Greinasafn fyrir merki: Elínborg Sturludóttir

Uppskriftabók að hamingjuríku lífi

Sr. Elínborg Sturludóttir er afburðaprédikari og einn öflugasti prestur okkar Íslendinga. Elínborg hélt tölu á örþingi í Neskirkju 11.11. um Ástin, trú og tilgangur lífsins. Ræðan birtist hér að neðan og svo birti hún ritdóm í Kirkjublaðinu 29.11. Greinin er að baki þessari smellu

Það eru þrjátíu ár frá því að það tókust kynni með okkur Sigurði Árna. Það var hending að ég fór með félagi guðfræðinema í heimsókn í Þjóðgarðinn á Þingvöllum vorið 1993, því á þeim tíma var ég  heimspekinemi sem sótti tíma í guðfræði en ég svindlaði mér með. Þar hitti ég Sigga Árna fyrst og heimsóknin var svo ánægjuleg að ég sótti um vinnu á Þingvöllum í kjölfarið og næstu sjö sumur var ég viðloðandi staðinn og eignaðist vináttu Sigurðar Árna.

Oft sátum við á skrifstofunni í Þingvallabænum snemma morguns, drukkum ofsasterkt kaffi og heimspekilegar samræður áttu sér stað í hnausþykkum vindlareyk.

Ég kynntist því strax þarna fyrir þrjátíu árum hve Sigurður Árni býr yfir ríkri frásagnargáfu, hve auðvelt hann á með að gera hversdagslega hluti að ævintýrum í frásögn sinni og hve gaman hann hefur af því að eiga samtal við fólk og spyrja áleitinna spurninga.

Sigurður Árni gaf ekki aðeins uppskrift að því hvernig mætti fara með fólk um Þingvelli, heldur að því hvernig hægt væri að fanga athygli á nýstárlegan hátt, beina sjónum að litlum og hversdagslegum hlutum en vera á sama tíma skemmtilegur og ögrandi.

Einmitt þessir hæfileikar Sigurðar Árna njóta sín svo vel í þessari fallegu postillu.  

Frásagnargáfan, hverdagslegu ævintýrin og áleitnu spurningarnar einkenna prédikanir Sigurðar Árna og gera þær einmitt svo innihaldsríkar. 

Stíll hans er persónulegur án þess að vera sjálfhverfur. Hann deilir af örlæti af eigin lífsreynslu ef það getur varpað ljósi á efnið sem hann er að fjalla um og margar sögur er hér að finna sem eru undursamlegar, eins og um barnið sem féll í gjótu á Þingvöllum en var bjargað og um bróðurinn frá Kvískerjum sem söng sig út úr íshellinum.  

Það væri aldrei hægt að ræna ræðu frá Sigurði Árna án þess að það kæmist upp um mann.  Það væri eins og að fara með ómerkta mynd eftir Kjarval í Fold og halda því fram að maður hefði sjálfur málað hana. Fingraför hans í textanum og sérkennin eru svo skýr.

Siggi Árni leikur sér listilega með tungumálið og býr til ný orð og ný hugtök, hann er orðasmiður.  Á sama tíma eru orðin gegnsæ og auðskiljanleg og oft mjög guðfræðileg.

Við fáum að heyra um  „smyrslakonuna“ og  „fótaþvottamennina“. Við fáum líka að heyra um  „föstudagsfólk“ og „sunnudagsfólk“. og svo er það „páskafólkið“ sem sér sólina dansa,

Oft nálgast Sigurður Árni umfjöllunarefnin úr óvæntri átt þannig að áheyrandinn kemst ekki upp með að dotta undir ræðunni og við það fær maður óvænt nýja sýn. Gott dæmi um þetta er setningin: „Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir.“

Hafði einhver áður hugsað um sr. Hallgrím sem poppara? Eða um Passíusálmana sem „guðspjall Íslands“ og „vegabréf“ fyrir himinhlið? Og er hægt að vera með meira lýsandi fræðslu um bæinn Betaníu en að hann sé n.k. Garðabær í nágrenni Jerúsalem? Og hver annar en dr. Sigurður Árni Þórðarson hrífur okkur með sér  frá mettunarfrásögninni á Fjallinu  og vekur hugrenningatengsl við útihátið norður í landi?

Hann vefur listilega vel saman túlkun og heimfærslu inn í ræður sínar þannig að okkur finnst sjálfsagt að Jesús sé kominn norður í land með fiskana og brauðin og allir eru saddir og sælir og við bíðum bara eftir að Stuðmenn byrji að spila.

Það er ekki óalgengt að fólk spyrji: Hvaða erindi eiga eldgamlir textar við nútímafólk? Góð og gild spurning. Í Biblíunni er fullt af forneskju og þar birtist stundum heimsmynd sem er liðin undir lok. Sigurður Árni forðast ekki óþægilegu textana sem stuða okkur og við vildum helst fela, heldur tekst á við þá af hugrekki og einlægni. – Og hafnar líka þeim Guði sem stundum er að þvælast um á síðum biblíunnar og er dyntóttur og geðstirður. Guð Sigurðar er ástríkur, nærandi og skilningríkur Guð sem byggir upp lífið og sá Guð er á miklu fleiri blaðsíðum í Biblíunni. 

