Greinasafn fyrir merki: Hallgrímskirkja

Ofurhugar Íslands

5. desember 1948, vígsla fyrsta hluta kirkjunnar, Hallgrímskapella. Fremst á mynd er Vörðuskóli. Í baksýn eru braggar og Hnitbjörg. Skólavörðuholt. Nú er þetta kapella undir kór kirkjunnar.

París hefur sinn Eiffelturn, London Big Ben og Reykjavík Hallgrímskirkju. Þannig var Reykjavík uppteiknuð í ferðakynningu og tjáir hlutverk kirkjunnar í borgarlandslagi Reykjavíkur. Hallgrímskirkja er orðin einkenni borgarinnar, lógó ferðamennskunnar. Auglýsingabransinn notar hana, sem bakgrunn til að staðfæra og sannfæra. Hallgrímskirkja teiknar sjóndeildarhring Reykjavíkur og Íslands. En svo hefur það nú ekki verið um aldir.

Hvar er Hallgrímskirkja?

Gamlar myndir frá Reykjavík eru skrýtnar því á þeim er enginn gnæfandi kirkja á Skólavörðuholti, turnspíra hálfa leið til himins, kirkjuskip og nettur kórkúpull. Það, sem nú er nauðsyn í auglýsingum ferðaþjónustunnar og sjónrænn stimpill vitundar okkar, er ekkert sjálfsagt heldur ávöxtur starfs stórmenna. Þegar byrjað var á byggingu kapellunnar, neðri hluta kirkjukórsins, var á holtinu braggabyggð stríðsáranna. Það var erfitt að afla heimilda fyrir lóð fyrir kirkjuna. Svo hafði hernámsliðið ekki mikla þolinmæði fyrir eitthvert kirkjurask í miðri heimsstyrjöld. Miðað við fátækt fólks var fáránlegt að láta sig dreyma svona stóra byggingu, hvað þá að fara af stað. Byggingaráform Hallgrímskirkju voru órar, enda var enginn skortur á andstæðingum, úrtölumönnum og glefsandi uppistöndurum. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að Hallgrímskirkju á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar. Þökk sé þeim einbeittu konum. Þær eru meirihluti ofurhugaliðsins.  

Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. „Við skulum fara til og byggja“ var prédikað á Skólavörðuholti. Hetjur heyrðu. Þær voru stórhugar Íslands, sem við stöndum í þakkarskuld við. Þær voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags, þjóðfélag og kristni. Það var farið til að byggja. Milli bragganna í Skipton Campá Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Sjötug kapella, sjötíu náðarár.

Kapellan og fólkið

Við höfum notið náðar Guðs. Sum ykkar voru fermd hér og önnur gift. Hvað eru mörg ykkar, sem voru skírð í Hallgrímskirkju? Gerið svo vel að rétta upp hönd! Hvað eru mörg í þessum söfnuði, sem voru fermd hér? En gengu í hjónaband? Já og öll hafið þið komið til messu í þessari kirkju. Og við erum í stórum söfnuði fólks, sem hefur lagt lið, notið og verið í liði himinsins.

Í fjölskyldu minni var alltaf talað með mikilli elsku um kapellu Hallgrímskirkju. Foreldrar mínir stóðu með framtíðarfólkinu á Skólavörðuholti og sóttu oft messur hingað. Og svo þegar ég var nýkominn frá Guði fóru foreldrar mínir upp á holtið og sr. Sigurjón Þ. Árnason skírði mig. Og ég var með foreldrum mínum í guðsþjónustum síðar. Eins og mörg önnur börn starði ég heillaður á Kristsmynd Einars Jónssonar og pálmann, sem Guðrún og Karl Ryden gáfu kirkjunni. Bæði voru í kapellunni, síðar í Suðursalnum og eru enn í kirkjuskipi Hallgrímskirkju nú. Eins og tákn um hið lífræna samhengi hins lifandi boðskapar í sjötíu ár. Og mörg munum við líka hve gluggarnir voru hátt uppi í kapellunni og hve stór hún var. Í minni fjölskyldu var börnum kennt að tala þessa kirkju upp en ekki niður. Hún væri á ábyrgð okkar allra. Erindið væri aðalatriðið og það varðar: Að lífið væri ekki bara stríð, braggar, ógnanir og búralegt hyggjuvit – heldur dásamlegt, fullt af möguleikum, fagnaðarefnum og opinni framtíð. Því var svona kirkja byggð. Við njótum stórhuga Anda.

