Greinasafn fyrir merki: samastað syninum hjá

Samastað syninum hjá

Gleðileg jól. Hvað veitir gleði og hvað kallar fram mesta hamingju? Hvernig tengjust við fólki, lífi og sjálfum okkur? Hvernig lifum við?

Fyrr í þessum mánuði lést maður, sem ég þekkti. Hann stóð alla tíð lífisins megin, þjónaði fólki og veitti þúsundum heilsubót. Hann varð fyrir áföllum í lífinu en bugaðist ekki heldur þroskaðist í eldi lífsreynslunnar. Hann var vitur maður og mat gæði lífsins mikils. Meðal annars hafði hann áhuga á tónlist og fólkið hans söng. Svo brast heilsa hans og fyrr á árinu var ljóst að komið væri að lífslokum. Undir það síðasta gat hann ekki lengur talað. Síðustu vikurnar komu börn og ástvinirnir til hans og sungu fyrir hann og umvöfðu hann elsku. Lífi hans lauk nú á aðventunni. Síðustu dagana sungu þau fyrir hann aðventu- og jólasálma. Vonarstef aðventusálmanna hljómuðu. Gleðiefni jólasálmanna liðuðust að grunnri öndun hins deyjandi manns. Svo var komið að Heims um ból, erkisálmi íslenskra jóla. Og dóttir hans söng jólasálminn fyrir föður sinn. Í síðasta versinu lést maðurinn og fór inn í himininn.

Um hvað fjallar síðasta erindið í Heims um ból? Það er um englasönginn frá himnum. Og líka um frið á jörðu því Guð umvefur þau, sem eiga sér samastað hjá syninum – eru vinir Guðs, vinir Jesú Krists. Þegar dóttirin söng „samstað syninum hjá“ fór faðir hennar inn í himininn. Tíminn endaði og eilífðin byrjaði. Barnið, sem fæðist á jólum, kom til hins deyjandi manns. Þeirra samastaður var hinn sami.

Sálmar jóla

Sálmurinn Heims um ból er jólasálmur. Guðspjallssagan í Biblíunni er jólasálmur líka. Allir jólatextarnir eru ljóðrænar tjáningar um hið mesta og besta, sem hægt er að tjá. Eru þessir textar blekkingasögur og ótendar við lífið, glimmersögur sem sem eru fyrir börn og hrifgjarnt fólk? Nei. Þessir textar eru um það sanna og mikilvæga. Jólasagan er vissulega litrík. En það er engin ástæða til að taka skynsemi úr sambandi til að njóta hennar og virða. Jólaboðskapurinn er ekki fyrst og fremst um meyjarfæðingu, um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Þetta eru atriði varðandi umgjörð fremur en inntak. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar – þarf að kafa í merkingu, meiningu, en staldra ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt.

Skilja helgisögu

Hvernig eigum við að nálgast og túlka helgisögur? Fólk fortíðar gerði sér vel grein fyrir staðreyndum og túlkun. Ytri veruleiki væri eitt en síðan mætti sjá mynstur, dýpri sannindi, viðmið og siðgildi menningar og einstklinga. Þau kunnu að greina að meginmál og aukaatriði. Þau skildu flest hvenær saga var krydduð og hvernig flokka ætti í viðburðasögur, viskusögur, kennslusögur, skemmtisögur eða siðkennsludæmi. Saga er meira en samsuða nokkra atriða um hvar, hvenær, hvernig og af hverju. Við þörfnumst meira en bara staðreynda til að líf okkar öðlist gildi og við njótum þess. Ást okkar á fólki verður hvorki vakin né kæfð vegna staðreynda einna. Lífið er meira en efnisveruleikinn.

