Greinasafn fyrir merki: biskup

Karl Sigurbjörnsson – blessuð veri minning hans

Karl Sigurbjörnsson er látinn. Ég fylgdist með honum yfir sex áratugi og vann náið með honum í nokkur ár. Karl var hæfileikaríkur maður og frábær prestur. Ég man eftir honum sem glaðværum, kurteisum en hlédrægum unglingi í biskupshúsinu við Tómasarhaga. Nokkrum árum síðar var hann sem ungprestur kominn upp á land úr eldinum í Eyjum. Mér þótti hann heillandi þegar hann kom til að eiga orðastað við háskólanema. Hann kom til okkar með uppbrettar ermar í vorbirtu til að fræða um viskuefni kristninnar. Hann var trúverðugur, spaugsamur og vel upplýstur. Þá gerði ég mér grein fyrir getu hans sem fræðara og ræðumanns. Verkefnin sem hlóðust á hann voru mörg og sum flókin. Einu sinni hringdi hann og bað mig um að gera sér greiða í þungbæru máli sem okkur þótti báðum sem grískur harmleikur með tvo kosti og báða vonda. En hann markaði stefnu út úr ógöngunum. 

Karl var listrænn, smekkvís og drátthagur eins og fínlegar vinjettur hans sýna vel. Hann var vel skáldmæltur. Þá hafði hann auga fyrir húsagerð og las hús vel. Karl var alla tíð hamhleypa til vinnu, afar glöggur, flokkaði ákveðið, var fljótur til verka og vann af skilvísri alúð. Hann vantaði aldrei verkefni en afrekaði langt umfram verkastöðu og væntingar. Prestsþjónusta Karls var frábær og allir hæfileikar hans nýttust. Tíminn í Hallgrímskirkju var Karli gleðiríkari en biskupstíminn þar á eftir.  Á holtinu ríkti frelsi en helsi sótti stíft að á Laugaveginum. 

Karl var hamingjumaður í hjúskap og heimilislífi. Kristín Guðjónsdóttir stóð við hlið bónda síns í öllum verkum og málum. Saman bjuggu þau þremur börnum sínum kærleiksríkt uppvaxtarheimili.

Það var gaman að fylgjast með Karli í tengslum við fólk. Hann var jafnan hlýr, næmur, opinn og glaður í samskiptum. Tengsl Karls við ungu kynslóðina og börn voru alltaf gefandi. Hann sá fólk og líka börnin sem hann umvafði hlýrri elskusemi. Vísitasíuferðir hans voru því ekki aðeins gagnlegar heldur oftast gleðilegar. Hann hafði lag á að gleðja sóknarnefndarfólk og þau sem hann hitti á þessum ferðum. Í þessum ferðum var Karl veitull í stól og á stéttum.

Mannvinur og Kristsvinur Karl Sigurbjörnsson er laus úr helsi heims og farinn inn í frelsi eilífðar. Guð geymi hann og styrki og blessi ástvini hans.

Myndina hér að ofan tók ég af Karli á prestastefnu í Neskirkju 2011. Hann stýrði fundum með glettinni hlýju og festu. Að baki honum er mynd af Munib Younan sem var lútherskur biskup í Betlehem. Þeir voru báðir hugumstórir friðarmenn. Á hinni myndinni hér að neðan ávarpar Karl ungsveininn Jón Kristján. Barnelska Karls birtist í brosi hans við íhugandi barninu.