Greinasafn fyrir merki: trú og tilgangur lífsins

Uppskriftabók að hamingjuríku lífi

Sr. Elínborg Sturludóttir er afburðaprédikari og einn öflugasti prestur okkar Íslendinga. Elínborg hélt tölu á örþingi í Neskirkju 11.11. um Ástin, trú og tilgangur lífsins. Ræðan birtist hér að neðan og svo birti hún ritdóm í Kirkjublaðinu 29.11. Greinin er að baki þessari smellu

Það eru þrjátíu ár frá því að það tókust kynni með okkur Sigurði Árna. Það var hending að ég fór með félagi guðfræðinema í heimsókn í Þjóðgarðinn á Þingvöllum vorið 1993, því á þeim tíma var ég  heimspekinemi sem sótti tíma í guðfræði en ég svindlaði mér með. Þar hitti ég Sigga Árna fyrst og heimsóknin var svo ánægjuleg að ég sótti um vinnu á Þingvöllum í kjölfarið og næstu sjö sumur var ég viðloðandi staðinn og eignaðist vináttu Sigurðar Árna.

Oft sátum við á skrifstofunni í Þingvallabænum snemma morguns, drukkum ofsasterkt kaffi og heimspekilegar samræður áttu sér stað í hnausþykkum vindlareyk.

Ég kynntist því strax þarna fyrir þrjátíu árum hve Sigurður Árni býr yfir ríkri frásagnargáfu, hve auðvelt hann á með að gera hversdagslega hluti að ævintýrum í frásögn sinni og hve gaman hann hefur af því að eiga samtal við fólk og spyrja áleitinna spurninga.

Sigurður Árni gaf ekki aðeins uppskrift að því hvernig mætti fara með fólk um Þingvelli, heldur að því hvernig hægt væri að fanga athygli á nýstárlegan hátt, beina sjónum að litlum og hversdagslegum hlutum en vera á sama tíma skemmtilegur og ögrandi.

Einmitt þessir hæfileikar Sigurðar Árna njóta sín svo vel í þessari fallegu postillu.  

Frásagnargáfan, hverdagslegu ævintýrin og áleitnu spurningarnar einkenna prédikanir Sigurðar Árna og gera þær einmitt svo innihaldsríkar. 

Stíll hans er persónulegur án þess að vera sjálfhverfur. Hann deilir af örlæti af eigin lífsreynslu ef það getur varpað ljósi á efnið sem hann er að fjalla um og margar sögur er hér að finna sem eru undursamlegar, eins og um barnið sem féll í gjótu á Þingvöllum en var bjargað og um bróðurinn frá Kvískerjum sem söng sig út úr íshellinum.  

Það væri aldrei hægt að ræna ræðu frá Sigurði Árna án þess að það kæmist upp um mann.  Það væri eins og að fara með ómerkta mynd eftir Kjarval í Fold og halda því fram að maður hefði sjálfur málað hana. Fingraför hans í textanum og sérkennin eru svo skýr.

Siggi Árni leikur sér listilega með tungumálið og býr til ný orð og ný hugtök, hann er orðasmiður.  Á sama tíma eru orðin gegnsæ og auðskiljanleg og oft mjög guðfræðileg.

Við fáum að heyra um  „smyrslakonuna“ og  „fótaþvottamennina“. Við fáum líka að heyra um  „föstudagsfólk“ og „sunnudagsfólk“. og svo er það „páskafólkið“ sem sér sólina dansa,

Oft nálgast Sigurður Árni umfjöllunarefnin úr óvæntri átt þannig að áheyrandinn kemst ekki upp með að dotta undir ræðunni og við það fær maður óvænt nýja sýn. Gott dæmi um þetta er setningin: „Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir.“

Hafði einhver áður hugsað um sr. Hallgrím sem poppara? Eða um Passíusálmana sem „guðspjall Íslands“ og „vegabréf“ fyrir himinhlið? Og er hægt að vera með meira lýsandi fræðslu um bæinn Betaníu en að hann sé n.k. Garðabær í nágrenni Jerúsalem? Og hver annar en dr. Sigurður Árni Þórðarson hrífur okkur með sér  frá mettunarfrásögninni á Fjallinu  og vekur hugrenningatengsl við útihátið norður í landi?

