Trúarspurningar og trúarstyrking

Dr. Rúnar Vilhjálmsson flutti erindið hér að neðan á útgáfuþingi bókarinnar Ástin, trú og tilgangur lífsins. Þingið var haldið í Neskirkju, 11. nóvember, 2023. Rúnar er sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju, kirkjuþingsmaður og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

   ————————

Ég vissi snemma af Sr. Sigurði Árna en kynntist honum þó ekki að ráði fyrr við hjónin urðum sóknarbörn hans er við fluttum í Hallgrímssókn. Það hafa verið ánægjuleg og gefandi kynni.

Postilla Sigurðar Árna er áhugaverð að utan sem innan. Í lifandi predikunartexta andmælir Sigurður Árni jöfnum höndum bókafstrú og óupplýstum trúarfordómum. Rauði þráðurinn í predikuninni er elska Guðs til mannsins, misjafn sem hann er, og hið gjöfula samband sem hann getur átt við Guð í Jesú Kristi. Guð vill komast í samband við manninn, sem Sigurður kallar ástarsamband.

Sigurður Árni viðurkennir að svo virðist sem menn geti hafnað Guði og komist áfram í lífinu þrátt fyrir það. En þá verða þeir skilningssljóir, því trúin umbyltir allri merkingu hlutanna, sem hefur margs konar þýðingu og afleiðingar fyrir einstaklinga og samfélag.

Sigurði Árna er það einkar lagið að tengja texta Biblíunnar við daglegt líf mannsins í samtímanum. Sem dæmi er mér minnistæður pedikunartextinn milli nýars og þrettánda sem Sigurður Árni leggur út af. Efnið er leit foreldranna að Jesú, sem eftir svefnlausar nætur finna hann loks í musterinu. Um þetta segir Sigurður meðal annars: „Forsenda þess að við getum gengið inn í guðsreynslu og lifað í guðsveru Jesú er að við viðurkennum okkar eigin leit og förum í musterið með honum … Jesús var í húsi föður síns. Finnur þú Jesú þar?“ Foreldrarnir voru að leita að hinum veraldlega Jesú en fundu annan. Um þetta segir Sigurður: „Að trúa er það persónulega mál að hitta Jesú og verða vinur hans og treysta. María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim. Við leitum að ákveðnum Jesú en svo mætir okkur allt annar.“

Sr. Sigurður leggur ekki áherslu á sérstæða yfirnátturulega reynslu, sem margir raunar leita að, eða sérstaka opinberun, eða langa bið eftir sérstökum skilaboðum eða fyrirmælum frá Guði. Ástæðan er einföld: Guð er hér og nú – andi hans umvefur allt hið hverdagslega líf mannsins og með augum trúarinnar sést greinilega að hann er nálægur og vill vera í stöðugu sambandi við manninn í daglega lífinu, bæði þegar vel og illa gengur. Afstöðu sinni lýsir Sigurður Árni sem pan-en-teisma sem gengur út á að Guð sé yfir og undir og allt um kring, sem þýði þó alls ekki að allt sé guðlegt. „Andi Guðs hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs og kennir þér að sjá guðssoninn. Andinn kennir þér að sjá lífið með nýjum hætti og heyra músík veraldar sem himneska tónlist. Hann kennir þér að tala við Guð og opnar vitund um nærveru hins heilaga í öllu” segir Sigurður Árni. Og hann sér Guð að verki út um allt: Í kossi elskenda og hrósi vinar, í meini sem grær eftir uppskurð, í prédikun sem leiðir til andlegs vaxtar, og í jafnvægi krafta náttúrunnar. 

Einhverjum gæti fundist að það mætti vera meiri alvara á ferð í sumum af predikunartextum Sigurðar – því mikið er í húfi fyrir manninn að játast Kristi sem frelsara sínum og fylgja Guði. Ekki fari heldur mikið fyrir umvöndunum prestsins vegna afstöðu- og sinnuleysis manna í trúarefnum. Og þá gæti einhverjum fundist að fleira mætti segja um siðferðilega ábyrgð játanda Krists í heiminum. En þá er því meðal annars til að svara að Sigurður er ekki að tala sérstaklega inn í  lokað samfélag trúaðra, heldur beinir hann erindi sínu til margslungins samfélags samtímans þar sem gætir alls konar viðhorfa og athafna. En umfram allt þá má hér aftur vísa aftur til elskunnar og þess afls sem hún er í heiminum. Sigurður hefur mikla trú á elsku Guðs og þeim krafti hennar sem styrkir samband okkar við Guð og hvert annað hér í heimi, þó margt kunni að vera ólíkt með okkur við fyrstu sýn. Það má skilja Sigurð Árna svo að lækning heimsins meina sé háð þessu elskuríka Guðssambandi.

Bókin er læsileg og aðgengileg. Hun mun vafalítið verða lesin víða, kveikja trúarspurningar og umræðu og verða mörgum til trúarstyrkingar. Til hamingju með þessa fallegu bók.

Framsaga dr. Rúnars á örþinginu í Neskirkju 11.11. Meðfylgjandi mynd/sáþ er af fyrirlesaranum með barnbarn sitt í aðventuguðsþjónustu í Hallgrímskirkkju 2022.