Greinasafn fyrir merki: Elín Sigrún Jónsdóttir

Rabarbarakaka Elínar með hvítu súkkulaði, kókos og marsípan

Þetta er besta rabarbarakakan! Um það eru flestir sammála. Jafnvel þau sem hafa aldrei verið hrifin af rabbarbarakökum eða rabbarbarapæ lofsyngja þessa dásamlegu uppskrift. Elín Sigrún Jónsdóttir setti saman þessa uppskrift sumarið 2024 og hún hefur slegið í gegn meðal fagurkeranna. 

  • 3 egg
  • 2 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextrakt
  • 100 gr brætt smjör
  • 2,5 dl fínmalað spelt
  • 1 tsk lyftiduft
  • sjávarsalt á hnífsoddi
  • 3-400 gr rabarbari, skorinn í litla bita
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 100 gr marsípan, (lífrænt í Nettó)
  • 100 gr hvítt súkkulaði, dropar (lífrænt í Nettó)
  • 1 dl kókosmjöl

Hitið ofnin í 175 gráður, bræðið smjörið og leyfið aðeins að kólna. Þeytið egg, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Hellið bræddu smjörinu út í meðan hrært er. Bætið mjölinu, lyftiduftinu og saltinu saman við og hrærið þar til allt er vel blandað.

Stráið kartöflumjölinu yfir rabarbarann og einnig kókosmjölinu og súkkulaðinu. Blandið þessu út í deigið. Rífið marsípanið með grófu rifjárni yfir kökuna. Bakið í 35-40 mínútur. Ef marsípanið dökknar má leggja álpappír yfir kökuna eftir ca. 25 mínútur. Gæti þurft jafnvel 5-10 mín. bakstur til viðbótar.

Berið fram með rjóma.

Ástin, trú og tilgangur lífsins

Ekki aðeins mönnum þykir gott að elska heldur Guði líka! Í kirkjuræðum mínum hef ég hef gjarnan talað um guðsástina og ástina í veröldinni. Guðsástin er inntakið í gleðiboðskap Jesú Krists og þar með kristninnar. Lífið lifir vegna þess að Guð elskar. Sá boðskapur á alltaf erindi og svo sannarlega líka á þessum spennu- og stríðstímum.

Síðustu áratugi hef ég flutt um eitt þúsund hugleiðingar í helgistundum og sunnudagsprédikanir í kirkju. Úr þessu safni valdi ég 78 ræður í bók fyrir helgidaga ársins. Ritið nefnist Ástin, trú og tilgangur lífsins. Í því er fjallað um þrá fólks og tilfinningar, náttúruna, menningu, tilgang, sjálfsskilning, trú og efa, Guð og ástina í lífinu.

Forlagsþrenningin Bjartur-Veröld-Fagurskinna, sem Pétur Már Ólafsson stýrir, gefur postilluna út af þakkarverðum metnaði. Útgáfuhátíð verður í Neskirkju laugardaginn 11. nóvember og hefst kl. 16 með örþingi í kirkjunni um ritið og prédikun presta í kirkju. Kl. 17-19 verður síðan útgáfuhóf í safnaðarheimilinu og allir eru velkomnir.

Á örþinginu tala þessi: Elín Sigrún Jónsdóttir, Sigurþór Heimisson, Elínborg Sturludóttir, Sigurvin Jónsson, Rúnar Vilhjálmsson, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson. Þingstjóri: Vilhelm Anton Jónsson.

