Greinasafn fyrir merki: gott líf

Guðsvirðing, mannvirðing og elskan

Ég las bókina Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur þegar hún kom út. Fyrir nokkrum dögum var ég búinn að hlusta á sögu á Storytel – reyndar Stóra bróður – og leitaði að nýrri bók til að hlusta. Þá datt ég inn á Eyland og byrjaði að hlusta á höfundinn lesa. Þá mundi ég hver ég hafði heillast af bókinni en gerði mér líka grein fyrir því líka að ég hafði gleymt mjög mörgu í flækju og framvindu sögunnar. Ég var búinn að gleyma hve sagan byrjar vel og að hún grípur föstum tökum. Svo ég hélt áfram að hlusta og datt að nýju inn í þessa heillandi framvindu. Ég dáðiist að ritfærni Sigríðar og myndrænum stíl. Ég heillaðist að nýju af hugmyndaauðgi og dýpt sögunnar.Vá, hvílík rosasaga.

Í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins og engin skip heldur. Þær flugvélar og skip sem fara koma ekki aftur. Ekkert er vitað um afdrif þeirra. Öll fjarskiptasamskipti rofna, allir strengir óvirkir og radíómatörarnir ná engu sambandi heldur. Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað varð eða verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma sem leiddi til algers kerfishruns. Eyland er lítil bók um risastóra hugmynd. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða kraftur, siðferði og seigla býr í menningunni? Eyland lýsir vel hvernig kerfi vernda líf en líka hve stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menning er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorðin

Lexía dagsins varðar það sem varnar að frumskógarlögmálin taki yfir og hinn sterki drepi allt og sé hinn eini sem lifi af. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði reynt langvarandi kerfishrun. Slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og hryllilega reynslu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á fjalli á Sínaískaga. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur erueinfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kom í hinum fornu samfélögum á undan ritun. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin meðal okkar valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Þjóðfélag byggir á sáttmála sem er auðvelt að flekka og eyðileggja. Menning er þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Hegðunarreglurnar sem við köllum boðorð urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, landbúnað og samskipti innbyrðis sem og við aðrar þjóðir. Þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, fontur hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notið þessar speki viðuppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hafði áhrif á mannréttindalöggjafar sem varðar vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga heldur einnig bera virðingu fyrir djúpgildum menningar og heimsins. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Guðsvirðing og mannvirðing

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að færa gamalt efni í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra – og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum er það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvernd og manngildi. Þar er mannvirðingin tjáð – að við eigum að virða og elska fólk – alla. Kærleiksboð Jesú er um guðsvirðingu og mannvirðingu – þetta tvennt fer saman. Og ástin – elskan sem tengir.

Kærleiksboðið í krossinum

Krossar heimsins minna á það sama – á tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin við Guð. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Náungi okkar er allt sem við berum ábyrgð á. Vald manna er orðið svo mikið að mannkyn ber líka ábyrgð á lífríki heimsins. Náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið – en ekki aðeins um þig, heldur um fólk, mannkyn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim og náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla annarrar Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, Gyðingdómi og Islam. Þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: „Ég er Drottinn guð þinn” er aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er – líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fornöld. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við fólkið sitt við kvöldverðarborðið. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí til að hafa hátt um sið og reglur heldur vera Guðs. Að vera Guðs er að elska. Það er mál fyrsta boðorðsins. Afleiðing þess að elska Guð er að lifa í þeirri elskuafstöðu til lífsins og leggja lífinu lið. Það er mál seinni orðanna og hindrar kerfishrun – að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða – það er hin kristna staða og líf.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2023.