Hann vefur listilega vel saman túlkun og heimfærslu inn í ræður sínar þannig að okkur finnst sjálfsagt að Jesús sé kominn norður í land með fiskana og brauðin og allir eru saddir og sælir og við bíðum bara eftir að Stuðmenn byrji að spila.

Það er ekki óalgengt að fólk spyrji: Hvaða erindi eiga eldgamlir textar við nútímafólk? Góð og gild spurning. Í Biblíunni er fullt af forneskju og þar birtist stundum heimsmynd sem er liðin undir lok. Sigurður Árni forðast ekki óþægilegu textana sem stuða okkur og við vildum helst fela, heldur tekst á við þá af hugrekki og einlægni. – Og hafnar líka þeim Guði sem stundum er að þvælast um á síðum biblíunnar og er dyntóttur og geðstirður. Guð Sigurðar er ástríkur, nærandi og skilningríkur Guð sem byggir upp lífið og sá Guð er á miklu fleiri blaðsíðum í Biblíunni. 

Siggi Árni talar beint við áheyrandann. Spyr hann spurninga sem snerta prédikunarefnið og hvetur þannig til ígrundunar. Hann færir manni ekki endilega svörin því þau geta verið persónubundin en það að spyrja spurninganna og leitast við að svara þeim gæti ýtt undir framfarir í lífsleikni og aukið lífsgleði.

Ég hlakka til að handfjatla þessa veglegu postillu, grípa í hana mér til uppbyggingar og lesa mér til gagns.

Ég sé hana eins og góða matreiðslubók sem gaman er að skoða, fá nýjar hugmyndir að réttum og hlakka svo til góðs samfélags við vini og vandamenn við borðið.

Ástin, trúin og tilgangur lífsins er uppskriftabók að hamingjuríku lífi. Njótið hennar, lesið og látið boðskapinn auðga dagana. 

Til hamingju Siggi Árni!

Meðfylgjandi mynd tók ég af sr. Elínborgu í safnaðarheimili Dómkirkjunnar á tuttugu ára vígsluafmæli hennar í september 2023.

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

Ástin brýtur fjötra af fólki

Séra Sigurður Árni Þórðarson hefur sent frá sér bók sem geymir úrval af hugleiðingum og ræðum hans. Þar er ástin leiðarstefið, en hann segir ástina vera hið djúpa inntak kristninnar. Kolbrún Bergþórsdóttir á Mbl tók viðtal sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. nóvember. Ljósmynd Kristinn Ingvarsson/mbl

Ástin, trú og tilgangur lífsins er titill bókar sem geymir hugleiðingar og ræður séra Sigurðar Árna Þórðarsonar. Hann þjónaði sem prestur um langt skeið, síðast í Neskirkju og Hallgrímskirkju, auk þess að vera háskólakennari. Áður var hann rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum og starfaði á Biskupsstofu. Bókin er gefin út í tilefni starfsloka hans og sjötugsafmælis.

„Í bókinni eru 78 predikanir, valdar úr um þúsund íhugunum og predikunum sem ég hef flutt í Neskirkju og Hallgrímskirkju á árunum 2003-2023,“ segir Sigurður Árni. „Guðsorðabækur, postillur og predikanasöfn hafa verið hluti af bókmenntahefð á Íslandi alveg frá 1200 og mikilvægur þáttur íslenskrar menningar. Sem presti finnst mér að mér beri skylda til að skila af mér og það er eftirspurn eftir predikunum í samfélaginu. Ég hef birt ýmsar predikanir mínar á vefnum og jafnvel tugir þúsunda hafa skoðað sumar þeirra þar.“

Spurður hvort það sé einhver sameiginleg áhersla eða stef í þessum predikunum segir Sigurður Árni: „Leiðarstefið í öllu safninu er áherslan á ástina. Eftir því sem ég eldist og vitkast verð ég sannfærðari um að ástin sé sá þáttur sem er hvað vanmetnaðastur, vanvirtastur og vaniðkaðastur í samfélagi okkar.