Ræðusöfn presta hafa gjarnan verið kallaðar postillur og af því ástin er leiðarstef ræðusafns míns hafa vinir mínir gjarnan talað um ástarpostillu. Það er lýsandi og hnyttin nefning og var lengi vinnuheiti ræðusafnsins. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, bjó ritið til prentunar. Hönnun hans er í anda bókagerðar stórbóka bókaútgáfunnar Helgafells fyrir hálfri öld. Hallgrímskirkja styður útgáfuna og ég er afar þakklátur sóknarnefnd fyrir. Stuðningurinn tryggði að hægt væri að fá listamann til bókarhönnunar og vanda allan frágang. Elín Sigrún Jónsdóttir hlustaði á allar ræðurnar. Hún er ástkona mín og ást má líka tjá og iðka í samtali um trú og Guð. Halldór Reynisson las yfir handritið og gerði þarfar athugasemdir. Áslaug Jóna Marinósdóttir var öflugur málfarsráðunautur og prófarkalesari. Ég þakka þeim alúð og metnað fyrir mína hönd. Þá þakka ég samstarfsfólki og öllum þeim sem tekið hafa þátt í helgihaldi þeirra kirkna og safnaða sem ég hef þjónað. Tilheyrendur mínir hafa svo sannarlega brugðist við boðskap prédikananna og erindi, rætt um álitaefni, mótmælt sumu, samsinnt öðru og stundum krafist birtingar á vefnum. Prédikun er jú ekki einræða heldur þáttur í löngu samtali margra, ekki verk eins prests heldur samverk anda og samfélags.

Hvernig á svo að nota þessa ástarpostillu? Á kynningarborða sem fylgir útgáfunni segir: „Ég hef gaman af því að elda mat en ég nota aldrei allt kryddið í kryddhillunni í einn rétt. Þessi bók er eins og kryddsafn. Best er að nota hana oft, í smærri skömmtum eða eftir þörfum. Tilgangur hennar er að krydda lífið og næra ástina.“

 

Heimsborgari og sveitamaður kveður

Sá líflegi vefur Lifðu núna birti viðtalsgrein okkar Ernu Indriðadóttur. Fyrirsögnina dró Erna út úr kveðjuræðu Einars Karls Haraldssonar, formanns sóknarnefndar Hallgrímskirkju. Greinin birtist upprunalega á slóðinni að baki þessari smellu en er hér einnig: 

Það er komið að starfslokum hjá Séra Sigurði Árni Þórðarsyni sóknarpresti í Hallgrímskirkju sem kvaddi söfnuð sinn í messu 26.mars.  Þar talaði Einar Karl Haraldsson formaður sóknarnefndar og sagði meðal annars um klerkinn fráfarandi:

Sigurður Árni er í senn heimsmaður, heimamaður og sveitamaður! Hann kom til okkar fullmótaður af akri kristninnar á Íslandi. Hann hafði eftir embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands  verið sveitaprestur og borgarprestur, rektor Skálholtsskóla og fræðslustjóri á Þingvöllum, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og stundakennari við Háskóla Íslands. Aukin heldur er hann heimsmaður með útsýn til annarra landa eftir kristnifræðinám í Noregi og doktorspróf í guðfræði og hugmyndasögu frá Vanderbiltháskóla í Tennessee í Bandaríkjunum.  Raunar var hann heimamaður í Hallgrímskirkju áður en hann var kjörinn hér sóknarprestur, bæði sem kórsöngvari um skeið og afleysingaprestur árið 2003. Hann er líka sveitamaður í sér með djúpar rætur í svarfdælskum sverði og í ræktunarstarfi móður sinnar kringum Litla bæ á Grímstaðaholtinu. Þeirri hlið á sóknarprestinum höfum við einnig fengið að kynnast.

Blaðamaður náði netsambandi við Sigurð Árna núna fyrir hátíðarnar og spurði hann fyrst hvernig það væri að kveðja Hallgrímskirkju?

Þessa dagana finn ég mest og dýpst fyrir þakklæti. Ég hef notið trúnaðar fólks á stóru stundunum og krossgötum lífsins. Ég hef notið trausts til verka og frelsis til að vera, hugsa og skapa. Samferðafólk mitt var svo elskulegt að umvefja mig, gefa mér gjafir og þau sem hafa notið orða eða prestsverka minna hafa sent mér kveðjupósta og gælt við mig með margvíslegu móti. Ég hef verið lánssamur og er þakklátur fyrir að kveðja Hallgrímskirkju í blússandi vexti.