Fossandi vín og miklu betri veislur

Rúrí framdi eftirminnilegan gjörning hér í Hallgrímskirkju fyrir fimmtán árum. Myndskeiðum af fossum Íslands var varpað á alla veggi, súlur og hvelfingar kirkjunnar. Kirkjan umbreyttist í fossaheim. Við, sem vorum í kirkjunni, urðum sem fossbúar, í margföldum Dettifossi í margföldu Jökulsárgljúfri. Ofurdrunum gljúfurrisans var varpað með hátölurum um allt rýmið og blandaðist orgelþrumum kirkjunnar. Hávaðinn var rosalegur.

Gjörningurinn fyllti skilningarvit, huga og líkama reynslu, sem var marga daga að setjast til. Kirkjurýmið er alla daga náttúrutengt en varð allt í einu annað en ég hafði áður upplifað. Vatnaveröld heimsins var í kirkjunni. Tilfinningin fyrir heilagleika var sterk. Þessi mikla kirkjan hafði orðið eitt með náttúrunni, vatn og andi voru eitt. Í þessari samþættun birtist kraftur, eitthvað stórfenglegt kom og fyllti okkur sem vorum svo lánsöm að lifa þessa stund. Tilfinningin fyrir hinu ríkulega fyllti sálina. Guðsvitund er ekki aðeins tengd hinu smágerða heldur líka hinu rosalegasta. Kirkjuskipið var sem steinker fyllt lífsgæðum. Við urðum fyrir hrífandi vímu sem greip og umbreytti. Mér varð þetta vitjun – Guðskoma.

Krísan í Kana

Hjónavígslusagan í Kana er saga af veislu og bruggaranum Jesú. En hvað er aðalatriði þeirrar sögu? Var það, að töframaður var uppgötvaður? Nei. Vissulega er þetta oft nefnt fyrsta kraftaverkið. Jesús var að byrja starfsferil sinn. Í Kana var hann prívatpersóna á ferð með mömmu og vinum. Þetta var fjölskylduveisla. Svo verður þessi pínlega sena, að veislukosturinn er búinn. Allir sómakærir veisluskipuleggjendur hræðast slíkt og reyna að fyrirbyggja að svo verði. María, Jesúmóðirin, kom hlaupandi og sagði syni sínum að nú væri illt í efni, vínið væri búið. Jesús spurði: “Hvað kemur það mér eða þér við?” En María bjó svo um hnúta að Jesú yrði hlýtt, ef hann gerði eitthvað í málum. María var áhrifavaldur.

Góður bruggari er nákvæmur í mælingum og þjónarnir fylltu mikil steinker – og hvert kerald tók um hundrað lítra. Þau voru ekki bara tvö eða þrjú heldur sex. Engin veit um fjölda veislugesta, né hvað menn voru búnir að drekka mikið áður en allt kláraðist. En það er nú ólíklegt, að veislugestir hafi verið búnir að svolgra meira en hálft tonn af áfengi! En nú voru kerin fyllt og undrið varð.

Drykkjuprédikun?

Hvað þýðir svona texti? Getum við lært eitthvað af honum? Í kjallara þessarar kirkju er öflugt AA og Al-Anon starf. Er boðskapurinn hér uppi í hróplegri andstöðu við stefnuna niðri? Er Jesús í Kanasögunni meðvirkur barþjónn? Nei, málið er dýpra en svo yfirborðsleg túlkun.

AA menn hafa aldrei haldið fram, að áfengi væri djöfullegt, heldur að misnotkunin væri vond. Vissulega voru þau til sem mislíkaði, að Jesús væri glaður og til í gleðskap. Hann var uppnefndur vínsvelgur og gleðimaður. Sagan fjallar um annað og mikilvægara en vín og notkun þess. Aðstæðurnar í Kana eru, að gleðiríkur viðburður er á barmi skandals. Hjónavígsla er jafnan stórkostlegasta veisla hvers samfélags. Við þekkjum hversu ægilegar afleiðingarnar geta orðið, ef samkvæmi er illa undirbúið eða einhverjir bregðast í skipulaginu. Í guðspjallinu er ekki um neinar smáreddingar að ræða, ekki hlaupið í næstu hús til að sníkja dreitil hér og lögg þar – eða hringt í “góða bíla.” Nei mörg risaker, stórar steinþrær. Þetta finnst mér einna hnyttnast í textanum.

