Greinasafn fyrir merki: saga Guðs

Ferðasögur og Saga

Hvað gerir þér gott? Hvernig getur frí orðið þér til góðs á þessu sumri? Hvað verður þér til heilsu og eflingar? Hvað verður þér brauð lífs? Ef þú ert í leyfi eða ræður algerlega þínum tíma – já hvað gerir þú? Og hvað gerir þú þessa mestu fríhelgi sumarsins?

Sumaráform fólks eru með ýmsu móti. Til er dugnaðarfólk, sem ætlar sér mikil afrek í sumarleyfinu, að byggja sumarbústað, mála alla íbúðina og skoða líka Austfirði! Við erum komin af vertíðarfólki, heyannafólki og tarnafólki og vinnusemi hefur löngum verið talin dygð á Íslandi. En að vinna hamslaust í sumarleyfi er hvorki ákjósanleg eða óumflýjanleg örlög. Að vinna er ekki tilgangur sumarleyfis. 

Frí er fyrir fólk en fólk ekki fyrir frí. Að “gera” eitthvað í leyfi er stundum nauðsyn, en að “vera” er mikilvægast. Besta markmið leyfis er reynsla sem nær til dýpta. Frí ætti að þjóna hvíld, hleðslu, ástvinum, andríki og uppbyggingu. Þá verður frí þjónn hamingju.

Ferðasögur
Við, sem eigum vini á facebook, sjáum sumarleyfamyndirnar á vefnum. Ekki aðeins á facebook heldur líka á Instagram, Flickr eða öðrum síðum. Svo eru ferðasögurnar. Og það er við þær, sem mig langar til að staldra við í dag. Það merkilega er, að þegar fólk segir sögur af ferðum sínum er það oft að tala um sjálft sig og líðan sína. Frásögurnar eru með margvíslegu móti og sumar hrífandi eða rosalegar. Þegar þú segir ferðasögu þína hverju ertu þá að lýsa? Getur verið að þegar þú segir ferðasögur þínar sértu að lýsa hver þú ert? 

Sum segja töfrandi undrasögur, sem fylla eyrun af músík, nefið af lykt, heilann af myndum og hugann af fögnuði. Ímyndunaraflið fer á flug og við upplifum undur og stórmerki og fáum jafnvel nýja sýn á lífið.

Aðrir segja harmþrungnar ferðasögur: „Gistingin var léleg, bílaleigubíllinn bilaði, kortinu var stolið, ferðaskrifstofan sveik margt, seinkun var á fluginu, það ringdi allan tímann, frumstætt þjóðfélag og þjónustustigið lágt, ferðafélagarnir leiðinlegir, drykkfelldir og hávaðasamir, sumir fengu matareitrun. Og það er gott að vera kominn heim!“ 

Svona sögur eru erfiðar og afar dapurlegar. Segja þær eitthvað um ferðalanginn?

En hrífandi sögur hafa allt önnur áhrif. Hver megnar að segja svo frá ferðum sínum að þær lifni og maður lifni við? Það er fólkið, sem hrífst og vill miðla, fólkið sem leyfir sér að upplifa til að verða snortið og gefur síðan af örlæti sínu. 

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að ferðasögur fólks segi meira um einstaklingana en ferðirnar sjálfar. Segðu mér ferðasöguna – því hún segir hver þú ert. 

Ferðasögur fólks eru ekki aðeins um Finnland, Korfú eða gönguför yfir Fimmvörðuháls, heldur fremur frásögur þess um eigið líf. Fólk, sem segir frá skemmtilegum ferðum og getur jafnvel séð í óveðri tilefni til tjáningar á dýpri veruleika, það er fólkið sem er tilbúið til að upplifa lífið á dýptina, tilbúið til að sjá margbreytileika eigin lífs. Þetta fólk er auðvitað ekki fullkomið frekar en við hin. Það lendir í djúpum sorgum í lífinu eins og aðrir. Það verður fyrir sjúkdómum og missir líka. En það hefur í sér þessa aukavídd, þennan bónus að geta upplifað perlur á sorgarhafsbotni, ljósbrot í myrkri, augnablikshamingju í hremmingum, séð hið hlálega í grafalvarlegum aðstæðum – numið hið dýrlega í veröldinni. Þetta fólk fer kannski í svipaðar ferðir og hin sem sjá ekkert nema neikvætt. En þau nema þó hið merkilega af því þau hafa í sér vilja og getu til að hrífast og eru tengd hinu stórkostlega. Þau hafa gluggann opinn inn í undur heims og jafnvel undur himins. Þau, sem segja bara sorglega ferðasögu, tjá stundum fremur depurð eigin lífs fremur en ferðar sem það fór.