Það sem rætist

Kirkja á sér fortíð. Kirkja er líka saga og þessi kirkja á sér langa sögu. Hvers virði er minning og saga? Í guðspjalli dagsins er Jesús kominn í heilan hring og inn í sögu þjóðar og fjölskyldu. Hann hafði verið í langferð og var loksins kominn heim. Hann fór í sína kapellu á sínu holti á helgidegi. Og tók las orð úr ritasafni þjóðmenningar sinnar, orð um hlutverk, gleðilegan boðskap, hinum þurfandi lausn, nýja og heilbrigða sýn. Þetta voru stærri orð en braggamenn heimsins gætu skilið. Og allir viðstaddir gerðu sér grein fyrir að orð þessa manns voru þvert á allar hugmyndir hagnýts hyggjuvits: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Orð úr fortíð, sem opnuðu framtíð. Söguleg samtíð. Allt stórt, allt nýtt, allt opið. Jesús Kristur, sem veruleiki nýrrar nálgunar alls. Samstaða með hinum kúguðu, líðandi og hömluðu. Já, það væri einkenni þess samfélags, sem Guð kallaði fram, að bæta líf fólks, kalla það til samúðar og samheldni. Og þetta með fagnaðarerindið væri ekki bara að búa til ræðupall fyrir hnyttna uppistandara, heldur opna tímann. Lífið væri meira en matur og frumskógarlögmál. Lífið væri skapað af elskandi Guði. Síðan varð til kristni og alls konar kirkjur. En erindið er alls staðar hið sama, fagnaðarerindi fyrir fólk, heim og framtíð.

Staður tengingar

Saga Hallgrímskirkju er lykilsaga. Hún hófst í andófi og í miðju braggahverfi. Þar voru gleðimálin túlkuð og iðkuð, samfélagið ræktað, fátækir virtir og náðarár kunngerð. Sjötíu árum síðar er Hallgrímskirkja eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. The Guardianhefur fellt þann úrskurð vegna þess að hér hafa milljónir ferðalanga lífsins fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra, náð sambandi við himininn. Ritningin hefur ræst. Byggingunni er ætlað að vera hlið himins, benda upp, teikna landslag menningar og samfélags, vera athvarf hinum jaðarsettu, vettvangur fegurðar, vörn gilda, farvegur skapandi listar, stefnumótastaður tíma og eilífðar. Staðurinn þar sem Jesús Kristur er, stendur upp, opnar bókina og segir skýrt og klárt: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Til hvers kirkja?

Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. Hvernig á að túlka vinsældahrun kirkjunnar? Er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó fólk og samfélög ruglist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Kirkjustofnanir fremur en kristni eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkja sé ónauðsynleg – heldur að kirkja sé að breytast. Við, sem viljum hlusta á Jesúboðskap daganna, megum vita að Guð kallar alltaf með raunhæfum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar, en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa. Hvernig eigum við að þjóna öllu þessu fólki sem hingað kemur? Hvernig getum við verið farvegur fyrir gleði Guðs, fagnaðarerindi, fyrir alla?

