Greinasafn fyrir merki: jól

Kalkúnn fyrir jól

Við höfum notað þessa kalkúnauppskrift á okkar heimili í nær aldarfjórðung því matargerðin er prestsvæn. Elín fann uppskriftina árið 1986. Það er yndislegt að finn hvernig lyktin í húsinu á aðfangadegi undirbýr jól. Uppskrift fyrir 8.

4-5 kg kalkúnn

3 hnefafylli af ferskum sveppum

6-8 hvítlauksrif pressuð eða fínskorin

2 stilkar sellerí

250 g beikon til sneiðingar + 3-4 bréf til klæðningar

5 sneiðar brauð

2 msk dragon (terragon eða estragon)

200 g rjómaostur

½ tsk salt

Aðferð

Beikonið, u.þ.b. 250 g, er sneitt og látið krauma í potti. Skornu sellerí er bætt út í, þá sveppum og síðast hvítlauk sem estragon og salti. Hrærið allt saman og líka rjómaostinn. Hiti minnkaður. Þegar blandan er orðin bragðgóð er brauðið rifið saman við en skorpan ekki notuð og lögð til hliðar.

Fuglinn er kryddaður að innan með salti og pipar. Fyllingin er sett í kalkúninn og hann síðan lagður í smurða ofnskúffu sem búið er að krydda með salti og piparblöndu. Kalkúnninn er klæddur eða hulinn með beikonsneiðum og opið er einnig hulið með beikoni. Vængir og leggir eru einnig vafðir með beikoni. Þar sem kalkúnakjöt er fremur magurt kemur beikonið í veg fyrir að kjötið þorni. Fuglinn er settur í 200°C heitan ofn og hitinn lækkaður eftir 10 mínútur í 180°C. Ekki spara beikonið, mörgum finnst stökkt beikon gott. Óhætt er að treysta upplýsingum um að steikingartími sé 50 mínútur á hvert kíló. Til að athuga hvort fuglinn er tilbúinn er hægt að stinga hann þar sem hann er þykkastur. Ef safinn er tær er kalkúnninn nægilega steiktur. Ef beikonið verður ískyggilega dökkt er ráð að bregða álpappír yfir fuglinn.

Waldorfsalat

Waldorfsalat er nauðsyn! Epli, sellerí, græn vínber, sýrður og þreyttur rjómi. Ef valhnetur falla ekki í kramið er hægt að nota rifnar möndlur í staðinn. Síðan er gott að hafa bakaða kartöflubáta með. Þeim er raðað með hýðið niður í eldfast ósmurt mót. Saltað yfir og haft í ofninum síðustu 40-50 mínúturnar sem fuglinn er að steikjast. Rifsberjahlaup tilheyrir réttinum og árstíðinni. 

Sósa

Kalkúnninn er tekinn úr ofninum og settur á heitt fat. Vökvanum úr steikingunni er hellt í pott gegnum sikti. Fitu fleytt ofan af. Skafa má bragðgjafana úr steikarfatinu/plötunni og nota í sósuna. Bragðbætt með pipar og estragoni og síðan soðið með rjóma. Lögg af rauðvíni bætir líka. Á jólunum er um að gera að nota þeyttan rjóma og setja hann neðst í sósuskálina og hella sósunni yfir.

Friður á jörðu ríki og blessun meðal manna.

 Ef tími er til er hagnýtast að flétta beikonið á fuglinn. Þá sígur það ekki niður og hylur betur fuglinn. Svo er það fallegast og góð skilaboð. Í friði aðfangadagsins 2023 leit fléttan svona út. 

Samastað syninum hjá

Gleðileg jól. Hvað veitir gleði og hvað kallar fram mesta hamingju? Hvernig tengjust við fólki, lífi og sjálfum okkur? Hvernig lifum við?

