… og Orðið var Ást

Sigurþór Heimisson flutti þetta ávarp á örþingi um Ástin, trú og tilgangur lífsins, laugardaginn 11. nóvember, 2023. Myndina hér að ofan tók ég af Sigurþóri við Garðana við Ægisíðu. Þar hefur Sóri búið ásamt konu sinni og fjölskyldu í aldarfjórðung. Myndin hér að neðan er af Kór Neskirkju og Sigurþór er sá lengst til vinstri á myndinni.  Báðar myndirnar líklega frá 2010. Hér á eftir er ávarpið: 

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

Ég skil þetta þannig að orðið eða tungumálið sé guðdómlegt, ekki það að upphaflega hafi verið eitt orð -Guð-

Séra Sigurður er búinn að raða saman orðum í heila bók – sem ég er reyndar ekki búinn að lesa alla – en þar segir hann meðal annars frá því þegar sonunum tveimur eru gefin nöfn og hvað þau nöfn þýða. Því orð hafa merkingu, ekki í sjálfum sér heldur er það samningur milli fólks í samfélaginu hvaða þýðingu orð hafa. Við þurfum að læra tungumál til að gera okkur skiljanleg. Ef við komum í nýtt samfélag þurfum við að breyta tungumálinu sem við tölum jafnvel þó að við förum bara á milli landshluta. Á Akureyri þarf maður til dæmis að kynna sér áttirnar til að skilja hvað er átt við þegar spurt er hvort maður búi í syðri eða nyrðri endanum í blokkinni.

Við búum til ný orð yfir nýja hluti og hugtök, og hlutirnir eru í raun ekki til fyrr en þeir eru komnir með nafn. Alveg eins og börn verða fyrst hluti af samfélaginu þegar þau hafa fengið sitt eigið nafn. Þess vegna er tungumálið í sjálfu sér guðdómlegt því það er hluti af líminu sem heldur samfélaginu saman. Við búum okkur síðan til orðabækur til að útskýra hvað orðin í tungumálinu þýða.

Ég hef heyrt því haldið fram að Íslendingasögurnar og tilkoma Biblíunnar á íslensku sé ein aðal ástæða þess að íslenskan hefur breyst jafn lítið og raun ber vitni. Íslendingar lásu (og lesa enn) Íslendingaasögurnar og jafnvel biblíuna líka.

Hlutverk presta er síðan að hjálpa okkur að skilja og skilgreina orðin sem standa í Biblíunni.

Ég man að þegar ég fór að syngja í kórnum og mæta reglulega í messu voru þeir hér tveir prestarnir: Séra Sigurður Árni og Séra Örn Bárður. Mér þótti gaman að hlusta á predíkanirnar þeirra (já, já, allavega sumir í kórnum heyra predíkanirnar) mér þótti svo gaman að heyra hvað þeir höfðu ólíka nálgun á efnið sem þeir voru að fjalla um. Örn Bárður var að mínum dómi klassískari í nálgun á meðan fræðimaðurinn Sigurður Árni þótti mér persónulegri og velta upp nýjum flötum á umfjöllunarefninu.

Þess vegna ber að fagna þessari nýju orðabók Séra Sigurðar því með henni gefst tækifæri að rifja upp eða kynna sér frá grunni hugsanir og túlkanir hans á orðunum og hugsununum í Biblíunni.

Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna (og kemur fram í fínu viðtali í Mogganum í morgun) fjallar bókin að stórum hluta um ást og boðskapinn um það að elska náungann.

Nú á tímum sjálfselsku (það er dagur einhleypra í dag, eða dagur sjálfselskra) er full þörf á að minna á að við þurfum fyrst og fremst að elska hvert annað.

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Ást.