Greinasafn fyrir merki: Hallgrímskirkja

Tilbrigði við gult og glatt

Fæturnir taka á sprett síðasta spölinn yfir Hallgrímstorgið. Það er gott að skjótast úr strengnum inn í myndheim forkirkjunnar.  Augun leita inn altarisleiðina.  Og sjá, við dyrnar er lygilega gulur lyftari á fleygiferð.  Lyftustjórinn er organistinn, Hörður, sem óhikað rekur gaffalinn undir útstöð orgelsins á kirkjugólfinu.  Hann brosir lítillega við undrandi kirkjugesti og lyftir tækinu, rennir því og orgelhlunknum nær miðjugagni og lætur það svo síga á setstað. Þarna vill hann spila í dag.  Hörður setur stút á munninn og reyndar allt andlitið.  Það dettur á hann einhver suður-evrópskur maestrosvipur, sem hann hefur örugglega einhvers staðar þegið að láni frá tónsnillingi í ham.  Svo hneigir hann höfuð snöggt og með rykk. Þá umhverfist þykistualvaran í glens og bros breiðist yfir andlitið.  Ekkert er sagt, en atferlið er tilbrigði við gulan orgellyftara eða er þetta gjörningur?  Fyrsta verk í undirbúningi sunnudagsmessu.

Svo er tilbrigði við næsta stef.  Klukkan er ekki tíu og kórmeðlimir koma.  Sumir líða inn úr rokinu eins og svefngenglar. Lyktin og lætin laða þau beint að eldhúsi í kaffi.  Hörður stendur á miðju gólfi og veitir öllum athygli.  Einn feiminn tenór hlýtur góðlátlega athugasemd og ein úr altinum fær stroku fyrir spilerí á tónleikum í liðinni viku.  Svo er þétt handtak og umhyggjuaugu honum, sem missti ömmu sína í vikunni.  Presturinn kemur með góðan daginn og þeir samverkamennirnir eru fallegir í framan saman.  Svo fer klerkur til að stýra fræðslumorgni, en kantórinn kallar sitt fólk.  Hann tekur létt vingsspor frá Suðursal og alla leið í Norðursal.  Nokkur kórpils valhoppa með.  Dagur og messa eiga sér elskulegan undirbúning. Kantórinn sér fólkið sitt, hefur ræktað með sér hæfni til að tengja við tilfinningar samverkamanna.  Fólk skiptir máli.  Þetta fólk er ekki aðeins raddir heldur lifandi verur.  Iðkun kærleika er flottur spuni.

A-a-a-a-a, e-e-e-e-e. Ah-ah-ah-ah-ah.  Upp tónstigann, svo niður. Vindurinn hrífst með og gnauðar um gluggarifu.  Kviðvöðvarnir í kipp, leitað að þindinni og slakað á brjóststykkinu.  Varir eru teygðar í sérhljóðavinnslu, raddböndin mýkt upp, axlir í spennulausri hvíld. Líf færist í tónmyndun og hljómur hópsins skýrist.  Vantar bara einn því félagar í Mótettukór standa við sitt, svíkja ekki messusönginn. Söngstjórinn æfir fólk í að muna hvar samhengið og miðjan er.  Svo kemur lítil og kímileg saga.  Upphitun er með fjölbreytilegu móti og aldrei alveg eins.  Hörður er lítið fyrir læsta endurtekningu og kann fjölbreytni, sem rímar betur við fólk og líðan þess.

Crügerlaglína berst frá píanóinu á meðan hjartað og lífið er signt í huganum.  Flett er upp í sálmabókinni. “Nú gjaldi Guði þökk, hans gjörvöll barnahjörðin….” Aðeins sungið einu sinni.  Svo kemur miskunnarbænin: “Drottinn miskunna þú oss…”  Hvað þýðir það og af hverju þrítekið með Kristmiðju?  Þrenningin!  Og glorían svo, síðan heilsan með þínum anda!  Guðspjallssálmur með hússælu og minnt á kredóið.  Auðvitað játningin á sínum stað og svo enn einn sálmurinn. Engin ástæða til að syngja fjórraddað í safnaðarsöngnum. Hallgrímssöfnuður syngur, en svo leggja einstaklingar í kór og kirkju á hljómadjúpin.  Bach er sérstaklega æfður í tilefni dagsins.  Þá er kórinn opnaður.  Hörður stekkur upp og byrjar að stjórna.  Það þarf ekki að stoppa nema tvisvar og syngja aftur yfir.  Svona er kórverkfærið gott og agað.  Allir lesa óhikað – og treysta.  Svo eru sálmarnir sungnir sem eftir eru.  Allt búið – „gott, þið eruð yndisleg“ segir hann. Þá er farið í kaffi. Allur messuhringurinn er örugglega fetaður, fallegur gjörningur og gefur öryggi.  Kórinn er þéttur og samheldinn.  Bachhrynjandin og línan fylgir manni fram.