Fyrr í þessum mánuði lést maður, sem ég þekkti. Hann stóð alla tíð lífisins megin, þjónaði fólki og veitti þúsundum heilsubót. Hann varð fyrir áföllum í lífinu en bugaðist ekki heldur þroskaðist í eldi lífsreynslunnar. Hann var vitur maður og mat gæði lífsins mikils. Meðal annars hafði hann áhuga á tónlist og fólkið hans söng. Svo brast heilsa hans og fyrr á árinu var ljóst að komið væri að lífslokum. Undir það síðasta gat hann ekki lengur talað. Síðustu vikurnar komu börn og ástvinirnir til hans og sungu fyrir hann og umvöfðu hann elsku. Lífi hans lauk nú á aðventunni. Síðustu dagana sungu þau fyrir hann aðventu- og jólasálma. Vonarstef aðventusálmanna hljómuðu. Gleðiefni jólasálmanna liðuðust að grunnri öndun hins deyjandi manns. Svo var komið að Heims um ból, erkisálmi íslenskra jóla. Og dóttir hans söng jólasálminn fyrir föður sinn. Í síðasta versinu lést maðurinn og fór inn í himininn.

Um hvað fjallar síðasta erindið í Heims um ból? Það er um englasönginn frá himnum. Og líka um frið á jörðu því Guð umvefur þau, sem eiga sér samastað hjá syninum – eru vinir Guðs, vinir Jesú Krists. Þegar dóttirin söng „samstað syninum hjá“ fór faðir hennar inn í himininn. Tíminn endaði og eilífðin byrjaði. Barnið, sem fæðist á jólum, kom til hins deyjandi manns. Þeirra samastaður var hinn sami.

Sálmar jóla

Sálmurinn Heims um ból er jólasálmur. Guðspjallssagan í Biblíunni er jólasálmur líka. Allir jólatextarnir eru ljóðrænar tjáningar um hið mesta og besta, sem hægt er að tjá. Eru þessir textar blekkingasögur og ótendar við lífið, glimmersögur sem sem eru fyrir börn og hrifgjarnt fólk? Nei. Þessir textar eru um það sanna og mikilvæga. Jólasagan er vissulega litrík. En það er engin ástæða til að taka skynsemi úr sambandi til að njóta hennar og virða. Jólaboðskapurinn er ekki fyrst og fremst um meyjarfæðingu, um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Þetta eru atriði varðandi umgjörð fremur en inntak. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar – þarf að kafa í merkingu, meiningu, en staldra ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt.

Skilja helgisögu

Hvernig eigum við að nálgast og túlka helgisögur? Fólk fortíðar gerði sér vel grein fyrir staðreyndum og túlkun. Ytri veruleiki væri eitt en síðan mætti sjá mynstur, dýpri sannindi, viðmið og siðgildi menningar og einstklinga. Þau kunnu að greina að meginmál og aukaatriði. Þau skildu flest hvenær saga var krydduð og hvernig flokka ætti í viðburðasögur, viskusögur, kennslusögur, skemmtisögur eða siðkennsludæmi. Saga er meira en samsuða nokkra atriða um hvar, hvenær, hvernig og af hverju. Við þörfnumst meira en bara staðreynda til að líf okkar öðlist gildi og við njótum þess. Ást okkar á fólki verður hvorki vakin né kæfð vegna staðreynda einna. Lífið er meira en efnisveruleikinn.

Þegar við lesum klassík, hvort sem er Biblíuna eða rit fornaldar, er vert að muna að lengi voru sögur og viðburðir marglaga og oft fjórþrepa. Það var túlkunarháttur, sem vestræn kristni tók í arf úr v-asísku og grísku samhengi. Hið fyrsta var, að nálgast viðburði í ljósi staðreynda, rétt eins og góðir fræðimenn og fjölmiðlafólk gera. Önnur túlkunarvídd var spávíddin sbr. allir textarnir í gamla testamentinu sem sögðu fyrir um uppfyllingu í Jesú Kristi – nú eða rannsóknir náttúruvísindamanna um mengun, sem hafa forspárgildi varðandi þróun veðurfars og þróun lífs á plánetu okkar. Þriðja merkingarlagið varðaði siðvit og andlega visku. Rétt eins og við verðum fyrir áhrifum frá þroskuðu fólki getum við gert annað fólk fortíðar að viðmiðum okkar á lífsgöngunni og hvernig við getum orðið ábyrgari í athöfnum og samskiptum við aðra og náttúruna. Svo er síðasta víddin og varðar framtíð, hinstu tíma og eilífðina. Samstaðurinn í eilífðinni hefur áhrif á hvernig við lifum í þessu lífi.

