Greinasafn fyrir merki: skóli

Þriggja blýanta stríð

Skólabjalla Melaskóla hljómar enn falskt en dugar til síns brúks. Hvað er kennt í skólanum og hvaða blýantastefnu skyldu kennarar Melaskóla hafa? Gamalt stríð sem háð var af einurð kemur í hugann. Ég lenti í skotlínu á milli kennara og mömmu. Bæði voru ákveðin. Jón Þorsteinsson, minn frábæri kennari í Melaskóla, setti ýmsar reglur og ein var ófrávíkjanleg. Nemendur í bekknum hans skyldu hefja skólagöngu með því að koma með þrjá nýja og vel yddaða blýanta. Styrjöld var háð vegna þessarar reglu.

Ég var sendur í skóla með þrjá blýanta og þeir voru vel yddaðir. En þeir voru ekki nýir og ekki allir jafn langir. Þegar Jón kennari sá skriffærin hóf hann þunga sókn. Hin eiginlega bakvörn var mamma sem réði því sem hún vildi í skólamálum mínum. Henni þóttu blýantarnir mínir góðir og fullboðlegir. Með það mat fór blýantaberinn í skóla að nýju. Jón þykktist við og setti í brýrnar. Þá var mér ljóst að ég væri peð á milli stórvelda. Stríð var hafið og ég undi stöðu minni illa.

Ekkert skólasystkina minna dirfðist að gera uppreisn gegn reglum hins ákveðna skólamanns sem hafði fullkomið vald í skólastofunni. Hann var dagfarsprúður og öflugur kennari og hafði gott lag í sinni stofu og á sínu fólki. Öllum kom hann til náms og nokkurs þroska. Ég hafði enga trú á að nokkuð gæti brotið þennan helsta kraftajötun íslensks skólakerfis. Þegar Jón hafði gert sér grein fyrir að Sigurður Árni væri ekki annað en málaliði í umboði Svanfríðar sendi hann móður minni beiðni um að finna sig. Ég kveið þeim fundi og var viss um að nú mundi móðir mín lenda í mannraunum. Ég fylgist með því þegar hún fór róleg en ákveðin. Hún kom heim klukkutíma seinna og var þá rjóð í kinnum og með glampa í augum. „Þú ferð með blýantana þína í skólann eins og ég hef áður sagt þér. Kennarinn þinn mun ekki gera fleiri athugasemdir,“ sagði hún. Þetta voru mikil tíðindi af vesturvígstöðvum Reykjavíkur.

Síðar sagði hún mér að þau hefðu tekist á. Jón hafði gert henni grein fyrir að það væri ekki hennar að ákveða skólastefnu hvorki í hans bekk né Melaskóla. Móðir mín hafði hins vegar gert honum jafn skýra grein fyrir eðli foreldraréttarins og að hún hefði skýra uppeldisstefnu gagnvart drengnum sínum. Hún hefði ekki hugsað sér að kenna honum að sóa verðmætum heldur að nota bæði blýanta og annað sem til væri með ábyrgð og nýtni að leiðarljósi. Hún gerði honum grein fyrir gildum, siðferði og stefnu ábyrgðarinnar. Jón náði engum tökum á móður minni enda deildi hann sömu gildum. Í þessari baráttu var mamma sigurvegarinn. Jón var sanngjarn og skildi viðmið mömmu

Eftir orustuna umgekkst Jón Þorsteinsson drenginn hennar Svanfríðar með nokkurri varfærni ekki síst þegar kom að útbúnaði í skólatöskunni. Hann hafði uppgötvað að hann hafði tapað þriggja blýanta stríðinu gegn Svanfríði. Það var ljóst að hann bar virðingu fyrir svo ákveðnum uppalanda. Ég uppgötvaði að mamma var jafnvel öflugri en menntunarhetjur Melaskóla. Síðar á ævinni uppgötvaði ég að ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með öflugar konur. Þær hafa aldrei skapað með mér ónotatilfinningu. Þar nýt ég uppeldis og mótunar í foreldrahúsum sem ég þakka. Mamma var hugrökk og forðaðist stríð en flýði aldrei. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún var stórveldi ástar og umhyggju. 

