Greinasafn fyrir merki: ást

Pabbinn hágrét

Þau eru bæði kínversk en völdu að ganga í hjónaband í hliði himins á Skólavörðuholti. Þau sögðu sín já af lífs og sálar kröftum. Pabbi brúðarinnar hágrét og táraflóðið var svo mikið að ég íhugaði að gera hlé á athöfninni. En hann harkaði af sér og við töluðum svo saman eftir athöfnina. Þá kjarnaðist kínversk saga seinni hluta tuttugustu aldar og þessarar líka. Brúðurin glæsilega var eina barn þeirra hjóna, þau fengu ekki að eiga fleiri. Þar var ein af táralindum pabbans. Nú var hún að játast sínum elskulega manni. Þungi sögunnar og lífstilfinninganna féllu á hinn grátandi sem elskaði dóttur sína og óskaði henni svo sannarlega að verða hamingjusöm með manni sínum. En nú var hún farin, tíminn breyttur og ekkert annað barn heima. Skilin urðu, fortíðin var búin, æskutíminn, dótturtíminn, ástartíminn. Mér komu ekki á óvart tilfinningar hjónanna nýblessuðu en hinar miklu tilfinningar föðurins urðu sem gluggi að Kínavíddunum. Voru fleiri ástæður táranna og ástarinnar? Spurningarnar þyrluðust upp. Höfðu jafnvel fleiri börn fæðst en tapast foreldrunum? Í tárum pabbans speglaðist ekki aðeins harmur hans heldur tuga og jafnvel hundruða milljóna sem fengu ekki að ráða ráðum sínum eða fjölskyldumálum vegna yfirgangs skammsýnna stjórnvalda (og auðvitað velmeinandi). Við mannfólkið elskum og missum – með mismunandi móti – og mikið er mannlífið stórkostlegt á dögum tára en líka hláturs.

Elskhugi veraldar

Guðsmyndir manna eru tjáning á þrá og oft klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guðstjáning er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika manna. Valdasæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd og hrylling. Þeir búa til sinn guð sem er alls ekki guð kristninnar. Gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig guð væri hræðilegur. Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Sá guð væri fáránlegur. Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af okkur og veröldinni í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og nálægur í gleði og böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég elska þig og er með þér og nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en auðmýkt fyrir valdi. Frelsi einkennir heilbrigt ástarsamband og einnig guðssamband. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð er ekki eins og yfirvald í efnaverksmiðju heldur skapar kjöraðstæður. Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi heldur er andlegt fang og stuðningur til hjálpar. Guðstengslin eru frelsistengsl.

Úr bókinni Ást, trú og tilgangur lífsins.

Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.

Stríð, börn, eldgos og ást

Ávarp dr. Sigurvins Lárusar Jónssonar á örþingi í Neskirkju 11. nóvember 2023. Mynd/sáþ var tekin á vígsludegi Sigurvins 11. maí 2011. 

Góðu vinir, það er mér heiður að fá að tala hér í dag um ástina.

Sigurvin Lárus Jónsson heiti ég og er vinur Sigurðar Árna, áhugamaður um ástina, prestur og fræðimaður á sviði Nýja Testamentisins.

Ástin er það eina sem skiptir máli í lífinu, svo einfalt er það. Ást er það sem skapar okkur; án ástar kemst ekkert ungabarn til eðlilegs líkamlegs þroska, það hefur sár reynsla kennt okkur; án ástar kemst enginn unglingur til manns; og án ástar er engin fullorðin manneskja farsæl. Ástin er okkur allt.

Þetta orðar Sigurður Árni í þessari nýútkomu bók í umfjöllun sinni um trúarjátningu, kjarna þess sem kristnir menn deila og miðla, er hann segir „Trúarjátning … tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og safnaðarsöng í helgihaldi er trú játuð með tjáningu sem er svipuð og tjáningar ástfangins fólks sem hvíslar ástarorð í eyra hins elskaða. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hver annan með orðum elskunnar. Almætti snýst ekki um mátt heldur ást. Í trúarjátningunni mætti því allt eins orða: Ég trúi á alelskandi Guð.“ (bls. 73).

Sem prestur hef ég aldrei upplifað ástvini í sorgarhúsi leggja áherslu á það sem við höldum á lofti sem forgangsatriðum í fjölmiðlum, að græða fé, finna frægð eða öðlast frama. Nei, fólkið sem stendur næst, þeim sem kveður, ræðir einungis ást, og því miður á stundum skorti á ást. Ástin er okkur allt, annað er eftirsókn eftir vindi.

Ég er þakklátur fyrir þessa bók, kæri Sigurður Árni; sem vinur, en ég samgleðst þér að hafa kjarnað og miðlað þá prédikun um ástina sem þú hefur haldið á lofti í starfi þínu og lífi; sem prestur, því hér er komið út verkfæri sem prestar geta sótt í, nýtt skapalón fyrir prédikun inn í samtímann; og síðast en ekki síst sem fræðimaður.