Staðreyndir þurfa samhengi. Öll þörfnumst við næringar líkama, en líka andlegt fóður og gjöfula menningu og réttlátt samfélag. Við erum ekki einvíddar heldur fjölvídda. Merking er alls konar, söguleg og staðreyndir en líka andleg, siðferðileg, samfélagsleg, tilfinningaleg og trúarleg.

Jólasagan er helgisaga. Og slíkar sögur eru flétta stefja, ímynda og minna, sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum reyna að skræla burt það, sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Forðum voru kraftaverk talin skýr tákn um Guðsnánd, en eru það ekki lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu þar með ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur. Svo var þjóðmenning og túlkunarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna til að hægt væri að gera skiljanlega dulkóðun merkjakerfisins, hvernig átti að segja hlutina til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin, sem stýrði skilningi.

Mál hjartans og lífsviskan

Í spekibókinni Litla Prinsinum segir refurinn við drenginn þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.”

Við ættum ekki að láta hið yfirborðslega í jólasögunni rugla okkur og ekki taka söguna bókstaflega. En hvernig eigum við þá að skilja hana alvarlega? Þegar allt er skoðað og líka með hjartanu er boðskapurinn að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins skriflega, bréflega eða með fréttatilkynningu í helgri bók. Guð sendir ekki fyrirskipanir og skoðanabombur eins og gamaldags einvaldur, heldur kemur – í eigin persónu. Þegar við játumst veruleika þess, að Guð er og elskar, verður nýr samastaður okkar til. Við verum börn tíma en líka eilífðar, að við megum lifa hamingjuna í samskiptum við fólk og náttúru og líka lifa í opnum tengslum við himininn.

Hvert barn – hver lifandi mannvera – getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum, heldur lifuð á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu, heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og lifa guðssambandið – og tjá hvernig Guð er: Guð elskar ákaft og ævinlega. Í trú  lærir þú að skynja, að alltaf er Guð að tala – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, þegar þú faðamar ástvini þína. Alltaf eru skilaboðin þau sömu, tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Samastaðurinn

Þegar við syngjum jólasálmana syngjum við um ást himinsins á heiminum. Og þegar Heims um ból er sungið kyssir himinn heim. Og því er undurfagurt þegar lífi lýkur í ómfangi sálmsins – að eiga heima, hvílustað hjá Guði. Það er margvídda mál að fara úr tíma og inn í líf himins, fara úr fangi ástvina inn í Guðsfangið. Þú ert elskuð og elskaður, þú mátt njóta þess að lifa, njóta þess sem þér er gefið, horfa í augu fólksins þíns og sjá í þeim undur lífsins. Samastað syninum hjá. Gott líf í heimi og gott líf í veröld Guðs. Orðið varð hold og bjó með oss. Jól þessa heims og annars. Guð gefi þér gleðileg jól.

Íhugun Hallgrímskirkju jóladag 2019.

Meðfylgjandi mynd er eftir Karolínu Lárusdóttur og ég hef aðeins enskt heiti hennar: Wondrous Happenings.

Af hverju Guð maður?