Freud lagði áherslu á hvatirnar, aðrir á valdssókn mannsins, margir á hamingjusókn en ég held að sóknin til ástar sé það djúptækasta í fari okkar. Ástin brýtur fjötra af fólki og leitar annarra. Ástin er hið djúpa inntak kristninnar. Um hvað snýst sagan um Jesú? Um það að Guð er útleitandi ást sem sækist eftir tengslum og vill halda í hönd okkar, samanber hina frægu mynd Sköpun Adams í Sixtínsku kapellunni. Hatrið á að falla fyrir kærleikanum, umhyggjunni og ástinni og hinni útleitandi, elskuríku afstöðu.“

Þjóðkirkjan þarf að breytast

Kirkjan logar of oft í innanhússátökum, sem eru særandi fyrir trúað fólk, og maður spyr sig hvort kirkjunnar þjónar gleymi stundum kærleiksboðskapnum?

„Það er líklega ástarskortur í bland við ótta við breytingar. Uppreisn gegn stofnunum er víða í samfélaginu og ég held að það sé í sjálfu sér eðlilegt. Það er eðlilegt að fólk gagnrýni það sem er orðið óþarft og úrelt og þjónar ekki lengur fólki. Í trúmálum er þarft að greina að inntak og formgerðir. Kristnin er eitt og kirkjustofnun annað. Þjóðkirkjan þarf að gerbreytast en kristnin lifir góðu lífi og heldur áfram að gagnast fólki. Allt fólk leitar merkingar og skilnings. Sálinni er órótt þar til hún tengist hinu djúptæka sem í minni túlkun er ástardjúp Guðs. Sagan sýnir að kirkjustofnanir sem tapa áttum og ástríki eru óþarfar og falla. En ástarsókn manna er lífsmerki og tákn um leitina að merkingu og trausti til lífsins sem heitir trú á máli kristninnar.“

Miklar umræður hafa verið um upplýsingar í ævisögu Guðmundar Magnússonar um séra Friðrik Friðriksson og ósæmilegt athæfi hans í garð drengja. Hvernig brást Sigurður við þeim fréttum?

„Það er sorglegt en þau sem eru verseruð í guðfræði vita að það eru engir dýrlingar til í þessum heimi og allra síst í hefð okkar lútherskrar kirkju sem hefur alltaf verið tortryggin á mannadýrkun. Ég sat einu sinni í fanginu á Friðriki þriggja ára gamall og hef heyrt og lesið um margt sem hann gerði vel. En svo heyrði ég sögu frá manni sem ég treysti. Hann sagði mér að Friðrik hefði stungið tungunni upp í hann, sjö eða átta ára gamlan drenginn. Það þarf að ræða svona mál en ekki fela þau.“

Raunsæi gagnvart lífinu

Það er vanlíðan í þjóðfélaginu. Þú hlýtur að hafa séð mikla vanlíðan í starfi þínu sem prestur.

„Já, víða. Það er mikilvægt hlutverk í prestsstarfinu að heyra og nema þegar fólk þarf á því að halda. Það kemur líka sterkt fram í mínum predikunum að Guð er hin róttæka nánd sem alltaf eflir og hverfur ekki á sorgarstund. Guð sendir fólki ekki erfiðleikana. Guð ýtir ekki á snjóhengjurnar til að þær falli yfir fólk. Guð er ekki valdur að óhamingjunni. Ég þekki bara Guð sem er umhyggjusöm elska, alltaf nálæg og ætíð til reiðu. Guð skapar möguleika en skipar þér ekki fyrir. Þú hefur leyfi til að gera hlutina öðruvísi. Við menn lifum í róttæku frelsi og ég túlka þessa pan-en-teísku guðsmynd og trúartúlkun í þessari ástarpostillu sem var að koma út.“

Það hlýtur að vera erfitt að þurfa oft að standa frammi fyrir sorg og vanlíðan annarra. Hvernig vannstu úr því sem prestur?

„Ég er gamall sveitastrákur og lærði mjög snemma að glíma við hrylling þess að það sem maður elskar getur dáið eða farið. Ég fóðraði kálfana á hverjum morgni og leið ægilegar kvalir þegar þeir voru teknir og þeim slátrað. Ég harðneitaði að borða þessa vini mína. Maður gerir ekki svoleiðis. Ég held að ég hafi snemma öðlast ákveðið raunsæi gagnvart lífinu. Svo varð ég fyrir margþættum áföllum í mínu eigin lífi. Ég fór í gegnum þau, mætti þeim en flúði þau ekki. Það varð til þess að ég varð betur í stakk búinn til að mæta áföllum annarra. Lífsreynsla hjálpar prestum og öðrum fagmönnum sem vinna með fólki í djúpri sorg og miklum áföllum. Ég hef uppgötvað hversu dýrmætt lífið er og þakka fyrir hvern einasta dag og þau undur sem við fáum að njóta.“

Þú hefur greinilega mikla ástríðu fyrir prestsstarfinu, finnst þér ekki erfitt að hætta því starfi?