Siggi Árni talar beint við áheyrandann. Spyr hann spurninga sem snerta prédikunarefnið og hvetur þannig til ígrundunar. Hann færir manni ekki endilega svörin því þau geta verið persónubundin en það að spyrja spurninganna og leitast við að svara þeim gæti ýtt undir framfarir í lífsleikni og aukið lífsgleði.

Ég hlakka til að handfjatla þessa veglegu postillu, grípa í hana mér til uppbyggingar og lesa mér til gagns.

Ég sé hana eins og góða matreiðslubók sem gaman er að skoða, fá nýjar hugmyndir að réttum og hlakka svo til góðs samfélags við vini og vandamenn við borðið.

Ástin, trúin og tilgangur lífsins er uppskriftabók að hamingjuríku lífi. Njótið hennar, lesið og látið boðskapinn auðga dagana. 

Til hamingju Siggi Árni!

Meðfylgjandi mynd tók ég af sr. Elínborgu í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á tuttugu ára vígsluafmæli hennar í september 2023.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

Ástin, trú og tilgangur lífsins

Ekki aðeins mönnum þykir gott að elska heldur Guði líka! Í kirkjuræðum mínum hef ég hef gjarnan talað um guðsástina og ástina í veröldinni. Guðsástin er inntakið í gleðiboðskap Jesú Krists og þar með kristninnar. Lífið lifir vegna þess að Guð elskar. Sá boðskapur á alltaf erindi og svo sannarlega líka á þessum spennu- og stríðstímum.

Síðustu áratugi hef ég flutt um eitt þúsund hugleiðingar í helgistundum og sunnudagsprédikanir í kirkju. Úr þessu safni valdi ég 78 ræður í bók fyrir helgidaga ársins. Ritið nefnist Ástin, trú og tilgangur lífsins. Í því er fjallað um þrá fólks og tilfinningar, náttúruna, menningu, tilgang, sjálfsskilning, trú og efa, Guð og ástina í lífinu.

Forlagsþrenningin Bjartur-Veröld-Fagurskinna, sem Pétur Már Ólafsson stýrir, gefur postilluna út af þakkarverðum metnaði. Útgáfuhátíð verður í Neskirkju laugardaginn 11. nóvember og hefst kl. 16 með örþingi í kirkjunni um ritið og prédikun presta í kirkju. Kl. 17-19 verður síðan útgáfuhóf í safnaðarheimilinu og allir eru velkomnir.

Á örþinginu tala þessi: Elín Sigrún Jónsdóttir, Sigurþór Heimisson, Elínborg Sturludóttir, Sigurvin Jónsson, Rúnar Vilhjálmsson, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson. Þingstjóri: Vilhelm Anton Jónsson.

Ræðusöfn presta hafa gjarnan verið kallaðar postillur og af því ástin er leiðarstef ræðusafns míns hafa vinir mínir gjarnan talað um ástarpostillu. Það er lýsandi og hnyttin nefning og var lengi vinnuheiti ræðusafnsins. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, bjó ritið til prentunar. Hönnun hans er í anda bókagerðar stórbóka bókaútgáfunnar Helgafells fyrir hálfri öld. Hallgrímskirkja styður útgáfuna og ég er afar þakklátur sóknarnefnd fyrir. Stuðningurinn tryggði að hægt væri að fá listamann til bókarhönnunar og vanda allan frágang. Elín Sigrún Jónsdóttir hlustaði á allar ræðurnar. Hún er ástkona mín og ást má líka tjá og iðka í samtali um trú og Guð. Halldór Reynisson las yfir handritið og gerði þarfar athugasemdir. Áslaug Jóna Marinósdóttir var öflugur málfarsráðunautur og prófarkalesari. Ég þakka þeim alúð og metnað fyrir mína hönd. Þá þakka ég samstarfsfólki og öllum þeim sem tekið hafa þátt í helgihaldi þeirra kirkna og safnaða sem ég hef þjónað. Tilheyrendur mínir hafa svo sannarlega brugðist við boðskap prédikananna og erindi, rætt um álitaefni, mótmælt sumu, samsinnt öðru og stundum krafist birtingar á vefnum. Prédikun er jú ekki einræða heldur þáttur í löngu samtali margra, ekki verk eins prests heldur samverk anda og samfélags.

Hvernig á svo að nota þessa ástarpostillu? Á kynningarborða sem fylgir útgáfunni segir: „Ég hef gaman af því að elda mat en ég nota aldrei allt kryddið í kryddhillunni í einn rétt. Þessi bók er eins og kryddsafn. Best er að nota hana oft, í smærri skömmtum eða eftir þörfum. Tilgangur hennar er að krydda lífið og næra ástina.“