Gleðileg jól. Enn einu sinni Heims um ból, helg jól. Enn einu sinni höfum við verið umföðmuð undri og unaði jólanna. Jólalyktin, dásemd í nösum, kliðmjúkir jólasálmarnir, pakkar til glaðnings og guðspjallið um jólabarnið og englana vekja tilfinningar í brjóstum okkar. En skuggar elta ljós. Í bland við spenninginn læðist jólamóri líka um. Við erum umlukin jólum á mörgum plönum. Líka hið innra, því minningarnar koma til okkar á jólum – og í nýju jólaauglýsingu Flugleiða segir hnittilega: „Varðveitum minningar og búum til nýjar.“

Kirkjusvefninn

Fyrst er það jólaminning, sem vinkona mín sagði mér í vikunni. Atburðurinn varð á aðfangadegi um eða eftir 1980. Fjölskyldan hennar bjó á Mímisvegi, sem er í slakkanum, suðaustan við Hallgrímskirkju. Allan daginn hafði snjóað. Logndrífan var svo heillandi, að mamman stóðst ekki mátið þegar liðið var á aðfangadagskvöldið og spurði son sinn hvort hann vildi ekki koma með út að leika í snjónum. Sá stutti var til og mæðginin drifu sig út, bjuggu til engla og nutu útivistarinnar. Þau voru orðin þreytt og „úthlegin“ þegar fólk kom úr húsunum og gékk í átt að kirkjunni. Mamman spurði son sinn: „Eigum við að fara upp í kirkju?“ Hann var til og þau smelltu sér í jólamessuna beint úr englagerðinni í snjódyngjunum. En stuttu síðar kom drengurinn einn heim frá kirkju. Pabbinn varð hissa og spurði áhyggjufullur: „Hvar er hún mamma þín.“ Drengurinn svaraði sposkur: „Hún er sofandi upp í kirkju. Ég gat ekki heyrt neitt fyrir hrotunum í henni!“

Eftir jólaundirbúninginn og leik mæðginanna hafði værð sest að mömmunni og vitund hennar liðaðist inn í undur jólanæturinnar. En svo þegar byrjað var að syngja Heims um bólí messulok rumskaði hún. Hún vaknaði inn í jólin – kom úr draumheimi undirvitundar inn í draumaheim himins, jarðar og jóla. Hún gerði sér grein fyrir að skrákurinn var farinn, en óttaðist ekki því svo stutt var heim frá kirkjunni. Og hún sagði mér, að hún hefði farið að hlægja í kirkjunni þegar hún uppgötvaði að hún hafði sofnað og sá þegar hún rumskaði að hún hafði ekki einu sinni tekið af sér svuntuna áður en hún fór út og síðan óvænt upp í kirkju. Svuntan lafði niður fyrir kápuna hennar þar sem hún vaknaði í heitri kirkju jólanæturinnar. Hann er sætur kirkjusvefninn! Og það er flott að vakna inn í jólanna Heims um ból.

Jólasálmurinn

Já, sálmurinn Heims um bólá tvö hundruð ára afmæli. Hann fangar og tengir flest sem varðar jól. Joseph Mohr, prestur í austurríska fjallaþorpinu Obendorf, var að undirbúa jólin. Samkvæmt einni upprunasögunni var prestur að íhuga jólaprédikunina þegar gömul kona bankaði á dyrnar á prestssetrinu og bað prestinn að koma að skíra nýfætt barn. Og þó hann væri ekki búinn að undirbúa messuna fór hann með konunni. Þegar hann horfði á nýfætt barnið varð hann snortin og tengdi það og foreldrana við Jesú Krist, Maríu og Jósef, nafna prestsins. Gleðin í húsinu og barnsfæðingin hreyfði við skáldinu í klerkinum og meðan hann barðist í gegnum snjóskaflana á heimleiðinni veiddi hann fram sálm úr sálinni. Inntak og andi jólanna féll í hrynjandi orðanna: „Heims um ból – helg eru jól.“ Sr. Joseph fór með sálminn til Frans Gruber, vinar síns og samstarfsmanns, sem bjó til lag við textann. Orgelið í kirkjunni var bilað og því var gítar notaður í aftansöngnum. Og vinirnir sungu sálminn í fyrsta sinn opinberlega. Þetta var fyrir réttum tvö hundruð árum, árið 1818. Og öll jól síðan, í tvær aldir, hefur þessi jólasálmur verið sunginn og síðustu hundrað árin um allan heim. Jólasálmurinn sem vekur jafnvel þreyttar mömmur af kirkjusvefninum.[i]

