Greinasafn fyrir merki: gott líf

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.” Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:” Þú hefur ekki skilið verkefnið!” En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!”

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

Þorsteinn Bjarnason – minningarorð

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Æfagömul spurning – og varðar hamingju, lífshætti og tilgang og kemur fram á varir og í hug allra manna. Jafngömul og mannkynið og jafn ný og börnin sem nú eru að fæðast. Hverju svarar þú? Hvað skiptir þig mestu máli? Hvað er þér svo mikils virði að þú vilt ekki fara á mis við?

Ég sat í vikunni í stofunni á Fornhaga 17 – á heimili Guðrúnar og Þorsteins – og dáðist að Guðrúnu þegar hún sagði mér frá manni sínum. Hún sagði fallega frá honum Steina sínum. Það kom blik í augu hennar, hláturinn hríslaðist um hana þegar hún sagði gamansögur af þeim hjónum, úr tilhugalífi, hjónalífi og viðburðum lífsins. Hún lýsti hve natinn hann var við fólkið sitt, tillitssamur og gjöfull. Hún tjáði svo vel þakklæti fyrir viðmót hans, dugnað, félagsfærni. Og hún vildi að ég segði frá hve þakklát hún væri honum. Orðin, fasið, æðruleysið urðu mér tjáning um djúp og merkingargefandi tengsl. Guðrún elskaði hann Steina sinn. Hún sagði mér hrífandi ástarsögu. Og Þorsteinn elskaði hana og fólkið þeirra. Hann elskaði drengina sína, barnabörnin og tengdabörnin. Og hann var svo elskuverður að börn og málleysingjar löðuðust að honum. Og við komum til þessarar athafnar og njótum ástarsögu, hugsum um Þorstein, sem vildi og valdi frekar lifa í veröld lífsleikninnar en skuggasundanna.

Ástarsaga Guðrúnar og Þorsteins er yndisleg saga. Þau hafa vissulega orðið fyrir áföllum og djúpri raun – en haldið í hendur hvors annars og notið styrks hins.

Ástarsaga – mestur er kærleikurinn. Saga Guðs er ástarsaga, megingjarðir þessa heims er elska. Öll orð og verk Jesú Krists spruttu af elskusemi. Og Guð býður okkur líf í ást. Við erum frjáls til ástar og hins góða lífs.

Upphaf og fjölskylda

Þorsteinn Bjarnason fæddist í Reykjavík 13. október árið 1930. Hann var sonur Ágústu Ólafsdóttur frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og Bjarna Matthíassonar verslunarmanns í  Reykjavík. Þorsteinn ólst upp hjá móður sinni en átti einnig heimili hjá mæðgunum Jónínu Jónsdóttur og Þórdísi Fjólu Guðmundsdóttur. Hann gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og var ennfremur einn vetur í skóla í Reykholti.

Þegar hann var 15 ára gamall fór hann til sjós. Fyrstu árin var hann togarasjómaður og síðar farmaður hjá Skipadeild Sambandsins. Árið 1963 færði hann sig um set til Eimskipafélagsins og var bátsmaður hjá félaginu allt til ársins 1992 en þá batt hann enda á sjómennskuna eftir um 47 ára starfsferil. Vegna starfa sinna hjá félaginu var Þorsteinn sæmdur gullmerki Eimskipafélagsins. Og ég var beðinn um að bera þessari samkomu þakkir starfsfólks og stjórnar Eimskipafélagsins.

Þegar Þorsteinn kom í land hafði hann ekki snúið baki við vatni því hann réðst þá til starfa hjá Sundlaug Vesturbæjar. Þar var ekki fiskað í úfnum sjó en hann var í hlutverki sundlaugar- og baðvarðar og tryggði að vesturbæingar gátu notið sín, notið sunds og gefandi samfélags. Þorsteinn starfaði við sundlaugina, efldi gleðina og lægði stundum sjói mannlífsins. Árið 2000 lét hann af störfum fyrir aldurs sakir, virtur, metinn, verðlaunaður og lofaður af gestum og samstarfsfólki.

Bróðir Þorsteins var Ólafur Bjarnason múrarameistari og hálfsystir Ester Svanlaug Bjarnadóttir. Þau eru bæði látin. Fóstursystur hans eru Jónína Steinunn, Þórunn Rut og Guðmunda Kristín Þorsteinsdætur.

Hjúskapur og strákarnir

„Við sáumst niður í Hafnarstræti“ sagði Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir. „Hann var svo fallegur“ bætti hún við með blik í auga. Þetta var árið 1952. Hún vissi af honum áður og hann hafði spurnir af henni. Svo dróust þau að hvoru öðru og byrjuðu að búa. Þau gengu í hjónaband 14. júlí 1956. Guðrún er tæpum tveimur árum yngri en bóndi hennar og er dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar.