Og nú langar mig að setja bókina í fræðilegt samhengi þess fags sem ég tilheyri, ritskýringu. Sigurður Árni er eins og þið vitið trúfræðingur, menntaður við einn fremsta háskóla Bandaríkjanna, Vanderbilt, en hann skrifaði doktorsritgerð um það sem okkur liggur á hjarta sem Íslendingar, Líf og mæri: Liminality in Icelandic religious tradition. Þar er á ferðinni greining á íslenskri guðfræði, sem mótast af því að búa í og á síkviku landi. Trúfræði sem er ekki einungis akademískar æfingar, heldur guðfræði sem getur gagnast með beinum hætti við þessa atburði sem nú eiga sér stað við Grindavík. Hagnýt guðfræði þjóðar sem býr á eldfjallaeyju, þar sem er allra veðra von.

Bókin þín núna er að sama skapi hagnýt guðfræði, guðfræði ástarinnar annarsvegar og aðferðafræði prédikunarinnar hinsvegar. Það sem ég vil sem biblíufræðingur minna á er að öll hagnýt guðfræði byrjar á lestri Biblíunnar.

Það orðar Sigurður Árni undir yfirskriftinni „Að lífga heiminn“; er hann segir: „Þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja helga texta. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita.“ (bls. 96).

Þessi deigla Biblíunnar birtist með beinum hætti í orðræðu Biblíunnar um ástina. Jesús sagði „elska skaltu“, og er þar að vinna með hefðina, Þriðju Mósebók: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (3M 19.18). Páll hinsvegar setur ástina, agape, á oddinn og endurskilgreinir hugtakið sem útgangspunkt sinnar guðfræði. Sá kærleikur sem við hittum fyrir í óði Páls til kærleikans er nýr í hugmyndasögunni, þó hann byggi sannarlega á hefðum Biblíunnar og arfleifð Krists.

Öllum fræðilegum erindum ber að hafa rannsóknarsögu og þar legg ég til, Nygren, Wischmeyer og Sigurð Árna Þórðarson.

Anders Nygren eiga allir guðfræðingar að þekkja en hann var sænskur prestur, trúfræðingur, prófessor í Lundi og síðar biskup. Nygren sagði grískuna eiga tvö hugtök yfir ástina og dró skörp skil á milli þeirra, eros væri hin kynferðislega, eigingjarna ást, skilyrtum háð og jafnvel duttlungum, á meðan að agape væri hinn kristni kærleikur, sem er gefandi og fórnandi og byggir á skilyrðislausri ást Guðs til mannanna. Bók hans Eros och Agape kom út í tveimur hlutum 1930 og 1936 og var tímamótaverk, en er jafnframt barn síns tíma. Mynd hans af eros endurspeglar ekki með trúverðugum hætti grísk/rómverska menningu og skilin sem hann dró á milli eros og agape er hvergi að finna í Nýja testamentinu – eros er hvergi að finna í Nýja testamentinu. Það sem hann gerði vel er að gera kærleikanum skil sem kjarnaatriði kristinnar guðfræði.

Þá að Oda Wischmeyer. Prófesorinn minn er þýsk, heitir Eva-María, og í Þýskalandi eignast maður foreldra í fræðunum, hún er mín doktormutter. Oda þessi er með sömu skilgreiningu amma mín, fyrrum prófessor í Erlangen, heiðursdoktor frá Lundi, og fyrsti biblíufræðingurinn til að skrifa bók um agape síðan Nygren, á 90 árum – hugsið ykkur. Bók hennar Love As Agape: The Early Christian Concept and Modern Discourse frá 2021 rekur hugtakið frá grikkjum og gyðingum, til Páls, og þaðan í gegnum menningarsöguna og segir tvennt: annarsvegar að Páll sé einstakur í notkun sinni á agape og hinsvegar, sem engum kemur á óvart, að Ástin, trú og tilgangur lífsins eru samofin. Það er sem er óvenjulegt við agape hugtakið hjá Páli er að ástin, kærleikurinn, er svarið við öllum spurningum okkar – bókstaflega. Þau sjö bréf sem við eigum varðveitt frá Páli eru rituð á þeim forsendum að Páll er að bregðast við vanda eða átökum sem eiga sér stað í samfélaginu. Vandanum er oft lýst með nákvæmum hætti, flokkadrættir, tilvistarótti og átök manna á milli, en svör Páls eru ekki nákvæm, hann leysir aldrei vanda, bendir einungis á kærleikann – agape.

Hvaða kærleika? Í bókinni Ástin, trú og tilgangur lífsins, segir Sigurður Árni Þórðarson „Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður.“ (bls. 26) og hann lýsir ástaróði Páls í samaburði við kónginn: „„Það er gott að elska,“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. … „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi,“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar“ (bls. 63).

Ef ég hefði byrjað þessa ræðu á orðunum, ‚við stöndum nú á tímamótum‘,væri það sígilt stef. Við stöndum alltaf á tímamótum og frammi fyrir erfiðum áskorunum, stríð, hamfarir mannleg eymd.

Hvernig leysum við stríð – með ást!

Hvernig bregðumst við við eldgosi – með ást!