Nunnurnar

Þær þúsundir, sem koma í Hallgrímskirkju á hverjum degi, eru á lífsferð sinni, pílagrímagöngu frá fortíð til framtíðar. Allt sálir, fólk í leit að merkingu fyrir líf sitt. Fyrir nokkrum dögum var hér á ferð hópur af nunnum. Reyndar voru tveir karlar í nunnubúningi og annar þeirra var með yfirvaraskegg. Nunnurnar íslensku og þmt þessir klæðskiptu munkar eru að ljúka framhaldsskóla. Þau voru uppáklædd vegna dimissjónar. Tímum er lokið og stúdentsprófin eru framundan. Hópnum var boðið inn í kirkjuna og þegar búið var ræða við þau sagði einn í hópnum: „Ég vissi ekki, að þjóðkirkjan væri svona opin og skemmtileg. Eða er þetta kannski fríkirkja?“ Nei, var svarið. „Þjóðkirkjan er svona opin og skemmtileg.“ Og svo kom niðurstaða stráksins: „Ég þarf nú að fara endurskoða fordóma mína gagnvart þjóðkirkjunni.“ Presturinn sagði „amen.“

Svo tók ég mynd af nunnuhópnum við kór kirkjunnar. Þegar ég skoðaði myndina síðar um daginn og setti hana á vef Hallgrímskirkju varð mér hugsað til allra þúsundanna, sem hafa verið skírð, fermd og gift í þessum kór, í þessum helgidómi. Til þeirra líka, sem hafa verið kvödd með tárum. Og ég hugsaði til eldhuganna, sem þvert á efnisást, fóru til að byggja þetta risahús hinum mesta Guði. Og ég fylltist þakklæti til hugsjónafólksins, sem byggði þessa kirkju og hefur þjónað henni. Er hlutverkinu lokið, nei þetta sjötuga hlið himins er á bernskuskeiði, er vissulega í andlistlyftingu, aðgerð, þessa dagana og framtíðin er opin. Kirkjan er að breytast og þjónusta okkar þar með. Fólkið, sem kemur hingað, þarf að heyra að Jesús Kristur er staðinn upp og talar. Þann dag rætist ritningin.

Hallgrímskirkja 2. desember, 2018.

Lexía

Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort. Jer. 33. 14 -16

Pistill

Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Op. 3. 20-22

Guðspjall

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: 

Andi Drottins er yfir mér 
af því að hann hefur smurt mig. 
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, 
boða bandingjum lausn 
og blindum sýn, 
láta þjáða lausa 
og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“  Lk. 4.16-21

 

 

Verði ljós

 

 

Í Hallgrímskirkju er ljósberi með sætum fyrir bænakerti. Þangað leitar fólk og kveikir á kertum, vitjar ástvina í huganum og biður bænir. Á hnattlaga ljósberanum eru sæti fyrir 61 bænakerti. Í honum miðjum er stórt kerti sem er tákn fyrir heimsljós Guðs, Jesú Krist.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins mest myndaða hús og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, heldur helgistaður alls heimsins. The Guardian útnefndi Hallgrímskirkju sem eitt af tíu mikilvægustu íhugunar- og bænahúsum veraldar. Alla daga situr fólk í kyrru kirkjunnar og íhugar og biður. Bænahnötturinn í kirkjunni laðar að og fljótlega eftir opnun kirkjunnar að morgni loga ljós í öll sætum ljósberans. Þá hefur fólk tyllt kertum sínum á aðra hluta ljósberans. Vegna fjöldans, sem reynir að koma ljósum fyrir, hafa kerti fallið niður á gólf. Það er fólki sárt að sjá bænaljósin sín hrynja. Og það er líka mikil vinna fyrir starfsfólk kirkjunnar að þrífa gólf og stjaka. Spurningarnar hafa oft leitað á starfsfólkið. Var bænahnötturinn orðinn of lítill?