Messuupphaf og allar nótur á sínum stað.  Allar stillingar eru tilbúnar.  Höfuð organistans hnígur lítillega og messuferðin hefst. Fingur á loft og stóri Kláus tekur við rafboðum, þenur pípur og prelúdíutónar fylla hvelfingu.  Kórfélagar ganga til stæða sinna. Presturinn gengur fram mót altari.  Hörður skágýtur augum til kórsins meðan fætur dansa á bassanum og fingur líða yfir borð.  Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.  Ekki tilbrigði heldur frumstefið, sem allt er tilbrigði við, hvort sem það er nú Bach eða Þorkell, Matthías eða Lilja, kredó, predikun, borðsamfélag eða blessun.  Orðið er lesið, síðan útlagt og söfnuður gengur til guðsborðsins.  Uppréttar hendur og blessun.  Hallgrímur leggur orð á varir safnaðar með “Son Guðs ertu með sanni.”  Prestur og kór ganga fram og allir eru á leið út í veröldina með huggun í vegarnesti.

Eftirspilið er tilbrigði við lokasálm.  Organistinn spinnur úr stefinu, hljómarnir þyrlast upp og mynda stafla og stæður.  Smátt og smátt verður til tónverk í spunagleðinni.  Á miðganginum er hugsað, að það sé dásamlegt að söfnuður og kirkja njóti slíks snillings til að þjóna hinu góða erindi við veröldina.  Sólin leikur sér á norðurvegg kirkjunnar og baðar sinn góða vin á orgelstólnum.  Fætur hans dansa, kirkjugestir stoppa og guli orgellyftarinn ymur í gleði.  Gott ef ekki sést glytta í englavængi þarna uppi.  Allir glaðir, enda erindið kennt við fögnuð.

Grein mín til heiðurs Herði Áskelssyni birtist í minningarriti Mótettukórsins árið 2003. Myndirnar frá 2005 þegar Hörður kynnti Klaisorgel Hallgrímskirkju fyrir fulltrúum Porvoo-kirknasambandsins. 

Heimsborgari og sveitamaður kveður

Sá líflegi vefur Lifðu núna birti viðtalsgrein okkar Ernu Indriðadóttur. Fyrirsögnina dró Erna út úr kveðjuræðu Einars Karls Haraldssonar, formanns sóknarnefndar Hallgrímskirkju. Greinin birtist upprunalega á slóðinni að baki þessari smellu en er hér einnig: 

Það er komið að starfslokum hjá Séra Sigurði Árni Þórðarsyni sóknarpresti í Hallgrímskirkju sem kvaddi söfnuð sinn í messu 26.mars.  Þar talaði Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar og sagði meðal annars um klerkinn fráfarandi:

Sigurður Árni er í senn heimsmaður, heimamaður og sveitamaður! Hann kom til okkar fullmótaður af akri kristninnar á Íslandi. Hann hafði eftir embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands  verið sveitaprestur og borgarprestur, rektor Skálholtsskóla og fræðslustjóri á Þingvöllum, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og stundakennari við Háskóla Íslands. Aukin heldur er hann heimsmaður með útsýn til annarra landa eftir kristnifræðinám í Noregi og doktorspróf í guðfræði og hugmyndasögu frá Vanderbiltháskóla í Tennessee í Bandaríkjunum.  Raunar var hann heimamaður í Hallgrímskirkju áður en hann var kjörinn hér sóknarprestur, bæði sem kórsöngvari um skeið og afleysingaprestur árið 2003. Hann er líka sveitamaður í sér með djúpar rætur í svarfdælskum sverði og í ræktunarstarfi móður sinnar kringum Litla bæ á Grímstaðaholtinu. Þeirri hlið á sóknarprestinum höfum við einnig fengið að kynnast.

Blaðamaður náði netsambandi við Sigurð Árna núna fyrir hátíðarnar og spurði hann fyrst hvernig það væri að kveðja Hallgrímskirkju?

Þessa dagana finn ég mest og dýpst fyrir þakklæti. Ég hef notið trúnaðar fólks á stóru stundunum og krossgötum lífsins. Ég hef notið trausts til verka og frelsis til að vera, hugsa og skapa. Samferðafólk mitt var svo elskulegt að umvefja mig, gefa mér gjafir og þau sem hafa notið orða eða prestsverka minna hafa sent mér kveðjupósta og gælt við mig með margvíslegu móti. Ég hef verið lánssamur og er þakklátur fyrir að kveðja Hallgrímskirkju í blússandi vexti.

Séra Sigður Árni skírði þessi þrjú systkini

Hvað hefur breyst mest í kirkjunni síðan þú hófst störf þar og þar til þú lætur af störfum? 