Hvaða sögu segir þú af ferðum þínum? Staldraðu við og spyrðu þig um ástæður og samhengi. Sorglegar sögur þarf að segja og depurð þarf að tjá. En það er ekki heppileg leið til að leysa sálarháska að segja sorglega ferðasögu! Ferðasaga þín er sannleiksspegill. Ferðasaga fólks er eins og minningargrein um eigið líf!

Ferðasaga Guðs

Já, ferðasögur eru harla merkilegar. Mannasögur eru margs konar. En Guð hefur líka sagt sögu um sig. Sú saga byrjar með því að Guð elskar – elskar þig – vill ganga með þér á þinni för. Guð gisti í mennskum móðurlíkama konu, óx í mannheimi, hefur reynslu af þér og mér, þekkir mannkyn í gæsku og grimmd, gleði og sorg. Allar ferðasögur mannanna komu svo saman í krossi á hæð og tómri gröf. Ferðasaga Guðs er ekki saga um lélegt hótel Jörð, töpuð kort og leiðinlega ferðafélaga, heldur um að lífið er gott, vonbjart og mikilfenglegt. Það er ferðasaga Guðs, sem allar smásögur okkar manna ganga upp í. Ferðasaga Guðs er saga um gleði lífsins, að lífið er sterkara en dauðinn. 

Ferðasaga Guðs er jákvæð, kraftmikil og um ríkidæmi lífsins. „Ég er brauð lífsins…“ segir í texta dagsins. Á ferð með Guði njótum við fæðu, gæða, brautargengis – brauð lífsins er fyrir líf og nægir okkur. Allt sem er í þessar veröld eru gjafir sem Guð gefur, brauð lífsins er koma Guðssonarins og öll gæði sem Guð hefur mönnum, lífi, náttúru til gæfu. Brauð lífsins merkir að allt sem við reynum og lifum eru gjafir Guðs og til blessunar. Guð lætur sig þig varða, gefur þér og er með þér í öllum málum lífs. Er sjálfur kominn til að umvefja þig, efla, næra og blessa. Og fer aldrei fráþér. Guð er alltaf á veginum með þér.

Hver ert þú? Hver er ferðasagan þín? Varpaðu henni upp á spegil hugans, segðu fólkinu þínu hver þú ert og hvað þú upplifir, og berðu svo söguna þína fram fyrir hinn mikla ferðafrömuð sem hefur tjáð þér sína sögu í fyllingu lífs – dauða og síðan lífs.

Segðu mér ferðasögu þína og þá er ljóst hver þú ert.

Guð segir þér ferðasögu sína til að þú vitir hver Guð er. Og þú mátt ganga fram í messunni og njóta brauðs og víns. Það er ferð, sem Guð býður til og þar er tilefni reisu lífsins. Mynd af þeirri ferð verður ekki smellt á facebook, heldur er sagan undrasaga um faðmlag tíma og eilífðar, lífgun sálar. Sú saga verður endursögð í gleðisölum eilífðar. Saga þín verður saga Guðs.

Amen

A few words on the the theme of today. This happens to be the most active weekend for travelling in Iceland. The entire nation is on the move. And those of you coming from abroad are travelling too. I did talk about accounts or stories people tell about the travelling. What stories do people tell. Some tell awful stories and others tell stories of wonder and adventure, colorful and enticing stories. I have noticed that some people tell rather negative stories and others more or less tell stories of positive experiences. So my conclusion is that when people tell about their travelling they more or less tell stories about themselves. People who have negative stories about food, hotels and trips are telling more about themselves than the actual turn of events. And the people who tell about wonders and miracles are talking about their positive approach. So tell me about your trip – and I know something about who you are.

God has told us who God is. God has told about God´s trip in the world. That is an account about human bodies, human joy, hopes, wonders, miracles, and also about cruelty but finally that life is more powerful than death, hope is more powerful than despair, the good endures that which is evil.

All our accounts, all human experience and events are part of the primary story of God. All our short stories are parts og pieces of the divine story.

So, turn inside and think obout your story and turn to the world, and become engulfed by the wonder of the world, time, eternity and heaven. You are a pilgrim on the divine road.  

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 4.8. 2019.

Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð og verslunarmannahelgi. B-textaröð.

Þorsteinn Bjarnason – minningarorð

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Æfagömul spurning – og varðar hamingju, lífshætti og tilgang og kemur fram á varir og í hug allra manna. Jafngömul og mannkynið og jafn ný og börnin sem nú eru að fæðast. Hverju svarar þú? Hvað skiptir þig mestu máli? Hvað er þér svo mikils virði að þú vilt ekki fara á mis við?

