Greinasafn fyrir merki: Jón Helgason

Guðsmyndir Íslendinga

Í Hallgrímskirkju er talað við Guð og um Guð. Síðustu vikurnar höfum við rætt guðsmyndir í sögu Íslendinga á þriðjudagsfundum. Eru guðsmyndir samtímans öðru vísi en áður var? Þarfir hvers tíma móta trúartúkun og hvernig talað er um Guð. Við höfum rætt um guðsmynd Hallgríms í Passíusálmunum og síðan um guðsmynd Vídalínspostillu. Fyrir viku síðan var rætt um guðstrú í prédikunum og sálmum Sigurbjarnar Einarssonar. Í dag verður farið yfir þróun á Íslandi og lyft upp þörfum í samtíma okkar. Ég mun fara stuttlega yfir þróun kristni og guðfræði á Íslandi því tuttugustu aldar kristni er afsprengi fyrri tíðar og við erum arftakar tuttugustu aldarinnar. Mitt mál í dag varðar prentuð trúarrit. Þau eru bara einn af mörgum þáttum í trúarfléttu þjóðarinnar og þróun guðsmynda íslensks samfélags. Þessi rit voru skrifuð af körlum en konurnar á fyrri öldum voru einnig fræðarar og fyrirmyndir í trúarmótun. Um þau hlutverk verður ekki fjallað í dag né heldur um trúfræði kvennanna sem urðu fræðikonur og prestar á síðustu áratugum. Á næstu vikum verður það svið opnað með fyrirlestrum þriggja kvenna sem hafa starfað lengi sem prestar þjóðkirkjunnar.

Niðurstöður úr guðsmyndarkönnunum í Hallgrímskirkju

En fyrst um guðsafstöðu þeirra sem lögðu leið sína í þessa kirkju. Ég gerði könnun á guðsviðhorfum þeirra sem sóttu messu í Hallgrímskirkju í fyrri hluta febrúar og meðal þeirra sem sóttu fyrirlestur um guðsmyndir Íslendinga fyrir fjórum vikum. Spurningarnar voru fremur opnar og tilgangurinn var að fá fram hvernig fólk hugsaði um Guð og guðstengsl. Um eitt hundrað svör bárust. Beðið var um að svörin væri nafnlaus. Flestir hlýddu – aðeins einn setti nafnið sitt á blaðið. Spurt var um hvað best tjáði guðsmynd fólks. Spurt var um persónur þrenningarinnar, þ.e. föður, son og heilagan anda og hvort fólki þætti Guð vera persóna eða kraftur. Einnig var spurt um hvort Guð væri fremur yfirvald eða vinur. Væri Guð nálægur eða fjarlægur? Ætti fólk samskipti við Guð, talaði við Guð eða hefði lítil samskipti? Niðurstöður voru áhugaverðar.

Kraftguð

Í ljós kom að helmingi fleiri töldu að Guði væri betur lýst sem krafti en persónu. 67% töldu að Guð væri kraftur en helmingi færri eða 33% töldu að Guð væri best túlkaður sem persóna. Þessi kraft- eða máttar-trú er áhugaverð og merkileg. Líklega er hún vitnisburður um að upplifun og trúartúlkun fólks á Íslandi, guðslifun nútíma Íslendinga sé djúptæk tilfinning gagnvart því sem knýr allt áfram í veröldinni, kerfum heimsins, náttúrunni, lífríkinu og himingeimnum. Tveir-þriðju velja að túlka hið guðlega sem meira en eða handan við hið persónulega. Krafttrúartúlkunin er afstaða tveggja af hverjum þremur. En persónuáherslan er afstaða eins af þremur. Hvað merkir kraftguðfræðin í tengslum við aðra þætti og hvernig getum við túlkað þá mynd af Guði? Það er merkilegt íhugunarefni en kemur mér ekki á óvart.