Séra Sigður Árni skírði þessi þrjú systkini

Hvað hefur breyst mest í kirkjunni síðan þú hófst störf þar og þar til þú lætur af störfum? 

Þjóðkirkjan var fyrir fjórum áratugum stofnun sem rammaði líf fólks. Hún hverfðist um stóratburði lífsins og naut trausts. Samfélagsbreytingar, menningarþróun og brestir nokkurra leiðtoga kirkjunnar urðu til að grafa undan því trausti. Hlutverk kirkjunnar sem lykilstofnunar flestra eða meirihluta landsmanna er algerlega breytt. Nú velur fólk hvort það nýtir þjónustu kirkjunnar, fer í messu, sækir kóræfingar, ræðir við prestinn um djúpu spurningarnar, biður um skírn, vill láta fermast, vera blessað við altari eða kveðja ástvini sína í hinsta sinn í kirkju. Valkostirnir eru fleiri og þá er komið að tækifærum kirkjunnar til að bregðast við. Það er tilgangslaust að efna til auglýsingaherferðar til að auglýsa trú. Einhvers konar kirkjuförðun þjónar engum tilgangi heldur er hlutverk kirkjunnar að iðka trú, hugsa guðsverkið inn í aðstæður samfélagsins, vitja gilda, ganga erinda manngildis og þar með verja þau sem hallað er á, þora að gera tilraunir – þora að vera alvöru kirkja. Kirkjustofnun er eitt en kristni er annað. Þó menn segi sig úr kirkjunni er ekki þar með sagt að þeir hafi sagt sig frá Guði. Guð er ekki bundinn af trúfélagi en kirkja er bundinn af Guði. Nú er tími til að skapa, vera og kveða dýrt.

Hvernig undirbjóstu starfslokin?  

Ég gekk síðasta hluta Jakobsvegarins á Spáni fyrir fimm árum og hafði næði til að hugsa, endurskoða stefnumið og áhugaefni. Eftir það fór ég að taka til í tölvunni og huganum. Ég las allar eitt þúsund ræðurnar mínar sem ég hef haldið um dagana og valdi svo úr safninu. Það er meginstef eða rauður þráður í þessum íhugunum mínum – ástin. Ástin í náttúrunni, mannlífinu, listinni, menningunni er að mínum skilningi guðsneistinn í öllu. Þetta ræðusafn verður svo gefið út í haust. Í gamla daga voru kirkjuræður kallaðar postillur og vinnuheitið hefur verið ástarpostilla en eftir er að ákveða heiti bókarinnar. En það verður væntanlega elskulegt. Mér þykir gaman að fást við orð, elda og njóta. Ég hef skrifað mikið um dagana og er með útgáfuröð í tölvunni. Ég tók mikið myndum af kirkjustarfinu í Hallgrímskirkju, af fólkinu mínu og náttúrunni. Ljósmyndun er mér gleðigjafi og ég mun halda henni áfram. Ég fór að elda meira af Biblíumat og læra meira á krydd og kúnstir við eldavélina. Svo fór ég að flokka bækurnar mínar og losa mig við það sem ég hafði ekki pláss fyrir og sá ekki fyrir mér að ég myndi lesa. Þetta varðar allt djúphreinsun sálar og vinnu og varð til þess að ég ákvað að hætta fyrr í vinnu en ég þurfti því mig langar til að fæðast til nýrrar tilveru og geta sjálfur ákveðið hvað ég geri við stundir, daga og ár sem eftir eru. Tíminn er dýrmætur og ég vil nota hann vel. Heilsan er sömuleiðis ekki sjálfgefin og þarf að rækta.

Séra Sigurður Árni og Elín Sigrún Jónsdóttir útdeila við altarisgöngu 26. mars.

Hvernig sérðu næstu árin fyrir þér?