+ Sigurður Pálsson + minningarorð

Lítill drengur hljóp um forkirkju Hallgrímskirkju eftir messu. Sigurður Pálsson sá til hans og tók eftir að reimarnar á skónum hans voru langar og lausar. Og presturinn fór til drengsins, heilsaði honum, bað hann að bíða og kraup síðan á hnén og batt reimarnar. Strákur hélt svo áfram hlaupunum, en atferlið varð gjörningur undursins í minningu þeirra sem sáu. Stór maður sá barnið og greindi hættuna, beygði sig til að þjóna því svo leikurinn yrði frjáls. Þannig bregst góður maður við, góður prestur líka og þannig þjónar lifandi kirkja lífinu, mætir stóru fólki og litlu og tryggir lífsþvengina. Sigurður Pálsson mat leik barna mikils og vildi að börn væru í kirkjunni. Oft sagði hann, að barnahljóðin væru hinn fegursti söngur. Hann samþykkti líka kenninguna um, að himnaríki væri í gleðileik ungra barna. „Leyfið börnunun að koma til mín og varnið þeim eigi.“ Frá upphafi og til loka virti Sigurður Pálsson þessi elskuorð Jesú Krists. Við ævilok íhugaði hann lífsstarf sitt og sagði: „Stóran hluta starfsæfi minnar hef ég með einum eða öðrum hætti unnið að kristinni fræðslu barna og ungmenna. … og legg til að íslenska þjóðkirkjan og söfnuðir hennar geri barna, unglinga- og foreldrastarf að algjöru forgangsverkefni næstu tvo áratugi, og þá meina ég algjöru forgangsverkefni.“ „Leyfið börnunun að koma til mín og varnið þeim eigi.“

Akur, upphaf og nám

Sig­urður Páls­son var alinn upp til mannræktarstarfa og orðaiðju. Hann fædd­ist 19. sept­em­ber árið 1936. Sigurður var son­ur Páls Sigurðsson­ar, prent­ara, og Mar­grét­ar Þor­kels­dótt­ur, húsfreyju. Þau og fjölskyldan bjuggu í húsinu Akri við Bræðraborgarstíg og heimilið var gróðurreitur gæskunnar. Foreldrar Sigurðar innrættu börnum sínum guðsvirðingu og þar með mannvirðingu og kenndu þeim að styðja þau sem voru höll í lífinu. Þorkell (Tolli) var elstur en Sigurður (Diddi) lang-yngstur. Þrjár systur voru á milli bræðranna. Svandís (Dísa) var næst yngst, en ólst ekki upp með systkinum sínum en var í góðum tengslum við þau. Eldri systurnar Steinunn (Denna) og Kristín (Dista) höfðu svo gaman af og skiptu sér af yngsta bróðurnum, að hann átti eiginlega þrjár mæður. Það varð honum til lærdóms og styrks. Alla tíð síðan kunni Sigurður að meta, virða og umgangast sterkar konur.

Sigurður Pálsson ólst upp í gamla vesturbænum, í litríku mannlífi og umhverfi. Hann var uppátækjasamur og kannski voru það hin nánu tengsl við undur hvítasunnunnar að hann varð – að eigin sögn – dúfnakóngur vesturbæjar. Foreldrarnir leyfðu honum, sem ekki var sjálfsagt, að nota háaloftið fyrir fugla og Akur varð umferðarstöð þessara fiðruðu engla og guðstákna.

Þegar Sigurður hafði aldur til fór hann í Miðbæjarskólann. Sigurður lauk kenn­ara­prófi og söng­kenn­ara­prófi frá Kenn­ara­skóla Íslands árið 1957. Þegar hann var orðinn aldraður sagðist hann aldrei hafa lært að leika sér. En uppeldis- og skólamál, andlegt og menningarlegt uppeldi urðu verkefni og áhugaefni hans alla æfi. Sigurður var eiginlega að ala sjálfan sig upp meðan hann lifði. Og honum var leikur að læra. Hann hætti aldrei að menntast, stæla andann og afla sér þekkingar. Hann var viskusækinn lestrarforkur og aðaláhugaefnin voru uppeldisfræði og guðfræði.

