Pabbinn hágrét

Þau eru bæði kínversk en völdu að ganga í hjónaband í hliði himins á Skólavörðuholti. Þau sögðu sín já af lífs og sálar kröftum. Pabbi brúðarinnar hágrét og táraflóðið var svo mikið að ég íhugaði að gera hlé á athöfninni. En hann harkaði af sér og við töluðum svo saman eftir athöfnina. Þá kjarnaðist kínversk saga seinni hluta tuttugustu aldar og þessarar líka. Brúðurin glæsilega var eina barn þeirra hjóna, þau fengu ekki að eiga fleiri. Þar var ein af táralindum pabbans. Nú var hún að játast sínum elskulega manni. Þungi sögunnar og lífstilfinninganna féllu á hinn grátandi sem elskaði dóttur sína og óskaði henni svo sannarlega að verða hamingjusöm með manni sínum. En nú var hún farin, tíminn breyttur og ekkert annað barn heima. Skilin urðu, fortíðin var búin, æskutíminn, dótturtíminn, ástartíminn. Mér komu ekki á óvart tilfinningar hjónanna nýblessuðu en hinar miklu tilfinningar föðurins urðu sem gluggi að Kínavíddunum. Voru fleiri ástæður táranna og ástarinnar? Spurningarnar þyrluðust upp. Höfðu jafnvel fleiri börn fæðst en tapast foreldrunum? Í tárum pabbans speglaðist ekki aðeins harmur hans heldur tuga og jafnvel hundruða milljóna sem fengu ekki að ráða ráðum sínum eða fjölskyldumálum vegna yfirgangs skammsýnna stjórnvalda (og auðvitað velmeinandi). Við mannfólkið elskum og missum – með mismunandi móti – og mikið er mannlífið stórkostlegt á dögum tára en líka hláturs.