Áherslan er, að þegar allt er í rugli, er lausn Jesú ekki hæfileg heldur stórkostleg og handan við allt, sem brúðkaup í litlu þorpi þarfnaðist. Hvað merkir það? Jú, þegar tími Jesú kemur eru engar smáskammtalækningar, heldur yfirdrifin gnægð. Jóhannesi guðspjallamanni var í mun, að minna fólk á að Jesús er Guð hins mikla, ofurveruleikinn í smáheimi manna. Í guðspjallinu er tjáð vissan um að Jesús ætti erindi við alla, ekki bara Gyðinga heldur líka Grikki, allt mannkyn. Því minnir ritari guðspjallsins á, að Jesús getur breytt vatni í vín rétt eins og Bakkus í grískri goðafræði. En Jesús er meiri en vínguðinn. Einkenni veraldar Jesú er hann býr til mikið magn og líka það besta. Hjá honum fara magn og gæði saman. Jesús er ekki aðeins mikill, heldur undur lífsins, skapandi höfundur sem opnar framtíð. Þarna eru skilaboðin. Vínþurrð er tákn um smæð og vanda en víngjöfin í textanum vísar til anda Guðs, sköpunar Guðs, lausnar Guðs, komu sjálfs Guðs.

Erum við í boðinu í Kana?

Kemur þetta þér við? Á þessi vínveisla erindi við þig? Já vegna þess, að ólánsveislan í Kana er sena um líf okkar, tákn um hvað við erum og upplifum, sem einstaklingar, en líka sem hópar, kirkja, þjóðir og menningarfylkingar.

Öll lendum við í Kanakreppunni á einn eða annan hátt. Hefur einhver tíma orðið óhapp eða skandall í þínu lífi? Verða ekki slys og áföll í samfélögum, sem enginn hafði búist við eða séð fyrir? Í pólitík, efnahagslífi, samskiptum þjóða og meðferð náttúrunnar koma óhjákvæmilega tímar þegar vínið er búið og veislan hljóðnar. Ekkert áfall er svo stórt, að Guð geti ekki skapað kraftaverk í miðri ógninni. Engin sorg er svo djúp, að hann megni ekki að lýsa í afgrunn myrkursins. Engin náttúrvá er svo megn, að Guð sé ekki nálægur með bæði hjálp, hönd og huggun. Engin siðógn eða trúarglíma kirkjunnar er svo slæm, að vínþurrð verði í Guðsríki! Engin átök menningarheima er án vonar um, að kraftaverkið verði. Engin kreppa í samskiptum trúarbragða er svo slæm, að hinn mikli víngerðarmaður eigi ekki nóga andagift til að halda samkvæminu á floti.

Gnótt guðsríkisins

Þetta er það sem Jóhannes vill segja með því að skvetta yfir okkur úr kerunum. Textinn er um skömm, áfall og svo hins vegar um nánd og gjörning Guðs. Í krafti hvers lifum við? Jesústarfið opinberar, að lífið er meira en hið smáa og aðkreppta. Lífið er stórkostlegt, yfirfljótandi gæði og möguleikar.

Þegar þú hefur tæmt alla möguleika, aðstæður eru hörmulegar, þú ert niðurfallin eða hrapaður í gímald einsemdar, depurðar og áfalls, þá er tími kraftaverksins kominn. Það er kallað á máli kristninnar að dauðinn eó en lífið lifir – að Jesús Kristur er upprisinn – að við búum í ríki Guðs þrátt fyrir að við séum í þessum heimi.

