Greinasafn fyrir merki: postilla

Heillaóskaskrá og afmæliskveðja

Prédikanasafn mitt Ástin, trú og tilgangur lífsins verður gefið út í byrjun nóvember. Í þessu safni verða 78 prédikanir helstu helgidaga og hátíða ársins. Hallgrímskirkja styður þessa útgáfu. Þetta verður stórbók og forlagið, Bjartur-Veröld-Fagurskinna, vandar útgáfuna. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, býr ritið til prentunar og mér sýnist bókin muni verða falleg. Það hefur verið skemmtilegt að vinna með Ragnari Helga en hann er sjálfur tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Á sínum tíma hannaði Ragnar Helgi biblíuútgáfu JPV – þessa sem notuð er í öllu helgihaldi íslenskrar kristni síðustu fimmtán árin.

Bókin er gefin út við starfslok og sem afmælisrit. Í henni verður heillaóskaskrá. Frestur til að skrá nöfn er 10. september. Þau er vilja setja nafn eða nöfn (t.d. hjóna eða systkina) í skrána eru beðin að senda nöfnin í tölvupósti og ganga frá greiðslu. Pétur Már Ólafsson, forleggjarinn, tekur við nöfnum og netfang hans er pmo@bjartur.is. Síðan er greitt á sölusíðu útgefanda sem er að baki þessari smellu. Forsöluverð er 11.990 sem er þrjú þúsund krónum lægra en verður eftir útgáfudag. Skrifið TABULA á afsláttarkóðann og þá fæst afslátturinn við frágang á netinu. Skráningarfrestur vegna heillaóskaskrár verður stuttur svo gerið svo vel að verið snögg til ef þið viljið nota skrána til að gleðja höfundinn. Besta afmælisgjöfin. Svo verður auðvitað útgáfuhátíð og afmælisteiti sem stefnt er að halda 11. nóvember. Þið eruð öll boðin til veislu. 

Af hverju gefa út prédikanir? Þær eiga erindi og sá mikli fjöldi sem les staðfestir áhugann. Teljarinn á heimasíðunni minni sýnir að þúsundir og í nokkrum tilvikum tugir þúsunda hafa lesið sumar prédikanirnar. Prédikanir verða til fyrir lifandi fólk hvers tíma og tjá viðfang og þarfir. Best er þegar útleggingin verður fólki erindi til fagnaðar og blessunar. Vinur minn spurði: „Ertu ekki hræddur við að gefa svona út og einhver fari að nota þessar ræður?“ En svarið er einfalt. Fluttar ræður í kirkju eru eign kirkjunnar og erindi þeirra má nota og margnota. Vonandi verður Ástin, trú og tilgangur lífsins hagnýt bók í lífi og starfi kirkjunnar, kristni á Íslandi og trúarglímu einstaklinga.

Með ástarkveðjum, Sig. Árni

 

 

 

Jón Vídalín +300

Vídalínspostilla er höfuðrit íslenskrar kristni síðari alda við hlið Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Passíusálmarnir eru enn lesnir og reglulega endurútgefnir. Vídalínspostilla var mikið lesin í nær tvær aldir. En postillan hefur í seinni tíð ekki notið sömu vinsælda og áður. Er Vídalínspostilla aðeins vitnisburður um liðinn tíma eða hefur hún enn eitthvað gildi? Þó viðmið fólks hafi breyst og málfar okkar sé annað er bókin klassík.

Þrjú hundruð ár eru liðin frá dauða Jóns Vídalíns sem samdi postilluna. Hann lést 30. ágúst árið 1720. Æfi Jóns Vídalíns var litrík. Þegar hann lauk námi frá Skálholtsskóla var um hann sagt að hann væri borinn til stórvirkja. Jón var stefnufastur maður mikilla hæfileika og varð einn mesti ræðusnillingur Íslendinga. Hann fæddist á Görðum á Álftanesi, naut góðrar bernsku en missti föður sinn aðeins ellefu ára. Þá tóku við þeytings- og mótunarár. Hann var sendur víða, austur á Fáskrúðsfjörð, undir Eyjafjöll, að Þingvöllum, vestur í Selárdal og út í Vestannaeyjar. Jón mannaðist og menntaðist og fór til náms í Kaupmannahöfn. Eftir að hafa flækst í hermennsku kom hann út til Íslands til prestsþjónustu og varð einn yngsti biskup Íslendinga. Postilluna gaf hann út og af miklum metnaði á árunum 1718-20. Ræðustef postillunnar tengjast reynslu höfundarins. Sjúkdómar herjuðu á landsmennn og stjórnvöld brugðust í mörgu. Jón sá á eftir báðum börnum sínum í dauðann. Vídalínspostilla speglar lífsreynslu hans, háska fólks og þjóðaraðstæður en líka þroskaðan mann sem hafði unnið heimavinnuna sína.

Og hvert er svo gildi Vídalínspostillu? Málfar hennar er safaríkt og inntakið lífshvetjandi. Jón Vídalín hafði gaman af stóryrðum og yddaði til að ná eyrum fólks. Orðfæri postillunnar hafði áhrif á málnotkun tilheyrenda og lifði meðal þjóðarinnar. Ræðurnar eru kraftmiklar, snjallar, vekjandi og skemmtilegar aflestar. Postillan gefur góða innsýn í hvernig klassísk fræði, guðfræði og heimspeki voru nýtt til fræðslu og mannræktar. Hún var því fræðandi og menntandi.

Jón Vídalín talaði ákveðið inn í aðstæður samtíðar sinnar. Hann lifði á upphafstíð einfaldskonungs og notaði konungshugmyndir til að túlka eðli og eigindir Guðs, heims og manna. Í postillunni er skýr siðfræði og hvernig siðferði menn eigi að temja sér. Jón Vídalín dró ekki af sér þegar hann benti á ábyrgð fólks gagnvart öðrum og samfélagi manna. Í postillunni er djúp samfélagsspeki, gagnrýni á vond stjórnvöld og Jesústefna um vernd hinna máttlitlu. Í prédikunum er talað með visku um lífshugmyndir manna. Jón Vídalín skipaði ekki fólki fyrir um trú þess eða afstöðu en hvatti til skynsamlegrar og einlægrar skoðunar fólks á stóru og smáu málunum. Postillan var hvetjandi og eflandi fremur en letjandi eða slævandi. Mannlýsingar Jóns Vídalíns eru litríkar og áhugaverðar. Jón Vídalín lýsti mönnum sjálfselskunnar með sjokkerandi nákvæmni. Hann hafði mikil áhrif á hvernig fólk hugsaði um sjálft sig og varnaði markalausri einstaklingshyggju.  

Gildi Vídalínspostillu? Klassísk verk hafa að geyma plús eða merkingarbónus sem er óháður tíma. Vídalínspostilla varpar upp möguleikum á góðu mannlífi og heilbrigðum sjálfsskilningi sem kallar einstaklinga og samfélag til ábyrgðar. Jón Vídalín lagði siðfræðilegan grunn að samúðarþjóðfélagi okkar Íslendinga. Lof sé honum og lesum postilluna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 29. ágúst 2020, bls. 29.

Nánar um Jón Vídalíns og guðfræði Vídalínspostillu sjá: 

Majesty of God and the Limitation of the World – Vídalínspostilla