Þjóðkirkjan var fyrir fjórum áratugum stofnun sem rammaði líf fólks. Hún hverfðist um stóratburði lífsins og naut trausts. Samfélagsbreytingar, menningarþróun og brestir nokkurra leiðtoga kirkjunnar urðu til að grafa undan því trausti. Hlutverk kirkjunnar sem lykilstofnunar flestra eða meirihluta landsmanna er algerlega breytt. Nú velur fólk hvort það nýtir þjónustu kirkjunnar, fer í messu, sækir kóræfingar, ræðir við prestinn um djúpu spurningarnar, biður um skírn, vill láta fermast, vera blessað við altari eða kveðja ástvini sína í hinsta sinn í kirkju. Valkostirnir eru fleiri og þá er komið að tækifærum kirkjunnar til að bregðast við. Það er tilgangslaust að efna til auglýsingaherferðar til að auglýsa trú. Einhvers konar kirkjuförðun þjónar engum tilgangi heldur er hlutverk kirkjunnar að iðka trú, hugsa guðsverkið inn í aðstæður samfélagsins, vitja gilda, ganga erinda manngildis og þar með verja þau sem hallað er á, þora að gera tilraunir – þora að vera alvöru kirkja. Kirkjustofnun er eitt en kristni er annað. Þó menn segi sig úr kirkjunni er ekki þar með sagt að þeir hafi sagt sig frá Guði. Guð er ekki bundinn af trúfélagi en kirkja er bundinn af Guði. Nú er tími til að skapa, vera og kveða dýrt.

Hvernig undirbjóstu starfslokin?  

Ég gekk síðasta hluta Jakobsvegarins á Spáni fyrir fimm árum og hafði næði til að hugsa, endurskoða stefnumið og áhugaefni. Eftir það fór ég að taka til í tölvunni og huganum. Ég las allar eitt þúsund ræðurnar mínar sem ég hef haldið um dagana og valdi svo úr safninu. Það er meginstef eða rauður þráður í þessum íhugunum mínum – ástin. Ástin í náttúrunni, mannlífinu, listinni, menningunni er að mínum skilningi guðsneistinn í öllu. Þetta ræðusafn verður svo gefið út í haust. Í gamla daga voru kirkjuræður kallaðar postillur og vinnuheitið hefur verið ástarpostilla en eftir er að ákveða heiti bókarinnar. En það verður væntanlega elskulegt. Mér þykir gaman að fást við orð, elda og njóta. Ég hef skrifað mikið um dagana og er með útgáfuröð í tölvunni. Ég tók mikið myndum af kirkjustarfinu í Hallgrímskirkju, af fólkinu mínu og náttúrunni. Ljósmyndun er mér gleðigjafi og ég mun halda henni áfram. Ég fór að elda meira af Biblíumat og læra meira á krydd og kúnstir við eldavélina. Svo fór ég að flokka bækurnar mínar og losa mig við það sem ég hafði ekki pláss fyrir og sá ekki fyrir mér að ég myndi lesa. Þetta varðar allt djúphreinsun sálar og vinnu og varð til þess að ég ákvað að hætta fyrr í vinnu en ég þurfti því mig langar til að fæðast til nýrrar tilveru og geta sjálfur ákveðið hvað ég geri við stundir, daga og ár sem eftir eru. Tíminn er dýrmætur og ég vil nota hann vel. Heilsan er sömuleiðis ekki sjálfgefin og þarf að rækta.

Séra Sigurður Árni og Elín Sigrún Jónsdóttir útdeila við altarisgöngu 26. mars.

Hvernig sérðu næstu árin fyrir þér?

Hver dagur er tækifæri og gjöf sem ég reyni að nota vel. Mér þykir gaman að þjóna fólkinu mínu og er í þeirri skemmtilegu stöðu að eiga stráka í menntaskóla. Ég leyfi mér oft að vera þriðji unglingurinn á heimilinu, detta í sófann og horfa á fótbolta með þeim eða mynd. Ungt fólk á heimili tryggir að maður er betur tengdur við hræringar og breytingar. Ég hef líka alla tíð verið tæknitengdur og hef alltaf sagt að maður verði og eigi að vera á öldufaldi tækninnar – annars skráir maður sig út úr samfélagi og inn í ótímabæra elli. Ég nýt hamingju í heimalífinu og ég er giftur stórkostlegri konu sem kann að gleðjast, hlusta, tala og hlæja. Þegar heimalífið er gott og heilsa leyfir er hægt að njóta. Ég er búinn að skrá mig í nýtt háskólanám og dekurverkefni mín verða að skrifa, ljósmynda og elda. Svo verður að koma í ljós hve lengi heilsa og tími leyfa mér að vera og gera.

Halda prestar oft áfram ákveðnum störfum, athöfnum, eftir formleg starfslok?

Afstaða presta varðandi prestsverk er mismunandi. Einstaka hafa séð gildi sitt í að jarða og gifta eftir að þeir hafa látið af opinberum störfum. Sú breyting er orðin í þjóðkirkjunni að prestar eru hvattir til að sinna ekki prestsverkum eftir starfslok. Það er vel því starfandi prestar eiga að sinna slíku og gera vel. En hlutverki presta er ekki lokið eftir starfslok. Við erum áfram hugsandi og lifandi trúmenn og getum gegnt mikilvægu hlutverki í samtali í samfélaginu, verið fólki til stuðnings, tekið þátt í menningadeiglunni með greinum, hlaðvarpi, listiðju alls konar, haldið ræður og hugsað nýjar hugsanir fyrir framtíðina. Prestur hættir að gifta og jarða en hættir ekki að vera manneskja, tala við Guð, menn og menningu.