„Nei, ég gegni mörgum hlutverkum og lifi af ástríðu. Ég er fræðimaður í grunninn og hefði vel getað hugsað mér að gera það að ævistarfi, fékk meira að segja boð um starf í Ameríku í gamla daga. Grúskið hentar mér vel. Vefurinn er líka skemmtilegur vettvangur til að birta efni. www.sigurdurarni.is er vefsíða sem ég held úti. Ég tek mikið af ljósmyndum og ætla að læra meira í ljósmyndun. Svo er ég í magnavita-námi Háskólans í Reykjavík og læri að verða skemmtilegt gamalmenni. Þar er tekið á öllum málum sem snerta þriðja æviskeiðið, hvort sem það er hugsun, fjármál, heilsa, mataræði, siðfræði, sjálfsvitund eða menning.“

Svo í lokin, þú hefur staðfasta trú á ástinni?

„Ég er viss um að Guð er ást, ástin hríslast í náttúrunni, lífinu og okkur mannfólkinu. Þess vegna er þetta allt svo skemmtilegt.“

 

… og Orðið var Ást

Sigurþór Heimisson flutti þetta ávarp á örþingi um Ástin, trú og tilgangur lífsins, laugardaginn 11. nóvember, 2023. Myndina hér að ofan tók ég af Sigurþóri við Garðana við Ægisíðu. Þar hefur Sóri búið ásamt konu sinni og fjölskyldu í aldarfjórðung. Myndin hér að neðan er af Kór Neskirkju og Sigurþór er sá lengst til vinstri á myndinni.  Báðar myndirnar líklega frá 2010. Hér á eftir er ávarpið: 

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

Ég skil þetta þannig að orðið eða tungumálið sé guðdómlegt, ekki það að upphaflega hafi verið eitt orð -Guð-

Séra Sigurður er búinn að raða saman orðum í heila bók – sem ég er reyndar ekki búinn að lesa alla – en þar segir hann meðal annars frá því þegar sonunum tveimur eru gefin nöfn og hvað þau nöfn þýða. Því orð hafa merkingu, ekki í sjálfum sér heldur er það samningur milli fólks í samfélaginu hvaða þýðingu orð hafa. Við þurfum að læra tungumál til að gera okkur skiljanleg. Ef við komum í nýtt samfélag þurfum við að breyta tungumálinu sem við tölum jafnvel þó að við förum bara á milli landshluta. Á Akureyri þarf maður til dæmis að kynna sér áttirnar til að skilja hvað er átt við þegar spurt er hvort maður búi í syðri eða nyrðri endanum í blokkinni.

Við búum til ný orð yfir nýja hluti og hugtök, og hlutirnir eru í raun ekki til fyrr en þeir eru komnir með nafn. Alveg eins og börn verða fyrst hluti af samfélaginu þegar þau hafa fengið sitt eigið nafn. Þess vegna er tungumálið í sjálfu sér guðdómlegt því það er hluti af líminu sem heldur samfélaginu saman. Við búum okkur síðan til orðabækur til að útskýra hvað orðin í tungumálinu þýða.

Ég hef heyrt því haldið fram að Íslendingasögurnar og tilkoma Biblíunnar á íslensku sé ein aðal ástæða þess að íslenskan hefur breyst jafn lítið og raun ber vitni. Íslendingar lásu (og lesa enn) Íslendingaasögurnar og jafnvel biblíuna líka.

Hlutverk presta er síðan að hjálpa okkur að skilja og skilgreina orðin sem standa í Biblíunni.

Ég man að þegar ég fór að syngja í kórnum og mæta reglulega í messu voru þeir hér tveir prestarnir: Séra Sigurður Árni og Séra Örn Bárður. Mér þótti gaman að hlusta á predíkanirnar þeirra (já, já, allavega sumir í kórnum heyra predíkanirnar) mér þótti svo gaman að heyra hvað þeir höfðu ólíka nálgun á efnið sem þeir voru að fjalla um. Örn Bárður var að mínum dómi klassískari í nálgun á meðan fræðimaðurinn Sigurður Árni þótti mér persónulegri og velta upp nýjum flötum á umfjöllunarefninu.