Ég var svo lánssamur að sitja með honum í tímum í guðfræðideild HÍ. Nám hans var okkur félögum hans m.a. eftirminnilegt því ef hann var bundinn í vinnu sendi hann kasettutæki í tíma. Einhver okkar félaganna ýtti á rec-takkann og Sigurður hlustaði á spólurnar eftir vinnu. Þórir Kr. Þórðarson setti honum stundum sérstaklega fyrir og talaði þá niður í kasettutækið, sem var eftirminnilega kúnstugt. Ég grunaði kennarann um, að kanna hvort Sigurður hlustaði raunverulega – en hann var þá í mörgum störfum og önnum kafinn. Ég dáðist að skilvísi Sigurðar, sem vann samviskusamlega aukaverkefnin sem kennari og kasetturnar báru honum.

Sigurður lauk BA-prófi í kristn­um fræðum árið 1977, en svo kom hann síðar kasettutækislaus og lauk embættisprófi í guðfræði árið 1986. Uppeldisfrömuðurinn og trúmaðurinn samþættu enn betur uppeldisfræðina og guðfræðina og Sigurður lauk doktors­prófi í mennt­un­ar­fræði frá Kenn­ara­há­skóla Íslands (KHÍ) árið 2008. Hann skrifaði merka ritgerð um trúaruppeldi og kristinfræði í skólasögu Íslands á tuttugustu öld. 

Skóli, námsgögn og kirkja

Sigurður kom víða við sögu í vinnu. Þegar hann kenndi við Breiðagerðis­skóla á sjötta og sjöunda áratugnum varð hann frægur fyrir að efla nemendur sína umfram allar skyldur og koma þeim til meiri þroska en vænta mátti. Sigurður fór úr kennarafötunum á vorin og í lögreglubúninginn og þótti bæði góður lögregluþjónn og sérlega glæsilegur. Sigurður var vegna verka sinna kallaður til starfa sem skrif­stofu­stjóri hjá Rík­is­út­gáfu náms­bóka um það leyti sem stúdentabyltingarnar riðu yfir og breyttu menningu Vesturlanda. Svo sinnti hann stundakennslu víða, í MR í nokkur ár, í Kennaraháskólanum í 31 ár, og við guðfræðideildina í Hí í sextán ár. Frá áttunda áratug síðustu aldar og fram á þessa öld var Sigurður helsti sérfræðingur þjóðarinnar í trúaruppeldisfræði, aðalmaðurinn við mótun og kennsluhætti kristinna fræða og trúarbragðafræðslu skólanna. Hann skrifaði kennsluefnið eða stýrði vinnu og vinnslu þess. Hann vann við útgáfu námsbóka, vann hjá Námsgagnastofnun og var af stjórnvöldum kallaður til starfa þegar málaflokkar trúarbragða- og kristindómsfræðslu voru til umræðu.  

Sig­urður var vígður prest­ur árið 1988. Hann fékk þá leyfi frá námsgagnavinnu í tæpt ár og var settur sókn­ar­prest­ur í Hall­gríms­sókn. Prestsþjónustan markaði ný spor og eftir veruna í Hallgrímskirkju var Sigurður ráðinn til að verða fram­kvæmda­stjóri Hins ís­lenska biblíu­fé­lags, sem átti sér starfsstöð hér í kirkjunni. Félagið blómstraði í þau sjö ár, sem hann stýrði því. En þegar þegar prestaskipti urðu árið 1997 var Sigurður skipaður sóknarprestur þessarar kirkju. Söfnuði Hallgrímskirkju – og öllum heiminum – þjónaði Sigurður í nær áratug og lét af störfum árið 2006. 

Biblíufélagið og leikmannahreyfingin

Sigurður kom víða við sögu kristnilífs þjóðarinnar. Hann var forkur til vinnu, hæfur félagsmálamaður, tillitssamur og hlýr í samskiptum og skilaði alltaf sínu án tafa. Hann var  eftirsóttur til stjórnarstarfa og sjálfboðastarfa. Hann var m.a. í stjórn Biblíufélagsins í tólf ár og var í þýðing­ar­nefnd Gamla testa­ment­is­ins í sautján ár. Sigurður var kjörinn heiðursfélagi Hins íslenska biblíufélags árið 2015.