Hvernig viltu eldast?

Mig langar að vera kátur kall og fallegt gamalmenni. Mig langar til að rölta með konunni minni sem víðast. Halda líka áfram að hrífast af ljósgangi lífsins, skemmtilegum textum og góðum mat. Hamingjan er alltaf heimagerð.

Sigurður Árni er með skemmtilega heimasíðu þar sem þessa mynd af prestinum í eldhúsinu er að finna

Þú ert með mataruppskriftir á vefsíðunni þinni, hefurðu mikinn áhuga á matargerðarlist?

Já, borðsamfélag er aðalmál í lífinu. Miðjan í öllum alvöru kirkjum heimsins er borð og það merkir að fólk kemur saman til að nærast. Jesús Kristur var veislukall og við erum öll boðin til veislu lífs og veraldar. Vegna aðstæðna í fjölskyldu minni neyddist ég til að elda fyrir fólkið mitt og lærði að kokkhúsið var ekki bara nauðsynlegt heldur líka dásamlegt fyrir samfélag og tilraunir. Ég uppgötvaði svo á sínum tíma að heilsufæði nútímans er líkt fæðu hinna fornu samfélaga við Miðjarðarhafið. Svo ég fór að gera tilraunir með biblíufæði og þegar nýja safnaðarheimili Neskirkju varð til urðu til biblíuveislur. Biblíumatur er langtímaverkefni og mér skilst að það bíði eftir mér í einu forlaginu titillinn Presturinn í eldhúsinu. Mér hefur líka þótt stórkostlegt hve mörg hafa sagt mér að þau fari inn á vef minn sigurdurarni.is og noti mataruppskriftirnar mínar. Mér hefur þótt sérstaklega gott hve margir karlar hafa þorað að elda af því þeir hafa treyst mér til að setja ekki á vefinn nema almennilega rétti, bragðgóða, holla, auðeldaða og hæfilega nútímalega. Ég sé á vefteljaranum að tugir þúsunda hafa farið inn á þessar uppskriftir.

Geturðu miðlað eins og einni þeirra til lesenda Lifðu núna?

Maríukjúklingurinn er skemmtilegur réttur og dæmi um biblíumat. Öll hráefnin voru tiltæk Maríu í Nasaret, móður Jesú.

Uppskriftin er fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
4-6 hvítlauksgeirar pressaðir
1 tsk kúmmín (broddkúmmín)
1,5 tsk túrmerik
1 tsk kanill malaður
salvía, helst fersk og smáskorin annars þurrkuð
1 stór rauðlaukur saxaður
3 skalottulaukar saxaðir (laukurinn fær nafnið frá staðarnafninu Askelon í Ísrael)
sítrónubörkur rifin með rifjárni (notið helst lífræna sítrónu)
safi úr einni sítrónu ca 70 ml. – má líka vera appelsínubland
150 gr spínat (einn fjórði hluti af spínatinu til að dreifa yfir kjötið þegar það er borið fram)
300 ml grænmetiskraftur
10 döðlur langskornar (Medjool-döðlur eru bestar en líka má fíkjur/sveskjur í staðinn).
Maldonsalt
Heslihnetur (flögur eða muldar og við smjörbrúnuðum þær á pönnu í stutta stund)

Bygg (t.d. Vallanesbygg)

Kjúklingurinn er marineraður í sólarhring. Bringurnar eru kryddaðar (hvítlaukur, kúmmín, túrmerik, kanill, salvía og salt) og síðan geymdar í kæli. Þegar eldamennskan hefst er kjötið tekið úr kælinum og leyft að ná húshita fyrir steikingu. Olía á heita pönnu. Kjúklingurinn brúnaður og kjötinu lokað. Skorinn laukurinn settur í ofnfast fat og kjúklingabitunum komið fyrir ofan á lauknum. Grænmetiskraftinum hellt í fatið og sítrónuberkinum stráð yfir. Spínat og döðlur yfir (haldið þó eftir ofurlitlu af spínati til að dreifa yfir kjötið þegar það er borið fram). Látið malla í ofninum (180-200°C) í fjörutíu mínútur. Gæta þess að vökvinn gufi ekki allur upp, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með byggi. Síðan er spínatinu og heslihentum dreift yfir líka. Svo má líka afhýða appelsínu eða mandarínu, þverskera og koma hálfri fyrir á hverjum diski. Litirnir fara fallega með matnum og sætur ávöxtur passar vel með. Takk fyrir mat og gott líf.

Hér er linkur á vefsíðu Sigurðar Árna.

Kennimyndina og altarisþjónustumyndina tók Hrefna Harðardóttir í messu á boðunardegi Maríu 26. mars 2023. Hinar myndirnar eru úr einkasafni. 

