Greinasafn fyrir merki: Hallgrímskirkja

Forseti Eistlands í Hallgrímskirkju

Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands er á Íslandi á þingi stjórnmálakvenna. Hún hefur áður komið til Íslands og þekkir Reykjavík. Svo sagði hún Íslendingunum í gærkvöldi að hana langaði að heimsækja Hallgrímskirkju. Ragnar Þorsteinsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, hafði samband og þar sem við þjónum fólki sagði ég að sjálfsagt væri að taka á móti henni. Nokkrum mínútum eftir  settan tíma kom forsetinn gangandi, í fylgd starfsfólks og öryggisvarða. Hún vildi fremur ganga frá Hörpunni en aka.

Kersti Kaljulaid brosti þegar hún kom að kirkjunni. „Ég hef verið hér áður,“ sagði hún og við gengum inn. Það var margmenni í kirkjunni. „Það er dásamlegt að upplifa ljósið“ bætti hún við og gekk rösklega fram að kórtröppum. Fylgdarfólkið stoppaði við fremstu bekki. Það varð enginn fyrirlestur yfir hópi heldur töluðum við, fjarri hinum, um söng og frelsi, kirkju og mannlíf. Ég hreifst af því á sínum tíma að Eistar sungu sig til frelsis og gaf forsetanum frelsissöngva íslensku þjóðarinnar, Passíusálmana. „Takk, takk“ og hún skoðaði bókina með áhuga. Svo fórum við yfir sameiginlega reynslu af Rússum. „Það herti okkur að þurfa að glíma við þá.“ Þegar við vorum búin að ræða um ljós og birtu arkitektúrs, dást að orgelhljómi kirkjunnar vildi hún fara upp í turninn. “Hálfa leið til himins og til baka?“spurði ég. „Já, og endilega til baka líka.“ Svo hleypti amerískt par okkur fremst í röðina og fylgdarfólk og tveir íslenskir öryggisverðir fórum í lyftunni upp. Eistarnir voru kátir, voru þakklátir fyrir að móttakan var afslöppuð, hlógu hjartanlega í lyftunni enda tekur svolítinn tíma að fara hálfa leið til himins. Forsetinn leit yfir borgina og dáðist að útsýninu. „En gaman að sjá borgina frá þessum sjónarhól.“ Svo var farið niður að nýju. Ekki hægt að láta forseta Íslands bíða.“ Kvaddi með virktum. „Þetta var gaman, en allt of stutt heimsókn,“ sagði hún. „En þá kemur þú aftur“ svarði ég. „Já, svo sannarlega. Þið Íslendingar eigið svo mikið í okkur, það er svo gott á milli þjóða okkar. Og takk fyrir að taka svona vel á móti okkur,“ sagði Kersti Kaljulaid. Opinberar heimsóknir eru oftast ánægjulegar en þessi var sérlega skemmtileg. Stíft form er stundum til hjálpar en  Eistar og Íslendingar þora oftast að fara út fyrir rammann. Takk fyrir mig líka. 

Afmæli og fyrsta guðsþjónustan

Á þessum degi, 14. október árið 1962, var haldin fyrsta guðsþjónustan í kirkjuskipi Hallgrímskirkju. Til þess tíma var messað í kór kirkjunnar. Á árinu 1962 hafði verið lokið að steypa upp veggi kirkjuskipsins til hálfs og undirstöður súlna í kirkjuskipinu. Þá hafði undirgólf kirkunnar verið steypt. Ákveðið var að marka þessi tímamót og lofsyngja Guði í framtíðarhelgirými Hallgrímskirkju þó ekkert væri þakið og svæðið væri ófrágengið byggingarsvæði.

Á messudeginum rigndi ákaflega og söfnuðurinn, um eitt hundrað manns, leitaði skjóls undir vinnupöllum sem stóðu við útveggina. Jakob Jónsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, messaði. Hann stóð í miðju kirkjuskipinu, þar sem kórtröppurnar eru nú, og naut blessunardagga himins.

Þar sem búið var að steypa upp megnið af veggjum kirkjuskipsins hófst undirbúningur að byggingu turns kirkjunnar. Að turnbyggingunni var unnið á næstu árum. Lokið var að steypa í topp í árslok 1968.

