Greinasafn fyrir merki: ást

Guðsvirðing, mannvirðing og elskan

Ég las bókina Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur þegar hún kom út. Fyrir nokkrum dögum var ég búinn að hlusta á sögu á Storytel – reyndar Stóra bróður – og leitaði að nýrri bók til að hlusta. Þá datt ég inn á Eyland og byrjaði að hlusta á höfundinn lesa. Þá mundi ég hver ég hafði heillast af bókinni en gerði mér líka grein fyrir því líka að ég hafði gleymt mjög mörgu í flækju og framvindu sögunnar. Ég var búinn að gleyma hve sagan byrjar vel og að hún grípur föstum tökum. Svo ég hélt áfram að hlusta og datt að nýju inn í þessa heillandi framvindu. Ég dáðiist að ritfærni Sigríðar og myndrænum stíl. Ég heillaðist að nýju af hugmyndaauðgi og dýpt sögunnar.Vá, hvílík rosasaga.

Í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins og engin skip heldur. Þær flugvélar og skip sem fara koma ekki aftur. Ekkert er vitað um afdrif þeirra. Öll fjarskiptasamskipti rofna, allir strengir óvirkir og radíómatörarnir ná engu sambandi heldur. Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað varð eða verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma sem leiddi til algers kerfishruns. Eyland er lítil bók um risastóra hugmynd. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða kraftur, siðferði og seigla býr í menningunni? Eyland lýsir vel hvernig kerfi vernda líf en líka hve stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menning er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorðin

Lexía dagsins varðar það sem varnar að frumskógarlögmálin taki yfir og hinn sterki drepi allt og sé hinn eini sem lifi af. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði reynt langvarandi kerfishrun. Slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og hryllilega reynslu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á fjalli á Sínaískaga. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur erueinfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kom í hinum fornu samfélögum á undan ritun. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin meðal okkar valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Þjóðfélag byggir á sáttmála sem er auðvelt að flekka og eyðileggja. Menning er þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Hegðunarreglurnar sem við köllum boðorð urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, landbúnað og samskipti innbyrðis sem og við aðrar þjóðir. Þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, fontur hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notið þessar speki viðuppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hafði áhrif á mannréttindalöggjafar sem varðar vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga heldur einnig bera virðingu fyrir djúpgildum menningar og heimsins. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Guðsvirðing og mannvirðing

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að færa gamalt efni í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra – og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum er það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvernd og manngildi. Þar er mannvirðingin tjáð – að við eigum að virða og elska fólk – alla. Kærleiksboð Jesú er um guðsvirðingu og mannvirðingu – þetta tvennt fer saman. Og ástin – elskan sem tengir.

Kærleiksboðið í krossinum

Krossar heimsins minna á það sama – á tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin við Guð. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Náungi okkar er allt sem við berum ábyrgð á. Vald manna er orðið svo mikið að mannkyn ber líka ábyrgð á lífríki heimsins. Náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið – en ekki aðeins um þig, heldur um fólk, mannkyn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim og náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla annarrar Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, Gyðingdómi og Islam. Þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: „Ég er Drottinn guð þinn” er aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er – líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fornöld. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við fólkið sitt við kvöldverðarborðið. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí til að hafa hátt um sið og reglur heldur vera Guðs. Að vera Guðs er að elska. Það er mál fyrsta boðorðsins. Afleiðing þess að elska Guð er að lifa í þeirri elskuafstöðu til lífsins og leggja lífinu lið. Það er mál seinni orðanna og hindrar kerfishrun – að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða – það er hin kristna staða og líf.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2023.

Saknaðarilmur

Hvernig er lyktin af sorg og látinni móður? Hvernig er lyktin af ást? Saknaðarilmur er saga Elísabetar Jökulsdóttir og er um móðurmissi og tilfinningar og minningar sem vakna við uppgjör og úrvinnslu. Sagan teiknar upp flóknar persónur dóttur og móður og hvernig þær lifðu og höfðu víxlverkandi áhrif á hvora aðra. Sagan er átakanleg frásögn um sorgardýptir og blæbrigði. Saknaðarilmur hreif mig. Hún tjáir að höfundur hefur unnið með vanda sinn og náð sátt. Þetta er átakanleg bók en líka hrífandi uppgjör sem allir geta lært af.