Stærri veisla – meira flóð

Þegar vatnsflóðið steyptist um alla Hallgrímskirkju opnaðist fyrir mér, að auðvitað megum við alla daga að lifa í þeim veruleika, að Guð kallar okkur til meiri og stærri veislu en við höfðum ímyndað okkur. Kirkjuskipið er mikið, kirkjurnar eru steinþrær guðsríkisins. Anda er þörf og máttur Guðs er í boði. Af sjálfri sér og brjóstviti sínu er kirkjan ekkert annað en smáskrall, sem þarf kraftaverk til að umbreyta í veislu himinsins. Náttúran er stór og mikil, en þó aðeins ofurlítill daggardropi í þeim stórsjó sem elska og undur Guðs er. Ástin og unaður í samskiptum er aðeins stroka í því stórfaðmlagi og ástaleik sem Guðsríkið er.

Á neðri hæð kirkjunnar berjast menn gegn áfenginu en á efri hæðinni er mælt með að Jesús breyti vatni í vín! Rónarnir koma óorði á brennivínið, við á lífið, en ofangæðin fossa úr stórkeröldum himinsins fyrir alla og á öllum hæðum jafnt. Áföll eru hluti lífs í þessum heimi. Öll partý enda í vandræðum ef Jesús er ekki boðinn. Öll mannleg skipan, siðferði, samskipti og líf munu spillast og ekki ná hæðum nema í samskiptum við þennan, sem á svo mikil gæði að gefa að engin botn er á. Lífsveislan verður ekki góð nema honum sé boðið. AA mennirnir skilja þennan boðskap. Það er ekki svo ólík prédikunin efra og neðra, vegna þess að við erum í sama boði – í Kana – og vitum hver blessar stóru kerin.

Amen

Just a few words on the sermon. The story in John 2 tells about the miracle in Kana. Jesus was starting out his mission but he was with his family in a wedding. The wine was out. So, as the story goes, his mother pushed Jesus and asked him to do something about it. And finally with twists and turn Jesus solved the issue. What to do with the story? We should meditate the meaning. And there are many shades of meaning but the essential is that the human life should not be a poor one but overflowing with joy. We are created for the good life. God wants us to enjoy life. And this concerens everything, the human, life of endangered nature of the globe. The story has meaning for us all, also on the personal level. Is your feast coming to close or are you willing to open up?

Hallgrímskirkja 19. janúar 2020.

 

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.“ Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:“ Þú hefur ekki skilið verkefnið!“ En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!“

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

Þorsteinn Bjarnason – minningarorð

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Æfagömul spurning – og varðar hamingju, lífshætti og tilgang og kemur fram á varir og í hug allra manna. Jafngömul og mannkynið og jafn ný og börnin sem nú eru að fæðast. Hverju svarar þú? Hvað skiptir þig mestu máli? Hvað er þér svo mikils virði að þú vilt ekki fara á mis við?

Ég sat í vikunni í stofunni á Fornhaga 17 – á heimili Guðrúnar og Þorsteins – og dáðist að Guðrúnu þegar hún sagði mér frá manni sínum. Hún sagði fallega frá honum Steina sínum. Það kom blik í augu hennar, hláturinn hríslaðist um hana þegar hún sagði gamansögur af þeim hjónum, úr tilhugalífi, hjónalífi og viðburðum lífsins. Hún lýsti hve natinn hann var við fólkið sitt, tillitssamur og gjöfull. Hún tjáði svo vel þakklæti fyrir viðmót hans, dugnað, félagsfærni. Og hún vildi að ég segði frá hve þakklát hún væri honum. Orðin, fasið, æðruleysið urðu mér tjáning um djúp og merkingargefandi tengsl. Guðrún elskaði hann Steina sinn. Hún sagði mér hrífandi ástarsögu. Og Þorsteinn elskaði hana og fólkið þeirra. Hann elskaði drengina sína, barnabörnin og tengdabörnin. Og hann var svo elskuverður að börn og málleysingjar löðuðust að honum. Og við komum til þessarar athafnar og njótum ástarsögu, hugsum um Þorstein, sem vildi og valdi frekar lifa í veröld lífsleikninnar en skuggasundanna.