Hann gegndi ábyrgðarstörfum og stjórnunarstöðum í KFUM og var um skeið formaður félagsins (og heiðursfélagi). Þá var hann í áratugi einn helsti foringi kristilegu skólahreyfingarinnar. Hann var formaður KSS og síðan trúnaðarmaður í starfi samtakanna. Þau Jóhanna G. Möller þjónuðu ungu fólki með samtölum, ráðgjöf og sóttu árum saman kristileg skólamót í Vatnaskógi, Sigurður sem snjall leiðbeinandi og Jóhanna heillandi vinkona unga fólksins.

Sigurður var músíkalskur. Hann var mentaður söngkennari og stjórnaði einnig Æskulýðskór KFUM- og K í sex ár. Ég var svo lánssamur að njóta hans sem stjórnanda. Hann var taktfastur, næmur og vel heyrandi stjórnandi. Og svo samdi hann sönglög. Í Sigurði var líka skáldaæð og hann samdi talsvert af sálmum, sem notaðir eru í kirkjunni.

Sigurður var sískrifandi alla tíð. Hann var leiftrandi penni, og auk kennslu­rita í kristn­um ritaði hann mikinn fjölda tímaritagreina og bækur. Hann skrifaði t.d. merkilega og áhrifaríka bók um börn og sorg, rit um Vatnaskóg og sögu Gídeonfélagsins. Sigurðarbókin um sögu Hall­gríms­kirkju er stórkostleg og ber rannsóknarmanninum og höfundarhæfileikum hans fagurt vitni.

Jóhanna, Ágú og Magga Stína

Svo voru það Hanna og Diddi. Jóhanna G. Möller var barn þegar hún vissi hver Sigurður Pálsson var. Hún hafði séð hann og tók eftir að hann sá hana líka. Hún var bráðger og ákveðin, var bara þrettán ára, með eld í hjarta og huga þegar hún mætti Sigurði á gangi í KFUM-húsinu við Amtmannsstíg. Hann var fjórtán ára. Hann sá hana, en sagði ekkert við hana og hún kallaði á eftir honum: „Ætlar þú að ganga fram hjá mér án þess að tala við mig?“ Það er kraftmikil pick-up lína og virkaði svo vel, að hún dugði til heillar ævi. Sigurður snarsnerist og heyrði æ síðan hvað Jóhanna G. Möller sagði. Hann tók mark á henni, innsæi hennar og tillögum. Frá unglingsárunum vissu þau, að hún byggi í hjarta hans og hann í hennar. Þau gengu í hjúskap bráðung, voru alltaf ástfangin því þau unnu stöðugt að sáningarstarfi á akri ástarinnar.

Ég er búinn að fylgjast með ofurást Sigurðar og Jóhönnu í hálfa öld og hef dást að. Kærleiksrík virðing þeirra fyrir hvoru öðru var til fyrirmyndar öllu unga fólkinu, sem þau hjónin þjónuðu. Jójó og Pálsson voru svo ótrúlega ólík, en það blossaði á milli þeirra gagnkvæm vinátta, kærleikur og mannvirðing af Jesútaginu. Elska eilífðar speglaðist í ástarbandi þeirra. Á síðustu metrunum þegar máttur Sigurðar var skertur og sjón hans farin sat Hanna við rúmið hans og þau játuðu hvoru öðru ást sína. Og Jóhanna spurði: „Sérðu mig?“ Þá svaraði hann: „Ég kann þig utanað!“

Já, þau þekktu hvort annað algerlega. Sig­urður og Jóhanna gengu í hjónaband árið 1957 og bjuggu fyrst í kjallaranum á Akri við krossgötur Bræðraborgarstígs og Túngötu og nutu návistar við dýrðarfólkið hans Didda, eins og Sigurður var gjarnan kallaður. Svo fóru þau að byggja í Frostaskjólinu. Ég undraðist að Sigurður, sem bjó svo nálægt KR-vellinum væri algerlega ósnortinn af röndótta stórveldinu. En hann gat alveg skilið að það þyrti að syngja á leikjum: „Heyr mína bæn…!“ Sigurður var sérlega handlaginn og afbragðs smiður. Við bygginguna naut hann ættmenna og vina. Húsið reis og varð rúmgott og fagurt heimili þeirra Hönnu, dætranna og afkomenda. Og svo smíðaði hann síðar mörg smáhús fyrir leiki afkomenda sinna. Pálsson var afar góður við Hönnu sína, rómantískur og uppátækjasamur. Hann bjó til ævintýraveröld í kringum rúmið hennar á afmælisdögum, raðaði hjartasúkkulaði á stóla og orkti ljóð til hennar. Ástarljóðin eru litrík og dásamleg.