Í Saknaðarilmi gerir dóttir upp við móðurina, gjafir hennar, umhyggju en líka hörku og kulda í samskiptum. Myndin sem Elísabet dregur upp af móður sinni er mótsagnakennd. Harkan í samskiptum þeirra særir en ástarleitin hrífur. Stundum er elskan harðhent og jafnvel ofbeldisfull. Andstæður persónu móðurinnar ríma síðan í túlkun á þverstæðum í persónu Elísabetar. Sannleikurinn í samskiptum þeirra var ekki einnar víddar heldur marglaga.

Mikill hraði er í málsmeðferð og stiklað er á milli tíða og skoðunarefna. Sumir kaflarnir eru aðeins nokkrar línur en aðrir lengri. Flestir ljóðrænir og merkingarþrungnir og sumir expressjónískir. Saman teikna þessi kaflabrot mynd  af erfiðum uppvexti, áföllum, misskilningi, baráttu, gjafmildi, hæfileikum, harðræði, misþroska, sálarkreppum, margræðum persónum í samskiptum og svo öllu hinu venjulega líka.

Saknaðarilmur er líka saga um hvernig áföll hafa kreppt að fólki og lemstrað. Herpt fólk á erfitt með að rækta ást og þegar allur tími og athygli fer í að bregðast stöðugt við nýjum vanda vorar seint. Ástarteppa eða ástarherpingur er slæmur uppvaxtarreitur hamingjunnar.

Saga Elísabetar tjáir með mikilli einlægni harkalega reynslu og kreppt samband móður og dóttur. Bókin er ekki aðeins vel skrifað bókmenntaverk heldur ljómandi samtalsefni fyrir fólk sem hefur áhuga á samskiptum kynslóða og menningu fjölskyldna. Svo er bókin merkilegt rit um framvindu sorgar og hvernig má vinna með og jafnvel græða kalbletti sálarinnar. 

Ég velti vöngum yfir hvernig erfið lífsbarátta mótar fólk og jafnvel afmyndar. Fátæka Ísland bjó til krumpað fólk sem skilaði herpingi aldanna áfram til framtíðarkynslóða. Syndir mæðra og feðra bárust og berast áfram, ekki bara í erfðamengi heldur líka í menningu fjölskyldna, ætta og þjóða. Barátta Íslendinga við fátækt skilaði fátækt í samskiptum, fáum faðmlögum og fátækt í ástartjáningum. En þrátt fyrir allt er manneskjan mesta undrið og elskan leitar upp í okkur öllum. Þá ilmar.

Hann var mér norður, suður – austur og vestur

Síminn sönglaði, skilaboð bárust frá Noregi. Vinkona í Þrándheimi hafði verið beðin að lesa eitthvert viðeigandi ljóð við útför vinar. Og vinkonan norska bað um hjálp. Hvað ljóð væri hægt að lesa við útför elskaðs vinar? Hávamál eða eitthvað eftir norskan höfund? Það ljóð, sem var mér þá stundina efst í huga var ljóðið sem var flutt við útför í kvikmyndinni Fjögur brúðkaup og jarðarför. Ég fletti upp að nýju hinu magnaða ljóði Wystan Hugh Auden Funeralblues og minntist stórkostlegs flutnings John Hannah á þessu ljóði í kvikmyndinni þegar hann kvaddi maka sinn. Hvaða tilfinningar vakna þegar maður missir ástina sína? Hvernig breytist veröldin við dauða?

Vinkona mín las ljóðið á enskunni og heillaðist af hljóðlátum krafti þess. Svo fletti hún upp norskum þýðingum þess. En þar sem engin þeirra snart hana snaraði hún sjálf ljóðinu á nýnorsku – og flutti við útför vinar síns í gær. 