Hver dagur er tækifæri og gjöf sem ég reyni að nota vel. Mér þykir gaman að þjóna fólkinu mínu og er í þeirri skemmtilegu stöðu að eiga stráka í menntaskóla. Ég leyfi mér oft að vera þriðji unglingurinn á heimilinu, detta í sófann og horfa á fótbolta með þeim eða mynd. Ungt fólk á heimili tryggir að maður er betur tengdur við hræringar og breytingar. Ég hef líka alla tíð verið tæknitengdur og hef alltaf sagt að maður verði og eigi að vera á öldufaldi tækninnar – annars skráir maður sig út úr samfélagi og inn í ótímabæra elli. Ég nýt hamingju í heimalífinu og ég er giftur stórkostlegri konu sem kann að gleðjast, hlusta, tala og hlæja. Þegar heimalífið er gott og heilsa leyfir er hægt að njóta. Ég er búinn að skrá mig í nýtt háskólanám og dekurverkefni mín verða að skrifa, ljósmynda og elda. Svo verður að koma í ljós hve lengi heilsa og tími leyfa mér að vera og gera.

Halda prestar oft áfram ákveðnum störfum, athöfnum, eftir formleg starfslok?

Afstaða presta varðandi prestsverk er mismunandi. Einstaka hafa séð gildi sitt í að jarða og gifta eftir að þeir hafa látið af opinberum störfum. Sú breyting er orðin í þjóðkirkjunni að prestar eru hvattir til að sinna ekki prestsverkum eftir starfslok. Það er vel því starfandi prestar eiga að sinna slíku og gera vel. En hlutverki presta er ekki lokið eftir starfslok. Við erum áfram hugsandi og lifandi trúmenn og getum gegnt mikilvægu hlutverki í samtali í samfélaginu, verið fólki til stuðnings, tekið þátt í menningadeiglunni með greinum, hlaðvarpi, listiðju alls konar, haldið ræður og hugsað nýjar hugsanir fyrir framtíðina. Prestur hættir að gifta og jarða en hættir ekki að vera manneskja, tala við Guð, menn og menningu.

Hvernig viltu eldast?

Mig langar að vera kátur kall og fallegt gamalmenni. Mig langar til að rölta með konunni minni sem víðast. Halda líka áfram að hrífast af ljósgangi lífsins, skemmtilegum textum og góðum mat. Hamingjan er alltaf heimagerð.

Sigurður Árni er með skemmtilega heimasíðu þar sem þessa mynd af prestinum í eldhúsinu er að finna

Þú ert með mataruppskriftir á vefsíðunni þinni, hefurðu mikinn áhuga á matargerðarlist?

Já, borðsamfélag er aðalmál í lífinu. Miðjan í öllum alvöru kirkjum heimsins er borð og það merkir að fólk kemur saman til að nærast. Jesús Kristur var veislukall og við erum öll boðin til veislu lífs og veraldar. Vegna aðstæðna í fjölskyldu minni neyddist ég til að elda fyrir fólkið mitt og lærði að kokkhúsið var ekki bara nauðsynlegt heldur líka dásamlegt fyrir samfélag og tilraunir. Ég uppgötvaði svo á sínum tíma að heilsufæði nútímans er líkt fæðu hinna fornu samfélaga við Miðjarðarhafið. Svo ég fór að gera tilraunir með biblíufæði og þegar nýja safnaðarheimili Neskirkju varð til urðu til biblíuveislur. Biblíumatur er langtímaverkefni og mér skilst að það bíði eftir mér í einu forlaginu titillinn Presturinn í eldhúsinu. Mér hefur líka þótt stórkostlegt hve mörg hafa sagt mér að þau fari inn á vef minn sigurdurarni.is og noti mataruppskriftirnar mínar. Mér hefur þótt sérstaklega gott hve margir karlar hafa þorað að elda af því þeir hafa treyst mér til að setja ekki á vefinn nema almennilega rétti, bragðgóða, holla, auðeldaða og hæfilega nútímalega. Ég sé á vefteljaranum að tugir þúsunda hafa farið inn á þessar uppskriftir.