Þess vegna ber að fagna þessari nýju orðabók Séra Sigurðar því með henni gefst tækifæri að rifja upp eða kynna sér frá grunni hugsanir og túlkanir hans á orðunum og hugsununum í Biblíunni.

Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna (og kemur fram í fínu viðtali í Mogganum í morgun) fjallar bókin að stórum hluta um ást og boðskapinn um það að elska náungann.

Nú á tímum sjálfselsku (það er dagur einhleypra í dag, eða dagur sjálfselskra) er full þörf á að minna á að við þurfum fyrst og fremst að elska hvert annað.

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Ást.

Trúarspurningar og trúarstyrking

Dr. Rúnar Vilhjálmsson flutti erindið hér að neðan á útgáfuþingi bókarinnar Ástin, trú og tilgangur lífsins. Þingið var haldið í Neskirkju, 11. nóvember, 2023. Rúnar er sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju, kirkjuþingsmaður og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

   ————————

Ég vissi snemma af Sr. Sigurði Árna en kynntist honum þó ekki að ráði fyrr við hjónin urðum sóknarbörn hans er við fluttum í Hallgrímssókn. Það hafa verið ánægjuleg og gefandi kynni.

Postilla Sigurðar Árna er áhugaverð að utan sem innan. Í lifandi predikunartexta andmælir Sigurður Árni jöfnum höndum bókafstrú og óupplýstum trúarfordómum. Rauði þráðurinn í predikuninni er elska Guðs til mannsins, misjafn sem hann er, og hið gjöfula samband sem hann getur átt við Guð í Jesú Kristi. Guð vill komast í samband við manninn, sem Sigurður kallar ástarsamband.

Sigurður Árni viðurkennir að svo virðist sem menn geti hafnað Guði og komist áfram í lífinu þrátt fyrir það. En þá verða þeir skilningssljóir, því trúin umbyltir allri merkingu hlutanna, sem hefur margs konar þýðingu og afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélag.

Sigurði Árna er það einkar lagið að tengja texta Biblíunnar við daglegt líf mannsins í samtímanum. Sem dæmi er mér minnistæður pedikunartextinn milli nýars og þrettánda sem Sigurður Árni leggur út af. Efnið er leit foreldranna að Jesú, sem eftir svefnlausar nætur finna hann loks í musterinu. Um þetta segir Sigurður meðal annars: „Forsenda þess að við getum gengið inn í guðsreynslu og lifað í guðsveru Jesú er að við viðurkennum okkar eigin leit og förum í musterið með honum … Jesús var í húsi föður síns. Finnur þú Jesú þar?“ Foreldrarnir voru að leita að hinum veraldlega Jesú en fundu annan. Um þetta segir Sigurður: „Að trúa er það persónulega mál að hitta Jesú og verða vinur hans og treysta. María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim. Við leitum að ákveðnum Jesú en svo mætir okkur allt annar.“

Sr. Sigurður leggur ekki áherslu á sérstæða yfirnátturulega reynslu, sem margir raunar leita að, eða sérstaka opinberun, eða langa bið eftir sérstökum skilaboðum eða fyrirmælum frá Guði. Ástæðan er einföld: Guð er hér og nú – andi hans umvefur allt hið hverdagslega líf mannsins og með augum trúarinnar sést greinilega að hann er nálægur og vill vera í stöðugu sambandi við manninn í daglega lífinu, bæði þegar vel og illa gengur. Afstöðu sinni lýsir Sigurður Árni sem pan-en-teisma sem gengur út á að Guð sé yfir og undir og allt um kring, sem þýði þó alls ekki að allt sé guðlegt. „Andi Guðs hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs og kennir þér að sjá guðssoninn. Andinn kennir þér að sjá lífið með nýjum hætti og heyra músík veraldar sem himneska tónlist. Hann kennir þér að tala við Guð og opnar vitund um nærveru hins heilaga í öllu” segir Sigurður Árni. Og hann sér Guð að verki út um allt: Í kossi elskenda og hrósi vinar, í meini sem grær eftir uppskurð, í prédikun sem leiðir til andlegs vaxtar, og í jafnvægi krafta náttúrunnar. 

