móðurinnar ríma síðan í túlkun á þverstæðum í persónu Elísabetar. Sannleikurinn í samskiptum þeirra var ekki einnar víddar heldur marglaga.

Mikill hraði er í málsmeðferð og stiklað er á milli tíða og skoðunarefna. Sumir kaflarnir eru aðeins nokkrar línur en aðrir lengri. Flestir ljóðrænir og merkingarþrungnir og sumir expressjónískir. Saman teikna þessi kaflabrot mynd  af erfiðum uppvexti, áföllum, misskilningi, baráttu, gjafmildi, hæfileikum, harðræði, misþroska, sálarkreppum, margræðum persónum í samskiptum og svo öllu hinu venjulega líka.

Saknaðarilmur er líka saga um hvernig áföll hafa kreppt að fólki og lemstrað. Herpt fólk á erfitt með að rækta ást og þegar allur tími og athygli fer í að bregðast stöðugt við nýjum vanda vorar seint. Ástarteppa eða ástarherpingur er slæmur uppvaxtarreitur hamingjunnar.

Saga Elísabetar tjáir með mikilli einlægni harkalega reynslu og kreppt samband móður og dóttur. Bókin er ekki aðeins vel skrifað bókmenntaverk heldur ljómandi samtalsefni fyrir fólk sem hefur áhuga á samskiptum kynslóða og menningu fjölskyldna. Svo er bókin merkilegt rit um framvindu sorgar og hvernig má vinna með og jafnvel græða kalbletti sálarinnar. 

Ég velti vöngum yfir hvernig erfið lífsbarátta mótar fólk og jafnvel afmyndar. Fátæka Ísland bjó til krumpað fólk sem skilaði herpingi aldanna áfram til framtíðarkynslóða. Syndir mæðra og feðra bárust og berast áfram, ekki bara í erfðamengi heldur líka í menningu fjölskyldna, ætta og þjóða. Barátta Íslendinga við fátækt skilaði fátækt í samskiptum, fáum faðmlögum og fátækt í ástartjáningum. En þrátt fyrir allt er manneskjan mesta undrið og elskan leitar upp í okkur öllum. Þá ilmar.