Þau Hanna og Diddi eignuðust tvær dætur Ágústu Helgu og Margréti Kristínu. Ágústa Helga fæddist inn í haustið árið 1960 og lést síðla vetrar árið 1990 (f. 21. ágúst og lést 9. apríl). Hún var lögfræðingur. Margrét Kristín fæddist 11. desember 1963.

Maður Ágústu var Búi Kristjánsson. Synir þeirra Ágústu eru Haukur Þór, Birgir Hrafn og Arnar Már. Barnabarnabörnin eru þrjú, Viktor Örn, Daníel Leó og Atli Hrafn.

Margrét Kristín er tónlistarkona, leikkona og kennari. Maður hennar er Börge J. Wigum. Börn þeirra eru Embla Gabriela og Ágúst Örn.

Sigurður Pálsson þjónaði þessu fólki, var faðmur þeirra og klettur, alltaf nærfærinn vinur og líka áttaviti. Hann lagði allt frá sér þegar þau komu og þegar þau þörfnuðust hans. Og alltaf gladdist hann hjartanlega þegar þau vitjuðu hans. Og það var undursamlegt að sjá hve augu hans ljómuðu þegar hann talaði um þau og sagði frá þeim.

Eigindir

Hvernig manstu Sigurð Pálsson? Manstu skartmennið? Manstu söngvarann, sem lifnaði allur þegar hann söng? Eða glettinn vísumann, sem skellti fram kaldhamraðri Káinn-vísu sem sprengdi drungann? Manstu brosið og kankvísan svip hans? Manstu hina virku hlustun Sigurðar, algeru nánd og virðingu fyrir þér? Fermingarungmenni, sem hann fræddi á sínum tíma sagði þegar fréttin um lát Sigurðar barst: „Hann var svo óvenjulegur því hann virti okkur krakkana. Við fundum hvað hann var hógvær maður.“

Sigurður þjónaði mörgum og margir sóttu til hans í kirkjuna. Einu sinni kom einn af fastagestum hans í gættina á skrifstofunni, illa á sig kominn og spurði þvoglumæltur: „Má ég koma inn?“ Sigurður leit upp frá vinnu sinni við skrifborðið og svaraði ljúflega: „Gerðu svo vel.“ Og hann kom inn, settist í fína sófasettið Guðjóns Samúelssonar, fór svo úr skónum, lagðist upp í sófa og sofnaði svo vært undir brosmildu umhyggjutilliti sóknarprestsins, sem hélt áfram að undirbúa fræðslu kvöldsins og velja sálma fyrir helgarmessuna. Svo hálftíma síðar vaknaði sófamaðurinn, reis upp, fór í skóna sína og sagði endurnærður við Sigurð. „Þetta var gott. Vertu blessaður.“ Og Sigurður svaraði: „Gangi þér vel, vinur.“ Margir telja að þessi sálgæslustund sé með þeim best heppnuðu í Hallgrímskirkju!

Já, Sigurður kunni að hlusta en hann kunni líka að tala. Manstu hve orðheppinn hann var? Eða skýra, hljómmikla og rökfasta málafylgju hans í ræðu? Manstu getu hans til að greina aðalatriði frá aukaatriðum, skýr viðbrögð hans og hæfni til að orða það sem skipti máli? Málgetan og snerpan kom víða fram, líka í málleikjum heimilislífsins. Sigurður gaf ástvinum sínum gjarnan viðurnefni. Ágústu Helgu kallaði hann Gullbrá og Möggu Stínu Skrjóð og Kríli. Svo voru þau öll hin: Stórólfur, Krummi, Glókollur, Stubbur og Djásnið. Og að festa öryggisbelti í bílnum var að festa sig í sessi! Allt lifnaði við tillit hans og hann nefndi veröldina. Og þó hann teldi, að hann kynni ekki að leika sér var hann kátastur í suðurhlíðum tungumálsins. Og eins og brandrar og ljóð eru samsetningur hins óvænta varð fólk litríkt og viðburðir sögulegir í meðförum Sigurðar. Reyndar var dóttirdóttir hans ósammála því, að afi hafi ekki kunnað að leika sér. Hún spurði hann beinlínis hvort hann hefði lært að leika í prestaskólanum!