Ég sat í vikunni í stofunni á Fornhaga 17 – á heimili Guðrúnar og Þorsteins – og dáðist að Guðrúnu þegar hún sagði mér frá manni sínum. Hún sagði fallega frá honum Steina sínum. Það kom blik í augu hennar, hláturinn hríslaðist um hana þegar hún sagði gamansögur af þeim hjónum, úr tilhugalífi, hjónalífi og viðburðum lífsins. Hún lýsti hve natinn hann var við fólkið sitt, tillitssamur og gjöfull. Hún tjáði svo vel þakklæti fyrir viðmót hans, dugnað, félagsfærni. Og hún vildi að ég segði frá hve þakklát hún væri honum. Orðin, fasið, æðruleysið urðu mér tjáning um djúp og merkingargefandi tengsl. Guðrún elskaði hann Steina sinn. Hún sagði mér hrífandi ástarsögu. Og Þorsteinn elskaði hana og fólkið þeirra. Hann elskaði drengina sína, barnabörnin og tengdabörnin. Og hann var svo elskuverður að börn og málleysingjar löðuðust að honum. Og við komum til þessarar athafnar og njótum ástarsögu, hugsum um Þorstein, sem vildi og valdi frekar lifa í veröld lífsleikninnar en skuggasundanna.

Ástarsaga Guðrúnar og Þorsteins er yndisleg saga. Þau hafa vissulega orðið fyrir áföllum og djúpri raun – en haldið í hendur hvors annars og notið styrks hins.

Ástarsaga – mestur er kærleikurinn. Saga Guðs er ástarsaga, megingjarðir þessa heims er elska. Öll orð og verk Jesú Krists spruttu af elskusemi. Og Guð býður okkur líf í ást. Við erum frjáls til ástar og hins góða lífs.

Upphaf og fjölskylda

Þorsteinn Bjarnason fæddist í Reykjavík 13. október árið 1930. Hann var sonur Ágústu Ólafsdóttur frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og Bjarna Matthíassonar verslunarmanns í  Reykjavík. Þorsteinn ólst upp hjá móður sinni en átti einnig heimili hjá mæðgunum Jónínu Jónsdóttur og Þórdísi Fjólu Guðmundsdóttur. Hann gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og var ennfremur einn vetur í skóla í Reykholti.

Þegar hann var 15 ára gamall fór hann til sjós. Fyrstu árin var hann togarasjómaður og síðar farmaður hjá Skipadeild Sambandsins. Árið 1963 færði hann sig um set til Eimskipafélagsins og var bátsmaður hjá félaginu allt til ársins 1992 en þá batt hann enda á sjómennskuna eftir um 47 ára starfsferil. Vegna starfa sinna hjá félaginu var Þorsteinn sæmdur gullmerki Eimskipafélagsins. Og ég var beðinn um að bera þessari samkomu þakkir starfsfólks og stjórnar Eimskipafélagsins.

Þegar Þorsteinn kom í land hafði hann ekki snúið baki við vatni því hann réðst þá til starfa hjá Sundlaug Vesturbæjar. Þar var ekki fiskað í úfnum sjó en hann var í hlutverki sundlaugar- og baðvarðar og tryggði að vesturbæingar gátu notið sín, notið sunds og gefandi samfélags. Þorsteinn starfaði við sundlaugina, efldi gleðina og lægði stundum sjói mannlífsins. Árið 2000 lét hann af störfum fyrir aldurs sakir, virtur, metinn, verðlaunaður og lofaður af gestum og samstarfsfólki.

Bróðir Þorsteins var Ólafur Bjarnason múrarameistari og hálfsystir Ester Svanlaug Bjarnadóttir. Þau eru bæði látin. Fóstursystur hans eru Jónína Steinunn, Þórunn Rut og Guðmunda Kristín Þorsteinsdætur.

Hjúskapur og strákarnir

„Við sáumst niður í Hafnarstræti“ sagði Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir. „Hann var svo fallegur“ bætti hún við með blik í auga. Þetta var árið 1952. Hún vissi af honum áður og hann hafði spurnir af henni. Svo dróust þau að hvoru öðru og byrjuðu að búa. Þau gengu í hjónaband 14. júlí 1956. Guðrún er tæpum tveimur árum yngri en bóndi hennar og er dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar.

Þeim Þorsteini og Guðrún fæddust þrír synir.

Sæmundur Elías er elstur og kom í heiminn árið 1958. Kona Sæmundar er Svana Helen Björnsdóttir og þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein.