Velgerðarfólk Hallgrímskirkju gaf kirkjunni ljósberann í ársbyrjun 1996. Hönnuður var Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður og Þuríður Steinþórsdóttir, járnsmiður, vann stjakann. Í gjafabréfi segir: „Víða höfum við ferðast og ávallt á feðrum okkar leitum við til kirkju og hlýðum messu eða sitjum í kyrrð og þökkum þá miklu gleði sem börnin okkar þrjú hafa veitt okkur. Á þessum stundum höfum við kveikt á litlum kertum og látið á bænastjaka sem þar hafa verið. Við hjónin höfum margt að þakka. Því gleður það okkur mikið að ljósberinn fái að standa í Hallgrímskirkju sem þakklætisvottur okkar fyrir þá miklu gæfu sem börn okkar hafa fært okkur. Við biðjum þess jafnframt að margir finni sér stund til að tendra ljós á stikum hans og að þessi litlu ljós megi veita birtu í sál á tímum sorgar og hlýju þakklætis á tímum gleði.“

Ljósberar eru víða til í kirkjum og fólk staldrar við og hugsar um líf sitt og sinna og biður fyrir fólki. Hnattlaga ljóshnettir þjóna sama hlutverki og ljósberi Hallgrímskirkju.

Ljósberinn er Hallgrímskirkjufólki kær og enginn hefur viljað breyta honum þótt aðsókn og hreingerningavinnan væri mikil. Til að þurfa ekki að láta gera stærri ljóshnött smíðaði Járnsmiðja Óðins járnbaug undir stjakann. Hlaðbær Colas gaf marga poka af ljósum mulningi sem var hellt í bakkann. Flestum kom á óvart hve ljósberinn naut þessa nýja samhengis, eiginlega lyftist í rýminu. Sandmulningsbaugurinn rímaði vel við fótstykki Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Hvernig brást fólk svo við sem kom í kirkjuna? Það var spennandi að fylgjast með hvernig ljósafólkið færi að. Þegar flest kertasætin voru fullnýtt var enginn sem tyllti aukaljósum á ljósberann eins og áður var. Kertunum var komið fyrir í sandinum. Sumir mynduðu handarfar og komu ljósinu sínu þar fyrir. Aðrir teiknuðu hjarta í sandinn sem varð eins og amen við bænirnar. Hin nýja undirstaða ljóshnattarins kemur til móts við þarfir ljóssækins bænafólks. Fleiri ljós, fleiri bænir, aukið þakklæti og meiri birta. Velkomin í Hallgrímskirkju. Verði ljós.

 

 

 

 

 

Forseti Eistlands í Hallgrímskirkju

Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands er á Íslandi á þingi stjórnmálakvenna. Hún hefur áður komið til Íslands og þekkir Reykjavík. Svo sagði hún Íslendingunum í gærkvöldi að hana langaði að heimsækja Hallgrímskirkju. Ragnar Þorsteinsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, hafði samband og þar sem við þjónum fólki sagði ég að sjálfsagt væri að taka á móti henni. Nokkrum mínútum eftir  settan tíma kom forsetinn gangandi, í fylgd starfsfólks og öryggisvarða. Hún vildi fremur ganga frá Hörpunni en aka.