Manstu kyrru Sigurðar, sterka hlustun, hve áhugasamur hann var þegar lífið hríslaðist í fólki, sem hann hitti eða leitaði hans? Manstu trúnaðinn, fínleikann, íhyglina og traustið? Og svo lifði hann með ákefð og áköfust var elskan gagnvart Hönnu hans, dætrum og öllum afkomendunum. Hann virti tilfinningar og dæmdi þær ekki. Ástin og sorgin eru stór stef í kenningu hans. En hann lagði líka mjög upp úr vilja og ígrundaðri stefnufestu. Það er merkilegt að lesa hjónavígsluræður Sigurðar og hve skýrt hann talaði um að elskan væri ákvörðun.

Heilindin og glíman

Sigurður var maður heilindanna. Hann var heils hugar í öllu, hvort sem var í dúfnarækt, söngiðkun, lærdómi eða ástinni. Burðargrind lífs hans og verundar var trúin á Guð. En dauði Ágústu splundraði einfeldni og sleit klisjur trúarinnar, reif glansmyndirnar. Áfallið markaði skil í lífi hans. Það var ekki bara áfall grátandi föður, heldur varð líka brestur í grundvelli lífsins. Af hverju Guð? „Úr djúpinu ákalla ég þið Drottinn.“ „Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt.“ Þetta eru biblíustefin, sem Sigurður notaði til að ramma eigin glímu og urðu þrástef í ræðum hans um sorg og í minningarorðum útfaranna. Sigurður háði djúpmennska Jobsglímu allt til enda. Efinn, öflug systir trúarinnar, varð fyrirferðarmikil í vitund hans. Sjálfur lýsti hann því, að við stóráfall yrði maður eins og þriggja hæða hús og ljósin kviknuðu aldrei í kjallaranum. Og hann sagði, að krepptur hnefi væri öflugasta bænin! En svo sagði hann líka að reynslan hefði kennt honum, að kristin trú væri trú vonarinnar. Sigurður skrifaði: „Glansmyndir mást með tímanum. Ég er hættur að hafa gaman af þeim. Raunveruleikinn, með ljósi og skuggum stendur mér nær. … Guð, ég þakka þér fyrir gjöf vonarinnar.“

Við Sigurður vorum bæði trúarvinir og trúnaðarvinir og hann sagði mér oft frá sorgarleiðum lífsins og hve svarti hundurinn glefsaði sárt. En Sigurður lamaðist ekki heldur brást við dótturmissinum með því að auka þjónustuna við fólkið sitt og lifendur. Viðbrögð hans voru fjölþætt og siðferðileg í því að axla enn meiri ábyrgð og víkja sér aldrei undan elskunni og ábyrgðinni gagnvart konu sinni, dóttur og barnabörnum. Aldrei að víkja, aldrei að bregðast, aldrei að brotna. Lífsdrama Sigurðar var djúp-guðlegt. Hann brást við áföllum í samræmi við merkingu guðsástarinnar gagnvart harmi heimsins – með því að elska. Myndin af Sigurði í hugum ástvina hans, fjölskyldu og vina er mynd hinnar skilyrðislausu ástar.

Presturinn

Sigurður Pálsson batt lífsreimar fólks í kirkjunni og hann var afburða kennimaður. Prédikanir hans voru skírðar í eldi mikillar lífsreynslu. Engir prestar á Íslandi síðustu tvö hundruð árin hafa prédikað betur og dýpra um sorg og böl en hann. Hann var söngvari hinnar sáru visku.

