Osso Buco – hamingjusprengja fyrir nautnaseggi

Osso Buco er einn af ofurrétt­um Norður-Ítal­íu sem einfalt og gaman er að elda. Ítal­ir not­ar gjarn­an kálfaskanka í réttinn og nautaskank­ar nýtast því líka. Ég steiki oftast kjötið á pönnu og færi svo yfir í stóran ofnþolinn pott. Síðan steiki ég grænmetið, bæti svo við tómataviðbótinni, krydda og sýð, set svo þar á eftir soð og vín og helli síðan öllu dýrðarhráefninu yfir kjötið í pottinum. Ef ég hef byrjað eldamennskuna snemma set ég pottinn í ofn á lágum hita, t.d. 100°C. Annars er ofninn settur á 180°C eða 200°C ef fyrirhyggjan eða tíminn leyfir ekki hægeldamennsku. Ef enginn er pottjárnspottur á heimilinu er auðvitað hægt að nota ofnþolið fat með loki – nú eða sjóða allt á eldavél og hafa auga á potti og framvindunni og tryggja að nægur vökvi sé í fati eða potti.

Meðlæti getur verið bygg, pasta, risotto, hrísgrjón, kartöflusmælki – nú eða bara kartöflumús! Rétturinn verður heldur eintóna hvað liti varðar og því skemmtilegt að skreyta svolítið með rósmarín eða steinselju. Basilíka og kóríander gefa líka skemmtilegt fráviksbragð sem mörgum þykir eftirsóknarvert.

Fyr­ir 6-8

  • 6-8 sneiðar af Osso Buco-kjöti
  • 2- 3 stk. skalot­lauk­ar, saxaðir (aðrar laukgerðir duga ágætlega)
  • 3 sell­e­rístönglar skornir í ten­inga
  • 3 gul­ræt­ur, skornar í ten­inga eða þverskornar
  • 2 hvít­laukar (heilir en ekki lauf) saxaðir
  • 1 msk tímí­ankrydd
  • 1 msk rós­marínkrydd 
  • 3 lár­viðarlauf
  • 1 lúka söxuð steinselja eða 1 msk steinseljukrydd
  • 1 dós heil­ir eða grófsaxaðir tóm­at­ar
  • 1 dós saxaðir tóm­at­ar
  • 6 dl kjúk­linga­soð
  • 2 dl hvít­vín
  • ólífu­olía eft­ir smekk fyr­ir steik­ingu
  • salt og pip­ar skv. smekk 

Aðferð:

  1. Hitið 1-2 mat­skeiðar af ólífu­olíu á pönnu og steikið kjötsneiðarn­ar 3 mín­út­ur á hvorri hlið. Saltið, kryddið og piprið eft­ir smekk.
  2. Takið kjötið upp úr og setjið í pottinn og geymið meðan græn­metið er steikt og sós­an gerð.
  3. Steikið skalottu­lauk, sell­e­rí, gul­ræt­ur og hvít­lauk í um það bil 5 mín­út­ur í pott­in­um.
  4. Bætið síðan við tómöt­un­um og sjóðið í 3 mín­út­ur. Hrærið reglu­lega.
  5. Bætið við hvít­víni, kjúk­linga­soðinu, kryddjurt­un­um, stein­selj­unni og loks kjötsneiðunum.
  6. Setjið í ofninn í amk tvær klst. (ef ekki er sett í ofn er soðið við vægan hita í tvær klukku­stund­ir. Með lægri hita má hægelda.
  7. Vert er að snúa kjöt­bit­un­um við í suðu/steikar-ílátinu einu sinni til tvisvar á þess­um tíma og bæta við kjúk­linga­soði eft­ir þörf­um.
  8. Soðið á að þekja kjötið að amk þrem­ur fjórðu all­an tím­ann og um­lykja græn­metið.

Spilið endilega ítalska músík í undirbúningi og þegar sest verður að borði. Þakkarbæn fyrir hamingjusprengjuna, mat og líf má gjarnan stíga upp með kryddilmi og tónlist: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen – og Guði sé lof fyrir Osso Buco.

Á vefnum er fjöldi myndbanda um hvernig hamingjusprengjan Osso Buco er elduð og þar eru ýmsar skemmtilegar útgáfur af hráefnalistanum líka.