Persónuleg tileinkun og nálægð

Þó túlkun guðsmyndarinnar sé ekki sterk-persónuleg er hún samt lifuð mjög persónulega og elskulega, þ.e. að Guð er ekki túlkaður í krafti yfirvalds heldur fremur sem vinur. Aðeins 18% velja að túlka Guð sem yfirvald en 82% svarenda tjá Guð sem vin sem þau vilja frekar tjá en sem yfirvald. Í samræmi við það tjá 84% svarenda að Guð sé nálægur en aðeins 16% að Guð sé fjarlægur. Vissulega eru þau sem svara í kirkju og sækja væntanlega kirkju reglulega. Það skýrir að þau telja sig í sambandi og samskiptum við Guð. Nokkur skrifuðu að auki að stundum væri Guð fjarlægur en stundum nálægur sem mér þótti benda til heiðarleika og opinskárrar afstöðu því flest förum við einhvern tíma niður í dali eða upp í háfjöll í tilfinningalífi okkar og reynslu. 92% tala við Guð með einhverjum hætti en aðeins 8% töldu sig eiga lítil eða engin samskipti við Guð. Mér þótti áhugavert að sjá að Guð sem faðir og andi njóta meiri stuðnings en að Guð sé einkum túlkaður sem sonur. 42% svara að Guð sé best tjáður sem faðir. Og 39% sem andi en aðeins 18% sem sonur. Þessi könnun var nálgunarkönnun og gerð til að fá viðhorf en ekki þverskurð á almennri afstöðu fólks í Reykjavík eða Íslendinga. Þau sem svöruðu voru ekki neydd til að svara en fengu tækifæri til að skila inn afstöðu sinni ef þau hefðu löngun eða vilja til. Þetta er því áhugafólk um trú eða túlka trúartjáningu.

Ég túlka þessa könnun ákveðins hóps sem tengist kirkjustarfi og sækir fyrirlestur um guðsmyndir að mikill meirihluti hópsins sé guðstrúar eða yfir 90%. Aðeins nokkur prósent tjá sig með þeim hætti að þau nefni guðsfjarlægð, óvissu gagnvart hinu guðlega, túlka breiðar eða eru í leit að guðstengslum. En þau sem trúa á Guð finna sig frjáls að því að tala guðstengsl sín með persónulegu móti og hafa engar eða litalar áhyggjur af því að svara með einu móti fremur en öðru – sem sé réttrúnaður vefst ekki fyrir meirihluta þeirra. Nokkur svöruðu eftir bókinni og skv. kverinu en flest svöruðu samkvæmt eigin tilfinningu og afstöðu. Svo voru alls konar atriði skrifuð sem svarendum þótti ástæða til að miðla um hvað túlkaði Guð best. Líkingar voru ritaðar á svarblöðin – að Guð væri ljós, pabbi ( sem er þá væntanlega persónulegra en hið formlega orð faðir ), friðarhöfðingi, friður, frændi, afi, fyrirmynd, þjóðhöfðingi og móðir ( og þá væntanlega í stað föðurmyndar ). Guð er líka túlkaður sem kærleikur, vinur, almætti, elskan, náð, verndari og frumkraftur.         

Mér þótti þessi kraft-afstaða svarenda merkileg. Sá stóri hópur sem trúir á mátt – kraft – styrk er opinn að mínu viti gagnvart undri lífsins, víddum veraldar og að burðarvirki heimsins sé gott og frá mætti sem fólk má treysta. Ég efast um að þau sem svöruðu með þessu móti hafi talið þessa guðsafstöðu koma frá Star Wars-myndunum – the Force be with you – heldur séu þær myndir og svör Hallgrímskirkjufólks tákn um að trúin á góðan mátt tilverunnar sé útbreidd afstaða margra. Svarendur tjá líka jákvæð tengsl og persónulega tileinkun eða samband við þennan guðsmátt. Þar er einfaldlega ræktuð afstaða til hins djúpa og mikilvæga.

