Heillaóskaskrá og afmæliskveðja

Prédikanasafn mitt Ástin, trú og tilgangur lífsins verður gefið út í byrjun nóvember. Í þessu safni verða 78 prédikanir helstu helgidaga og hátíða ársins. Hallgrímskirkja styður þessa útgáfu. Þetta verður stórbók og forlagið, Bjartur-Veröld-Fagurskinna, vandar útgáfuna. Ragnar Helgi Ólafsson, rithöfundur og grafískur hönnuður, býr ritið til prentunar og mér sýnist bókin muni verða falleg. Það hefur verið skemmtilegt að vinna með Ragnari Helga en hann er sjálfur tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Á sínum tíma hannaði Ragnar Helgi biblíuútgáfu JPV – þessa sem notuð er í öllu helgihaldi íslenskrar kristni síðustu fimmtán árin.

Bókin er gefin út við starfslok og sem afmælisrit. Í henni verður heillaóskaskrá. Frestur til að skrá nöfn er 10. september. Þau er vilja setja nafn eða nöfn (t.d. hjóna eða systkina) í skrána eru beðin að senda nöfnin í tölvupósti og ganga frá greiðslu. Pétur Már Ólafsson, forleggjarinn, tekur við nöfnum og netfang hans er pmo@bjartur.is. Síðan er greitt á sölusíðu útgefanda sem er að baki þessari smellu. Forsöluverð er 11.990 sem er þrjú þúsund krónum lægra en verður eftir útgáfudag. Skrifið TABULA á afsláttarkóðann og þá fæst afslátturinn við frágang á netinu. Skráningarfrestur vegna heillaóskaskrár verður stuttur svo gerið svo vel að verið snögg til ef þið viljið nota skrána til að gleðja höfundinn. Besta afmælisgjöfin. Svo verður auðvitað útgáfuhátíð og afmælisteiti sem stefnt er að halda 11. nóvember. Þið eruð öll boðin til veislu. 

Af hverju gefa út prédikanir? Þær eiga erindi og sá mikli fjöldi sem les staðfestir áhugann. Teljarinn á heimasíðunni minni sýnir að þúsundir og í nokkrum tilvikum tugir þúsunda hafa lesið sumar prédikanirnar. Prédikanir verða til fyrir lifandi fólk hvers tíma og tjá viðfang og þarfir. Best er þegar útleggingin verður fólki erindi til fagnaðar og blessunar. Vinur minn spurði: „Ertu ekki hræddur við að gefa svona út og einhver fari að nota þessar ræður?“ En svarið er einfalt. Fluttar ræður í kirkju eru eign kirkjunnar og erindi þeirra má nota og margnota. Vonandi verður Ástin, trú og tilgangur lífsins hagnýt bók í lífi og starfi kirkjunnar, kristni á Íslandi og trúarglímu einstaklinga.

Með ástarkveðjum, Sig. Árni