Geturðu miðlað eins og einni þeirra til lesenda Lifðu núna?

Maríukjúklingurinn er skemmtilegur réttur og dæmi um biblíumat. Öll hráefnin voru tiltæk Maríu í Nasaret, móður Jesú.

Uppskriftin er fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
4-6 hvítlauksgeirar pressaðir
1 tsk kúmmín (broddkúmmín)
1,5 tsk túrmerik
1 tsk kanill malaður
salvía, helst fersk og smáskorin annars þurrkuð
1 stór rauðlaukur saxaður
3 skalottulaukar saxaðir (laukurinn fær nafnið frá staðarnafninu Askelon í Ísrael)
sítrónubörkur rifin með rifjárni (notið helst lífræna sítrónu)
safi úr einni sítrónu ca 70 ml. – má líka vera appelsínubland
150 gr spínat (einn fjórði hluti af spínatinu til að dreifa yfir kjötið þegar það er borið fram)
300 ml grænmetiskraftur
10 döðlur langskornar (Medjool-döðlur eru bestar en líka má fíkjur/sveskjur í staðinn).
Maldonsalt
Heslihnetur (flögur eða muldar og við smjörbrúnuðum þær á pönnu í stutta stund)

Bygg (t.d. Vallanesbygg)

Kjúklingurinn er marineraður í sólarhring. Bringurnar eru kryddaðar (hvítlaukur, kúmmín, túrmerik, kanill, salvía og salt) og síðan geymdar í kæli. Þegar eldamennskan hefst er kjötið tekið úr kælinum og leyft að ná húshita fyrir steikingu. Olía á heita pönnu. Kjúklingurinn brúnaður og kjötinu lokað. Skorinn laukurinn settur í ofnfast fat og kjúklingabitunum komið fyrir ofan á lauknum. Grænmetiskraftinum hellt í fatið og sítrónuberkinum stráð yfir. Spínat og döðlur yfir (haldið þó eftir ofurlitlu af spínati til að dreifa yfir kjötið þegar það er borið fram). Látið malla í ofninum (180-200°C) í fjörutíu mínútur. Gæta þess að vökvinn gufi ekki allur upp, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með byggi. Síðan er spínatinu og heslihentum dreift yfir líka. Svo má líka afhýða appelsínu eða mandarínu, þverskera og koma hálfri fyrir á hverjum diski. Litirnir fara fallega með matnum og sætur ávöxtur passar vel með. Takk fyrir mat og gott líf.

Hér er linkur á vefsíðu Sigurðar Árna.

Kennimyndina og altarisþjónustumyndina tók Hrefna Harðardóttir í messu á boðunardegi Maríu 26. mars 2023. Hinar myndirnar eru úr einkasafni. 

Sextug og stofnaði fyrirtæki fyrir fólk

Elín mín stofnaði fyrsta fyrirtækið sitt sextug – og blómstrar. Vegna myglu á fyrrverandi vinnustað ákvað hún að velja heilsuna fremur en vinnuna. En fólk hleypur ekki í störf þegar það er komið á sjötugsaldurinn. Hún skoðaði atvinnumöguleikana og fór svo í langa göngu og spurði sjálfa sig hvað hún vildi gera? Hver væri ástríða hennar og hvað henni þætti skemmtilegast? Þegar hún kom heim tilkynnti hún mér að hún ætlaði að stofna sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir fólk sem stæði á krossgötum og væri að íhuga búsetuskipti. Áherslan yrði að þjóna 59+. Hún kynni lögfræðina, hefði brennandi áhuga á fasteignamálum og vildi þjóna fólki. Ég þekkti glampann í augum hennar. Hún var ákveðin, búin að taka stefnuna. Nei, hún hafði engan áhuga á að stofna fasteignasölu því það væri nóg af slíkum. En það vantaði algerlega að þjónustu við fólk áður en það færi á fasteignasöluna og væri að hugsa og meta kostina. Það þyrfti að þjóna fólki sem væri á krossgötum, spyrja það spurninga um óskir, drauma og þarfir. Hún væri nú líka markþjálfi og gæti farið inn í stóru málin. Og svo væri gott að fagmaðurinn hjálpaði við að meta og vega kostina með fólki áður en það færi í leiðangurinn. 