Lausn frá embætti

Ég óska lausnar frá embætti sóknarprests Hallgrímskirkju. Þannig var beiðnin sem ég sendi stjórnsýslu kirkjunnar um að ég óskaði að láta af starfi sóknarprests. Ég fékk svar til baka frá biskupi að mér væri veitt lausn. Ég lýk því brátt störfum sem prestur í þjóðkirkjunni og sóknarprestur Hallgrímskirkju.

Ég man að þegar ég hóf prestsþjónustu í Skaftafellssýslu var allt svo nýtt, allt var í fyrsta sinn og líka meðal Þingeyinga síðar. Svo var flest nýtt í Neskirkju og margt þurfti ég að læra þegar ég hóf störf í Hallgrímskirkju. En nú er fæst nýtt heldur allt síðast. Nú er aðventuguðsþjónustan á sunnudag sú síðasta á æfi minni sem prests. Síðasta “miðnæturmessan” og síðasta jólaguðsþjónustan á annan í jólum. Ég prédika í síðasta sinn á gamlársdag og nýársmessan verður sú síðasta á minni æfi – líklega. Síðast er allt öðru vísi en í fyrsta sinn. Hvorki verra né betra en allt annarar merkingar. Í mínu tilviki er ég ekki að stoppa eða deyja heldur virða breytinguna, finna til og hugsa í gegnum hana. Opna til nýs lífs. Ég er að byrja þriðja æfiskeiðið og tíminn er opinn. Frelsið er róttækt.

Óska lausnar – en lausnar frá hverju? Orðfæri kirkjunnar eins og opinberrar stjórnsýslu er um þunga eða byrðar sem hægt er að létta af fólki. Okkur prestum eða djáknum er veitt lausn því embætti er byrði þess að bera ábyrgð á kirkjulegri þjónustu við ákveðinn hóp fólks og í ákveðnum aðstæðum. Stólan er tákn oksins og sett á axlir hins nývígða. En byrði mín hefur verið létt því ég hef virt inntak trúmennskunnar og skorður frelsisins. Nú verður skyldunum brátt létt af og ég ræð mínum tíma sjálfur, geri það sem ég hef mest gaman af, sinni því sem ég hef sett til hliðar jafnvel í áratugi, skrifa um það sem brennur í sinni eða blæðir í hjarta og geng þær leiðir sem kalla. Af mér verður létt embætti en ekki reisunni með Guði, ástvinum, fólki og öðrum skemmtikröftum lífsins.

Hvað ætla ég að gera? Ég ætla að læra meira og læra margt nýtt, fara lengra og breyta mörgu. Gefa út postilluna sem ég er að klára, úrval predikana minna. Svo langar mig líka til að ganga portúgalska Jakobsveginn í vor með elskunni minni. Drama kristninnar er lífið. Bakpokinn verður ok á öxlum og frelsið í fótum, hjarta og huga.

Meðfylgjandi mynd tók ég á norðurleið Camino – Jakobsveginum á Spáni. Nýr vaxtartími viðarteinunganna á aprílakrinum. 

Til hvers Grímseyjarkirkja, Hallgrímskirkja og … ?

Til hvers kirkja? Er þörf fyrir kirkju? Það er vissulega hægt að ná sambandi við Guð í fjallgöngu, við eldhúsborðið, í búðinni eða bílnum. En trú er ekki bara einstaklingsmál. Trú er stór og alltaf samfélagsmál. Kirkjuhús eru hús til að taka á móti fólki sem leitar hins heilaga, vill syngja lífssöngva, kyrra huga, nærast andlega og leyfa öllu því sem er hið innra að tengjast því djúpa, háleita, stórkostlega, tíma og eilífð – Guði. Kirkja er hverju samfélagi nauðsyn, ekki aðeins til að vera vettvangur um stóratburði lífsins, kveðja látna ástvini og félaga heldur eru kirkjur líka tákn um að nærsamfélagið lifir. Kirkjur eru lífstákn hverrar byggðar. Þegar kirkja brennur, fýkur eða skaddast er það áfall. Kirkjubruninn í Grímsey í september var skelfilegur og varðaði ekki bara Grímseyinga heldur þjóðina, okkur öll. Það var undursamlegt að fylgjast með viðbrögðum landa okkar eftir brunann, hve samúðin var rík og hve margir tjáðu vilja til að styrkja Grímseyinga. Og nú á að byggja. Er það ráðlegt, mikilvægt, gerlegt eða jafnvel þjóðhagslega hagkvæmt?

Til að svara slíkri spurningu er þarft að skoða sögu Hallgrímskirkju. Margir lögðust gegn byggingu kirkjunnar á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. En hópur hugsjónafólks ákvað að byggja. Sigurbjörn Einarsson messaði á Holtinu og hvatti til framkvæmda. Ekki vantaði úrtölufólkið en kraftmiklir ofurhugar létu ekki stoppa sig. Miðað við fátækt safnaðar og kostnaðaráætlanir var fáránlegt að láta sig dreyma um svona stóra byggingu. Byggingaráform Hallgrímskirkju þóttu órar. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar.

Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. „Við skulum fara til og byggja“ var prédikað á Skólavörðuholti. Ofurhugar Íslands heyrðu og við stöndum í þakkarskuld við þá. Þeir voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags. Milli bragganna í Skipton Camp á Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Svo var haldið áfram. Fjöldi iðnaðarmanna hafði atvinnu og lifibrauð af byggingu guðshússins í áratugi. Og þeir unnu kraftaverk og kirkjan var vígð 26. október 1986. Hún á því 35 ára vígsluafmæli nú. Síðan hafa tugir milljóna hafa komið í þetta guðshús.

Grímseyjarkirkja

Kirkja er samfélagi nauðsyn. En er ástæða til að byggja kirkju í Grímsey? Já, þar sem er fólk þarf kirkja að vera, lifandi vettvangur um dýpstu mál lífsins, bestu söngva veraldar og staður til að tjá það sem skiptir máli. Hallgrímskirkjufólk veit hversu mikilvægt var að fá stuðning í framkvæmdum. Og það eru mörg sem stutt hafa kirkjubygginguna, kirkjustarfið, kirkjulistina og fólkið sem hér hefur starfað. Og af því við vitum að ofurhugar þurfa stuðning hefur sóknarnefnd Hallgrímskirkju ákveðið að fjóra sunnudaga í röð munum við í þessari kirkju safna fé til kirkjubyggingar í Grímsey. Fjármunir koma frá þeim sem koma í messu í kirkjunni en að auki hefur sóknarnefnd líka ákveðið að leggja fjármuni úr styrktarsjóði kirkjunnar á móti messusamskotum. Við viljum styðja kirkjubyggingu í Grímsey því kirkja er nauðsyn. Svo tengjumst við Grímseyjarkirkju með ýmsum hætti. Kirkjuvörður og sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju er t.d. sonur Einars Einarssonar djákna í Grímsey, þess oddhaga kirkjumanns sem vígðist til þjónustu í Grímsey. Fonturinn sem hann gerði brann í kirkjubrunanum. Þegar áföll verða getur endurnýjun hafist. Kirkja er lífsmark, tákn, vettvangur og í Grímsey þarf meira en heimskautsbaut og höfn. Grímsey þarf helgistað, guðshús fyrir fólk. Förum til að byggja var sagt á Skólavörðuholti og svo varð. Förum til að byggja í Grímsey – og svo mun verða.

Bæn og kraftaverk

Í guðspjalli dagsins segir Jesús merkilega sögu. Um konu sem hafði í sér einurð, einbeittni og þor. Hún hafði verið órétti beitt og vildi ekki láta ofbeldið eða óréttinn sigra. Konan ætlaðist til að réttarkerfið virkaði, dómarinn sinnti starfi sínu og mál væru réttilega dæmd skv. lögum og góðri stjórnsýslu. Og hún bað, talaði og hikaði ekki. Hún var n.k. spámaður metoo í fornöld. Þegar þolandi víkur ekki heldur höfðar til sannleika og réttar falla álögin. Jesús Kristur stóð alltaf með lífinu og sagði þessa sögu af konunni sem þorði, vildi og gat. Einbeitni í lífinu skiptir máli. Staðfestan skilar að festurnar losna. Sögumaðurinn Jesús notaði dæmið til að minna á guðsdýrkun og hið mikilvæga að biðja. Í lífinu þörfnumst við þess að tengja við djúp sjálfs okkar, við dýptir lífsins, réttinn og elskuna. Jesús sagði þessa sögu til að minna á að tengja við Guð sem aldrei verður þreyttur á okkur mannfólkinu. Guð heyrir, hlustar, þyrstir að við ræðum um mál okkar, gleðimál og sorgarefni – að við biðjum. Og þegar við hegðum okkur eins og konan sem vildi, þorði og gat gerast kraftaverk. Bæn er ekki að tala við sjálfan sig eða upp í vindinn. Bæn er öflugasta tjáning heims sem jarð- og himintengir, eyðir álögum, sektarkennd, órétti og býr til sátt og leggur grunn að friði. Þess vegna eru kirkjur tengistöðvar. Þeim er ætlað að vera kraftstöðvar fyrir gott og gjöfult líf.

Til hvers kirkja? 

Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. En er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó samfélög þróist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Greina verður að stofnanir og mannlíf. Það eru gamlar kirkjustofnanir fremur en kristni sem eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkjuskipulag sé ónauðsynlegt – heldur að kirkja sé að endurnýjast. Stofnanir brenna og hverfa en Guð kallar alltaf með nýjum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa.

Hvaða hlutverki gegnir þessi 35 ára Hallgrímskirkja? Hún er guðshús. Hún er falleg. Fjölmiðlar heimsins hafa líka lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju sem eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. En helgirýmið laðar og hvetur til íhugunar. Alla daga er hópur fólks biðjandi í kirkjuskipinu. 2016 útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heims. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fallegustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hefur verið birtur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á þeimn list­a. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann. Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er samkvæmt þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkju er þó raðað ofar!