Jesútrúin

Hvað ætlum við að gera með jólin og boðskap jólanna? Margir halda fram, að þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru bara plat þá hverfi trúin á svein jólanna. Þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru fólk í góðu gervi þá byrjar trúin á Jesú að ruglast. Fyrst fer jólasveinatrúin og svo fer Jesútrúin. Er það svo? Þegar börnin trúa ekki lengur á jólasveininn af hverju ættu þau að trúa á Jesú, aðalsvein jólanna? Auðvitað er allur munur á – en það er ekkert einfalt að trúa á himinsveininn. „Af hverju gerðist Guð maður?“ Þeirrar spurningar hefur fólk spurt um allar aldir. Af hverju kom ljósið í heiminn? Hver eðlis er þessi speki um barn í heimi? Gat Guð ekki bara gert heiminn almennilega svo engin neyð eða þjáning þrifist í þessari veröld og ekki þyrfti að senda lausnara af himnum. Er Guð kannski vanmáttugur? Því meira, sem við vitum um geiminn, því smærri verður kúlan okkar í svimandi óravíddum. Af hverju ætti æðsta vald himsins að hafa áhuga á þessum útnára heimsins, þessu smælki í alheiminum, sem jörðin er í geimgímaldinu? Og ekki er mannkynið ekki sérlega sjarmerandi, hópur lífvera sem hefur gert heimili sitt að ruslastíu og farið svo hraklega með óðalið sitt að það er að deyja.

Guð sem teygir sig til…

Á jóladegi er „hitt“ jólaguðspjallið lesið frá altari, upphafsvers Jóhannesarguðspjalls. „Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Svo er sögð saga þessa orðs, viðtöku þess eða höfnun. Stórtákn eru nefnd og þjónar þess kynntir. Inntak þessara fáu setninga er svo rismikið að mörgum þykir þessi texti einn af mikilvægustu og fegurstu textum Biblíunnar. Jafnvel grískan er svo fallega ljóðræn, að ég lærði fyrstu versin utan að fyrir fjörutíu árum. Upphaf guðspjallanna er ólíkt. Í þessum Jóhannesartexta er ekkert sagt um ætt og uppruna Jesú. Hér er engin ættartala eins og í Matteusarguðspjalli. Ekkert klippt og skorið eins og í Markúsi. Ekkert sagt um Kýreneus, Heródes eða Ágústus keisara eins og í Lúkasarguðspjalli.

Nei, formáli Jóhannesar er öðru vísi, rismikill, djúpur og stórkostlegur. Þar er byrjað á himnum, eiginlega innan í Guði og þar á eftir er síðan talað um samband þess Guðs við heim. Fyrstu versin varða skapandi orð, tjá útleitandi elsku. Ekki feiminn, innhverfur Guð heldur tengslasækjandi veraldarvaki. Þungur undirstraumur og ljóðræna textans heillar.

Allir þokkalega biblíufróðir gera sér grein fyrir að þessi vers í jólaguðspjalli Jóhannesar varða skapandi guðdóm. Textinn vísar beint í sköpunartexta Gamla testamentisins, t.d. í fyrstu bók Móse og  Davíðssálmum. Hvernig Jesús Kristur er kynntur til sögu varðar að Guð er nálægur og virkur. Í sköpun heimsins varð ljós. Svo þegar Jesús kom í heiminn kom ljós, sem skín í myrkrinu, gefur líf, nærir og blessar.

