Á þessum degi, 14. október árið 1962, var haldin fyrsta guðsþjónustan í kirkjuskipi Hallgrímskirkju. Til þess tíma var messað í kór kirkjunnar. Á árinu 1962 hafði verið lokið að steypa upp veggi kirkjuskipsins til hálfs og undirstöður súlna í kirkjuskipinu. Þá hafði undirgólf kirkunnar verið steypt. Ákveðið var að marka þessi tímamót og lofsyngja Guði í framtíðarhelgirými Hallgrímskirkju þó ekkert væri þakið og svæðið væri ófrágengið byggingarsvæði.
Á messudeginum rigndi ákaflega og söfnuðurinn, um eitt hundrað manns, leitaði skjóls undir vinnupöllum sem stóðu við útveggina. Jakob Jónsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, messaði. Hann stóð í miðju kirkjuskipinu, þar sem kórtröppurnar eru nú, og naut blessunardagga himins.
Þar sem búið var að steypa upp megnið af veggjum kirkjuskipsins hófst undirbúningur að byggingu turns kirkjunnar. Að turnbyggingunni var unnið á næstu árum. Lokið var að steypa í topp í árslok 1968.
Það var meðvituð ákvörðun byggingar- og sóknarnefndar í hvaða röð hlutar stórkirkjunnar voru byggðir. Ef kirkjuskipið hefði verið fullklárað á sjöunda áratugnum hefði turnginn líklega aldrei orðið til og kirkjan hefði ekki orðið sú perla sem tíminn hefur slípað. Forsjálnin bar árangur.
Suðursalurinn í turnvængnum var vígður til helgihalds á 300 ára ártíð Hallgríms Péturssonar. Vígsludagurinn var 27. október árið 1974. Í tengslum við vígslu salarins og fyrir vígsluathöfnina var hornsteinn lagður að kirkjunni. Á skjalinu í hornsteininum segir m.a. „Drottni til dýrðar er kirkja þessi reist í minningu Hallgríms Péturssonar.“
Nú höldum við bráðum hátíð vegna 30 ára vígsluafmælis kirkjunnar. Kirkjan var vígð 26. Október 1986. Í ár eru því 30 ár liðin frá vígslu hennar. Hátíðamessan verður 30. október næskomandi. Við bjóðum öllum þeim sem unna starfi kirkjunnar að koma til messu og fagna með okkur.