Kersti Kaljulaid brosti þegar hún kom að kirkjunni. „Ég hef verið hér áður,“ sagði hún og við gengum inn. Það var margmenni í kirkjunni. „Það er dásamlegt að upplifa ljósið“ bætti hún við og gekk rösklega fram að kórtröppum. Fylgdarfólkið stoppaði við fremstu bekki. Það varð enginn fyrirlestur yfir hópi heldur töluðum við, fjarri hinum, um söng og frelsi, kirkju og mannlíf. Ég hreifst af því á sínum tíma að Eistar sungu sig til frelsis og gaf forsetanum frelsissöngva íslensku þjóðarinnar, Passíusálmana. „Takk, takk“ og hún skoðaði bókina með áhuga. Svo fórum við yfir sameiginlega reynslu af Rússum. „Það herti okkur að þurfa að glíma við þá.“ Þegar við vorum búin að ræða um ljós og birtu arkitektúrs, dást að orgelhljómi kirkjunnar vildi hún fara upp í turninn. “Hálfa leið til himins og til baka?“spurði ég. „Já, og endilega til baka líka.“ Svo hleypti amerískt par okkur fremst í röðina og fylgdarfólk og tveir íslenskir öryggisverðir fórum í lyftunni upp. Eistarnir voru kátir, voru þakklátir fyrir að móttakan var afslöppuð, hlógu hjartanlega í lyftunni enda tekur svolítinn tíma að fara hálfa leið til himins. Forsetinn leit yfir borgina og dáðist að útsýninu. „En gaman að sjá borgina frá þessum sjónarhól.“ Svo var farið niður að nýju. Ekki hægt að láta forseta Íslands bíða.“ Kvaddi með virktum. „Þetta var gaman, en allt of stutt heimsókn,“ sagði hún. „En þá kemur þú aftur“ svarði ég. „Já, svo sannarlega. Þið Íslendingar eigið svo mikið í okkur, það er svo gott á milli þjóða okkar. Og takk fyrir að taka svona vel á móti okkur,“ sagði Kersti Kaljulaid. Opinberar heimsóknir eru oftast ánægjulegar en þessi var sérlega skemmtileg. Stíft form er stundum til hjálpar en  Eistar og Íslendingar þora oftast að fara út fyrir rammann. Takk fyrir mig líka. 

Afmæli og fyrsta guðsþjónustan

Á þessum degi, 14. október árið 1962, var haldin fyrsta guðsþjónustan í kirkjuskipi Hallgrímskirkju. Til þess tíma var messað í kór kirkjunnar. Á árinu 1962 hafði verið lokið að steypa upp veggi kirkjuskipsins til hálfs og undirstöður súlna í kirkjuskipinu. Þá hafði undirgólf kirkunnar verið steypt. Ákveðið var að marka þessi tímamót og lofsyngja Guði í framtíðarhelgirými Hallgrímskirkju þó ekkert væri þakið og svæðið væri ófrágengið byggingarsvæði.

Á messudeginum rigndi ákaflega og söfnuðurinn, um eitt hundrað manns, leitaði skjóls undir vinnupöllum sem stóðu við útveggina. Jakob Jónsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, messaði. Hann stóð í miðju kirkjuskipinu, þar sem kórtröppurnar eru nú, og naut blessunardagga himins.

Þar sem búið var að steypa upp megnið af veggjum kirkjuskipsins hófst undirbúningur að byggingu turns kirkjunnar. Að turnbyggingunni var unnið á næstu árum. Lokið var að steypa í topp í árslok 1968.

Það var meðvituð ákvörðun byggingar- og sóknarnefndar í hvaða röð hlutar stórkirkjunnar voru byggðir. Ef kirkjuskipið hefði verið fullklárað á sjöunda áratugnum hefði turnginn líklega aldrei orðið til og kirkjan hefði ekki orðið sú perla sem tíminn hefur slípað. Forsjálnin bar árangur.

Suðursalurinn í turnvængnum var vígður til helgihalds á 300 ára ártíð Hallgríms Péturssonar. Vígsludagurinn var 27. október árið 1974. Í tengslum við vígslu salarins og fyrir vígsluathöfnina var hornsteinn lagður að kirkjunni. Á skjalinu í hornsteininum segir m.a. „Drottni til dýrðar er kirkja þessi reist í minningu Hallgríms Péturssonar.“

Nú höldum við bráðum hátíð vegna 30 ára vígsluafmælis kirkjunnar. Kirkjan var vígð 26. Október 1986. Í ár eru því 30 ár liðin frá vígslu hennar. Hátíðamessan verður 30. október næskomandi. Við bjóðum öllum þeim sem unna starfi kirkjunnar að koma til messu og fagna með okkur.

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.” Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:” Þú hefur ekki skilið verkefnið!” En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!”

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.