Glóðin í texta Auden er persónuleg og hefur sértæk en mismunandi áhrif. Engin íslensku þýðinganna snart mig heldur svo ég umorðaði líka. Það varð ekki þýðing orða eða efnisatriða heldur fremur snörun tilfinninga í þessu sorgarljóði Auden. Djúpsvartur harmur og tilfinningar fólks í sorg eru líkar á öllum öldum og í mismunandi aðstæðum. 

Útfararblús

Stöðvið tímann, kastið símum.

Hendið beini í hundinn og kæfið gjammið.

Stöðvið glamrið – syrgjendur nálgast.

Lyftið kistu við dempaðan bumbuslátt.

 

Hann er dáinn. Þotur veina á flugi

og krota andlátsfregn á himinskjáinn.

Fregnin fer um samfélagsvefinn.

Fánar í hálfa stöng.

 

Hann var mér norður, suður – austur og vestur,

allar helgar og vinnuvikur.

Hann var mér dagar, nætur, mál og músík.

Ég hélt að ástin væri eilíf – en hvílík blekking!

 

Stjörnur daprast. Slökkvið á þeim.

Hyljið tungl og drepið sól.

Sturtið hafi og eyðið gróðri.

Engin gleði framar, ekkert líf.

Sorgin er skuggi ástarinnar og tárin flæðandi sorg. Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Sá syrgir aldrei sem aldrei hefur elskað. Ef við viljum losna við eða forðast að harma kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Veröldin missir lit og allt skekkist. Ástvinamissir skilgreinir veröldina, efnisheiminn og merkingu alls. Þá hrynja lögmál heimsins og allt breytist, litir verpast, mál og merking hliðrast. Sorgin málar allt, líka skýin.

Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg manna og skilur sársauka. Dauðinn dó, en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Bæn: Guð: Ver okkur norður, suður – einnig austur og vestur, allar helgar og vinnuvikur. Ver nærri daga, nætur og í máli og músík.

 

Hin hlið ástarinnar

Sonur minn spurði mig fyrir nokkrum dögum: „Pabbi hefur þú þurft að tilkynna fjölskyldu að einhver sem tilheyrði henni hafi lent í slysi og dáið?“ Ég svaraði honum að það væri erfiðasti þáttur prestsstarfsins að fara heim til fólks og bera því hörmulegar fréttir. Hann hélt áfram að spyrja: „Hvernig líður þér þegar þú hittir fólkið og þarft að segja þeim frá hræðilegum málum, slysum og dauða?“ Ég sagði honum frá hve átakanlegar aðstæðurnar væru oftast og líka tilfinningaflóðinu, hvað færi í gegnum hugann gagnvart þessu nístandi verkefni, hvernig ég undirbyggi mig, opnaði vitundina, tengdi inn í himininn og kyrrði hugann. Til þess að geta þjónað fólki vel væri mikilvægt að vinna með eigin ótta, áföll og trú. Við töluðum svo saman áfram, prestur og pabbi með reynslu af mörgum sorgarferðum og sextán ára ungur maður sem þorir að vinna með hlutverk, líf og dauða og spyrja. Mitt hlutverk er að vera honum faðir sem miðlar hvernig maður virðir mörk sín, bæði sem dauðlegur einstaklingur og líka sem prestur í þjónustu við líf, fólk og Guð.

Ég dáðist að syni mínum að hann hefði getu til samkenndar og að spyrja mikilvægra spurninga, væri reiðubúinn að ræða um myrkrið, óttann og eyðinguna og vilja til að halda á djúp visku og skilnings. Og var líka þakklátur fyrir að feðgatengsl okkar væru opin og þyldu svona þungaumferð sálarinnar. Ég hef sagt honum sögur úr eigin lífi, hvernig ég brást við eigin dauðaógn á unga aldri. Hann hefur líka sagt mér hvað hann hugsaði þegar hann hjólaði framan á bíl, flaug hátt í loft upp áður en hann skall í götuna. Og hann veit að við eigum alltaf val hvernig við bregðumst við áföllum og verkefnum lífsins.

