Greinasafn fyrir merki: Melaskóli

Þriggja blýanta stríð

Skólabjalla Melaskóla hljómar enn falskt en dugar til síns brúks. Hvað er kennt í skólanum og hvaða blýantastefnu skyldu kennarar Melaskóla hafa? Gamalt stríð sem háð var af einurð kemur í hugann. Ég lenti í skotlínu á milli kennara og mömmu. Bæði voru ákveðin. Jón Þorsteinsson, minn frábæri kennari í Melaskóla, setti ýmsar reglur og ein var ófrávíkjanleg. Nemendur í bekknum hans skyldu hefja skólagöngu með því að koma með þrjá nýja og vel yddaða blýanta. Styrjöld var háð vegna þessarar reglu.

Ég var sendur í skóla með þrjá blýanta og þeir voru vel yddaðir. En þeir voru ekki nýir og ekki allir jafn langir. Þegar Jón kennari sá skriffærin hóf hann þunga sókn. Hin eiginlega bakvörn var mamma sem réði því sem hún vildi í skólamálum mínum. Henni þóttu blýantarnir mínir góðir og fullboðlegir. Með það mat fór blýantaberinn í skóla að nýju. Jón þykktist við og setti í brýrnar. Þá var mér ljóst að ég væri peð á milli stórvelda. Stríð var hafið og ég undi stöðu minni illa.

Ekkert skólasystkina minna dirfðist að gera uppreisn gegn reglum hins ákveðna skólamanns sem hafði fullkomið vald í skólastofunni. Hann var dagfarsprúður og öflugur kennari og hafði gott lag í sinni stofu og á sínu fólki. Öllum kom hann til náms og nokkurs þroska. Ég hafði enga trú á að nokkuð gæti brotið þennan helsta kraftajötun íslensks skólakerfis. Þegar Jón hafði gert sér grein fyrir að Sigurður Árni væri ekki annað en málaliði í umboði Svanfríðar sendi hann móður minni beiðni um að finna sig. Ég kveið þeim fundi og var viss um að nú mundi móðir mín lenda í mannraunum. Ég fylgist með því þegar hún fór róleg en ákveðin. Hún kom heim klukkutíma seinna og var þá rjóð í kinnum og með glampa í augum. „Þú ferð með blýantana þína í skólann eins og ég hef áður sagt þér. Kennarinn þinn mun ekki gera fleiri athugasemdir,“ sagði hún. Þetta voru mikil tíðindi af vesturvígstöðvum Reykjavíkur.

Síðar sagði hún mér að þau hefðu tekist á. Jón hafði gert henni grein fyrir að það væri ekki hennar að ákveða skólastefnu hvorki í hans bekk né Melaskóla. Móðir mín hafði hins vegar gert honum jafn skýra grein fyrir eðli foreldraréttarins og að hún hefði skýra uppeldisstefnu gagnvart drengnum sínum. Hún hefði ekki hugsað sér að kenna honum að sóa verðmætum heldur að nota bæði blýanta og annað sem til væri með ábyrgð og nýtni að leiðarljósi. Hún gerði honum grein fyrir gildum, siðferði og stefnu ábyrgðarinnar. Jón náði engum tökum á móður minni enda deildi hann sömu gildum. Í þessari baráttu var mamma sigurvegarinn. Jón var sanngjarn og skildi viðmið mömmu

Eftir orustuna umgekkst Jón Þorsteinsson drenginn hennar Svanfríðar með nokkurri varfærni ekki síst þegar kom að útbúnaði í skólatöskunni. Hann hafði uppgötvað að hann hafði tapað þriggja blýanta stríðinu gegn Svanfríði. Það var ljóst að hann bar virðingu fyrir svo ákveðnum uppalanda. Ég uppgötvaði að mamma var jafnvel öflugri en menntunarhetjur Melaskóla. Síðar á ævinni uppgötvaði ég að ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með öflugar konur. Þær hafa aldrei skapað með mér ónotatilfinningu. Þar nýt ég uppeldis og mótunar í foreldrahúsum sem ég þakka. Mamma var hugrökk og forðaðist stríð en flýði aldrei. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún var stórveldi ástar og umhyggju.