Stíll prédikana Sigurðar var hraður, myndrænn, oft óvæntur og launfyndinn. Hann upplýsti par í hjónavígsluræðu að hjónabandið væri ekki vatnshelt og það þyrfti tvo til að ausa svo hjónabáturinn sykki ekki. Sigurður byrjaði gjarnan prédikanir bratt og með sláandi setningum, sem römmuðu eða mörkuðu það sem síðan var rætt. „Lífið er rán“ er eitt upphafið. „Lífið er óvissuferð“ er önnur upphafssetning, sem kemur oft fyrir.

Það var aldrei neitt ódýrt eða klisjukennt í bókum, greinum, ræðum, kennslu, hugleiðingum eða kenningu Sigurðar Pálssonar. Hann var alltaf frjór, skarpur, leitandi og á andlegri hreyfingu. Sigurður Pálsson hafði alla tíð hlýtt hjarta en kaldan heila. Hann skrifaði hugleiðingar og prédikanir með hjartablóði sínu. Engin ódýr svör. Hann var með báða fætur á jörðinni, en andi hans fór hátt og djúpt. Hann opnaði alltaf, þorði að fara að baki hinu skiljanlega. Hann þekkti mörkin, en fann fyrir hvenær hann var í óskiljanleikanum, þreifaði þar til leita að því sem bera mætti inn í ljósið og til visku. Sigurður var ofurkvika, sem titraði yfir minnsta áreiti, opnaði hjartagrunn og faðminn gagnvart hinu stóra og stærsta og vann úr. Viðmælendur hans voru fólk með opna hjartastöð, hugsandi gruflendur sem fann til, fólk á ferð sem þorir og þolir að breyta um kúrs. Erindið var alltaf stórt. Af því hann var sílesandi og fjallaði vel um bækur var fræðandi og menntandi að hlusta á Sigurð, sem tengdi og túlkaði veraldir mennta fyrir tilheyrendur sína. Hann leitaði friðar í ófriði, að ljósinu í myrkrinu. Hann talaði um fyrirgefningu og lausn. Í honum bjó engin kyrrstaða heldur hræring. Hann var aldrei alveg niðri, heldur alltaf á uppleið og í föruneyti Jesú Krists.

Akur eilífðar

„Þá er búið að hafa gaman af því.“ Þannig byrjaði Sigurður einu sinni prédikun á jólanótt. Eftirminnileg setning, sem batt saman alla skóþvengi atsins á aðfangadagskvöldi. En nú er söngvari viskunnar þagnaður. Hann miðlar þér ekki framar, veitir þér ekki athygli, hlustar ekki framar á þig eða kallar þig til visku. Rödd hans, sem hljómaði í hvelfingum þessa mikla hliðs himins, er nú þögnuð. Síðustu orðin, sem ég heyrði hann fara með í þessum heimi – þá orðinn raddlítill, voru:

„Guð sefaðu svíðandi hjarta

og sendu mér ljósið þitt bjarta.

Og gef mér þinn græðandi frið.“

(5 v. í sálmi 924 í sálmabókarviðbæti)

Þetta var hinsta bæn hans. Já, hann er farinn inn í friðinn, hinn græðandi frið. Hjartað er sefað og svíður ekki lengur. Ljósið er algert. „Trú er heimþrá,“ sagði hann. Orð hans um trú og efa enduróma ekki framar í þessum hvelfingum, en eru geymd í ofurkviku, ofurhlust Guðs. Hann er ekki í djúpi angistar, heldur djúpi elskunnar, ekki lengur með krepptan hnefa og sviða í sinni, heldur blessaður, græddur og bjartur. Og hann hann fær að sjá Ágústu – og alla burtkallaða ástvini – koma hlaupandi á móti sér yfir engi vonanna. Hann er kominn heim á Akur eilífðar.

Guð geymi Sigurð Pálsson – og Guð hjálpi okkur öllum.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2019. 

Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfi í Hallgrímskirkju. 

Biblíulestrar

Sálmur 27.7-9

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt,
ver mér náðugur og bænheyr mig.
Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
Hyl eigi auglit þitt fyrir mér,

Hrind mér eigi burt
og yfirgef mig eigi, 
þú Guð hjálpræðis míns.

Sálm 130

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Kærleiksóðurinn

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn. Nú er þekking mín í molum en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, 
en þeirra er kærleikurinn mestur.

Fyrra Korintubréf 13

Jesús og börnin

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Markúsarguðspjall, 10.13-16