Ástarsaga Guðrúnar og Þorsteins er yndisleg saga. Þau hafa vissulega orðið fyrir áföllum og djúpri raun – en haldið í hendur hvors annars og notið styrks hins.

Ástarsaga – mestur er kærleikurinn. Saga Guðs er ástarsaga, megingjarðir þessa heims er elska. Öll orð og verk Jesú Krists spruttu af elskusemi. Og Guð býður okkur líf í ást. Við erum frjáls til ástar og hins góða lífs.

Upphaf og fjölskylda

Þorsteinn Bjarnason fæddist í Reykjavík 13. október árið 1930. Hann var sonur Ágústu Ólafsdóttur frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og Bjarna Matthíassonar verslunarmanns í  Reykjavík. Þorsteinn ólst upp hjá móður sinni en átti einnig heimili hjá mæðgunum Jónínu Jónsdóttur og Þórdísi Fjólu Guðmundsdóttur. Hann gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og var ennfremur einn vetur í skóla í Reykholti.

Þegar hann var 15 ára gamall fór hann til sjós. Fyrstu árin var hann togarasjómaður og síðar farmaður hjá Skipadeild Sambandsins. Árið 1963 færði hann sig um set til Eimskipafélagsins og var bátsmaður hjá félaginu allt til ársins 1992 en þá batt hann enda á sjómennskuna eftir um 47 ára starfsferil. Vegna starfa sinna hjá félaginu var Þorsteinn sæmdur gullmerki Eimskipafélagsins. Og ég var beðinn um að bera þessari samkomu þakkir starfsfólks og stjórnar Eimskipafélagsins.

Þegar Þorsteinn kom í land hafði hann ekki snúið baki við vatni því hann réðst þá til starfa hjá Sundlaug Vesturbæjar. Þar var ekki fiskað í úfnum sjó en hann var í hlutverki sundlaugar- og baðvarðar og tryggði að vesturbæingar gátu notið sín, notið sunds og gefandi samfélags. Þorsteinn starfaði við sundlaugina, efldi gleðina og lægði stundum sjói mannlífsins. Árið 2000 lét hann af störfum fyrir aldurs sakir, virtur, metinn, verðlaunaður og lofaður af gestum og samstarfsfólki.

Bróðir Þorsteins var Ólafur Bjarnason múrarameistari og hálfsystir Ester Svanlaug Bjarnadóttir. Þau eru bæði látin. Fóstursystur hans eru Jónína Steinunn, Þórunn Rut og Guðmunda Kristín Þorsteinsdætur.

Hjúskapur og strákarnir

„Við sáumst niður í Hafnarstræti“ sagði Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir. „Hann var svo fallegur“ bætti hún við með blik í auga. Þetta var árið 1952. Hún vissi af honum áður og hann hafði spurnir af henni. Svo dróust þau að hvoru öðru og byrjuðu að búa. Þau gengu í hjónaband 14. júlí 1956. Guðrún er tæpum tveimur árum yngri en bóndi hennar og er dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar.

Þeim Þorsteini og Guðrún fæddust þrír synir.

Sæmundur Elías er elstur og kom í heiminn árið 1958. Kona Sæmundar er Svana Helen Björnsdóttir og þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein.

Óli Ágúst fæddist 1963 en lést árið 2001. Hann var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur og áttu þau dótturina Rakel Guðrúnu.

Jón Viðar er yngstur. Hann fæddist  árið 1971. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur og þau eiga börnin Þorstein Jakob og Guðmundu.

Óli Ágúst lést af slysförum fyrir tólf árum síðan – frá ungri eiginkonu og sex ára dóttur. Það varð þeim reiðarslag og breytti lífi þeirra hjóna og allra ástvina. Þá kom í ljós styrkur sambands þeirra.

Þorsteinn var öflugur fjölskyldumaður og þjónaði vel sínum. En vegna atvinnu var hann löngum að heiman og fjarverandi á stóru stundunum. Hann var t.d. ekki í landi þegar eldri synir hans fæddust en nærstaddur þegar Jón Viðar rak upp fyrstu rokuna.