Upprifjun

Guðsmyndir breytast í rás tímans. Í ljós kom við yfirferð okkar á Passíusálmum að Hallgrímur lýsti hinum líðandi konungi. Hann byggði á þeirri djúpusæknu guðfræðihefð Ágústínusar kirkjuföður sem var mikilvæg í miðaldaguðfræðinni og Marteinn Lúther jós af í útfærslu sinni og nýsköpun guðfræðinnar. Sú hefð var ekki heimspekileg útfærsla heldur fremur íhugun um baráttu góðs og ills og mikilvægi þess að menn létu ekki hið illa sigra – hvorki í einkalífi né samfélagslífi – heldur tengdust hinu góða og guðlega þar með. Sá Guð sem Passíusálmar túlka er ekki Guð hátignar, fjarri lífsbaráttu manna í þessum heimi heldur Guð sem lætur sér annt um veröldina, sköpun sína – Guð sem kemur sjálfur – gefur eftir hátign sína og konungvald og kjör hans í heimi verða kjör manna. Hann er hinn kaghýddi Suðurnesjamaður eins og Halldór Laxnes komst að orði. Mennskan og himneskan runnu saman. Fólk sautjándu, átjándu og nítjándu aldar sá í guðssyninum þjáningabróður en ekki prins á himni í sætum fötum og með gullskeið í munni. Guð var ekki einvaldsyfirvald heldur deildi kjörum með alvöru fólki sem missti börnin sín í dauðann, hljóp undan hraunflaumi og missti búféð í felli. Guð var nærri.

Jón Vídalín tók við af Hallgrími Péturssyni en lifði á öðrum tíma. Vídalín var ekki skáldið og prestur í sveit heldur kirkjuleiðtoginn. Guðsmynd hans er skýr í Vídalínsposstillu. Hann lagði ekki áherslu á hinn líðandi kóng heldur er Guð uppteiknaður sem stórkonungur í stríði. Þannig voru skil tímanna. Konungshyggjan styrktist á tíma einveldis. Þróunin var líka frá ljóðmælandanum Hallgrími til kirkjuhöfðingjans Jóns Vídalíns. Hallgrímur lýsti hinum líðandi kóngi en Vídalín hinum sigrandi kóngi. Guði í þeirra ritum var vissulega ekki lýst sem veraldlegum kóngi en myndirnar af kónginum voru þó hentugar til að vegsama hinn eiginlega konung – Guð. Konungshyggja Vídalíns var ekki veraldleg heldur trúarleg.

Skilin og líf persónunnar

„Heróp tímans er líf persónunnar“ skrifaði Hannes Hafstein nærri aldamótunum 1900. Prestar á Íslandi þess tíma beindu æ meir sjónum að trúarþeli og persónudýptum einstaklinga en verið hafði áður. Nýguðfræðingarnir svonefndu höfnuðu ýmsum guðfræðilegum forsendum eftir siðbreytingartímann og þmt konungsímyndum. Hvað gæti komið í staðinn? Flestir þeirra voru með hugann við sálarlíf persónunnar. Á Íslandi hurfu nýguðfræðingarnir frá hinni dramatísku túlkun á baráttu góðs og ills í heiminum. Á fyrri tíð hafði trú verið skilgreind heildrænt og í tengslum við hvaðeina í heimi manna og náttúru. Ekkert var talið utan baugs trúarinnar og elsku hennar. Nýguðfræðingarnir íslensku höfnuðu ýmsu í guðfræði Hallgríms og Jóns Vídalíns. Þeir voru margir hallir undir tvíhyggju sem var reyndar teygð og túlkuð með ákveðnu móti. Þessir guðfræðingar – og prestar þar með taldir – álitu að andstæður væru ekki milli góðs og ills heldur fremur milli himins og heims, efnis og anda og líkama og sálar. Tvíhyggjan var ekki siðferðileg heldur nánast verufræðileg. Þeir voru sér meðvitaðir um kenningar vísindamanna og vaxandi efnishyggju sem og fall eldri þekkingarfræði. Þeir leituðu að nýju upphafi trúar og kirkju fyrir samtíma sinn. Þeir reyndu að skilgreina trúna svo að henni stæði ekki ógn af breytingum vísinda, samfélaga og hugmynda. Trúin var því þröngt skilgreind sem samband sálarinnar við Guð, handan skarkala daganna og brauðstritsins. Vissulega var trúnni ætlað að gegnsýra líf einstaklingsins og samfélags. En það væri góð aukaafurð trúar, afleiðing hennar en ekki frumþáttur.

