Greinasafn fyrir merki: Mótettukór Hallgrímskirkju

Tilbrigði við gult og glatt

Fæturnir taka á sprett síðasta spölinn yfir Hallgrímstorgið. Það er gott að skjótast úr strengnum inn í myndheim forkirkjunnar.  Augun leita inn altarisleiðina.  Og sjá, við dyrnar er lygilega gulur lyftari á fleygiferð.  Lyftustjórinn er organistinn, Hörður, sem óhikað rekur gaffalinn undir útstöð orgelsins á kirkjugólfinu.  Hann brosir lítillega við undrandi kirkjugesti og lyftir tækinu, rennir því og orgelhlunknum nær miðjugagni og lætur það svo síga á setstað. Þarna vill hann spila í dag.  Hörður setur stút á munninn og reyndar allt andlitið.  Það dettur á hann einhver suður-evrópskur maestrosvipur, sem hann hefur örugglega einhvers staðar þegið að láni frá tónsnillingi í ham.  Svo hneigir hann höfuð snöggt og með rykk. Þá umhverfist þykistualvaran í glens og bros breiðist yfir andlitið.  Ekkert er sagt, en atferlið er tilbrigði við gulan orgellyftara eða er þetta gjörningur?  Fyrsta verk í undirbúningi sunnudagsmessu.

Svo er tilbrigði við næsta stef.  Klukkan er ekki tíu og kórmeðlimir koma.  Sumir líða inn úr rokinu eins og svefngenglar. Lyktin og lætin laða þau beint að eldhúsi í kaffi.  Hörður stendur á miðju gólfi og veitir öllum athygli.  Einn feiminn tenór hlýtur góðlátlega athugasemd og ein úr altinum fær stroku fyrir spilerí á tónleikum í liðinni viku.  Svo er þétt handtak og umhyggjuaugu honum, sem missti ömmu sína í vikunni.  Presturinn kemur með góðan daginn og þeir samverkamennirnir eru fallegir í framan saman.  Svo fer klerkur til að stýra fræðslumorgni, en kantórinn kallar sitt fólk.  Hann tekur létt vingsspor frá Suðursal og alla leið í Norðursal.  Nokkur kórpils valhoppa með.  Dagur og messa eiga sér elskulegan undirbúning. Kantórinn sér fólkið sitt, hefur ræktað með sér hæfni til að tengja við tilfinningar samverkamanna.  Fólk skiptir máli.  Þetta fólk er ekki aðeins raddir heldur lifandi verur.  Iðkun kærleika er flottur spuni.

A-a-a-a-a, e-e-e-e-e. Ah-ah-ah-ah-ah.  Upp tónstigann, svo niður. Vindurinn hrífst með og gnauðar um gluggarifu.  Kviðvöðvarnir í kipp, leitað að þindinni og slakað á brjóststykkinu.  Varir eru teygðar í sérhljóðavinnslu, raddböndin mýkt upp, axlir í spennulausri hvíld. Líf færist í tónmyndun og hljómur hópsins skýrist.  Vantar bara einn því félagar í Mótettukór standa við sitt, svíkja ekki messusönginn. Söngstjórinn æfir fólk í að muna hvar samhengið og miðjan er.  Svo kemur lítil og kímileg saga.  Upphitun er með fjölbreytilegu móti og aldrei alveg eins.  Hörður er lítið fyrir læsta endurtekningu og kann fjölbreytni, sem rímar betur við fólk og líðan þess.

Crügerlaglína berst frá píanóinu á meðan hjartað og lífið er signt í huganum.  Flett er upp í sálmabókinni. “Nú gjaldi Guði þökk, hans gjörvöll barnahjörðin….” Aðeins sungið einu sinni.  Svo kemur miskunnarbænin: “Drottinn miskunna þú oss…”  Hvað þýðir það og af hverju þrítekið með Kristmiðju?  Þrenningin!  Og glorían svo, síðan heilsan með þínum anda!  Guðspjallssálmur með hússælu og minnt á kredóið.  Auðvitað játningin á sínum stað og svo enn einn sálmurinn. Engin ástæða til að syngja fjórraddað í safnaðarsöngnum. Hallgrímssöfnuður syngur, en svo leggja einstaklingar í kór og kirkju á hljómadjúpin.  Bach er sérstaklega æfður í tilefni dagsins.  Þá er kórinn opnaður.  Hörður stekkur upp og byrjar að stjórna.  Það þarf ekki að stoppa nema tvisvar og syngja aftur yfir.  Svona er kórverkfærið gott og agað.  Allir lesa óhikað – og treysta.  Svo eru sálmarnir sungnir sem eftir eru.  Allt búið – „gott, þið eruð yndisleg“ segir hann. Þá er farið í kaffi. Allur messuhringurinn er örugglega fetaður, fallegur gjörningur og gefur öryggi.  Kórinn er þéttur og samheldinn.  Bachhrynjandin og línan fylgir manni fram.