Ég dáðist að hvernig Elín Sigrún gekk í verkin, allt frá fyrstu hugmynd til blússandi rekstrar. Þegar hugmyndin kom skoðaði hún möguleika og útfærslur, kjarnaði svo umfang, viðfangsefni og þjónusturamma. Hún leysti út lögmannsréttindin og gerði samninga við fasteignasölur sem hún hafði góða reynslu af og treysti. Svo kom nafnið Búum vel. Hún skráði fyrirtækið og skráði líka nokkur lén hjá ISNIC, skráningaraðila íslenskra heimasíðna. Svo fór hún á erlendar hönnunarsíður og teiknaði merki eins og hún væri grafískur hönnuður. Svo var það heimasíðan. Elín ákvað að gera þetta bara sjálf frekar en að flækja málin með vefsíðuhönnuðum. Hún valdi wix-umsýslukerfi í stað word-press sem ég kann á. Ekki gafst hún upp þó alls konar hindranir yrðu og um tíma hvarf grunnur sem hún var búinn að vinna. Hún kláraði vefnaðinn og nú er síðan komin upp. Slóðin er www.buumvel.is

Elín Sigrún veit að margir óttast að taka ákvarðanir um peningamál, lagagerninga og fasteignaviðskipti. Margir skelfast þegar lesa þarf samninga og smáa letrið og óttast að gera afdrifarík mistök. Nú nýtir Elín sína fjölþættu þekkingu og reynslu og aðstoðar fólk við að meta kostina varðandi búsetuskipti og vinna pappíra í tengslum við skilnaði eða dánarbú. Fólk fær sinn einkalögmann. Fasteignasölurnar lækka sölugjaldið því vitað er hve þjónusta Elínar skilar fólki miklu öryggi, gleði og farsæld á álagstíma búsetuskipta. Sem sé lækkun þóknunar fasteignasalanna eru laun Elínar.

Það hefur verið sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með Elínu stofna fyrirtækið Búum vel og verða vitni að því hve fagnandi hún gengur til starfa og þjónar fólki af mikilli fagmennsku, alúð og hlýju. Og það vermir þegar fólk tjáir djúpt þakklæti fyrir að hún tryggði að það seldi vel og gerði góð kaup og klúðraði ekki fjármálum sínum. Öryggi er aðalmál í fasteignaviðskiptum.

Búum vel er algerlega ný vídd í þjónustu við fólk sem er á krossgötum, ekki aðeins á Íslandi heldur er svona lögmannsþjónusta einstök. Hugmyndin kemur ekki frá útlöndum, hún kom af himnum og í kollinn á Elínu Sigrúnu Jónsdóttur á göngu við sjóinn. Það verður enginn svikinn af Búum vel og stefna Elínar er að fólk eigi að búa eins og vel og það vill. Hún er til þjónustu reiðubúin.

Allt er sextugum fært. Já, Elín Sigrún er fyrirmynd okkur eldra fólkinu og til fyrirmyndar í störfum. Og tímalínan þessi: Tala fyrst við Elínu Sigrúnu og þar á eftir að tala við fasteignasölurnar. Fá sinn eigin lögmann en borga ekkert meira.

Skrifstofa Búm vel verður í nýsköpunarhúsinu Grósku, húsinu við hlið Íslenskrar erfðagreiningar. Það verður væntanlega tekið í notkun í lok nóvember 2020.