Greinasafn fyrir merki: Ekki gleyma mér

Rannsókn á lygi – og ást

Hvað gerist þegar fals mótar sál og samfélag? Hvernig verpist veruleikinn þegar lygin tekur yfir? Hvernig farnast fólki þegar það er kramið af kerfisvaldi sem aðeins leyfir eina túlkun og eina skipan veraldar – en ekki fjölbreytileika?

Ekki gleyma mér er minningabók Kristínar Jóhannsdóttur sem fjallar um þessi stóru stef. Í bókinni rifjar hún upp námstíma sinn í klofnu Þýskalandi, í Freiburg, Leipzig og Berlín. Námstími erlendis er jafnan umbrotatími í lífi fólks og var í lífi Kristínar mjög dramatískur. Hún segir frá námsgreinum sem hún stundaði. Samanburður á menntunaráherslum báðum megin járntjalds er athyglisverður. Kristín teiknar upp pólitík og með sérlega athyglisverðum hætti samfélagsgerð hins kommúníska þjóðfélags. Svo læðist ástin og tengslin við fólk á milli lína og litar allar blaðsíður Ekki gleyma mér. Þrá, miklar tilfinningar, snerting, unaður, eftirsjá, sorg koma við sögu.  

Það sem snart mig m.a. í bók Kristínar er líf í lygi. Ekki lygi einstaklingsins heldur samfélagi lyganna sem síðan gerir fólk falskt. Samfélagið í Stasi-landinu austan járntjalds var hræðilegt kúgunarsamfélag. Fólkið var alls konar en samfélagsgerðin var á kostnað lífsgæða og lífshamingju. Allir sem bjuggu austan tjalds voru hugsanlega njósnarar. Tortryggnin læddist því um. Ástin var full af grun um svik. Óttinn við fals var alltaf með í för og alls staðar. Lífið var hamið í samfélagi lyganna. Lygasamfélag varð harmafélag og tilfinningalegt sóunarfélag. Samfélagsgerðin bjó til sorgbitið fólk. Barnið dó en hefði mátt lifa. Líf hefði geta orðið hamingjuríkt en grunsamfélag lyginnar hindraði. Bók Kristínar Jóhannsdóttur Ekki gleyma mér er heillandi og vel skrifuð minningabók sem opnar margar gáttir. Opinská úrvinnsla höfundar er trúverðug. 

Við reynum öll að vinna úr aðstæðum, tengslum, tilfinningum og stöðu í samfélagi. Við veljum og stundum úr óljósum kostum í flóknum aðstæðum. En líf í lygi er líf í álögum og leiðir til óhamingju og áfalla. Stasilandið var vont samfélag fólks og það féll. Ekkert samfélag er fullkomið en okkar er skyldan að beita okkur fyrir að þjóðfélag og samfélagsgerð þjóni sem flestum og tryggi möguleika fólks til að elska, tengjast, vinna, menntast og nýta hæfni og gáfur sem best. Samfélag er félag um það sem við eigum saman; gildi, mennsku, menningu, frelsi og ábyrgð. Stasilandið féll en skammsýnir villumenn reyna gjarnan að búa til eigin hömlulönd, hvort sem það er Pútínland, Trumpland, XI-land, ofbeldisfjölskylda á Akureyri eða meðvirknisfjölskylda í Hlíðunum. Ástin fæddist í Stasilandi en veslaðist upp og dó. Ástin lifnar alls staðar þar sem fólk er og á að fá að dafna, nærast og lifa.

Kristín Jóhannsdóttir: Takk fyrir heiðarleikann og þar með merkilega bók sem vekur marga þanka um dásemdir lífsins.

Meðfylgjandi mynd er af forsíðu bókarinnar. 

Ég talaði um Stasilandið í prédikun fyrir nokkrum árum og hægt að nálgast ræðuna að baki þessari smellu.