Vinirnir Jón og Haraldur

Þessir guðfræðingar tóku mjög alvarlega vaxandi efahyggju menntamanna og vísindalegar aðferðir samtímans. Þeim vildu varna að vaxandi efnishyggja gerði út af við kjarna persónunnar, trú og hin dýpri gildi. Þeir töldu sér skylt að halda vörð um trú og kirkju en ekki skilgreiningar, kirkjuskipulag eða siði sem ekki væru í samræmi við þarfir tímans annars vegar og kjarna kristninnar hins vegar. Hliðstæður við aðstæður okkar öld síðar eru sláandi. Þeir lögðu aðaláherslu á gildi einstaklingsins, trúarþel hans og sálardýptir sem varð á kostnað annarra þátta. Kunnustu boðberar hreyfingarinnar voru prestaskólakennararnir Jón Helgason og Haraldur Níelsson. Nýguðfræðilegar áherslur urðu áberandi í kirkjulífi Íslendinga fram yfir miðja tuttugustu öld. En hreyfing nýguðfræðinga klofnaði í tvennt. Jón Helgason aðhylltist nýguðfræði Skandinava og Þjóðverja. Haraldur Níelsson gerðist hins vegar handgenginn sálarrannsóknum – í fyrstu undir áhrifum frá Bretlandi – sem hann áleit að gæti fært kristni ómetanlega hjálp í baráttunni gegn efnishyggjunni. Þessir tveir voru frumkvöðlar og brautryðjendur. Aðalstarfsár Jóns Helgasonar og Haraldar Níelssonar á sviði guðfræði voru á árunum frá aldamótum og fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. En þeir höfðu áhrif langt fram eftir öldinni. Jón Helgason varð biskup 1917 og dró sig þá að mestu í hlé úr eldlínu trúmálaumræðu til að splundra ekki þjóðkirkjunni. Haraldur Níelsson lést fyrir aldur fram árið 1928. Margir prestar töldu sig bæði nýguðfræðinga og sálarrannsóknarmenn. Hugmyndir Jóns og Haraldar urðu ólíkari því eldri sem þeir urðu en engu að síður má greina sameiginlega kjarnaþætti. Þeir voru báðir tvíhyggjumenn. Þeir skerptu andstæður eilífðar og heims. Þeir álitu báðir að Guð hefði blásið mönnum í brjóst guðlegum sáðkornum sem þeim væri ætlað að rækta með sér til ákveðins og fullkomins þroska. Þeir guðskjarnar sem Haraldur nefndi voru líf, kraftur, trú, ást, auðmýkt, fegurð og friður. Jón Helgason hirti ekki um að einkenna guðfræði sína eins klárlega eins og Haraldur. Í ritum hans má þó greina nokkra kjarna sem eru: trú, líf, hjarta, ást og kraftur. Að auki ræddi hann oft um gleði, frelsi og staðfestu.

Þeir lögðu áherslu á ákveðna gildaröðun. Efnisveruleika áttu menn að setja skör neðar en hin andlegu gildi. Hlutverk og köllun mannsins í heiminum töldu þeir fyrst og fremst fólgna í að leyfa hinum guðlegu sáðkornum að þroskast. Til að svo gæti orðið yrði að gæta þess að efnisþáttum væri ekki gert hærra undir höfði en þeim bæri. Annað leiddi til trúarlegrar bælingar og ruglings. Bæði Jón Helgason og Haraldur Níelsson töldu að hinir guðlegu kjarnar væru andlegir og óefnislegir og væru því óbreytanlegir og stöðugir. Hið efnislega í heimininum ætti að meðhöndla með hliðsjón af hinum guðlegu kjörnum. Af ritum Jóns Helgasonar og Haraldar Níelssonar má ráða að menn ættu að lúta tveimur lögmálum við að ná valdi á eða sigrast á efnisveruleikanum og taka þroska í trúarefnum. Þessi lögmál væru vöxtur og gildastigi. Við fæðingu væru menn sem fræið sem þyrfti að spíra og vaxa. Vöxtur yrði aðeins ef menn fetuðu sig upp eftir þrepum gildanna og til hæða andlegra gæða eilífðar.