Allir deyja – segjum við. Skuggahlið alls lífs er hrörnun og dauði. Hvaða afstöðu hefur fólk? Er lífi lokið við dauðastund eða er andlát fæðing til nýrrar veru? Hvernig bregðumst við í hörmulegum aðstæðum þegar fólkið okkar er slitið úr fangi okkar og fjölskyldu? Tengjum við sjálf okkur við skil tíma og eilífðar? Undirbúum við okkur undir fæðingu til eilífðar? Í dag íhugum við stóru málin í þessu hliði himins. Um líf og dauða, ást og sorg. Um sæluna sem Jesús talar um – og sú sæla er að vera með Guði.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Þegar við minnumst ástvina er hollt að hugsa um líðan okkar og líka íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð. En djúpíhugun þessara daga varðar þó ekki dauða heldur fremur líf. Kristnin er ekki dauðasækin heldur lífssækin.  

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Sorg er hin hlið elskunnar. Þau sem aldrei hafa elskað syrgja ekki dauða annarra. Sorg er viðbragð þess sem hefur elskað en misst. En getum við forðast sorg og gætt að okkur svo við verðum ekki fyrir áfallinu? En valið á sér skuggahlið. Viltu sleppa að elska? Viltu fara á mis við ástvini? Fæst vilja afsala sér þeim undursamlega þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. En að vinna með sorg og búa við sorg er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa áfram þrátt fyrir missinn. Syrgjandi kemst oftast á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarvinnu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi. Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern og stundum langan tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er gjarnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana í tilverunni – eiginlega utan við sjálf sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur jafnvel sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma eða jafvel barnið þitt? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau.

Og svo að þínu lífi nú. Hver er sæla þín? Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín? Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir brenglaðri mannaveröld, mengun sköpunar og dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. En dauðinn dó og lífið lifir. Því lýkur lífi ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum eigin dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Í lok athafnar getið þið gengið fram og kveikt á kertaljósum og lagt í tröppurnar til að minnast látinna. Nýtið færið til að blessa minningarnar, vinna með tilfinningarnar – allar, líka þær sterku og neikvæðu, leyfa Guði að taka við eftirsjá og depurð þinni. Þú mátt kveikja ljós og minna þig á að lífið lifir. Trú er ekki vegferð til dauða heldur ferð lífsins. Dauðinn dó en lífið lifir.

Amen í Jesú nafni Amen.

Hugleiðing á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 7. nóvember, 2021. Meðfylgjandi mynd tók ég austan við Ingólfsfjall að kvöldi 30. október 2021. Útsýn til austurs og norðurljósin dönsuðu á danshvelfingu himins. 

Ástarsaga

„Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. En hvað um Guð?

Hallgrímur Pétursson var ofurpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur lífs. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma. Hún er saga um hvernig hægt væri að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi og sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir allt ástarfólk.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar og er vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs. Með því að skoða vel ástarsögur getum við komist að mörgu um Guð. Við getum líka skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

COVID-tíminn er tími þrenginga og endurskoðunar. Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort leggjum við á flótta og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd, þarfir eða áföll. Í Biblíunni og öðrum klassískum, kristnum bókmenntum eins og Passíusálmum er sagt frá lífi fólks. Þar er sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er svo sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins og öðrum áföllum. Það er erki-ástarsagan, um Guð, um heiminn og saga um fólk. Kristnin kennir að lífið er ekki aðkreppt heldur ástarsaga möguleikanna. Líf okkar er svo sannarlega stundum furðulegt, gleðilegt og sorglegt. En saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um okkur öll. Það er gott að elska.

Gleðilega páska á COVID-tíma.

Grein í Mbl á skírdegi 2021. Myndin er af gluggaskreytingu í stórverslun í San Francisco sem ég tók í janúar 2018.