Jólaguðspjall Jóhannesar veitir okkur innsýn í Guð. Mennskan fæðist í innra lífi Guðs. Upphaf alls, efnis og anda, er í guðsdýpt himinsins. En eitt er undur hins guðlega og annað er hvernig brugðist er við undragjöfunum. Þegar skapandi viska Guðs kemur fram í tíma heyra sumir, nema, skynja, skilja og taka við. Aðrir taka ekki á móti. Mál jólanna er ekki bara að allir séu kátir. Innan hrings jólanna eru líka reiðir menn sem hafna. Fólk allra alda veit að þegar ljós skín sem skærast verða skuggarnir djúpir.

Ljósið sem skín

Í vikunni kom hópur frá Englandi og Bandaríkjunum í Hallgrímskirkju. Þau voru að vinna efni fyrir samfélagsmiðla Apple um tengsl fólks á Íslandi við látna ástvini og hefðir okkar Íslendinga við að kveikja kerti á leiðum ástvina. Þau höfðu hrifist af lífsástinni, sem kemur fram í virðingunni á lífi genginna ástvina sem ljósin tjá. Mér þótti gaman að tala við þetta íhugula fólk sem skrifar fyrir tugi milljóna á samfélagsmiðlunum. Ég held, að við kveikjum ljós á leiðinum af því það er ævagömul hefð fyrir að lýsa vegfarendum. Fyrir tíð rafmagns setti fólk ljós í glugga til að ferðafólk gæti séð mannabústaði. Kristin kirkja hefur alla tíð talað um ljós Guðs, sem kemur í heiminn til að lýsa í myrkri. Við elskum fólkið okkar og viljum lýsa því á leiðinni inn í himinn Guðs. En svo eru ljósin á leiðunum líka áminning um að við erum á sömu leið og ástvinir okkar á undan okkur, pílagrímar í tíma, á leið um myrkar og ljósar lendur heimsins, á leið inn í himininn. Á jólum kveikjum við á mörgum kertum, hlöðum seríum í glugga, á ufsir og í tré. Og ljósadýrðin er mikil í og við húsin okkar hjér á norðurslóð. Það er ekki bara löngun til að tjá myrkrinu að við viljum ekki vera döpur, heldur tjáning um að við viljum að tilveran sé björt og upplýst en ekki drungaleg veröld. Með atferli okkar tjáum við hina dýpstu þrá, vonina um að til sé gott afl, guðleg veröld sem heimsljósið lýsir.

„Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. .. öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“

Nóg fyrir kirkjusvefn, kirkjuvöku, jól heima, allt árið. Ljós Guðs lýsi þér.

Hallgrímskirkja jóladagur 2018

Textaröð: B

Lexía: Jes 62.10-12
Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Jóh 1.1-14
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

[i]Texti sálmsins er eftir Sveinbjörn Egilsson og er texti hans frumsaminn fremur en þýðing. Matthías Jochumsson þýddi hins vegar texta Joseps Mohr: Hljóða nótt, heilaga nótt

 

Englar í stuði og sveitalykt Jesú

…að boð kom frá Ágústus keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina… Alla, hverja einustu stelpu og strák í heiminum – karla og konur, Kínverja, Rússa? Er hægt að muna eftir öllum?

Boð  frá … keisara. Það er blákaldur hljómur í þessum orðum. Járnbragð kemur í munninn og meiðslaverkur í putta. Ekki góður keisari, sem neyðir ófríska kona að fara að heiman, langa leið á asna og milli gistihúsa í myrkri?

María og Jósep fóru fóru út úr heimi keisarans, inn í bláleita veröld flakkandi stjörnu, undurveröld vitringa og engla í stuði, kærleiksríkra kinda og jórtrandi kúa. Það var örugglega sveitalykt af heimi Jesú. Þar er allt hægt, allt satt, allt gott.

Keisarinn þarf að skrifa til að muna, en þó er alltaf einhver útundan. Guð man eftir öllum. Hjá Guði er allt gott.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður. Já, það var það, sem þurfti að skrifa í heiminum. Ekki friður keisarans, heldur friðurinn sem skrifaður er í lífið.  Boð kom frá Guði handa strákum og stelpum heimsins að skrifa sína stafi.