Uppgjör – Guð meira en …

Í síðustu viku hoppuðum við yfir til Sigurbjarnar Einarssonar sem mætti nýguðfræðinni í tveimur myndum, annars vegar skandinavísk-þýskri nýguðfræði og svo sálarrannsóknakristni. Stríð hafa haft mikil áhrif á hugmyndir og þróun menningar í Evrópu síðustu aldir. Og báðar heimstyrjaldir tuttugustu aldar höfðu mikil áhrif á þróun guðfræði og trúarhugmyndir. Fyrri heimstyrkjöldin opinberaði einfeldnislega bjartsýni um framþróun mannsandans og sífelldar bætur menningarinnar. Hið siðfágaða og friðsamlega þjóðfélag upplýstra anda var tálsýn sem var opinberuð. Í tíðindaleysi vesturvígstöðvanna opnuðust mörg svarthol þjáningar og illsku. Margir hinna bjartsýnu guðfræðinga sem lifðu hrylling fyrri heimstyrjaldar lögðu af barnaskap um gæsku manna og stöðuga framþróun. Paul Tillich, Karl Barth og fleiri breyttu guðfræði millistríðsáranna. Í Hallgrímskirkju prédikaði t.d. sr. Sigurjón Þ. Árnason alla sunnudaga hugmyndir Karls Barth, endalok bjartsýnisguðfræðinnar og elsku Guðs. Áhrif guðfræði Barths og millistríðsáraguðfræðinnar lak því niður allar götur frá þessu holti. Sigurbjörn Einarsson varð svo holdgervingur breytinganna. Meginreglurnar um kjarna, vöxt og valdastiga féllu algerlega með heimstyrjöldum. Vandi kirkju og kristni var ekki lengur að reyna að tryggja að trúnni væri ekki ógnað af heimspeki, þekkingarfræði, vísindarannsóknum og tækniframförum. Guð var ekki lengur í mynd siðprúðs þjóðaleiðtoga. Trúin varð annað og meira en hreinsuð mynd hins „siðfágaða“ borgarsamfélags Evrópu sem var ábyrgt fyrir hryllilegum stríðum. Guð væri annað, dýpra og meira en mannakerfi svo flekkuð sem þau verða af hagsmunum og valdabrölti. Trúin beindist að nýju gagnvart djúpi og undri lífsins, burðarvirki vetrarbrautakerfa og frumfuna lífsins en væri líka í þágu fólks og kerfa í heiminum.

Með einföldun má segja að þrjú kirkjupólitísk kerfi hafi ríkt innan þjóðkirkjunnar á fyrri hluta tuttugustu aldar. Dramatískur réttrúnaður af Hallgríms- og Vídalínstaginu, spíritismi af Haraldar Níelssonar-taginu og einstaklingstrúarguðfræði Jóns Helgasonar og stórs hluta presta. Sigurbjörn bjó til nýja samsteypu úr þessu öllu og í ljós kom að sálarrannsóknir stóðust ekki mælingakröfur vísindanna og töpuðu vægi í akademíunni og samfélagi Íslendinga. Sálarrannsóknir urðu ekki að því tæki eða farvegi trúarinnar sem forvígismenn töldu í fyrstu. Fræðimaðurinn, rithöfundurinn, ljóðskáldið og ræðusnillingurinn Sigurbjörn Einarsson náði að samþætta, halda kirkjunni saman og dýpka skilning fólks á gildi guðsmyndar Passíusálma, hátign Vídalínspostillu, mikilvægi persónuinnlifunar nýguðfræði gegn áraun fræða, áfalla, samfélagsdeiglu tuttugustu aldar en líka heilagleika lífsins og hátign Guðs. Hin hreina innlifun í undur hins guðlega kemur vel fram í sálmum Sigurbjarnar.