Einhverjum gæti fundist að það mætti vera meiri alvara á ferð í sumum af predikunartextum Sigurðar – því mikið er í húfi fyrir manninn að játast Kristi sem frelsara sínum og fylgja Guði. Ekki fari heldur mikið fyrir umvöndunum prestsins vegna afstöðu- og sinnuleysis manna í trúarefnum. Og þá gæti einhverjum fundist að fleira mætti segja um siðferðilega ábyrgð játanda Krists í heiminum. En þá er því meðal annars til að svara að Sigurður er ekki að tala sérstaklega inn í  lokað samfélag trúaðra, heldur beinir hann erindi sínu til margslungins samfélags samtímans þar sem gætir alls konar viðhorfa og athafna. En umfram allt þá má hér aftur vísa aftur til elskunnar og þess afls sem hún er í heiminum. Sigurður hefur mikla trú á elsku Guðs og þeim krafti hennar sem styrkir samband okkar við Guð og hvert annað hér í heimi, þó margt kunni að vera ólíkt með okkur við fyrstu sýn. Það má skilja Sigurð Árna svo að lækning heimsins meina sé háð þessu elskuríka Guðssambandi.

Bókin er læsileg og aðgengileg. Hun mun vafalítið verða lesin víða, kveikja trúarspurningar og umræðu og verða mörgum til trúarstyrkingar. Til hamingju með þessa fallegu bók.

Framsaga dr. Rúnars á örþinginu í Neskirkju 11.11. Meðfylgjandi mynd/sáþ er af fyrirlesaranum með barnbarn sitt í aðventuguðsþjónustu í Hallgrímskirkkju 2022. 

 

Heillaóskaskrá og afmæliskveðja

Prédikanasafn mitt Ástin, trú og tilgangur lífsins verður gefið út í byrjun nóvember. Í þessu safni verða 78 prédikanir helstu helgidaga og hátíða ársins. Hallgrímskirkja styður þessa útgáfu. Þetta verður stórbók og forlagið, Bjartur-Veröld-Fagurskinna, vandar útgáfuna. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, býr ritið til prentunar og mér sýnist bókin muni verða falleg. Það hefur verið skemmtilegt að vinna með Ragnari Helga en hann er sjálfur tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Á sínum tíma hannaði Ragnar Helgi biblíuútgáfu JPV – þessa sem notuð er í öllu helgihaldi íslenskrar kristni síðustu fimmtán árin.

Bókin er gefin út við starfslok og sem afmælisrit. Í henni verður heillaóskaskrá. Frestur til að skrá nöfn er 10. september. Þau er vilja setja nafn eða nöfn (t.d. hjóna eða systkina) í skrána eru beðin að senda nöfnin í tölvupósti og ganga frá greiðslu. Pétur Már Ólafsson, forleggjarinn, tekur við nöfnum og netfang hans er pmo@bjartur.is. Síðan er greitt á sölusíðu útgefanda sem er að baki þessari smellu. Forsöluverð er 11.990 sem er þrjú þúsund krónum lægra en verður eftir útgáfudag. Skrifið TABULA á afsláttarkóðann og þá fæst afslátturinn við frágang á netinu. Skráningarfrestur vegna heillaóskaskrár verður stuttur svo gerið svo vel að verið snögg til ef þið viljið nota skrána til að gleðja höfundinn. Besta afmælisgjöfin. Svo verður auðvitað útgáfuhátíð og afmælisteiti sem stefnt er að halda 11. nóvember. Þið eruð öll boðin til veislu. 

Af hverju gefa út prédikanir? Þær eiga erindi og sá mikli fjöldi sem les staðfestir áhugann. Teljarinn á heimasíðunni minni sýnir að þúsundir og í nokkrum tilvikum tugir þúsunda hafa lesið sumar prédikanirnar. Prédikanir verða til fyrir lifandi fólk hvers tíma og tjá viðfang og þarfir. Best er þegar útleggingin verður fólki erindi til fagnaðar og blessunar. Vinur minn spurði: „Ertu ekki hræddur við að gefa svona út og einhver fari að nota þessar ræður?“ En svarið er einfalt. Fluttar ræður í kirkju eru eign kirkjunnar og erindi þeirra má nota og margnota. Vonandi verður Ástin, trú og tilgangur lífsins hagnýt bók í lífi og starfi kirkjunnar, kristni á Íslandi og trúarglímu einstaklinga.

Með ástarkveðjum, Sig. Árni