(Fann þetta við tiltekt í tölvunni – samdi einhvern tíma á jólakort til vina – svo þetta er ofurlítil aðventuleiðsla).

 

Jólin á leið inn í breytingarskeið

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir tók viðtal við mig fyrir jólablað Fréttablaðsins. Það kom út 28. nóvember, 2017. Viðtalið er hér að neðan. Þórdís hafði fyrst og fremst áhuga á að ræða tengsl fjölmenningar og kristni og hvaða afleiðingar samfélagsbreytingar hefðu fyrir kristna hátíð jólanna. Það er stefið og mál viðtalsins.

Um hvað snúast jólin hjá nútímamanninum?

Almennur tilgangur undirbúnings og jólahalds fólks á Íslandi er að bæta líf, heimili og samfélag. Innkaupin, atið, tónleikarnir, hlaðborðin, gjafirnar og boðin eru til að gera lífið betra. Jólin eru tími hinnar opnu jákvæðni, vonar og vilja til að gott gerist. Hið sértæka er svo að trúin er opin fyrir að tími og eilífð kyssast.

Er ekki út úr korti að halda jól og tjalda öllu til fyrir háheilagt aðfangadagskvöld ef maður segist ekki trúa/trúir ekki á Guð og hans einkason, Jesú Krist?

Nei. Öllum er sameiginlegt að vilja hið góða fyrir sig, ástvini sína og samfélag. Jól hafa ytri ramma sem er almennur en síðan setur fólk inntak í þann ramma. Jólin geta verið hátíð allra á miðjum vetri hvort sem fólk trúir á Guð eða ekki. En trú og lífsskoðanir notum við svo til að leggja okkar eigin merkingu í viðburði og æviskeið. Við þörfnust gleðigjafa á mesta myrkurtímanum, óháð lífsskoðunum. Hvernig svo sem við skilgreinum líf og tilgang þess geta jólin hresst upp á lífsgleðina.

Sem kristin þjóð halda Íslendingar einkar svipmikil og hátíðleg jól, en hvað verður um blessuð jólin ef æ fleiri ganga af trúnni?

Ég hef ekki áhyggjur af jólunum. Hefðir eru slitsterkar og og það er frumþáttur mennskunnar að sækja í ljós og gleði. Fólk heldur áfram að halda hátíðir, en viðhorf breyta að einhverju leyti inntaki þeirra og réttlætingum. Jólin eru ekki á útleið heldur á leið inn í breytingaskeið. Fjölmenningin hefur áhrif á okkur en ætti ekki að eyðileggja gleðiefni þjóðarinnar, s.s. jólin. Það eru ótrúlega margar skoðanir í samfélagi okkar um hefðir og venjur, en við þurfum að koma okkur saman um lykilhátíðir. Jólin eru ein þeirra.

Jólin eru mörgum uppáhaldstími ársins og flestir hætta seint að finna til barnslegrar tilhlökkunar fyrir jólahaldinu. Missum við ekki mikilvægan hluta af ævigöngunni ef allt í einu yrðu engin jól, sem er einmitt sá brunnur kærra minninga sem flestallir sækja í með trega og söknuði?

Það verða væntanlega jól flestra áfram, tilhlökkun og upprifin stemming, hvernig svo sem þjóðfélag Íslendinga þróast. En kristnir menn, hindúar, múslimar, efasemdarmenn og fólk flestra lífsskoðana gætu sameinast um að á Íslandi séu jólin hátíð og í þágu flestra. Jólin gegna mikilvægu þjóðarsálarhlutverki. Það er því að illa gert að ráðast á jólahald. En það er hins vegar þarft að gagnrýna allt sem er óhóflegt og falskt. Jólin eiga ekki að vera yfirborðsleg heldur gleðileg.  

