Greinasafn fyrir merki: fjölskylduharmur

Saknaðarilmur

Hvernig er lyktin af sorg og látinni móður? Hvernig er lyktin af ást? Saknaðarilmur er saga Elísabetar Jökulsdóttir og er um móðurmissi og tilfinningar og minningar sem vakna við uppgjör og úrvinnslu. Sagan teiknar upp flóknar persónur dóttur og móður og hvernig þær lifðu og höfðu víxlverkandi áhrif á hvora aðra. Sagan er átakanleg frásögn um sorgardýptir og blæbrigði. Saknaðarilmur hreif mig. Hún tjáir að höfundur hefur unnið með vanda sinn og náð sátt. Þetta er átakanleg bók en líka hrífandi uppgjör sem allir geta lært af.

Í Saknaðarilmi gerir dóttir upp við móðurina, gjafir hennar, umhyggju en líka hörku og kulda í samskiptum. Myndin sem Elísabet dregur upp af móður sinni er mótsagnakennd. Harkan í samskiptum þeirra særir en ástarleitin hrífur. Stundum er elskan harðhent og jafnvel ofbeldisfull. Andstæður persónu móðurinnar ríma síðan í túlkun á þverstæðum í persónu Elísabetar. Sannleikurinn í samskiptum þeirra var ekki einnar víddar heldur marglaga.

Mikill hraði er í málsmeðferð og stiklað er á milli tíða og skoðunarefna. Sumir kaflarnir eru aðeins nokkrar línur en aðrir lengri. Flestir ljóðrænir og merkingarþrungnir og sumir expressjónískir. Saman teikna þessi kaflabrot mynd  af erfiðum uppvexti, áföllum, misskilningi, baráttu, gjafmildi, hæfileikum, harðræði, misþroska, sálarkreppum, margræðum persónum í samskiptum og svo öllu hinu venjulega líka.

Saknaðarilmur er líka saga um hvernig áföll hafa kreppt að fólki og lemstrað. Herpt fólk á erfitt með að rækta ást og þegar allur tími og athygli fer í að bregðast stöðugt við nýjum vanda vorar seint. Ástarteppa eða ástarherpingur er slæmur uppvaxtarreitur hamingjunnar.

Saga Elísabetar tjáir með mikilli einlægni harkalega reynslu og kreppt samband móður og dóttur. Bókin er ekki aðeins vel skrifað bókmenntaverk heldur ljómandi samtalsefni fyrir fólk sem hefur áhuga á samskiptum kynslóða og menningu fjölskyldna. Svo er bókin merkilegt rit um framvindu sorgar og hvernig má vinna með og jafnvel græða kalbletti sálarinnar. 

Ég velti vöngum yfir hvernig erfið lífsbarátta mótar fólk og jafnvel afmyndar. Fátæka Ísland bjó til krumpað fólk sem skilaði herpingi aldanna áfram til framtíðarkynslóða. Syndir mæðra og feðra bárust og berast áfram, ekki bara í erfðamengi heldur líka í menningu fjölskyldna, ætta og þjóða. Barátta Íslendinga við fátækt skilaði fátækt í samskiptum, fáum faðmlögum og fátækt í ástartjáningum. En þrátt fyrir allt er manneskjan mesta undrið og elskan leitar upp í okkur öllum. Þá ilmar.