Hvernig ölum við upp börn, höldum í maka, réttum af samfélagslegt óréttlæti, fyrirgefum misgjörðir, stöðvum hnatthlýnun og bindum enda á fátækt – með ást.

 

Ástin, kærleikurinn, eros og agape, eru eina leiðin áfram og eina leiðin til að lifa.

 

„Hver er áhersla prédikana í þessari postillu? Mér hefur þótt vestræn menning vera ástarskert. Heimspeki og mannvísindin almennt eru ekki ástarleitandi greinar. Djúpboðskapur kristninnar er um elsku Guðs og ástarsókn manna en oft kalla hörmungar, samfélagsmál, stríð og önnur stórmál á kirkjuræður um heldur ástarrýr stef. Í lífi og starfi hef ég sannfærst um að ástin er grunnstef trúar, lífs, siðferðis og Guðs. „Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. Ég hef horft í augu á fjölda fólks sem tjáir djúpa ást. Aðrir hafa talað um ástarþrá. Ástarsögur fólks hafa heillað mig. Svo eru harmsögur fólks stundum skuggalegar ástarsögur. Á bak við ástarsögur heimsins og okkur öll er ástarsaga Guðs.“ (bls. 415)

 

Takk Sigurður Árni fyrir að orða það og boða til þjóðarinnar með Ástin, trú og tilgangur lífsins.

 

Sigurvin Lárus Jónsson, vinur, prestur, fræðimaður.

Rannsókn á lygi – og ást

Hvað gerist þegar fals mótar sál og samfélag? Hvernig verpist veruleikinn þegar lygin tekur yfir? Hvernig farnast fólki þegar það er kramið af kerfisvaldi sem aðeins leyfir eina túlkun og eina skipan veraldar – en ekki fjölbreytileika?

Ekki gleyma mér er minningabók Kristínar Jóhannsdóttur sem fjallar um þessi stóru stef. Í bókinni rifjar hún upp námstíma sinn í klofnu Þýskalandi, í Freiburg, Leipzig og Berlín. Námstími erlendis er jafnan umbrotatími í lífi fólks og var í lífi Kristínar mjög dramatískur. Hún segir frá námsgreinum sem hún stundaði. Samanburður á menntunaráherslum báðum megin járntjalds er athyglisverður. Kristín teiknar upp pólitík og með sérlega athyglisverðum hætti samfélagsgerð hins kommúníska þjóðfélags. Svo læðist ástin og tengslin við fólk á milli lína og litar allar blaðsíður Ekki gleyma mér. Þrá, miklar tilfinningar, snerting, unaður, eftirsjá, sorg koma við sögu.  

Það sem snart mig m.a. í bók Kristínar er líf í lygi. Ekki lygi einstaklingsins heldur samfélagi lyganna sem síðan gerir fólk falskt. Samfélagið í Stasi-landinu austan járntjalds var hræðilegt kúgunarsamfélag. Fólkið var alls konar en samfélagsgerðin var á kostnað lífsgæða og lífshamingju. Allir sem bjuggu austan tjalds voru hugsanlega njósnarar. Tortryggnin læddist því um. Ástin var full af grun um svik. Óttinn við fals var alltaf með í för og alls staðar. Lífið var hamið í samfélagi lyganna. Lygasamfélag varð harmafélag og tilfinningalegt sóunarfélag. Samfélagsgerðin bjó til sorgbitið fólk. Barnið dó en hefði mátt lifa. Líf hefði geta orðið hamingjuríkt en grunsamfélag lyginnar hindraði. Bók Kristínar Jóhannsdóttur Ekki gleyma mér er heillandi og vel skrifuð minningabók sem opnar margar gáttir. Opinská úrvinnsla höfundar er trúverðug. 

Við reynum öll að vinna úr aðstæðum, tengslum, tilfinningum og stöðu í samfélagi. Við veljum og stundum úr óljósum kostum í flóknum aðstæðum. En líf í lygi er líf í álögum og leiðir til óhamingju og áfalla. Stasilandið var vont samfélag fólks og það féll. Ekkert samfélag er fullkomið en okkar er skyldan að beita okkur fyrir að þjóðfélag og samfélagsgerð þjóni sem flestum og tryggi möguleika fólks til að elska, tengjast, vinna, menntast og nýta hæfni og gáfur sem best. Samfélag er félag um það sem við eigum saman; gildi, mennsku, menningu, frelsi og ábyrgð. Stasilandið féll en skammsýnir villumenn reyna gjarnan að búa til eigin hömlulönd, hvort sem það er Pútínland, Trumpland, XI-land, ofbeldisfjölskylda á Akureyri eða meðvirknisfjölskylda í Hlíðunum. Ástin fæddist í Stasilandi en veslaðist upp og dó. Ástin lifnar alls staðar þar sem fólk er og á að fá að dafna, nærast og lifa.

Kristín Jóhannsdóttir: Takk fyrir heiðarleikann og þar með merkilega bók sem vekur marga þanka um dásemdir lífsins.

Meðfylgjandi mynd er af forsíðu bókarinnar. 

Ég talaði um Stasilandið í prédikun fyrir nokkrum árum og hægt að nálgast ræðuna að baki þessari smellu.