Óli Ágúst fæddist 1963 en lést árið 2001. Hann var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur og áttu þau dótturina Rakel Guðrúnu.

Jón Viðar er yngstur. Hann fæddist  árið 1971. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur og þau eiga börnin Þorstein Jakob og Guðmundu.

Óli Ágúst lést af slysförum fyrir tólf árum síðan – frá ungri eiginkonu og sex ára dóttur. Það varð þeim reiðarslag og breytti lífi þeirra hjóna og allra ástvina. Þá kom í ljós styrkur sambands þeirra.

Þorsteinn var öflugur fjölskyldumaður og þjónaði vel sínum. En vegna atvinnu var hann löngum að heiman og fjarverandi á stóru stundunum. Hann var t.d. ekki í landi þegar eldri synir hans fæddust en nærstaddur þegar Jón Viðar rak upp fyrstu rokuna.

En Guðrún, synir og barnabörnin nutu gjörhygli og návistar hans þegar hann hætti á sjónum og kom í land. Og það er hrífandi að heyra og lesa umsagnir barnabarna  Þorsteins hve natinn afi hann var. „Afi Steini var fágætur maður“ Þannig skrifar eitt þeirra sem taldi sig hafa unnið stóra vinninginn í afalóttinu. Steini afi veitti barnabörnum sínum mikið og þau voru honum hjartfólginn. Og fjölskyldan stóð saman og naut ríkidæmis samstöðunnar.

Og ekkert var ómögulegt á óskalistanum handa afa. Þorsteinn afi keyrði út og suður, austur og vestur. Hann skemmti sínu fólki, tefldi við barnabörnin, stakk pening í lófa, skrapp í sund með káta kúta, keypti eitthvað „með kaffinu“ og miðlaði til sinna hvernig góð tengsl eru ræktuð. Hann var „fyrirmyndarmannvera“ skrifar eitt barnabarnið. Svo þegar synir hans fóru til útlanda í skemmri eða lengri tíma var hægt að treysta afa Steina og ömmu Guðrúnu fyrir ungviðinu. Afi talaði fúslega við barnabörn sín í síma. Þau skipulögðu sundferðir eða aðrar mikilvægar ævintýrareisur. Það er mikið ríkidæmi að fá að njóta afa og ömmu sem kunna svo fjölbreytileg samskipti við barnabörn sín, eiga hlýjan faðm, hlusta vel, hafa getu til hlýrrar nærveru og spilandi lífsgáska.

Ástarsaga. Þorsteinn tamdi sér og iðkaði elskusemi í tengslum við fólk, efldi ástvini og miðlaði því sem er gott fyrir tengsl og samskipti. Engin styggðaryrði komu frá honum. Hann var smart, kurteis, örlátur, óeigingjarn, friðsamur og kærleiksríkur, verklaginn, sniðugur og bráðskýr. Þorsteinn var glæsilegur og fallegur eins og allt hans fólk – augu hans voru björt og leiftrandi. Hann var greindur, fróður og glöggur og því góður viðmælandi. Þorsteinn var öflugur ferðamaður og var jafn lipur við Guðrúnu sína eins og hún var hugmyndarík um verkefni og leiðir. Hann var mikill af sjálfum sér.

Og nú eru leiðarlok. Ástarsaga Þorsteins og Guðrúnar hrífur og smitar. Þau hafa orðið okkur sem aðveituæð eilífðar, hafa speglað hið góða og leyft ljósi að lýsa, vera sterkara en myrkur og sorg. Og svo nýtur fólkið þeirra – og við hin líka sem fáum að setjast í samtalsstólinn í stofunni eða eiga orðastað við Guðrúnu – hlægja með henni og undrast yfir margbreytileika lífisns.

Nú er Steini farinn en minningin um góðan dreng lifir. Hann skemmtir ekki lengur fólki í heita pottinum, fer ekki lengur í ævintýraferðir með Guðrúnu sinni eða skýst í ísbúðina með barnabörnum sínum. Það sést grilla í hann á mynd Google af Fornhagablokkinni og mynd hans lifir betur í minni ykkar og verður ykkur til eflingar. En Guð varðveitir mynd hans fullkomlega og Guð lætur sér ekki nægja eftirmyndir heldur varðveitir frummyndina, Þorstein sjálfan. Guð segir ástarsögur um sig, er sjálf ástarsagan. Og við megum vera persónur í því stórkostlega drama.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Ástin sem spinnur stóru sögu og við erum hluti af og megum njóta, lifa og iðka. Sú saga er burðarvirki tíma og eilífðar.

Guð geymi Þorstein Bjarnason – Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 18. október, 2013.