Guðsreynsla

Og hvað svo? Hver er staðan nú? Óró hjartans breytist ekkert. Í auðlegð og innantómu lífi margra í neyslusamfélagi hins ríka hluta heims leitar fólk eftir reynslu handan hluta og yfirboðsmennsku. Fólk leitar að djúpri reynslu. Við búum almennt við offlæði upplýsinga og fánýtan fróðleik en flest eru fátæk hvað varðar djúpa og merkingarbæra og lífsmótandi reynslu. Reynsla mín í prestsstarfi margra áratuga er að fólk þrái djúpa lífsfyllingu og gildi fremur en upplýsingar, hluti eða neyslu. Þar er reyndar stórt og mikið verkefni fyrir kristni að bregðast við fólki sem leitar reynslu fremur en kerfis, fræðslu eða tækni. Almennur stofnanaflótti hefur brostið á víða á vesturlöndum. Ein útgáfa þess er að fólk segir sig úr stórum kirkjudeildum og leitar út fyrir hefðbundna ramma sér til andlegrar næringar. Almennt talað hefur hið trúarlega orðið innhverfara en áður var. Einstaklingarnir leggja áherslu á eigin þarfir, eigin skilning og kjósa kjörbúðarfyrirkomulag í trúarefnum líka – að búa til sína eigin trú skv. eigin þörfum. Áherslan er á innrými einstaklinga fremur en útrými hefða sem einstaklingar búa í. Á þessu eru ýmsar hliðar, t.d. að trúin verður líklega æ meir skilin sem afurð þarfa og óska einstaklingsins. Kirkjusamþykktir hafa nánast ekkert gildi og yfirlýsingar páfa ekki heldur – eru bara kliður í samfélagshávaðanum. Prédikun presta hefur takmörkuð áhrif nema eitthvað sé sagt sem snertir fólk vitsmunalega eða tilfinningalega. Trúnni er af mörgum mjög ákveðið ýtt úr almannarýminu. Tími sjálfdæmishyggjunnar er löngu kominn. En sjálfhverfing og persónuleg einstaklingshyggja hefur líka sín mörk. Veigamikill þáttur átrúnaðar og kristni líka er að veita einstaklingum reynslu, skilning, skynjunog lífsstefnu. Þetta er þeim mun mikilvægara í þeirri þróun hins tæknivædda hluta heimsins að æ fleiri lifa í takmörkuðum bergmálshelli eða hellum skoðanasystra og skoðanabræðra. Margir pólitískir lukkuriddarar hafa alið á tortryggni í garð þekkingar og fræða. Pútín og einræðismaskína hans telur sér fært að halda stórþjóð í ofurgreipum einfeldningslegrar sögutúlkunar og þröngrar hugmyndafræði til að tryggja sér vald og skrumskæla þekkingu og staðreyndir. Stórgildum mennskunar og manngildi þar meðtalið er fórnað á altari smásálanna. Gegn öllu slíku æpir djúpþrá manna eftir hinu djúpa, góða, fagra og varanlegra. Guð er frumljóð manna.

Hjálp Guð – kyrie eleison

Þegar fallbyssurnar drynja og hrygluhljóðin heyrast verður fólk meðvitaðra um engla og Guð. Í upphafi hins andstyggilega árásarstríðs Rússa í Úkraínu opnuðust allar sálargáttir þeirra sem ráðist var á. Hin trúlausu æptu upp í himininn og báðu um hjálp. Guð – hjálpaðu mér – hjálpaðu okkur. Þá var líka rifjað upp að í skotgröfunum væri enginn trúlaus – ekki heldur hin guðlausu. Að trúa og kalla á Guð í hræðilegum aðstæðum er ekki brotthvarf frá viti, greind, skynsemi eða heilbrigði. Þegar allt hrynur, allt fellur saman í svarthol hryllingsins hamast guðsþörfin og hendist eiginlega fram. Sálin æpir á skapara sinn og vin. Í neyslusamfélögum vestursins hefur tilgangsleysi aukist og sálaróró magnast. Lofstslagsvá, mengun náttúrunnar og skelfilegur ránskapur manna víða um heim hafa lyft upp áleitnum spurningum um framtíð. Erum við menn að klára auðlindir, möguleika og loka tíma okkar sem tegundar? Í mengunarfári heimsins skelfast æ fleiri einhvers konar heimsendi og þá magnast þörfin fyrir dýpri rök, dýpri festu og eitthvað varanlegra en myrðandi þjóðarleiðtoga og einu gildir hvort þeir eru í Rússlandi eða einhverju öðru landi. Enginn hörgull er á sjálfhverfu og illa innrættu fólki sem sækir í völd en mikill hörgull er á getu til að vinna með mál, mengun, pólitík og tækni. Í krísununum vakna eiginlega þau óp sem hljóma í öllum messum kirkjunnar: Kyrie eleison – Guð miskunna þú okkur, Guð hjálpa okkur.