Þegar við lesum klassík, hvort sem er Biblíuna eða rit fornaldar, er vert að muna að lengi voru sögur og viðburðir marglaga og oft fjórþrepa. Það var túlkunarháttur, sem vestræn kristni tók í arf úr v-asísku og grísku samhengi. Hið fyrsta var, að nálgast viðburði í ljósi staðreynda, rétt eins og góðir fræðimenn og fjölmiðlafólk gera. Önnur túlkunarvídd var spávíddin sbr. allir textarnir í gamla testamentinu sem sögðu fyrir um uppfyllingu í Jesú Kristi – nú eða rannsóknir náttúruvísindamanna um mengun, sem hafa forspárgildi varðandi þróun veðurfars og þróun lífs á plánetu okkar. Þriðja merkingarlagið varðaði siðvit og andlega visku. Rétt eins og við verðum fyrir áhrifum frá þroskuðu fólki getum við gert annað fólk fortíðar að viðmiðum okkar á lífsgöngunni og hvernig við getum orðið ábyrgari í athöfnum og samskiptum við aðra og náttúruna. Svo er síðasta víddin og varðar framtíð, hinstu tíma og eilífðina. Samstaðurinn í eilífðinni hefur áhrif á hvernig við lifum í þessu lífi.

Staðreyndir þurfa samhengi. Öll þörfnumst við næringar líkama, en líka andlegt fóður og gjöfula menningu og réttlátt samfélag. Við erum ekki einvíddar heldur fjölvídda. Merking er alls konar, söguleg og staðreyndir en líka andleg, siðferðileg, samfélagsleg, tilfinningaleg og trúarleg.

Jólasagan er helgisaga. Og slíkar sögur eru flétta stefja, ímynda og minna, sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum reyna að skræla burt það, sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Forðum voru kraftaverk talin skýr tákn um Guðsnánd, en eru það ekki lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu þar með ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur. Svo var þjóðmenning og túlkunarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna til að hægt væri að gera skiljanlega dulkóðun merkjakerfisins, hvernig átti að segja hlutina til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin, sem stýrði skilningi.

Mál hjartans og lífsviskan

Í spekibókinni Litla Prinsinum segir refurinn við drenginn þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.”

Við ættum ekki að láta hið yfirborðslega í jólasögunni rugla okkur og ekki taka söguna bókstaflega. En hvernig eigum við þá að skilja hana alvarlega? Þegar allt er skoðað og líka með hjartanu er boðskapurinn að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins skriflega, bréflega eða með fréttatilkynningu í helgri bók. Guð sendir ekki fyrirskipanir og skoðanabombur eins og gamaldags einvaldur, heldur kemur – í eigin persónu. Þegar við játumst veruleika þess, að Guð er og elskar, verður nýr samastaður okkar til. Við verum börn tíma en líka eilífðar, að við megum lifa hamingjuna í samskiptum við fólk og náttúru og líka lifa í opnum tengslum við himininn.

Hvert barn – hver lifandi mannvera – getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum, heldur lifuð á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu, heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og lifa guðssambandið – og tjá hvernig Guð er: Guð elskar ákaft og ævinlega. Í trú  lærir þú að skynja, að alltaf er Guð að tala – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, þegar þú faðamar ástvini þína. Alltaf eru skilaboðin þau sömu, tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Samastaðurinn

Þegar við syngjum jólasálmana syngjum við um ást himinsins á heiminum. Og þegar Heims um ból er sungið kyssir himinn heim. Og því er undurfagurt þegar lífi lýkur í ómfangi sálmsins – að eiga heima, hvílustað hjá Guði. Það er margvídda mál að fara úr tíma og inn í líf himins, fara úr fangi ástvina inn í Guðsfangið. Þú ert elskuð og elskaður, þú mátt njóta þess að lifa, njóta þess sem þér er gefið, horfa í augu fólksins þíns og sjá í þeim undur lífsins. Samastað syninum hjá. Gott líf í heimi og gott líf í veröld Guðs. Orðið varð hold og bjó með oss. Jól þessa heims og annars. Guð gefi þér gleðileg jól.

Íhugun Hallgrímskirkju jóladag 2019.

Meðfylgjandi mynd er eftir Karolínu Lárusdóttur og ég hef aðeins enskt heiti hennar: Wondrous Happenings.