Hallgrímskirkja er sóknarkirkja og líka þjóðarhelgidómur. Hún er áfangi ferðalanga, pílagrímastaður. Kirkjan hefur orðið mörgum hlið himins og margir segjast hafa náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga sækir fólk í þetta hlið himins til að tengja við djúpið. Í kirkjunni er gott að íhuga, gott samband. Það sem er mikilvægast er að kirkjan er hús Guðs. Hún er ekki utan þjónustusvæðis. Hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er guðshús eins og Hallgrímur Pétursson nefndi kirkju. Guðshús er bænahús fyrir fólk og líf. Þannig eru allar kirkjur landsins. Hús fyrir bænir og Guð heyrir.

Hallgrímskirkja 24. október 2021. 21. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 35 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju, 347. ártíð Hallgríms Péturssonar. Fyrsta messa hins nýja Kórs Hallgrímskirkju undir stjórn Steinars Loga Helgasonar. Meðfylgjandi mynd tók ég frá þriðju hæð Háskóla Íslands undir morgun síðla vetrar 1982. Sperrur komnar í kirkjuskipinu en ekki fokhellt. 

Lexía: 2Mós 23.1-9
Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli. Þú skalt ekki draga taum fátæks manns í málaferlum. Rekist þú á villuráfandi naut eða asna óvinar þíns skaltu færa honum skepnuna aftur. Sjáir þú asna andstæðings þíns liggja uppgefinn undir byrðinni skaltu ekki láta hann afskiptalausan heldur rétta honum hjálparhönd. Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns sem hjá þér er þegar hann á í málaferlum. Forðastu mál byggð á lygi og vertu ekki valdur að dauða saklauss manns og réttláts því að ég dæmi ekki sekan mann saklausan. Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda sjáandi menn og rugla málum þeirra sem hafa rétt fyrir sér. Þú skalt ekki beita aðkomumann ofríki. Þið farið nærri um líðan aðkomumannsins því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi

Pistill: Kól 2.2-7
Mig langar að allir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist fulla sannfæringu og innsýn og geti gjörþekkt leyndardóm Guðs sem er Kristur. En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir. Þetta segi ég til þess að enginn blekki ykkur með fagurgala. Ég er hjá ykkur í andanum þótt ég sé líkamlega fjarlægur og horfi með fögnuði á góða skipan hjá ykkur og festu ykkar í trúnni á Krist. Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. Verið rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, eins og ykkur hefur verið kennt, og auðug að þakklátsemi.

Guðspjall: Lúk 18.1-8
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu um það hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: „Í borg einni var dómari sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja sem kom einlægt til hans og sagði: Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum. Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar áður en hún gerir út af við mig með nauði sínu.“ Og Drottinn mælti: „Heyrið hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu þegar hann kemur?“

 

Fegurst í heimi

Er Hallgrímskirkja falleg kirkja? Hvað sýnist þér? Þegar þú horfir í kringum þig, inn í kór, upp í hvelfingarnar, hver er þá niðurstaðan? Er kirkjan fögur? Hvað finnst þér um staðsetningu kirkjunnar í borgarlandslaginu? Hvernig líkar þér þegar þú kemur frá Keflavík og sérð Hallgrímskirkjuturninn og kirkjuskipið nánast sigla ofar borginni? Í vikunni keyrði ég um Kjalarnesið og mér þykir alltaf heillandi þegar Hallgrímskirkjuturn ber nákvæmlega við Keili. Þá verður samstilling formanna og kraftanna.

Hvað er falleg kirkja? Fegurð má vissulega skilgreina með margvíslegu móti og frá öðrum sjónarhólum en hinum fagurfræðilegu – estetísku. Er Hallgrímskirkja falleg? Kirkjuhúsið kitlar augu margra. Ljósflæðið hrífur og formfegurðin líka. Mörgum þykir kirkjan vera bæði fjarskafögur og innanfögur. Arkitektaskólar eru farnir að senda fólk til Íslands til að skoða kirkjuna og byggingarlist Guðjóns Samúelssonar. Mörgum í sókninni þykir vænt um kirkjuna og eiga dýrmætar minningar héðan um stóratburði lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir og minnast annarra hátíða og viðburða. Sum þeirra tala líka um hvað það hafi verið gaman að klifra í stillönsunum. Fjöldi Íslendinga, utan sóknar, sækir þjónustu til þessarar kirkju.

38

Meðal ferðafólksins er kirkjan vinsæl og aðdráttarafl. Fjölmiðlar heimsins og matsaðilar hafa lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi t.d. hið heimsþekkta Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. Ári síðar útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum í heimi. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fal­leg­ustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hef­ur nú verið birt­ur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á list­an­um. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann.Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er skv. þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkja er fyrir ofan það á listanum.

Hvað er falleg kirkja?

