Greinasafn fyrir merki: John Hannah

Hann var mér norður, suður – austur og vestur

Síminn sönglaði, skilaboð bárust frá Noregi. Vinkona í Þrándheimi hafði verið beðin að lesa eitthvert viðeigandi ljóð við útför vinar. Og vinkonan norska bað um hjálp. Hvað ljóð væri hægt að lesa við útför elskaðs vinar? Hávamál eða eitthvað eftir norskan höfund? Það ljóð, sem var mér þá stundina efst í huga var ljóðið sem var flutt við útför í kvikmyndinni Fjögur brúðkaup og jarðarför. Ég fletti upp að nýju hinu magnaða ljóði Wystan Hugh Auden Funeralblues og minntist stórkostlegs flutnings John Hannah á þessu ljóði í kvikmyndinni þegar hann kvaddi maka sinn. Hvaða tilfinningar vakna þegar maður missir ástina sína? Hvernig breytist veröldin við dauða?

Vinkona mín las ljóðið á enskunni og heillaðist af hljóðlátum krafti þess. Svo fletti hún upp norskum þýðingum þess. En þar sem engin þeirra snart hana snaraði hún sjálf ljóðinu á nýnorsku – og flutti við útför vinar síns í gær. 

Glóðin í texta Auden er persónuleg og hefur sértæk en mismunandi áhrif. Engin íslensku þýðinganna snart mig heldur svo ég umorðaði líka. Það varð ekki þýðing orða eða efnisatriða heldur fremur snörun tilfinninga í þessu sorgarljóði Auden. Djúpsvartur harmur og tilfinningar fólks í sorg eru líkar á öllum öldum og í mismunandi aðstæðum. 

Útfararblús

Stöðvið tímann, kastið símum.

Hendið beini í hundinn og kæfið gjammið.

Stöðvið glamrið – syrgjendur nálgast.

Lyftið kistu við dempaðan bumbuslátt.

 

Hann er dáinn. Þotur veina á flugi

og krota andlátsfregn á himinskjáinn.

Fregnin fer um samfélagsvefinn.

Fánar í hálfa stöng.

 

Hann var mér norður, suður – austur og vestur,

allar helgar og vinnuvikur.

Hann var mér dagar, nætur, mál og músík.

Ég hélt að ástin væri eilíf – en hvílík blekking!

 

Stjörnur daprast. Slökkvið á þeim.

Hyljið tungl og drepið sól.

Sturtið hafi og eyðið gróðri.

Engin gleði framar, ekkert líf.

Sorgin er skuggi ástarinnar og tárin flæðandi sorg. Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Sá syrgir aldrei sem aldrei hefur elskað. Ef við viljum losna við eða forðast að harma kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Veröldin missir lit og allt skekkist. Ástvinamissir skilgreinir veröldina, efnisheiminn og merkingu alls. Þá hrynja lögmál heimsins og allt breytist, litir verpast, mál og merking hliðrast. Sorgin málar allt, líka skýin.

Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg manna og skilur sársauka. Dauðinn dó, en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Bæn: Guð: Ver okkur norður, suður – einnig austur og vestur, allar helgar og vinnuvikur. Ver nærri daga, nætur og í máli og músík.