Það var meðvituð ákvörðun byggingar- og sóknarnefndar í hvaða röð hlutar stórkirkjunnar voru byggðir. Ef kirkjuskipið hefði verið fullklárað á sjöunda áratugnum hefði turnginn líklega aldrei orðið til og kirkjan hefði ekki orðið sú perla sem tíminn hefur slípað. Forsjálnin bar árangur.

Suðursalurinn í turnvængnum var vígður til helgihalds á 300 ára ártíð Hallgríms Péturssonar. Vígsludagurinn var 27. október árið 1974. Í tengslum við vígslu salarins og fyrir vígsluathöfnina var hornsteinn lagður að kirkjunni. Á skjalinu í hornsteininum segir m.a. „Drottni til dýrðar er kirkja þessi reist í minningu Hallgríms Péturssonar.“

Nú höldum við bráðum hátíð vegna 30 ára vígsluafmælis kirkjunnar. Kirkjan var vígð 26. Október 1986. Í ár eru því 30 ár liðin frá vígslu hennar. Hátíðamessan verður 30. október næskomandi. Við bjóðum öllum þeim sem unna starfi kirkjunnar að koma til messu og fagna með okkur.

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.“ Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:“ Þú hefur ekki skilið verkefnið!“ En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!“

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

Prestur á breytingaskeiði

IMG_5641Tárin í augum vina minna gerðu útslagið. Margt hafði farið í gegnum hugann síðustudagana, en votir hvarmar fólks í altarisgöngu snertu kvikuna. Ég var á leiðinni, frá einum söfnuði til annars, frá vinum mínum og til annarra vina. Þetta voru tilfinningadagar og ýmislegt kom mér á óvart, bæði innan í mér og í samskiptum og viðbrögðum fólks.

Eftir tíu ára starf í Neskirkju og þjónustu við vesturbæinga sótti ég um prestsstarf við Hallgrímskirkju. Einföldu rökin voru að skynsamlegra væri að fara í annað prestakall áður en allir væru orðnir leiðir og farnir að bíða að maður hætti! En fleira og veigameira hafði afgerandi áhrif, sumt kirkjulegt, annað varðaði persónulega reynslu og tengsl við fólk. Svo var ég í stöðugu samtali við himinvin minn um hvort ég ætti að sækja eða ekki.

Þegar niðurstaða var fengin hóf ég umsóknarskrifin. Mér þótti áhugavert og að skrifa umsókn í samræmi við ný og breytt viðmið varðandi slíkar umsóknir. Ragnhildur Bragadóttir á Biskupsstofu sagðist aldrei hafa séð svo fallega umsókn! Skýringin var að Katla, sem er bæði fagurkeri og dóttir mín, braut um textann svo ágætlega og smellti inn myndum á góða staði að hinn smekkvísi bókasafnsfræðingur biskups gladdist. Já, pappírinn var líka fallegur og allar myndirnar, sem ég hafði tekið í Hallgrímskirkju, voru í lit.

Svo tók við umsóknarferli. Ég var í önnum, útfarir voru margar og tóku hug minn. Svo varð ég að sinna kirkjuþingi í klemmu á milli jarðarfaranna. Eitt kvöldið á kirkjuþingstímanum var ég kallaður til valnefndarfundar í Hallgrímskirkju. Formaður kjörnefndar, Halldóra Þorvarðardóttir, stýrði fundi örugglega og glæsilega. Svo beið ég – og hinir umsækjendur – niðurstöðu. Ég fagnaði þegar mér var tilkynnt að ég hefði verið valinn til að gegna sóknarprestsstöðu á holtinu. Mér þótti að vísu leitt að aðrir frábærir umsækjendur voru þar með ekki valdir en gladdist jafnframt yfir að Irma Sjöfn Óskarsdóttir var valin sem hinn prestur kirkjunnar.