Þeim Þorsteini og Guðrún fæddust þrír synir.

Sæmundur Elías er elstur og kom í heiminn árið 1958. Kona Sæmundar er Svana Helen Björnsdóttir og þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein.

Óli Ágúst fæddist 1963 en lést árið 2001. Hann var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur og áttu þau dótturina Rakel Guðrúnu.

Jón Viðar er yngstur. Hann fæddist  árið 1971. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur og þau eiga börnin Þorstein Jakob og Guðmundu.

Óli Ágúst lést af slysförum fyrir tólf árum síðan – frá ungri eiginkonu og sex ára dóttur. Það varð þeim reiðarslag og breytti lífi þeirra hjóna og allra ástvina. Þá kom í ljós styrkur sambands þeirra.

Þorsteinn var öflugur fjölskyldumaður og þjónaði vel sínum. En vegna atvinnu var hann löngum að heiman og fjarverandi á stóru stundunum. Hann var t.d. ekki í landi þegar eldri synir hans fæddust en nærstaddur þegar Jón Viðar rak upp fyrstu rokuna.

En Guðrún, synir og barnabörnin nutu gjörhygli og návistar hans þegar hann hætti á sjónum og kom í land. Og það er hrífandi að heyra og lesa umsagnir barnabarna  Þorsteins hve natinn afi hann var. „Afi Steini var fágætur maður“ Þannig skrifar eitt þeirra sem taldi sig hafa unnið stóra vinninginn í afalóttinu. Steini afi veitti barnabörnum sínum mikið og þau voru honum hjartfólginn. Og fjölskyldan stóð saman og naut ríkidæmis samstöðunnar.

Og ekkert var ómögulegt á óskalistanum handa afa. Þorsteinn afi keyrði út og suður, austur og vestur. Hann skemmti sínu fólki, tefldi við barnabörnin, stakk pening í lófa, skrapp í sund með káta kúta, keypti eitthvað „með kaffinu“ og miðlaði til sinna hvernig góð tengsl eru ræktuð. Hann var „fyrirmyndarmannvera“ skrifar eitt barnabarnið. Svo þegar synir hans fóru til útlanda í skemmri eða lengri tíma var hægt að treysta afa Steina og ömmu Guðrúnu fyrir ungviðinu. Afi talaði fúslega við barnabörn sín í síma. Þau skipulögðu sundferðir eða aðrar mikilvægar ævintýrareisur. Það er mikið ríkidæmi að fá að njóta afa og ömmu sem kunna svo fjölbreytileg samskipti við barnabörn sín, eiga hlýjan faðm, hlusta vel, hafa getu til hlýrrar nærveru og spilandi lífsgáska.

Ástarsaga. Þorsteinn tamdi sér og iðkaði elskusemi í tengslum við fólk, efldi ástvini og miðlaði því sem er gott fyrir tengsl og samskipti. Engin styggðaryrði komu frá honum. Hann var smart, kurteis, örlátur, óeigingjarn, friðsamur og kærleiksríkur, verklaginn, sniðugur og bráðskýr. Þorsteinn var glæsilegur og fallegur eins og allt hans fólk – augu hans voru björt og leiftrandi. Hann var greindur, fróður og glöggur og því góður viðmælandi. Þorsteinn var öflugur ferðamaður og var jafn lipur við Guðrúnu sína eins og hún var hugmyndarík um verkefni og leiðir. Hann var mikill af sjálfum sér.

Og nú eru leiðarlok. Ástarsaga Þorsteins og Guðrúnar hrífur og smitar. Þau hafa orðið okkur sem aðveituæð eilífðar, hafa speglað hið góða og leyft ljósi að lýsa, vera sterkara en myrkur og sorg. Og svo nýtur fólkið þeirra – og við hin líka sem fáum að setjast í samtalsstólinn í stofunni eða eiga orðastað við Guðrúnu – hlægja með henni og undrast yfir margbreytileika lífisns.

Nú er Steini farinn en minningin um góðan dreng lifir. Hann skemmtir ekki lengur fólki í heita pottinum, fer ekki lengur í ævintýraferðir með Guðrúnu sinni eða skýst í ísbúðina með barnabörnum sínum. Það sést grilla í hann á mynd Google af Fornhagablokkinni og mynd hans lifir betur í minni ykkar og verður ykkur til eflingar. En Guð varðveitir mynd hans fullkomlega og Guð lætur sér ekki nægja eftirmyndir heldur varðveitir frummyndina, Þorstein sjálfan. Guð segir ástarsögur um sig, er sjálf ástarsagan. Og við megum vera persónur í því stórkostlega drama.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Ástin sem spinnur stóru sögu og við erum hluti af og megum njóta, lifa og iðka. Sú saga er burðarvirki tíma og eilífðar.

Guð geymi Þorstein Bjarnason – Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 18. október, 2013.