Messuupphaf og allar nótur á sínum stað.  Allar stillingar eru tilbúnar.  Höfuð organistans hnígur lítillega og messuferðin hefst. Fingur á loft og stóri Kláus tekur við rafboðum, þenur pípur og prelúdíutónar fylla hvelfingu.  Kórfélagar ganga til stæða sinna. Presturinn gengur fram mót altari.  Hörður skágýtur augum til kórsins meðan fætur dansa á bassanum og fingur líða yfir borð.  Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.  Ekki tilbrigði heldur frumstefið, sem allt er tilbrigði við, hvort sem það er nú Bach eða Þorkell, Matthías eða Lilja, kredó, predikun, borðsamfélag eða blessun.  Orðið er lesið, síðan útlagt og söfnuður gengur til guðsborðsins.  Uppréttar hendur og blessun.  Hallgrímur leggur orð á varir safnaðar með “Son Guðs ertu með sanni.”  Prestur og kór ganga fram og allir eru á leið út í veröldina með huggun í vegarnesti.

Eftirspilið er tilbrigði við lokasálm.  Organistinn spinnur úr stefinu, hljómarnir þyrlast upp og mynda stafla og stæður.  Smátt og smátt verður til tónverk í spunagleðinni.  Á miðganginum er hugsað, að það sé dásamlegt að söfnuður og kirkja njóti slíks snillings til að þjóna hinu góða erindi við veröldina.  Sólin leikur sér á norðurvegg kirkjunnar og baðar sinn góða vin á orgelstólnum.  Fætur hans dansa, kirkjugestir stoppa og guli orgellyftarinn ymur í gleði.  Gott ef ekki sést glytta í englavængi þarna uppi.  Allir glaðir, enda erindið kennt við fögnuð.

Grein mín til heiðurs Herði Áskelssyni birtist í minningarriti Mótettukórsins árið 2003. Myndirnar frá 2005 þegar Hörður kynnti Klaisorgel Hallgrímskirkju fyrir fulltrúum Porvoo-kirknasambandsins. 

Mótettukórinn, Bach og Hallgrímur

Klassíkin okkar var á dagskrá sjónvarpsins 4. september. Sinfóníuhljómsveitin flutti verk úr ýmsum áttum og söngvararnir komu úr ýmsum tónlistargáttum líka. Eini kórinn sem söng var Mótettukór Hallgrímskirkju og söng Ruht wohl úr Jóhannesarpassíu Bachs. Og söng með ástríðu sem var hrífandi.

Passían var fyrst flutt á Íslandi á stríðsárunum, 1943, og þá undir stjórn Victors Urbancic. Hann vildi að Íslendingar skildu boðskap verksins og lét því flytja það á íslensku. Aríur og kórar voru í þýðingu Jakobs Jóh. Smára, en sálmalögin felldi hann að erindum úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Þótti það mikið afrek að þessir miklu söngmeistarar hefðu verið samþættaðir. Þessi íslenska gerð verksins var flutt síðar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1950. Síðan hefur Jóhannesarpassían verið flutt á þýskunni hér á landi. En nú var sungið á íslensku að nýju.

Stjórnandi Sinfóníunnar þetta kvöld var Finnur Bjarnason. Hann hlaut hluta af sínu tónlistaruppeldi í Mótettukórnum og lærði af kirkjukantornum. Á sínum tíma söng hann í Mótettukórnum og lifði undur kirkjutónlistarinnar. Hann var skemmtilegur félagi í söngnum, rífandi músíkalskur og alltaf líflegur. Kirkjukórar hafa ekki aðeins þjónað helgihaldi þjóðarinnar heldur líka menningarlífi hennar. Upp úr æfingum og af himinundrum kóranna rísa tónsnillingar þjóðarinnar.

Takk Mótettukór, Finnur, Hörður, Hallgrímur og Bach.