Annir héldu áfram, að mörgu er að hyggja við skil í Neskirkju og síðan byrjaði undirbúningur fyrir störfin í Hallgrímskirkju. Ákveðið var að kveðjumessan yrði í Neskirkju síðasta sunnudag kirkjurársins, 23. nóvember. Ég yrði síðan settur í embætti (tekinn í notkun eins og starfsfólkið orðaði það!) í messu fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember. Við Steingrímur Þórhallson, organisti, ákváðum sálma fyrir kveðjumessuna. Ég skoðaði textana, sóknarnefndarfólkið vildi þjóna sem messuhópur á þessum skiladegi. Ég skutlaði inn í tölvuna nokkrum þönkum að gefnu tilefni. En mér leið þó hálf-einkennilega. Eiginlega alla vikuna. Hvað var að mér? Var það bara flensuræfill sem herjaði? Eða var eitthvað annað? Presturinn, sem hefur gengið sorgargöngur með mörgum, fór að hugsa og spurði hið innra: „Heyrðu, karlinn, ertu í sorgarferli? Svo kafaði ég í ávirka texta síðasta sunnudags kirkjuársins. Jesús spyr þar stórra spurninga um hvort við höfum heimsótt sjúka, fangelsaða, gefið næringarsnauðum mat – iðkað kærleika. Og þau, sem ekki hafa í sér þessa Jesúafstöðu samúðarinnar, eru mörkuð dauðanum. Þetta eru dómstextar, merking þeirra er krísa – enda merkir gríska orðið krisis dóm og dómsniðurstöðu. Boðskapur kristninnar varðar ekki yfirborðsmál heldur mennskuna í öllum víddum. Og þennan gamlársdag kirkjuársins hljómuðu dómsorð um krísu okkar allra. Við dæmum okkur sjálf.

Því vöknuðu íhuganir um eigið líf. Hafði ég staðið mig í starfi síðustu ár? Hafði ég sýnt árangur? Hafði ég ekki brugðist fólkinu í sókninni með margvíslegu móti? Ég gæti fært frávísunarrök og vikið mér undan ábyrgð og vísað á aðra. Nei, ég hafði vissulega ekki brugðist í öllu, en þó – ég sá bresti mína. Þegar ég leit til baka var mér ljóst að ég hafði ekki heimsótt alla sem ég vildi, ekki slökkt þorsta fólks eftir næringu, alla vega ekki þeirri andlegu.

Og ókyrran óx alla vikuna er ég undirbjó kveðjumessuna. Kvefpestin ágerðist og á sunnudagsmorgni var ég orðinn raddlaus. Aldrei hafði þetta gerst síðustu tíu ár. Hvað væri til ráða? Dómur himins – tjáning þess að ég hefði brugðist líka í orðum en ekki bara gerðum? Birgir Ás Guðmundsson kenndi okkur guðfræðinemum nokkur radd-krísu-trix og nú komu þau að góðum notum. Röddin skírðist nokkuð – en var þó þvæld eins og eftir sigurleik Íslendinga í fótbolta – en þó nothæf.

Ég gekk svo í morgunkælunni til kirkju. Óvenju margt fólk var að undirbúningsstörfum, sóknarnefndarfólk við veisluundirbúning, stóri kórinn mættur í upphitun, kórall úr jólaóratóríu-Bach skyldi sunginn eftir prédikun. Alls konar hugsanir læddust að. Síðasta messan? Aldrei aftur í Neskirkju? Kannski fengi ég að prédika síðar eða hjálpa til við útdeilingu? Svo dreif fólk að, eldra og yngra, og mörg þekkti ég vel. Þegar ég horfði í augu þeirra var ég snortinn á dýptina. Ég hafði jarðsungið foreldra eða maka sumra, skírt fyrir önnur, fermt ungmenni í fjölskyldum margra og gift sum. Samfélag, kirkja, söfnuður. Og svo hófst messan, kveikt var á altariskertunum, við sungum lofsöng og báðum bænirnar. Miskunnarbænin fyllti helgidóminn á jörðu og himni. Lestrarnir hljómuðu og Sigurþór Heimisson las stórkostlega. Rúnar Reynisson afskrýddi prestinn og svo var lagt var út af erfiðum og dæmandi textum sem segja þó satt um okkur öll. Kirkja er ekki fallegt hús fyrir klisjur. Kirkja er þar sem góð afstaða til Jesú er ræktuð og afstaða Jesú til manna er iðkuð. Að venju lét söfnuðurinn ræðinginn yfir sig ganga, hlustaði vel, nikkaði kolli eða setti í brýrnar vegna krísunnar.