En Guðrún, synir og barnabörnin nutu gjörhygli og návistar hans þegar hann hætti á sjónum og kom í land. Og það er hrífandi að heyra og lesa umsagnir barnabarna  Þorsteins hve natinn afi hann var. „Afi Steini var fágætur maður“ Þannig skrifar eitt þeirra sem taldi sig hafa unnið stóra vinninginn í afalóttinu. Steini afi veitti barnabörnum sínum mikið og þau voru honum hjartfólginn. Og fjölskyldan stóð saman og naut ríkidæmis samstöðunnar.

Og ekkert var ómögulegt á óskalistanum handa afa. Þorsteinn afi keyrði út og suður, austur og vestur. Hann skemmti sínu fólki, tefldi við barnabörnin, stakk pening í lófa, skrapp í sund með káta kúta, keypti eitthvað „með kaffinu“ og miðlaði til sinna hvernig góð tengsl eru ræktuð. Hann var „fyrirmyndarmannvera“ skrifar eitt barnabarnið. Svo þegar synir hans fóru til útlanda í skemmri eða lengri tíma var hægt að treysta afa Steina og ömmu Guðrúnu fyrir ungviðinu. Afi talaði fúslega við barnabörn sín í síma. Þau skipulögðu sundferðir eða aðrar mikilvægar ævintýrareisur. Það er mikið ríkidæmi að fá að njóta afa og ömmu sem kunna svo fjölbreytileg samskipti við barnabörn sín, eiga hlýjan faðm, hlusta vel, hafa getu til hlýrrar nærveru og spilandi lífsgáska.

Ástarsaga. Þorsteinn tamdi sér og iðkaði elskusemi í tengslum við fólk, efldi ástvini og miðlaði því sem er gott fyrir tengsl og samskipti. Engin styggðaryrði komu frá honum. Hann var smart, kurteis, örlátur, óeigingjarn, friðsamur og kærleiksríkur, verklaginn, sniðugur og bráðskýr. Þorsteinn var glæsilegur og fallegur eins og allt hans fólk – augu hans voru björt og leiftrandi. Hann var greindur, fróður og glöggur og því góður viðmælandi. Þorsteinn var öflugur ferðamaður og var jafn lipur við Guðrúnu sína eins og hún var hugmyndarík um verkefni og leiðir. Hann var mikill af sjálfum sér.

Og nú eru leiðarlok. Ástarsaga Þorsteins og Guðrúnar hrífur og smitar. Þau hafa orðið okkur sem aðveituæð eilífðar, hafa speglað hið góða og leyft ljósi að lýsa, vera sterkara en myrkur og sorg. Og svo nýtur fólkið þeirra – og við hin líka sem fáum að setjast í samtalsstólinn í stofunni eða eiga orðastað við Guðrúnu – hlægja með henni og undrast yfir margbreytileika lífisns.

Nú er Steini farinn en minningin um góðan dreng lifir. Hann skemmtir ekki lengur fólki í heita pottinum, fer ekki lengur í ævintýraferðir með Guðrúnu sinni eða skýst í ísbúðina með barnabörnum sínum. Það sést grilla í hann á mynd Google af Fornhagablokkinni og mynd hans lifir betur í minni ykkar og verður ykkur til eflingar. En Guð varðveitir mynd hans fullkomlega og Guð lætur sér ekki nægja eftirmyndir heldur varðveitir frummyndina, Þorstein sjálfan. Guð segir ástarsögur um sig, er sjálf ástarsagan. Og við megum vera persónur í því stórkostlega drama.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Ástin sem spinnur stóru sögu og við erum hluti af og megum njóta, lifa og iðka. Sú saga er burðarvirki tíma og eilífðar.

Guð geymi Þorstein Bjarnason – Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 18. október, 2013.