Fyrir nokkrum árum kom ég í Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Thorvaldsensskúlptúrar kirkjunnar eru hrífandi og gerð byggingarinnar er laðandi. Ég var á kirkjufundi í Kaupmannahöfn. Við stóðum saman uppi á svölum tveir samverkamenn í fjölþjóðlegum kirknasamtökum og ræddum um kirkjuna. Ég spurði vin minn, finnskan biskup: „Finnst þér þetta falleg kirkja?“ Hann horfði á mig hugsi, blikkaði augum meðan íhugaði spurninguna og svaraði svo brosandi og ákveðið: „Þetta er hús Guðs. Þetta er kirkja. Þar með er hún falleg.“ Ég spurði frá sjónarhóli fagurfræði og bygingarlistar og um smekk mannsins. En sá finnski svaraði guðfræðilega. Viðmiðið hans var trúarlegt. Það sem þjónar Guði er fallegt. Og slík er afstaða hins kristna. Það sem þjónar Guði, þjónar lífi, eflir gæði í lífi fólks. Og frá sjónarhóli Guðs er fallegt skilgreint róttækt. Við þurfum að temja okkur þennan trúarsnúning til að skerpa smekk, augu, skynjun, tengsl og túlkun. Hver er smekkur Guðs?

Hlutverkin og aðalmálin

Hallgrímskirkja er margt og gegnir mörgum hlutverkum. Hún er pílagrímastaður. Vegna þess að hún er orðin fræg um allan heim koma hingað ferðamenn. Hún er leiksvið ljóss og skugga og gott ómhús tónlistar. Í þessu hliði himins hefur fólk svo náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga þegar kirkjan er opin sækir fólk í þetta hlé til að tengja við djúpið. Hér er gott að íhuga, gott samband. Það sem mikilvægast er að hér er Guð, friður, Andi Guðs. Við sem hér störfum gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að þjóna fólki, vera fólki útréttir armar himins, eyru hins hjálpandi kærleika, augu hins umhyggjusama. Hlutverkin eru margvísleg og flókin. Oft erum við ekki viss um hvaða leið eigi að fara. En þegar allt er skoðað og skilgreint er meginhlutverkið skýrt. Kirkjan er hús Guðs. Hún er falleg því hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er ekki utan þjónustusvæðis heldur getur fólk tengt.

Smekkur Guðs

Smekkur fólks er mismunandi. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir.Við deilum ekki um smekk. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika – að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll þröng og einstaklingsbundin viðmið. Guðsdýrkunin og guðstengslin skilgreina allt. Og það er raunar stórkostlegt að breyta um fegurðarskyn og merkingartúlkun, og læra að horfa á allt með hætti guðssýnarinnar, endurskoða gildi alls sem er í kringum okkur og í okkur líka. Ertu fallegur? Ertu falleg? Fegurðardrottning heimsins? Á topplistanum? Já, þannig horfir Guð á þig – þú ert djásn í heimi og lífi.

Alla daga og á öllum árum þarf kirkja Jesú Krists að fara yfir hvað er við hæfi í lífi kristninnar og þar með kirkjunnar. Er þjónusta við ferðamennina í samræmi við hlutverk kirkjunnar og hvernig megum við efla tjáninguna um að fólk sé elskað og Guð sé nær fólki en vitund og hjartsláttur þess? Er hægt að styrkja eitthvað í kirkjustarfinu til að þjóna betur hamingjuleit fólks á ferð? Geta sýningar, tónleikar, listin og reksturinn þjónað mönnum og Guði betur? Getum við bætt þjónustu við söfnuðinn með nýjum starfsþáttum og starfsháttum? Er mannahaldið í samræmi við að þetta er fallegt hús Guðs?

Mér þykir Hallgrímskirkja falleg kirkja, en fallegust er hún þegar hún verður því fólki sem sækir kirkjuna heilagur staður. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Hallgrímskirkja er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn, 38. fegursta hús heims skv. smekk fjölda ferðamanna. Ytri ásýnd kirkjunnar er mikilvæg en fegurð kirkjunnar verður best skilgreind í ljósi trúar og guðstengsla. Guð er fegurðin í fyllingu sinni. Allur heimur og allt líf þiggur fegurð og merkingu frá þeirri uppsprettu. Að húsið er hús fyrir bæn merkir að kirkjan er heitur reitur tengsla Guðs og manna. Þegar kirkja er vettvangur faðmlags Guðs og lífs er kirkja bænahús.

Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt? Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En smekkur Guðs er annar og um hann verður ekki deilt heldur. Þegar Guð horfir er fólk fallegt. Guð býr ekki til lista yfir fallega fólkið og svo hina sem ekki eru falleg. Við erum elskuð, falleg, á topplista Guðs. Þegar Guð horfir á okkur erum við stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn. Já kirkja er falleg því hún þjónar Guði en svo er það makalausa að Guð elskar fólk meira en hús. Þú komst í fallegt hús en við megum vita að við í okkur býr fegurð himinsins. Þú ert fögur og fallegur því þú ert ástvinur Guðs. Já musteri Guðs.

Hallgrímskirkja 5. september. 14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Aðalfundur Hallgrímssafnaðar.