Elskhuginn og guðsmynd elskunnar

Það merkilega er að íslensk kristni hefur alla tíð búið við ógn og eyðandi krafta. Trúarhefð okkar í alls konar túlkunum er fjársjóður til að ganga í og nýta. Við þurfum ekki lengur að velja á milli Hallgríms og Vídalíns, eða trúarhugmynda eftirsiðbótartímans og nýgufræði. Eða milli sálarrannsókna og Sigurbjarnar eða tuttugustu aldar guðfræði og samtíma okkar. Svarendur Hallgrímskirkju, kirkjufólkið í þessari kirkju, tjáir ágætlega með svörum sínum að það hefur trú á krafti Guðs og velur sér guðsmyndirnar sjálft. Guðsmyndir eru tjáning einstaklinga og hópa og lifa aðeins ef þær túlka upplifun, tjá reynslu og megna að tengja við hrollkaldan veruleika stríða, áfalla, sorgar og dauða en líka bros barna, unaðar, gleði, nautnar, hláturs og fagnaðar. Trú er á innleið því við menn höfum klúðrað svo herfilega. Sigurbjörn taldi að trúin á mannin hefði mistekist. Mín útgáfa er að Guð sé elskhugi heimsins. Það er mín guðsmynd af hinum elskandi sem hættir ekki að elska þrátt fyrir svik manna. Sú mynd sem ég hef dregið upp er kraftguðfræði í samræmi við hugmyndir ykkar margra. Guð sem máttur er skapar en yfirgefur ekki heiminn eins og myndin af Guði sem klukkusmið á sautjándu og átjándu öld. Það var myndin af Guði sem hefði skapað en síðan dregið sig í hlé. Sá Guð sem ég þekki er mátturinn sem hríslast í lífríkinu, í fegurð menningarinnar og þmt listar, í tilfinningum, í ástaratlotum upp í rúmi, hin sívirka dásamlega nánd sem ekki tekur frelsið frá fólki eða lífi heldur varpar stöðugt upp möguleikum og valkostum til að velja hið góða. Í þeim efnum hef ég lært margt af A.N. Whitehead og ferliguðfræðinni. Á sunnudaginn var ræddi ég um hið illa og guðstrú og þið getið flett upp þeirri guðsmynd sem ég túlkaði í því samhengi og að Guð er ekki valdur að böli heimsins og ber enga ábyrgð á Pútín eða einelti í skólanum heldur er nálægur öllum til að skapa forsendur gæða, efla frið og réttlæti, auka unað og magna gæði. Eskhugalíking Guðs á sér síðan systurlíkingar í líkingum af vini, móður, syni og dóttur. Líkingar af anda og krafti ríma við þær birtingarmyndir elskunnar. Myndlíkingar til að túlka Guð, menn og veröldina fæðast en deyja líka í rás tímans. Mikilvægt er að í túlkun trúar sé trúin rýnd og aðferðir sem nýtast á hverjum tíma séu notaðar af alúð og grandskoðun. Tvíhyggja nýguðfræðinnnar var t.d. vond nálgun sem ekki gekk upp. Nútímaguðfræði og prédikun kallar á heildstæðari nálgun. Krafthyggja Hallgrímskirkjufólks er í slíkum anda hægt er að fara enn lengra og túlka veröldina sem líkama Guðs. Á því máli eru margar hliðar og í guðfræðisögunni hefur verið gerður greinarmunur á panteisma – að allt sé guðlegt – og panenteisma – að Guð sé í öllu en sé ekki allt. Í þeirri nálgun felst að allt sé í Guði. Guðsmynd elskunnar hef ég túlkað í prédikunum og hugvekjum, eins og mörg ykkar þekkið. Ég vona einnig að ég hafi möguleika á að teikna þá mynd með enn skýrara móti í verkum næstu ára ef elskhuginn yrkir mitt líf áfram, hvíslar skemmtilegheitum í sálardjúpin og gefur mátt.

Talað um Guð. Hallgrímskirkja. Þriðjudagsfundur 28. febrúar 2023.

Meðfylgjandi mynd tók ég í Árnessýslu í desember 2021, stóð austan í Ingólfsfjalli, nærri útfalli Sogs úr Álftavatni og beindi linsu í upp og mót norð-austri. Gróðurhúsalýsingin í Laugarási og Reykholti – jafnvel Flúðum sést neðst á myndinni. Ég bjó í Árnessýslu í mörg ár en sá aldrei svona stórkostlegan dansleik á þeim árum.