Kristnir menn fá fjölmarga frídaga út á kristna trú, bæði á stórhátíðum kirkjunnar og sennilega mætti telja helgidaginn sunnudag með, 52 sunnudaga á ári. Er réttlætanlegt að veita frí frá vinnu út á Jesú Krist ef maður þvertekur fyrir tilvist Guðs og það að vera kristinnar trúar?

Hvíldardagurinn varð til fyrir þúsundum ára af því fólk þarfnast hvíldar. Og var réttlætur með gilda- og trúartengingum. Vinnutími er þó í samtíð okkar samningamál aðila vinnumarkaðarins og hátíðir  kristninnar eru enn mikilvægar í þeim samningum. Trú og þar með kirkjan leggja áherslu á gott mannlíf og umhyggju gagnvart fólki, hafna þrældómi og hvetja samfélag og einstaklinga til að nota frí til lífsbóta. Breyttar þarfir mismunandi lífsskoðana þarf að ræða. Kristnir menn vilja halda í sínar hátíðir, en það er hins vegar ekki sjálfgefð að þær séu þríheilagar.

Jól tróna hæst í einlægum hjörtum barnanna, en hvað segjum við börnunum um ástæður þess að við skreytum, þrífum, bökum, gefum jólagjafir og höldum hátíð, ef ekki er fyrir fæðingu Jesúbarnsins?

Það á alltaf að segja börnum satt. Þau sem aðhyllast kristni minna á fæðingu Jesúbarnsins og skýra út merkingu þess að Guð elskar náttúruna og þar með mennina. Þau sem eru guðlaus segja börnum frá sinni lífsskoðun en geta samt haldið friðarhátíð. Öll ættum við að skýra út fyrir börnum okkar að fólk hefur mismunandi skoðanir og að við þurfum að rækta með okkur virðingu fyrir mismunandi siðum.

Er hræsni að halda jól ef maður er ekki kristinnar trúar?

Nei, það er hægt að halda jól á mismunandi forsendum. Allt fólk þarfnast hátíða um mikilvægustu gildi lífsins. Og jólin eru það fangvíð að þau geta faðmað eða spannað það sem flestir vilja og þarfnast.

Hvaða skilaboð senda þeir út í samfélagið sem setja jólaljós í glugga og skreyta allt hátt og lágt á aðventunni og um jól, ef þeir segja Guð ekki vera til?

Skilaboðin til forna voru að ljós hjálpaði fólki að rata til byggða. Í nútímanum eru ljósin tjáning um að við menn erum eitt þó við séum ekki eins. Okkar hlutverk er að bera ljós og frið á milli. Og kristinn maður trúir að Guð sé sama sinnis.

Fæddist Jesúbarnið á jólum, er frásagan örugglega sönn?

Jól eru haldin á mismunandi tíma í mismunandi heimshlutum. Orþódoksa kirkjan, í gríska og rússneska heiminum, heldur t.d. jól síðar en við í okkar heimshluta. Enginn veit nákvæmlega hvenær Jesús fæddist og ég efast um að hann hafi fæðst aðfaranótt 24. desember árið 0. Fæðingartíminn skipti raunar litlu máli meðal fólks í fornöld. Hátíðartími miðvetrarins var notaður til að minnast fæðingar ljóssveins himinsins. Þegar tíma fer að lengja er góður tími til að gleðjast og táknmálið virkar.

Hvers vegna eigum við að varðveita og halda jól um aldur og ævi?

Meðan við þráum gott líf virka jólin sem vonarhátíð, að dauðinn deyji og lífið lifi. Ég á afmæli á Þorláksmessu og það er gaman að fagna hverju árinu sem líður – og fagna svo jólunum og opna fyrir að allur heimur er gefinn ljósinu en ekki myrkrinu. Ég trúi ekki að veröldin sé í tröllahöndum heldur góðum höndum Guðs og að framtíðin sé raunverulega opin.

Viðtal við Þórdísi Lilju Gunnarsdóttir. Fréttablaðið – jólablað 28. nóvember, 2017.