Já, Bach dillaði, engladans jólaóratóríunnar hleypti dans í kórinn sem lyftist og hneig í hljómfallinu. Spennandi tónleikar framundan. En verð ég með þar? Verð ég ekki hættur, hvenær hættir maður að vera prestur í söfnuði? Verð ég komin í tónverk og alls konar verk í Hallgrímskirkju? Og svo Sanctus, heilagur – þessi dásamlegi hjartsláttur aldanna, viðlag kynslóðanna, játning sálna himinsins, þvert á dómsorðin, orð vonanna sem Jesús Kristur kveikti. Orð um lífið gegn dauða. Og innsetningarorðin rímuðu fullkomlega – um bikar og brauð.

Og svo stóðum við fjögur við útdeilingu. En stemmingin var sérstök. Svo sá ég tár í auga. Síðan voru fleiri tár sem féllu og ég nánast beygði af. Í lokin sungum við öll þann yndislega tímaskilasálm nr. 712 – Dag í senn, eitt andartak í einu. Þakklætið hríslaðist um mig, en tárin leituðu djúpt í vitundina. Mörg faðmlög við dyr, allir tjáðu ósk um hamingju, sum með gleði en mörg með votan hvarm og vanlíðan. Ljúfsár kveðjustund. Svo vorum við kona mín leyst út með höfðinglegum gjöfum sem verma og gleðja um ókomin ár. Droplaug Guðnadóttir og Sigurvin Jónsson héldu snjallar ræður. Takk fyrir mig.

IMG_5700

Í Hallgrímskirkju munu núverandi prestar brátt láta af störfum, Jón Dalbú Hróbjartsson og Birgir Ásgeirsson. Vísast bærast líka í þeim margvíslegar tilfinningar eins og í mér. Þeir glíma væntanlega við vistaskipti og breytingaskeið. Ég get að einhverju leyti sett mig í þeirra spor. Það er ekkert einfalt að skipta um starf eða láta af störfum, eiginlega trúarleg glíma og pílagrímsferð í hópi fólks. Svo eru hin, sem ekki voru valin til starfa. Þau glíma við höfnun og vonbrigði. Sóknarfólk og starfsfólk kirknanna gengur í gegnum breytingaskeið þegar prestaskipti verða. Tilfinningar eru ekki léttvægar heldur mikilvægar – þær “kirkjulegu” og prestslegu líka.

Undarlegur dagar að baki, undarleg vika og sérstæður tími einnig. Ég sé enn tárvot augun við útdeilingu. Tár ljúga ekki og þessi tjáðu afstöðu. Var ég að bregðast eða ekki. Dómstár? Sorgartár já – og tjáðu líklega missi, glataðan tíma, lok fremur en sárindi. Mér var ekki álasað eða skammaður, heldur var sagt að eftir yrði skarð. Nú er lokið tíma, lokið þjónustu og ég fer. Reyndar ekki langt og sum eiga eftir að koma í Hallgrímskirkju og önnur eiga eftir að óska þjónustu minnar. „Þú ert nú áfram sóknarbarn Neskirkju, kallinn minn“ sagði einn. „Við eigum nú eftir að hittast í Melabúðinni, já og kannski líka í Neskirkju“ sagði ein. Ég tilheyri þessu fólki, þessum söfnuði, þessum hverfi, er einn af þeim, deili með þeim gildum og vonum og vil að fjölskylda mín fái að njóta þeirra og líka vera þeim fang þegar á reynir. Það er gott að vera prestur og manneskja í Vesturbænum. Og þó ég færi mig um set er ég einn af þeim. Hvort sem Vesturbærinn nær upp í Þingholt eða ekki er Jesús Kristur sá sami á Högum, Melum og á Skólavörðuholti. Ferðin er á hans vegum.